Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 127/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Bergi Má Ágústssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Fíkniefnabrot. Hegningarauki.

B var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn í íbúðarhúsnæði og stolið fartölvu og GPS tæki. Þá var hann ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa að heimili sínu haft í vörslum sínum 8,85 g af amfetamíni. B játaði brot sín, sem hann hafði framið fyrir uppsögu annars dóms þar sem honum var gert að sæta fangelsi í 15 mánuði, þar af 12 skilorðsbundið. Var skilorðshluti þess dóms tekinn upp og refsing B ákveðin 12 mánaða fangelsi, sbr. 60. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 9. desember 2003 á hendur Bergi Má Ágústssyni, kt. [...], Y, kt. [...], , og Z, kt. [...], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003:

I

Ákærðu, Bergi Má og Y, fyrir þjófnað með því að hafa fimmtu­daginn 3. apríl brotist inn í íbúðarhúsnæði að X með því að brjóta rúðu, og stolið HP Omnibuk fartölvu að verðmæti um kr. 200.000 og Garmin GPS tæki að verðmæti um kr. 75.000.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Ákærða, Bergi Má, fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa föstudaginn 4. apríl að heimili sínu að Meðalholti 13 haft í vörslum sínum 8,85 g af amfetamíni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

(M.010-2003-0875)

III

Ákærða, Z, fyrir hlutdeild í þjófnaði skv. ákærulið I með því að hafa fimmtudaginn 3. apríl veitt meðákærðu, Bergi Má og Y, upplýsingar um aðstæður og innbú í íbúðarhúsnæði að X, en greiða átti ákærða fyrir upplýsingarnar með fíkniefnum.

Þetta er talið varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að upptækt verði gert framangreint fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Verjandi ákærða, Bergs Más, krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.

Af hálfu ákærðu, Y og Z, var krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða Bergs Más og ákærðu, Y og Z,  hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærðu hafa skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærðu er sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði, Bergur Már, er fæddur í júlí 1984. Samkvæmt sakavottorði ákærða var ákæru á hendur honum frestað skilorðsbundið í eitt ár frá 14. september 1999 vegna brots gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var 10. apríl 2001 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var hann dæmdur 1. júní 2001 í tólf mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi  24. júní 2002 var ákærði fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. og  1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Í síðastgreindum dómi var dómurinn frá 1. júní 2001 tekinn upp og dæmdur með og refsing ákveðin í einu lagi. Þrátt fyrir það var ákærða í raun ekki gerð frekari refsing með hinum síðari dómi heldur ítrekuð 12 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt dóminum frá 1. júní 2001, þó þannig að skilorðstími miðaðist við birtingu hins síðari dóms. Þá var ákærði dæmdur 15. júlí 2002 í fjórtán mánaða fangelsi skilorðsbundið í fjögur ár fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og var dómur frá 24. júní 2002 tekinn upp og dæmdur með því máli. Ákærði var dæmdur til greiðslu 50.000 króna sektar 26. nóvember 2002 fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. og sviptur ökurétti í þrjá mánuði vegna uppsafnaðra punkta samkvæmt viðauka við reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota, nr. 431/1998. Í síðast greinda dómum var skilorðsdómurinn frá 15. júlí 2002 látinn halda sér samkvæmt heimild í 60. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá hlaut ákærði 18 mánaða fangelsi, þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir með dómi 9. apríl 2003 fyrir fíkniefnaabrot, vopnalagabrot, hylmingu og þjófnað. Loks hlaut ákærði dóm 3. október 2003, 15 mánaða fangelsi, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum og var 15 mánaða skilorðshluti dómsins frá 9. apríl 2003 dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi.

Brot þau sem ákærði hefur gerst sekur um í máli þessu framdi hann fyrir uppsögu tveggja síðastgreindu dómanna og er því um hegningarauka að ræða við þá dóma. Ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðshluta 15 mánaða fangelsisdóms frá 3. október 2003, þ.e. 12 mánuði, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði braust inn í íbúðarhús, sem telst alvarlegt brot. Auk þess framdi ákærði brot sitt samkvæmt I. kafla ákæru í félagi við annan mann. Þá hafði ákærði í vörslum sínum töluvert magn af amfetamíni. Á móti kemur að ákærði játaði brot sín greiðlega.

Ákærði hefur þrátt fyrir ungan aldur langan sakarferil að baki. Hann hefur ítrekað hlotið skilorðsdóma og ítrekað rofið skilorð. Það er mat dómsins að hefði verið dæmt um brot þau sem ákært er fyrir í máli þessu, í dómi frá 3. október 2003, hefði ákærða ekki verið gerð þyngri refsing er þar var ákveðin, en einnig er það mat dómsins að refsingin hefði þá ekki verið skilorðsbundin. Þykir refsing ákærða með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og með vísan til ofangreinds hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en ekki þykir ástæða til skilorðsbinda refsinguna vegna ítrekaðra skilorsrofa ákærða.

Ákærði, Y, er fæddur í maí 1982. Hann fékk frestun á ákæru, skilorðsbundið í tvö ár vegna brota gegn 231. og 1. mgr. 259 gr. almennra hegningarlaga, 8. febrúar 1999. Þá hlaut hann skilorðsbundna ákærufrestun 4. ágúst 1999, í tvö ár frá 4. ágúst 1999. Hann hlaut fjögurra mánaða fangelsi 25. janúar 2000, skilorðsbundið í þrjú ár og með dómi 4. júní 2003 fékk hann 50.000 króna sekt fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá var hann sviptur ökurétti í 1 mánuð frá 1. júlí 2003. Brot ákærða nú er framið fyrir uppsögu þess dóms. Ber með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga að dæma ákærða hegningarauka við þann dóm.

Þrátt fyrir ungan aldur ákærða, Y, er sakarferill hans nokkur og ber að taka tillit til þess við ákvörðun refsingar. Einnig ber að líta til þess að ákærði braust inn í íbúðarhús og framdi brot sitt í félagi við annan mann, en jafnframt horft til þess að hann játaði brot sitt greiðlega. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin þriggja mánaða fangelsi, en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Z, er fæddur í janúar 1984.  Hann hlaut skilorðsbundna ákærufrestun 5. apríl 2000 í eitt ár frá 31. janúar 2000 vegna brots gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar er því litið til þess að ákærði hefur aðeins einu sinni gerst sekur um refsivert brot, til ungs aldurs hans og þess að hann játaði brot sitt greiðlega. Með vísan til framangreinds er refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Sakarkostnaður.

Engan kostnað leiddi af málinu annan en málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Bergs Más, og verður ákærði dæmdur til greiðslu málsvarnarþóknunar Arnar Clausen hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 45.000 krónur.

Fallist er á upptöku á 8,85 gramma af afmfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 6.mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Bergur Már Ágústsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fulnnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Z sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Bergur Már Ágústsson sæti upptöku á 8,85 grömmum af amfetamíni.

Ákærði, Bergur Már Ágústsson greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.