Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/1998
Lykilorð
- Skaðabætur
- Bifreið
- Líkamstjón
- Ölvunarakstur
- Áhættutaka
|
|
Fimmtudaginn 21. janúar 1999. |
|
Nr. 210/1998. |
Þröstur Sigmundsson (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Svanhvíti Helgu Sigurðardóttur og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Skaðabætur. Bifreiðir. Líkamstjón. Ölvunarakstur. Áhættutaka.
Þ slasaðist er bifreið, sem hann var farþegi í, fór út af vegi og valt. Ökumaður bifreiðarinnar var ölvaður. Þ stefndi eiganda bifreiðarinnar og tryggingafélagi hans til greiðslu skaðabóta vegna slyssins. Grandsemi Þ um ölvunarástand ökumannsins talin sönnuð og því fallist á að Þ hefði tekið á sig áhættu með því að fara upp í bifreiðina. Deilt var um hvernig skýra bæri breytingar, sem gerðar voru með XIII. kafla laga nr. 50/1987 að því er varðar fébætur og vátryggingu. Talið að með fyrri dómi Hæstaréttar, hafi verið leyst úr því, að ekki hafi átt að breyta með lögunum eldri dómvenju varðandi áhættutöku við þær aðstæður að farþegi slasast í bifreið, sem stjórnað var af ölvuðum ökumanni. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu var því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 1998. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða óskipt 13.068.280 krónur með tilgreindum ársvöxtum frá 24. júní 1993 til 29. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að hver aðili beri þá sinn kostnað af málinu.
I.
Áfrýjandi ber meðal annars fyrir sig, að stefndu hafi í greinargerð fyrir héraðsdómi ekki haldið fram að áfrýjandi hafi firrt sig bótarétti með því að taka áhættu af því að setjast upp í bifreið með ökumanni, sem hann vissi eða mátti vita að væri ófær um að stjórna henni vegna ölvunar. Þessi málsástæða hafi fyrst komið fram af hálfu stefndu við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi. Kveðst áfrýjandi þá hafa mótmælt því að hún kæmist að, þar eð hún væri of seint fram komin og séu þau mótmæli ítrekuð hér fyrir dómi. Telur hann að stefndu hafi í skriflegri málsvörn sinni einungis vísað til þess að áfrýjandi hafi glatað bótarétti vegna stórkostlegs gáleysis, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Mótmælir áfrýjandi því jafnframt að hafa sýnt stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn. Jafnvel þótt komist yrði að niðurstöðu um að svo hafi verið, geti það samt ekki leitt til algers missis bótaréttar, en með setningu 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga hafi gagngert verið stefnt að því meðal annars að breyta áðurgildandi reglum um réttarstöðu farþega, sem slasast í bifreið með ölvuðum ökumanni.
Stefndu mótmæla staðhæfingu áfrýjanda um að málsástæða þeirra um áhættutöku hans, sem leiða eigi til sýknu í málinu, hafi ekki komið fram í greinargerð þeirra í héraði. Að öðru leyti styðja stefndu kröfur sínar sömu rökum og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi.
Fallist verður á með stefndu, að málsástæða um áhættutöku áfrýjanda, sem eigi að leiða til sýknu, komi nægilega fram í greinargerð þeirra fyrir héraðsdómi. Er hún því ekki of seint fram borin til varnar gegn kröfum áfrýjanda.
II.
Með dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1996, bls. 3120, var leyst úr máli, þar sem reyndi meðal annars á hvernig skýra bæri breytingar, sem gerðar voru með XIII. kafla laga nr. 50/1987 að því er varðar fébætur og vátryggingu. Var skorið þar úr um hvort breyta hafi átt með lögunum eldri dómvenju varðandi áhættutöku við þær aðstæður að farþegi slasast í bifreið, sem stjórnað var af ölvuðum ökumanni. Í ljósi þessa fordæmis og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ekki komist hjá að staðfesta niðurstöðu hans um sýknu stefndu.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 1998
Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þresti Sigmundssyni, kt. 160972-3949, Skólabraut 2, Grindavík, á hendur Svanhvíti Helgu Sigurðardóttur, kt. 201076-4049, Engjaseli 63, Reykjavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu birtri 12. júní 1997.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt kr. 13.068.280 með ársvöxtum sem hér segir: 1,00% frá 24.6. 1993 til 11.8. s.á, 1,25% frá þeim degi til 11.11. s.á., 0,5% frá þeim degi til 1.6. 1995, 0,65% frá þeim degi til 29.8.1996. Með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim verði jafnframt dæmdur málskostnaður að skaðlausu, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 12. febrúar sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en dómur var kveðinn upp.
I. Atvik máls og ágreiningsefni.
Málsatvik eru þau að um hádegisbilið þann 24. júní 1993 fór stefnandi ásamt skipsfélögum sínum þeim Kristjáni Ásgeirssyni og Einari Kristni Þorsteinssyni frá Grindavík til Reykjavíkur í þeim tilgangi að skemmta sér. Þeir hófu áfengsdrykkju síðdegis og voru síðan við drykkju á veitingastöðum í Reykjavík um kvöldið. Um kvöldið hittu þeir félaga sína þá Júlíus Sigurðsson og Enok S. Klemensson og voru þeir saman við drykkju. Varð stefnandi mjög ölvaður. Hann kveðst ekkert muna eftir slysinu eða aðdraganda þess. Það síðasta sem hann kveðst muna frá umræddu kvöldi er að hafa verið staddur á skemmtistaðnum Berlín í miðbæ Reykjavíkur um klukkan 00:30 um nóttina. Samkvæmt gögnum máls fór stefnandi ásamt þeim Kristjáni Ásgeirssyni og Júlíusi Sigurðssyni í leigubifreið til Grindavíkur síðar um nóttina. Júlíus fór heim til sín, en stefnandi og Kristján gengu áleiðis að heimili stefnanda. Skömmu síðar kom Júlíus akandi á bifreiðinni L-1467 og tók hann stefnanda og Kristján upp í bifreiðina og óku þeir félagar saman af stað. Á Ísólfsskálavegi við Grindavík skammt norðan við bæinn Hraun valt bifreiðin. Við það hentist stefnandi út úr henni og slasaðist mikið. Var stefnandi mjög ölvaður er komið var að honum á slysstað. Samkvæmt lögregluskýrslu var tilkynnt um slysið kl. 0.4:35 þann 25. júní 1993. Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum hlaut stefnandi mikla áverka við slysið. Hann hlaut slæm kjálkabrot beggja vegna og missti tvær framtennur, brot í vinstri upphandlegg og sprungu í hnéskel. Eftir slysið þáðist stefnandi af mikilli þreytu, höfuðverkjum og einbeitingarleysi. Samkvæmt taugasálafræðilegu mati bar hann öll merki þess að hafa orðið fyrir truflunum á heilastarfsemi vegna höfuðmeiðsla við óhappið. Samkvæmt örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis var varanleg örorka stefnanda vegna slyssins metin 30%.
Bifreiðin L-1467 var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf, en eigandi bifreiðarinnar var stefnda Svanhvít Helga Sigurðardóttir.
Stefnandi krafði stefnda Sjóvá-Almennar tryggingum hf um greiðslu bóta með bréfi dagsettu 29. júlí 1996. Félagið hafnaði bótagreiðslu og hefur stefnandi því höfðað mál þetta. Í málinu er deilt um bótaskyldu og fjárhæð bóta.
II. Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir bótarétt á hendur stefndu Svanhvíti Helgu Sigurðardóttur á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem hún var eigandi bifreiðarinnar L-1467 er slysið átti sér stað og sé fébótaskyld vegna þess tjóns er af notkun bifreiðarinnar hlaust samkvæmt nefndum ákvæðum. Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er vísað til 1. mgr. 95. gr. sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga þar sem félagið er ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar L 1467.
Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. höfnuðu greiðslu bóta með vísan til þess að stefnandi hafi tekið á sig áhættu í skilningi skaðabótaréttar með því að gerast farþegi í bifreiðinni L-1467, þar sem ökumaður hennar var ölvaður. Ekki verður fallist á það sjónarmið. Stefnandi var mjög ölvaður er hann tók sér far með Júlíusi Magnúsi Sigurðssyni. Hafi hann ekki verið í nokkru ástandi til þess að leggja mat á hugsanlega ölvun ökumannsins enda var ölvun stefnanda slík að hann man síðast eftir sér í miðbæ Reykjavíkur laust eftir miðnætti. Vilji stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. bera fyrir sig í málinu að stefnanda hafi verið kunnugt um ölvun Júlíusar er áréttað að félagið ber alfarið sönnunarbyrðina að því leyti. Nægir í því sambandi ekki að vísa eingöngu til ölvunar ökumannsins Júlíusar. Huglæg afstaða stefnanda ráði hér úrslitum. Þá er á það bent að með breytingu umferðarlaga árið 1987 hafi verið stefnt að því að auka bótarétt tjónþola umferðarslysa, m.a. með því að draga úr áhrifum eigin sakar á rétt hans til bóta. Í 2. mgr. 88. gr. laganna sé gerð krafa um stórkostlegt gáleysi af hálfu tjónþola til þess að bætur honum til handa verði lækkaðar. Reglur þessar hafi verið teknar upp í samræmi við þá þróun sem orðið hafði á bótareglum umferðalaga í Danmörku og öðrum nágrannaríkjum Íslands. Í Danmörku séu ökuferðir tjónþola með ölvuðum ökumanni metnar útfrá sjónarmiðum um eigin sök tjónþola. Sé sú niðurstaða eðlileg. Komist dómur í málinu að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi verið ljóst að ökumaður bifreiðarinnar L-1467 hafi verið ölvaður er hann þáði far með honum, skal litið til ákvæða 88. gr. umferðarlaga þegar metin eru áhrif eigin sakar stefnanda. Bætur til handa honum verði því aðeins lækkaðar að sýnt verði fram á háttsemi hans verði að þessu leyti talin fela í sér stórkostlegt gáleysi.
Við ákvörðun bótafjárhæðarinnar beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi óhappið gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1987, sbr. 28. gr. laganna. Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaga, byggðum á þeirri dómvenju. Dómstólar hafi jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis, sem metið hafi líklegar afleiðingar tiltekins áverka á framtíðaraflahæfi þess slasaða. Mörg fordæmi Hæstaréttar á síðustu árum styðji þessa dómvenju.
Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, hafi reiknað út tekjutap stefnanda vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku hans, með hliðsjón af örorku hans eins og hún var metin af Jónasi Hallgrímssyni, þ.e. 100% örorka í 18 mánuði eftir slysið og 30% varanleg örorka eftir það. Samkvæmt því sundurliðast krafa stefnanda á eftirfarandi hátt:
|
1. |
Tímabundinn örorka í 18 mánuði |
kr. |
2.545.900 |
|
|
2. |
Varanleg örorka 30 |
kr. |
12.129.700 |
|
|
|
|
kr. |
14.675.600 |
|
|
3. |
20% frádráttur af tölulið 2 vegna |
|
|
|
|
|
skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis |
kr |
-2.935.120 |
|
|
|
|
kr. |
11.740.480 |
|
|
4. |
Töpuð lífeyrisréttindi |
kr. |
727.800 |
|
|
5. |
Miskabætur |
kr. |
600.000 |
|
|
|
Samtals |
kr. |
13.068.280 |
|
|
|
|
|
|
|
Um 1. og 2. tölulið.
Um forsendur hér er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Hann byggir niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum, þ.á. m. um 4,5% framtíðarávöxtun. Við mat á tekjutapi sé tekið mið af tekjum stefnanda, samkvæmt skattframtölum fyrir árin 1991 og 1992, í 20 ár frá slysdegi. Eftir það sé miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna.
Um 3. tölulið.
Frádráttur þessi sé vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Sé hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Um 4. tölulið.
Hér er aftur vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar en samkvæmt honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku.
Um 5. tölulið.
Miskabótakrafan sé síst of há enda sé hér um að ræða ungan mann. Sé krafan byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Höfuðverkir, dofi og óþægindi í andliti auk einbeitingarskorts og minnisleysis takmarki möguleika stefnanda til jafnt líkamlegrar sem hugrænnar tómstundaiðkunar. Þá sé geta stefnanda til iðkunar íþrótta stórlega skert, en íþróttir hafi verið hans áhugamál. Auk þess þjáist stefnandi af aukinni svefnþörf, skertu lyktar- og bragðskyni og persónuleikatruflunum í formi vanstillingar og hafi seinkað umtalsvert í námi í kjölfar slyssins.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
III. Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að við það að fara sjálfviljugur upp í bifreiðina umrædda nótt, vitandi um ölvunarástand ökumannsins hafi stefnandi tekið áhættu og sýnt af sér stórfellt gáleysi sem hann einn beri ábyrgð á. Slíkar aðstæður leiði til þess að bótakröfur stofnast ekki. Vísa stefndu um þetta til 2. mgr. 88. gr. umfrl. nr. 50/1987, sbr. H.1996:3120. Því er sérstaklega mótmælt, eins og aðstæðum háttaði, að stefnanda hafi ekki verið kunnugt um ölvunarástand ökumannsins og ber hann alla sönnunarbyrði í þeim efnum, sbr. H.1994:396. Þá er því mótmælt að stefnandi geti firrt sig ábyrgð á eigin gerðum með því að koma sér sjálfviljugur í ölvunarástand. Aðalkrafan byggir einnig á því að tjón stefnanda verði alfarið rakið til eigin sakar hans, en hann hafi sýnt stórfellt gáleysi við að fara upp í bifreið með drukknum ökumanni.
Varakrafa stefndu byggir á því, ef ekki verður fallist á aðalkröfu, þá verði tjón stefnanda að mestu rakið til eigin sakar hans, sem leiða beri til verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Fjárkröfum í stefnu er mótmælt sem of háum. Eigi það sérstaklega við um viðmiðunartekjur, frádrag vegna eingreiðslu- og skatthagræðis og jafnframt miskabætur sem séu í engu samræmi við dómvenju.
IV. Niðurstaða.
Samkvæmt gögnum máls liggur fyrir að stefnandi var að skemmta sér ásamt skipsfélögum sínum í Reykjavík um kvöldið 24. júní 1993 og fram eftir nóttu. Þar var stefnandi m.a. að drekka með þeim Kristjáni Ásgeirssyni og Júlíusi Sigurðssyni. Urðu þeir allir mjög drukknir. Um nóttina fóru þeir þrír saman í leigubifreið til Grindavíkur. Eftir það fóru þeir saman í ökuferð á bifreiðinni L-1467, sem Júlíus Sigurðsson ók, en sú ökuferð endaði með því að bifreiðin valt á Ísólfsskálavegi við Grindavík skammt norðan við bæinn Hraun. Stefnandi kastaðist út úr bifreiðinni og slasaðist mikið. Samkvæmt skýrslu lögreglu, sem kom á slysstað, voru þeir allir þrír áberandi undir áhrifum áfengis.
Ökumaður bifreiðarinnar L-1467 Júlíus Sigurðsson hefur viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar var alkóhólmagn í blóði hans 1,81o/oo. Hann taldi sig hafa verið á 100 km hraða og ástæða bílveltunnar hafi verið sú að hann náði ekki beygjunni við bæinn Hraun. Slysið varð því vegna háskalegs aksturs hans, en hann var ófær um að stjórna ökutækinu sakir áfengisneyslu, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Fyrir liggur að stefnandi var mjög ölvaður er hann fór í ökuferðina með Júlíusi Sigurðssyni á bifreiðinni L-1467 tiltekið sinn. Hann hefur greint frá því að hann muni ekkert eftir slysinu eða aðdraganda þess. Það síðasta sem hann kvaðst muna frá umræddu kvöldi er að hafa verið staddur á skemmtistaðnum Berlín í miðbæ Reykjavíkur um klukkan 0:30. Kvaðst hann eiga vanda til að fá algjört "black out" við áfengisdrykkju. Er á því byggt af hálfu stefnanda að vegna ölvunar sinnar hafi hann ekki verið fær um að leggja mat á hugsanlega ölvun ökumanns bifreiðarinnar.
Stefnandi og Júlíus Sigurðsson höfðu þekkst lengi og voru skipverjar á sama bát er slysið varð. Ákveðið hafði verið að þeir færu til Reykjavíkur að skemmta sér þetta kvöld og er upplýst að þeir hittust og voru saman við drykkju um kvöldið og fram á nótt og samfellt saman þar til slysið varð. Stefnanda hlaut því að vera ljóst að Júlíus Sigurðsson ók bifreiðinni undir áhrifum áfengis. Ölvun stefnanda og minnisleysi hans um atvik og atburðarrás tiltekið sinn breytir engu þar um, enda hafði hann sjálfur komið sér í það ástand og getur ekki firrt sig ábyrgð af þeim sökum. Með því að taka þátt í ökuferðinni á bifreiðinni L-1467 tók stefnandi verulega áhættu og sýndi af sér stórkostlegt gáleysi, sem leiðir til þess að hann hefur fyrirgert bótarrétti sínum á hendur stefndu samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Svanhvít Helga Sigurðardóttir, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Þrastar Sigmundssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.