Hæstiréttur íslands
Mál nr. 374/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Matsgerð
- Læknaráð
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 374/2003. |
Hörður Eyjólfur Hilmarsson (Andri Árnason hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Matsgerð. Læknaráð.
H slasaðist í umferðarslysi 4. apríl 1997 og viðurkenndi V bótaskyldu vegna slyssins. Deilt var um bótafjárhæð og að hve miklu leyti tjón H varð rakið til fyrrgreinds slyss en ekki tveggja annarra slysa, sem H hafði orðið fyrir. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, sýknaði V af kröfu H þar sem félagið hefði að fullu staðið H skil á bótum vegna slyssins og var sú niðurstaða staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.289.114 krónur með vöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum, fyrst 2% ársvöxtum frá 4. apríl 1997 til 30. apríl 2000, síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en loks dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 27. júní 2003.
Málið er höfðað 20. júní 2000 og dómtekið 16. maí sl.
Stefnandi er Hörður Hilmarsson, kt. 300759-3519, Árstíg 3, Seyðisfirði.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, vegna starfsstöðvar fyrirtækisins Miðvangi 2-4, Egilsstöðum.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 8.289.114 ásamt 2% vöxtum af kr. 21.978.452 frá 4. apríl 1997 til 30. apríl 2000, og dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 22.905.878 frá 30. apríl 2000 til 4. september 2000, af kr. 22.903.068 frá þeim degi til 6. mars 2001, af kr. 22.550.068 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en eftir þann tíma samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 af kr. 22.550.068 frá 1. júlí 2001 til 10. febrúar 2003, af kr. 8.499.895 frá þeim tíma til 12. febrúar 2003 og af kr. 8.289.114 frá þeim tíma til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að bótakröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um bætur vegna tjóns sem hann varð fyrir í bílslysi á Fjarðarheiði hinn 4. apríl 1997 er hann var á leið frá Seyðisfirði til Egilsstaða á bifreiðinni JL-503. Stefnandi var einn í bifreiðinni og engin vitni að slysinu. Í tjónstilkynningu stefnanda er slysið sagt hafa átt sér stað 29. mars 1997. Samkvæmt skýrslu sem stefnandi gaf hjá lögreglunni á Seyðisfirði 28. maí 1997 segir hann slysið hafa átt sér stað 28. mars 1997. Samkvæmt útprentun úr dagbók Heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar leitaði stefnandi þangað hinn 7. apríl 1997 vegna umferðarslyss 4. sama mánaðar. Ekki er ágreiningur um að stefnandi hafi lent í bílslysi 4. apríl 1997.
Stefnandi lýsir atvikum þannig að hann hafi í umrætt sinn mætt jeppabifreið sem hafi tekið stóran hluta vegarins og hann því þurft að sveigja út í snjóruðning til að forða árekstri. Við það hafi komið slinkur á bifreið hans og dekk farið af felgu á hægra framhjóli. Bifreiðin hafi snúist heilan hring á veginum og framendi hennar slegist utan í ruðninginn hinum megin vegarins og skemmst töluvert. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar hafi haldið ferð sinni áfram og ekki sé vitað hvaða bifreið var þar á ferð. Hann hafi ekki verið í öryggisbelti og kastast yfir í hurðarstaf bifreiðarinnar farþegamegin og þegar fundið til verks í hálsi og dofa í öxlum og vinstri handlegg. Þar sem einkennin hafi farið versnandi hafi hann leitað til læknis á Heilbrigðisstofnun Seyðisfjarðar þremur dögum eftir slysið og fengið bólgueyðandi lyf. Í dagbók stofnunarinnar segir að stefnandi hafi ekki haft brottfallseinkenni, reflexar hafi verið symmetriskir og jafnir og ekki paresur (lamanir). Séu einkenni stefnanda trúlega frá plexus (taugaflækju) tognun.
Í dagbók Heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar kemur einnig fram að stefnandi hafi þann 30. mars 1997 eða fjórum dögum áður lent í vélsleðaslysi. Hann hafi ekið snjósleða fram af hengju og lent ofan í gili og við það flogið af sleðanum og lent á gilveggnum á móti með höfuðið beint í bakkann hinum megin. Hann hafi ekki fundið mikið til í hálsinum, en verið ringlaður er hann stóð upp. Hann hafi náð sleðanum upp og getað gengið upp úr gilinu en ekki getað verið með hjálminn. Þegar stefnandi hafi komið á heilbrigðisstofnunina daginn eftir slysið hafi hann verið að koma úr fermingarveislu. Hann hafi verið mjög þreyttur og svitnað mikið við að sitja í stól án kraga. Hann hafi verið með mikla verki í hálsinum og verkirnir verið að aukast. Einnig hafi hann haft náladofa niður í vinstri griplim. Röntgenmynd af hálshryggnum sé ekki góð en ekki sé að sjá skrið umfram það sem var árið 1987. Stefnandi sé með sögu um hálsbrot er hann var 18 ára. Við skoðun hafi stirðleiki í hálsi og verkir verið áberandi við minnstu hreyfingar. Höfuðið hafi legið aðeins til vinstri, verkir aftan til á processi spinosi 2-4. cervicalis (hryggjartindum 2.-4. á hálshrygg). Einnig verkur upp við höfuðkúpu, en samt minni neðar. Ekki dofi í fingrum en radierandi (geislandi) verkur niður í vinstri griplim niður að olnboga, ef stefnandi hreyfði háls í vissar stellingar. Lækni hafi þótt rétt að setja stefnanda í stífan hálskraga og hafi hann verið sendur heim í kraga. Þá hafi læknir viljað senda stefnanda suður til frekari rannsókna, en hann ekki viljað það. Læknir ætli að ráðfæra sig við vakthafandi lækni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
Stefnandi kveður sér hafa haldið áfram að versna eftir bílslysið og að lokum hafi hann verið sendur til Reykjavíkur í segulómskoðun sem sýndi brjósklos í hálsi. Hinn 5. júní 1997 hafi hann gengist undir aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og þá verið spengdur í hálshrygg. Eftir aðgerðina hafi lítillega dregið úr verkjum en hann hafi áfram haft einkenni og stífleika í hálsi. Vorið 1998 hafi hann farið í meðferð á Kristnesspítala og lagast dálítið, þ.e. örlítið hafi dregið úr verkjum. Eftir það hafi líðan hans ekkert breyst til batnaðar og frekar versnað. Hann hafi verið í sjúkraþjálfun á Egilsstöðum árið 1999 og fram yfir áramót, en sú meðferð hafi lítið hjálpað nema rétt á meðan á henni stóð. Hann hafi nýlega verið búinn að stofna til eigin atvinnurekstrar sem bifvélavirki þegar hann varð fyrir slysinu en ekki getað sinnt starfi sínu eftir slysið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Nokkru eftir slysið hafi hann farið að kanna réttarstöðu sína. Til að flýta fyrir niðurstöðu í tryggingarmáli hafi verið tilnefndir tveir læknar, þeir Ragnar Jónsson og Árni Tómas Ragnarsson, til að meta tjón hans skv. skaðabótarlögum nr. 50/1993.
Í niðurstöðu matsgerðar læknanna sem dagsett er 3. maí 1999 segir að það geri örorkumatið flókið og vandasamt að stefnandi hafi þrívegis orðið fyrir slysi á hálsi, þar af tvívegis með nokkurra daga millibili vorið 1997. Þegar litið sé til heildarörorku stefnda sé því óhjákvæmilegt að skipta henni niður á milli þessara þriggja slysa. Þegar litið sé til síðari slysanna tveggja, sem áttu sér stað með nokkurra daga millibili vorið 1997, þá þyki matsmönnum ljóst að fyrra slysið, þ.e. vélsleðaslysið, hafi verið þess eðlis að það hafi verið líklegra til að gefa meiri áverka en það síðara. Nálægð slysanna í tíma geri það þó erfitt að áætla hvort slysanna eigi meiri þátt í þeim einkennum sem stefnandi hefur haft eftir slysin. Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að skipta skaðanum að jöfnu á milli slysanna.
Niðurstaða læknanna var að tímabundið atvinnutjón stefnanda eftir slysin vorið 1997 væri 100% í 12 mánuði og að það skiptist jafnt milli slysanna tveggja, þ.e. tímabundið atvinnutjón eftir bílslysið var metið 50% í 12 mánuði. Þjáningabætur skiptist á sama hátt til helminga milli áðurnefndra tveggja slysa. Í heild sé um að ræða um 2 mánaða dvöl á Kristnesi og 2 daga dvöl á SHR eða í heild um 2 mánaða rúmliggjandi þjáningarbætur og 10 mánaða almennar þjáningarbætur, sem skiptist jafnt á milli slysanna tveggja á árinu 1997. Varanlegur miski stefnanda eftir slysin þrjú var metinn 15% og skyldi hann skiptast í þrjá jafna hluta á milli slyssins 1977 og hvors slyssins um sig vorið 1997. Varanlegur miski stefnanda vegna bílslyssins var talinn vera 5%. Varanleg örorka stefnanda hafi engin verið eftir fyrsta slysið 1977, en um 20% samtals eftir bæði slysin vorið 1997 og skiptist það til helminga, þannig að varanleg örorka stefnda vegna bílslyssins var metin 10%.
Stefnandi kveðst hafa vitað að tjón hans var algerlega vegna slyssins frá 4. apríl 1997 því hafi hann ekki getað sætt sig við niðurstöðu matsins. Hann hafi því óskað eftir mati örorkunefndar.
Álitsgerð örorkunefndar er dagsett 28. mars 2000. Í niðurstöðu hennar segir orðrétt: Örorkunefnd telur, að einkenni tjónþola í dag sé aðallega að rekja til umferðarslyssins þann 4. apríl 1997, en ekki verður þó útilokað að þau séu einnig í einhverju mæli einnig að rekja til snjósleðaslyssins nokkrum dögum áður. Þá má einnig leiða að því líkur að tjónþoli hafi verið veikur fyrir vegna hins alvarlega slyss er hann hafði orðið fyrir á hálsi 1977. Meðferð á afleiðingum umferðarslyssins þann 4. apríl 1997, þar með talin skurðaðgerð og spenging á hálsi, hefur ekki borið tilætlaðan árangur. Örorkunefnd telur, að eftir 1. júní 1998 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata, af afleiðingum slyssins þann 4. apríl 1997, en þá var orðinn. Að öllum gögnum virtum telur nefndin, að varanlegur miski tjónþola, vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 4. apríl 1997, sé hæfilega metinn 12% - tólf af hundraði-.
Tjónþoli er með réttindi sem bifvélavirki og vélvirki. Þegar hann lenti í slysinu 4. apríl 1997 vann hann á eigin bifvélaverkstæði. Afleiðingar slyssins hafa leitt til þess að tjónþoli er í dag óvinnufær og nýtur 75% örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann á að fara í endurmat næsta haust. Af læknisvottorðum Hannesar Sigmarssonar, dags. 10. nóvember 1998 og 17. febrúar 2000, má ráða að tjónþoli muni ekki eiga afturkvæmt til fyrri starfa, en muni þó geta unnið létta vinnu. Örorkunefnd telur því að vegna afleiðinga umferðarslyssins 4. apríl 1997 hafi geta tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni verulega skerst. Nefndin telur varanlega örorku hans hæfilega metna 30% - þrjátíu af hundraði- .
Þegar stefndi hafnaði kröfu stefnanda um bætur á grundvelli álits örorkunefndar höfðaði stefnandi mál þetta og krafðist upphaflega bóta að fjárhæð samtals kr. 11.909.865.
Hinn 5. september 2000 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir læknar til að skoða og meta heilsufarslegt ástand stefnanda af völdum bílslyssins 4. apríl 1997. Til að framkvæma matið voru dómkvaddir bæklunar-læknarnir Stefán Carlsson og Atli Þór Ólason og er matsgerð þeirra dagsett 21. janúar 2001. Í niðurstöðu matsgerðarinnar kemur fram að stefnandi telji ástand sitt hafa verið orðið nokkuð stöðugt vorið 1998. Telja matsmenn raunhæft að miða við þjáningartímabil og meta 100% óvinnufærni tímabilið frá slysinu til 31. maí 1998. Þjáningartímabil er talið frá slysinu 4. apríl fram til 31. maí 1998, er meðferð á Kristnesi lauk. Telja matsmenn stefnanda hafa verið rúmliggjandi í skilningi skaðabótalaga 7 daga eftir aðgerð á Borgarspítala og 2 mánuði meðan hann dvaldi á Kristnesspítala eða í 9 vikur.
Í umfjöllun matsmanna um miska stefnanda kemur fram að þeir telji sanngjarnt að rekja stóran hluta miska stefnanda til bílslyssins 4. apríl 1997. Ljóst sé að líkamlegt og sálrænt ástand matsþola hefur breyst mikið síðustu ár. Stefnandi hafi forskaða vegna brots á hálslið. Auk þess hafi hann fengið áverka í vélsleðaslysi nokkrum dögum fyrir bílslysið sem einnig valdi honum miska. Einkenni hans hafi hins vegar versnað til muna eftir bílslysið og hafi hann verið óvinnufær síðan auk þess sem hann hafi undirgengist aðgerð og legið inni á sjúkrahúsi til endurhæfingar. Einnig hafi borið á verulegum þunglyndiseinkennum sem taka verði tillit til í mati á miska. Þá telji matsmenn fullljóst að slysið hafi áhrif á tómstundastörf og önnur störf. Mátu matsmennirnir heildar miska stefnanda vera 40%, þar af 10% vera vegna slyssins 1977, 10% vegna slyssins 30. mars 1997 og 20% vegna slyssins 4. apríl 1997.
Í umfjöllun matsmanna um varanlega örorku stefnanda kemur fram að við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaganna þurfi að miða við það hvaða áhrif líkamstjón það sem skoðunar sé hafi á getu hins slasaða til að afla sér vinnutekna. Beri að taka tillit til þeirra kosta sem viðkomandi hafi til að afla sér tekna við vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að viðkomandi stundi. Matsmenn telji að við mat á varanlegri örorku þurfi í raun að bera saman tvær atburðarásir, annars vegar þá atburðarás sem hefði orðið ef matsþoli hefði ekki lent í því slysi sem er til úrlausnar og hins vegar þá atburðarás sem orðið hefur og líkleg er til að verða vegna afleiðinga slyssins. Þegar stefnandi hafi lent í bílslysinu 4. apríl 1997 hafi hann stundað fulla vinnu og rekið eigið bifreiðaverkstæði á Seyðisfirði. Hins vegar hafi hann ekki getað stundað vinnu að neinu marki eftir slysið. Hann hafi reynt að afla sér kunnáttu á tölvur en ekki sé komin reynsla á það, en þann stutta tíma sem hann hafi verið við námið hafi hann haft veruleg óþægindi við langar setur. Matsmenn telji því ljóst að afleiðingar slyssins hafi haft veruleg áhrif á tekjuöflunarhæfni stefnanda til framtíðar. Þegar bornar séu saman tekjur stefnanda samkvæmt skattframtölum fyrir árin 1994 og 1995, en ekki liggi fyrir skattframtal vegna ársins 1996 en ætla megi að tekjur hafi verið svipaðar og 1995, og tekjur tekjuárin 1997, 1998 og 1999 komi í ljós að tekjur stefnanda hafi lækkað um nálægt 60% eftir slysið. Komust matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að sé tekið tillit til beggja síðari slysanna, þ.e. slyssins 30. mars 1997 og 4. apríl 1997, þá beri fyrra slysið um 1/3 af örorku eða 20% og hið síðara 40%.
Stefnandi lagði fram framhaldsstefnu í málinu 27. febrúar 2001. Krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 22.905.878 auk 2% vaxta af kr. 21.978.452 frá 4. apríl 1997 til 30. apríl 2000 og dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 22.905.878 frá 30. apríl 2000 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Sama dag fór stefndi fram á dómkvaðningu yfirmatsmanna og voru þeir Brynjólfur Y. Jónsson bæklunarskurðlæknir, Garðar Guðmundsson heila- og taugaskurðlæknir og Yngvi Ólafsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna yfirmat og er matsgerð þeirra dagsett 5. febrúar 2002. Í henni kemur fram að matsmönnunum þyki nánast ógerlegt að greina á milli afleiðinga slysanna 30. mars og 4. apríl 1997. Samkvæmt rituðum gögnum frá þeim tíma sé ekki annað að sjá en að afleiðingarnar séu nokkuð jafngildar og að á engan hátt sé meint brjósklos í hálsinum að rekja eingöngu til seinna slyssins. Einkenni niður í vinstri handlegg höfðu komið eftir fyrra slysið og a.m.k. tímabundið hafi verið talað um einkenni eftir síðara slysið sem tognunareinkenni. Sé mið tekið af ætluðum áverkum sem slíkum þ.e. að um lóðrétt höggálag hafi verið að ræða í fyrra skiptið en slink í því seinna geti báðir valdið brjósklosi og sé því á þeim grunni einum og sér ekki hægt að greina á milli. Telja matsmennirnir því rétt að þau brjósklos sem greind voru í segulómuninni 18. apríl 1997 séu afleiðingar endurtekins áverka á hálsinn. Í tengslum við þetta megi benda á að þótt dagsetningu segulómbeiðninnar vanti sé í texta hennar eingöngu minnst á vélsleðaslysið 30. mars 1997 en ekki umferðarslysið 4. apríl s.á. Á sama hátt megi benda á að slitbreytingar sem staðfestar eru á því liðþófabili sem brjósklosið varð á er snerti vinstri handlegg séu örugglega eldri og megi hugsanlega rekja til slyssins 1977. Þá beri og að geta þess að í aðgerðarlýsingu Kristins Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis frá 5. júlí 1997 sé tekið fram að ekki hafi greinst örugg merki um brjósklos en hins vegar hafi verið til staðar hrörnunarbreytingar á því liðþófabili sem opnað var inn á. Í ljósi þess telja matsmennirnir að ekki sé hægt svo óyggjandi sé þrátt fyrir ofangreint segulómsvar að tala umhugsunarlaust um brjósklos. Að öllu þessu athuguðu þykir matsmönnunum því ljóst að öll þau slys sem stefnandi hefur orðið fyrir og snerta hálsinn eigi þátt í þeirri læknisfræðilegu örorku sem hann nú hefur enda beri hann ákveðin merki þeirra allra við skoðun.
Um heildarmiska stefnanda segir í matinu orðrétt: Á ofangreindum forsendum telja undirritaðir eðlilegt að miða við að varanlegur miski matsbeiðanda vegna hálsáverkanna byggist á eftirfarandi greiningum:
1. Brot á hálsi með varanlegri skerðingu á hreyfingum í hálsi og aukinni viðkvæmni.
2. Tognun í hálsi.
3. Liðþófahrörnun með meintu brjósklosi eða útbungandi liðþófum og tveimur liðbilum með óvissri tímasetningu en sennilegast tengt endurteknum áverkum á höfuð og háls.
Á grundvelli þessa er varanlegur miski rakinn til brots á efsta hluta hálshryggjar með varanlegri töluverðri hreyfiskerðingu en óverulegum eða engum verkjum (5-10%) en áverki þessi verður eingöngu rakinn til slyssin 1977, tognunar á hálsi og meðhöndlaðs meints brjóskloss með viðvarandi verkjaóþægindum í herðum og dofatilkenningu sem gerir vart við sig við vinnu upp yfir höfuð en án staðfestra brottfallseinkenna á taugum (15-20%) en áverki þessi verður rakinn jafngilt til beggja slysanna 1997 og hliðlægra andlegra þunglyndiseinkenna sem tekið hefur verið á með stuðningsmeðferð og lyfjum (5%) en einkenni þessi verða eingöngu rakin til slyssins 4. apríl 1997. Er heildar varanlegur miski að mati matsmanna 30%.
Um heildarörorku stefnanda segir orðrétt: Nokkuð ljóst þykir skv. fyrirliggjandi gögnum að matsbeiðandi hélt í aðalatriðum fullri vinnufærni eftir slysið 1977 og stofnsetur til að mynda ekki fyrirtæki sitt við bifvélaviðgerðir fyrr en allnokkru eftir það slys. Telja undirritaðir því eðlilegt að rekja varanlega örorku eingöngu til seinni slysanna tveggja. Á þeim stutta tíma sem leið á milli slysanna 30. mars og 4. apríl er á engan hátt hægt að fullyrða nokkuð um vinnufærni eftir fyrra slysið eins og áður er getið og jafnvel þó Hörður hefði haldið allt að því fullri vinnufærni í kjölfar þess er á engan hátt hægt að útiloka að áhrif þess til lengri tíma hefðu orðið svipuð og afleiðingar seinna slyssins. Svo virðist sem Hörður hafi í kjölfar beggja slysanna haldið vissri og jafnvel fullri vinnufærni. Þannig er fullvíst að eftir seinna slysið hélt Hörður til að byrja með ákveðinni vinnufærni og er þá hægt að vísa bæði til afrita af reikningum og athugasemdar í læknabréfi Kristins Guðmundssonar dags 5. nóvember 1998 sem og læknabréfs frá Kristnesi. Því telja matsmenn ekki mögulegt að leggja raunverulega vinnufærni eina og sér til grundvallar mati á því hvort óvinnufærnin stafi eingöngu af fyrra slysingu eða því seinna.
Hér er því um endurtekna og að ýmsu leyti hliðstæða áverka að ræða þar sem báðir geta að mati matsmanna hvort heldur valdið rofi á liðþófahring og brjósklosi eða hálstognun. Þó verður ekki hjá því litið að Hörður rekur einkenni sín nánast eingöngu til slyssins 4. apríl 1997 og telja matsmenn því eðlilegt að þótt ómögulegt sé á læknisfræðilegum forsendum einum sér að greina á milli afleiðinga slysanna njóti Hörður ofangreinds vafa að einhverju leyti. Telja matsmenn því eðlilegt að rekja varanlega örorku í hlutföllunum 1/3 og 2/3 til slysanna þar sem varanleg örorka verði að 2/3 hlutum eða þar um bil rakin til slyssins 4. apríl 1997.
Við mat á varanlegri örorku þykir matsmönnum nokkuð ljóst að Hörður snýr ekki aftur til sinnar fyrri vinnu sem bifvélavirki sem og er starfsgeta hans sem vélvirki verulega skert. Þykir matsmönnum og ljóst að miðað við búsetu er einnig dregið nokkuð úr atvinnumöguleikum sem fyrst og fremst takmarkast væntanlega við léttari störf sem ekki reynir á athafnir upp yfir höfuð sér og lyftur. Má líta svo á að Hörður hafi lágmarkað skaða sinn með því að reyna fyrir sér í tölvunámi sem og er hann nú kominn til vinnu sem fellur að einhverju leyti að því sem hann áður hafði lært en felur einungis í sér hluta þess álags þar sem í aðalatriðum er um gæslustörf að ræða. Þykir matsmönnum raunhæft að meta varanlega örorku þegar á heildina er litið sem 50%.
Yfirmatsmennirnir töldu stefnanda hafa verið að fullu óvinnufæran allt tímabilið frá slysdegi 30. mars 1997 og fram að því að hann útskrifaðist af Kristnesi en vinnufæran síðan með takmörkunum varanlegrar örorku. Á sömu forsendum og að ofan greinir töldu matsmennirnir eðlilegt að miða við skiptingu milli slysanna 30. mars og 4. apríl 1997 í hlutföllunum 1/3 og 2/3. Stefnandi teljist því hafa verið óvinnufær vegna slyssins 4. apríl 1997 í 42 vikur.
Með vísan til læknabréfs frá Kristnesi hafi stefnandi 29. maí 1998 í aðalatriðum verið búinn að ná þeim bata sem hann gat vænst. Telja matsmenn hann hafa verið rúmliggjandi í skilningi skaðabótalaga tímabilin 04.06.97 07.06.97 og 14.04.98 29.05.98 eða í alls 8 vikur en veikan frá slysdegi 30. mars 1997 til 29. maí 1998 að frádregnum þeim tíma sem hann var rúmliggjandi eða í alls 54 vikur. Sé gengið út frá sömu forsendum og áður hefur verið gert telja matsmenn eðlilegt að skipta þjáningartímabilinu á milli slysanna 30. mars. og 4. apríl 1997 á sama hátt og áður í hlutföllunum 1/3 og 2/3 og hafi hann því verið rúmliggjandi í 5 vikur en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 36 vikur vegna slyssins 4. apríl 1997.
Með yfirmatinu var varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 4. apríl 1997 þannig metinn 15% og varanleg örorka 30%. Tímabundið atvinnutjón stefnanda 100% í 42 vikur og hann talinn vera rúmliggjandi í 6 vikur en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 36 vikur.
Með beiðni dagsettri 25. mars 2002 fór stefndi fram á að aflað yrði umsagnar læknaráðs. Í beiðninni segir að fyrir liggi í málinu fjögur ósamhljóða möt um hverjar heilsufarslegar afleiðingar hafi hlotist af bílslysinu 4. apríl 1997. Höfuðágreiningsefnið í dómsmálinu sé hverjar heilsufarslegar afleiðingar hafi hlotist af bílsslysinu. Stefndi telji með ólíkindum, þegar litið sé til þess með hvaða hætti slysin urðu, að bílsslysið hafi valdið stefnanda mun meira tjóni en vélsleðaslysið eins og metið sé í yfirmatsgerð.
Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 22. maí 2002 var ákveðið að leggja málið fyrir læknaráð. Álit læknaráðs sem byggt er á niðurstöðum réttarmáladeildar er dagsett 18. desember 2002. Í svörum læknaráðs kemur fram að ráðið telji stefnanda hafa orðið fyrir varanlegri örorku og varanlegum miska vegna slyssins 4. apríl 1997 en ráðið fallist ekki á fyrirliggjandi matsgerðir og álitsgerð örorkunefndar. Í umfjöllun ráðsins um varanlegan miska stefnanda kemur fram að ráðið fallist ekki á að áverki frá 1977 sé tekinn upp í málinu. Um hafi verið að ræða hálsbrot sem stefnandi hafi verið meðhöndlaður við og hafi hann orðið vinnufær að fullu og ekki haft teljandi óþægindi frá því slysi. Læknaráð telji að varanlegur miski stefnanda sé eingöngu vegna slyssins 4. apríl 1997. Eftir vélsleðaslysið hafi stefnandi verið stirður í hálsi og aumur en án einkenna frá taugakerfi en full vinnufær samkvæmt vottorði Hannesar Sigmarssonar yfirlæknis frá 16.05.1998. Eftir bílslysið hafi stefnandi haft verki í hálsi og geislandi út í handlegg skv. vottorðum. Eftir það sé hann óvinnufær. Hannes Sigmarsson sjái stefnanda eftir bæði slysin og komist að þeirri niðurstöðu að bílslysið sé ábyrgt fyrir einkennum stefnanda og byggi það á skoðunum sínum og einnig vinnufærni hans. Eini læknirinn sem sjái stefnanda eftir bæði slysin hljóti eftir atvikum að vera sá læknir sem best geti metið afleiðingar þeirra. Þá bendir læknaráð á að eftir atvikið 30.03.1997 sé hjálmur heill og sleðinn óskemmdur. Við slysið 4. apríl 1997 hafi aftur á móti orðið umtalsverðar skemmdir á bifreið stefnanda. Læknaráð telji því síðara slysið 1997 sé eitt orsök einkenna stefnanda. Læknaráð telji heildar varanlegan miska stefnanda vera 30% vegna slyssins 04.04.1997 og þannig sammála yfirmati en þar sé síðan varanlegur miski lækkaður vegna atviksins 30.03. en læknaráð fallist ekki á að það atvik sé orsök einkenna stefnanda.
Í álitinu kemur fram að læknaráð fjalli ekki um fjárhagslega örorku og sé því ekki tekin afstaða til spurningar þar að lútandi. Þá segir að varðandi tímabundna óvinnufærni og þjáningartíma fallist læknaráð á yfirmatsgerð.
Hinn 10. febrúar 2003 greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. stefnanda samtals kr. 14.050.173 og þann 12. s.m. kr. 210.000.
Greiðslan 10. febrúar 2003 sundurliðast þannig:
Þjáningarbætur kr. 292.895
Varanlegur miski kr. 811.125
Varanleg örorka vegna slyss kr. 6.339.279
Vextir kr. 6.110.285
Uppígreiðsla kr. 353.000-
Málskostnaður kr. 682.401
Virðisaukaskattur kr. 167.188
Samtals kr. 14.050.173
Greiðslan 12. s.m. sundurliðast þannig:
Tímabundið tekjutjón kr. 343.011
Staðgreiðsla skatta kr. 132.230-
Samtals útborgað kr. 210.781
Samkvæmt því sem kemur fram í greinargerð með greiðslunum eru þær byggðar á útreikningi á tjóni stefnanda reiknuðu út á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 á grundvelli mats yfirmatsmannanna. Stefnandi hafi verið 37 ára á slysdegi. Tekjur hans hafi verið lágar síðustu árin fyrir slysið, en hann hafi starfaði sem bifvélavirki þegar hann slasaðist. Fallist sé á að meta þurfi árslaun stefnanda sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Til samkomulags sé lagt til að leggja til grundvallar meðallaun bifvélavirkja eins og þau voru á slysdegi, en þau hafi þá numið samtals kr. 1.828.800. Við bætist 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð, kr. 109.728. Samtals séu það því kr. 1.938.528 sem lagðar séu til grundvallar við útreikning á varanlegri örorku.
Um tímabundið tekjutjón er tekið fram að heildartekjur stefnanda árið 1996 hafi numið samtals kr. 500.000 eða kr. 41.667 á mánuði. Heildartekjur hans árið 1997 hafi numið samtals kr. 52.617. Tekjutjón milli ára sé því 447.383. Stefnandi hafi verið óvinnufær í 13,8 mánuði.
Eftir innborgun stefnda setti stefnandi fram endanlegar dómkröfur sínar og hafði þá verið tekið tillit til innborgunar stefnda.
II
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur á ábyrgðartryggingu sem stefnandi keypti hjá stefnda sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Byggir stefnandi endanlega dómkröfu sína á því að heildartjón hans samkvæmt mati þeirra Stefáns Carlssonar og Atla Þórs Ólafssonar sé að rekja til slyssins 4. apríl 1997, en samkvæmt mati þeirra var heildar miski stefnanda metinn 40% og varanleg örorka 60%. Hafnar stefnandi þeirri niðurstöðu matsmannanna að deila beri varanlegum miska á þrjú slys og varanlegri örorku á tvö slys, þannig að varanlegur miski vegna slyssins 4. apríl 1997 sé metin 20% og varanleg örorka 40%. Þá byggir dómkrafan á því mati matsmannanna að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé frá slysdegi 4. apríl 1997 til og með 31. maí 1998 og að sama gildi um þjáningartímabil, en matsmennirnir töldu stefnanda þar af hafa verið rúmliggjandi í 7 daga eftir aðgerð á Borgarspítala og 2 mánuði meðan hann dvaldi á Kristnesspítala, eða alls níu vikur.
Krafa stefnanda sundurliðast þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón kr. 3.154.892
2. Þjáningarbætur (rúmliggjandi) kr. 99.540
3. Þjáningarbætur (almennar) kr. 305.150
4. Varanlegur miski kr. 1.948.000
5. Varanleg örorka kr. 16.374.870
6. Útlagður kostnaður kr. 96.000
7. Lögmannsþóknun kr. 927.426
Samtals kr. 22.905.878
Stefnandi gerir þannig grein fyrir einstökum kröfuliðum:
1. Tímabundið atvinnutjón. Krafan er fyrir tímabilið frá 4. apríl 1997 til 31. maí 1998 eða í 422 daga (1,156 ár). Stefnandi hafi hafið að byggja upp eigin atvinnurekstur á árinu 1994 og hafi tekjur hans þá lækkað mjög frá því sem verið hafði. Byggir stefnandi á að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sé eðlilegra að miða við meðaltekjur hans vegna þriggja ára þar á undan. Tekjur stefnanda hafi samkvæmt skattaframtölum numið kr. 2.239.291 árið 1992, kr. 2.573.627 árið 1993 og kr. 1.991.889 árið 1994. Séu laun stefnanda árin 1992-1994 uppreiknuð til verðlags 19. febrúar 2001 og deilt í með þremur komi í ljós að meðaltalsárslaun stefnanda séu kr. 2.729.145 á verðlagi þess dags. Séu þau margfölduð með 1,156 ári (422 dögum) fáist talan 3.154.892 sem sér krafa stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Til stuðnings kröfunni vísar stefnandi til 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
2-3. Þjáningabætur. Samkvæmt mati matsmanna eigi stefnandi rétt á þjáningar-bótum sem rúmliggjandi í níu vikur, en alls til þjáningabóta í 422 daga. Stefnandi geri því kröfu til 63 x kr. 1.580 (rúmliggjandi) = kr. 99.540 og 359 daga x kr. 850 (almennar þjáningarbætur) = kr. 305.150 eða alls kr. 404.690. Vísar stefnandi til 3. gr. skaðabótalaganna.
4. Varanlegur miski. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna sé varanlegur miski stefnanda alls 40%. Krefst stefnandi þess að allur miskinn verði metinn tilkominn vegna bílslyssins 4. apríl 1997 og krefst því kr. 4.870.000 x 40% = kr. 1.948.000. Vísar stefnandi til 4. gr. skaðabótalaganna.
5. Varanleg örorka. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna sé varanleg örorka stefnanda alls 60%. Krefst stefnandi þess að öll varanleg örorka hans verði metin tilkomin vegna bílslyssins 4. apríl 1997. Leggur stefnandi til grundvallar meðaltal tekna stefnanda árin 1992 til 1994 sbr. 1. lið hér að ofan. Vísar stefnandi til 5., 6. og 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
6. Útlagður kostnaður. Kostnaður stefanda vegna málsins sé einkum ferðakostnaður áður en til málshöfðunar kom og kostnaður vegna álitsgerðar örorkunefndar. Hafi stefnandi þrívegis þurft að fljúga EG-RVIK-EG, þar af einu sinni með lögmanni sínum og sé miðað við að hvert flug hafi kostað kr. 11.500. Þá hafi gjald örorkunefndar verið kr. 50.000.
7. Lögmannsþóknun. Krafist er þóknunar samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Austurlandi ehf.
Kröfu um 2% vexti af kr. 21.978.452, sem er samtala tjóns vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningarbóta, varanlegs miska og varanlegrar örorku, styður stefnandi við 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og hún var þegar stefnandi varð fyrir tjóni sínu.
Kröfu um dráttarvexti frá 30. apríl 2000 styður stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 1. mgr. 15. gr. Stefnandi hafi sent stefnda kröfu um greiðslu 30. mars 2000.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við ákvæði 130. gr. laga um meðferð einkamála, sem og 129. gr. sömu laga.
III
Stefndi, sem viðurkennir að stefnandi eigi rétt til bóta úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar JL-506 hjá stefnda vegna bílslysins 4. apríl 1997, byggir á að hann hafi þegar bætt stefnanda tjón hans að fullu samkvæmt yfirmati þeirra Brynjólfs Y. Jónssonar, Garðars Guðmundssonar og Yngva Ólafssonar, sem leggja beri til grundvallar.
Varakröfu sína byggir stefndi á að stefnukröfurnar séu rangar og allt of háar. Í málinu liggi fyrir þrjú læknamöt auk álits örorkunefndar þar sem niðurstaðan sé allsstaðar að hluta örorku stefnanda sé að rekja til annarra slysa en hins bótaskylda bílslyss. Það sé einungis Læknaráð sem hafi um það efasemdir og komist að þeirri niðurstöðu að allur varanlegur miski stefnanda sé að rekja til bílslysins. Yfirmatið sé ítarlegast rökstutt og það beri að leggja til grundvallar.
Stefndi mótmælir þeim viðmiðunartekjum sem stefnandi leggur til grundvallar við útreikning tímabundins og varanlegs örorkutjóns. Stefnandi miði við meðaltekjur sínar á árunum 19921994, en á þeim árum hafi stefnandi unnið sem launþegi hjá Fiskiðjunni Dvergasteini hf. Stefnandi hafi hins vegar þegar á árinu 1995 stofnað sitt eigið bifreiðaverkstæði og starfað við það þegar hann lenti í vélsleðaslysinu og bílslysinu 1997. Ekki hafi staðið til að hann réðist aftur til Dvergasteins hf. Meðaltekjur stefnda hjá Dvergasteini hf. árin 1992 1994 séu því alls óhæfur viðmiðunargrundvöllur við ákvörðun örorkutjóns. Stefndi fallist á að meta þurfi árslaun stefnanda sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hafi stefndi til samkomulags fallist á að leggja til grundvallar meðallaun bifvélavirkja eins og þau voru á slysdegi. Þá beri að gæta lækkunarreglu 9. gr. skaðabótalaganna við útreikning örorkubóta.
Stefndi byggir á að einungis beri að bæta sannað raunverulegt tímabundið tekjutap stefnanda. Þá mótmælir stefndi bótum fyrir þjáningar sem of háum og bendir á að umkrafðar þjáningarbætur séu langt yfir 200 þúsund króna mörkum 3. gr. skaðabótalaganna. Útlagður kostnaður og umkrafin lögmannsþóknun tilheyri málskostnaði en ekki höfuðstól skaðabótakröfu. Mótmælir stefndi útlögðum kostnaði sem of háum að því leyti sem um áætlunartölur er að ræða. Sömuleiðis mótmælir stefnandi kröfu stefnda um málskostnað sem allt of hárri.
III
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í bílslysi á Fjarðarheiði 4. apríl 1997 og er ekki ágreiningur í málinu um að stefnandi eigi rétt til bóta úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar JL-506 hjá stefnda vegna bílslysins. Hins vegar greinir aðila á um hvort allt tjón stefnanda sé að rekja til bílslysins 4. apríl 1997 eða hvort hluta þess megi rekja til tveggja annarra slysa sem hann hefur orðið fyrir. Þá greinir aðila á um hvaða launaviðmiðun skuli leggja til grundvallar við útreikning fjárhagstjóns stefnanda vegna tímabundins tekjutjóns og varanlegrar örorku.
Stefnandi byggir á að allt tjón hans, eins og það var metið af læknunum Stefáni Carlssyni og Atla Þór Ólasyni, sé að rekja til bílslysins 4. apríl 1997. En þeir mátu heildar miska stefnanda vera 40%, þar af 20% vegna bílslysins og heildar örorku stefnanda 60%, þar af 40% vegna bílslysins. Þá krefst hann þjáningarbóta samkvæmt mati læknanna frá slysdegi 4. apríl 1997 til 31. maí 1998 eða í 422 daga þar af í 63 daga rúmliggjandi.
Stefndi byggir hins vegar á að leggja beri til grundvallar niðurstöðu yfirmatsmannanna, Brynjólfs Y. Jónssonar, Garðars Guðmundssonar og Yngva Ólafssonar á örorku stefnda vegna bílslyssins, en samkvæmt því er 15% miski stefnda rakinn til bílslysins 4. apríl 1997 og 30% varanleg örorka. Rúmliggjandi er stefndi talinn hafa verið í 6 vikur en veikur án þess að vera rúmliggjandi 36 vikur.
Stefndi byggir á að hann hafi þegar bætt stefnanda tjón hans að fullu á grundvelli yfirmatsins með greiðslu á samtals kr. 14.260.954 hinn 10. og 12. febrúar 2003.
Fyrir liggur að stefnandi hefur þrisvar orðið fyrir áverkum á háls:
1. Hálsbrot í bílslysi 1977
2. Högg á höfuð og slinkur á háls í vélsleðaslysi 30.03.1997.
3. Slinkur á háls og höfuðhögg í bílslysi 04.04.1997.
Afleiðingar slyssins 1977 voru nokkuð skertar hreyfingar í hálshrygg, sem telja má að hafi valdið nokkrum miska. Eftir slysið lauk stefnandi iðnnámi, starfaði síðan sem vélstjóri og bifvélavirki. Hann stofnsetti eigið fyrirtæki og vann mikið Ekki verður séð að afleiðingar þessa slyss hafi leitt til skerðingar á lífsgæðum né tekjuöflunarmöguleikum stefnanda. Verður ekki lagt til grundvallar að afleiðingar slyssins 1977 hefðu seinna leitt til örorku né aukins miska, ef ekki hefðu orðið slysin tvö á árinu 1997.
Eina læknisfræðilega samtímaheimildin sem liggur fyrir um ástand stefnanda milli vélsleðaslyssins 30.03.1997 og bílslyssins 04.04.1997 er útprentun úr dagbók Heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar en samkvæmt henni hefur stefnandi leitað læknis daginn eftir vélsleðaslysið og 3 dögum eftir bílslysið. Í dagbókinni kemur fram að daginn eftir vélsleðaslysið hafi stefnandi haft veruleg óþægindi frá hálsi með verkjaútgeislun og náladofa niður í vinstra handlegg. Þá hafi hann fundið fyrir stirðleika og sársauka við hálshreyfingar.
Greinilegt er að lækninum á Seyðisfirði hefur þótt ástand stefnanda eftir vélsleðaslysið nokkuð alvarlegt því að í dagbókina er skráð að honum hafi þótt ástæða til að senda stefnanda suður til Reykjavíkur til frekari rannsóknar, en hann hafi ekki viljað fara. Þá lætur læknirinn þess getið að hann ætli að reyna að ná í vakthafandi lækni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til að ráðfæra sig við.
Því er haldið fram af stefnanda að hjálmur hans og vélsleði hafi ekki skemmst við slysið. Ekki þykir mikið verða af því ráðið um alvarleika áverka í slysinu. Stefnandi féll af vélsleða og lenti með höfuðið í snjóskafli. Hjálmur getur án sýnilegra skemmda staðið af sér högg sem leiðir til alvarlegra háls- og höfuðáverka á þeim sem hjálminn ber. Ljóst er að stefnandi hefur kastast af vélsleðanum og fengið högg á höfuðið og þungi líkamans veldur umtalsverðu álagi á hálshrygg með talsverðri hættu á áverkum.
Um vinnufærni stefnanda milli vélsleðaslysins 30.03.1997 og bílslysins 4. apríl 1997 eru ekki aðrar samtímaheimildir en verkreikningar stefnanda sem eru dagsettir á því tímabili og greint er frá í matsgerð yfirmatsmanna. Ekki er af þeim unnt að ráða hvert vinnuframlag stefnanda raunverulega var dagana milli 30.03.1997 og 04.04.1997. Ekki er heldur unnt að fullyrða að stefnandi hefði verið frá vinnu þó einkenni frá hálsi hefðu á þessum tíma verið töluverð. Þá er ekki heldur unnt að fullyrða, að afleiðingar vélsleðaslysins hafi að fullu verið komnar fram 4. apríl 1997, þegar bílslysið varð.
Í bílslysinu kveðst stefnandi hafa kastast yfir í bílhurðina hinum megin. Slíkt slys getur valdið mjög alvarlegum áverkum á hálsi og ef áverki hefur orðið á háls nokkrum dögum áður, getur hálsinn verið veikari fyrir (auðsærðari) en annars væri. Skemmdir þær sem stefnandi lýsir í lögregluskýrslu að hafi orðið á bifreið hans við slysið eru ekki góður mælikvarði á alvarleika líkamsáverka í því slysi.
Ljóst þykir að stefnandi beri talsverðan varanlegan miska og varanlega örorku vegna samanlagðra afleiðinga vélsleðaslyssins 30.03.1997 og bílslyssins 04.04.1997. Afleiðingar slysanna tveggja hafa valdið verulegri röskun á högum stefnanda, bæði hvað varðar einkalíf og atvinnu.
Með hliðsjón af framanröktu og að öðru leyti með vísan til forsendna yfirmatsmanna fallast hinir sérfróðu meðdómendur á niðurstöðu yfirmats um að heildar varanleg örorka stefnanda sé 50%. Þá fallast þeir á forsendur þær sem yfirmatsmenn leggja til grundvallar mati á varanlegum miska stefnanda þó þannig að þeir telja áverka þann sem rakinn er til beggja slysanna 1997 vanmetinn þar sem hann geri ekki einungis vart við sig við vinnu heldur einnig tómstundir og allar athafnir daglegs lífs. Þá er það mat þeirra að hliðlæg þunglyndiseinkenni verði rakin til beggja slysanna. Heildar miski stefnanda sé þannig 35% þar af 30% vegna afleiðinga slysanna 1997.
Í matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna dagsettri 05.02.2002 segir orðrétt: Þannig þykir undirrituðum matsmönnum nánast ógerlegt að greina á milli afleiðinga slysanna 30. mars og 4. apríl 1997. Skv. rituðum gögnum frá þessum tíma er ekki annað að sjá en að afleiðingarnar séu nokkuð jafngildar og er á engan hátt að rekja meint brjósklos í hálshrygg til seinna slyssins.
Í umfjöllun yfirmatsmanna um heildarörorku stefnanda segir orðrétt: Þó verður ekki hjá því litið að Hörður rekur einkenni sín nánast eingöngu til slyssins 4. apríl 1997 og telja matsmenn því eðlilegt að þótt ómögulegt sé á læknisfræðilegum forsendum einum sér að greina á milli afleiðinga slysanna njóti Hörður ofangreinds vafa að einhverju leyti. Telja matsmenn því eðlilegt að rekja varanlega örorku í hlutföllunum 1/3 og 2/3 til slysanna þar sem varanleg örorka verði að 2/3 hlutum eða þar um bil rakin til slyssins 4. apríl 1997.
Í framburði yfirmatsmannsins Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis fyrir dóminum kom fram að læknisfræðilegar afleiðingar vélsleðaslyssins gætu verið allt eins miklar og afleiðingar bílslyssins. Ef eingöngu væri gengið út frá læknisfræðilegum forsendum þá væri illmögulegt að greina á milli afleiðinganna. Ástæða þess að niðurstaða yfirmatsins hafi orðið sú að 2/3 hlutar varanlegu örorkunnar hafi verið taldir afleiðingar bílslyssins hafi verið sú að stefnandi hafi verið látinn njóta þess framburðar síns að einkenni hans væri nánast öll að rekja til bílslyssins.
Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að áverkar þeir sem stefnandi hlaut í slysunum 30. mars 1997 og 4. apríl s.á. hafi hvor um sig valdið tognun í hálsi og að hvort slysið um sig hefði getað valdið öllum núverandi einkennum stefnanda, ef hitt slysið hefði ekki orðið. Samkvæmt því þyki ekki annar kostur vænni en að skipta samanlögðum afleiðingum slysanna 30.03.1997 og 04.04.1997 jafnt milli slysanna.
Niðurstöður dómsins samkvæmt framangreindu varðandi afleiðingar slyssins 4. apríl 1997 eru þessar:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr laga nr. 50/1993. Heildartímabil tímabundins atvinnutjóns telst frá slysdegi 04.04.1997 og þar til endurhæfingardvöl á Kristnesi lauk 29.05.1998. Eftir það telst stefnandi vinnufær með takmörkunum varanlegrar örorku. Helmingur tímabilsins frá 04.04.1997 telst vegna afleiðinga bílslyssins 04.04.1997, en helmingur vegna afleiðinga vélsleðaslyssins 30.03.1997. Samkvæmt því telst stefnandi hafa hlotið tímabundið atvinnutjón vegna bílslyss 04.04.1997 í 30 vikur.
2. Þjáningabætur skv. 3. gr laga nr. 50/1993. Stefnandi telst hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga frá 04.04.1997 til 29.05.1997 eða í 420 daga en rúmliggjandi þar af telst helmingur vegna bílslyssins eða 210 dagar. Þá telst stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 04.06.1997 - 07.06.1997 og 15.04.1998 - 29.05.1998 eða samtals 49 daga þar af telst helmingur eða 25 dagar hafa verið vegna bílslysins 04.04.1997.
3. Varanlegur miski skv. 4. gr. laga nr. 50/1993. Heildarmiski stefnanda telst 35% þar af 5% vegna slyssins 1977 en 30% skiptast jafnt á milli slysanna 30.03.1997 og 04.04.1997. Þannig telst 15% miski hafa orsakast af bílslysinu 04.04.1997.
4. Varanleg örorka skv. 5. gr. laga nr. 50/1993. Varanleg örorka telst 50% og skiptist til helminga milli vélsleðaslyssins 30.03.1997 og bílslysins 04.04.1997. Þannig telst 25% varanleg örorka orsakast af bílslysinu 04.04.1997.
Stefnandi telst samkvæmt framangreindu hafa hlotið tímabundið atvinnutjón vegna bílslyssins 04.04.1997 í 30 vikur. Samkvæmt 2. gr. skbl. skal bætur fyrir atvinnutjón ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. Stefnandi byggir á að þar sem stefndi hafi á árinu 1994 hafið uppbyggingu eigin atvinnurekstrar sem hafi valdið því að tekjur hans hafi lækkað mjög frá því sem að þær voru áður eigi vegna þessara sérstöku aðstæðna stefnanda að miða við meðaltekjur hans vegna þriggja ára þar á undan. Þessu hafnar stefndi og byggir á að aðeins eigi að bæta sannað raunverulegt tekjutap.
Fyrir liggur að heildartekjur stefnanda á árinu 1996 námu samtals kr. 500.000. Heildartekjur hans á árinu 1997 námu samtals kr. 52.617. Tekjutjón milli ára er því kr. 447.383. Ekki er við annað að styðjast um tekjur stefnda en skattframtöl hans. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að tekjutjón hans hefði orðið annað og meira. Stefnda ber ekki að bæta stefnanda nema sannað tekjutjón hans vegna tímabundinnar örorku. Hefur stefndi bætt stefnanda sannað tímabundið tekjutjón miðað við að hann hafi verið óvinnufær í 13,8 mánuði.
Stefnandi var rúmliggjandi í skilningi skaðabótalaganna í 25 daga vegna bílslyssins 4. apríl 1997. Hefur stefndi greitt stefnanda bætur miðað við að hann hafi verið rúmliggjandi í 6 vikur eða 42 daga.
Varanlegur miski stefnanda er metinn 15% og hefur stefndi greitt stefnanda miskabætur í samræmi við það.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skbl. skulu árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Fyrir liggur að stefnandi, sem er bifvélavirki, starfaði er slysið varð við eigið fyrirtæki sem hann hafði stofnað á árinu 1994. Eftir að stefnandi hóf störf við eigið fyrirtæki lækkuðu tekjur hans verulega frá því sem þær höfðu verið áður. Byggir stefnandi á að þar sem aðstæður síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið hafi verið óvenjulegar vegna stofnunar atvinnurekstrarins séu tekjur hans á þeim tíma ekki réttur mælikvarði á framtíðartekjur hans og því beri samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skbl. að meta árslaun hans sérstaklega við útreikning bóta. Byggir stefnandi á að miða beri við tekjur áranna 1992 til 1994 uppreiknaðar. Stefndi fellst á að meta þurfi árslaun stefnanda sérstaklega en mótmælir því að miðað sé við tekjuárin 1992 til 1994 og telur rétt að miða við meðallaun bifvélavirkja á slysdegi. Ekkert liggur fyrir um að annað hafi staðið til hjá stefnanda en að halda áfram atvinnurekstri sínum og þar með störfum sem bifvélavirki. Verður því fallist á með stefnda að miða skuli útreikning bóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku við meðallaun bifvélavirkja á slysdegi. Með greiðslu þeirri er stefndi innti af hendi 10. febrúar 2003 greiddi stefndi stefnanda bætur vegna 30% varanlegrar örorku miðað við meðallaun bifvélavirkja.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að stefndi hefur að fullu greitt stefnda bætur vegna bílsslyssins 4. apríl 1997 með greiðslum þeim, sem hann innti af hendi 10. og 12 febrúar 2003.
Kostnaður sá sem stefnandi krefur stefnda um undir liðnum útlagður kostnaður telst til málskostnaðar og verður ekki dæmdur sérstaklega. Með greiðslunni 10. febrúar 2003 greiddi stefndi málskostnað samtals kr. 849.588. Telst stefndi hafa greitt stefnanda málskostnað að fullu miðað við þann dag. Rétt þykir að stefnandi beri sjálfur sinn málskostnað eftir það og að stefndi beri allan sinn kostnað af málinu.
Samkvæmt framangreindu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnda í málinu og málskostnaður felldur fellur niður.
Dóm þennan kveða upp Þorgerður Erlendsdóttur dómstjóri, Halldór Baldursson bæklunarskurðlæknir og Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna dómenda en endurflutningur málsins var talinn óþarfur.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Harðar Hilmarssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.