Hæstiréttur íslands
Mál nr. 552/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. ágúst 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur sunnudaginn 31. júlí 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. ágúst nk., kl. 16.00, og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð kemur fram að 31. júlí 2016 hafi lögregla fengið upplýsingar frá Neyðarlínunni um að óskað hefði verið eftir sjúkrabifreið að [...], Reykjavík, vegna hugsanlegrar nauðgunar á stúlku. Stuttu síðar hafi borist tilkynning að kærði, X, væri staddur í [...] úti í sjó og ætlaði að drekkja sér í [...] vegna þess að hann ætti yfir höfði sér ákæru fyrir nauðgun.
Lögreglumenn hafi farið á vettvang að [...] þar sem húsráðandi, A, hafi tekið á móti þeim og sagt að inni hjá sér væri stúlka sem hefði verið nauðgað af kærða. Inni í húsinu hafi lögreglumenn hitt fyrir brotaþola, B, kt. [...]. Í skýrslu lögreglu komi fram að hún hafi verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hún hafi tjáð lögreglu að kærði sem hún þekkti ekki mikið hefði nauðgað sér skömmu áður. Hún hafi sagt kærða hafa lamið sig og hent sér í veggi. Þá hafi hann neytt hana til að eiga við hann munnmök, „totta sig“ og síðan hafi hann einnig nauðgað henni. Hún segist hafa öskrað eins og hún hafi getað á hjálp og á einhverjum tímapunkti hafi þeir sem voru í samkvæminu lamið á hurðina hjá þeim en kærði hafi þá haldið fyrir munn hennar og sagt að þetta væri í lagi. Þá hafi kærði einnig reynt að kyrkja hana. Þá komi fram í frumskýrslu lögreglu að brotaþoli hafi losnað frá kærða og komist út og hlaupið allsnakin yfir í húsið þar sem fólkið hafi verið. Þá hafi brotaþoli verið með sjáanlega áverka í andliti, sprungna efri og neðri vör auk þess sem hún hafi verið aum í öllum líkamanum.
Brotaþoli hafi síðan verið flutt á neyðarmóttöku í sjúkrabifreið.
Lögreglumenn hafi séð kærða þar sem hann hafi staðið í flæðamálinu í [...] neðan [...]. Kærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi og talað um að hann væri of vondur fyrir þennan heim. Kærði hafi í sífellu talað um að hann þyrfti að tala við geðlækninn sinn vegna þess að hann væri hættulegur. Þá hafi hann talað um að hann vildi taka líf sitt og að hann hefði ekki áhuga á að lifa lengur í þessum heimi.
Í frumskýrslu komi fram að vitni hafi sagt brotaþola og kærða, X hafa mætt í samkvæmið. Skyndilega hafi vitnið og aðrir heyrt mikil öskur í kvenmanni og hafi þeim ekki litist á það því það hafi líkst því að verið væri að ganga í skrokk á henni. Þeir hafi síðan áttað sig á því að þetta hafi komið frá herberginu í bílskúrnum. Þegar lamið hafi verið á herbergishurðina og beðið hafi verið um að opna dyrnar hafi kærði svarað úr herberginu að þetta væri allt í lagi þau væru bara að stunda kinkí kynlíf. Angistarópin í brotaþola hafi verið slík að þetta hafi ekki verið tekið trúanlegt. Skyndilega hafi brotaþoli komið hlaupandi inn í hús allsnakin og hágrátandi og kærði sést fara frá húsinu. Í framhaldinu hafi verið haft samband við Neyðarlínuna.
Í framburðarskýrslu af brotaþola, B, komi fram að hún og kærði, X, hafi þekkst í u.þ.b. ár og hafi mælt sér mót í [...] í [...] og hann ætlað að fara með hana í partí einhvers staðar í [...]. Þau hafi hins vegar farið í [...] í [...]. Þau hafi farið inn í herbergi þar sem hann hafi sagt henni að hann vildi bara tala við hana. Þegar inn hafi verið komið hafi kærði hins vegar klætt hana úr fötunum þrátt fyrir mótmæli hennar. Kærði hafi tekið hana hálstaki og hótað að hálsbrjóta hana ef hún öskraði. Kærði hafi gripið um háls hennar með báðum höndum og neytt hana til þess að veita sér munnmök. Hún hafi öskrað nokkrum sinnum. Þá hafi hálstakið verið svo fast að hún hafi ekki náð að anda á meðan auk þess sem hann hafi troðið lim sínum langt inn í kok hennar. Þá hafi hann auk þessa snert kynfæri hennar og farið með fingur inn í þau þrátt fyrir mótmæli hennar. Hann hafi einnig hótað því að brjóta á henni hausinn ef hún hefði þennan hávaða en hún hafi öskrað þegar hún hafi getað á meðan á þessu öllu hafi staðið. Kærði hafi einnig haldið henni niðri á gólfinu og haldið fyrir vit hennar þannig að hún hafi ekki náð að anda. Hún hafi síðan náð að losa sig og hlaupa allsnakin út úr herberginu rakleiðis inn í stofu í húsinu þar sem allir hafi verið. Brotaþoli segist margsinnis hafa sagt kærða að hætta auk þess sem hún hafi grátið en kærði hafi alltaf haldið áfram. Þá hafi komið fram að brotaþola hafi liðið mjög illa á meðan á þessu hafi staðið og haldið að hún væri að deyja þegar kærði hafi ítrekað þrengt að hálsi hennar, jafnframt því sem kærði hafi í einhver skipti tekið fyrir munn hennar og nef. Þá hafi brotaþoli sagt að liðið hafi yfir hana í smástund þegar kærði hafi þrengt að hálsi hennar.
Mál 008-2016-9899.
Þá megi sjá í dagbók lögreglu mál 008-2016-9899 þar sem kærði sé grunaður um kynferðisbrot gegn ungri stúlku fæddri árið [...] fyrir nokkrum dögum, eða mánudaginn 25. júlí sl. Fram komi í dagbók lögreglu að X hafi fengið viðtal við lækni og að hann eigi pantað inn á göngudeild geðdeildar þann 9. eða 10. ágúst.
Í NM-gögnum kemur fram að brotaþoli hafi verið með áverka á hálsi, bak við eyru og á brjósti.
Kærði hafi neitað sök í skýrslutöku. Hann hafi sagt að þau hafi haft samfarir og hann hafi sett fingur í leggöng hennar. Kærði hafi tekið fram að hann hafi verið svo ölvaður að hann hafi ekki getað fengið sáðlát. Svo hafi gerst eitthvað dramatískt, hún hafi hlaupið út úr herberginu nakin og hann hlaupið út í sjó og ætlað að fremja sjálfsvíg. Kærði neiti að hafa beitt ofbeldi. Varðandi áverka hennar kveði kærði þá geta verið vegna nauðgunar sem hún hafi orðið fyrir í síðustu viku af öðrum strák. Kærði hafi ekki getað skýrt það frekar. Kærði fullyrði að brotaþoli hafi veitt samþykki sitt og sagt já að hún vildi ríða.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Það liggi fyrir lögreglu að yfirheyra brotaþola og sakborning frekar, auk þess sem taka þurfi frekari skýrslur af vitnum.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggi kærði nú undir undir rökstuddum grun um að hafa nauðgað brotaþola, B, að [...], Reykjavík. Þyki því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi með því að varna því að ákærði gangi laus en veruleg hætta sé á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif, ef hann fái að fara frjáls ferða sinna.
Ætlað sakarefnið sé einkum talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b-liðar 1. mgr 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða:
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.
Af því sem fram hefur komið fyrir dómi þykir ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Ætla má að kærði muni reyna að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á vitni og brotaþola. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Eins og máli þessu er háttað koma önnur úrræði ekki í stað gæsluvarðhaldsins. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Þá hefur sækjandi fært að því fullnægjandi rök, sbr. og skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi standi.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. ágúst nk,. kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.