Hæstiréttur íslands
Mál nr. 497/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 16. janúar 2004. |
|
Nr. 497/2003. |
X (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) gegn sýslumanninum í Reykjavík (Eyrún Guðmundsdóttir deildarstjóri) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi samkvæmt 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2003, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. nóvember 2003 um að sóknaraðili skuli vistaður á tilteknu sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 59. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vistuninni verði markaður ákveðinn skammur tími. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð álitsgerð Péturs Haukssonar geðlæknis 11. janúar 2004. Er það niðurstaða læknisins að lífi og heilsu sóknaraðila sé hætta búin vegna alvarlegs geðsjúkdóms og mikillar áfengisneyslu. Megi búast við að svo verði áfram, að minnsta kosti um nokkurt skeið. Sé því mikilvægt að sóknaraðili verði vistaður á viðeigandi stofnun meðan svo er og að hann fái viðeigandi meðferð, gegn vilja sínum ef svo ber undir. Því er fullnægt skilyrðum til að sóknaraðili verði vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi samkvæmt 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 3. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. og 17. gr. áðurnefndra laga, greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila eins og í dómsorði greinir
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Steingríms Gauts Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs talsmanns sóknaraðila, 75.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2003.
Með beiðni, dagsettri 2. desember sl. hefur Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl. fyrir hönd X farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, 26. f.m. um það að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í dag.
Sóknaraðili var sviptur sjálfræði [...] 1990. Enginn hefur fengist til þess að vera lögráðamaður hans og hefur yfirlögráðandi, sýslumaðurinn í Reykjavík, því farið með lögráð hans. [...]
Með vísan til þess sem rakið hefur verið og til 1. mgr. 58. gr. lögræðislaga nr. 71,1997 álítur dómarinn rétt að staðfesta ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um það að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanns sóknaraðila, Steingríms Gauts Kristjánssonar hrl., 45.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. nóvember 2003, um það að sóknaraðili, X, skuli vistast á geðdeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss.
Málskostnaður, þ.m.t. þóknun til talsmanns sóknaraðila, Steingríms Gauts Kristjánssonar hrl., 45.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.