Hæstiréttur íslands

Mál nr. 402/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                                                                                 

Þriðjudaginn 5. október 1999.

Nr. 402/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. desember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdóms til að fá hann felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með bréfi til héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1999 gerði sóknarðili kröfu um að varnaraðili, með kennitölu [...] og lögheimili að [...] í Reykjavík, yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. desember nk. kl. 16. Efni bréfsins er annars tekið að verulegu leyti orðrétt upp í hinum kærða úrskurði. Þegar krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi sama dag neitaði varnaraðili með öllu að tjá sig um málið, svo og um hvort hann óskaði eftir að sér yrði skipaður verjandi.

Með vísan til þess, sem greinir í hinum kærða úrskurði, má fallast á það með héraðsdómara að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila, svo og að því sé þar markaður hæfilegur tími. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði er sem fyrr segir rakið orðrétt úr kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald og með stuttum rökstuðningi tekin afstaða til hennar, í stað þess að greina frá aðild að málinu, kröfu sóknaraðila og afstöðu varnaraðila til hennar, ásamt því að lýsa sjálfstætt helstu atvikum og röksemdum, sem færðar voru fyrir kröfunni.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1999.

Í greinargerð lögreglu kemur eftirfarandi fram:

[...]

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er þess beiðst að framangreind krafa nái fram að ganga.

Með vísan til rannsóknargagna og í ljósi þess hve umfangsmikið mál þetta er sem hér er til rannsóknar svo og til þess að rannsókn málsins telst enn vera á frumstigi er, með vísan til a-liðar 1 mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, fallist á gæsluvarðhaldskröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Sakborningur, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. desember 1999 kl. 16:00.