Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Mánudaginn 3. mars 2014.

Nr. 138/2014.

 

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um dómkvaðningu matsmanns til að svara tiltekinni spurningu um vettvangsrannsókn lögreglu vegna brots sem X hafði verið sakfelldur fyrir í héraði. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að tekin verði til greina krafa hans um dómkvaðningu matsmanns til að svara þeirri spurningu hvaða ályktanir megi draga af fyrirliggjandi sönnunargögnum eða vettvangsrannsókn lögreglu að [...] á [...] „um rás atburða aðfaranótt 7. maí 2013, sem leiddu til dauða A.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 19. febrúar 2014 var því lýst yfir af hálfu varnaraðila „að hann muni kæra úrskurðinn til Hæstaréttar í því skyni að fá honum hnekkt“, eins og fært var til bókar í þingbók. Í kæru varnaraðila 22. febrúar 2004 sagði að úrskurðurinn væri kærður „í því skyni að honum verði hnekkt og að samþykkt verði dómkvaðning matsmanns í samræmi við matsbeiðni“.

Samkvæmt framansögðu var ekki lýst yfir kæru á dómþingi við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.  Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að vilji maður kæra úrskurð eftir þann tíma skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Í kæru varnaraðila eru ekki greindar þær ástæður, sem hún er reist á, og fullnægir kæran því ekki síðastnefndu skilyrði. Samkvæmt því verður máli þessu vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2014.

Með matsbeiðni móttekinni 13. janúar sl. krafðist sóknaraðili, X, þess, með vísan til 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur matsmaður, til þess að yfirfara blóðferlarannsóknir og aðrar vettvangsrannsóknir sem framkvæmdar voru í íbúð brotaþola, nr. 204, að [...] á [...] 7. maí 2013, vegna áfrýjunar dóms Héraðsdóms Austurlands frá 23. október 2013 í máli nr. S-44/2013 til Hæstaréttar.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur aðallega að beiðni um dómkvaðningu verði vísað frá dómi, en til vara að beiðninni verði hafnað.

Ágreiningur aðila var tekinn til úrskurðar 7. febrúar sl. eftir munnlegan málflutning.

I

Með ákæru, útgefinni 23. júlí 2013, var sóknaraðila gefið að sök manndráp, „með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 7. maí 2013, veist að A, kennitala [...], á heimili hans í íbúð [...] [...] á [...], og banað honum með því að stinga hann tvisvar sinnum með hnífi í brjóstið og gengu hnífstungurnar í hægra hjartahólf og í framhaldi stungið hann ítrekað í háls, andlit, höfuð, hægri handlegg og vinstra læri, allt með þeim afleiðingum að A hlaut bana af“. Var þetta talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með dómi Héraðsdóms Austurlands 23. október 2013 var sóknaraðili sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök og hann dæmdur til 16 ára fangelsisvistar, að frádreginni gæsluvarðhaldsvist.

Framangreindum dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og hefur fengið þar auðkennið 729/2013.

II

Sóknaraðili kveður að það sem matsmanni verði falið að meta sé eftirfarandi: „Hvaða ályktanir má draga af fyrirliggjandi sönnunargögnum málsins; myndum af vettvangi, myndum af hinum látna og ákærða og af öðrum rannsóknargögnum málsins, um rás atburða að [...].“

Fram kemur í matsbeiðni að lögmaður sóknaraðila, skipaður verjandi hans fyrir Hæstarétti, hafi fengið Húnboga Andersen laganema og fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til þess að fara yfir rannsókn málsins. Samkvæmt skýrslu hans frá 6. janúar sl. sé það mat hans að margt hefði mátt betur fara og að sumu leyti hafi hreinlega verið dregnar rangar ályktanir af rannsóknargögnum um hvað gerst hafi í íbúðinni. Sóknaraðili vilji sérstaklega nefna nokkur atriði.

Húnbogi bendi á að lítið sé gert með 15 blóðdropa sem hafi fundist á báðum skápahurðum í anddyri, sem og á vegg, við hlið útidyrahurðar. Dreifing blóðdropanna sé þó nokkur og hæð þeirri nái hæst um 120 cm frá gólfi. Í skýrslu lögreglu segi að íbúðin hafi ekki borið nein merki um átök, en engin skýring sé sett fram á blóðblettunum í forstofu íbúðarinnar. Húnbogi veki einnig athygli á því að á gólfi við stól í stofu íbúðarinnar hafi verið bjórdós á hliðinni, en innihald hennar hafi lekið út á gólfið. Fleiri bjórdósir hafi legið á hlið á gólfinu. Ekkert blóð hafi fundist í sófanum, stólnum eða á veggjum þar sem stungur í brjóst og fótlegg eigi að hafa átt sér stað og engin skýring sé komin fram á því hvers vegna ekkert blóð sé þar að finna.

Í skýrslu Húnboga sé einnig á það bent að í ljósmyndamöppu tæknideildar LRH sé ljósmynd af blóði á neðri hluta svalahandriðs. Blóðið sé sagt kám, en við skoðun á því hafi mátt greina í því fingrafarstinda. Af því megi draga þá ályktun að gerandinn hafi verið berhentur við atlöguna, þar sem slík för hefðu ekki myndast ef gerandinn hefði verið með hanska. Við skoðun fleiri mynda af svalahandriðinu megi sjá talsvert stærra og meira blóðfar á utanverðu handriðinu. Megi jafnvel greina þar lófafar eða för eftir hendi og/eða þrjá fingur. Farið sé nánast beint yfir þeim stað þar sem höfuð A hafi legið þegar lögregla hafi komið á vettvang. Ekki sé ljóst hvers vegna ekki séu birtar betri myndir af þessu blóðfari í myndamöppu tæknideildar. Þá sé hvergi minnst á það í skýrslu blóðferlasérfræðingsins Ragnars Jónssonar eða skýrslu Guðmundar Tómassonar.

Á svölum íbúðar A, þar sem lík hans hafi fundist, hafi verið frákastsblettir í allar áttir út frá höfði hans. Ragnar Jónsson hafi talað um stjörnulaga mynstur út frá líkinu, en einnig greint frá því að blóðið hafi verið minnst vinstra megin við hinn látna og því hafi gerandinn verið þeim megin. Á ljósmynd megi sjá yfirlitsmynd af svölunum og frákasti blóðs að einhverju leyti. Í ljósi þessa, þeirrar staðreyndar að gerandinn hafi virst berhentur, framburðar Björgvins Sigurðssonar sérfræðings og Urs Wiesbroc réttarmeinafræðings um að ótrúlegt væri annað en að sá sem atlöguna hafi framið hafi fengið á sig blóðslettur, en þeir hafi sérstaklega talað um ermar á flík viðkomandi, og þess að allir rannsakendur hafi verið sammála um að atlagan hafi verið framin af miklu afli hafi ekki komið fram viðhlítandi svör við þeirri spurningu hvers vegna engin verksummerki hafi fundist á sóknaraðila.

Húnbogi fjalli nokkuð um greinilegt skófar á svalagólfi íbúðar A sem sjá megi af myndum, vinstra megin við lík hans. Í skýrslum lögreglu og framburði lögreglumanna fyrir dómi sé hvergi minnst á slíkt fótspor. Eina tilvitnun til fótspora á vettvangi sé að finna í skýrslu Guðmundar Tómassonar þar sem segi að fótspor á vettvangi hafi öll verið talin tilheyra lögreglu eða sjúkraliði. Í skýrslum lögreglu sé sérstaklega tekið fram að engin fótspor hafi verið að finna í blóði á vettvangi. Segi í skýrslu Húnboga að miðað við skýrslur lögreglu hafi engin tilraun verið gerð til að samkenna fótsporið við neinn þeirra aðila sem hafi verið á vettvangi, en slíkt hefði átt að vera mjög auðvelt ef vettvangur hefði verið verndaður.

Húnbogi bendi á að Ragnar Jónsson ræði ítrekað um 90° blóðbletti sem fundist hafi við hlið líksins. Erfitt sé að gera sér nákvæma grein fyrir því um hvað bletti sé að ræða þar sem lýsing sé ekki til staðar. Þó komi fram í skýrslu Ragnars að blettirnir séu vinstra megin við líkið. Húnbogi telji að greinilega megi sjá ef bornar eru saman myndir sem teknar séu áður og eftir að hinn látni sé fjarlægður af svalagólfinu að þessir 90° blettir komi til við færslu á líkinu frá svalagólfinu í líkpoka.

Um líklega atburðarás segi í skýrslu Húnboga:

Að mati skýrsluhöfundar benda ummerki á vettvangi þeim þar sem A var ráðinn bani til þess að atlagan hafi hafist í forstofu íbúðar hans. Er dregin sú ályktun í framhaldi að sá sem framdi verknaðinn hafi komið með vopnið sem notað var með sér og hringt dyrabjöllu hjá A eða bankað og A hafi komið í anddyrið í þeim tilgangi að svara gestinum.

Hafi árásin byrjað í forstofunni þar sem A fékk varnarsár á vinstri hendi sem blætt hafi úr, sbr. blóðslettur sem voru á báðum hurðum fataskáps sem og á vegg við hlið útidyrahurðar, vinstra megin í forstofunni, þ.e. miðað við að aðili sneri að útidyrahurðinni.

Í framhaldi hafi A hrakist aftur á bak inn í íbúð sína og gerandinn hafi fylgt fast á eftir með þeim afleiðingum að A hafi fallið á bakið á stofugólfinu við sófastól og sófasett, og má sjá greinileg ummerki um átök þar, bjórdósir liggjandi á gólfinu þar sem í það minnsta hefur helst úr einni þeirra. Hafi gerandinn hugsanlega setið klofvega yfir A og í þessari atlögu hafi A hlotið tvö stungusár í brjóshol, það síðara með þeim afleiðingum að hnífurinn bognaði og hluti af skepti hans brotnaði af honum. Afleiðing þessara tveggja stungusára, eins og lýst er í framburði meinafræðings fyrir dómi, var skjótt meðvitundarleysi sem síðar dró A til dauða.

Í framhaldi af þessu hafi gerandinn velt A yfir á magann á stofugólfinu og síðan dregið hann út á svalir. Er það mat skýrsluhöfundar að öll önnur sár á A hafi komið til eftir að hann hafi verið dreginn þangað, þ.m.t. stungusár á læri, þar sem draga megi þá ályktun að hafi þau verið komin til fyrr hefði sú blæðing sést í upphafi dragferils á stofugólfi íbúðarinnar.

Að lokum er því haldið fram að gerandinn hafi veitt A ítrekuð stungusár úti á svölunum og ekki gerðar aðrar athugasemdir við niðurstöðu blóðferlasérfræðings og réttarmeinafræðings, en þær sem hafa þegar komið fram. Þá er talið ljóst, vegna blóðugs handarfars á svalahandriði sem og fleiri atriða, að gerandinn hafi við árásina á A fengið á sig þó nokkuð magn af blóði hans og fær það stoð í framburði allra sérfræðivitna fyrir héraðsdómi sem segja nánast ómögulegt annað en að gerandinn hefði fengið á sig blóðslettur þegar hann veitti A þá áverka sem hann hlaut á svölum íbúðar sinnar.

Sóknaraðili telji að sú vel rökstudda og afdráttarlausa niðurstaða þessarar ítarlegu úttektar á rannsókn málsins sýni að rangar ályktanir hafi verið dregnar af rannsóknargögnum um það hvar árásin á A hafi byrjað. Leiði þetta til þess að ekki sé annað forsvaranlegt en að dómkveðja matsmann til að fara yfir alla þætti rannsóknar á vettvangi.

III

Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni um dómkvaðningu matsmanns verði vísað frá dómi þar sem krafan, eins og hún sé fram sett, sé óljós og allt of víðtæk. Krafan uppfylli þannig ekki skýran áskilnað 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að skýrlega skuli koma fram í beiðni hvað eigi að meta og hvað aðili hyggist sanna með matinu. Eins og matsspurningin sé orðuð virðist matsmanni ætlað að leggja mat á öll sönnunargögn í málinu, en slíkt sé að sjálfsögðu hlutverk dómara. Þá sé með engum hætti ljóst af matsbeiðninni hvað sanna eigi með matinu og hvernig matið geti haft áhrif á sönnunarmat í málinu.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé þess krafist að beiðninni verði hafnað þar sem matið sé bersýnilega þarflaust, sbr. 3. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Eins og fram komi í matsbeiðni virðist hún að mestu byggjast á skýrslu Húnboga Andersen fyrir verjanda sóknaraðila. Segi í matsbeiðni að það sé niðurstaða Húnboga að margt hefði mátt betur fara í rannsókninni og að sumu leyti hafi verið dregnar rangar niðurstöður af rannsóknargögnum.

Flest þau atriði sem Húnbogi geri athugasemdir við séu ekki atriði sem dómkvaddur matsmaður geti lagt mat á, heldur hljóti að vera rökstuðningur varnarinnar fyrir sýknukröfu og því málflutningsatriði. Í matsbeiðninni sé hins vegar vikið sérstaklega að því að lítið sé gert með blóðdropa sem fundist hafi á skáp í forstofu íbúðar hins látna og engin skýring gefin á þeim. Þá hafi bjórdósir legið á hliðinni í stofu íbúðarinnar, en ekkert blóð fundist í sófa, stól eða á veggjum í stofu þar sem stungur í brjóst og fótlegg eigi að hafa átt sér stað og engar skýringar á því. Þetta sé ekki rétt. Skýrt komi fram hjá sérfræðingum í tæknideild lögreglunnar og réttarmeinafræðingi fyrir dómi hvernig staðið geti á þessu. Í fyrsta lagi skipti máli hvernig viðkomandi hafi borið sig að við stungurnar. Þá skipti miklu máli að þær tvær stungur sem A heitinn hafi fengið í brjósthol hafi valdið því að blóðþrýsingsfall hafi orðið og honum hafi blætt inn í brjóstholið sjálft, enda hafi um tveir lítrar af blóði verið inni í brjóstholinu við krufningu, þrátt fyrir að blóð hafi lekið út á svölum íbúðarinnar, þar sem hinn látni hafi legið í nokkra klukkutíma á maganum. Þá hafi einnig verið bent á að þegar hnífur sé dreginn út úr svona sári á brjósti „hreinsi“ líkaminn hnífsblaðið.

Athugasemd sé gerð við að ekki séu fleiri myndir af blóðbletti á svalahandriði en raun beri vitni og að ekki sé minnst á þennan blóðblett í skýrslu um blóðferlarannsókn. Skýrt komi hins vegar fram í skýrslu um tæknirannsókn að þarna hafi verið blóðkám með fingrafaratindum, en blóðkámið ekki verið hæft til fingrafararannsóknar. Ekki verði séð hvernig dómkvaddur matsmaður geti breytt þeirri niðurstöðu nú, enda blóðkámið ekki lengur til staðar. Í framhaldi sé fjallað um það að meintur gerandi hafi hlotið að hafa verið berhentur og að vitni hafi borið um að ótrúlegt væri að hann hefði ekki fengið blóð á hendur sínar eða ermi. Það liggi hins vegar fyrir að blóðleifar hafi fundist í vatnslás í vaski á baðherbergi hins látna og hnífurinn, sem notaður hafi verið við verkið, hafi fundist í sturtuklefa. Skýrt hafi komið fram hjá vitninu Björgvin Jónssyni fyrir dómi að hafi gerandinn þvegið sér strax að loknu verkinu séu ekki miklar líkur á að finna blóð á höndum, né t.d. á hring eins og þeim sem sóknaraðili hafi verið með. Þá sé ekki víst að blóð lendi á peysu viðkomandi hafi hann verið með uppbrettar ermar. Ekki verði heldur séð hvernig þessi rökstuðningur eigi að tengjast beiðni um dómkvaddan matsmann.

Því sé haldið fram í skýrslu Húnboga og matsbeiðninni að greinilegt skófar hafi verið á svölum, en ekkert sé fjallað um það í gögnum málsins að öðru leyti en því að fram komi í skýrslu Guðmundar Tómassonar um að öll skóför á vettvangi hafi verið talin eftir lögreglu og sjúkraflutningamenn. Það sem Húnbogi virðist telja blóðugt skófar á svölum sé hins vegar ekki skófar, heldur yfirfærslublettur þar sem blóðugur hlutur komist í snertingu við hreinan flöt. Í framburði Ragnars Jónssonar blóðferlasérfræðings fyrir dómi hafi komið fram að miðað við útlit blettsins væri það mat hans að handleggur hins látna hafi legið þarna og blóðug peysan skilið eftir þessi för. Sú tilgáta sé í samræmi við það að ljóst sé af stöðu líksins að hinn látni hafi legið á hægri hlið eða baki þegar honum hafi verið veittir áverkar í andliti úti á svölum, auk þess sem munstur peysu hins látna passi við munstur sem sjá megi á blettinum.

Loks sé því haldið fram í matsbeiðni að í skýrslu Ragnars Jónssonar sé ítrekað rætt um 90° blóðbletti sem hafi fundist vinstra megin við líkið, en erfitt sé að gera sér grein fyrir við hvaða bletti sé átt. Þá sé vísað til tveggja ljósmynda sem eigi að sýna að þessir blóðblettir séu til komnir við það að líkið hafi verið fært af svalagólfinu í líkpoka. Ekki sé hægt að fallast á þetta. Sé litið til framburðar Ragnars fyrir dómi sé skýrt að hann hafi vísað til blóðbletta sem sjá megi ofarlega á tiltekinni mynd, þ.e. blóðbletta sem séu vinstra megin við fætur hins látna ef staðið er aftan við hann. Aðrir blóðblettir sem sjáist ekki á þessari mynd, heldur einungis hinni myndinni sem sóknaraðili vísi til, séu þannig staðsettir að þeir hefðu verið undir höfði hins látna í þeirri stöðu sem líkaminn hafi verið þegar hann hafi verið stunginn í höfuð og háls.

Ýmislegt gangi illa upp í ályktunum Húnboga um líklega atburðarás. Til að mynda sé því haldið fram að líklegt sé að árásin á A heitinn hafi hafist í forstofuherbergi og hann hafi þar hlotið varnarsár á vinstri hönd. Hann hafi í kjölfarið hrökklast inn í stofu. Enginn blóðblettur hafi hins vegar fundist á leiðinni frá forstofu að stofu. Þá sé því haldið fram að A hafi fengið áverka á læri úti á svölum, en það gangi illa upp með hliðsjón af því að buxur hans hafi dregist aðeins niður um hann er hann hafi verið dreginn út á svalir. Miðað við staðsetningu áverkanna á vinstra læri og göt á buxunum gangi ekki upp að þessir áverkar hafi komið til eftir að buxur hans hafi dregist niður.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 sé rannsókn sakamála í höndum lögreglu, nema á annan veg sé kveðið í lögum. Telji sóknaraðili að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant færi hann rök fyrir því og krefjist sýknu. Að mati ákæruvaldsins megi sjá af framangreindum athugasemdum að í skýrslu Húnboga Andersen, sem matsbeiðnin byggist á, sé annaðhvort byggt á misskilningi eða atriðum sem dómkvaddur matsmaður geti á engan hátt rannsakað.

Fyrir utan allt framangreint liggi fyrir að sóknaraðili hafi verið í íbúð hins látna umrætt kvöld. Fyrir liggi að þeir hafi lent í átökum og að blóð úr hinum látna hafi fundist á buxum og sokkum sóknaraðila. Skýringar hans á því hvernig á því standi hafi verið hraktar af öllum þeim sérfræðingum sem komið hafi fyrir dóminn og útilokað að atburðarásin hefði verið með þeim hætti sem sóknaraðili hafi lýst við upphaf aðalmeðferðar. Sóknaraðili hafi enda breytt framburði sínum eftir að hafa hlustað á framburð sérfræðinganna. Þá sé bent á að lýsingar sóknaraðila á atburðarásinni hjá lögreglu hafi verið með öðrum hætti en fyrir dómi. Framburður hans hafi verið metinn ótrúverðugur af fjölskipuðum héraðsdómi sem hafi talið sekt hans sannaða með hliðsjón af því, ásamt mati á rannsóknargögnum og framburði vitna. Með hliðsjón af öllu framangreindu telji varnaraðili að umbeðið mat sé bersýnilega þarflaust og beri því að hafna beiðninni.

IV

Eins og að framan greinir var sóknaraðili með dómi Héraðsdóms Austurlands 23. október 2013 dæmdur til 16 ára fangelsisvistar fyrir manndráp. Hann hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands. Í máli þessu krefst sóknaraðili dómkvaðningar matsmanns til þess að meta blóðferlarannsóknir og aðrar vettvangsrannsóknir sem framkvæmdar voru í íbúð brotaþola.

Samkvæmt 1. mgr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er rannsókn sakamála í höndum lögreglu, nema mælt sé fyrir um annan hátt í lögum. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laganna er lögreglu heimilt að leita til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, s.s. læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn. Þá getur lögregla eða ákærandi farið fram á dómkvaðningu matsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. sömu laga leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar og samkvæmt 3. mgr. getur aðili snúið sér beint til opinbers starfsmanns ef hann er skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði ef honum er skylt að framkvæma matið eða hann er fús til þess án dómkvaðningar, enda sé það í verkahring hans. Fram kemur í 1. mgr. 128. gr. laganna að verði ekki farið svo að sem segi í 2. eða 3. mgr. 127. gr. kveði dómari einn eða tvo matsmenn, ef honum þykir þörf á, til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með mati. Ákærandi eða ákærði geta hvor um sig beðist mats eftir að mál hefur verið höfðað. Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.

Varnaraðili hefur aðallega krafist þess að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði vísað frá dómi þar sem krafan sé óljós og allt of víðtæk. Ekki verður talið að óljóst orðalag þeirra spurninga sem leggja á fyrir matsmann varði frávísun málsins frá dómi, heldur getur það leitt til þess að kröfu um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Verður frávísunarkröfu varnaraðila því hafnað.

Samkvæmt matsbeiðni sóknaraðila krefst hann þess að dómkvöddum matsmanni verði falið að meta hvaða ályktanir draga megi af fyrirliggjandi sönnunargögnum málsins; myndum af vettvangi, myndum af hinum látna og ákærða og af öðrum rannsóknargögnum málsins, um rás atburða að [...]. Við munnlegan málflutning kvaðst lögmaður sóknaraðila vera reiðubúinn að breyta orðalagi spurningar þeirrar sem lögð yrði fyrir matsmann, t.d. þannig að spurningin yrði: Hvaða ályktanir má draga af fyrirliggjandi vettvangsrannsókn tæknideildar LRH[...], sbr. einnig myndir af hinum látna og ákærða, um rás atburða aðfaranótt 7. maí 2013, sem leiddu til dauða A.

Eins og að framan greinir skal, samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008, koma skýrt fram í matsbeiðni hvað matsmanni er ætlað að meta og hvað aðili hyggst sanna með mati. Orðalag spurningar sóknaraðila er með þeim hætti að svo virðist sem matsmanni sé ætlað að leggja mat á sönnunargögn málsins og draga ályktanir af þeim og á það sama við um spurninguna eftir þá breytingu sem sóknaraðili lagði til. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Verður orðalag þeirrar spurningar sem sóknaraðili hefur óskað að verði lögð fyrir matsmann því talið allt of víðtækt og óskýrt til þess að hægt sé að leggja hana fyrir matsmann. Í málflutningi lögmanns sóknaraðila kom fram að ætlunin væri að matsmaður mæti tæknirannsókn á vettvangi. Meðal þess sem matsmaður yrði spurður að væri hversu líklegt það væri að hvergi fyndust blóðleifar miðað við það blóð sem hefði verið á hendi geranda, samkvæmt blóðfari á svalahandriði. Þessa spurningu er hins vegar ekki að finna í matsbeiðni. Samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 skulu matsefni koma fram í matsbeiðni með skýrum hætti. Verður ekki talið að matsbeiðni sóknaraðila uppfylli þennan áskilnað.

Þá má jafnframt fallast á með varnaraðila að ekki sé ljóst af matsbeiðni hvað sanna eigi með matinu eða hvaða áhrif það geti haft á sönnunarmat í málinu.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki unnt að fallast á að dómkvaddur verði matsmaður samkvæmt matsbeiðni sóknaraðila. Verður kröfu hans því hafnað.

Af hálfu aðila var ekki gerð krafa um málskostnað.

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, ríkissaksóknara, um frávísun málsins er hafnað.

Kröfu sóknaraðila, X, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.