Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2000
Lykilorð
- Vörumerki
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2001 |
|
Nr. 266/2000.
|
Ágústína G. Pálmarsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Kirkjuhvoli sf. (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) |
Vörumerki.
Á fékk skráð vörumerkin Naust sem orðmerki og Naust sem orð- og myndmerki hjá Einkaleyfastofunni. K krafðist þess að skráningin yrði felld úr gildi þar sem orðið Naust hefði öðlast markaðsfestu sem nafn á veitingastað. Þegar Á lagði fram umsókn sína um skráningu vörumerkjanna hafði K um tveggja ára skeið átt húsnæði sem í hafði verið rekið veitingahús með sama eða líku nafni. Hafði veitingahúsið verið rekið þar með óverulegum hléum á sama stað í tæp fimmtíu ár. Fallist var á að heitið Naust sem nafn á veitingastað hefði því öðlast markaðsfestu í skilningi 2. gr. laga um vörumerki. Var því talið að skráning áfrýjanda á því hefðu verið í andstöðu við lög um vörumerki. Ekki var fallist á að Á hefði eignast umrædd vörumerki fyrir framsal. Var skráningin því felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2000. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda, svo og að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hennar að vörumerkjunum Naust sem orðmerki og Naust sem orð- og myndmerki. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi höfðaði mál þetta 28. janúar 1999 og krafðist þess að staðfest yrði með dómi að skráning vörumerkjanna Naust sem orð- og myndmerki og Naust sem orðmerki samkvæmt umsóknum áfrýjanda, sem hlutu auðkennin nr. 899/1996 og 900/1996 hjá Einkaleyfastofunni, sé ógild og að skráningin yrði felld úr gildi. Á þessa dómkröfu var fallist með hinum áfrýjaða dómi. Framangreindri kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á eignarrétti hennar að vörumerkjunum verður ekki með réttu komið að gagnstætt þessari dómkröfu stefnda nema með gagnsök. Þegar af þeirri ástæðu kemur krafa áfrýjanda um þetta efni ekki frekar til álita við úrlausn málsins.
II.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur veitingastaður verið rekinn í húsnæði að Vesturgötu 6 og 8 í Reykjavík með óverulegum hléum allt frá árinu 1954 undir nafninu Naust eða Naustið. Fasteignin Vesturgata 6 og 8 var seld nauðungarsölu á uppboði 10. febrúar 1994, en gerðarþoli við hana var Sala og markaður hf. Íslandsbanki hf. varð hæstbjóðandi á uppboðinu og fékk afsal frá sýslumanninum í Reykjavík fyrir fasteigninni 26. júlí 1994. Þar var meðal annars kveðið á um að öll veðréttindi og önnur óbein eignarréttindi skyldu máð af eigninni við þinglýsingu afsalsins. Í framhaldi af þessu afsalaði Íslandsbanki hf. fasteigninni til stefnda 29. júlí 1994, svo og næstu fasteign vestan hennar að Vesturgötu 10.
Fyrir liggur í málinu að stefndi hefur allt frá 29. júlí 1994 leigt út húsnæði í fasteigninni Vesturgötu 6 og 8 undir rekstur veitingahúss, eins eða fleiri. Óumdeilt er að veitingahús, sem þar hafa verið starfrækt á þeim tíma, hafi ýmist í heild eða að hluta borið sama heiti og áður hafði verið notað fyrir þá starfsemi á staðnum um 40 ára skeið. Þótt ekki séu efni til að fallast á með stefnda að umrædd húseign hans heiti sem slík Naust eða Naustið, verður ekki litið fram hjá því að langvarandi rekstur veitingahúss í henni undir þessu nafni hefur ótvírætt þau áhrif að verðmæti fasteignarinnar getur að nokkru marki ráðist af því hvort sérstaklega innréttuð húsakynni þar kunna áfram að verða nýtt fyrir veitingastarfsemi með sama heiti. Með stoð í grunnrökum að baki ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 14. gr. áðurgildandi laga nr. 47/1968 um vörumerki, sem taka til skráningar á vörumerkjum áfrýjanda, hefur stefndi þannig sem eigandi fasteignarinnar beina hagsmuni af því hvort áfrýjandi hafi samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sömu laga einkarétt á að nýta heitið. Er stefnda af þeim sökum heimilt að leitast við að fá þeim rétti áfrýjanda hrundið, svo sem hann gerir með málsókn þessari.
III.
Fyrir liggur í málinu að Hagur hf. seldi Sölu og markaði hf. fasteignirnar Vesturgötu 6 og 8, Vesturgötu 10 og Vesturgötu 10A með kaupsamningi 17. desember 1990. Var tekið fram í samningnum að kaupandinn hafi kynnt sér leigusamning um fyrstnefndu fasteignina við tvo nafngreinda menn. Þá var einnig kveðið þar á um að kaupandinn skyldi til tryggingar hluta skuldbindinga sinna veita veðrétt í „innréttingum og búnaði Naustsins“. Verður ekki annað ráðið af þessu en að rekstur veitingahússins hafi á þeim tíma verið á hendi leigutakanna, sem um ræddi í kaupsamningnum, svo og að Sala og markaður hf. hafi í tengslum við gerð hans eða áður orðið eigandi að lausafjármunum, sem nýttir voru við reksturinn. Á þessum tíma virðast stjórnarmenn í Sölu og markaði hf. hafa verið Sigurður Örn Sigurðarson og Sigurður H. Garðarsson, en fram er komið í málinu að sá fyrrnefndi sé eiginmaður áfrýjanda.
Með samningi, sem er dagsettur 25. janúar 1991, keypti Hagflötur Vesturvangur hf. af Sölu og markaði hf. „rekstur Naustsins, Símonarsalar, Geirsbúðar og Naustkráarinnar, Vesturgötu 6-8, Reykjavík“. Í samningnum var kveðið á um að kaupin næðu til allra innréttinga ásamt tækjum og áhöldum samkvæmt lista, sem honum átti að fylgja. Var mælt fyrir um að kaupverð „tækja, áhalda, innréttinga og viðskiptavildar“ væri tiltekinnar fjárhæðar, svo og að „afhending fyrirtækisins“ ætti að verða 1. febrúar 1991. Af hálfu seljandans var samningurinn undirritaður af sömu mönnum og áður er getið, en af hálfu kaupandans af Sigurlaugu Finnbogadóttur og áfrýjanda. Þrátt fyrir þennan samning gerði Sala og markaður hf. leigusamning 26. apríl 1991 við Naustið hf. um „veitingahúsið Naust“ ásamt nánar tilgreindu húsnæði að Vesturgötu 6 og 8. Sagði í samningnum að „leigusali leigir jafnframt leigutaka reksturinn sjálfan, þ.e. alla aðstöðu til veitingarekstrar, þ.m.t. borðbúnað, tæki og áhöld og hvaðeina sem við reksturinn er notað, sem og nafnið.“ Var umsaminn leigutími frá 1. maí 1991 til 30. apríl 2001 og leigutaka veittur forkaupsréttur og forleiguréttur að „rekstri og húsnæði.“ Í málinu hafa engar frambærilegar skýringar verið gefnar á því hvernig félagið hafi orðið eigandi að rekstri veitingarstaðarins í húsnæðinu eða hvernig atvikast gat að það gerði leigusamning um hann rúmum þremur mánuðum eftir að hafa selt hann.
Í málinu liggur fyrir afsal, dagsett 24. febrúar 1993, þar sem segir að seldur sé „rekstur Naustsins, ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber.“ Nánar var hinu selda þar lýst sem „allt lausafé Naustsins, ásamt öllu því er eigninni fylgir og fylgja ber þ.m.t. firmanafnið Naust.“ Tekið var fram að kaupandi tæki við hinu selda 1. mars 1993, en honum væri kunnugt um leigusamning 26. apríl 1991 við Naustið hf. „um hið selda og tekur við sem leigusali frá afhendingu.“ Seljandi samkvæmt afsalinu var nefndur „H. Vesturvangur hf.“, sem af kennitölu að dæma er sama félag og Hagflötur Vesturvangur hf. Af hálfu þess var afsalið undirritað af Sigurði Erni Sigurðarsyni. Í upphafi afsalsins var kaupandi nefndur „Kína-Grill sf.“ og tilgreind kennitala hans, sem er sú sama og áfrýjanda, en tvívegis á síðari blaðsíðu skjalsins var hann nefndur „Kína-Grill“, þar á meðal við undirskrift áfrýjanda, sem ritaði undir skjalið af hálfu kaupandans. Varðandi þessa ráðstöfun er til þess að líta að meðal gagna málsins er tilkynning til hlutafélagaskrár 10. mars 1992 um að hluthafafundur hafi verið haldinn í Hagfleti Vesturvangi hf. 4. janúar sama árs, þar sem í stjórn hafi verið kjörin Hilmar Garðarsson og áfrýjandi, sem hafi orðið formaður stjórnarinnar. Var tekið fram að þau hefðu bæði prókúruumboð fyrir félagið. Jafnframt liggja fyrir tilkynningar frá Hilmari 15. janúar 1993 og áfrýjanda 19. sama mánaðar um að þau segi sig úr stjórn félagsins. Eins og gagnaöflun í málinu hefur verið hagað verður samkvæmt þessu ekki annað séð en að engin stjórn hafi verið starfandi í félaginu á dagsetningu afsalsins 24. febrúar 1993. Hefur ekkert komið fram um að Sigurður Örn Sigurðarson hafi af öðrum ástæðum haft heimild til að skuldbinda félagið á þeim tíma. Að því er varðar kaupandann hefur áfrýjandi borið því við að ritvilla hafi verið gerð í texta afsalsins, þar sem hann var nefndur „Kína-Grill sf.“, enda hafi ekki verið skráð sameignarfélag með þessu heiti. Sigurður Örn Sigurðarson hafi á hinn bóginn skráð einkafirmað „Kína-Grill“ í firmaskrá Reykjavíkur með tilkynningu 18. desember 1989. Í málinu liggi fyrir tilkynning 10. ágúst 1994 til firmaskrár, þar sem fram komi að Sigurður hafi selt áfrýjanda „fyrirtækið“ 1. mars 1993. Hvað sem líður þessum sérstæðu skjölum og skýringum áfrýjanda, sem styðjast að nokkru við framburð Sigurðar fyrir héraðsdómi, leiðir þegar af framangreindu að hún var ekki bær um að rita firma „Kína-Grills“ 24. febrúar 1993.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að líta svo á að löngu fyrir þær ráðstafanir, sem hér hefur verið getið, hafi heitið Naust sem nafn á veitingastað öðlast markaðsfestu í skilningi 2. gr. laga nr. 47/1968 og þar með orðið vörumerki, sem notað var í rekstri þess. Óumdeilt er í málinu að hin ýmsu félög og firmu, sem tengjast áfrýjanda og eiginmanni hennar og hér hafa verið nefnd til sögunnar, hafi aldrei sjálf rekið veitingahúsið með þessu heiti, heldur hafi félag þeim ótengt, Naustið hf., haft reksturinn með hendi allt frá gildistöku fyrrnefnds leigusamnings 26. apríl 1991 og þar til leigumálanum lauk 30. september 1995 samkvæmt skriflegu samkomulagi félagsins við stefnda 2. ágúst sama árs. Án tillits til þess hvort þau gögn, sem áður er getið, sýni nægilega að Sala og markaður hf. og eftir atvikum Hagflötur Vesturvangur hf. hafi á sínum tíma orðið eigandi vörumerkisins Naust með því að fá framseldan atvinnureksturinn, sem vörumerkið var notað í, sbr. 32. gr. laga nr. 47/1968, voru slíkir annmarkar á undirritun fyrrnefnds afsals 24. febrúar 1993 að áfrýjandi getur ekki byggt á því að hugsanlegur vörumerkjaréttur þessara félaga, annars eða beggja, hafi færst í hendur hennar fyrir framsal.
Í ljósi þess, sem að framan greinir, stóð áfrýjandi í þeim sporum, þegar hún sótti 24. júlí 1996 um skráningu vörumerkjanna, sem deilt er um í málinu, að njóta einskis réttar yfir þeim á grundvelli 2. gr. eða 3. gr. laga nr. 47/1968. Þegar umsóknir áfrýjanda voru lagðar fram voru liðin sem næst tvö ár frá því að stefndi varð eigandi húsakynnanna, sem veitingahúsið var rekið í. Þótt kaup stefnda á fasteigninni Vesturgötu 6 og 8 hafi ekki út af fyrir sig þurft að breyta því að Sala og markaður hf. eða sá, sem kynni að leiða rétt sinn frá félaginu, gæti áfram hafa talist leigusali Naustsins hf. að búnaði tengdum rekstri veitingahússins og heiti þess, þá hætti síðastnefnt félag þeirri starfsemi 30. september 1995. Eftir það var veitingahúsið rekið af öðrum, en með óbreyttu heiti. Umsóknir áfrýjanda sneru þannig að vörumerkjum, sem aðrir höfðu þá haft lögmæt not af í að minnsta kosti tíu mánuði. Umsóknirnar voru því í andstöðu við ákvæði 2., 4. og 6. töluliðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 47/1968 á þeim tíma, sem þær voru lagðar fram. Af þeim sökum var Einkaleyfastofunni óheimilt að verða við umsóknum áfrýjanda gegn þeim andmælum, sem færð voru fram 19. mars 1997 í sameiningu af stefnda og þeim, sem þá rak veitingahúsið.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að fella úr gildi skráningu á umræddum vörumerkjum áfrýjanda, svo og ákvæði hans um málskostnað. Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Felld er úr gildi skráning Einkaleyfastofunnar á vörumerkinu Naust sem orð- og myndmerki og vörumerkinu Naust sem orðmerki á grundvelli umsókna nr. 899/1996 og 900/1996 frá áfrýjanda, Ágústínu G. Pálmarsdóttur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda, Kirkjuhvoli sf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 28. janúar 1999.
Stefnandi er Kirkjuhvoll sf., kt. 630785-0309, Kirkjustræti 4, Reykjavík.
Stefndi er Ágústína G. Pálmarsdóttir, kt. 100359-2439, Neðstaleiti 28, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda:
Að staðfest verði með dómi, að skráningar vörumerkjanna, NAUST (orð- og myndmerki), samkvæmt umsókn nr. 899/1996, og NAUST (orðmerki), samkvæmt umsókn nr. 900/1996, hjá Einkaleyfastofunni, á nafn stefndu, séu ógildar, og að skráningarnar verði felldar úr gildi. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.
Dómkröfur stefndu:
Að kröfu stefnanda verði hafnað, auk þess sem gerð er krafa um sýknu á málskostnaðarkröfu stefnanda.
Stefnda gerir jafnframt kröfu um, að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hennar á vörumerkinu, Naust (orðmerki) og Naust (orð- og myndmerki). Einnig er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málavextir
Húsin nr. 6 og 8 við Vesturgötu í Reykjavík eru gömul, a.m.k. á íslenskan mælikvarða. Samkvæmt ljósriti úr veðmálabók sýslumannsins í Reykjavík var Geir Zöega eigandi húsanna 1917 til 13. febrúar 1971. Hinn 23. febrúar 1971 er þinglýst eignarheimildum Geirs Zöega, Helga Zöega, Halldórs Zöega og Dagnýjar Zöega að samtals 72%. Hinn 19. mars 1987 er þinglýst eignarheimild Halldóru Ólafsdóttur Zöega að 28% húseignanna. Hinn 15. janúar 1988 keypti Svavar Egilsson húseignirnar. Dugguvogur 12 hf. keypti húseignirnar í nóv. 1989. Hagur hf. keypti húseignirnar 22. des. 1989. Sala og markaður hf. keypti húseignirnar með kaupsamningi, dags. 17. des. 1990. Húseignunum var afsalað af þrotabúi Hags hf. til Sölu og markaðar hf. 27. febrúar 1992. Íslandsbanki hf. keypti húseignirnar á nauðungaruppboði 10. febrúar 1994 og fékk afsal fyrir eignunum 26. júlí 1994. Gerðarþoli var Sala og markaður hf. Stefnandi keypti húseignirnar af Íslandsbanka 29. júlí 1994.
Á árinu 1954 var stofnað til veitingareksturs undir nafninu Naust í framangreindum húsum. Áður en til þess kom hafði húsnæði og innréttingum verið breytt verulega. Allt frá þeim tíma hefur verið rekin veitingastarfsemi í húsunum undir nafninu Naust. Framangreindir húseigendur voru ekki aðilar að veitingarekstrinum nema þá Svavar Egilsson sem að sögn stefndu annaðist veitingarekstur þar hluta af tímanum sem hann átti húsin. Ekkert er fram komið um að aðilarnir Duggurvogur 12 hf., Hagur hf., og Sala og markaður hf. hafi rekið veitingastarfsemi í húsunum á eignarhaldstíma sínum. Íslandsbanki hf. mun ekki heldur hafa annast veitingarekstur í húsunum á eignarhaldstíma sínum. Frá því að stefnandi eignaðist húsin hefur hann leigt þau út til veitingareksturs.
Með kaupsamningi, dags. 25. jan. 1991, seldi Sala og markaður hf. Hagfleti Vesturvangi hf. rekstur Naustsins, Símonarsalar, Geirsbúðar og Naustkráarinnar. Samkvæmt kaupsamningi fylgdu með í kaupunum tæki, áhöld og innréttingar. Umsamið kaupverð var 30.000.000 kr. Undir samning þennan rita, f.h. Sölu og markaðar hf. Sigurður Örn Sigurðarson og ólæsilegt nafn. F.h. Hagflatar Vesturvangs hf. rita Sigurlaug Finnbogadóttir og Ág. Pálmarsdóttir.
Hinn 26. apríl 1991, þ.e. þremur mánuðum eftir að Sala og markaður hf. seldi Hagfleti Vesturvangi hf. framangreindan rekstur, gerði Sala og markaður hf. húsaleigusamning við Naustið hf. um veitingahúsið Naust, Vesturgötu 6-8. Með leigusamningi þessum leigði leigusali leigutaka jafnframt reksturinn sjálfan, þ.e. alla aðstöðu til veitingarekstrar, þ.m.t. borðbúnað, tæki og áhöld og hvaðeina sem við reksturinn er notað, sem og nafnið. Umsaminn leigutími var frá 1. maí 1991 til 30. apríl 2001. Undir leigusamning þennan ritaði Sigurður Örn Sigurðarson vegna Sölu og markaðar hf. Heildverslunin Hagur hf. undirritaði samþykki sem þinglýstur eigandi. Þetta virðist vera fyrsta heimildarskjalið þar sem minnst er á nafn veitingarekstrarins.
Með afsali, dags. 24. febr. 1993, seldi H. Vesturvangur hf. Kína-Grilli sf. rekstur Naustsins ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber. Í afsali segir að nánar tiltekið sé hér um að ræða allt lausafé Naustsins, ásamt öllu því er eigninni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. firmanafnið Naust. Undir afsal þetta virðist Sig. Örn Sigurðarson rita f.h. H. Vesturvangs hf. og stefnda f.h. Kína-Grills. Með tilkynningu til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 10. ágúst 1994, tilkynnti Sigurður Örn Sigurðarson að hann hefði selt og afsalað fyrirtækinu Kína Grill til stefndu þann 1. mars 1993. Jafnframt var tilkynnt viðbót við nafnið Kína Grill og sagt að framvegis verði firmað ritað Kína Grill Naustið.
Þannig virðist stefnda undirrita kaup f.h. Kína-Grills áður en hún er orðin eigandi að fyrirtækinu. Fyrir dómi upplýsti lögmaður stefndu að Kína-Grill sf. hafi aldrei verið skráð.
Eftir að stefnandi keypti húsin Vesturgötu 6-8, 29. júlí 1994, hefur hann leigt húsin út. Þann 29. júlí 1994 gerði hann leigusamning, annars vegar við Naustið hf., um allt húsið nema kjallarann, og hins vegar við Kristjönu Geirsdóttur o.fl. um kjallara hússins. Þann 2. nóv. 1994 gerði hann annan leigusamning við Naustið hf., en nú um allt húsið, að undanskildum óinnréttuðum hluta rishæðar, frá l. nóv. 1994 til 31.okt. 1995. Þann 2. ágúst 1995 gerðu aðilar leigusamningsins með sér samkomulag um styttingu leigutímans og uppgjör leigunnar, m.a. með afhendingu þess lausafjár í eigu forsvarsmanna leigjandans, sem til staðar var í húsinu. Þann 29. sept. 1995 gerði stefnandi leigusamning um allt húsið við Naustið-veitingahús ehf. frá 29. sept. 1995 til 31. des. 1995. Þann 30. nóv. 1995 gerði stefnandi leigusamning við þá Óðin Jóhannsson og Þorfinn Guttormsson um allt húsið, að undanskildum áðurgreindum hluta rishæðar, frá 31.des.1995 til 31.des. 2005. Samkomulag varð hins vegar um lok þessa leigusamnings í júlí 1997. Frá 1. ágúst 1997 kveðst stefnandi hafa leigt Nausthúsið til Gamla ehf.
Naustið hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 30. nóvember 1995. Um líkt leyti hófst deila milli stefndu og stefnanda, um hvor ætti rétt á vörumerkinu, Naust (orð- og myndmerki) og Naust (orðmerki), og um eignarrétt á lausafénu, sem varð eftir í húsinu, þegar Naustið hf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði beiðni stefndu um innsetningarbeiðni vegna lausafjárins, sem fylgdi veitingarekstrinum að Vesturgötu 6-8.
Þann 24. júlí 1996 lagði stefnda inn hjá Einkaleyfastofunni umsókn um skráningu að vörumerkinu, NAUST (orð- og myndmerki), sem var gefið umsóknarnúmerið 899/1996, og umsókn um skráningu á vörumerkinu, NAUST (orðmerki), sem var gefið umsóknarnúmerið 900/1996, sbr. dskj. nr. 3 og 4. Óskað var skráningar beggja merkjanna fyrir rekstur veitingahúsa, tilreiðslu matar og drykkja og gistiþjónustu í flokki 42. Merkin voru birt í ELS-tíðindum 1997, bls. 3, útg. 20. janúar 1997.
Stefnandi andmælti skráningu merkjanna með bréfi, dags. 19.03.1997. Með ákvörðun Einkaleyfastofunnar þann 1. júlí 1998 í andmælamáli nr. 10/1998 voru heimilaðar skráningar merkjanna, NAUST (orð- og myndmerki), samkvæmt umsókn nr. 899/1996, og NAUST (orðmerki), samkvæmt umsókn nr. 900/1996. Úrskurðurinn var birtur í ELS-tíðindum 7/1998, bls. 39, útg. 20. júlí 1998.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Stefnandi byggir á því fyrst og fremst, að stefnda eigi ekki rétt til vörumerkja samkvæmt umsóknum nr. 899/1996 og 900/1996. Niðurstaða í andmælamáli nr. 10/1998 hjá Einkaleyfastofu byggi á misskilningi og röngum forsendum, og ákvörðunin um að heimila skráningu merkjanna sé því röng og beri að ógilda hana í máli þessu og fella skráningarnar úr gildi.
Hvað þetta varðar, er í fyrsta lagi á því byggt, að eignarréttur þeirra að vörumerkjunum, er stefnda virðist leiða rétt sinn frá, sé með öllu óljós. Framlagðir gerningar af hálfu stefndu séu óljósir og ótrúverðugir og hafi sumir a.m.k á sér yfirbragð málamyndagerninga, og í öllum tilvikum virðist eiginmaður stefndu vera í forsvari fyrir samningsaðila. Ekki hafi verið til þess vísað, hvernig Sala og Markaður hf. eignaðist rétt til vörumerkjanna. Þá þyki það og alveg fráleitt, að HagflöturVesturvangur hf., sem stefnda leiði rétt sinn beint frá, hafi öðlast einhvern rétt á grundvelli kaupsamnings við Sölu og Markað hf., dags. 25. jan. 1991, þegar Sala og Markaður hf. virðist síðan leigja allt það, er kaupsamningurinn tók til, þann 26. apríl 1991 til þriðja aðila.
Í öðru lagi er gildi afsalsins, dags. 24.febr. 1993, hvað varðar aðild H. Vesturvangs hf. véfengd, með vísan til tilkynninga til hlutafélagaskrár, þar sem þar til bærir undirriti ekki.
Í þriðja lagi sé efni þessa afsals ekki það, að atvinnurekstur sé framseldur og þar með vörumerkin, þar sem þau hafi ekki verið undanskilin, svo sem virðist sú meginforsenda, sem ákvörðun Einkaleyfastofunnar byggi á. Afsalið taki til lausafjár, innréttinga og firmanafnsins Nausts, sem hafi þó í raun ekki verið til. Í afsalinu sé einmitt til þess vísað, að veitingarekstur sé á hendi leigjanda.
Í fjórða lagi sé afsalshafi í afsalinu, dags. 24. febr. 1993, tilgreindur Kína-Grill sf., en aðild stefndu þar að sé með öllu óljós. Verði, þrátt fyrir þetta, litið svo á, að afsalshafi eigi að vera Kína Grill, sé að því að gá, að stefnda hafi ekki öðlast aðild að því fyrirtæki fyrr en 1. mars 1993 samkvæmt tilkynningu þeirra hjóna til Firmaskrár, dags. 10. ágúst 1994. Hvernig sem allt þetta verði þó skilið, sé eignarréttur stefndu í eigin nafni að vörumerkjunum alveg óskiljanlegur.
Í fimmta lagi er til þess vísað, að stefnda hafi aldrei notað þessi vörumerki, og með vísan til framangreinds, hafi þau heldur aldrei verið notuð á hennar vegum.
Að auki er á því byggt, verði litið svo á, þrátt fyrir allt framangreint, að stefnda hafi eignast rétt til vörumerkjanna, að hún hafi tapað þeim rétti að fullu og öllu fyrir tómlæti. Þegar boð Íslandsbanka hf. í Nausthúsið var samþykkt 25. febr. 1994, hafi stefnda misst öll hugsanleg umráð yfir rekstraraðilanum, sem notaði vörumerkin áfram í veitingarekstri sínum. Um þetta hafi stefndu auðvitað þá þegar verið kunnugt. Af hennar hálfu hafi þó ekkert verið aðhafst fyrr en tæpum tveimur árum síðar og þá reyndar eingöngu varðandi rétt til lausafjár og firmanafns. Stefnandi hafi öðlast yfirráð yfir Naustinu 29. júlí 1994. Honum hafi ekki verið kunnugt um að stefnda gerði kröfu til vörumerkjanna, fyrr en með útgáfu ELS-tíðinda 20. janúar 1997 og með birtingu stefnu 24. janúar 1997, eða um tveimur og hálfu ári eftir að hann öðlaðist umráðin, en allan þann tíma hafi vörumerkin verið notuð af rekstraraðilum í Nausthúsinu, sem voru leigjendur stefnanda. Þá hafi verið liðin tæp þrjú ár, frá því að stefnda hafði misst öll hugsanleg umráð yfir vörumerkjunum.
Loks er á því byggt, að stefnandi hafi öðlast betri rétt en stefnda til vörumerkjanna. Við kaup á fasteigninni nr. 6-8 við Vesturgötu í Reykjavík hafi hann öðlast rétt til vörumerkjanna sem þá hafi í 40 ár verið órjúfanlega tengd því húsi, sem auk annars heiti Nausthús, sbr. tilgreiningu í afsali til hans og umfjöllun í bókum og blöðum og framlögðum skjölum. Að auki hafi vörumerkin síðan verið notuð á vegum stefnanda í um 2 og 1/2 ár, áður en stefnda mótmælti notkun þeirra og því í reynd í mun lengri tíma en hugsanleg notkun á vegum hennar, sem hafi verið tæpt ár.
Stefnandi byggir málshöfðun sína á 29. gr. laga nr. 45/1997. Auk þess er vísað einkum til 3. gr. og 32. gr. þeirra laga. Svo og er vísað til eldri laga um vörumerki, nr. 47/1968, eftir því sem við á. Þá er vísað til óskráðra meginreglna samningaréttar og eignarréttar. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og rökstuðningur stefndu
Krafa stefndu um, að hafnað verði kröfu stefnanda, byggist á því, að hún eigi eignarrétt og einkarétt á vörumerkinu, Naust (orð- og myndmerki) og Naust (orðmerki). Eignarrétt sinn byggir stefnda á kaupsamningi og afsali, þar sem hún hafi m.a. keypt og greitt fyrir vörumerkið og viðskiptavild, sem fylgdi því. Kaupsamningurinn og afsalið liggi fyrir í málinu og hafi efni hans eða gildi ekki verið vefengt af samningsaðilum. Verði því að leggja hann til grundvallar varðandi þeirra réttinda og eigna, sem ráðstafað hafi verið með honum.
Stefnda byggir þannig á því, að hún hafi gert gildan og skuldbindandi samning, sem hafi ekki verið ógiltur, og sé hann því bindandi fyrir samningsaðila og aðra, sem vilji kalla til réttinda fyrir því, sem ráðstafað hafi verið með samningnum.
Krafa stefndu um, að hafnað verði kröfu stefnanda, sé jafnframt byggð á því, að með skráningu merkisins í vörumerkjaskrá hafi verið tekin hlutlaus og fagleg ákvörðun hjá Einkaleyfastofu um, hver væri rétthafi til merkisins. Þar sé um að ræða vel rökstudda og upplýsta stjórnsýsluákvörðun, þar sem tekið hafi verið á öllum sjónarmiðum umsækjanda, þ.e. stefndu, og andmælanda, þ.e. stefnanda í máli þessu, svo og fyrirliggjandi gögnum, sem séu að meginstefnu til þau sömu og um ræði í máli þessu. Ekkert nýtt sé komið fram í stefnu eða fylgigögnum hennar, sem ekki hafi þegar verið tekið á við andmælameðferð hjá Einkaleyfastofu, og því verði að byggja á mati stofnunarinnar, sem fari með stjórnsýsluvald í þessum málaflokki. Enda séu löglíkur fyrir því, að sú ákvörðun sé rétt.
Stefnda byggir kröfu sína um, að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hennar á vörumerkinu, Naust (orð- og myndmerki) og Naust (orðmerki), á samfelldri notkun merkisins við rekstur veitingahúss að Vesturgötu 6-8 af aðilum á hennar vegum og aðilum, sem hún leiði rétt til með óslitinni röð sölu- og kaupsamninga. Stefnda hafi keypt vörumerkið með kaupsamningi og afsali, sem liggi fyrir í málinu, og greitt fyrir. Þar með hafi hún eignast þennan rétt, enda byggist framsalið á beinni lagaheimild í 32. gr. þágildandi vörumerkjalaga nr. 47/1968.
Kröfur stefndu byggja jafnframt á því, að með rekstri veitingahúss að Vesturgötu 6-8 hafi myndast vörumerkjaréttur í samræmi við ákvæði vörumerkjalaga, með samfelldri notkun. Þar sem rétturinn hafi myndast við notkun, þ.e. rekstur veitingahúss undir heitinu Naust (orðmerki) og Naust (orð- og myndmerki), sé það eigandi rekstrarins hverju sinni, sem eigi jafnframt merkið og geti einn ráðstafað því með sölu. Þannig verði vörumerkjarétturinn annað hvort að byggjast á áralangri samfelldri notkun eða kaupsamningi. Stefnda hafi keypt merkið af aðila, sem hafi verið með rekstur veitingahúss að Vesturgötu 6-8 um árabil og hafi jafnframt gefið Naustinu hf. nytjaleyfi. Stefnda sé því réttur eigandi merkisins í dag, enda hafi sá aðili, sem myndaði réttinn með notkun, ekki framselt hann til neins annars en hennar.
Stefnda byggir kröfu sína jafnframt á því, að hún hafi óslitið varið réttindi sín til vörumerkisins, allt frá því að hún eignaðist það með kaupsamningi 1991, (svo) með því að gefa leigjendum reksturs nytjaleyfi með leigusamningi fram til gjaldþrots leigjanda 1994, (svo) og síðan með því að verja réttindi sín með áskorunum til notenda, umsókn um skráningu, málshöfðun og lögbannsbeiðni, allt til að koma í veg fyrir óheimila notkun á merkinu, sem stríðir gegn réttindum hennar.
Þeirri málsástæðu stefnanda, að vörumerkjaréttur hafi myndast undanfarin ár við rekstur veitingahúss að Vesturgötu 6-8, sé því mótmælt sem fráleitri og það sama eigi við varðandi meint tómlæti stefndu, enda hafi hún gert allt, sem í hennar valdi hafi staðið, til að vernda réttindi sín undanfarin ár. Notkun á vörumerkinu, sem sé gegn andmælum stefndu, geti þannig engan veginn skapað nokkurn rétt, enda sé hún óheimil samkvæmt ákvæðum vörumerkjalaga nr. 45/1997, sbr. 4. gr. laganna.
Í stefnu virðist stefnandi byggja á því, að með kaupum sínum á fasteigninni að Vesturgötu 6-8, hafi hann eignast vörumerkið, Naust (orð- og myndmerki) og Naust (orðmerki), þrátt fyrir að ekkert komi fram um það í kaupsamningi eða afsali.
Í uppboðsafsali komi fram, hvað fylgi eigninni við nauðungarsölu. Þar segi ekkert um viðskiptavild veitingahúss, sem rekið hafi verið í fasteigninni, eða um vörumerki, sem hafi fylgt því, auk þess sem fasteignin sé ekki kölluð “Naust” í afsalinu. Þar af leiðandi hafi stefndi ekki getað eignast þennan rétt við kaup sín á fasteigninni, enda sé það alkunna, að vörumerkjaréttur grundvallist á viðskiptavild, sem myndist í rekstri og fylgi þar með rekstrinum, en ekki þeirri fasteign, sem hann sé staðsettur í á hverjum tíma.
Með stefnu hafi verið lögð fram mörg skjöl varðandi rekstur í Vesturgötu 6-8 undanfarin ár, þ.á m. samningar um leigu stefnanda á fasteigninni Vesturgötu 6-8. Á þeim megi sjá að í öllum tilvikum hafi það aðeins verið fasteignin sem sé til útleigu og í síðustu samningunum einnig lausafé í fasteigninni.
Þessir samningar sýni betur en nokkuð annað, að stefnandi hafi til skamms tíma ekki talið sig eiga vörumerkið, a.m.k. ekki þannig að hann leigði það út eða gæfi á því nytjaleyfi samkvæmt ákvæðum vörumerkjalaga.
Leigusamningur milli stefnanda og Naustsins veitingahúss ehf., dags. 29. sept. 1995, og samkomulag stefnanda og þeirra Hafsteins Egilssonar og Harðar Sigurjónssonar, dags. 2. ágúst 1995, virðist gera ráð fyrir þeim möguleika, að lausafé í fasteigninni Vesturgötu 6-8 tilheyri öðrum en samningsaðilum. En þetta virðist vera lausaféð, sem gera megi ráð fyrir, að hafi fylgt rekstrinum, þegar stefnda keypti hann. Samningsaðilar, þ.á m. stefndi, virðast því, að minnsta kosti á þessum tíma, hafa gert sér grein fyrir, að stefnda ætti einhver réttindi til rekstrarins og þess, sem honum fylgdi, þ. á m. vörumerkisins Naust.
Stefnandi byggi einnig á því, að fasteignin að Vesturgötu 6-8 i Reykjavik heiti Naust. Þetta sé þó ekki í samræmi við aðra málsástæðu stefnanda um, að rétturinn til merkisins hafi myndast við áratuga samfellda notkun, og að stefnandi hafi keypt þann rétt með fasteigninni. Ekkert sé þó í umfangsmiklum gögnum málsins, sem styðji þessa fullyrðingu stefnanda, enda verði með engu móti fallist á það, að blaðaskrif geti sýnt fram á þessa nafngift, þegar allan þann tíma, sem blaðagreinarnar stafi frá, sé rekið veitingahús á staðnum undir þessu nafni. Nafnið sé því ávallt notað um veitingahúsið, en ekki fasteignina sjálfa, og það sé stefnda, sem eigi þann vörumerkjarétt í dag, sem stafi frá rekstri veitingahússins.
Kröfur sínar styður stefnda við ákvæði vörumerkjalaga nr. 47/1968, einkum 1. og 2. gr., sbr. 3. gr. núgildandi laga nr. 45/1997, svo og almennar reglur samninga- og kauparéttar um gerð samninga og skuldbindingargildi loforða.
Krafa stefndu um, að staðfestur verði með dómi eignarréttur hennar á vörumerkinu, Naust (orð- og myndmerki) og Naust (orðmerki), er byggð á 1. og 2. gr. vörumerkjalaga nr. 47/1968, og 3. gr. núgildandi vörumerkjalaga.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og er krafa um virðisaukaskatt byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988.
Forsendur og niðurstaða
Eins og rakið var í málavaxtalýsingu hafði veitingarekstur verið stundaður í húsunum nr. 6-8 við Vesturgötu í Reykjavík allt frá árinu 1954 og alltaf undir nafninu Naust. Frá 1917 til 1988 virðast húsin hafa verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Eftir þann tíma hafa verið ör eigendaskipti að húsunum. Frá 1954 til 1988 var veitingareksturinn ekki í höndum húseigenda. Árið 1988 keypti Svavar Egilsson húsin og veitingareksturinn sem í húsunum var. Eftir að hann seldi húsin og reksturinn 1989 hafa húseigendur ekki annast rekstur í húsunum. Á þessum tíma hafa verið ör skipti á aðilum sem hafa annast veitingarekstur í húsunum. Ekki hafa verið lögð fram gögn vegna kaupa Sölu og Markaðar hf. á veitingarekstri í húsunum en Sala og Markaður hf. keypti húsin 17. des. 1990 og seldi Hagfleti Vesturvangi hf. reksturinn 25. janúar 1991. Sá aðili seldi Kína-Grilli sf. reksturinn 24. febr. 1993. Þessir aðilar, Sala og Markaður hf., Hagflötur Vesturvangur hf. og Kína-Grill sf. önnuðust ekki veitingarekstur í húsunum og þá ekki heldur Kína Grill eða Kína-Grill-Naustið.
Löngu áður en stefnda lagði inn umsókn hinn 24. júlí 1996 um skráningu vörumerkjanna, NAUST (orð- og myndmerki) og NAUST (orðmerki) hafði nafnið Naust á veitingarekstri í húsunum nr. 6-8 við Vesturgötu í Reykjavík öðlast markaðsfestu, sbr. 2. gr. þágildandi laga um vörumerki nr. 47/1968. Markaðsfesta nafnsins Naust á veitingarekstri var bundin við veitingarekstur í þessum tilgreindu húsum, ekki annars staðar.
Þá er stefnda sótti um skráningu merkjanna var stefnandi eigandi húsanna og leigutakar hans önnuðust veitingarekstur í húsunum undir nafninu Naust. Stefnda annaðist ekki veitingarekstur í húsunum. Eignarréttur að innréttingum, lausafé og veitingarekstri var á þeim tíma umdeildur. Ekkert er fram komið um veitingarekstur stefndu.
Skráning framangreindra merkja var til þess fallin að gefa til kynna að átt væri við veitingarekstur í húsunum nr. 6-8 við Vesturgötu í Reykjavík og var því óheimil skv. 4. tl. 14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, sbr. og 4. tl. 14. gr. laga nr. 47/1968 um vörumerki.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að skráningar vörumerkjanna, NAUST (orð- og myndmerki), samkvæmt umsókn nr. 899/1996, og Naust (orðmerki), samkvæmt umsókn nr. 900/1996 hjá Einkaleyfastofunni, á nafn stefndu, séu ógildar og eru þær því felldar úr gildi, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1997. Jafnframt er kröfum stefndu hafnað.
Stefnda greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 kr.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Skráningar vörumerkjanna, NAUST (orð- og myndmerki), samkvæmt umsókn nr. 899/1996, og Naust (orðmerki), samkvæmt umsókn nr. 900/1996 hjá Einkaleyfastofunni, á nafn stefndu, Ágústínu G. Pálmarsdóttur, eru ógildar og felldar úr gildi. Jafnframt er kröfum stefndu hafnað.
Stefnda greiði stefnanda, Kirkjuhvoli sf., málskostnað sem ákveðst 200.000 kr.