Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 10. janúar 2000. |
|
Nr. 502/1999. |
Jón Brynjólfsson og Magnús B. Brynjólfsson (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) gegn Ágústi Sigurðssyni Ásgerði Pálsdóttur (Othar Örn Petersen hrl.) Glaumbæ ehf. Brynjólfi Friðrikssyni Óskari E. Ólafssyni (Stefán Geir Þórisson hrl.) Gróu M. Lárusdóttur (Ingi Tryggvason hdl.) Framleiðsluráði landbúnaðarins og íslenska ríkinu (Guðrún M. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Frávísunarúrskurður
staðfestur.
ÁS og ÁP seldu
fullvirðisrétt til mjólkurframleiðslu frá jörðinni G. J og M áttu hlutdeild í
jörðinni. Þeir stefndu ÁS og ÁP ásamt kaupendum fullvirðisréttarins,
framleiðsluráði landbúnaðarins og ríkinu til að þola ógildingu samninga um
söluna. Úrskurður héraðsdóms um að vísa ógildingarkröfunni frá dómi var staðfestur
vegna þess að á skorti að allir eigendur jarðarinnar G væru aðilar að málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson
og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 1999, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Norðurlands vestra 3. desember 1999, þar sem vísað var frá dómi
aðalkröfu sóknaraðila um ógildingu á samningum um sölu á greiðslumarki mjólkur
frá lögbýlinu Geitaskarði í Engihlíðarhreppi og varakröfu um greiðslu skaðabóta
úr hendi íslenska ríkisins, en ákveðið að varakrafa þeirra um skaðabætur úr
hendi varnaraðilanna Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Ágústs Sigurðssonar og
Ásgerðar Pálsdóttur sætti efnismeðferð. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða
úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka aðalkröfu þeirra til
efnismeðferðar. Þá er krafist málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins í héraði
auk kærumálskostnaðar, en til vara að kostnaður verði felldur niður.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og
sóknaraðilum gert að greiða sér kærumálskostnað.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði eiga sóknaraðilar minnihluta í
útskiptum hluta Geitaskarðs, nyrst á jörðinni, í óskiptri sameign með fjórum
bræðrum sínum, en auk þess lítinn hluta í mannvirkjum á jörðinni með nefndum
bræðrum sínum og varnaraðilunum Ágústi Sigurðssyni. Aðalkrafa þeirra lýtur að
ógildingu á ráðstöfun réttinda, sem þeir telja sig eiga á grundvelli þessa
eignarhluta síns. Bræður sóknaraðila eru ekki aðilar að máli þessu. Ljóst er að
aðalkrafa sóknaraðila um ógildingu samninganna í heild varðar ekki síður
hagsmuni bræðra þeirra en hagsmuni þeirra sjálfra. Verður því samkvæmt 2.
málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um
að vísa kröfu þessari frá dómi. Sóknaraðilar hafa ekki gert kröfu um að hnekkt
verði þeirri ákvörðun héraðsdóms að vísa frá dómi kröfu þeirra um fjárgreiðslu
úr ríkissjóði og kemur hún því ekki til endurskoðunar.
Það athugast að í úrskurðarorði héraðsdóms kemur ekki greinilega fram að
varakröfu sóknaraðila á hendur landbúnaðar- og fjármálaráðherra f.h. ríkisins
er vísað frá dómi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Jón Brynjólfsson og Magnús B. Brynjólfsson, greiði óskipt
hverjum varnaraðila, Ágústi Sigurðssyni, Ásgerði Pálsdóttur, Glaumbæ ehf.,
Brynjólfi Friðrikssyni, Gróu M. Lárusdóttur, Óskari E. Ólafssyni,
Framleiðsluráði landbúnaðarins og íslenska ríkinu, 15.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms
Norðurlands vestra 3. desember 1999.
I.
Mál
þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 5. nóvember
sl. um framkomna frávísunarkröfu allra stefndu utan Framleiðsluráðs
landbúnaðarins, er höfðað af Magnúsi Birni Brynjólfssyni, kt. 010853-3469,
Aflagranda 31, Reykjavík og Jóni
Brynjólfssyni kt. 201049-7849, Víðihlíð 6, Sauðárkróki með stefnu útgefinni 15.
febrúar sl. en þingfestri 3. mars sl., á hendur Ágústi Sigurðssyni, kt.
050545-2969, Ásgerði Pálsdóttur kt. 030246-7999, báðum til heimilis að
Geitaskarði, Engihlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu, Glaumbæ ehf., kt. 510895-2159,
Skriðulandi Engihlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu, Gróu Margréti Lárusdóttur kt.
051258-4389, Brúsastöðum, Áshreppi, A-Húnavatnssýslu, Óskari E. Ólafssyni kt.
251059-3739, Steiná, Bólstaðahlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu, Framleiðsluráði
landbúnaðarins kt. 560169-0439, Bændahöllinni við Hagatorg, Reykjavík, landbúnaðarráðuneytinu,
kt. 710169-0559, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík og fjármálaráðuneytinu kt.
550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík.
Með
sakaukastefnu þingfestri 7. apríl sl. höfðuðu stefnendur mál á hendur fjórum
sameigendum sínum að fjórðungi lögbýlisins Geitaskarðs í Engihlíðarhreppi. Með stefnunni freistuðu þeir þess að koma
sameigendum sínum inn í mál þetta þ.a. þeir yrðu án vafa bundnir af niðurstöðu
dómsins. Með úrskurði uppkveðnum 25.
maí sl. var málinu vísað frá héraðsdómi og staðfesti Hæstaréttar Íslands þá
niðurstöðu með dómi sínum þann 24. ágúst sl.
Endanlegar
dómkröfur stefnenda.
Stefnendur
krefjast þess aðallega að samningar um sölu greiðslumarks mjólkur, að
heildarmagni 54.061 lítrar á ársgrundvelli, frá lögbýlinu Geitaskarði,
Engihlíðarhreppi verði dæmdir ógildir.
Til
vara krefjast stefnendur skaðabóta að fjárhæð 698.008 krónur eða hæstu bóta að
mati réttarins in solidum úr hendi stefndu, Ágústs Sigurðssonar, Ásgerðar
Pálsdóttur, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og landbúnaðar- og fjármálaráðherrum. Þá er gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta af
250.264 krónum frá 21. apríl 1997 til 4. september 1997 en af 698.008 krónum
frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum
tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt gjaldskrá Magnúsar
B. Brynjólfssonar, hdl. eða að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti skv.
lögum nr. 50/1988.
Undir
rekstri málsins féllu stefnendur frá kröfu sinni um að nefndum sölusamningum
verði rift.
Dómkröfur
stefndu.
Stefndu
Ágúst Sigurðsson og Ásgerður Pálsdóttir krefjast aðallega frávísunar málsins og
að þau verði sýknuð af varakröfu stefnenda.
Til vara að fjárkröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og
málskostnaður verði felldur niður.
Verði ekki fallist á kröfu þeirra um frávísun málsins þá krefjast þau
sýknu af öllum kröfum stefnenda. Í
öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda skv.
málskostnaðarreikningi og þá verði tekið tillit til skyldu stefndu til að
greiða virðisaukaskatt á máflutningsþóknun.
Stefndu
Glaumbær ehf., Brynjólfur Friðriksson og Óskar E. Ólafsson krefjast þess
aðallega að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda. Til þrautavara að nái ógildingarkrafa stefnenda fram að ganga nái
hún einungis til 8,33% af þeim fullvirðisrétti sem stefnendur keyptu. Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar
að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnenda in solidum að mati dómsins eða
samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefnda
Gróa Margrét Lárusdóttir (ranglega sögð Gróa María í greinargerð) krefst þess
aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda. Til þrautavara er þess krafist, nái riftunarkrafa stefnenda fram
að ganga, að hún taki aðeins til 8,33% af 10.383 lítra fullvirðisrétti í mjólk,
sem stefnda keypti. Jafnframt er þess
krafist að stefnendur verði, in solidum, dæmdir til að greiða stefndu
málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndu
landbúnaðar- og fjármálaráðherrar, krefjast þess aðallega að málinu verði vísað
frá dómi. Til vara sýknu af öllum
kröfum stefnenda. Í þessum tilvikum er
krafist málskostnaðar, in solidum, úr hendi stefnenda að mati dómsins. Til þrautavara er krafist stórkostlegrar
lækkunar krafna stefnenda og að í því tilfelli verði málskostnaður felldur
niður.
Stefnda
Framleiðsluráð landbúnaðarins krefst aðallega sýknu af öllum kröfum
stefnenda. Til vara að kröfur stefnenda
verði lækkaðar verulega. Í báðum
tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda.
II.
Málavextir:
Á
árinu 1975 hófu stefndu Ágúst og Ásgerður búskap á jörðinni Geitaskarði í
Engihlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu en þá afsalaði Sigurður Brynjólfsson faðir
stefnda Ágústs honum helming af eignarhluta sínum í jörðinni. Þá átti stefndi Ágúst 3/8 hluta jarðarinnar
eins og faðir hans Sigurður en faðir stefnenda, Brynjólfur Þorbjarnarson 2/8
hluta. Á árinu 1982 eignaðist stefndi
Ágúst hlut föður síns í jörðinni. Á
þessu sama ári afsalaði Brynjólfur Sigurðsson sínum eignarhluta til sex sona
sinna sem þeir eiga nú í óskiptri sameign, 4,1667% hver.
Með land- og
eignaskiptasamningi gerðum 18. desember 1982 var jörðinni skipt þannig að
afmarkaður hluti nyrst á jörðinni skyldi vera eign Brynjólfs
Þorbjarnarsonar. Í samningnum er að
finna lýsingu á því hvernig fjórðungur Brynjólfs skuli afmarkast. Þá var ákvæði þess efnis að eigendur skyldu
setja upp gripahelda girðingu á merkjum og að mannvirki á jörðinni skyldu vera
í sameiginlegri eign í hlutfalli við eignarhlut í jörðinni. Einnig er í samningi þessum kveðið á um
notkun á íbúðarhúsi og hvernig skuli fara með kostnað vegna viðhalds á
mannvirkjum.
Fyrir liggur að
stefnendur eða bræður þeirra hafa ekki stundað landbúnað á jörðinni. Stefndu Ágúst og Ásgerður hafa hins vegar
stundað þar búskap.
Á árinu 1997 tóku stefndu
Ágúst og Ásgerður þá ákvörðun að hætta framleiðslu á mjólk og í framhaldi af
því seldu þau greiðslumark til mjólkurframleiðslu alls 19.383 lítra vegna
verðlagsársins 1996/1997 og 34.678 lítra vegna verðlagsársins 1997/1998. Nánar sundurliðað skiptist salan
þannig: Stefndi Óskar E. Ólafsson
keypti 6.000 lítra. Stefndi Brynjólfur
keypti samtals 18.000 lítra fyrst 3.000 lítra og síðar 15.000 lítra. Stefnda Gróa M. Lárusdóttir 10.383
lítra. Loks voru seldir 19.678 lítrar
til stefnda Glaumbæjar ehf. Samtals var
söluandvirði þessara samninga 8.467.370 krónur.
Stefnendur segjast hafa
frétt af sölu greiðslumarksins í júní 1997.
Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi þá verið búið að samþykkja sölu á
19.383 lítrum til stefndu Brynjólfs, Gróu og Óskars. Hins vegar hafi Framleiðsluráðið ekki verið búið að samþykkja
sölu á tveimur samningum til stefndu Brynjólfs annars vegar og Glaumbæjar ehf.
hins vegar samtals 34.678 lítrar.
Stefnandi Magnús kveðst hafa skorað á seljendur og kaupendur og
Framleiðsluráðið að farið yrði að lögum og gerðir samningar afturkallaðir og
þeir sem enn voru ósamþykktir gengju ekki eftir. Framleiðsluráð landbúnaðarins samþykkti, þrátt fyrir mótmæli,
síðari tvo samningana og kærðu stefnendur þá ákvörðun til úrskurðarnefndar greiðslumarks
skv. lögum nr. 99/1993. Nefndin
úrskurðaði hins vegar að salan skyldi halda gildi sínu.
Með bréfi dagsettu 13.
nóvember 1998 óskuðu stefndu Ágúst og Ásgerður eftir því við
landbúnaðarráðuneytið að þeim yrði heimilað að leysa til sín eignarhluta
stefnenda og bræðra þeirra. Það mál er
enn til meðferðar hjá ráðuneytinu.
III.
Málsástæður
og lagarök stefnenda.
Stefnendur
byggja kröfur sína á því, að þeir séu þinglýstir eigendur að lögbýlinu
Geitaskarði, þar sem þeir eigi hvor um sig 4,1667% í öllum mannvirkjum sem þar
eru svo og í óræktuðu landi og laxveiðiréttindum.
Stefnendur
segja að með sama hætti og ábúandi jarðarinnar, stefndi Ágúst fékk samþykki
allra sameigenda sinna fyrir veðlánum á lögbýlið á hverjum tíma, hafi honum
einnig skilyrðislaust, samkvæmt 46. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu og
verðlagningu og sölu á búvörum og 2. gr. reglugerðar nr. 363/1996, borið að fá
samþykki allra þinglýstra eigenda fyrir sölu á greiðslumarki
mjólkurframleiðslu. Stefnendur halda
því fram að greiðslumarkið sé bundið við lögbýlið og þar með eigi eigendur
jarðarinnar það en ekki ábúandi skv. 46. gr. nefndra laga nr. 99/1993.
Stefnendur
byggja á því að heimildin til að framleiða mjólk á umræddu lögbýli hafi fylgt
jörðinni frá ómunatíð og þau hlunnindi hafi gengið milli kynslóða í áranna
rás. Nú sé hins vegar svo komið að
bannað sé að framleiða mjólk á lögbýlum eftir að mjólkurkvótinn hefur verið
seldur þaðan. Með því að heimila sölu
mjólkurkvótans frá Geitaskarði rýrni verðgildi jarðarinnar sem því nemur og þar
með verðmæti eignarhluta stefnenda.
Mjólkurkvótann sé auðvelt að meta til fjár því hann hafi verið seldur
fyrir 8.379.455 krónur. Stefnendur
byggja ennfremur á því, að stefndi Ágúst hafi með ólögmætum hætti selt
mjólkurkvótann og þar með rýrt eignarhluta þeirra.
Stefnendur
kveða stefnda Framleiðsluráð landbúnaðarins hafa komið að málinu með þeim hætti
að samningar um sölu greiðslumarks áttu ekki að taka gildi fyrr en við samþykki
þess. Með samþykki sínu á sölunni hafi
ráðið með beinum hætti skaðað stefnendur en það ásamt landbúnaðar- og
fjármálaráðuneytum beri fjárhagslega ábyrgð á framkvæmd laganna.
Þá
reisa stefnendur kröfur sínar einnig á því, að úrskurður úrskurðarnefndar
greiðslumarks frá 12. janúar 1998 hafi aðallega verið byggður á fullyrðingum
stefnda Ágústs um að hinn umdeildi framleiðsluréttur hafi átt rót sína að rekja
til framleiðslu hans á þeim hlutum jarðarinnar, sem tilheyrðu honum einum. Stefndi hafi hins vegar í innlausnarbeiðni
sinni fullyrt að hann hafi stundað landbúnað á allri jörðinni allt frá áramótum
1982, nýtt öll tún og allt land til beitar að frátalinni eins til tveggja
hektara spildu undir sumarhús. Hér sé
stefndi Ágúst kominn í mótsögn við sjálfan sig enda henti honum í innlausnarmálinu
að halda öðru fram en hann hefur áður gert til þess eins að ná takmarki sínu
gagnvart stefnendum. Stefnendur halda
því fram að úrskurðarnefndinni hafi borið að kalla eftir sönnunum frá stefnda
Ágústi þegar hann hélt þessari staðhæfingu sinni fram. Það hafi hún hins vegar ekki gert og svipt
stefnendur eignarétti sínum.
Sönnunarbyrðin fyrir fullyrðingum sem þessari hljóti að vera hjá stefnda
Ágústi og þar sé hún enn í dag. Stefndi
Ágúst hafi aldrei mótmælt því að stefnendur ættu hlut í mannvirkjum, fjósi,
fjóshlöðu, súrheysturni við fjós, rafstöð eða því að stefnendur ættu hlut af
heyfeng sem tekinn er af útskiptu túni.
Með röksemdum í innlausnarbeiðni sinni sem áður er getið hafi stefndi
Ágúst viðurkennt að hann hafi nýtt meira en sinn part jarðarinnar til
mjólkurframleiðslu raunar hafi hann viðurkennt að hafa notað eignarhluti
stefnenda við mjólkurframleiðsluna.
Stefnendur
vísa máli sínu til frekari stuðnings til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr.
33/1944. Stefndi Ágúst reyni með
háttsemi sinni og með atbeina stefnda Framleiðsluráðs landbúnaðarins að svipta
stefnendur eignarréttindum sínum sem séu með nefndu ákvæði stjórnarskrár
friðhelg. Í nefndum lögum nr. 99/1993
46. gr. sé tekið undir verndun eignarréttarins en þar sé kveðið svo á að samþykki
allra eigenda þurfi til að selja greiðslumark frá lögbýli. Með sölunni hafi stefndi Ágúst selt burt af
jörðinni verðmæti sem verður ekki heimilt að nota þar í náinni framtíð nema með
því að kaupa þau aftur. Þessa skerðingu
á eignarrétti sínum telja stefnendur sig ekki þurfa að þola
Stefnendur
telja stefnda Framleiðsluráð landbúnaðarins hafa beitt sig valdníðslu með því
að samþykkja sölusamningana.
Sérstaklega eftir að ráðinu varð kunnugt um andstöðu þeirra við söluna
og aðvaranir um bótaskyldu ráðsins.
Síðan hafi úrskurðarnefnd greiðslumarks staðfest valdníðslu stefnda
Framleiðsluráðs með því að leggja sönnunarbyrði í málinu á þá sem til stóð að
svipta eignarréttindum. Af þessum sökum
beri úrskurðarnefndin sem stjórnvald í forsvari og í skjóli
landbúnaðarráðuneytisins ábyrgð á því lögbroti sem framið var á stefnendum máls
þessa.
Rökstuðningur
fyrir varakröfu.
Stefnendur
byggja varakröfu sína á því, að stefndi Ágúst hafi ráðstafað eignarréttindum
sameigenda sinna heimildarlaust og skaðann sem af því hlaust beri honum að bæta
að fullu. Fjárhæð tjónsins miðist við
það verð er stefndi fékk fyrir greiðslumarkið eða það verð sem hægt var að fá
fyrir greiðslumark mjólkur á hverjum tíma.
Stefnendur segja kröfu sína vera kröfu um skaðabætur utan samninga vegna
sannanlegs tjóns sem stefndi Ágúst olli stefnendum með atbeina og samþykki
stefnda Framleiðsluráðs landbúnaðarins og síðar rangri niðurstöðu
úrskurðarnefndar greiðslumarks. Stefndi
Ágúst verði að svara til vanheimildar sinnar, þar sem hann með saknæmum hætti
og af ásetningi seldi eignarréttindi stefnenda. Stefndu Framleiðsluráð landbúnaðarins og úrskurðarnefnd
greiðslumarks studdu þessar ólögmætu athafnir stefnda Ágústs þrátt fyrir hörð
mótmæli og aðvaranir um bótaábyrgð. Af
þessum sökum beri þau ásamt stefnda Ágústi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum
samkvæmt sakarreglu íslensks skaðabótaréttar.
Stefnendur
miða kröfu sína við að hver lítri greiðslumarks í mjólk hafi verið seldur á
155. krónur. Vaxtareikningur miðast við
að gjalddagar krafnanna hafi verið sama dag og Framleiðsluráð landbúnaðarins
samþykkti aðilaskiptin.
Varðandi
lagarök vísa stefnendur til meginreglna kröfuréttarins og íslensks
skaðabótaréttar t.d. culpareglunnar.
Laga nr. 99/1993 um framleiðslu verðlagningu og sölu á búvörum t.d. 46.
gr. og 42.gr. sbr. breytingarlög nr. 124/1995 og reglugerðar nr. 363/1996. Til stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944
sbr. breytingarlög nr. 97/1995 t.d. 72. gr.
Kröfu um málskostnað byggja þeir á XXI. kafla laga um meðferð eikamála
nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt
er reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi Jón Brynjólfsson er ekki
virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður
og lagarök stefndu Ágústs og Ásgerðar.
Í
greinargerð sinni vísa stefndu til þess að stefnendur krefjist bæði ógildingar
og riftunar á samningum um sölu greiðslumarks.
Þennan málatilbúnað telja þeir fara í bága við ákveðin ákvæði laga um
meðferð einkamála. Stefnendur hafa nú
fallið frá kröfu um riftun samninganna og verður því ekki í máli þessu fjallað
um þessa málsástæðu stefndu eða aðrar málsástæður er snúa að riftun
samninganna.
Stefndu
byggja kröfu sýna um sýknu á því, að jörðinni hafi verið skipt sbr. áðurnefndan
lands- og eignaskiptasamning frá 18. desember 1982. Samkvæmt þeim samningi hafi sameign um jörðina verið slitið og
fjórðungi hennar skipt út. Af þeim
fjórðungi eigi stefnendur nú sjötta part hvor.
Stefndu kveðast hafa hagað búrekstri sínum og landbúnaðarframleiðslu í
samræmi við þennan samning. Umrædd
landskipti hafi átt sér stað fyrir setningu laga um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum. Framleiðsluréttur
stefndu í mjólk á jörðinni eigi rót sína að rekja til landbúnaðarframleiðslu
þeirra á þeim hluta jarðarinnar sem þeim tilheyri. Kúabúskapur og framleiðsla á mjólk hafi eingöngu verið rekin á
þeirra parti jarðarinnar en heyfengur af túnum í eigu stefndu hafi verið
notaður fyrir hross og sauðfé. Þannig
hafi stefndu lagt grunn að og skapað þau verðmæti sem greiðslumarkið var og þar
með eigi þau verðmætin og enginn annar.
Stefndu benda því á að stefnendur hefðu sjálfir getað verið með búskap á
sínum parti jarðarinnar og þannig skapað sér greiðslumark hefðu þeir haft á því
áhuga. Notkun stefndu á hinum útskipta
hluta jarðarinnar hafi einungis verið til þess að halda honum við og án
endurgjalds og þannig verið báðum aðilum hagstæður án þess að skapa stefnendum
neinn rétt í greiðslumarki.
Stefndu
benda á að aldrei hafi verið neinn ábúðarsamningur um hinn útskipta part
jarðarinnar né heldur verið gerður samningur um skipti eða afnot á grundvelli
lands- og eignaskiptasamningsins frá 18. desember 1982. Af þessum sökum teljist stefnendur ekki
ábúendur í skilningi ábúðarlaga nr. 64/1976 og reglugerða á sviði
landbúnaðarins sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 363/1996 og 2. mgr. 47. gr.
laga 99/1993. Þó hugtökin ábúandi eða
leiguliði séu ekki skýrð sérstaklega í ábúðarlögum megi af þeim ráða að ábúandi
öðlist réttindi sem slíkur og beri skyldur á grundvelli byggingarbréfs en í 4.
gr. ábúðarlaga komi fram hvað skuli tilgreint í byggingarbréfi.
Stefndu
byggja kröfur sínar einnig á því, að stefnendur hafi ekki af því neina hagsmuni
að samningar um sölu greiðslumarks verði ekki látnir standa óbreyttir þar sem
þeir eigi, og hafi aldrei átt, neinn hlut í mjólkurframleiðslunni. Þeir séu hins vegar með framferði sínu að
reyna að knýja stefndu til að halda áfram óarðbærri mjólkurframleiðslu og koma
þannig í veg fyrir eðlilega búháttarbreytingu.
Jafnframt benda þeir á að aðrir sameigendur eða fjórir af sex styðji
ekki þessa málshöfðun stefnenda.
Með
hliðsjón af því sem að framan er rakið telja stefndu að þeim hafi ekki borið að
leita samþykkis stefnenda við sölu greiðslumarksins þar sem þeir hafi haft
fulla heimild til að ráðstafa því eins og þeim þótti best henta. Þennan skilning þeirra hafi úrskurðarnefnd
samkvæmt 42. gr. búvörulaga staðfest með úrskurði sínum.
Stefndu
telja jafnframt að þó tekin verði afstaða til aðalkröfu stefnenda og þeirri
kröfu hafnað þá geti krafa þeirra um skaðabætur ekki komið til álita þar sem
niðurstaðan varðandi aðalkröfuna fæli í sér að aðgerir og háttsemi stefndu hefðu
ekki farið gegn lögum.
Stefndu
byggja á því varðandi varakröfu stefnenda að stefnendur verði að sýna fram á og
sanna saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu þar sem krafan sé sett fram sem
skaðabótakrafa utan samninga. Stefndu
hafna því að skilyrði séu til þess að dæma stefnendum skaðabætur úr þeirra
hendi þar sem skilyrði sakarreglunnar séu ekki fyrir hendi. Sala greiðslumarksins teljist ekki
saknæm. Stefndu benda í þessu sambandi
á sömu rök og áður hafa komið fram varðandi hvernig greiðslumarkið varð til með
landbúnaði þeirra. Jafnframt því sem
áður er getið að hinn útskipti hluti jarðarinnar hafi ekki verið notaður til
mjólkurframleiðslu og þar hafi stefnendur ekki verið ábúendur í skilningi laga. Þá ítreka stefndu að stefnendur hefðu getað
með eigin búskap skapað sér réttindi með nýtingu á sínum parti
jarðarinnar. Með vísan til þessa telja
stefndu að háttsemi þeirra geti ekki talist saknæm.
Stefndu
benda einnig á að sala greiðslumarksins hafi verið í samræmi við ákvæði
búvörulaga og reglugerðar nr. 363/1996 og þar með hafi háttsemi þeirra ekki
verið andstæð lögum. Þá benda þeir á að
í málinu sé þess ekki krafist að úrskurður úrskurðarnefndar sem áður hefur
verið nefndur verði felldur úr gildi.
Úrskurður nefndarinnar, fjölskipaðrar stjórnsýslunefndar, sem löggjafinn
hefur falið að leysa úr ágreiningi um skráningu á greiðslumarki í stað
ráðherra, standi þar til honum hafi verið hnekkt af dómstólum. Hér verði því að leggja úrskurðinn til
grundvallar. Niðurstaða úrskurðarins
hafi í stuttu máli verið sú að stefndu hafi ekki borið að leita eftir samþykki
stefnenda við ráðstöfun á greiðslumarkinu og þar með hafi verið staðfest að
háttsemi stefndu hafi ekki farið gegn lögum og reglum. Þar af leiði að háttsemin geti ekki bakað
þeim bótaskyldu.
Loks
benda stefndu á að stefnendur hafi ekki lagt fram nein gögn varðandi meint tjón
sitt og ekki kvatt til matsmenn til að meta það. Því mótmæla stefndu órökstuddum staðhæfingum stefnenda.
Þrautavarakröfu
sína um lækkun skaðabóta byggja stefndu á sömu rökum og áður hafa komið
fram. Upphafstíma dráttarvaxta er
mótmælt sérstaklega.
Hvað
lagarök varðar vísa stefndu til d. liðar 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð
einkamála nr. 19/1991 hvað frávísunarkröfuna varðar. Krafa um sýknu er studd meginreglum samninga- og kröfuréttar um
skuldbindingargildi samninga og réttar efndir.
Einnig er vísað til 42. og 46. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum, auk reglugerðar nr. 363/1996. Þá er og vísað til 4. gr. ábúðarlaga nr.
65/1976 og 16. gr. lag nr. 50/1988.
Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla nefndra laga um meðferð
einkamála.
Málsástæður
og lagarök stefndu Gróu M. Lárusdóttur.
Stefnda
Gróa byggir kröfu sína um frávísun á því, að stefnendur eigi fjórðung af
lögbýlinu Geitaskarði í óskiptri sameign með fjórum bræðrum sínum. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991
skuli þeir sem eiga óskipt réttindi sækja mál í sameiningu. Sé það ekki gert og krafa höfð upp um
hagsmuni einhvers þeirra sem ekki eiga aðild að málinu beri að vísa því frá
dómi. Að mati stefndu bar að
réttargæslustefna þeim sameigendum sem ekki vildu vera meðal stefnenda máls
þessa og þannig gefa þeim kost á að gæta réttar síns í máli þessu.
Varakröfu
sína um sýknu byggir stefnda á því, að hún sé ekki aðili máls þessa og
aðildarskortur leiði til sýknu sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála
nr. 19/1991. Mál þetta lúti að
lögskiptum stefnenda og fjögurra sameigenda þeirra annars vegar og hins vegar
stefndu Ágústs og Ásgerðar og hugsanlega Framleiðsluráðs landbúnaðarins og
landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis.
Lögskipti stefndu hafi verið við stefndu Ágúst og Ásgerði en hún hafi
hins vegar engin lögskipti átt við stefnendur máls þessa og þar með geti hún
ekki talist aðili máls.
Stefnda
kveður að henni hafi ekki verið kunnugt um, þegar kaup hennar á greiðslumarkinu
fóru fram, að stefndu Ágúst og Ásgerður ættu Geitaskarð í sameign með fleiri
aðilum. Henni hafi heldur ekki borið að
kynna sér sérstaklega hvernig eignarhaldi jarðarinnar var háttað áður en hún
keypti umrætt greiðslumark. Hafi
stefndu Ágúst og Ásgerður farið út fyrir heimildir sínar með sölu
greiðslumarksins sé það henni algerlega óviðkomandi og af þeim sökum beri
stefnendum að beina kröfum sínum að þeim en ekki henni. Þá bendir stefnda Gróa á, að jafnvel þó
henni hefði verið kunnugt um eignarhald stefnenda á hluta jarðarinnar hafi það
ekki verið í hennar verkahring að sjá til þess að allir eigendur jarðarinnar
samþykktu söluna. Seljandi
greiðslumarksins beri ábyrgð á því að ráðstöfun þess hafi verið heimil. Samkvæmt þessu telur stefnda að hún geti á
engan hátt orðið aðili að deilumálum stefnenda við meðstefndu Ágúst og Ásgerði
og því beri að sýkna hana af öllum kröfum stefnenda.
Þrautavarakröfu
sína styður stefnda Gróa þeim rökum að ekki sé unnt að ógilda stærri hluta
samninganna en nemi eignarhlut stefnenda en þeir hafi ekki heimild til að
krefjast ógildingar umfram eignarhlut sinn.
Þetta viðurkenni þeir í raun í varakröfu sinni þar sem þeir krefjist
bóta í samræmi við eignarhlut sinn í jörðinni.
Þar með sé ekki unnt að ógilda sölu á meira en 8,33% af því
greiðslumarki sem stefnda keypti.
Hvað
lagarök að baki aðalkröfu sinni varðar vísar stefnda Gróa til 2. mgr. 18. gr.
laga um meðferð einkamála og almennra reglna um skýrleika málatilbúnaðar sbr.
d. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Til
stuðnings varakröfu sinni vísar stefnda til 2. mgr. 16. gr. einkamálalaga. Þrautavarakröfu sína reisir stefnda á
almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og
almennra reglna um heimildir manna til að krefjast ógildingar á samningum. Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130.
gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður
og lagarök stefndu Óskars E. Ólafssonar, Glaumbæjar ehf. og
Brynjólfs Friðrikssonar.
Stefndu
Óskar, Friðrik og Glaumbær ehf. reisa allar kröfur sínar, málsástæður og
lagarök á sömu sjónarmiðum og stefnda Gróa sem þegar hafa verið rakin hér að
framan.
Málsástæður
og lagarök stefnda Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
Við
munnlegan flutning um frávísunarkröfu annarra stefndu lýsti stefndi
Framleiðsluráð landbúnaðarins því yfir að hann styddi samstefndu um frávísun
málsins en taldi jafnframt að vísa beri málinu frá dómi án kröfu.
Aðalkröfu
sína um sýknu reisir stefndi á því, að með nefndum lands- og
eignaskiptasamningi hafi jörðinni Geitaskarði verið skipt eftir ákveðnum
kennileitum. Faðir stefnenda hafi átt
hinn útskipta part en nú eigi stefnendur hann ásamt fjórum bræðrum sínum. Peningahús og önnur útihús skyldu skiptast
eftir eignarhlutföllum. Byggt er á því,
að bú hafi ekki verið rekið á hinum útskipta hluta og stefnendur hafi aldrei
framleitt neina mjólk á jörðinni eða leigt meðstefnda Ágústi landsnytjar eða
eignarhlut í útihúsum.
Stefndi
Ágúst hafi rekið bú á sínum hluta jarðarinnar og greiðslumark lögbýlisins hafi
verið skráð á hans nafn sem og fullvirðisréttur og búmark samkvæmt eldri
reglum. Þannig eigi greiðslumarkið
rætur að rekja til eignarhluta stefnda Ágústs enda hafi hann ekki verið ábúandi
á hinum útskipta hluta. Byggir stefndi
Framleiðsluráð á því ekki hafi þurft samþykki stefnenda fyrir sölu á
greiðslumarkinu.
Stefndi
bendir á að ákvæði 46. gr. laga 99/1993 sbr. nú 47. gr. mæli fyrir um að sé
ábúandi lögbýlis annar en eigandi þurfi samþykki beggja til flutnings á
greiðslumarki. Á því er byggt, að þegar
lögbýli sé í óskiptri sameign fari um heimild eigenda til ráðstöfunar samkvæmt
almennum reglum um óskipta sameign.
Þetta sé staðfest í nefndum skiptasamningi jarðarinnar. Samkvæmt almennum reglum geti meirihluti
sameigenda tekið ákvörðun um ráðstafanir um hagnýtingu eignar. Hér hafi háttað svo til að þegar aðilaskipti
á greiðslumarkinu voru samþykkt hafi legið fyrir samþykki eigenda 83.34% hluta
jarðarinnar.
Í
tilfelli þessu hafi því legið fyrir að eigendur mikils meirihluta jarðarinnar
hafi séð sér hag í því að ráðstafa greiðslumarki mjólkur frá jörðinni. Ljóst hafi verið að til að halda
mjólkurframleiðslu áfram á jörðinni hafi þurft að ráðast í miklar endurbætur á
húsum til mjólkurframleiðslu. Af þeim
sökum hafi stór meirihluti eigenda talið vænlegra að hætta framleiðslu. Með þessar aðstæður í huga hafi þótt rétt að
staðfesta aðilaskiptin sem uppfylltu skilyrði laga nr. 93/1993 og reglugerða
settra með stoð í þeim.
Stefndi
mótmælir alfarið að hann hafi með ákvörðun sinni brotið gegn ákvæði 72. gr.
stjórnarskrár lýðveldisins Íslands enda hafi hann ekki tekið neina afstöðu til
ágreinings um hugsanlega hlutdeild einstakra eignaraðila í andvirði
greiðslumarksins. Þá bendir stefndi á
að það sé ekki brot á vernduðum eignarrétti að minnihluti sameigenda þurfi að
sæta ákvörðun meirihlutans um ráðstöfun eignarinnar.
Stefndi
mótmælir sérstaklega að einhver valdníðsla hafi átt sér stað við meðferð
málsins enda hafi stefnendur engin rök fært fyrir þeirri fullyrðingu
sinni.
Stefndi
vísar varakröfu stefnenda alfarið á bug með þeim rökum að skilyrðum
skaðabótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi við framsal greiðslumarksins. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á í hverju
ólögmæti eða saknæmi stefnda sé fólgið.
Þá vanti einnig orsakasamband milli ákvörðunar stefnda og þess tjóns sem
stefnendur telja sig hafa orðið fyrir.
Uppgjör sameigenda jarðarinnar sé honum algjörlega óviðkomandi og hann
hafi ekki valdið stefnendum neinu tjóni.
Loks mótmælir stefndi Framleiðsluráð tjóni stefnenda sem ósönnuðu en
sönnunarbyrðin um tjónið og umfang þess hvíli á stefnendum.
Hvað
varðar varakröfu sína um lækkun krafna bendir stefndi á að umfang tjónsins sé
ósannað en vísar að öðru leyti til rökstuðnings gegn varakröfu stefnenda.
Hvað
lagarök varðar vísar stefndi Framleiðsluráð landbúnaðarins til laga nr. 99/1993
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og reglugerða settra með stoð í
þeim. Þá vísar hann og til meginreglna
kröfuréttar, eignaréttar og skaðabótaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga um meðferð
einkamála.
Málsástæður
og lagarök stefndu landbúnaðar- og fjármálaráðherra.
Stefndu
byggja á því, að með lögum nr. 99/1993 hafi Framleiðsluráði landbúnaðarins
verið falið að fara með ákvörðunarvald af hálfu stjórnvalda í málum er lúta að
aðilaskiptum vegna greiðslumarks.
Úrskurðarnefnd samkvæmt 42. gr. laga 99/1993 er sjálfstæður og
óvilhallur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og úrskurðum nefndarinnar verði
ekki skotið til ráðherra. Stefndu
landbúnaðar- og fjármálaráðherrar séu ekki aðilar að þeim samningum sem
aðalkrafa stefnanda um ógildingu lúti að.
Þeir hafi ekki frekar en úrskurðarnefndin neinna lögvarðra hagsmuna að
gæta um afdrif samninganna. Því sé
engin réttarnauðsyn að gefa þeim kost á að láta til sín taka dómsmál sem miða
að því að hnekkja úrskurði úrskurðarnefndar um greiðslumark. Skortur á lögvörðum hagsmunum stefndu leiði
til þess að kröfum á hendur þeim beri að vísa frá dómi.
Þá
beri að benda á að varakrafa stefnenda sé vanreifuð og óljós. Í því sambandi gildi einu hvort litið er til
efnislegra skilyrða fyrir áfalli bótaskyldu eða reifunar ætlaðs bótaskylds
tjóns. Varakrafa þessi komi ekki til
álita nema aðalkröfu stefnenda sé hafnað.
Ef svo fari sé ljóst að fullyrðingar stefnenda um ranga niðurstöðu
úrskurðarnefndarinnar standist ekki.
Stefndu
byggja varakröfu sína um á sýknu á því, að þeir séu ekki aðilar að málinu og
því verði með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála að sýkna þá
af kröfum stefnenda. Þeir séu ekki, eins
og að framan er rakið, aðilar að þeim samningum sem aðalkrafa stefnenda um
ógildingu á lýtur að.
Bótakröfu
stefnenda er alfarið hafnað. Stefndu
benda á að landbúnaðarráðuneytið hafi ekki og gæti ekki að lögum komið með
neinum hætti að málinu varðandi aðilaskipti að greiðslumarki skv. lögum nr.
99/1993. Úrskurður úrskurðarnefndar um
greiðslumark liggi fyrir og rökstuðningur nefndarinnar komi fram þar. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nefndin,
sem eingöngu kom að málinu sem óháður úrskurðaraðili, hafi sýnt af sér ólögmæta
og saknæma háttsemi við meðferð málsins og túlkun réttarheimilda sem leitt gæti
til bótaskyldu ríkisins. Því er mótmælt
að nefndin hafi með úrskurði sínum bakað stefnendum eitthvert tjón. Ekkert orsakasamband eða vávæni sé milli
úrskurðar nefndarinnar og þess tjóns sem stefnendur byggja kröfugerð sína
á. Gildi úrskurðarins sé unnt að bera
undir dómstóla eins og hér hafi verið gert.
Auk þess sé sérstaklega tekið fram í úrskurðinum að það falli utan
valdssvið nefndarinnar að skera úr ágreiningu um hvort stefnendur hafi átt
einhverja hlutdeild í greiðslumarki því sem meðstefndi Ágúst seldi. Því sé ósannað að stefnendur hafi orðið
fyrir einhverju tjóni sem rakið verði til úrskurðarins.
Til
þrautavara mótmæla stefndu bótakröfum stefnenda sem allt of háum og einnig er
kröfum stefnenda um dráttarvexti og upphafstíma vaxta mótmælt.
IV.
Niðurstaða.
Fyrir
liggur að stefnendur krefjast nú aðallega ógildingar á sölu greiðslumarks í
mjólk frá lögbýlinu Geitaskarði en hafa fallið frá kröfu um riftun
samninganna.
Óumdeilt
er að stefnendur eiga hvor um sig einn sjötta af útskiptum fjórðungi
jarðarinnar Geitaskarðs í óskiptri sameign með fjórum bræðrum sínum sem ekki
eru aðilar að málið þessu. Stefnendur
reyndu, með sakaukastefnu, að gera sameigendur sína aðila að málinu en þeirri
stefnu var vísað frá dómi.
Meðal
gagna þessa máls er úrskurður úrskurðarnefndar greiðslumarks frá 12. janúar
1998. Í þeim úrskurði kemur fram að
fyrir liggi í bréfi frá Framleiðsluráði landbúnaðarins að tveir bræðra
stefnenda hafi skriflega lýst sig samþykka aðilaskiptum að
greiðslumarkinu. Þessa fullyrðingu er
einnig að finna í greinargerð stefnda Framleiðsluráðs og hefur henni ekki verið
mótmælt. Dómkröfur stefndu, bræðra
stefnenda, í sakaukamálinu voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en
til vara kröfðust þeir sýknu. Bendir
þessi afstaða þeirra eindregið til þess að þeir vilji ekki láta mál þetta til
sín taka.
Með því að fallast á
aðalkröfu stefnenda og ógilda margnefnda samninga um sölu á greiðslumarki
mjólkur frá Geitaskarði yrðu allir sameigendurnir aftur eigendur að
greiðslumarkinu, að því gefnu að greiðslumarkið fylgi jörðinni. Þessi niðurstaða er ótæk fyrir þá
sameigendur sem ekki standa að máli þessu og vilja ekki láta það til sín taka og
hafa auk þess ekki haft uppi neina kröfur í þessa átt. Með vísan til þessa og 2. mgr. 18. gr. laga
um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber þegar af þessari ástæðu að vísa aðalkröfu
stefnenda frá dómi.
Varakröfu sinni beina
stefnendur að stefndu Ágústi, Ásgerði, Framleiðsluráði landbúnaðarins og
landbúnaðar- og fjármálaráðherrum.
Þessa kröfu geta stefnendur haft uppi án samaðildar sameigenda sinna
enda krefjast þeir hér einungis skaðabóta sem þeir byggja á eignarhluta sínum í
jörðinni. Efnisleg niðurstaða um þessa
kröfu hefur engin áhrif á réttarstöðu sameigenda þeirra.
Fallast ber á með stefndu
landbúnaðar- og fjármálaráðherrum að úrskurðarnefnd samkvæmt 42. gr. laga nr.
99/1993 sé sjálfstæður og óvilhallur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi. Landbúnaðar- og fjármálaráðherrar hafi því
enga þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn þessa máls sem leitt geti til aðildar
þeirra að málinu enda eru þeir ekki aðilar að samningum þeim sem krafist er
ógildingar á. Því sé heldur engin
réttarfarsnauðsyn að gefa þeim kost á að láta mál þetta til sín taka. Hér er og rétt að horfa til þess að telja
verður stefnda Framleiðsluráð landbúnaðarins sjálfstæðan stjórnsýsluaðila sem,
eins og reynt hefur á í fjölda dóma,
getur verið aðili máls án þess að landbúnaðarráðherra sé aðili þess máls. Ber því að vísa kröfum stefnenda á hendur
landbúnaðar- og fjármálaráðherrum frá dómi.
Stefnda Framleiðsluráð
landbúnaðarins hefur ekki krafist frávísunar málsins og þó aðalkröfu stefnenda
hafi verið vísað frá þá stendur varakrafan eftir en ekki eru fyrir hendi
skilyrði sem leiða til þess að þeirri kröfu beri að vísa frá dómi án
kröfu.
Stefndu Ágúst og Ásgerður
krefjast aðallega frávísunar á aðalkröfu stefnenda og sýknu af varakröfu
þeirra. Til vara krefjast þeir lækkunar
á skaðabótakröfum. Samkvæmt þessu er
ekki gerð krafa um frávísun á varakröfu stefnenda en hér eru eins og áður er
getið ekki fyrir hendi atvik sem leiða til þess að skaðabótakröfunni beri að
vísa frá dómi án kröfu.
Samkvæmt því sem hér að
framan er rakið ber að taka varakröfu stefnenda til efnislegrar meðferðar á
hendur stefndu Framleiðsluráði landbúnaðarins, Ágústi Sigurðssyni og Ásgerði
Pálsdóttur.
Með hliðsjón af
niðurstöðu málsins þykir rétt að stefnendur greiði in solidum málskostnað sem
hér segir, stefndu Gróu M. Lárusdóttur 50.000 krónur, stefndu Glaumbæ ehf.,
Óskari E. Ólafssyni og Brynjólfi Friðrikssyni sameiginlega 50.000 krónur og
landbúnaðar- og fjármálaráðherrum sameiginlega 50.000 krónur. Málskostnaður milli annarra bíður efnisdóms.
Halldór Halldórsson,
dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Úrskurðarorð:
Aðalkröfu stefnenda, um
ógildingu á samningum um sölu á 54.061 líta greiðslumarki í mjólk frá lögbýlinu
Geitaskarði Engihlíðarhreppi, er vísað frá dómi.
Varakrafa stefnenda um
skaðabætur úr hendi Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Ágústs Sigurðssonar og
Ásgerðar Pálsdóttur sæti efnismeðferð.
Stefnendur greiði in
solidum málskostnað sem hér segir, stefndu Gróu M. Lárusdóttur 50.000 krónur,
stefndu Glaumbæ ehf., Friðriki Brynjólfssyni og Óskari E. Ólafssyni samtals
50.000 krónur og stefndu landbúnaðar- og fjármálaráðherrum samtals 50.000
krónur.
Ákvörðun málskostnaðar
milli annarra aðila bíður efnisdóms.