Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2015


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. október 2015.

Nr. 34/2015.

Atlantsolía ehf.

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Andri Árnason hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Sératkvæði.

A hf. krafði L hf. um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt af tveimur lánssamningum sem gerðir höfðu verið við forvera L hf. Þar sem í samningunum hafði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu endurreiknaði L hf. á árinu 2011 upphaflegan höfuðstól lánanna frá lántökudegi til útreikningsdags með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Voru lánin að fullu gerð upp á árunum 2012 og 2013. Deildu aðilar um hvort L hf. hefði verið heimilt að krefja A hf. um viðbótargreiðslu vegna þess vaxtamunar sem hlaust af því að lánin báru á framangreindu tímabili vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 en ekki umsamda vexti. Hélt A hf. því fram að greiðsluseðlar vegna afborganna hefðu falið í sér fullnaðarkvittanir L hf. sem með útgáfu þeirra hefði hefði firrt sig rétti til að krefja A hf. um frekari greiðslu vaxta fyrir liðna tíð. Snérist ágreiningur aðila því í aðalatriðum um hvort fullnægt væri skilyrðum til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks réttar að kröfuhafi, sem við efndir kröfu sinnar hefur fengið minna greitt en honum bar, eigi rétt til greiðslu þess sem á vantar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við mat á áhrifum fullnaðarkvittana yrði að hafa hliðsjón af stöðu samningsaðila í skuldarsambandinu. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar yrði ráðið að stærri fyrirtæki væru ekki með öllu svipt möguleikanum til að bera fyrir sig regluna um áhrif fullnaðarkvittana. Þegar þau ættu í hlut hlyti á hinn bóginn eðli málsins samkvæmt að gilda strangari mælikvarði við mat á aðstöðumun milli þeirra og fjármálafyrirtækja en þegar um einstaklinga og smærri fyrirtæki væri að ræða. Af því leiddi að því aðeins væru skilyrði til að víkja frá meginreglunni þegar stærri fyrirtæki ættu í hlut að beiting reglunnar leiddi til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara að jafnvægi í skuldarsambandinu yrði raskað þannig að ekki yrði við unað. Hæstiréttur taldi að hlutfall viðbótarkröfu L hf. af upphaflegum höfuðstól lánanna væri umtalsvert að teknu tilliti til verðbreytinga. Auk þess yrði að leggja til grundvallar að A hf. hefði verið í góðri trú um að greiðslur hans á afborgunum og vöxtum hverju sinni fælu í sér fullar efndir. Þá hefði festa verið komin á framkvæmd samninganna. Gæti þetta með öðru mælt með því að fallist yrði á kröfu A hf. Á hinn bóginn yrða að líta til þess að tekjur A hf. væru verulegar í samanburði við tekjur annarra hérlendra fyrirtækja og yrði því að telja A hf. stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Að virtu eðli þeirra viðskipta sem A hf. stundaði var ekki talið að sá aðstöðumunur hefði verið með A hf. og L hf. að úrslitum gæti ráðið þegar metið væri hvort vikið yrði frá meginreglunni. Að teknu tilliti til rekstrartekna A hf. var ekki talið að viðbótarkrafa L hf., sem höfð hafði verið uppi án ástæðulaus dráttar og A hf. hefði þegar greitt, hefði valdið slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu hans að jafna mætti til þess óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Stæði það því A hf. nær en L hf. að bera umræddan vaxtamun. Væru því ekki skilyrði til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Var L hf. því sýknað af kröfu A hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2015. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 77.770.554 krónur en til vara 74.373.763 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi tók áfrýjandi fjölmyntalán hjá Landsbanka Íslands hf. árið 2007 að jafnvirði 45.000.000 krónur með númerinu 9398 og annað árið 2008 að jafnvirði 293.000.000 krónur með númerinu 11745 og var lánstími þeirra beggja fimm ár. Óumdeilt er að stefndi fer með réttindi og skyldur lánveitanda samkvæmt þeim samningum sem til grundvallar lánveitingunum liggja. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi voru í samningum um lánin ákvæði um tengingu höfuðstóls þeirra við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla og jafnframt að lántaki skyldi greiða svokallaða LIBOR vexti ásamt álagi af lánsfjárhæðinni með 60 greiðslum á samningstímanum.

Um það er ekki deilt að ákvæði samninganna tveggja um tengingu höfuðstóls lánanna við gengi erlendra gjaldmiðla voru í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Endurreiknaði stefndi því í ágúst og september 2011 samkvæmt lögum nr. 151/2010 upphaflegan höfuðstól lánanna frá lántökudegi til útreikningsdags með vöxtum samkvæmt 1. málslið. 4. gr. laga nr. 38/2001. Miðaðist endurútreikningur láns númer 9398 við 24. ágúst 2011 og láns númer 11745 við 1. september það ár. Við endurútreikninginn lækkaði höfuðstóll eldra lánsins úr 78.981.136 krónum í 41.834.190 krónur eða um 47,03% og yngra lánsins úr 366.901.382 krónum í 256.084.577 krónur eða um 30,20%. Í nýjum höfuðstól beggja lánanna var meðtalin viðbótarkrafa stefnda um vexti fyrir liðna tíð, sem nam mismun á vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 og LIBOR vöxtum sem greiddir höfðu verið frá upphafi til viðmiðunardags. Mismuninn lagði stefndi við ógreiddan höfuðstól lánanna sem skyldi greiðast með afborgunum á umsömdum gjalddögum það sem eftir lifði lánstímans. Með þessu telur stefndi sig í formi lækkunar lánsskuldbindingarinnar í reynd hafa endurgreitt áfrýjanda inneign hans vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar en dregið frá lækkuninni viðbótarkröfu sína um vexti fyrir liðna tíð. Áfrýjandi stóð jafnan full skil á öllum greiðslum samkvæmt lánssamningunum og gerði eldra lánið upp 24. ágúst 2012 en það yngra 2. apríl 2013. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni bréfs áfrýjanda 21. október 2011 til stefnda þar sem gerðar voru athugasemdir við endurútreikninga hans.

Áfrýjandi vefengir ekki skyldu sína til að greiða stefnda vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af óverðbættum höfuðstól lánanna frá endurútreikningsdegi til loka lánstímans. Hann andmælir því á hinn bóginn að sér verði gert að greiða vexti samkvæmt sama lagaákvæði af upphaflegum höfuðstól lánanna frá lántökudegi til útreikningsdags og þar með þann vaxtamun sem af því hlaust að lánin báru á þessu tímabili síðastgreinda vexti en ekki LIBOR vexti eins og um var samið. Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi er ekki deilt um fjárhæð eftirstöðva lánanna á endurútreikningsdegi þeirra, annars vegar að teknu tilliti til vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 og hins vegar að því gefnu að samningsvextir hafi verið að fullu greiddir á þessu tímamarki og höfuðstóll lánsins jafnframt lækkaður til samræmis við raungreiðslur áfrýjanda. Málatilbúnaður áfrýjanda er á því reistur að greiðsluseðlar vegna hverrar einstakrar afborgunar feli í sér fullnaðarkvittanir stefnda sem með útgáfu þeirra hafi firrt sig rétti til að krefja áfrýjanda um frekari vaxtagreiðslur fyrir liðna tíð. Snýst ágreiningur aðila samkvæmt þessu í aðalatriðum um hvort atvikum hátti svo í málinu að fullnægt sé skilyrðum til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks réttar að kröfuhafi, sem við efndir kröfu sinnar hefur fengið minna greitt en honum bar, eigi rétt til greiðslu þess sem á vantar.

II

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi verður ekki ráðið af stefnu málsins í héraði að áfrýjandi hafi reist málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi með endurútreikningi á öðrum og óskyldum lánum áfrýjanda viðurkennt skyldu sína til að bera þann vaxtamun sem um er deilt í málinu. Á hinn bóginn er til þess að líta að þeir endurútreikningar stefnda lágu ekki fyrir fyrr en tæpum þremur mánuðum eftir þingfestingu málsins 19. desember 2013. Áfrýjandi brást þá við með því að leggja fram bókun í þinghaldi 5. maí 2014 þar sem fram kom það sjónarmið að samkvæmt efni endurútreikninganna hefði stefndi þegar viðurkennt að með áfrýjanda og stefnda væri sá aðstöðumunur að áfrýjanda yrði ekki gert að greiða þá viðbótarkröfu sem um ræðir í þessu máli. Áfrýjandi hélt því fram málsástæðu sem á þessu var reist án ástæðulauss dráttar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og kemur hún því til efnisúrlausnar í málinu.

Fallist er á með héraðsdómi að stefndi hafi hvorki viðurkennt skyldu sína til að bera þann vaxtamun sem um ræðir í málinu né með nokkrum hætti gefið áfrýjanda réttmæta ástæðu til að ætla að svo væri. Þá er og staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að í bréfi áfrýjanda 21. október 2011 hafi komið fram nægilega sérgreindur fyrirvari við endurútreikninga stefnda.

III

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en honum bar, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Þar er og gerð grein fyrir þeirri undantekningu frá meginreglunni að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Jafnframt eru í héraðsdómi rakin þau sjónarmið sem  undantekningarreglan styðst við og leiða til þess að tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu verði einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Í dómaframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að þau atriði sem undantekningarreglan styðst við séu ásamt öðrum til viðmiðunar og að ekkert eitt þeirra ráði úrslitum. Þar ræður heildarmat á aðstæðum öllum en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Sem fyrr segir eru kröfur áfrýjanda í málinu á því reistar að hann hafi í höndum fullnaðarkvittanir sem valdi því að stefndi geti ekki krafist frekari vaxtagreiðslna fyrir liðna tíð. Áðurgreind regla um þýðingu fullnaðarkvittunar hvílir á þeim grunni að skuldari hafi með slíkri kvittun fengið í hendur viljayfirlýsingu frá kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og hafi skuldari þá að jafnaði réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera skuld sína upp að fullu. Við mat á áhrifum fullnaðarkvittana verður hér sem endranær að hafa hliðsjón af stöðu samningsaðila í skuldarsambandinu og skiptir þá máli hvort skuldari er annars vegar einstaklingur, lítið fyrirtæki með takmörkuð umsvif eða fámennt sveitarfélag eða hins vegar stórt fyrirtæki með veruleg umsvif. Með einstaklingum og litlum fyrirtækjum annars vegar og fjármálafyrirtækjum hins vegar er að jafnaði augljós aðstöðumunur, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 og 12. desember 2013 í máli nr. 430/2013. Hið sama gildir einnig um tiltölulega fámenn sveitarfélög, sbr. dóma réttarins 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 2. október 2014 í máli nr. 94/2014. Að auki verður hvað sveitarfélög varðar ekki framhjá því litið að verkefni þeirra eru að stórum hluta lögbundin, tekjustofnarnir markaðir í lögum og verulegar skorður reistar við heimildum þeirra til að stofna til útgjalda umfram kostnað sem hlýst af lögbundnum verkefnum.

Til viðbótar því sem áður getur leiðir einnig af dómaframkvæmd Hæstaréttar að stærri fyriræki eru ekki með öllu svipt möguleikanum til að bera fyrir sig regluna um áhrif fullnaðarkvittana, sbr. dóm réttarins 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014. Þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut hlýtur á hinn bóginn eðli málsins samkvæmt að gilda strangari mælikvarði við mat á aðstöðumun milli þeirra og fjármálafyrirtækja en þegar einstaklingar og smærri fyrirtæki eiga í hlut. Helgast það meðal annars af því að stærri fyrirtæki búa að jafnaði yfir meiri þekkingu á peningamálum og fjármálastarfsemi á innlendum og erlendum mörkuðum eða eiga í það minnsta auðveldara með afla sér hennar en þau sem smærri eru. Verður því við lántökur stærri fyrirtækja að gera ríkari kröfur til þeirra um aðgæslu gagnvart eðli og afleiðingum þeirra skuldbindinga sem þau undirgangast. Af þessu leiðir að því aðeins eru skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til fullra efnda þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut að beiting reglunnar leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara að jafnvægi í skuldarsambandinu verði raskað þannig að ekki verði við unað. Leiðir þetta af inntaki meginreglunnar og þeim þröngu skilyrðum sem sett eru fyrir því að vikið verði frá henni eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013. Gildir einu í slíku mati hvort starfsmannafjöldi stærri fyrirtækja er mikill eða lítill eða hvernig skipulagi í starfsemi þeirra er háttað því slíkir þættir ráðast oftar en ekki af eðli þeirra viðskipta sem fyrirtækin stunda.

Eins og áður er rakið er ekki ágreiningur um fjárhæðir eftirstöðva þeirra lána sem um ræðir í málinu á endurútreikningsdögum þeirra. Þegar þær fjárhæðir eru virtar verður lagt til grundvallar að krafa stefnda um viðbótarvexti fyrir liðna tíð hafi numið um 19,4% vegna láns nr. 9398 og 18,6% vegna láns nr. 11745 miðað við upphaflegan höfuðstól lánanna. Að teknu tilliti til verðbreytinga frá lántökudegi til endurútreikningsdags er þetta hlutfall umtalsvert. Þá er ljóst að aðilar lánssamninganna gengu báðir út frá því við hverja mánaðarlega greiðslu að útreikningar kröfuhafans á fjárhæð afborgunar og vaxta tækju mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Verður samkvæmt því lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi verið í góðri trú um að greiðslur hans á afborgunum og vöxtum hverju sinni fælu í sér fullar efndir. Jafnframt var í ljósi þess sem áður er rakið komin á festa í tengslum við framkvæmd lánssamninganna. Gætu þessi atriði með öðrum mælt með því að fallist yrði á kröfu áfrýjanda í málinu. Hitt verður þó jafnframt að hafa í huga sem áður greinir og hefur verið ítrekað í dómum Hæstaréttar að öll þau atriði sem undantekningarreglan styðst við eru til viðmiðunar þegar metið er hvort skilyrðum hennar sé fullnægt og getur ekkert eitt þeirra ráðið úrslitum heldur ráðast þau af heildarmati hverju sinni. Því er til fleiri atriða að líta í því mati sem hér fer fram.

Ekki liggur fyrir hverjar voru rekstrartekjur áfrýjanda árið 2007 en 2008 þegar seinna lánið var tekið voru rekstrartekjur hans rúmir fimm og hálfur milljarður króna. Rekstrartekjurnar árið 2011 þegar endurútreikningar umræddra lána fóru fram námu tæpum sjö milljörðum króna, þær voru einnig tæpir sjö milljarðar 2012 þegar eldra lánið var gert upp og rúmir sex og hálfur milljarður 2013 þegar yngra lánið var gert upp. Jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að skattar og gjöld á eldsneyti eru hluti tekna áfrýjanda eru tekjur hans eigi að síður verulegar í samanburði við tekjur annarra hérlendra fyrirtækja. Telst áfrýjandi því stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og ber að skoða stöðu hans í því ljósi.

Samkvæmt gögnum málsins felst meginhluti starfsemi áfrýjanda í sölu á innfluttu eldsneyti og eru útgjöld hans í tengslum við kaup þeirra aðfanga sem hann endurselur hér á landi samkvæmt því að stærstum hluta í erlendum myntum en tekjurnar í íslenskum krónum. Verðmyndun á innfluttu eldsneyti ræðst af heimsmarkaðsverði þar sem fjölmargir þættir hafa áhrif auk gengisþróunar. Ætla verður í ljósi þess sem áður segir að þeim er slík og áþekk erlend viðskipti stunda megi í ljósi þekkingar sinnar og reynslu fyllilega vera ljós sú áhætta, sem í því felst að taka lán í erlendum myntum, þegar tekjurnar eru í íslenskum krónum og þar með hvaða áhrif neikvæð þróun gengis getur haft á afkomu þeirra. Þá verður og í þessu sambandi að leggja til grundvallar það sjónarmið sem fram kemur í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 að áfrýjanda hafi mátt vera ljóst þegar hann tók hin gengisbundnu lán að umsamin vaxtakjör gátu aldrei komið til álita nema í tengslum við gengistrygginguna og því hafi verið bein og órjúfanleg tengsl milli þeirra ákvæða og skilmála þar um vexti. Við aðstæður sem þessar verður ekki talið að sá aðstöðumunur sé með stórum fyrirtækjum eins og áfrýjanda og fjármálafyrirtækjum að úrslitum geti ráðið þegar metið er hvort skilyrði séu til að víkja frá áðurgreindri meginreglu.

Á árinu 2012 þegar áfrýjandi gerði upp eldra lánið voru rekstrartekjur hans eins og áður er fram komið tæpir sjö milljarðar króna og fjármagnsgjöld 134.671.015 krónur. Á árinu 2013 þegar áfrýjandi gerði yngra lánið upp voru rekstrartekjur hans rúmir sex og hálfur milljarður króna og fjármagnsgjöld 82.635.296 krónur. Í því samhengi verður ekki litið svo á að viðbótarkrafa stefnda, sem höfð var uppi án ástæðulauss dráttar og áfrýjandi hefur í raun þegar greitt, hafi valdið slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu hans að jafna megi til þess óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Samkvæmt þessu og að gættu öðru því sem hér hefur verið rakið þykir það standa áfrýjanda nær en stefnda að bera þann vaxtamun fyrir liðna tíð sem af því leiðir að skuldbinding hans samkvæmt lánssamningunum tveimur hefur eins og lög bjóða verið vaxtareiknuð samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Eru því ekki skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt stefnda til viðbótargreiðslna úr hendi áfrýjanda og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Benedikts Bogasonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um það sem greinir í I. og II. kafla dómsins. Ég er hins vegar ósammála niðurstöðunni að öðru leyti af eftirfarandi ástæðum:

I

Eins og ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar í málum vegna endurútreiknings lána, sem bundin hafa verið ólögmætri gengistryggingu, gildir sú meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu. Við sérstakar aðstæður hefur verið viðurkennt í dómaframkvæmd að undantekningar gildi frá þeirri reglu. Hefur einkum komið til greina að víkja frá meginreglunni þegar skuldari hefur með réttu getað miðað við að lögskiptunum sé endanlega lokið og hann síðan í góðri trú hagað ráðstöfunum sínum í samræmi við það. Við mat á því verður að líta til eðlis skuldarsambandsins, aðstöðu bæði kröfuhafa og skuldara og hvorum þeirra stóð nær að ganga úr skugga um að efndir væru fullnægjandi. Þá verður viðbótarkröfu frekar hafnað ef kröfuhafi hefur sýnt af sér tómlæti við að hafa uppi kröfu um leiðréttingu. Að baki undantekningum frá meginreglunni búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en viðbótarkrafa getur haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Á það sérstaklega við þegar viðvarandi skuldarsamband til lengri tíma er tekið upp hvað fortíðina varðar og skuldara í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum, þvert á væntingar skuldara um hið gagnstæða miðað við það sem aðilar hafa fram að því lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Í slíkum tilvikum mæla veigamikil rök með því að víkja frá fyrrgreindri meginreglu.

 Þegar áfrýjandi innti af hendi greiðslur til stefnda af þeim tveimur lánssamningum sem málið tekur til er ljóst að báðir aðilar gengu út frá því við hverja greiðslu að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð afborgunar og vaxta tæki mið af því að gengistrygging lánanna væri gild. Var áfrýjandi því í góðri trú um að greiðslur hans á umsömdum vöxtum fælu í sér fullar efndir. Þá var komin festa á framkvæmd lánssamninganna, en áfrýjandi greiddi mánaðarlegar afborganir samkvæmt þeim frá árunum 2007 og 2008.

Að því er varðar stöðu aðila er til þess að líta að lánveitandi, Landsbanki Íslands hf., sem stefndi leiðir rétt sinn frá, var stórt fjármálafyrirtæki á alþjóðlegum markaði, sem bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin gengistryggð lán, sem reyndust ólögmæt. Þótt áfrýjandi hafi verið nokkuð stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða liggur ekkert fyrir um að hann hafi búið yfir sérþekkingu á fjármálastarfsemi og peningamálum á fjölþjóðlegum vettvangi. Verður starfsemi áfrýjanda, sem felst í innflutningi og sölu eldsneytis á smásölumarkaði, ekki jafnað til starfsemi stefnda og þeirrar þekkingar sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu ein yfir. Var því fyrir hendi augljós aðstöðumunur milli lánveitanda og lántaka í viðskiptum þeirra, en um þessa stöðu þeirra má að sínu leyti hafa til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013. Einnig liggur fyrir að skilmálar lánanna voru samkvæmt einhliða ákvörðun lánveitanda og stöðluðum skilmálum hans hvað slík lán varðar án þess að áfrýjandi hafi ráðið þar nokkru sem máli skiptir.

Með aðilum er ekki tölulegur ágreiningur um fjárhæð viðbótarkröfu áfrýjanda vegna lánssamninganna, en hún nemur um 19,4% vegna samnings nr. 9398 og 18,6% vegna samnings nr. 11745 miðað við upphaflegan höfuðstól lánanna. Auk þessa máls er rekið annað mál milli aðila hér fyrir dómi nr. 35/2015, sem dæmt er samhliða, en í því er um að ræða viðbótarkröfu vegna lánssamnings sem nemur um 23,1% af upphaflegum höfuðstól þess. Þetta hlutfall er í öllum tilvikum umtalsvert og það er enn hærra ef litið er til hlutfalls af greiddum vöxtum. Samtals nemur viðbótarkrafa stefnda vegna lánssamninganna þriggja rétt rúmum 265 milljónum króna og ber að líta til þess þegar virt er fjárhagsleg röskun áfrýjanda.

Við mat á því hvort vikið verður frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu verður að leggja heildarmat á lögskiptin og aðstæður allar. Þótt vægi mismunandi atriða sé ekki það sama ræður venjulega ekkert eitt þeirra úrslitum. Í þeim efnum getur þó fjárhagslegt óhagræði skuldara haft þungt vægi en því verulegra sem það er því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni. Umfang viðbótarkröfu stefnda vegna fyrrgreindra lána er umtalsvert þegar litið er til rekstarafkomu áfrýjanda en hagnaður hans samkvæmt ársreikningi var 112.460.973 krónur árið 2011 og 164.243.246 krónur árið 2012. Nemur því umframkrafan í heild sinni tæplega samanlögðum hagnaði á tveimur rekstarárum áfrýjanda eftir að stefndi hafði uppi viðbótarkröfu sína við endurúrteikning lánanna. Þá getur ekki skipt sköpum í þessu sambandi þótt áfrýjandi sé nokkuð stórt fyrirtæki á innlendan mælikvarða en stærð þess og umfang starfseminnar verður með engu móti jafnað til þess stórfyrirtækis sem dómur réttarins 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 tók til, en í því máli var viðbótarkrafa á hendur fyrirtækinu tekin til greina. Aftur á móti á áfrýjandi sér fremur samstöðu að þessu leyti með því fyrirtæki sem dómur réttarins 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014 laut að, en þar var viðbótarkröfu á hendur því hafnað.

Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið tel ég standa stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinu og leiðir af því að lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Getur stefndi því ekki krafið áfrýjanda um þá viðbótargreiðslu. Þá fá ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, ekki haggað þessari niðurstöðu, enda er ekki með almennum lögum unnt með svo íþyngjandi hætti að hrófla afturvirkt við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað. Færi það í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og fleiri dóma réttarins um þá niðurstöðu sem gengu í kjölfarið.

II

Aðalkrafa áfrýjanda vegna beggja lánssamninganna er reist á því að á nokkrum gjalddögum lánanna hafi umsamdir vextir verið hærri en vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 hefðu orðið. Telur áfrýjandi að standa beri honum skil á þeim mun en í varakröfum hans er þessum kröfulið sleppt. Á það verður ekki fallist með áfrýjanda að hann geti krafið stefnda um endurgreiðslu á vöxtum vegna gjalddaga þegar samningsvextir voru óhagstæðari en vextir eftir 4. gr. laganna, enda ber að virða lögskipti vegna lánssamninganna sem eina heild að þessu leyti, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013. Þá ber ekki að taka til greina þá kröfu áfrýjanda að stefnda verði gert að greiða almenna vexti af fjárhæð sem svarar til viðbótarkröfunnar sem hann stóð skil á, enda verður því ekki fundin stoð í venju eða lögum, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Verður heldur ekki talið að reikna beri vexti af þeirri fjárhæð eftir 8. gr. laganna. Samkvæmt þessu tel ég að gera eigi stefnda að greiða áfrýjanda 8.747.884 krónur vegna lánssamnings nr. 9398 og 54.643.801 krónu vegna lánssamnings nr. 11745 eða samtals 63.391.685 krónur. Jafnframt ber að taka til greina kröfu áfrýjanda um að fjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingu málsins í héraði 19. desember 2013 til greiðsludags og dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar á báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2014.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2013 og dómtekið 28. október sl. Stefnandi er Atlantsolía ehf., Lónsbraut 2, Hafnarfirði. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Í endanlegri kröfugerð sinni hefur stefnandi uppi tvær samhliða greiðslukröfur gegn stefnda. Í fyrsta lagi krefst stefnandi þess aðallega að stefndi greiði 11.232.527 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða 10.532.032 krónur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi greiði 66.538.027 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 63.841.731 krónur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða lúta að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Málsatvik

                Sakarefni málsins lýtur einkum að heimild stefnda, sem lánveitanda, til að áskilja sér vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu gegn fullnaðarkvittunum stefnanda við endurútreikning tveggja lána, sem stefnandi tók upphaflega hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007 og 2008. Ekki er um það deilt að téð lán voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Ekki er heldur um það ágreiningur að stefndi fer með öll réttindi og skyldur lánveitanda samkvæmt þeim lánssamningum sem síðar greinir.

                Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus.

                Tilgangur stefnanda samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er innflutningur á eldsneyti, sala á olíuvörum og skyld starfsemi. Stefnandi leggur á það áherslu að hann hafi ekki sérþekkingu á sviði lánveitinga eða gjaldeyrismálum andstætt Landsbanka Íslands hf. og nú stefnda. Í málinu hafa verið lagðir fram ársreikningar stefnanda sem sýna að rekstrartekjur stefnanda námu tæpum sjö milljörðum árin 2011 og 2012. Þá skilaði stefnandi rúmlega 112 milljónum króna í hreinan hagnað árið 2011 og rúmlega 164 milljónum ári síðar. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að þótt stefnandi teljist samkvæmt þessu tiltölulega stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða sé hann langminnsta fyrirtækið á innlendum olíumarkaði.

                Stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér  þrjá lánssamninga um fjölmyntalán á árunum 2007 og 2008.  Er rekið sjálfstætt dómsmál um einn samninginn, sem lýtur að láni sem stefnandi hefur enn ekki greitt að fullu upp.  Lán samkvæmt hinum tveimur samningunum hefur stefnandi endurgreitt að fullu og eru það þau lán sem kröfur stefnanda lúta að. Annars vegar er hér um að ræða fjölmyntalánssamning nr. 0106-36-9398 (hér eftir nefnt lán nr. 9398) 13. september 2007 að jafnvirði 45 milljón króna, en hins vegar fjölmyntalánssamning nr. 0106-36-11745 (hér eftir nefnt lán nr. 11745) að jafnvirði 293.000.000 króna. Lánsfjárhæð var bundin gengi fimm erlendra gjaldmiðla í nánar tilteknum hlutföllum. Lánstími beggja lána var til fimm ára og skyldu lánin, þ.á m. vextir, endurgreidd að fullu með 60 jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Í báðum tilvikum miðuðust samningsvextir við millibankavexti í London (LIBOR) að viðbættu ákveðnu álagi. Stefnandi stóð full skil á öllum greiðslum vegna lánanna. Var fyrra lánið greitt upp 24. ágúst 2012 í samræmi við greiðsluáætlun, en hitt lánið greitt upp 2. apríl 2013 með sama hætti.

                Með bréfum stefnda 24. ágúst 2011 og 8. september það ár var stefnanda tilkynnt um endurútreikning lánanna samkvæmt lögum nr. 151/2010. Samkvæmt endurútreikningi lækkaði höfuðstóll láns nr. 9398 um 47,03% og nam 41.834.190 krónum. Höfuðstóll láns nr. 11745 lækkaði um 30,20% og nam 256.084.577 krónum. Í bréfunum kom fram að eftirstöðar mynduðu nýjan höfuðstól en skilmálar lánsins, aðrir en skilmálar um vexti og gengistryggingu, héldu áfram óbreyttir. Var jafnframt tekið fram að þar sem breytingar hefðu verið gerðar í samræmi við ákvæði laga væri ekki nauðsynlegt að gera skriflegan viðauka við lánin og myndi bankinn senda greiðslutilkynningar á næsta gjalddaga í samræmi við þetta. Ágreiningslaust er að við umræddan endurútreikning var ekki tekið tillit til þess að þeir vextir sem reiknaðir voru aftur í tímann samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 námu í ýmsum tilvikum hærri fjárhæðum en stefnandi hafði greitt í reynd vegna vaxta.

                Með bréfi 21. október 2011 gerði lögmaður stefnanda athugasemdir við endurútreikninga stefnda. Í bréfinu kom fram að stefnandi teldi ekki koma til greina að raska með afturvirkum hætti uppgerðum tímabilum lánssamninga, sem gerðir hefðu verið upp með greiðslu greiðsluseðla og útgáfu fullnaðarkvittana, og að stefnandi teldi sér ekki skylt að greiða hærri vexti fyrir liðna og uppgerða tíð líkt og endurútreikningarnir gerðu ráð fyrir. Sagði í bréfinu að stefnandi gæti því ekki fallist á að endurútreikningarnir væru byggðir á réttum forsendum. Stefnandi hygðist engu að síður greiða áfram afborganir af lánssamningunum til samræmis við endurútreikningana en „gerir alla fyrirvara og áskilur sér rétt til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda, leiði lög eða dómar Hæstaréttar að lokum til hagstæðari niðurstöðu.“

                Með bréfi stefnda 23. maí 2013 var vísað til dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október það ár í máli nr. 464/2012. Sagði í bréfinu að bankinn væri byrjaður að leiðrétta endurreikninga fasteignalána einstaklinga sem féllu skýrlega undir fordæmi í máli  nr. 600/2011. Hins vegar væri það mat bankans að þörf væri á frekari dómafordæmum til að skýra hvort og hvernig bæri að leiðrétta endurreikning annarra lána, þar með talið lána til fyrirtækja. Var í þessu sambandi vísað til tiltekinna mála sem til meðferðar voru hjá dómstólum. Í tölvubréfi 19. ágúst það ár svaraði starfsmaður stefnda fyrirsvarsmanni stefnanda á þá leið endurreikningur fyrir lögaðila væri lítillega hafinn. Í málinu liggja fyrir gögn um viðræður málsaðila um endurútreikning lána stefnanda á fundi 3. september sama ár. Af fundargerð fundarins verður ráðið að stefndi hafi ekki talið þau skilyrði sem fram koma í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 18. október 2012 uppfyllt og hafnað sjónarmiðum stefnanda um fullnaðarkvittanir. Verður ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi í framhaldinu gert reka að sjálfstæðum endurútreikningi lánanna. Liggja fyrir í málinu útreikningar endurskoðunarfyrirtækis 25. nóvember 2013 sem miðast við forsendur og gögn frá stefnanda og eru grundvöllur kröfugerðar hans.

                Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi reisir kröfur sínar í grundvallaratriðum á því að stefnda hafi við endurútreikning umræddra lánasamninga verið óheimilt að endurreikna til hækkunar vexti fyrir greiðslutímabil sem stefnandi hafði þegar greitt upp og fengið fyrir fullnaðarkvittun í skilningi fordæma Hæstaréttar. Hafi ólögmætur endurreikningur vaxta valdið því að stefndi krafði stefnanda um hærri eftirstöðvar en honum var heimilt. Beri stefnda því að endurgreiða honum það fé sem ofgreitt var með vöxtum og dráttarvöxtum.

                Stefnandi vísar til þess að ágreiningslaust sé að lánin séu bundin ólögmætri gengistryggingu í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001 og hafi stefndi viðurkennt ólögmætið án fyrirvara og endurreiknað lánin. Stefnandi telur einnig að stefndi hafi viðurkennt að reikna hafi átt lánin út að nýju í samræmi við regluna um fullnaðarkvittanir. Stefnandi hafi þannig beðið í góðri trú og réttmætri vissu í tæpt ár eftir nýjum endurútreikningi. Stefnandi mótmælir fullyrðingum stefnda um umfang viðbótarkröfu hans vegna vaxta og því sem stefnandi nefnir  „15% þröskuldareglu“.

Stefnandi telur að höfuðstól lánanna eigi að miða við upphaflega lánsfjárhæð í krónum án gengistryggingar og allar raunafborganir af höfuðstól eigi að koma honum til frádráttar. Stefnandi eigi því rétt á endurgreiðslu þeirrar viðbótarkröfu sem stefndi tók sér við endurútreikning lánanna, þ.e. endurgreiðslu vegna vaxtagreiðslna þar sem greiddir vextir voru hærri en vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Einnig eigi stefnandi rétt á því að sjálf endurgreiðslukrafa hans beri vexti, aðallega samkvæmt 4 gr. laga nr. 38/2001 en til vara samkvæmt 8. gr. laganna.

                Stefnandi vísar til þess að synjun stefnda við endurgreiðslu of hárra vaxtagreiðslna og greiðslna af of háum höfuðstól fari gegn meginreglum á sviði kröfuréttar, lögverndun eignarréttinda og dómafordæmum Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir. Aðferð stefnda fari einnig í bága við útreikningsaðferðir annarra lánastofnana. Fjármálafyrirtæki hafi fengið undanþágu Samkeppniseftirlitsins frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 til samræmingar við endurútreikning ólögmætra gengislána. Stefnandi mótmælir túlkun stefnda á dómum Hæstaréttar, ekki síst hvað varðar það skilyrði að umfang viðbótarkröfu verði að vera verulegt svo að skuldari geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum. Verði umfang viðbótarkröfu talið hafa áhrif við mat um beitingu reglunnar um fullnaðarkvittanir, þá sé ljóst að það atriði sé aðeins einn af fimm undirliðum eins af þremur meginatriðum við matið. Matið sé því heildarmat.

                Stefnandi vísar til þess að ágreiningslaust sé að festa hafi verið á framkvæmd lánssamninganna, en endurgreiðslukröfur stefnanda hafi stofnast í hvert sinn sem hann ofgreiddi af lánunum tveimur. Endurgreiðslukröfur samanstandi af ofgreiddum höfuðstól og ofgreiddum vöxtum. Verði útreikningur stefnda látinn standa hafi hann auðgast með ólögmætum hætti um það sem ofgreiðslum stefnanda nemur. Stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu á ofgreiðslum vegna of hás höfuðstóls sem stefnandi greiddi vegna þess að stefndi gerði ranglega ráð fyrir meintri viðbótarkröfu sinni við endurútreikning höfuðstólsins.

Stefnandi byggir á því að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum. Í fyrsta lagi hafi stefnandi verið í góðri trú þegar hann greiddi í samræmi við greiðslutilkynningar stefnda og fékk í staðinn kvittanir fyrri hverja greiðslu. Í öðru lagi hafi verið verulegur aðstöðumunur á aðilum. Stefndi sé fjármálafyrirtæki á lánamarkaði sem geri allar gerðir lánsgerninga, allt frá einföldum upp í mjög flókna og umfangsmikla. Stefnandi hafi enga sérþekkingu á sviði lánsskuldbindinga og hafi aldrei starfað lögfræðingur innan fyrirtækisins. Í þriðja lagi hafi það augljóslega staðið lánveitandanum nær að gæta að lögmæti lánasamninganna og þar með nær að bera áhættuna af mistökum sínum. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að komin hafi verið á festa við framkvæmd beggja samninga þar sem við fyrri endurútreikning höfðu verið greiddir 48 gjalddagar af 60 vegna láns nr. 9398 og 39 gjalddagar af 60 vegna láns nr. 11745. Þegar málið hafi verið höfðað hafi 60 gjalddagar af 60 verið greiddir vegna beggja lána. Lánin hafi alltaf verið í skilum Stefnandi hafi með réttmætri vissu mátt halda að stefndi ætti ekki lögmæta viðbótarkröfu á sig mörgum árum eftir að stefnandi byrjaði að fá fullnaðarkvittanir í hendur fyrir afborgunum. Lánveitandi hafi samið samningana einhliða og án nokkurrar aðkomu stefnanda sem var ekki gert kleift að koma með athugasemdir eða tillögur. Þar fyrir utan hafi stefnandi ekki haft neina þekkingu til að bera við samningsgerðina. Ekki sé réttlætanlegt fyrir stefnda að bera fyrir sig viðbótarkröfu á grundvelli sinna eigin mistaka við útgáfu greiðsluseðla og fullnaðarkvittana. Auknar kröfur verði að gera til stefnda sem fjármálafyrirtækis.

Stefnandi telur viðbótarkröfu stefnda vera verulega. Meint viðbótarkrafa stefnda nemi samanlagt 32.079.878 krónum og sé augljóslega umtalsverð hvort sem litið sé til upphaflegs höfuðstóls skuldar eða þeirra vaxta sem greiddir voru. Stefnandi hefur lagt fram sérstakan útreikning á umfangi viðbótarkröfu stefnda um vexti miðað við endurútreikningsdag. Að því er varðar lán nr. 9398 er miðað við að eftirstöðvar höfðustóls hafi numið 32.503.657 krónum miðað við raunafborganir stefnanda í stað 41.834.190 krónur samkvæmt endurútreikningi. Mismunurinn nemi 9.330.533 krónum eða u.þ.b. 21% af upphaflegum höfuðstól og 82% af greiddum vöxtum samkvæmt endurútreikningi stefnda eða 34,5% af greiddum vöxtum samkvæmt útreikningi stefnanda. Að því er varðar lán nr. 11745 er á sambærilegum grundvelli talið að viðbótarkrafa stefnda nemi 19% af upphaflegum höfuðstól og 114% af greiddum vöxtum eða 116% af greiddum vöxtum samkvæmt útreikningi stefnda.

Samkvæmt þessu eigi öll rök að baki reglunni um fullnaðarkvittanir við um aðstæður aðila. Stefndi hafi gefið út skýrar yfirlýsingar til stefnanda um uppfyllta greiðsluskyldu með útgáfu kvittana. Fjárhagslegir hagsmunir stefnanda af endurgreiðslu viðbótarkröfu séu verulegir. Stefnandi hafi haft réttmætar væntingar og borið traust til lánveitanda. Lánveitandi hafi einhliða samið hina stöðluðu samningsskilmála. Stefndi hafi vísað til þess að beðið væri með nýjan endurútreikning vegna mála Plastiðjunnar og þrotabús Bergeyjar Fasteignafélags ehf. Í báðum tilvikum hafi niðurstaðan orðið sú að leggja regluna um fullnaðarkvittanir til grundvallar.

Stefnandi byggir á því að reglan um fullnaðarkvittanir girði fyrir viðbótarkröfur stefnda fyrir liðna tíða vegna vaxta en hafi ekki áhrif á endurgreiðslukröfur stefnanda vegna ofgreiðslna vaxta. Reglan gildi aðeins sem undantekning frá viðbótargreiðslum til stefnda en ekki sem undantekning frá meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Þar fyrir utan hafi stefnandi, eins og gefi að skilja, aldrei gefið út neinar fullnaðarkvittanir til stefnda, sem eitt og sér girði fyrir beitingu reglunnar.

Við munnlegan flutning málsins var vísað til endurútreiknings stefnda á þremur öðrum lánum, sem vísað var til sem „bílalána“, og talið að í þeim endurútreikningi fælist viðurkenning hans á því að stefnandi gæti byggt rétt á fullnaðarkvittunum í málinu.

Vaxtakrafa stefnanda byggist á því að endurgreiðslukröfurnar beri vexti frá stofndegi sínum, þ.e. hverri og einni ofgreiðslu. Vaxtakrafa á grundvelli 8. gr. laga nr. 38/2001 rúmist innan vaxtakröfu á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001.

Fjárhæð krafna stefnanda er nánar skýrð svo að hún byggi á muninum á raungreiðslum stefnanda að teknu tilliti til reglunnar um fullnaðarkvittanir og greiðslum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Aðalkröfur miðist við að reglan gildi aðeins stefnanda til hagsbóta. Þegar þeir vextir sem stefnandi greiddi í reynd hafi verið lægri en vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 sé því miðað við að stefndi eigi ekki rétt til viðbótarvaxta. Varakröfur miðist hins vegar við að svo sé. Með hliðsjón af því að ekki er tölulegur ágreiningur um kröfur stefnanda er ekki ástæða til að rekja frekar forsendur útreikninga hans.

Stefnandi vísar til almennra reglna á sviði kröfuréttar og samningaréttar, sérstaklega til meginreglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Um kröfugerð vísar stefnandi til 27. gr. laga nr. 91/1991 og að dómkröfurnar séu samkynja. Jafnframt vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og reglunnar um bann við afturvirkni laga. Stefnandi vísar í heild til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 4. gr., 10. gr., 6. gr., 8. gr. og 18. gr., sem og 18. gr. eldri laga, auk laga nr. 151/2010

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að fyrrgreindir endurútreikningar stefnda hafi verið í samræmi við lög nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010, sem og fordæmi Hæstaréttar. Stefnda hafi verið heimilt að taka skuldasamband aðila upp með téðum endurútreikningum enda hafi hann að fullu tekið tillit til inneignar vegna þeirra ofgreiðslna sem mynduðust vegna ólögmætrar gengistryggingar. Stefndi byggir á því að með viðtöku endurútreiknings og greiðslum á grundvelli þeirra hafi stefnandi firrt sig rétti til að hafa uppi kröfur um endurgreiðslur síðar. Vísar hann til þess að sá fyrirvari sem stefnandi gerði hafi ekki verið nægilega skýr og afmarkaður. Stefndi hafi því ekki verið í vondri trú við móttöku greiðslna stefnanda, enda ekki greitt án eða umfram skyldu.

Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á endurgreiðslu á grundvelli reglna um endurheimt ofgreidds fjár. Stefndi hafi ekki auðgast á kostnað stefnanda. Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafa, sem miðast við að reiknaðir séu lágir erlendir vextir af íslenskri óverðtryggðri lánsfjárhæð, teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda, á kostnað stefnda.

Verði talið að líta beri til reglna um viðbótarkröfurétt telur stefndi lagaskilyrði uppfyllt til að beina hafi mátt viðbótarkröfu að stefnanda við leiðréttingu. Stefndi vísar til þess að meginreglan sé sú að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni gildi sú undantekning að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati viðbótarkröfu sinni. Tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu verði þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður og beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé.

Stefndi telur að einstökum skilyrðum fyrir því að unnt sé að byggja á fullnaðarkvittunum sé ekki fullnægt. Stefnandi hafi ekki með réttu getað litið svo á að greiðslur væru fullnægjandi þó að sá þáttur skuldarinnar, þ.e. lánsmyntin, sem ótvírætt var forsenda vaxtanna, ætti eftir að sæta endurskoðun. Stefnanda hafi ekki getað dulist samhengið á milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar. Stefnandi vísar til stærðar, umfangs og sérfræðiþekkingar stefnanda. Stefnandi verði ekki talinn geta hafa litið svo á með réttu að greiðslur væru fullnægjandi.

Stefndi telur að ekki hafi verið um aðstöðumun að ræða. Því er mótmælt sem nýrri málsástæðu og efnislega hafnað að stefndi hafi þegar viðurkennt að á milli stefnanda og stefnda sé nægur aðstöðumunur svo stefnandi verði ekki krafinn um viðbótarkröfu. Stefndi vísar til þess að meginhluti skuldbindinga stefnanda hafi verið óefndur þegar kom að endurútreikningi. Því hafi skort á festu. Stefndi telur að stefnandi hafi greitt 16% af upphaflegum höfuðstól við endurútreikning en 11,5% af framreiknuðum höfuðstól vegna láns nr. 9398. Um sé að ræða 22,7% og 17% vegna láns nr. 11745.

Stefndi telur umfang viðbótarkrafna ekki verulegt þannig að fullnægt sé skilyrðum fyrir því að stefnandi geti byggt á fullnaðarkvittunum. Viðbótarkrafa nemi 8,68% vegna láns nr. 9398 og 9,01% vegna láns nr. 11745. Þá sé tekið mið af fjárhæð viðbótarkrafnanna sem hlutfalls af eftirstöðvum lánanna eins og þau áttu að standa miðað við umsamdar afborganir annars vegar og upphaflegan höfuðstól hins vegar. Að því er varðar lán nr. nr. 9398 útskýrir stefndi þessar hlutfallstölur þannig að ef miðað sé við samningbundnar afborganir af ógengistryggðum höfuðstól hafi eftirstöðvar 24. ágúst 2011 átt að vera 37,928,173 krónur. Samkvæmt endurútreikningi stefnda í samræmi við lög nr. 151/2010 hafi eftirstöðvar hins vegar verið 41.834.190 krónur sem feli í sér 3.906.017 króna hækkun eða 8,68% af upphaflegum höfuðstól. Hlutfallið sé enn lægra ef miðað sé við framreiknaðan höfuðstól sem stefndi telur nema 61.949.491 krónum í ágúst 2011 að teknu tilliti til lánskjaravísitölu.

Stefndi telur stefnanda vera stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Ársreikningur 2012 sýni veltu um 7 milljarðar króna, hagnaður (EBIDTA) 329 milljónir króna og eignir alls um 3.5 milljarðar króna. Stefndi sé ekki einstaklingur, fámennt sveitarfélag eða lítið fyrirtæki, svo sem átt hafi við í þeim dómum Hæstaréttar þar sem fallist hafi verið á fullnaðarkvittanir. Stefndi vísar einnig til þess að sérsjónarmið hljóti að gilda um sveitarfélög. Tekjur þeirra og gjöld séu að meginstefnu til lögbundin og svigrúm þeirra sé takmarkað.

Ekkert liggi fyrir um að viðbótarkrafa stefnda hafi valdið slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda að jafna megi til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Stefnandi hafi í reynd þegar greitt viðbótarkröfu stefnda á lokagjalddögum lánanna. Endurgreiðslukrafa stefnanda verði ekki réttlætt með því að viðbótarkrafa stefnda sé nú svo íþyngjandi að henni hafi ekki mátt beina að stefnanda við endurútreikning í ágúst og september 2011. Stefndi hafi einnig haft uppi viðbótarkröfu sína án tafar, þ.e. strax við endurútreikning.

                Að því er varðar kröfugerð stefnanda hafnar stefndi því að „ofgreiðslur“, sem myndast þegar vextir, sem greiddir voru á einstökum gjalddögum fram að endurútreikningi, voru hærri en vextir samkvæmt 4. gr laga nr. 38/2001, myndi einar og sér kröfurétt stefnanda. Í öllu falli eigi að virða lögskipti aðila fram að endurútreikningi sem eina heild, en væntanlega sé ekki umdeilt að stefnandi hafi ekki að öllu samanlögðu ofgreitt af vaxtaskuld sinni á tímabilinu fram að endurútreikningi, þ.e. ef miðað er við vexti skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Ekki er gerð sérstök athugasemd við útreikningsaðferð á varakröfum stefnanda.

                Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnanda. Krafa um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 eigi sér sér enga stoð, hvorki í lögum nr. 38/2001, fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 151/2010. Lögum nr. 151/2010 verði auk þess ekki beitt með afturvirkum hætti. Lögjöfnun frá lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta sé ekki tæk. Þá eigi 8. gr. laga nr. 38/2001 ekki ekki við, enda krafa stefnanda ekki reist á því að um skaðabætur sé að ræða og ekki um skaðabótaskylda háttsemi að ræða.

Niðurstaða

                Í máli þessu er óumdeilt að þau tvö lán sem stefnandi tók hjá stefnda og áður er lýst voru bundin gengistryggingu í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fyrir liggja endurútreikningar stefnanda vegna lánanna, annars vegar frá 24. ágúst 2011 og hins vegar frá 1. september það ár. Með bréfi lögmanns stefnanda 21. október 2011 var þessum endurútreikningum stefnda mótmælt auk þess sem því var sérstaklega mótmælt að stefnda væri heimilt að raska með afturvirkum hætti uppgerðum tímabilum lánssamninga sem gerð hefðu verið upp með greiðslum til samræmis við greiðsluseðla. Þá var tekið fram í bréfinu að stefnandi hygðist engu að síður greiða áfram afborganir af lánssamningum til samræmis við endurútreikninga stefnda en gerði alla fyrirvara og áskildi sér rétt til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda, leiddu lög eða dómar Hæstaréttar að lokum til hagstæðari niðurstöðu.

Af 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 101. gr. sömu laga, verður dregin ályktun um að stefnanda máls sé heimilt að leggja fram gögn eftir þingfestingu máls ef dómari telur að hann verði ekki krafinn um þau þá þegar, enda séu gögnin lögð fram jafnskjótt og tilefni verður til. Áðurlýst bréf stefnanda var lagt fram í tilefni af þeirri vörn stefnda að stefnandi hefði ekki gert nægilegan fyrirvara við greiðslur sínar eftir að endurútreikningur stefnda lá fyrir. Liggur jafnframt fyrir að bréfið var lagt fram í beinu framhaldi af framlagningu greinargerðar stefnda.

Að mati dómsins getur ekki orkað tvímælis að áðurlýst gagnaframlagning stefnanda, svo og sú málsástæða sem á henni byggir, er nægilega snemma fram komin. Þá er haldlaus sú málsástæða stefnda að téð skjal hafi ekki að geyma nægilega sérgreindan fyrirvara við útreikning stefnda. Hins vegar verður ekki ráðið af stefnu að málatilbúnaður stefnanda sé á því byggður að stefndi hafi með endurútreikningi á öðrum og óskyldum lánum hans viðurkennt skyldu sína til að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu téðra lána. Gegn mótmælum stefnda getur þessi málsástæða stefnanda því ekki komið til álita. Þá er ekki á það fallist að stefndi hafi á einhverjum tíma viðurkennt slíka skyldu sína fyrir stefnanda eða gefið honum réttmæta ástæðu til að ætla að fallist yrði á kröfur hans þessa efnis.

Samkvæmt framangreindu kemur til úrlausnar sú meginmálsástæða stefnanda að stefnda hafi við endurútreikning lánanna verið óheimilt að áskilja sér vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 með afturvirkum hætti vegna reglu fjármunaréttar um fullnaðarkvittanir og þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og þeirri grein var breytt með lögum nr. 151/2010.

A

Í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að bein og órjúfanleg tengsl væru á milli tiltekinna ákvæða lánssamnings um samningsvexti og ólögmætrar gengistryggingar samningsins. Ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiddi því til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þá var talið að þessar aðstæður væru sambærilegar því að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að vextir hefðu verið tilteknir og því væri rétt að lán bæri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, þ.e. vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.

Með 1. mgr. 2. gr. laga nr. 151/2010, sem höfðu að meginefni breytingar á lögum nr. 38/2001 vegna dóma Hæstaréttar í svokölluðum gengislánamálum, þ. á m. í fyrrgreindu hæstaréttarmáli, var þeirri reglu slegið fastri að lán bundið ólögmætri gengistryggingu skyldi bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Var í athugasemdum við frumvarp til laganna talið að regla þessi væri í fullu samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindum dómi 16. september 2010 en rétt þætti að „sú regla sé skýrð í lögum og öllum ljós“. Þá var í almennum athugasemdum við frumvarpið lögð á það áhersla að fyrir lægi að ógild væru ákvæði tugþúsunda samninga „sem allir hefðu væntanlega gert án þvingana og í góðri trú um að þeir væru í samræmi við lög og reglur“. Kom fram að við þessar aðstæður hefði löggjafinn heimild og skyldu að stjórnlögum til að setja almennar reglur í þágu almannahagsmuna. Einnig sagði í athugasemdunum að leitast hefði verið við að taka tilhlýðilegt tillit til hagsmuna kröfuhafa og skuldara, en jafnframt væri það forsenda lagasetningarinnar að hún væri almenn og jafnræði væri tryggt.

B

Með dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 var áréttuð sú undantekning frá meginreglu kröfuréttar um fullar efndir samninga að kröfuhafi geti, að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, glatað rétti til fullra efnda þegar skuldari hefur móttekið kvittun úr hendi kröfuhafa og hefur þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína þannig að ekki komi til frekari kröfu síðar. Jafnframt var það niðurstaða Hæstaréttar í því máli að nánari skilyrðum fyrir því að víkja frá meginreglunni væri fullnægt þegar öll atriði höfðu verið metin heildstætt. Leiddi af því að lánveitandi gat ekki krafið skuldara um viðbótargreiðslur vegna vaxta með afturvirkum hætti. Var það jafnframt niðurstaða Hæstaréttar, með vísan til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 3/1944, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að fyrrnefnd lög nr. 151/2010 gætu ekki haggað þessari niðurstöðu, enda væri ekki með almennum lögum unnt að hrófla, svo að íþyngjandi væri með afturvirkum hætti, við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra væri stofnað og af þeim greitt. Hefur þessi meginafstaða Hæstaréttar verið áréttuð í síðari dómum.

Forsendur Hæstaréttar verður að túlka á þá leið að lög nr. 151/2010 séu, vegna fyrirmæla 72. gr. stjórnarskrárinnar, að vettugi virðandi að því marki sem þau svipta skuldara rétti, sem hann hefði annars haft samkvæmt almennum reglum fjármunaréttar, til að bera fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af láni sem bundið er ólögmætri gengistryggingu. Samkvæmt þessu geta lög nr. 151/2010 ekki haggað við rétti lántaka til að byggja rétt á fullnaðarkvittunum samkvæmt almennum reglum kröfuréttar sem þegar hafði skapast honum til handa við gildistöku laganna 29. desember 2010. Slík niðurstaða jafngildir hins vegar því að lánveitandi fái í reynd samningsvexti sem miðuðust við brostna forsendu samkvæmt dómum Hæstaréttar, þ.e. ólögmæta gengistryggingu lánsins. Gildir þá einu þótt leiða megi að því líkur að lántaki hefði aldrei getað vænst þess að fá óverðtryggt lán í íslenskum krónum á slíkum vöxtum.

Samkvæmt framangreindu verður að túlka fordæmi Hæstaréttar á þá leið að það jafnvægi milli hagsmuna skuldara og lánveitanda sem leitast var við að ná með setningu laga nr. 151/2010 hafi við vissar aðstæður falið í sér meiri skerðingu á stjórnskipulega vernduðum eignarréttindum skuldara en löggjafanum var heimilt að ákveða. Í ljósi dóma Hæstaréttar getur það því eitt og sér ekki ráðið úrslitum að stefnandi málsins hefði aldrei getað vænst þess að fá óverðtryggt lán í íslenskum krónum með þeim samningsvöxtum sem áður er lýst, þ.e. vöxtum sem miðuðust í grunninn við millibankavexti í Lundúnum (LIBOR).

C

Eins og fram kemur í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hvílir fyrrgreind regla um fullnaðarkvittanir fyrst og fremst á þeim grundvelli að skuldari, sem fengið hefur í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið, hefur að jafnaði réttmæta ástæðu til að ætla hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína. Á hann þess vegna að geta treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar, enda hafi hann verið í góðri trú þegar hann innti af hendi greiðslur sínar. Geta aðstæður sem þessar þar af leiðandi talist þess eðlis að réttmætt sé að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum við skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu og fullra efnda.             

Samkvæmt forsendum Hæstaréttar ræðst mat á réttmætum væntingum af fleiri atriðum, meðal annars af stöðu aðila og hvort festa hafi verið við framkvæmd samnings. Af forsendum fyrrgreinds dóms og síðari dóma verður þó ráðið að umrædd undantekning sé ekki aðeins talin helgast af því sem lántaki mátti með réttu vænta þegar hann fékk í hendur fullnaðarkvittun heldur hafi það ekki síður þýðingu hvaða röskun það hafi í för með sér fyrir fjárhagslega hagsmuni skuldara, sem um lengri tíma hefur hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp og honum gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð. Miðar heildarmat á öllum framangreindum atriðum að endingu að því að skera úr um hvorum samningsaðila það standi nær að bera áhættuna af því að vaxtagreiðslur skuldara reyndust byggðar á þeirri brostnu forsendu sem áður er lýst.

                Af þessu leiðir að meta verður áhrif fullnaðarkvittana á samningssamband með hliðsjón af stöðu samningsaðila í hverju og einu tilviki, bæði þegar lagt er mat á réttmæti væntinga lántaka og einnig þá röskun sem hann verður fyrir ef viðbótarkrafa lánveitanda er viðurkennd. Við beitingu reglunnar um fullnaðarkvittanir skiptir af þessum sökum verulegu máli hvort lántaki er annars vegar einstaklingur, lítið fyrirtæki eða fámennt sveitarfélag eða  hins vegar eitt af stærstu verslunarfyrirtækjum landsins, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013. Þegar um er að ræða stærri fyrirtæki verður samkvæmt þessu að gera auknar og verulegar kröfur til væntinga lántaka, svo og umfangs og eðlis þeirrar fjárhagslegu röskunar sem hlýst af því að skuldasamband aðila er tekið upp og lánveitandi fær fullar efndir.

Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. einkum dóma Hæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013, 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 og 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014 verður ályktað að auknar kröfur til stærri fyrirtækja leiði ekki til þess að þau séu alfarið svipt möguleikum á því að bera fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna vaxtagreiðslna af ólögmætum gengistryggðum lánum. Á hinn bóginn leiðir af dómaframkvæmd að leggja verður mat á atvik hvers og eins máls sérstaklega. Verður því ekki talið að umræddir dómar verði fyrirvaralaust lagðir til grundvallar sem fordæmi í máli þessu.

D

Ekki er deilt um fjárhæð eftirstöðva umræddra lána á endurútreikningsdögum, annars vegar að teknu tilliti til vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, og hins vegar að því gefnu að samningsvextir hafi verið að fullu greiddir á þessu tímamarki og höfuðstóll jafnframt lækkaður til samræmis við raungreiðslur stefnanda. Að virtum þessum tölum verður á það fallist með stefnanda að krafa stefnda um viðbótarvexti hafi numið u.þ.b. 21% vegna láns nr. 9398 og u.þ.b. 19% vegna láns nr. 11745 miðað við upphaflegan höfuðstól lánanna. Ef tekið er tillit til verðbreytinga frá lántökudegi til endurútreikningsdags er þetta hlutfall um 15% af höfuðstól vegna beggja lána, en engu að síður yfir þeim mörkum sem miðað hefur verið við í dómaframkvæmd, við mat á þessu atriði, þegar um er að ræða einstaklinga, sveitarfélög eða lítil fyrirtæki. Í máli þessu er hins vegar til þess að líta að stefnandi er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Árið 2011, þegar endurreikningur téðra lánssamninga fór fram, nam velta stefnanda um 6.942.443.156 krónum. Hreinn hagnaður stefnanda það ár var 112.460.973 krónur en hafði numið 776.664.460 krónum árið þar á undan. Stefnandi hefur tekjur sínar af innflutningi og sölu á eldsneyti en alkunna er að verðmyndum á slíkum vörum fylgir að verulegu leyti heimsmarkaðsverði. Gögn málsins benda til þess að stefnandi hafi tekið yfirvegaða ákvörðun um að taka gengistryggð lán hjá stefnda og átt kost á því að verja sig gegn óæskilegum áhrifum gengisbreytinga. Þá leiddu endurútreikningar stefnda ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um auknar greiðslur heldur var þvert á móti um það að ræða að afborganir stefnanda lækkuðu til muna.

Að virtum öllum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að áskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið svo verulegri  og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá fyrirmælum settra laga um endurútreikning téðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar og áðurlýstrar reglu kröfuréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.

Af hálfu stefnanda flutti málið Andri Árnason hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Atlantsolíu ehf.

Málskostnaður fellur niður.