Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-112

Pétur Pétursson (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)
gegn
Magnúsi E. Eyjólfssyni og Dalseignum ehf. (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Einkahlutafélag
  • Fasteign
  • Þinglýsing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 2. apríl 2020 leitar Pétur Pétursson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 19. mars sama ár í málinu nr. 90/2020: Magnús E. Eyjólfsson og Dalseignir ehf. gegn Pétri Péturssyni, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Magnús E. Eyjólfsson og Dalseignir ehf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 24. janúar 2019 og lagt fyrir sýslumann að afmá tilgreint skjal úr þinglýsingabók. Leyfisbeiðandi og gagnaðili Magnús E. Eyjólfsson eiga hvor um sig helmingshlut í einkahlutafélagi sem festi kaup á fasteigninni. Henni var afsalað til gagnaðilans Dalseigna ehf., sem er í eigu gagnaðilans Magnúsar E. Eyjólfssonar. Afsalið var móttekið til þinglýsingar og það fært í þinglýsingabók í kjölfarið. Leyfisbeiðandi gerði athugasemdir við þinglýsingu afsalsins og krafðist leiðréttingar á henni með vísan til 27. gr. þinglýsingalaga. Kröfu leyfisbeiðanda var hafnað með vísan til þess að sá sem undirritaði skjalið hefði haft til þess heimild samkvæmt hlutafélagaskrá. Ákvörðun sýslumanns var felld úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2020. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Var vísað til þess að samkvæmt þinglýsingalögum væri gengið út frá því að fram fari formleg könnun á efni skjala sem afhent eru til þinglýsingar en ekki væri áskilið að þinglýsingarstjóra bæri að ganga úr skugga um efnislegt gildi hverrar einstakrar ráðstöfunar. Þetta hafi sýslumaður gert og hvíldi því ekki frekari rannsóknarskylda á honum vegna athugasemdar leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi um möguleika eigenda hluta í einkahlutafélögum til að verja hagsmuni sína gagnvart stjórnarmönnum og meirihlutaeigendum. Leyfisbeiðandi telur að Landsréttur hafi ekki gefið skráðri athugasemd á vottorð fyrirtækisins neitt vægi í úrlausn sinni þar sem ágreiningur aðila væri um efnisatriði. Úrskurður Landsréttar sé rangur enda séu umboðsreglur formreglur en ekki efnisreglur.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni í skilningi 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er hvorki unnt að líta svo á að það hafi fordæmisgildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. áður tilvitnað lagaákvæði. Er beiðninni því hafnað.