Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2014
Lykilorð
- Sjómaður
- Skiptaverðmæti
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2015. |
|
Nr. 413/2014.
|
Ölduós ehf. (Reimar Pétursson hrl.) gegn Einari Stefáni Aðalbjörnssyni (Björn L. Bergsson hrl.) |
Sjómaður. Skiptaverðmæti. Kjarasamningur.
E, skipverji á D, höfðaði mál gegn Ö ehf. og krafðist greiðslu ógreiddra launa. Byggði hann m.a. á því að samkvæmt kjarasamningum aðila hefði L ehf. verið óheimilt að draga frá aflahlut sínum olíukostnað áður en til skipta aflahlutar kom. L ehf. krafðist sýknu og hélt því fram að um skiptahlut færi eftir lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og hefði úthlutunin tekið mið af 1. gr. þeirra. Í héraðsdómi var vísað til kjarasamningsins og tekið fram að af honum leiddi að ekki yrði farið eftir 1. gr. laga nr. 24/1986 við ákvörðun aflahlutar. Þar sem E hafði ekki fengið greitt í samræmi við ákvæði kjarasamningsins var krafa hans tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar var sú niðurstaða staðfest og tekið fram að það þyrfti að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra ættu að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í samningarétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ölduós ehf., greiði stefnda, Einari Stefáni Aðalbjörnssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 23. apríl 2014.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. febrúar 2014, höfðaði stefnandi, Einar Stefán Aðalbjörnsson, Kirkjubraut 2, Höfn í Hornafirði, hinn 4. september 2013, gegn Ölduósi ehf., Hólalandi 12a, Stöðvarfirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum laun, samtals að fjárhæð 1.578.083 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 496.747 krónum frá 1. nóvember 2012 til 1. desember 2012, þá af 1.034.463 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2013, en af 1.578.083 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Málsatvik eru óumdeild. Stefnandi starfaði sem skipverji á bátnum Dögg SU-118, með skipaskrárnúmeri 2718, sem gerður er út af stefnda. Samkvæmt skráningu í skipaskrá er um að ræða 11,56 brúttórúmlesta, 14,92 brúttótonna og 11,36 metra langan bát úr trefjaplasti.
Við skoðun launaseðla sinna og yfirlit yfir útreikning sjómannalauna í ársbyrjun 2013 kveðst stefnandi hafa orðið þess áskynja að laun hans á þriggja mánaða tímabili, frá október til desember 2012, hafi tekið mið af því að skiptahlutur reiknaðist ekki af heildaraflaverðmæti afla heldur af 70% þess. Frá aflaverðmætinu hafi ennfremur verið dregið vigtargjald og kostnaður sem skilgreindur hafi verið sem ís. Leitaði stefnandi af þessum sökum til Afls Starfsgreinafélags eftir aðstoð við að fá laun sín leiðrétt og var af hans hálfu höfð uppi fjárkrafa á hendur stefnda með bréfi, dags. 30. janúar 2013, vegna vangreiddra launa, að fjárhæð 1.599.020 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Með svarbréfi, dags. 7. mars s.á., féllst stefndi á sjónarmið stefnanda varðandi það ekki hafi verið heimilt að draga vigtargjald frá launum stefnanda og lýsti sig reiðubúinn til að leiðrétta launin sem þeim frádrætti næmi. Lagði stefndi undir rekstri málsins fram kvittun fyrir endurgreiðslu vigtargjalds, dags. 22. október 2013, að fjárhæð 4.164 krónur. Að öðru leyti var kröfu stefnanda hafnað. Kveðst stefnandi því hafa verið til þess knúinn að höfða mál þetta.
Í stefnu kemur fram að krafan sé byggð á launaseðlum útgefnum af stefnda og á útreikningi Afls Starfsgreinafélags. Um sé að ræða vangoldin laun fyrir október, nóvember og desember 2012, auk orlofs á vangoldin laun. Nánari sundurliðun á kröfu stefnanda sé eftirfarandi:
Vangoldin laun fyrir október 2012 kr. 461.118,-
Orlof 10,17% vegna október 2012 kr. 46.896,-
Vangoldin laun fyrir nóvember 2012 kr. 493.457,-
Orlof 10,17% vegna nóvember 2012 kr. 50.185,-
Vangoldin laun fyrir desember 2012 kr. 496.836,-
Orlof 10,17% vegna desember 2012 kr. 50.528,-
Samtals vangoldin laun kr. 1.599.020,-
Heildarkrafa stefnanda nemi því 1.599.020 krónum, sem var upphafleg stefnufjárhæð málsins, auk vaxta og kostnaðar.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins dró stefnandi úr stefnukröfu sinni á þeirri forsendu að unað væri við það að stefndi drægi við útreikning launa stefnanda frá kostnað sem skilgreindur væri sem ís, án viðurkenningar á réttmæti frádráttarins. Að teknu tilliti til þeirrar breytingar nemi krafan 1.578.083 krónum, en fjárhæðin er nánar sundurliðuð í samantekt sem fylgir breyttri kröfugerð stefnanda.
Bæði í stefnu og greinargerð er vísað til bréfaskipta Sjómannasambands Íslands (SSÍ) við Landssamband línubáta (LL) sem liggja fyrir í málinu. Í bréfi framkvæmdastjóra SSÍ frá 5. desember 2012 er áréttað að gildandi kjarasamningar hafi að geyma lágmarkskjör sem útgerðum innan LL sé skylt að lögum að fylgja, þótt ekki hafi verið sérstaklega samið við samtökin, og vikið að því með hvaða hætti bæri að standa að hlutaskiptum. Er þar bent á að velja verði á milli kjarasamnings SSÍ og Landssambands smábátaeigenda (LS) annars vegar og kjarasamnings SSÍ og Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) hins vegar, en ekki gangi að „blanda þessum samningum saman til að fá sem lægstan hásetahlut“. Í svarbréfi lögmanns LL frá 7. janúar 2013 kemur fram að sambandinu sé ekki kunnugt um annað en útgerðarmenn innan þess virði lágmarkskjör við uppgjör til sjómanna samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti. Í svarbréfi SSÍ, dags. 14. janúar 2013, er á það bent að lög nr. 24/1986 hafi „enga þýðingu lengur varðandi skilgreiningu á skiptaverði til sjómanna“ og að með kjarasamningum SSÍ og LÍÚ annars vegar og SSÍ og LS hins vegar hafi verið samið um önnur og betri kjör sjómanna heldur en gildandi lög hafi kveðið á um varðandi skiptaverð. Skuli því kjarasamningar gilda um skilgreiningu á skiptaverði og því aflaverðmæti sem skipt sé úr hverju sinni.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefnandi, Einar Stefán Aðalbjörnsson og Vigfús Vigfússon, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður stefnda. Þá gáfu skýrslu sem vitni Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri SSÍ og Þorkell Kolbeins, verkefnastjóri hjá Afli Starfsgreinafélagi. Verður vikið að framburði þeirra eftir því sem þörf er á í niðurstöðukafla dómsins.
II
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ráðningarsamningi aðila og rétti stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Þá byggi stefnandi einnig á meginreglu samningaréttar um skyldu til efnda gerðra samninga. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, þrátt fyrir skyldu stefnda þess efnis að hlutast til um að slíkur samningur yrði gerður, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Beri því að túlka allan vafa um inntak ráðningarsamningsins stefnanda í hag.
Málatilbúnað sinn byggi stefnandi ennfremur á því að um kjör hans skuli fara samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) og VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna annars vegar og Landssambands smábátaeigenda (LS) hins vegar, sem undirritaður hafi verið 29. ágúst 2012. Stefnandi sé félagsmaður í Afli Starfsgreinafélagi. Við það hafi borið að miða að um kjör stefnanda færi samkvæmt samningum við það félag, enda hafi stefndi skilað kjarasamningsbundnum iðgjöldum til þess stéttarfélags. Stefndi hafi þannig viðurkennt í verki að um kjör stefnanda skyldi fara samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi, en Afl Starfsgreinafélag eigi aðild að SSÍ. Ekki sé í gildi sérstakur kjarasamningur við Landssamband línubáta (LL), en til þess beri að líta að bátar innan sambandsins muni vera sambærilegir að stærð og bátar með beitingavél sem aðild eigi að LS. Fyrrnefndur kjarasamningur milli SSÍ og LS hafi því að geyma lágmarkskjör í skilningi 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938. Óumþrætt sé að stefnandi hafi starfað sem bátsverji um borð í Dögg SU-118 sem stefndi geri út. Beri því að líta til nefnds kjarasamnings um kaup og kjör stefnanda og af þeim samningi sé stefndi bundinn.
Í 1. gr. kjarasamningsins sé fjallað um skiptakjör bátsverja. Samkvæmt því skuli bátsverjar fá í hlut hundraðshluta af heildarverðmæti aflans í samræmi við nánari skilgreiningu í samningnum.
Þannig segi í 1. lið 1. gr. samningsins að þegar fjórir séu um borð, eins og raunin hafi verið á Dögg SU-118, þá skuli aflahlutir, án aukahluta og orlofs, vera að lágmarki 21,6% af heildarverðmæti aflans sem skiptist jafnt milli bátsverja. Eins og útreikningsblöð stefnda á aflahlut bátsverja beri með sér hafi við þá prósentutölu verið miðað við útreikning aflahlutar til bátsverja á Dögg SU-118, sem hver um sig hafi þannig fengið 5,40% í sinn hlut. Hins vegar hafi sá hlutur ekki verið reiknaður af heildarverðmæti aflans á tímabilinu október 2012 og til [sic] eins og skylt sé samkvæmt greindu kjarasamningsákvæði heldur aðeins af 70% aflaverðmætis að frádregnum kostnaðarliðum.
Í tilvitnaðri 1. gr. kjarasamnings sé með tæmandi hætti talið hvaða frádráttarliði heimilt sé að draga frá heildarsöluverðmæti afla áður en aflahlutur bátsverja sé reiknaður. Þannig sé heimilt að draga uppboðskostnað frá heildarsöluverðmæti áður en aflahlutur sé reiknaður ef afli er seldur á fiskmarkaði. Sú hafi verið raunin í tilviki þessu og taki útreikningur á kröfu stefnanda mið af því. Sé keypt slægingarþjónusta fyrir afla sem landað sé óslægðum og hann síðan seldur óskyldum aðilum eða á fískmarkaði sé heimilt að draga kostnað við slægingu auk uppboðskostnaðar frá heildarsöluverðmæti afla og innyfla áður en aflahlutur sé reiknaður. Útreikningar stefnda beri þessa ekki merki heldur sé annars vegar dregið af svokallað „vigtargjald“ og „ís“ en hvorugur þessara kostnaðarliða sé tilgreindur í ákvæði kjarasamningsins sem byggt sé á í þessu efni. Standi því engin rök til þess að afdráttur þessi komi til áður en aflahlutur stefnanda sé reiknaður.
Þá byggi stefnandi á því að sá háttur stefnda að reikna aflahlut aðeins af 70% af aflaverðmæti, að fyrrgreindum frádrætti meðteknum, eigi sér enga stoð og sé ólögmætur. Ákvæði kjarsamningsins sé skýrt hvað það varði að aflahlutur skuli reiknast af heildarverðmæti afla en ekki aðeins hluta hans. Virðist sem stefndi hafi kosið að miða við ákvæði kjarasamnings SSÍ og Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) í þessu efni, en samkvæmt þeim samningi sé skiptaverðmæti skilgreint sem 70%. Sá samningur eigi ekki við í tilviki stefnanda. Stefnda sé að auki ekki tækt að velja það sem honum henti hverju sinni úr þeim kjarasamningum sem fjalli um kjör sjómanna.
Stefnandi byggi einnig á því að stefndi hafi í raun viðurkennt í verki að honum beri að reikna aflahlut af heildarverðmæti afla, þ.e. 100%, að virtum lögmætum afdráttarliðum eftir atvikum. Á þann máta hafi stefndi reiknað aflahlut stefnanda fyrstu þrjá mánuði ársins 2013 eftir að gerðar hafi verið athugasemdir við framgöngu stefnda gagnvart stefnanda með bréfi lögmanns Afls Starfsgreinafélags, dags. 30. janúar 2013.
Krafa stefnanda um orlof byggi á 8. gr. kjarasamningsins og ákvæðum laga nr. 30/1987 um orlof. Í samræmi við það sé gerð krafa um 10,17% lágmarksorlof af vangreiddum launum stefnanda. Kröfur stefnanda séu í öllum atriðum um lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga og rétt stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína. Þá sé og vísað til nefndra laga nr. 55/1980 og laga nr. 80/1938, laga nr. 30/1987 um orlof, auk sjómannalaga nr. 35/1985 og laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti. Kröfur um vexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
III
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að skiptahlutur, og þar með laun stefnanda, fari eftir lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti. Vísar stefndi til 1. gr. laganna, þar sem sé að finna ákvæði sem mæli fyrir um skiptaverðmæti sjávarafla sem seldur sé óunninn á Íslandi, skiptingu þess verðmætis, auk þess sem tilgreindir séu þeir kostnaðarþættir sem áhrif kunni að hafa á heildarverðmæti aflans við skipti, s.s. gasolíuverð.
Þá segi í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 að frá og með 1. júní 1987 skuli skiptaverðmæti skv. 1. málsl. 1. mgr. hækka í 76% af heildaraflaverðmæti. Frá sama tíma breytist viðmiðun til lækkunar skiptaverðmætishlutfalls skv. 3. málsl. 1. mgr. á þann hátt að hlutfallstalan lækki um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 145 Bandaríkjadali á tonn fob.
Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Sjómannasambands Íslands (SSÍ) hafi viðmið skiptaverðmætishlutfalls í október, nóvember og desember 2012 verið eftirfarandi:
|
|
Löndun innanlands |
Frystur botnfiskur |
Fryst rækja |
Siglt erlendis |
Meðalverð gasolíu til viðmiðunar |
||
|
Mánuður |
|
fob |
cif |
fob |
cif |
|
|
|
Okt. |
70,0% |
72,0% |
66,5% |
69,0% |
63,5% |
66,0% |
977,68$/tonn |
|
Nóv. |
70,0% |
72,0% |
66,5% |
69,0% |
63,5% |
66,0% |
981,87$/tonn |
|
Des. |
70,0% |
72,0% |
66,5% |
69,0% |
63,5% |
66,0% |
936,98$/tonn |
Af nefndum upplýsingum á heimasíðu SSÍ megi glögglega sjá að skiptaverðmætishlutfall á umþrættu tímabili hafi verið 70%, enda meðalverð á gasolíu yfir þeim mörkum sem tilgreind séu í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti.
Stefndi hafni fullyrðingum stefnanda um að kjarasamningur á milli SSÍ og Landssambands smábátaeigenda (LS) eigi við um skilgreiningu skiptaverðmætishlutfalls með þeim hætti sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á. Í því sambandi byggi stefndi á eftirfarandi málsástæðum sýknukröfu sinni til stuðnings:
Í fyrsta lagi sé í 1. gr. laga nr. 24/1986 kveðið á um fortakslausa skyldu, í þeim skilningi að samkvæmt lagaákvæðinu sé beinlínis skylt við útreikning á hlutfallstölu að láta breytingar á verði gasolíu til fiskiskipta hafa áhrif á hlutfallstöluna, ýmist til hækkunar eða lækkunar. Að þessu virtu verði við túlkun á ákvæðum kjarasamnings SSÍ og LS að taka tillit til lagaákvæðisins, þ.e. 1. gr. laga nr. 24/1986, sem sé gild réttarheimild. Skuli því hlutfallstölur samkvæmt kjarasamningum taka breytingum miðað við breytingar á verði gasolíu með þeim hætti sem lagaákvæðið kveði á um, enda styðjist sú niðurstaða við gildandi lög í landinu, sem eins og áður segi séu fortakalaus að þessu leyti. Byggi stefndi á því að settum lögum verði ekki breytt eða þeim vikið til hliðar með ákvæðum kjarasamnings. Alþingi fari með löggjafarvaldið í landinu, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en ekki aðilar vinnumarkaðarins. Þá hafni stefndi alfarið öllum sjónarmiðum um að ákvæði laganna séu „óvirk“ gagnvart ákvæðum kjarasamnings SSÍ og LS. Bendi stefndi í því sambandi á að á heimasíðu SSÍ sé meðalverð gasolíu í hverjum mánuði sérstaklega birt til viðmiðunar vegna útreiknings skipaverðmætishlutfalls. Verði birting gasolíuverðs að mati stefnda ekki útskýrð með öðrum hætti en þeim að sambandið telji það hafa þýðingu við útreikning skiptaverðmætishlutfalls með þeim hætti sem stefndi haldi fram.
Í öðru lagi bendi stefndi á að hafi það vakað fyrir samningsaðilum kjarasamningsins að breytingar á gasolíuverði skyldu ekki hafa áhrif á ákvæði kjarasamningsins, þá verði að minnsta kosti að gera þá kröfu að slíkra fyrirætlana hefði verið sérstaklega getið í samningnum sjálfum með skýrum hætti. Það hafi hins vegar ekki verið gert í kjarasamningi SSÍ og LS. Að mati stefnda hefði slíkt samningsákvæði þó ekki staðist, með vísan til þeirrar fortakalausu lagaskyldu um áhrif gasolíuverðs á skiptahlutfall sem kveðið sé á um 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986.
Í þriðja lagi byggi stefndi dómkröfu sína á því að hann sé ekki aðili að kjarasamningi SSÍ og LS. Af því leiði að stefndi hafi ekki samið sérstaklega um að stefnanda eða öðrum launþegum stefnda yrði tryggður betri réttur en almenn lög mæli fyrir um. Sé því ekki neinni samningsskuldbindingu til að dreifa samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar.
Þá hafni stefndi fullyrðingum stefnanda um að hann hafi viðurkennt í verki að kjör stefnanda skuli fara eftir ákvæðum kjarasamnings SSÍ og LS. Engu máli skipti þótt stefndi hafi skilað kjarasamningsbundnum iðgjöldum til stéttarfélags sem eigi aðild að umræddum kjarasamningi. Stefnanda hafi verið frjálst að velja sér stéttarfélag og hafi stefnda verið óheimilt að hafa áhrif á val stefnanda í þessum efnum, sbr. t.d. 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Umræddur kjarasamningur sé frá 29. ágúst 2012 og því sé ljóst að stefnandi hafi sýnt það strax í upphafi að hann teldi sig óbundinn af ákvæði kjarasamningsins um skiptaverðmætishlutfall. Á meðan ágreiningur sé fyrir dómstólum hafi stefndi hins vegar tekið þá ákvörðun að greiða stefnanda í samræmi við ákvæði kjarasamnings SSÍ og LS. Sú ákvörðun stefnda að leyfa stefnanda að njóta vafans á meðan ágreiningur sé leystur fyrir dómstólum leiði ekki til réttarspjalla fyrir stefnda.
Þá mótmæli stefndi því að honum hafi ekki verið heimilt að draga frá sjómannalaunum kostnað vegna „íss“. Í þessu samhengi bendi stefndi á að það sé óumdeilt á milli aðila að slíkur frádráttur sé heimill hafi honum verið bætt við eftir löndun. Vísi stefndi í því sambandi til bréfs frá lögmanni stefnanda í framlögðum gögnum stefnanda, dags. 30. janúar 2013, þar sem hann beinlínis segi að slíkur frádráttur sé heimill. Ætla verði að bæði stefnandi og stefndi geti staðfest fyrir dómi að þessum frádráttarlið hafi verið bætt við eftir löndun. Áskilji stefndi sér allan rétt til að leiða vitni til að gefa skýrslu um þetta atriði við aðalmeðferð málsins verði þessari kröfu haldið til streitu af hálfu stefnanda.
Þá hafi stefndi fallist á sjónarmið stefnanda um að óheimilt hafi verið að draga vigtunargjald frá sjómannalaunum og hafi stefndi þegar leiðrétt og endurgreitt stefnanda frádrátt vegna vigtunargjalds, samtals að fjárhæð 4.164 krónur.
Að lokum hafni stefndi kröfu stefnanda um orlof af vangreiddum launum en eins og komið hafi fram hér að framan telji stefndi sig ekki hafa vangreitt laun til stefnanda. Að öðru leyti mótmæli stefndi málatilbúnaði stefnanda í heild sinni og þeim málsástæðum sem dómkröfur hans byggi á.
Dómkröfum sínum til stuðnings kveðst stefndi vísa til ákvæða laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti, einkum 1. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til ákvæða laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísi stefndi til ákvæða 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sé vísað til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Í máli þessu krefur stefnandi um launagreiðslur sem hann telur sig vanhaldinn um á síðustu þremur mánuðum ársins 2012 er hann starfaði í áhöfn bátsins Daggar SU-118 í útgerð stefnda.
Samkvæmt gögnum málsins, þ.á m. launaseðlum stefnanda og útreikningum stefnda sem þeim fylgja, voru laun stefnanda þannig reiknuð að í hans hlut komu 5,40%, þ.e. einn fjórði af þeim 21,6% hlut sem skiptist milli þeirra fjögurra bátsverja sem mynduðu áhöfn bátsins hverju sinni. Var sú hlutdeild reiknuð af 70% aflaverðmætis sem landað var, nema í þeim tilvikum sem landað var hjá „Hafró“ en þá var skipt úr 20% aflaverðmætisins. Um síðarnefnt hlutfall, þ.e. þess sem landað var hjá „Hafró“, er enginn ágreiningur í málinu. Ágreiningur aðila stendur einungis um það hvort 21,6 % aflahlutur áhafnarinnar hafi ella átt að reiknast af heildarverðmæti (100%) landaðs afla eða af 70% þess, eins og gert var. Eins og vikið var að í umfjöllun um málsatvik er ekki lengur uppi í málinu ágreiningur um frádrátt vigtargjalds og kostnaðar af ís.
Stefnandi byggir kröfu sína á kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Farmanna og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) og VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna annars vegar og Landsambands smábátaeigenda (LS) hins vegar um kaup og kjör á smábátum sem undirritaður var 29. ágúst 2012, með gildistíma til 31. janúar 2014 (hér eftir nefndur „kjarasamningurinn“ eða „kjarasamningurinn við LS“). Bendir stefnandi á að sá hundraðshluti sem stefndi hafi við launaútreikninga sína miðað aflahlut bátsverja við, þ.e. 21,6%, sé sá sami og kveðið sé á um í kjarasamningnum þegar um sé að ræða veiðar með netum, grásleppunetum, færum og línu á bátum með beitingavél þar sem fjórir séu í áhöfn, líkt og við eigi á bátnum Dögg SU-118. Bendi þetta til þess að kjarasamningurinn við LS hafi verið lagður til grundvallar við launaútreikning stefnanda, að undanskildu því ákvæði kjarasamningsins að aflahlutur bátsverja reiknist af heildarverðmæti aflans.
Stefndi hefur lagt fram hluta af öðrum kjarasamningum, þ.e. kjarasamningum Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) við SSÍ, FFSÍ og VM, með gildistíma frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011. Af hans hálfu hefur þó einungis verið vísað til þeirra kjarasamninga til hliðsjónar við skýringu á kjarasamningnum við LS og er ekki á öðru byggt en að sá kjarasamningur eigi við um kjör stefnanda. Staðfesti lögmaður stefnda þetta við munnlegan málflutning.
Ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti, með síðari breytingum, sem fyrir breytingu með lögum nr. 44/2013 hétu lög „um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins“, eru svohljóðandi: „Þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum. Þessi hlutfallstala skal hækka eða lækka við breytingar á verði gasolíu til fiskiskipa með hliðsjón af því gasolíuverði í birgðum olíufélaganna sem olíuverðsákvörðun miðast við hverju sinni. Skiptahlutfallið skal hækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala lækkun á birgðaverði gasolíu niður fyrir 109 Bandaríkjadali á tonn fob en lækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 133 Bandaríkjadali á tonn fob. Skiptaverðmæti aflans skal þó aldrei vera lægra samkvæmt þessari grein en 70% af heildarverðmæti. Breytingar á gasolíuverði til fiskiskipa skulu miðast við mánaðamót.
Frá og með 1. júní 1987 skal skiptaverðmæti skv. 1. málsl. 1. mgr. hækka í 76% af heildaraflaverðmæti. Frá sama tíma breytist viðmiðun til lækkunar skiptaverðmætishlutfalls skv. 3. málsl. 1. mgr. á þann hátt að hlutfallstalan lækki um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 145 Bandaríkjadali á tonn fob.“
Stefndi byggir í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að kjarasamningurinn víki ekki til hliðar fyrirmælum 1. gr. laga nr. 24/1986. Bendir stefndi á að um „skylduákvæði“ sé að ræða en ekki heimildarákvæði, enda sé þar kveðið á um hver hlutfallstala skiptaverðmætis skuli vera og að skiptahlutfallið skuli hækka og lækka við breytingar á verði gasolíu með þar tilgreindum hætti. Skilja verður þann málatilbúnað stefnda svo að byggt sé á því að um ófrávíkjanlegt lagaákvæði sé að ræða sem gangi framar ákvæðum 1. gr. kjarasamningsins sem kveða á um að skiptakjör bátsverja, þ.e. að sá hundraðshluti sem þar er tilgreindur sem hlutur bátsverja, skuli reiknast af „heildarverðmæti“ aflans, eins og þar greinir.
Eins og heiti laga nr. 24/1986 gefur til kynna er í þeim efnisákvæðum laganna sem enn eru í gildi fjallað um skiptaverðmæti sjávaraafla, þ.e. hvernig verðmæti afla skuli skiptast milli útgerðar og sjómanna. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram að tillögur sem fluttar séu með frumvarpinu feli í sér róttækar breytingar á fjárhagslegu skipulagi sjávarútvegsins, sem miði að því að einfalda allar greiðslur og tengja betur saman hagsmuni þannig að verðkerfið þjóni þeim tilgangi að sýna raunveruleg verðmæti í viðskiptum á skýran og ótvíræðan hátt og ekki sé á það skyggt með hliðargreiðslum, sem færi fé á milli fyrirtækja og greina. Ekki fari hjá því að þetta breyti kjörum einstakra fyrirtækja og manna, en í heild sé að því stefnt að starfskjörin breytist ekki verulega.
Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins kemur fram að til að tryggja „sem næst óbreytt skipti“ sé lagt til að við löndun komi 70% af hráefnisverði til skipta, „enda felist í því verði allar greiðslur fyrir fiskinn til útgerðar samsvarandi þeim, sem nú koma beint og óbeint frá fiskvinnslu og sjóðakerfi“.
Með 1. gr. laga nr. 21/1987 um breytingu á lögum nr. 24/1986 var hlutfallstala 1. mgr. l. gr. síðarnefndra laga hækkuð í 75%, jafnframt því sem bætt var við ákvæði um tengingu hlutfallstölunnar við breytingu á verði gasolíu til fiskiskipa. Jafnframt var bætt við því ákvæði sem nú er að finna í 2. mgr. 1. gr. laganna.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 21/1987 kemur m.a. fram að tilgangur þeirra breytinga sem gerðar voru á sjóðakerfi sjávarútvegsins með lögum nr. 24/1986 hafi verið að „einfalda kerfið án þess að breyta skiptum í verulegum atriðum“. Segir síðan í athugasemdunum: „Í þessu fólst þó að sjálfsögðu ekkert endanlegt samkomulag um tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins [...].“ Er þess síðan getið í athugasemdunum að „með samkomulagi sjómanna og útvegsmanna“ hafi verið ákveðið að hlutfall þetta skyldi hækka úr 70% eins og það var ákveðið með lögunum [...] í 71% fyrir tímabilið september til desember 1986, en þar sem um tímabundna ákvörðun hafi verið að ræða hafi ekki þótt að svo stöddu ástæða til að lögfesta hana. Um miðjan janúar hafi verið gerðir nýir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsmanna og hafi með þeim verið „ákveðið að breyta í veigamiklum atriðum tilhögun skiptaverðmætis sjávarafla“. Þar sem um svo miklar breytingar hafi verið að ræða hafi aðilar verið „sammála um að óska eftir breytingu á lagaákvæðunum í samræmi við það“.
Lög nr. 24/1986 um skiptaverðmæti fela eins og áður sagði í sér fyrirmæli um skiptingu verðmætis sjávarafla milli sjómanna, þ.e. launamanna, og útgerðar, þ.e. atvinnurekenda. Eru lögin, eða sá hluti þeirra sem enn er í gildi, þannig að meginstefnu til einkaréttarlegs eðlis og fjalla um atriði sem almennt er kveðið á um í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins. Sú aðferð að miða skiptaverðmæti til hlutaskipta við tiltekinn hundraðshluta, sem upphaflega var 70%, virðist af forsögu laganna, sem rakin er í athugasemdum til frumvarpsins skýrast af þeirri viðleitni að halda kjörum sjómanna á þeim tíma því sem næst óbreyttum, þrátt fyrir afnám sjóðakerfis sjávarútvegsins. Hvað sem líður því orðalagi 1. gr. laganna að skiptaverðmætishlutfall skuli vera tiltekin prósenta sem taki mið af breytingu meðalverðs gasolíu til fiskiskipa, mæla engin sérstök rök með því að virða beri þau ákvæði lagagreinarinnar sem um er deilt í þessu máli sem ófrávíkjanleg. Bendir bakgrunnur laganna og þær athugasemdir með frumvörpum til laga nr. 24/1986 og laga nr. 21/1987 sem raktar hafa verið hér að framan fremur til hins gagnstæða.
Samkvæmt framanrituðu verður að hafna þeirri málsástæðu stefndu að umþrætt ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986 séu ófrávíkjanleg.
Til frekari stuðnings þessari meginmálsástæðu stefnda er bent á að á vefsíðu SSÍ séu birtar upplýsingar um meðalverð gasolíu í hverjum mánuði til viðmiðunar vegna útreiknings skiptaverðmætishlutfalls. Með vísan til framburðar Hólmgeirs Jónssonar, framkvæmdastjóra SSÍ, fyrir dómi um að birtar upplýsingar hafi enga þýðingu við túlkun kjarasamningsins við LS, heldur einungis fyrir kjarasamninga SSÍ, FFSÍ og VM við LÍÚ, verður þeirri málsástæðu hafnað.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að hafi það vakað fyrir samningsaðilum kjarasamningsins að breytingar á gasolíuverði skyldu ekki hafa áhrif á ákvæði kjarasamningsins þá hefði þurft að geta þess sérstaklega í kjarasamningnum. Verður að skilja þá málsástæðu í ljósi munnlegs málflutnings af hálfu stefnda svo að túlka verði ákvæði kjarasamningsins um skiptakjör bátsverja til samræmis við fyrirmæli 1. gr. laga nr. 24/1986 um hlutfallstölu skiptaverðmætis og breytingar á henni í tengslum við gasolíuverð.
Í 1. gr. kjarasamningsins kemur skýrt fram að bátsverjar skuli fá í sinn hlut þann hundraðshluta af „heildarverðmæti“ aflans sem tilgreindur er í samningnum. Er þetta orðalag endurtekið víða í samningnum og er hvorki til þess fallið að valda vafa né veita svigrúm til túlkunar og fyllingar með þeim hætti sem stefndi vill meina. Skilningur kjarasamningsins samkvæmt orðanna hljóðan á sér ennfremur stoð í yfirlýsingu, dags. 8. október 2013, sem liggur fyrir í málinu og gefin var af hálfu þeirra sömu aðila og stóðu að gerð kjarasamningsins, dags. 29. ágúst 2012. Þar kemur fram að kjarasamningurinn feli í sér „lágmarkskjör fyrir alla smábátasjómenn samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980“ og að „af gefnu tilefni“ skuli áréttað að samkvæmt kjarasamningnum beri að reikna aflahluti til skipta af „heildarverðmæti aflans“. Segir síðan í yfirlýsingunni: „Því á ekki við að reikna sérstakt skiptaverðmæti samkvæmt lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti [...], enda var tekið fullt tillit til áhrifa þeirra laga á launakostnað útgerðarinnar þegar skiptaprósentur af heildar aflaverðmæti voru ákvarðaðar í kjarasamningnum“. Ekki verður á það fallist með stefnda að yfirlýsing þessi, sem lögð var fram undir rekstri málsins, sé þýðingarlaus, heldur er hún til þess fallin að styrkja enn fremur þann skilning sem leggja verður í skýrt orðalag kjarasamningsins um að hlutur bátsverja skuli reiknast af „heildarverðmæti“ afla.
Skýring fyrirmæla kjarasamningsins samkvæmt orðanna hljóðan nýtur ennfremur stoðar í framburði Hólmgeirs Jónssonar, framkvæmdastjóra SSÍ, sem undirritaði bæði kjarasamninginn og framangreinda yfirlýsingu fyrir hönd sambandsins. Kom afdráttarlaust fram við skýrslugjöf hans fyrir dómi að við gerð umrædds kjarasamnings hafi fullt samkomulag verið með aðilum kjarasamningsins að miða útreikning skiptakjara við heildarverðmæti afla í stað hlutfallstölu skiptaverðmætis samkvæmt lögum nr. 24/1986, en að „fullt tillit“ hafi verið tekið til laganna, sem sjáist af því að skiptaprósentur kjarasamningsins, þ.e. hlutfallstölur aflahlutar bátsverja, taki mið af því að skipt sé úr heildarverðmæti en ekki skiptaverðmætishlutfalli samkvæmt lögunum. Þá hafi verið fullt samkomulag með samningsaðilum kjarasamningsins um að óþarft væri að halda í olíuverðsviðmiðun laganna, enda hafi breytingar á gasolíuverði ekki sömu áhrif í rekstri smábáta eins og stærri skipa. Hafi samningsaðilar litið svo á að þeir hefðu fullt forræði á að semja um einfaldari viðmiðun.
Í framburði Hólmgeirs Jónssonar fyrir dómi og við munnlegan málflutning af hálfu stefnanda kom ennfremur fram að laun stefnanda hefðu verið nánast sömu fjárhæðar hefði kjarasamningur SSÍ við LÍÚ verið lagður til grundvallar við útreikning þeirra í stað kjarasamningsins við LS, enda sé hlutfallstala aflahlutar fyrrnefnds kjarasamnings mun hærri fyrir sambærilegan flokk báta með 4 menn í áhöfn, eða um 30,3% í stað 21,6% samkvæmt kjarasamningnum við LS. Það skipti því ekki máli hvorum kjarasamningnum sé beitt. Þótt engir útreikningar hafi verið lagðir fram til stuðnings þessari staðhæfingu hefur henni ekki verið andmælt sérstaklega af hálfu stefnda.
Málatilbúnaður stefnda er á því reistur að víkja beri til hliðar fyrirmælum kjarasamningsins við LS um að skipta skuli úr „heildarverðmæti“ afla, en halda samt fast í fyrirmæli kjarasamningsins um hlutfallstölu aflahlutar bátsverja, þ.e. 21,6%. Yrði fallist á þann málatilbúnað stefnda fæli það í reynd í sér viðurkenningu þess að áhöfnum þeirra báta sem kjarasamningurinn tekur til beri mun lægri laun en áhöfnum stærri báta og skipa sem kjarasamningar við LÍÚ taka til. Hvorki verður af gögnum málsins né framburði framkvæmdastjóra SSÍ ráðið að slíkt hafi staðið til við kjarasamningsgerðina og hefur heldur ekki berum orðum verið á því byggt af hálfu stefnda. Að því leyti er málatilbúnaður stefnda mótsagnakenndur.
Stefndi bendir á að hvergi sé að því vikið í kjarasamningnum að verið sé að víkja frá fyrirmælum 1. gr. laga nr. 24/1986 um þar tilgreinda hlutfallstölu skiptaverðmætis og breytingar á henni í tengslum við breytingar á gasolíuverði. Þegar framanritað er virt í heild sinni þykir þó enginn vafi leika á um það hvernig túlka beri orðið „heildarverðmæti“ í kjarasamningnum.
Samkvæmt framanrituðu verður að hafna þeim málsástæðum stefnda sem lúta að því að túlka verði kjarasamninginn til samræmis við lög nr. 24/1986.
Í þriðja og síðasta lagi byggir stefndi á þeirri málsástæðu að hann sé ekki aðili að kjarasamningnum og því sé ekki neinni samningsskuldbindingu til að dreifa samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar sem tryggi stefnanda betri rétt en almenn lög mæli fyrir um. Til svars þeirri málsástæðu skal í fyrsta lagi vísað til þess sem hér að framan hefur verið ritað um höfnun þeirrar málsástæðu stefnanda að ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986 séu ófrávíkjanleg. Í öðru lagi hefur það margoft verið staðfest í dómaframkvæmd að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur séu sett til verndar einstökum launþegum til að tryggja þeim lágmarkskjör sem samið sé um í kjarasamningum og að kjarasamningar sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um gildi fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem samningur taki til. Á það einnig við í aðstæðum sem þeim sem uppi eru í þessu máli, þar sem stefndi sem vinnuveitandi á ekki aðild að þeim samtökum sem staðið hafa að gerð kjarasamnings á viðkomandi starfssviði og starfssvæði. Má hér til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar frá 24. september 2009 í máli nr. 17/2009. Stefndi hefur engar málsástæður fært fram sem hnekkt geta þeim málatilbúnaði stefnanda að umræddur kjarasamningur marki lágmarkskjör í landinu hjá áhöfnum báta eins og þess sem stefnandi starfaði á.
Þegar af framangreindum ástæðum ber að taka kröfu stefnanda um greiðslu á vangreiddum launum til greina. Mótmæli stefnda við kröfu stefnanda um orlof af vangreiddum launum styðjast einvörðungu við þær sömu málsástæður og hér að framan hefur verið hafnað. Verður krafa stefnanda um 10,17% orlof af vangreiddum launum, sem á sér stoð í þeim ákvæðum kjarasamningsins og laga nr. 30/1987 um orlof sem stefnandi vísar til, því tekin til greina. Við munnlegan málflutning var því lýst yfir að enginn tölulegur ágreiningur sé með aðilum um fjárkröfu stefnanda. Kröfum stefnanda um dráttarvexti af umkröfðum fjárhæðum hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og eiga þær sér stoð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá ber að virða greiðslu stefnda á 4.164 krónum vegna vigtargjalds sem innborgun á þeim degi sem hún var innt af hendi. Verður því fallist á dómkröfu stefnanda eins og í dómsorði greinir.
Samkvæmt úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans.
Dómsorð:
Stefndi, Ölduós ehf., greiði stefnanda, Einari Stefáni Aðalbjörnssyni, 1.578.083 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 496.747 krónum frá 1. nóvember 2012 til 1. desember 2012, þá af 1.034.463 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2013, en af 1.578.083 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að teknu tilliti til innborgunar stefnda 22. október 2013 að fjárhæð 4.164 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 627.500 krónur í málskostnað.