Hæstiréttur íslands
Mál nr. 781/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Útlendingur
|
|
Þriðjudaginn 17. desember 2013. |
|
Nr. 781/2013. |
Ríkislögreglustjóri (Thelma Clausen Þórðardóttir fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingur.
Fallist var á kröfu ríkislögreglustjóra um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd frávísunar hans til Sviss færi fram, þó ekki lengur en til föstudagsins 20. desember 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að sér verði gert að sæta farbanni, en að því frágengnu að sér verði gert að halda sér á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í 33. gr. laga nr. 96/2002 er kveðið á um þau úrræði sem beita má þegar nauðsynlegt er að framkvæma ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið. Til að tryggja framkvæmd slíkrar ákvörðunar er, ef nauðsyn ber til, heimilt samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Tilvísun þessarar málsgreinar til laga um meðferð sakamála felur það eitt í sér að um meðferð máls fer samkvæmt þeim lögum eftir því sem við á. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á grundvelli 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2013.
Ríkislögreglustjóri krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, ríkisborgara [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd frávísunar hans til Sviss fer fram, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. desember nk. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til þess að varnaraðili hafi óskað eftir hæli sem flóttamaður á Íslandi 18. október 2011. Hælisskýrsla hafi verið tekin af honum 19. s.m. og hafi varnaraðila verið kynnt ákvæði Dyflinarreglugerðarinnar (Stj.tíð. C 14/2003), og að hann mætti eiga von á framsendingu beiðni sinnar og sendingu hans sjálfs á grundvelli reglugerðarinnar kæmi í ljós að aðstæður hans féllu undir ákvæði hennar. Hafi varnaraðili gert grein fyrir ferðaleið sinni og að hann hafa áður sótt um hæli í Austurríki og í Sviss. Hefði umsókninni verið synjað í bæði skiptin. Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í Berne hafði varnaraðili óskað eftir hæli í Sviss árið 2008. Þann 22. nóvember 2011 hafi beiðni um viðtöku varnaraðila og umsóknar hans um hæli verið beint til yfirvalda í Sviss. Þann 29. nóvember 2011 hafi svar frá svissneskum yfirvöldum borist þess efnis að þau samþykktu endurviðtöku varnaraðila. Með ákvörðun Útlendingastofnunar 2. maí 2012, hafi verið ákveðið að beiðni varnaraðila þess efnis að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann yrði endursendur ásamt beiðni sinni til Sviss. Varnaraðili hafi kært ákvörðun Útlendingastofnunar til Innanríkisráðuneytisins. Þann 8. október sl., hafi varnaraðila verið birt ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 9. september sl. þess efnis að innanríkisráðuneytið hafi staðfest framangreinda ákvörðun Útlendingastofnunar. Hafi varnaraðili lýst því yfir við birtingu að hann myndi óska eftir frestun réttaráhrifa skv. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Þann 5. nóvember sl. hafi varnaraðila verið kynntur úrskurður innanríkisráðuneytisins, dags. 17. október sl. þess efnis að beiðni varnaraðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði ráðuneytisins væri hafnað. Framkvæmd frávísunar varnaraðila hafi verið fyrirhuguð þann 19. nóvember sl. og hafi þar til bærum yfirvöldum verið tilkynnt um tilhögun flutnings. Lögreglan hafi leitað varnaraðila frá 18. nóvember sl. en komið hafi í ljós að varnaraðili hefði þá yfirgefið dvalarstað sinn að [...], Reykjavík og farið huldu höfði til að komast hjá framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar. Þann 21. nóvember sl. hafi verið birt á vef lögreglunnar tilkynning þar sem fram kom að lögreglan leitaði varnaraðila til að ná tali af honum og óskaði upplýsinga um ferðir hans eða dvalarstað. Varnaraðili hafi verið handtekinn í gær, 13. desember 2013. Framkvæmd frávísunar varnaraðila fari fram þegar svissnesk yfirvöld muni upplýsa um nýja dagsetningu á móttöku á varnaraðila, en þau áskilja að tilkynning um framkvæmd frávísunar til Sviss berist með minnst 3 virkra daga fyrirvara. Munu íslenskir lögreglumenn fylgja varnaraðila til Sviss. Þar sem varnaraðili hafði yfirgefið dvalarstað sinn og hafi farið huldu höfði frá 18. nóvember sl. og eftirgrennslan lögreglu hafi ekki borið árangur þurfti að aflýsa fyrirhugaðri framkvæmd ákvörðunarinnar þann 19. nóvember sl. Varnaraðili hafi verið í felum til að forðast það að verða sendur úr landi, sé óstaðsettur í hús, hafi yfirgefið dvalarstað sinn og komið sér undan fyrirhugaðri framkvæmd ákvörðunar um frávísun, hefðbundin eftirgrennslan lögreglu hafi verið árangurslaus og hafi lögreglan ekki upplýsingar um dvalarstað hans. Ríkislögreglustjóri telur að til að tryggja nærveru varnaraðila og framkvæmd frávísunarákvörðunar Útlendingastofnunar þyki nauðsynlegt að honum verði gjört að sæta gæsluvarðhaldi þar til framkvæmd frávísunar til Sviss hafi farið fram, en þó eigi lengur en til og með 20. þ.m. Um lagarök er vísað til 5. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða:
Eins og að framan er rakið hefur Innanríkisráðuneytið með úrskurði staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að beiðni varnaraðila um að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni verði ekki tekin til efnismeðferðar og hann skuli endursendur ásamt beiðni sinni til Sviss. Þá hefur ráðuneytið hafnað kröfu varnaraðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði ráðuneytisins.
Í 5. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 er kveðið á um að ef nauðsyn ber til, til að tryggja framkvæmd, sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála eftir því sem við eigi. Í málinu liggur fyrir að svissnesk yfirvöld hafa samþykkt að taka aftur við varnaraðila. Munu íslenskir lögreglumenn fylgja honum til Sviss þegar yfirvöld ytra hafa upplýst um dagsetningu á móttöku varnaraðila. Ekki verður annað ráðið af orðum varnaraðila hér fyrir dóminum en að hann hafi farið huldu höfði síðastliðnar vikur. Að mati dómsins er nauðsynlegt að tryggja framkvæmd brottfarar varnaraðila og verður því með heimild í framangreindu lagaákvæði, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fallist á kröfu ríkislögreglustjóra eins og hún er fram sett og kveðið er á um í úrskurðarorði.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðili, X, [...] ríkisborgari, skal sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd frávísunar hans til Sviss fer fram, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. desember nk. kl. 16:00.