Hæstiréttur íslands
Mál nr. 494/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Þriðjudaginn 16. september 2008. |
|
Nr. 494/2008. |
A(Björgvin Þórðarson hdl.) gegn B (Þórdís Bjarnadóttir hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðherra 1. september 2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. september 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðherra 1. september sama ár. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að þóknun skipaðs talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, héraðsdómslögmannanna Björgvins Þórðarsonar og Þórdísar Bjarnadóttur, 63.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. september 2008
Með beiðni dagsettri 2. september sl. hefur A, kt,. [...], [...], Hafnarfirði, krafist þess að fellt verði úr gildi samþykki dómsmálaráðuneytisins frá 1. september sl um nauðungarvistun hennar á deild 32A á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila, B, kt. [...], [...], Reykjavík, dóttur sóknaraðila, var kröfunni mótmælt og þess krafist nauðungarvistunin héldi gildi sínu.
Með vísan til ákvæða 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var sóknaraðila skipaður talsmaður og var Björgvin Þórðarson hdl. skipaður til starfans að ósk sóknaraðila. Varnaraðila var jafnframt skipaður verjandi, Þórdís Bjarnadóttir hdl., með vísan til ákvæða 3. mgr. 10. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr., lögræðislaga.
Með bréfi dagsettu 1. september sl. óskaði varnaraðili eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistuð með vísan til ákvæða 19., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga. Dómsmálaráðuneytið samþykkti nauðungarvistun sóknaraðila í bréfi dagsettu sama dag.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki séu fyrir hendi skilyrði 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hennar. Sóknaraðili gaf skýrslu hér fyrir dóminum í dag og kannaðist við að hafa verið þunglynd en sagði ekki hafa borið á geðhvörfum. Sóknaraðili kvaðst hafa tekið þunglyndislyf og tiltók að hún hefði verið hátt uppi á árinu 2005 þegar hún var við ljósmyndunarnám. Hún kvaðst hafa hætt að taka geðlyf í lok febrúar og hefði geðlæknir hennar talið óhætt að hún sleppti að taka eina og eina töflu.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn til staðar og er vísað til framlagðs læknisvottorðs Sigurlaugar M. Karlsdóttur geðlæknis.
Niðurstaða.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Sigurlaugar M. Karlsdóttur geðlæknis dagsett 1. september 2008. Þar segir m.a. að þann 30. ágúst sl. hafi verið komið með sóknaraðila í lögreglufylgd á bráðamóttöku geðdeildar eftir að lögregla hafði þurft að elta hana þar sem hún ók um götur borgarinnar á miklum hraða. Aðstandendur hafi gefið þær upplýsingar borið á ofskynjunum hennar og reiði. Hún hafi haft í hótunum við fjölskyldu sína og óttist fjölskyldumeðlimir um öryggi sitt. Um viðtal læknisins við sóknaraðila segir síðan í vottorðinu að sóknaraðili hafi verið með eðlilega meðvitund og fulláttuð. Hún hafi hins vegar verið með aðsóknarhugmyndir og þá sé sjúkdómsinnsæi hennar mjög takmarkað og dómgreind mjög skert.
Niðurstaða læknisins er sú að sóknaraðili sé með geðhvarfasjúkdóm og hafi við innlögn verið í manísku ástandi með sturlunareinkenni. Var það jafnframt mat læknisins að til þess að koma við frekara mati og meðferð, væri óhjákvæmilegt að nauðungarvista sóknaraðila á geðdeild skv. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.
Kjartan J. Kjartansson geðlæknir kvaðst hafa fylgst með heilsu sóknaraðila síðustu fjögur ár. Hann kvað sóknaraðila vera haldna alvarlegum geðsjúkdómi og hafi hún verið með geðrofseinkenni við innlögn á geðdeild. Sóknaraðili hafi ekki tekið geðlyfin og hafi ekki verið neydd til þess. Hins vegar sé tilgangur nauðungarvistunarinnar sá að koma á samstarfi við sóknaraðila um lyfjatöku. Var það mat vitnisins að þegar litið væri til aðdraganda núverandi innlagnar sóknaraðila, væri ólíklegt að ástand hennar batnaði ef hún útskriftaðist núna af sjúkrahúsinu. Aðspurður kvað vitnið sóknaraðila geta verið sér og öðrum hættuleg í núverandi ástandi.
Þegar litið er til þess sem að framan er rakið, framangreinds læknisvottorðs, vættis geðlæknis hér fyrir dóminum og skorts sóknaraðila á innsæi í ástand sitt, er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 19. greinar lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.
Í samræmi við 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði eins og nánar segir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneyti þann 1. september 2008.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Björgvins Þórðarsonar hdl., og skipaðs verjanda varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 65.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.