Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2004
Lykilorð
- Vátrygging
- Viðurkenningarmál
|
|
Föstudaginn 18. júní 2004. |
|
Nr. 93/2004: |
Jón Friðgeir Þórisson (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vátrygging. Viðurkenningarmál.
J krafði V um bætur úr slysatryggingu F+ fjölskyldutryggingar vegna slyss sem hann varð fyrir, er hann féll niður af brú þar sem hann gekk á kanti hennar og niður á hellulagða gangstétt. J kvaðst hafa drukkið 2-3 bjóra fyrir slysið en bar fyrir sig minnisleysi um atburðinn. Þegar aðstæður á vettvangi voru virtar þóttu ekki aðrar rökréttar skýringar á slysi J, en að hann hafi annaðhvort sjálfur klifrað yfir grindverkið á umræddri brú og fallið eða kastað sér niður, eða að hann hafi verið að ganga á öðrum hvorum þeim kanti sem voru ofan á og utan með grindverkinu, og fallið þannig niður fyrir slysni. Slík háttsemi teldist til stórfellds gáleysis í skilningi skilmála tryggingarinnar. Var V því sýknað af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. febrúar 2004. Hann krefst þess, að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta úr slysatryggingu F+ fjölskyldutryggingar hjá stefnda vegna slyss, sem hann varð fyrir 8. maí 1999. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 13. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Friðgeiri Þórissyni, kt. 120572-4159, Kríuási 19, Hafnarfirði, með stefnu birtri 23. desember 2002 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu bóta úr slysatryggingu F+ fjölskyldutryggingar hjá stefnda vegna slyss, sem stefnandi varð fyrir þann 8. maí 1999. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.
II.
Málavextir:
Málavextir eru þeir, að stefnandi var staddur í Dresden þann 8. maí 1999. Um kl. 2100 að kvöldi þess dags kveðst hann hafa hitt félaga sinn á matsölustað, þar sem þeir hafi borðað fram eftir kvöldi og drukkið tvo til þrjá bjóra. Í stefnu er haft eftir stefnanda, að um kl. 0200 eftir miðnætti hafi hann farið í gönguferð og gengið yfir brú, sem liggur yfir ána Elbe. Skyndilega hafi hann fallið af brúnni, þar sem hann gekk á kanti hennar, og niður á hellulagða gangstétt. Stefnandi mun hafa legið í um þrjá klukkustundir á slysstað, áður en hans varð vart, og var hann þá fluttur á sjúkrahús. Kveðst hann í reynd lítið muna, hvað gerðist eftir fallið. Hann hlaut alvarlega áverka við fallið, þ.m.t. höfuðhögg, hryggbrot og meiðsli á báðum ökklum og hægri hendi.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi selt honum sérstaka tryggingu, sem bæta eigi tjón á líkama við aðstæður sem þessar, svonefnda F+ fjölskyldutryggingu. Að sögn stefnda mun faðir stefnanda skráður fyrir tryggingu þessari, en ekki er ágreiningur um, að tryggingin taki til stefnanda. Stefndi kveðst hafa hafnað bótaskyldu með vísan til 4. gr. VII. kafla (sic. í grg.) skilmála F+ fjölskyldutryggingarinnar, sem fjalli um ásetning, stórkostlegt gáleysi og ölvun.
Stefnandi skaut ágreiningi aðila til tjónanefndar vátryggingafélaganna með greinargerð, dags. 22. marz 2001. Niðurstaða nefndarinnar var sú, að bótaréttur væri ekki fyrir hendi vegna stórkostlegs gáleysis. Stefnandi skaut málinu því til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sbr. mál nr. 70/2001, sem komst að þeirri niðurstöðu, að umræddur tjónsatburður væri bótaskyldur úr slysatryggingu F+ fjölskyldutryggingar. Með bréfi, dags. 3. maí 2001, tilkynnti stefndi stefnanda, að hann hygðist ekki hlíta úrskurði nefndarinnar í þessu máli.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að hann hafi keypt F+ fjölskyldutryggingu frá stefnda og eigi, í samræmi við skilmála tryggingarinnar, rétt til slysatryggingabóta vegna slyss, sem hann varð fyrir þann 8. maí 1999. Um fjárhæð slysatryggingabóta fari eftir skilmálum, sem í gildi voru á tjónsdegi.
Stefnandi kveður tjónsatburðinn hafa verið slys í skilningi skilmála slysatrygginga F+ fjölskyldutryggingar. Stefnandi hafi verið á gangi á brú, er hann féll skyndilega við og lenti á gangstétt. Engin vitni hafi verið að atburðinum. Stefnandi hafi hlotið alvarleg meiðsli af, bæði meiðsli á höfði, hryggbrot, meiðsli á báðum ökklum og hægri hendi. Í samræmi við hefðbundna skilgreiningu slysahugtaksins, svo og í samræmi við skilmála slysatryggingar F+ fjölskyldutryggingar, eigi stefnandi ótvíræðan rétt til slysabóta, sbr. dskj. nr. 10. Stefnandi mótmæli því alfarið, að hann hafi sýnt af sér gáleysi, hvorki einfalt gáleysi né stórkostlegt gáleysi, í tengslum við tjónsatburð. Þannig sé sú fullyrðing, sem stefndi hafi byggt á fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, þess efnis, að stefnandi hafi gengið á brúarhandriði, bæði efnislega röng og hafi auk þess einungis að geyma útúrsnúning stefnda á lýsingum stefnanda. Hafi stefndi hvorki fært sönnur á né leitt líkum að staðhæfingum sínum þessa efnis. Þá hafi stefndi virt að vettugi allar skýringar stefnanda í máli þessu og haldið fast við eigin túlkanir á málavöxtum, án þess þó að hafa gert tilraun til að kanna ummerki á tjónsstað eða aðstæður þar að öðru leyti.
Af hálfu stefnanda sé enn fremur á því byggt, að hann hafi ekki verið ölvaður, þegar tjónsatburður varð. Í því sambandi bendi stefnandi á, að fyrir liggi gögn frá sjúkrahúsi því, sem hann var lagður inn á, sbr. dskj. nr. 4. Hvorki í nefndum sjúkraskýrslum né í öðrum gögnum málsins liggi fyrir, hvort, og þá hve mikið, magn áfengis hafi verið í líkama stefnanda, þegar slysið varð. Í því sambandi vísist enn fremur til skýrslu Stephans Müller, sbr. dskj. nr. 5. Af framangreindu verði ráðið með óyggjandi hætti, að tjónsatburð hafi ekki verið að rekja til ölvunar. Þá byggi stefnandi enn fremur á því að leggja beri frásögn hans af tjónsatburði til grundvallar við úrlausn máls þessa, enda liggi ekkert fyrir í máli þessu, sem hreki þá frásögn eða leiði líkum að annarri atburðarrás. Af hálfu stefnanda sé því alfarið mótmælt, að staðhæfingar og útúrsnúningur stefnda á skýringum hans verði lögð til grundvallar við úrlausn þessa máls. Byggi stefnandi á því, að stefndi verði að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda liggi fyrir, að stefnandi hafi orðið fyrir slysi, sem sé bótaskylt úr áðurnefndri slysatryggingu F+ fjölskyldutryggingu hjá stefnda.
Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að af framangreindu megi ráða, að hann hafi hvorki valdið slysinu af ásetningi né stórkostlegu gáleysi, eða að slys þetta megi rekja að einhverju leyti til ölvunar. Slíkar staðhæfingar séu getgátur og hugarburður stefnda og eigi ekki við nein rök að styðjast. Stefnandi vísi enn fremur til samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, sbr. t.d. 36. gr. þeirra, varðandi álitaefni, sem varði vátryggingarskilmála, túlkun þeirra o.fl. Bendi stefnandi á í því sambandi, að allan hugsanlegan vafa í máli þessu beri að túlka honum í hag.
Stefnandi vísar til laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Þá vísar hann til meginreglna kröfuréttar. Þá vísar stefnandi til ákvæða samningalaga nr. 7/1936, sbr. t.d. 36. gr. þeirra. Stefnandi vísar enn fremur til skilmála slysatrygginga F+ fjölskyldutrygginga hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Um málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess, að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu stefnanda, þegar hann datt fram af brú niður um 10 metra.
Eins og komi fram í málavaxtalýsingu hér að ofan, hafi stefnandi ekki skýrt út, hvað hann eigi við í tilkynningu um slysið til stefnda, dskj. nr. 12, þar sem segi, að hann hafi gengið á kantinum og fallið niður. Miðað við orðanna hljóðan og aðstæður á vettvangi sé ljóst, að stefnandi hafi gengið á brúarkantinum eða viðhaft einhverja þá háttsemi, sem leiddi til slyssins. Ekkert utanaðkomandi virðist hafa valdið slysinu. Í tilkynningunni, dskj. nr. 12, segi ekki, að stefnandi hafi gengið út í kanti brúarinnar eða við kant brúarinnar, heldur segi skýrlega, að hann hafi gengið á kantinum. Engin hætta stafi af því að ganga út við kant brúarinnar og því mjög ólíklegt, að stefnandi hafi verið þar á gangi og skyndilega fallið niður af brúnni fram yfir brúarhandrið, sem sé u.þ.b. einn metri á hæð. Meta verði trúverðugleika þess, að fullorðinn maður falli skyndilega niður af brú fram yfir eins metra brúarhandrið, án þess að annað og meira komi til. Langlíklegast sé, að stefnandi hafi gengið á brúarhandriðinu eða veggnum og fallið niður af þeim sökum. Hafa verði í huga, að stefnandi sé einn til frásagnar um atvikið. Myndirnar, sem stefnandi hafi látið taka fyrir stefnda, sem hafi átt að sýna umræddan kant, sýni brúarhandriðið og vegginn. Ljóst sé, að stefnandi hefði látið taka öðruvísi myndir, ef umræddi kantur væri ekki handrið eða veggur brúarinnar. Meta verði heildstætt allar aðstæður, aðdraganda og gögn málsins við mat á líklegri atburðarrás, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þetta sé staðfest í Ufx: 1999, bls. 1706H, þar sem maður hafi verið talinn hafa klifrað upp á þak og fallið niður, án þess að nokkurt vitni væri að atburðinum.
Það að ganga á brúarhandriði eða vegg, sem sé í eins metra hæð, þar sem u.þ.b. 10 metrar séu niður til jarðar, sé augljóslega stórkostlegt gáleysi. Stórkostlegt gáleysi hafi stundum verið skilgreint sem sérstaklega ámælisvert frávik frá venjulegri háttsemi, þar sem líkur aukist á tjóni. Stefnanda hafi mátt vera ljóst, að hann væri að stofna lífi sínu í hættu með þessu athæfi. Stefnandi hafi samkvæmt þessu lagt sig í óþarfa hættu, og verði að telja háttsemi hans jafngilda stórkostlegu gáleysi, sbr. skilmála F+ fjölskyldutryggingarinnar, dskj. nr. 14. og 18. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sbr. einnig 124. gr. Sambærileg háttsemi hafi verið talin stórkostlegt gáleysi í fyrrgreindum Ufx: 1999, bls. 1706H.
Stefnandi viðurkenni að hafa drukkið tvo til þrjá bjóra um kvöldið, en ljóst sé, að slíkt magn af áfengi slævi dómgreind manna. Sé ekki ólíklegt, að þessi áfengisdrykkja hafi haft áhrif á, að slysið gerðist. Sé litið til aðdraganda slyssins, aðstæðna og þeirrar staðreyndar, að stefnandi hafi ekki upplýst nægilega um atvik málsins, verði að ætla, að stórkostlegt gáleysi hans eða ölvun hafi valdið slysinu. Því verði enn fremur að hafna bótaskyldu félagsins með vísan í 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga og 4. tl. 8. gr. IV. kafla skilmála F+ fjölskyldutryggingarinnar, dskj. nr. 14.
Samkvæmt 22. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/ 1954 beri vátryggða að veita allar þær upplýsingar, er honum sé unnt að veita um atvik, er máli kunni að skipta, er dæma skuli um vátryggingaratburðinn. Ósannað sé, að stefnandi hafi gert það, sem í valdi hans sé, til að upplýsa málið. Eðli málsins samkvæmt hljóti lögregluskýrsla að hafa verið gerð, enda hafi verið um alvarlegt slys að ræða. Lögregluskýrsla myndi varpa ljósi á atburðarrásina, en hún hafi, að sögn stefnanda, ekki fundizt. Mjög ólíklegt verði að teljast, að lögregluskýrsla um svona alvarlegt slys finnist ekki. Stefnandi hafi verið skyldugur samkvæmt þessu til að afla allra gagna, þannig að stefndi gæti metið vátryggingaratburðinn.
Við mat á sönnunargildi vitnisburðar Stephans Müller, dskj. nr. 5, verði að hafa í huga, að hann sé, eða hafi verið, góður félagi stefnanda. Verði því að ætla, að yfirlýsing hans hafi mjög takmarkaða þýðingu í málinu.
Stefnandi vísi til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 í stefnu. Því sé algerlega hafnað, að 36. gr. samningalaga eigi við, enda sé enginn vafi um orðalag eða túlkun skilmála vátryggingarinnar. Í 4. gr. VII. kafla skilmála F+ fjölskyldutryggingarinnar sé skýrlega tekið fram, að bótaréttur vátryggðs falli niður, ef um ásetning, stórkostlegt gáleysi eða ölvun hans sé að ræða, sbr. einnig 18.-20. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Enn fremur sé því mótmælt, að umrætt ákvæði skilmálanna sé ósanngjarnt eða í ósamræmi við góðar viðskiptavenjur.
Kröfur um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann eigi bótarétt úr F+ fjölskyldutryggingu, sem keypt var í nafni föður hans, en ekki er ágreiningur um, að tryggingin taki til stefnanda. Stefndi hefur hafnað bótaskyldu með vísan til ákvæða í tryggingaskilmálunum, sem kveða á um undanþágu félagsins frá bótaskyldu, þegar vátryggður hefur valdið tjóninu af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur vitnin Stephan Müller og Hinrik Hermannsson, fulltrúi í tjónadeild stefnda.
Í stefnu er málavöxtum lýst svo, að slysið hafi orðið með þeir hætti, að stefnandi hafi verið á gangi á kanti brúarinnar, þegar hann féll skyndilega af henni niður á hellulagða gangstétt. Sú málavaxtalýsing er í samræmi við þá málavexti, sem hafðir eru eftir stefnanda í tjónaskýrslu á dskj. nr. 12.
Fyrir dómi skýrði stefnandi hins vegar svo frá, að hann myndi ekkert frá slysinu og myndi það eitt frá umræddu kvöldi, að hann hefði verið, ásamt vinum sínum á árbakka Elbe, þar sem þeir hafi verið fram eftir kvöldi og grillað, og hefði stefnandi drukkið þar 2-3 bjóra. Um miðnætti hefði verið haldið á spænskan veitingastað, og þar kvaðst stefnandi muna síðast eftir sér, allt þar til hann rankaði við sér fyrir neðan Marienbrücke, brú, sem liggur yfir ána Elbe. Þar hafi honum tekizt að gera vart við sig, og var hann því næst fluttur með þyrlu á sjúkrahús.
Vitnið, Stephan Müller, einn af vinum stefnanda, sem var með honum að skemmta sér umrædda nótt, skýrði svo frá m.a., að stefnandi hefði drukkið 2-3 bjóra niðri við ána Elbe, og e.t.v. 1 bjór á spænska veitingastaðnum. Eftir að hafa haft stutta viðdvöl á spænska staðnum hefði verið farið á diskótek. Vitnið gat hins vegar ekki fullyrt, hvort stefnandi hefði drukkið eitthvað meira síðar um kvöldið, enda hefði hann ekki verið við hlið hans allan tímann, þetta hefði verið stór hópur saman að skemmta sér. Um nóttina hefði leiðir skilið og vitnið hefði haldið heim til sín, en stefnandi hefði ætlað eitthvað annað. Hann kvað hins vegar rangt haft eftir sér í skýrslu hjá Landeskriminalamt Sachsen, að stefnandi hefði verið undir greinilegum áfengisáhrifum (offenbar erheblich alkoholisiert), þegar leiðir þeirra skildi um nóttina. Hann minntist þess ekki, að stefnandi hefði verið áberandi ölvaður. Aðrar upplýsingar um áfengisneyzlu stefnanda umrædda nótt liggja ekki fyrir í málinu og verður ekki á því byggt, að áfengisneyzla hans hafi verið meiri en fram hefur komið.
Það er ljóst, að engin vitni voru að slysi stefnanda, og enginn til að bera um, hvernig það átti sér stað, ef litið er til þess, að stefnandi ber fyrir sig minnisleysi um atburðinn. Stefnandi hefur lagt fram ljósmyndir, sem hann tók og lét taka af slysstaðnum og brúnni. Samkvæmt myndunum, sem og samkvæmt lýsingu stefnanda á aðstæðum, er girðing meðfram brúnni, nokkuð há, yfir einn metri á hæð. Er ekki annað að sjá en að girðingin sé órofin meðfram brúnni þar sem slysið varð. Ofan á grindverkinu er flatur kantur eða brún, sem gæti af myndum að dæma verið á að gizka 20-25 cm á breidd. Þá er ámóta breiður kantur meðfram grindverkinu utanverðu u.þ.b. í götuhæð. Um annan kant sýnist ekki vera að ræða þarna. Af myndum að dæma verður að telja útilokað, að stefnandi hafi getað fallið af brúnni skyndilega án utanaðkomandi áhrifa yfir grindverkið og niður á stétt fyrir neðan brúna, svo sem haft er eftir honum í stefnu og tjónaskýrslu, nema með því að hann hafi haft fyrir því sjálfur. Engar vísbendingar er að finna í gögnum málsins um átök eða önnur utanaðkomandi öfl, sem gætu hafa valdið því, að stefnandi kastaðist yfir grindverkið, og er því reyndar ekki haldið fram í sóknargögnum, að svo hafi verið. Með það í huga sýnast ekki aðrar skynsamlegar eða rökréttar skýringar á slysi stefnanda vera fyrir hendi en að hann hafi annaðhvort sjálfur klifrað yfir grindverkið og fallið eða kastað sér niður, eða að hann hafi verið að ganga á öðrum hvorum þeim kanti, sem lýst er hér að framan, þ.e. ofan á grindverkinu eða utan við það, og fallið þannig niður fyrir slysni. Slík atburðarás kemur heim og saman við upphaflega atburðalýsingu stefnanda sjálfs, og þykir rétt að leggja hana til grundvallar við niðurstöðu í máli þessu, enda ekki sýnt fram á eða gert sennilegt, að nokkur önnur skýring sé á slysi hans. Má fallast á með stefnda, að það athæfi að ganga á kanti grindverksins eða kantinum utan við grindverkið að næturlagi í myrkri, eins og aðstæðum er háttað þarna, telst stórfellt gáleysi í skilningi tryggingarskilmálanna, hvort heldur sem stefnandi var undir áfengisáhrifum eða ekki. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jóns Friðgeirs Þórissonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.