Hæstiréttur íslands
Mál nr. 657/2008
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2009. |
|
Nr. 657/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari) gegn Sævari Sævarssyni (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) (Óðinn Elísson hrl., réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun.
S var ákærður fyrir tilraun til manndráps, skv. 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, skv. 2. mgr. 218. gr. sömu laga, með því að hafa ráðist að M og stungið hann með hnífi í bak og framhandlegg. S játaði að hafa stungið M í bak en neitaði því að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða. Talið var að S hafi ekki getað dulist að bani kynni að hljótast af hnífsstungu hans og að hann hafi því með verknaði sínum brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar S var m.a. litið til þess að árás hans var lífshættuleg og án nokkurs réttlætanlegs tilefnis. Þá olli hún alvarlegu líkamstjóni og var til þess fallin að hafa í för með sér slæmar afleiðingar fyrir andlega heilsu brotaþola. Ekki var talið unnt að lækka refsingu ákærða með vísan til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. almennra hegningarlaga. Þótti refsing S hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Þá þótti S með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til M sem ákveðnar voru 829.240 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd og honum gert að greiða Miguel Angel Sepulveda Roma 1.600.640 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og komi gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 6. ágúst 2008, til frádráttar henni.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 971.852 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Óðins Elíssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 9. október 2008, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara á hendur Sævari Sævarssyni, kt. 070481-3169, Æsufelli 4, Reykjavík, „fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 1. ágúst 2008, utan dyra við Hverfisgötu 6, Reykjavík, ráðist að Miguel Angel Sepulveda Roma og stungið hann með hnífi í bak vinstra megin og vinstri framhandlegg með þeim afleiðingum að Miguel hlaut stungusár inn í brjósthol og inn í lungað með loftbrjósti og blæðingu í brjóstholi, og stungusár á vinstri framhandlegg fyrir neðan olnboga sem olli áverka á ölnartaug.“
Er þetta talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu krefst nefndur Miguel Angel Sepulveda Roma, kt. 170678-2069, að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 2.725.365 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til lægstu refsingar sem lög leyfi og að hún verði þá bundin skilorði. Verði dæmd fangelsisvist komi henni til frádráttar gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt. Þá krefst ákærði þess að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi en þær að öðrum kosti lækkaðar. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna samkvæmt málskostnaðarreikningi og að þau verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að tilkynning hafi borist 1. ágúst 2008 kl. 03.07 um líkamsárás á Hverfisgötu, nánar tiltekið við Alþjóðahús. Skömmu síðar hafi svo borist önnur tilkynning um að hnífi hafi verið beitt í árásinni. Þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi þeir séð hvar nokkrir menn studdu brotaþola við dyr Alþjóðahúss á Hverfisgötu. Hafi hann verið blóðugur. Við nánari athugun lögreglu hafi þeir séð áverka undir vinstra herðablaði, eins og eftir hnífsstungu. Þá hafi brotaþoli verið með skurð á vinstri upphandlegg. Hafi mennirnir sem studdu brotaþola upplýst að hann hefði sagt eitthvert fólk hafa ráðist á sig. Í kjölfarið hafi brotaþoli verið færður á slysadeild með sjúkrabifreið. Í skýrslunni er tekið fram að lögreglumaður hafi rætt við vitni sem hafi sagt að þrír aðilar hafi ráðist að brotaþola. Árásin hafi átt sér stað við 101 Hótel á Hverfisgötu.
Þess er getið í skýrslunni, að lögregla hafi skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavél á 101 Hóteli. Sjáist á myndskeiði klukkan 03.01 hvar árásarmaður virðist vera í átökum. Megi greina að hann haldi á einhverju í hægri hendi og sé mjög ógnandi og æstur að sjá. Við skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum Stjórnarráðsins á þessum tíma megi sjá hvar maður kemur hlaupandi norður Lækjargötu og upp Hverfisgötu. Skömmu síðar hafi fengist upplýst af starfsmanni að hann kannaðist við fólk sem þar sæist. Væri einn þeirra ákærði, sem hefði starfað við dyravörslu á Kaffi Sólon, en hin væru Ámundi Rögnvaldsson, Hrefna Sigurðardóttir og maður sem kallaður væri Siggi. Í kjölfar þessa handtók lögregla ákærða, en einnig Hrefnu Sigurðardóttur, Ámunda Rögnvaldsson og Sigurð Hauk Bjarnason. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi allt frá 6. ágúst 2008.
Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af fatnaði brotaþola sem var rannsakaður af lögreglu. Kemur fram að rifa hafi verið á jakka hans, neðarlega, hliðlægt, vinstra megin á baki. Önnur rifa hafi verið á vinstri ermi, rétt ofan við olnboga. Jakkinn hafi verið blóðugur, meira þó að innanverðu en utanverðu. Sérstaklega hafi jakkinn verið blóðugur á vinstri ermi við rifurnar sem á honum voru, en einnig neðan við rifurnar.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 5. ágúst 2008 kvaðst ákærði lítið kannast við málið. Ákærði var yfirheyrður á ný 7. ágúst og viðurkenndi hann þá að hafa stungið brotaþola. Hann hefði verið með félögum sínum á Laugavegi og staðið við bifreið sem vinur þeirra ætti. Þá hefði brotaþoli gengið þar inn í hópinn og rekist utan í hann. Honum hefði einnig heyrst sem brotaþoli hefði slegið flösku í bifreiðina eða sparkað í hana, en síðan gengið burt. Kvaðst hann þá hafa gengið á eftir brotaþola sem hefði þá kastað flösku aftur fyrir sig. Áður en hann vissi hefði hann tekið upp vasahníf og hlaupið á eftir manninum. Brotaþoli hefði dottið og hann svo áttað sig á því að hann hefði stungið manninn. Næst myndi hann svo eftir sér inni í bifreið á leið heim til móður sinnar. Honum hefði liðið illa alla helgina. Hann hefði ekki getað borðað og stöðugt hugsað um það hvort hann ætti að gefa sig fram við lögreglu.
Er ákærði var yfirheyrður á ný 13. ágúst kvaðst hann muna eftir að hafa staðið yfir brotaþola og spurt sjálfan sig að því hvað hann væri að gera. Svo hefði hann áttað sig á því að hann hefð stungið manninn. Kvaðst hann í framhaldi hafa hent hnífnum í ruslatunnu, við bensínstöð Atlantsolíu við Kaplakrika í Hafnarfirði.
Hnífur sá sem ákærði segist hafa beitt við árásina hefur ekki fundist. Í gögnum málsins er upplýsingaskýrsla, þar sem þess er getið að haft hafi verið samband við fyrirtækið Atlantsolíu. Lögregla hafi ekki fengið upplýsingar um hnífinn fyrr en 11. ágúst og þá kannað málið. Lögreglumaðurinn hafi svo sjálfur kannað ruslatunnurnar en þær hafi borið með sér að hafa verið tæmdar nýlega. Starfsmaður fyrirtækisins hafi tjáð lögreglu að ruslatunnur hefðu verið tæmdar að minnsta kosti einu sinni, en hugsanlega tvisvar, eftir verslunarmannahelgi. Þyki því ljóst að hnífnum hafi verið hent.
Lagt hefur verið fram læknisvottorð Skúla Bjarnasonar, sérfræðings á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 1. ágúst 2008. Þar kemur fram að brotaþoli hafi komið á slysadeild um kl. 03.30. Hafi skoðun leitt í ljós að hann væri með sár á milli 9. og 10. rifbeins vinstra megin. Einnig hafi hann verið með sár „medialt“ á brjóstkassa. Sjúkdómsgreining hafi verið „traumatískt“ loftbrjóst, sár á brjóstvegg og sár á vinstri framhandlegg og framan við „ulna“. Tekin hafi verið tölvusneiðmynd af á upphandlegg.
Áverkum brotaþola er einnig lýst í læknisvottorði Kristins B. Jóhannssonar, sérfræðings á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, dags. 26. ágúst 2008. Kemur þar fram að við komu á slysadeild hafi sjúklingur verið með góð lífsmörk. Við skoðun á brjóstholi hafi sjúklingur verið með daufari öndunarhljóð yfir vinstri brjóstholshelmingi. Við nánari skoðun aftan á brjóstholi vinstra megin hafi hann reynst vera með 3 cm langan skurð, rétt utan við hryggsúluvöðva á móts við 9. rif. Hann hafi einnig verið með stungusár á vinstri framhandlegg, um 5 cm neðan við olnboga, þannig að stungan hafi verið beint yfir nervus ulnaris tauginni. Sárið hafi strax verið saumað af lækni á slysavarðstofu. Sneiðmynd hafi verið tekin af sjúklingi strax við komu og hafi þá komið í ljós að sjúklingur var með stungusár inn í vinstra brjósthol og inn í lungað. Hann hafi bæði verið með loft og blæðingu inn í vinstra brjósthol. Strax hafi verið sett slanga inn í vinstra brjóstholið og þá komið út 1000 ml af blóði. Brotaþoli hafi verið lítið eitt lágur í blóðþrýstingi og hafi honum strax verið gefin ein eining af blóði. Hann hafi svo verið fluttur frá slysavarðstofunni yfir á brjóstholsskurðdeild Landspítalans. Um morguninn hafi vinstra lunga verið þanið en brotaþoli lágur í blóði. Hann hafi þá fengið aðra einingu af blóði. Eftir það hafi lífsmörk verið eðlileg. Samtals hafi komið 1600 ml af blóðugum vökva úr slöngu. Ekki hafi komið meira í slönguna og hún hafi verið fjarlægð. Hinn 3. ágúst hafi lungað verið þanið. Stungusárið á afturvegg brjósthols hafi litið vel út. Við nánari skoðun á deildinni hafi komið í ljós að brotaþoli gat ekki hreyft litla fingur og illa baugfingur. Fingurnir hafi báðir verið dofnir og lamaðir. Hafi þá vaknað sterkur grunur um að taugin hefði skorist í sundur. Hann hafi því verið sendur á bæklunardeild Landspítalans í Fossvogi. Þar hafi hann gengist undir aðgerð hinn 3. ágúst og hafi þá komið í ljós mjög alvarlegur áverki á áðurnefndri taug, sem gangi út í vinstri litlafingur og vinstri baugfingur. Sú taug hafi verið í sundur og hafi hún verið saumuð saman aftur og sjúklingur settur í gifs. Brotaþoli þurfi að vera í gifsspelku í 4-5 vikur. Það geti tekið hann 1 ½ - 2 ár að fá mátt í fingur aftur.
Fyrir liggur og aðgerðarlýsing Björns G. Snæs Björnssonar, deildarlæknis á bæklunarskurðdeild Landspítalans, dags. 3. ágúst 2008. Þar er aðgerðinni lýst og kemur fram að um djúpt stungusár sé að ræða.
Þá liggur frammi vottorð Högna Óskarssonar, geðlæknis, þar sem segir að ákærði hafi þjáðst af varanlegum einkennum vefrænna heilaskemmda, sem komi fram í alvarlegum minnistruflunum og einbeitingarskorti, tíðum höfuðverkjaköstum, birtuóþoli, jafnvægisleysi og trufluðu svefnmynstri. Hjá ákærða sé að finna skýr merki um erfiðleika við stjórnun tilfinninga í formi reiðikasta, í miklum kvíða og áráttuhugsunum. Ákærði sé einnig með alvarleg einkenni áfallastreitu og þunglyndis. Ákærði hafi sjálfur orðið fyrir líkamsárás þann 7. júlí 1999. Í vottorðinu segir að atburðarásin hinn 1. ágúst, sem lýst sé í lögregluskýrslu, feli í sér mörg þau einkenni sem ákærði hafi svo sem lítið áreitisþol, stjórnlausa reiði við lítið áreiti, ótta við að verða beittur ofbeldi og gamalgróin hugsanamynstur um að þurfa að verjast með öllum ráðum.
Loks liggur fyrir vottorð frá forstöðumanni fangelsisins að Litla-Hrauni um að ákærði hafi á gæsluvarðhaldstímanum sýnt mjög góða hegðun, stundað vinnu og skóla, tekið virkan þátt í meðferðarstarfi og lýst iðrun vegna gerða sinna.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa verið á heimleið í bifreið frá veitingastaðnum Sólon með Sigurði vini sínum. Hefði hann beðið Sigurð um að stöðva bifreiðina í Bankastrætinu er þar hefðu þá verið staddir vinir hans, þau Hrefna og Ámundi. Hefðu þau öll staðið þar saman þegar brotaþolinn, Miguel, hefði gengið fram hjá. Hefði ákærða virst sem hann væri að leita að „kýtingi“. Svo hefði hann heyrt hljóð eins og lamið hefði verið eða sparkað í bifreiðina. Taldi ákærði að einhver hefði kallað á eftir brotaþola en brotaþoli hefði samt rölt í burtu. Hann kvaðst því hafa farið á eftir honum. Er hann hefði séð að brotaþoli jók hraðann hefði hann gert það sama. Þegar brotaþoli hefði verið kominn rétt fyrir neðan Stjórnarráðið hefði hann hent flösku aftur fyrir sig, í átt að ákærða, og flaskan brotnað. Kvaðst ákærði þá hafa orðið smeykur og tekið upp vasahníf sem hann hefði haft á sér. Kvaðst hann áður hafa orðið fyrir líkamsárás og jafnframt lent í vandræðum með gesti sem dyravörður á Sólon og því verið smeykur. Hefðu þeir báðir gengið mjög hratt eða hlaupið og hefði hann þá haft vasahnífinn í hendinni. Er þeir hefðu komið að porti neðarlega á Hverfisgötunni hefði brotaþoli dottið. Kvaðst ákærði þá hafa haldið á hnífnum og minnast þess að hafa í huganum spurt sig að því hvað hann væri að gera. Brotaþoli hefði svo stokkið upp og sveiflað hendinni eða olnboganum að ákærða. Hann hefði þá varið sig með því að slá hendinni frá sér og þá greinilega stungið manninn. Stungan hefði komið í bak brotaþola, eftir að hann reis upp. Brotaþoli hefði snúið baki í ákærða þegar hann reis upp aftur til þess að fara af stað. Engin orðaskipti hefðu átt sér stað á milli þeirra og kannaðist hann ekki við að hafa kallað á eftir manninum. Hann myndi þó eftir að hafa farið í ,,panic“ eftir stunguna.
Ákærði kvaðst hafa stungið brotaþola einu sinni. Aðspurður um hvernig stæði á því að brotaþoli væri með tvö stungusár sagðist hann ekki geta útskýrt það. Mögulega hefði stungusár á handlegg komið þannig til að brotaþoli hefði sveiflað handleggnum að ákærða. Hann vissi ekki til þess að hafa stungið brotaþola í handlegginn. Kvaðst hann hafa verið ölvaður umrædda nótt og hefði hann drukkið allmörg glös af vodka. Hann sagðist þó muna atburðarrásina vel.
Ákærði sagði hnífinn, sem hann hefði verið með umrætt sinn, hafa verið svartan vasahníf. Blaðið væri um fingurlengd eða svo. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa síðar hent hnífnum í rusl í Hafnarfirði. Hefði hnífurinn þá verið í hulstri, vafinn í pappír. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa hitt félaga sína eftir árásina, eða að hafa rætt um hvernig ætti að bregðast við spurningum lögreglu. Hann tryði því ekki að svo væri, en myndi það ekki. Hugsanlega hefði hann sagt að þeir ættu að segja frá atburðarrásinni eins og hún hefði verið umrætt kvöld nema hvað varðaði árásina á brotaþola. Hluti af því hefði ef til vill verið að afneita því sem gerst hefði. Hann hefði sagt lögreglu rétt frá atvikum kvöldsins eftir að hann var handtekinn, nema hvað varðaði árásina. Spurður um þann framburð vitnisins Ámunda hjá lögreglu að hann hefði séð ákærða slá í tvígang í brotaþola sagði hann framburðinn rangan. Ákærði sagðist hafi upplifað vanlíðan í kjölfar árásarinnar og hann hefði ekki getað sofið vegna hugsana um það sem hann hefði gert. Hefði hann hugsað um það hvenær hann ætti að gefa sig fram.
Vitnið og brotaþolinn Miguel Angel Sepulveda Roma kvaðst hafa verið að koma af Kaffi Cultura og hafa verið á leið niður í bæ. Hann hefði gengið niður Laugaveginn og hitt þar nokkra menn fyrir utan skemmtistaðinn Prikið. Mennirnir hefðu horft á hann illum augum og hann á móti látið þá vita að hann vildi ekkert með þá hafa að gera. Hann hefði hlaupið af stað og mennirnir þá byrjað að elta hann. Í fyrstu hefði aðeins einn maður elt hann en allt í einu hefði hópur manna hlaupið á eftir þeim manni sem elti hann sjálfan.
Vitnið greindi frá því að hann hefði allt í einu fundið fyrir sársauka og síðan hefði liðið yfir hann. Hefði hann fallið til jarðar og myndi ekki eftir sér fyrr en nokkru seinna. Hann vissi því ekki hvernig hann fékk stunguna. Hann kvaðst muna eftir að hafa dottið fyrir framan hótel sem þarna væri og að einhverjir hefðu hópast í kringum hann. Hann hefði svo risið á fætur og gengið að Kaffi Cultura. Þar hefði hann hitt fyrir vin sinn sem spurt hefði hvað hefði gerst. Hefði vinurinn og sagt honum að úr honum blæddi og kallað til lögreglu og sjúkrabíl. Kvaðst vitnið hafi fundið fyrir verk í brjóstkassa og verið tilfinningalaus í vinstri hendi. Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa slegið í bifreið líkt og ákærði hefur haldið fram. Þá mundi hann heldur ekki eftir að hafa kastað flösku en kvaðst þó ekki geta útilokað það þar sem hann hefði verið drukkinn. Vitnið sagðist aldrei hafa hitt ákærða áður.
Vitnið kvaðst hafa þurft að gangast undir aðgerð vegna handarinnar þremur dögum síðar og hefði hann legið á spítala í 5-6 daga. Lýsti hann afleiðingum árásarinnar á þann veg að hann óttaðist nú að fara í miðbæinn og að hann ætti erfitt með hreyfa litla fingur á vinstri hendi. Hann væri dofinn í hendinni og fyndi fyrir skertri hreyfigetu í vinstri hendi.
Vitnið Ámundi Rögnvaldsson kvaðst hafa verið að ljúka vakt á vinnustað sínum Sólon umrædda nótt. Eftir vaktina hefði hann gengið ásamt ákærða, Hrefnu og Sigurði niður að Hverfisgötu, þangað sem bifreiðinni sem þau voru á hefði verið lagt. Því næst hefðu þau ekið um miðbæinn og loks staðnæmst í Bankastræti. Hefðu þau staðið þar við bifreiðina þegar maður hefði gengið að henni og barið í hana. Hefði maðurinn svo litið aftur fyrir sig og kvað vitninu sér hafa fundist sem maðurinn væri að egna sig. Ákærði hefði þá spurt manninn að því hvort hann hefði barið í bílinn og hann svarað því játandi. Ákærði hefði þá kallað eftir manninum og beðið hann að stoppa. Maðurinn hefði þá brosað og haldið áfram göngu sinni. Kvaðst vitnið þá, ásamt ákærða, hafa ákveðið að elta manninn sem þá hefði byrjað að hlaupa. Á þeirri stundu hefðu þeir því talið manninn vísvitandi hafa ætlað sér að skemma bílinn. Hefðu þeir svo hlaupið út Lækjargötuna og beygt upp Hverfisgötuna á eftir manninum. Kvaðst vitnið hafa hægt ferðina vegna þreytu en ákærði hefði elt manninn alla leið að hótelinu. Þegar vitnið hefði svo komið að hótelinu hefði hann séð ákærða reyna að grípa í manninn án árangurs. Maðurinn hefði svo fallið til jarðar en staðið aftur upp og þá slegið til ákærða. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð höggið koma á ákærða. Þá hefði hönd ákærða verið í brjósthæð.
Vitnið greindi svo frá því að hann hefði séð ákærða berja manninn í tvígang í bakið. Hefði maðurinn við það fallið til jarðar en svo hlaupið í burtu. Vitnið sagðist ekki hafa séð ákærða stinga manninn, hvorki í bak hans né í hönd. Ákærði hefði sagt eitthvað við manninn þegar hann féll til jarðar en vitnið sagðist ekki muna nákvæmlega hvað það var. Að svo búnu hefðu þeir farið saman inn í bílinn og taldi hann sig þá hafa séð hnífinn hjá ákærða. Inni í bílnum hefði hann svo heyrt ákærða segja við Sigurð í órólegum tón ,,stakk hann“.
Um ástæðu þess að þeir eltu manninn sagði vitnið að þeir hefðu elt hann með það fyrir augum að halda honum þar til þeir vissu hvort dæld hefði komið í bifreiðina eða rispa á lakkið. Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki greint frá því í fjórum skýrslum hjá lögreglu að hann hefði séð manninn slá til ákærða sagðist ekki hafa verið í andlegu ástandi til að svara spurningum. Hann vissi ekki hvers vegna hann hefði ekki greint frá þessu fyrr en nú. Vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu sem réttan en þar var meðal annars haft eftir honum að ákærði hefði kallað á eftir brotaþola: „What are you going to do now?“ Vitnið greindi loks frá því að á sunnudeginum eftir þennan atburð hefðu þeir allir félagarnir fundað heima hjá honum til að ræða hvað þeir ættu til bragðs að taka. Saman hefðu þeir rætt um að búa til sögu ef lögregla myndi hafa samband við þá. Hefðu þeir ákveðið að greina frá atvikum umrædda nótt en þó með þeim hætti að þeir myndu ekki minnast á að þeir hefðu hitt brotaþola. Ákærði hefði átt þátt í því að æfa vitnið fyrir skýrslutökur með því að segja honum frá því við hverju væri að búast af hálfu lögreglu.
Vitnið Björn Guðmundur Snær Björnsson, læknir, staðfesti aðgerðarlýsingu sína. Hann sagði ölnartaug brotaþola hafa farið alveg í sundur, nokkuð neðan við olnboga. Það þýddi að öll starfsemi taugarinnar hefði fallið niður, þar með talið skyn í hluta handarinnar og ákveðnir vöðvar misst mátt. Sagðist hann hafa séð eitt stungusár á hendinni sem gæti hafa hlotist við að hnífsoddur gengi þar inn. Hefði hnífurinn gengið inn í vöðvann þar sem taugin lægi og aftur út. Taugin hefði farið í sundur skarpt og það gerðist ekki nema með skörpu áhaldi. Ágætis framför hefði orðið hjá brotaþola en batinn yrði sjaldnast fullur eftir slíkan áverka. Það lægi þó ekki endanlega fyrir fyrr en eftir 1½ til 3 ár hvort afleiðingar vegna þessa yrðu varanlegar. Gera mætti ráð fyrir að tilfinningaskortur í litla fingri og baugfingri yrði bagalegastur. Þegar taugin gréri gætu komið upp ýmis vandamál með rangt skyn, sársauka, straum og o.fl.
Þá gaf símaskýrslu Kristinn B. Jóhannsson, sérfræðingur á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans. Hann sagði brotaþola hafa verið með góð lífsmörk þegar hann kom á slysadeildina. Lýsti hann meðferð brotaþola nánar og skýrði vottorð sem hann hefur gefið vegna málsins. Sagði brotaþola hafa verið útskrifaðan 5. ágúst. Fram kom hjá vitninu að þar sem brotaþoli hefði hóstað upp blóði væri öruggt að hann hefði verið stunginn í lungað. Stungan hefði líklega ekki farið miðlægt inn í lungað. Því nær sem dragi miðlínu því hættulegri sé stunga, því þar séu stórar æðar. Ekki hefði þurft að opna manninn í skyndi því blóðið hefði komist út í gegnum slöngu. Með því að setja kerann í hefði verið unnt að stöðva blæðingu. Að öðrum kosti hefði blæðingin líklega haldið áfram. Mögulega hefði maðurinn getað látið lífið ef ekkert hefði verið að gert, þó ekki væri hægt að fullyrða um það. Ástand mannsins hefði hins vegar orðið mun verra ef hann hefði ekki komist svo fljótt undir læknishendur eins og raun varð á. Tilviljun hefði ráðið því að stungan hefði hitt manninn fyrir á þessum stað. Hefði stungan farið í stærri æðarnar hefði honum blætt út á mjög skömmum tíma. Árásin hefði að hans mati verið mjög alvarleg þar sem maðurinn hafi verið tvístunginn. Til að hnífur gæti gengið inn í bak og inn í lunga þyrfti nokkurra cm djúpa stungu. Þá hefði þurft að beita nokkru afli til að hnífurinn gæti gengið inn með þessum hætti.
Vitnið Högni Óskarsson geðlæknir staðfesti vottorð sem hann hefur gefið vegna ákærða. Sagði hann ákærða hafa verið í meðferð hjá sér frá maí til október 2004 en þá hefði ákærði hætt að mæta. Lýsti hann þeim heilaskaða og geðrænu áhrifum sem orðið hefðu vegna líkamsárásar sem ákærði hefði orðið fyrir á árinu 1999. Sagði vitnið að allt sem minnti ákærða á þann atburð gæti leitt til ýktra viðbragða og að ákærði hefði stöðugt fundið fyrir ótta um að á hann yrði ráðist. Sagði vitnið að leiða mætti líkur að því að þegar ákærði yrði fyrir áreiti, við svipaðar aðstæður eins og virtust hafa verið til staðar hinn 1. ágúst sl., gæti það framkallað mjög ýkt viðbrögð hjá honum og haft samverkandi áhrif á það sem hann gerði. Vitnið kvaðst þó ekki halda að þessi langvarandi röskun á heilastarfsemi, bæði af andlegum og vefrænum toga, gæti afsakað verknaðinn, enda hefði ákærði væntanlega verið meðvitaður um að taka hnífinn með sér. Hann hefði þó væntanlega ekki farið út til að meiða með honum heldur gripið til hans í æðiskasti. Fram kom hjá vitninu að ekkert hefði bent til þess við skoðun á árinu 2004 að ákærði væri ekki sakhæfur. Vitnið gæti hins vegar ekkert fullyrt um hvort ákærða yrði hætta búin í fangelsi en almennt séð mætti telja það líklegt. Maður sem óttist stöðugt árásir hljóti að upplifa dvöl í fangelsi sem ógnun við sitt öryggi. Varðandi þá umsögn sem fram kemur í vottorðinu, að óhætt sé að fullyrða að vefrænn og sálrænn heilaskaði ákærða hafi ráðið miklu um þá hörmulegu atburðarás sem farið hefði af stað þegar fundum ákærða og brotaþola hafi borið saman, sagði vitnið þetta í raun vera sitt klíníska mat fremur en vísindalega staðreynd og því ætti hann erfitt með að fullyrða um þetta fyrir dómi.
Niðurstaða
Ákærði játaði við þingfestingu málsins fyrir dómi að hafa stungið brotaþola eins og lýst er í ákæru, en neitaði því að um tilraun til manndráps hefði verið að ræða. Þegar skýrsla var svo tekin af ákærða við aðalmeðferð málsins dró hann nokkuð úr játningu sinni og kvaðst þá einungis hafa stungið manninn einu sinni í bakið en ekki í vinstri framhandlegg. Hefur hann fyrir dómi ekki getað gefið neina skýringu á því að brotaþoli greindist með tvö stungusár aðra en þá að mögulega hafi hún hlotist af því að brotaþoli hafi sveiflað handleggnum að ákærða. Þá skýrir ákærði stunguna í bakið með því að brotaþoli hafi stokkið á fætur og sveiflað hendinni eða olnboganum að ákærða. Ákærði hafi þá varið sig með því að slá hendinni frá sér og þá greinilega stungið manninn. Hefur ákærði þó ekki byggt á því í vörn sinni að um nauðvörn hafi verið að ræða.
Brotaþoli kveðst sjálfur ekki vita hvernig hann fékk umræddar stungur. Á flóttanum undan árásarmanninum hafi hann dottið, fundið fyrir sársauka og síðan hafi liðið yfir hann. Muni hann ekkert eftir það fyrr en hann hafi staðið upp og komist að skemmtistaðnum Kaffi Cultura þar sem vinur hans hafi sagt honum að hann væri með skurði og úr honum blæddi. Hafi hann þá fundið fyrir verk í brjóstkassa og verið tilfinningalaus í vinstri hendi.
Framburður vitnisins Ásmundar Rögnvaldssonar fyrir dómi er á þá leið að hann hafi ásamt ákærða hlaupið á eftir brotaþola umrætt sinn. Neðarlega á Hverfisgötu hafi hann hægt á ferðinni vegna þreytu. Ákærði hafi hins vegar elt manninn áfram. Vitnið hafi svo séð ákærða reyna að grípa í manninn án þess að það tækist. Við það hafi maðurinn fallið til jarðar en staðið upp aftur og þá slegið til ákærða. Kvaðst vitnið ekki hafa séð höggið koma á ákærða. Eftir það hafi hann séð ákærða berja manninn tvisvar í bakið og hafi hann þá fallið í jörðina. Hann hafi þó ekki séð ákærða beinlínis stinga manninn í hönd eða brjóst. Lýsing vitnisins í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu var hins vegar sú að ákærði hefði lyft upp vinstri hendinni og svo lamið manninn einu sinni í bakið. Hefði brotaþoli þá kippst við en síðan haldið áfram að hlaupa. Ákærði hefði þá slegið hann aftur, ofarlega í bakið, svo að maðurinn datt í götuna. Við fallið hefði hann rúllað einn hring, náð svo að stökkva aftur á fætur og hlaupa í burtu. Gaf vitnið þá skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi að hann hefði ekki verið í andlegu ástandi til að svara spurningum hjá lögreglu. Er það mat dómsins að ofangreind breyting á framburði vitnisins sé ekki trúverðug, meðal annars vegna tengsla hans við ákærða.
Með hliðsjón af þeirri játningu ákærða sem að ofan hefur verið lýst, og þegar framburðir hans, brotaþola og vitnisins Ásmundar eru metnir heildstætt, með hliðsjón af því sem fram hefur komið í vottorðum og vitnisburðum læknanna, Kristins Þ. Jóhannssonar og Björns G. Snæs Björnssonar, um að brotaþoli hafi verið með tvö stungusár, annað á afturvegg brjósthols en hitt á vinstri framhandlegg, þykir sannað að ákærði hafi í greint sinn stungið brotaþola tvívegis með hnífi eins og nánar er lýst í ákæru og með þeim afleiðingum er þar greinir.
Hnífurinn, sem ákærði beitti, hefur ekki fundist en fram kemur í framangreindum vottorðum og vitnisburðum læknanna að stungan í brjóstholið hafi gengið inn í rönd lungans og að þurft hafi að beita nokkru afli til að hnífurinn gæti gengið svo langt inn í brjóstholið, í gegnum bakið. Mögulega hefði maðurinn getað látið lífið ef ekkert hefði verið að gert og að tilviljun ein hefði ráðið því að sú stunga hitti manninn fyrir á þessum stað en ekki í stærri æðar í eða við lungað því þá hefði honum blætt út á mjög skömmum tíma. Að þessu virtu verður að telja að ákærða hafi ekki getað dulist að bani kynni að hljótast af slíkum hnífsstungum sem hér um ræðir og að hann hafi því með verknaði sínum brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvörðun refsingar, skaðabætur o.fl.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði gekkst ákærði með dómsátt á árinu 2004 undir að greiða sekt vegna fíkniefnabrots en hefur að öðru leyti ekki gerst sekur um refsiverðan verknað. Til refsiþyngingar horfir að árás ákærða var lífshættuleg og án nokkurs réttlætanlegs tilefnis. Hefur hún samkvæmt gögnum málsins valdið brotaþola alvarlegu líkamstjóni og var til þess fallin að hafa í för með sér slæmar afleiðingar fyrir andlega heilsu hans. Af hálfu ákærða er á því byggt að lækka beri refsingu ákærða með vísan m.a. til 4. tl. 74. gr. og 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og fyrr hefur verið rakið liggur fyrir í vottorði og vitnisburði Högna Óskarssonar geðlæknis fyrir dómi að ákærði hafi sjálfur orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á árinu 1999 og við það hlotið vefrænan og sálrænan heilaskaða. Komi þetta meðal annars fram í alvarlegri áráttu- og kvíðaröskun sem geti lýst sér í mjög ýktum viðbrögðum lendi hann í þeirra aðstöðu að honum finnist sér ógnað. Þegar hins vegar til þess er litið hversu lítilfjörlegt það atvik er sem virðist hafa hrundið af stað þeirri atburðarás sem lyktaði með árásinni á brotaþola, og að ákærði framdi verknaðinn eftir að hafa elt brotaþola um alllangan spöl, með hnífinn í hendi, þykir ekki vera unnt að fallast á að þau refsilækkunarsjónarmið sem lýst er í greindum ákvæðum geti átt hér við. Ekki þykir heldur unnt að fallast á að ákærði hafi af sjálfsdáðum sagt til brots síns og skýrt hreinskilnislega frá öllum atvikum hvað það varðar eins og áskilið er í 9. tl. tilvitnaðrar 74. gr.
Að því virtu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Til frádráttar refsingu kemur, með fullri dagatölu, óslitið gæsluvarðhald ákærða er hann hefur sætt frá 6. ágúst 2008.
Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 2.725.365 krónur, að viðbættum vöxtum eins og nánar er rakið í ákæru. Er bótakrafan sundurliðuð með eftirgreindum hætti:
|
1. Þjáningabætur í 60 daga, kr. 1.190 á dag, sbr. 3. gr. skaðabótal. |
kr. 71.400 |
|
2. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótal. |
kr. 1.500.000 |
|
3. Lögfræðikostnaður |
kr. 160.480 |
|
4. Bætur vegna vinnutaps |
kr. 921.255 |
|
5. Bætur v/muna sem skemmdust í árásinni |
|
|
-Jakki |
kr. 15.000 |
|
-Skór |
kr. 11.000 |
|
-Buxur |
kr. 5.900 |
|
-Bolur |
kr. 4.000 |
|
-Nærföt og sokkar |
kr. 5.000 |
|
-Farsími |
kr. 24.000 |
|
6. Kostnaður v/læknisþjónustu |
kr. 7.240 |
|
Samtals |
kr. 2.725.365 |
Til stuðnings 1. kröfulið er vísað til læknisvottorða sem sýni að brotaþoli hafi verið illa farinn og hafi hlotið lífshættulega áverka eftir árásina. Í málinu nýtur þó ekki við læknisfræðilegra gagna um hvenær heilsufar brotaþola var orðið stöðugt í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga í kjölfar árásarinnar. Verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi.
Varðandi 2. kröfulið er af hálfu brotaþola vísað til þess hversu ófyrirleitin aðförin að honum hafi verið. Hafi hann hlotið mjög alvarlega líkamlega áverka og m.a. þurft að gangast undir skurðaðgerð vegna þeirra. Þá hafi hann og þurft að glíma við miklar andlegar afleiðingar í kjölfar árásarinnar, upplifa mikinn kvíða og öryggisleysi. Að virtum málsatvikum þykir brotaþoli eiga rétt á miskabótum skv. 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 800.000 krónur.
Lögmaður brotaþola var skipaður réttargæslumaður hans við meðferð málsins fyrir dómi og verður honum því ákveðin réttargæsluþóknun eins og síðar verður rakið.
4. kröfuliður er rökstuddur með því að brotaþoli hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga árásarinnar og verði það í a.m. k. í fjóra mánuði eftir árásina. Engin gögn hafa verið lögð fram frá vinnuveitanda sem staðfesta að brotaþoli hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi.
Með hliðsjón af ljósmyndum sem fyrir liggja í málinu af skemmdum á fatnaði brotaþola þykir mega fallast á að honum verði bætt tjón á jakka, buxum, skóm og bol. Hins vegar liggja ekki fyrir gögn um skemmdir á farsíma, nærfötum og sokkum. Þykja bætur vegna framangreinds hæfilega ákveðnar 25.000 krónur.
Einungis liggja fyrir kvittanir vegna kostnaðar við læknisþjónustu brotaþola samtals að fjárhæð 4.240 krónur og verður ákærða gert að greiða honum þá fjárhæð. Samkvæmt framanrituðu verður ákærða því gert að greiða brotaþola samtals 829.240 krónur ásamt vöxtum eins og nánar er tilgreint í dómsorði.
Dæma ber ákærða til að greiðan allan sakarkostnað málsins, 1.016.233 krónur, þar með talin 772.149 króna réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlends Þórs Gunnarssonar hdl., 35.000 króna útlagðan kostnað verjandans vegna álitsgerðar og 153.384 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur, settum vararíkissaksóknara.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Sævar Sævarsson, sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 6. ágúst 2008.
Ákærði greiði Miguel Angel Sepulveda Roma 829.240 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til 25. september 2008 en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.016.233 krónur, þar með talin 772.149 króna réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlends Þórs Gunnarssonar hdl., 35.000 króna útlagðan kostnað verjandans vegna álitsgerðar og 153.384 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl.