Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Fjárskipti
|
|
Þriðjudaginn 6. desember 2005. |
|
Nr. 487/2005. |
K(Jón Egilsson hdl.) gegn M (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárskipti.
Við opinber skipti til fjárslita milli M og K við lok óvígðrar sambúðar deildu aðilar um eignarhlut í fasteign. Ennfremur krafðist K þess að við skiptin yrði tekið tillit til nánar tilgreindra skulda M við sig vegna vinnuframlags við endurbætur á fasteign, reksturs bifreiða, eignarhlutar í bifreiðum, hlutdeildar í sameiginlegum rekstrarkostnaði heimilis þeirra o. fl. Hins vegar taldi M að taka ætti tillit til leigugreiðslna sem K bæri að greiða vegna afnota fasteignarinnar eftir að hann flutti þaðan. Við upphaf sambúðarinnar átti K fasteign og lagði andvirði hennar til kaupa hinnar umdeildu fasteignar, sem í veðmálabókum var talin eign þeirra M og K að jöfnu. Talið var sýnt að K hefði lagt meira að mörkum til kaupa fasteignarinnar þannig að ekki yrði í málinu byggt á hinni þinglýstu eignarheimild. Ekki var ágreiningur um fjárframlag hvors um sig til kaupanna utan það að M byggði á því að tiltekið lán sem tekið var til kaupa fasteignarinnar hafi átt að greiðast af honum einum og teljast með framlagi hans. Þessu mótmælti K og lagði fram gögn um að þau væru bæði skuldarar að umræddu láni. Gögn málsins þóttu veita nægilega vísbendingu um að það hefði verði ætlun aðila að líta á umrætt lán sem framlag M og var lagt til grundvallar að svo hefði verið. Var þá meðal annars litið til þess að M hafði einn skráð skuldina á skattframtal sitt og virtist hafa greitt afborganir af henni. Þá lá einnig fyrir uppkast að eignaskiptasamningi sem þótti veita vísbendingu í sömu veru þótt ekki yrði byggt á honum að fullu. Var því lagt til grundvallar að M væri eigandi 42,4% fasteignarinnar en K 57,6%. Kröfur K vegna ætlaðra skulda M við sig þóttu ósannaðar og voru því ekki teknar til greina. Þá var ekki fallist á kröfu M varðandi leigu eins og atvikum var háttað í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2005, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2005, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess:
„1. að viðurkennt verði að eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni að [A] sé 82,68% á móti 17,32% eignarhluta varnaraðila. Sé ekki fallist á þá kröfu er þess krafist að viðurkennt verði að eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni sé 75,8% á móti 24,2% varnaraðila. Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að eignarhlutur sóknaraðila sé 72,9% á móti 27,1% hlut varnaraðila.
2. að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila kr. 1.035.000 vegna búsetu hans og uppihalds í eign sóknaraðila að [B].
3. að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hlut í heimilishaldi í [A], kr. 528.888,-. Verði ekki fallist á þá kröfu krefst sóknaraðili viðurkenningar á skyldu varnaraðila til að greiða helming rekstrarkostnaðar auk kr. 25.000,- á mánuði til matarkaupa.
4. að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hluta vinnulauna, kr. 1.200.000,-, vegna málunar á [A], í samræmi við þá prósentutölu sem lögð verður til grundvallar sem eignarhluti hans í fasteigninni.
5. að viðurkennd verði skylda varnaraðila til að greiða sóknaraðila kr. 480.000- fyrir eignarhluta sóknaraðila í bifreið.
6. að varnaraðili verði dæmdur til að greiða kr. 348.295,- vegna reksturs bifreiða.
7. að úrskurðurinn verði staðfestur að því er varðar kröfu varnaraðila um leigu“
Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 16. nóvember 2005. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila leigu vegna afnota hennar af eignarhluta hans í fasteigninni að [A], Reykjavík, frá 1. janúar 2005, aðallega að fjárhæð 70.000 krónur á mánuði, en til vara lægri fjárhæð að mati réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest að sóknaraðili sé eigandi 57,6% og varnaraðili 42,4% fasteignarinnar að [A], Reykjavík.
Í 2. til 6. lið kröfugerðar sóknaraðila er gerð krafa um að varnaraðili verði dæmdur til greiðslu nánar tiltekinna fjárhæða. Mál þetta er borið undir dóminn sem ágreiningsmál vegna opinberra skipta til fjárslita milli aðila við lok óvígðrar sambúðar. Verða fjárkröfur milli þeirra ekki dæmdar í slíku máli án tillits til eignaskiptingar þeirrar sem er markmið hinna opinberu skipta og ekki umfram það sem eignir hvors um sig hrökkva til að standa undir kröfum hins. Að þessu gættu verður að skilja kröfugerð sóknaraðila þannig að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila verði tekið tillit til þeirra greiðslna sem að framan greinir henni til hagsbóta. Sama marki er brennd krafa varnaraðila um greiðslu húsalegu fyrir nánar tilgreint tímabil og eiga þar við sömu röksemdir. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður, á þann hátt sem greinir í dómsorði, staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna framangreindum kröfum sóknaraðila, sem og kröfu varnaraðila um leigugreiðslu.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Viðurkennt er að sóknaraðili, K, sé eigandi 57,6% og varnaraðili, M, sé eigandi 42,4% fasteignarinnar að A, Reykjavík.
Hafnað er kröfum sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila verði lagt til grundvallar að varnaraðili skuldi sóknaraðila samtals 3.384.343 krónur.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila verði lagt til grundvallar að sóknaraðili skuldi varnaraðila húsaleigu að fjárhæð 70.000 krónur á mánuði frá 1. janúar 2005.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2005.
I
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 17. desember 2004 var ákveðið að opinber skipti færu fram vegna sambúðarslita málsaðila. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 19. maí sl. var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 3. júní sl. og tekið til úrskurðar 12. október sl.
Sóknaraðili er K, [kt. og heimilisfang].
Varnaraðili er M, [kt. og heimilisfang].
Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
Að viðurkennt verði að eignarhluti hennar í fasteigninni A sé 82,68% og varnaraðila 17,32%.
2. Að varnaraðili verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.035.000 vegna búsetu hans og uppihalds í eign sóknaraðila að B. Að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hlut í heimilishaldi með kr. 528.888.
3.Að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hluta í vinnulaunum, kr. 1.200.000, vegna málunar á A, í samræmi við þá prósentutölu sem lögð verði til grundvallar sem eignarhluti hans í fasteigninni.
4. Að viðurkennd verði skylda varnaraðila til að greiða sóknaraðila kr. 480.000 fyrir eignarhluta sóknaraðila í bifreið.
5.Að varnaraðili verði dæmdur til að greiða kr. 348.295 vegna reksturs bifreiða.
6.Að viðurkennd verði skylda varnaraðila til greiðslu helmings verðmætaaukningar skrifstofuhúsnæðis að C, kr. 3.000.000.
7.Sóknaraðili mótmælir kröfum varnaraðila um leigugreiðslur.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:
1.Að varnaraðili verði talinn eigandi að 50% eignarhlut í fasteigninni að A, Reykjavík en til vara að viðurkennt verði að hann eigi eignarhlut í fasteigninni í samræmi við framlag hans til kaupa á eigninni.
Að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila leigu að fjárhæð kr. 70.000 á mánuði vegna afnota hennar af eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að A, Reykjavík frá 1. janúar 2005. Til vara er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða aðra lægri leigu að mati dómsins.
Að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
II
Aðilar hófu sambúð í júlí 1997 í fasteign sóknaraðila að B, Reykjavík. Með kaupsamningi dags. 20. október 2000 keyptu þeir fasteignina að A, Reykjavík og var kaupverðið kr. 18.750.000. Eru aðilar þinglýstir eigendur eignarinnar að jöfnu. Óumdeilt er að kaupverð eignarinnar var greitt með kr. 10.799.797 fjárframlagi sóknaraðila, kr. 2.262.999 fjárframlagi varnaraðila og yfirtöku á láni frá Byggingasjóði ríkisins að fjárhæð kr. 5.697.234. Heldur sóknaraðili því fram að aðilar hafi sameiginlega yfirtekið lánið. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að samkomulag hafi orðið um að lánið væri framlag hans til kaupa á eigninni, þ.e. að hann hafi einn yfirtekið það. Í samræmi við það samkomulag hafi hann einn greitt af láninu á sambúðartímanum. Þá hafi hann einn gert grein fyrir láninu á skattframtali sínu.
Varnaraðili kveður aðila hafa þann 15. júní 2002 gert með sér samkomulag um eignaskiptingu, sem sé meðal gagna málsins. Samkvæmt því eigi sóknaraðili 56% í fasteigninni en varnaraðili 44%. Jafnframt hafi verið samið um að varnaraðili fengi í sinn hlut fellihýsi og Toyota bifreið, sem skráð hafi verið eign sóknaraðila. Í kjölfarið hafi eignirnar verið skráðar á nafn varnaraðila. Hafi sóknaraðili gert grein fyrir sölunni á skattframtali sínu. Þá komi fram í samkomulaginu að varnaraðili hafi lagt kr. 669.193 til vegna endurbóta á eign sóknaraðila að B og hafi verið tekið tillit til þess í téðu samkomulagi. Samkomulagið hafi þannig tekið til allra þátta og hafi falið í sér heildarsamkomulag um eignaskiptingu.
Sóknaraðili heldur því fram að aðilar hafi í upphafi sambúðar gert samkomulag um að varnaraðili myndi greiða mánaðarlega 50.000 krónur til heimilisins. Á þeim samtals 41 mánuði sem varnaraðili hafi búið inni á sóknaraðila hafi varnaraðila þannig borið að greiða samtals kr. 2.050.000. Af þeirri fjárhæð hafi hann greitt samtals kr. 615.000. Þá hafi aðilar samið um að frá skuld hans myndi dragast kr. 400.000 vegna þátttöku hans í framkvæmdum á eigninni. Varnaraðili skuldi þannig ennþá kr. 1.035.000.
Þá kveður sóknaraðili aðila hafa samið um það strax í upphafi sambúðar að þau myndu árlega gera upp allan rekstur fasteigna og bíla þannig að hlutur hvors um sig yrði jafn. Árið 2001 hafi verið gert upp en árin 2002-2005 hafi hallað á varnaraðila sem hafi ávallt frestað greiðslum vegna greiðsluörðugleika. Sóknaraðili hafi þannig greitt mun fleiri reikninga vegna reksturs fasteignarinnar o.fl.
Varnaraðili heldur því hins vegar fram að engir samningar um ákveðin framlög, greiðslur eða uppgjör hafi verið gerðir. Málsaðilar hafi hvort um sig greitt af lánum á sínu nafni. Þá hafi aðilar báðir greitt rekstur bifreiða og annarra eigna þeirra. Framlag varnaraðila, sem hafi haft góða fjárhagslega getu, hafi síst verið minna en sóknaraðila til reksturs heimilisins og fasteignarinnar.
Á árinu 1997 keyptu aðilar bifreiðina [...], Jeep Cherokee árg. 1990 fyrir kr. 1.300.000. Fyrir liggur að kr. 600.000 af kaupverðinu voru greiddar með andvirði bifreiðar sem sóknaraðili átti. Mismunurinn var fjármagnaður með láni sem varnaraðili kveðst hafa tekið. Kveður varnaraðili bifreiðina [...] hafa verið selda á árinu 1999 fyrir kr. 690.000 sem hafi gengið upp í bifreiðina [...], Toyota Landcruiser sem keypt var á kr. 3.260.000. Sóknaraðili kveðst margsinnis hafa krafið varnaraðila um eignarhluta sinn í bílnum en hann ávallt beðið um greiðslufrest.
Sóknaraðili kveðst hafa tekið sér tveggja vikna frí frá vinnu til að mála hús aðila og hafa málað það ein að frátöldu herbergi dóttur varnaraðila og bílskúr. Málari hafi metið vinnu hennar á kr. 1.200.000. Varnaraðili hafi ekki greitt sinn hlut í vinnunni.
Sóknaraðili kveðst hafa gert tilboð fyrir varnaraðila í skrifstofuhúsnæði að C. Ásett verð á eignina hafi verið kr. 8.900.000 en hún hafi komið verðinu niður í kr. 7.500.000. Eignin sem keypt hafi verið með lánum sé nú 13.500.000 króna virði. Til að varnaraðili þyrfti ekki að missa úr vinnu hafi sóknaraðili séð um að standsetja eignina fyrir hann.
Sóknaraðili heldur því fram að aðilar hafi slitið sambúðinni í mars 2004 þegar varnaraðili flutti á neðri hæð A. Með bréfi lögmanns dags. 28. janúar 2005 hafi sóknaraðila verið tilkynnt um að varnaraðili væri að flytja út úr eigninni.
Varnaraðili heldur því hins vegar fram að aðilar hafi slitið sambúðinni í desember 2003 en þá hafi hann flutt á neðri hæð fasteignarinnar. Sóknaraðili hafi hins vegar búið á efri hæðinni. Varnaraðili kveðst síðan hafa neyðst til að flytja út úr húsinu í lok desember 2004 þar sem honum hafi ekki verið þar vært vegna framkomu sóknaraðila. Síðan hafi sóknaraðili einn haft afnot eignarinnar.
III
1.Sóknaraðili byggir á þeirri meginreglu að sambúðaraðili fari með það út úr sambúðinni sem hann kom með inn í hana og eignaðist meðan á henni stóð. Þá verði að líta til þess að sambúð aðila var fremur skammvinn. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 363/2004 sé ekki nægjanlegt að líta til þinglýsingar varðandi eignarhluta að fasteign heldur beri einnig að líta til framlags hvors um sig til eignamyndunar. Sóknaraðili hafi lagt fram 82,68% kaupverðsins á móti 17,32% hlut varnaraðila.
2.Sóknaraðili byggir á að aðilar hafi samið um að varnaraðili myndi greiða 50.000 krónur til heimilisins þann tíma sem hann bjó inni á sóknaraðila. Varnaraðili hafi einungis efnt þann samning að hluta og sé þess því krafist með vísan til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga að hann greiði eftirstöðvarnar kr. 1.035.000.
Aðilar hafi samið um það þegar þeir keyptu fasteignina að A að rekstrargjöld vegna eignarinnar yrðu greidd til helminga. Því til sönnunar sé að á árinu 2000 hafi aðilar greitt rekstrarkostnað að jöfnu. Sóknaraðili hafi greitt kr. 1.057.776 meira í rekstrarkostnað en varnaraðili og beri honum því að greiða sóknaraðila helming þeirrar fjárhæðar eða kr. 528.888.
3.Sóknaraðili byggir á að vinna hennar við að mála A og standsetja hafi aukið verðmæti eignarinnar. Þá hafi varnaraðili ekki þurft að taka sér frí frá vinnu eða borga iðnaðarmönnum. Hafi aðilar samið um að taka tillit til þessa við árlegt uppgjör þeirra. Því verði varnaraðili að greiða sinn hlut í vinnulaunum sóknaraðila. Verði fallist á 17,32% eignarhluta varnaraðila í eigninni sé hlutur hans í vinnulaunum kr. 207.840 en kr. 600.000 komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að varnaraðili eigi 50% í eigninni.
4.Sóknaraðili byggir á að þegar aðilar keyptu Jeep Cherokee bifreiðina árið 1997 hafi hún lagt til kaupanna andvirði Nissan Sunny bifreiðar sinnar en fyrir eftirstöðvunum hafi verið tekið lán. Síðan hafi varnaraðili fengið sóknaraðila sem var skráður eigandi bifreiðarinnar til að láta hana upp í aðra bifreið, Toyota Landcruiser. Það hafi hún gert í trausti þess að varnaraðili myndi standa við loforð sitt um að um leið og hann myndi eignast pening myndi hann greiða henni eignarhluta hennar í bifreiðinni, þ.e. andvirði Nissan Sunny bifreiðarinnar sem að mati bílasala sé kr. 480.000. Árið 2004 hafi varnaraðili beðið sóknaraðila um að láta Toyota bifreiðina upp í BMW bifreið sem varnaraðili hafi látið skrá á fasteignasölu sína. Sóknaraðili hafi ekki fengið sinn eignarhluta greiddan þrátt fyrir að varnaraðili hafi selt umræddar bifreiðir. Sóknaraðili eigi því kröfu á hendur varnaraðila sem hann hafi viðurkennt.
Sóknaraðili byggir á að fyrsta bifreiðin hafi verið keypt til sameiginlegra nota og að aðilar hafi átt að greiða rekstrarkostnað hennar til helminga. Samkvæmt reikningum sem sóknaraðili hafi undir höndum og hún hafi greitt skuldi varnaraðili henni kr. 228.315 vegna rekstrarkostnaðar bifreiða. Þá hafi varnaraðili ekki endurgreitt sóknaraðila lán að fjárhæð kr. 155.980 sem hann hafi fengið hjá henni vegna bílaviðgerða. Samtals skuldi varnaraðili henni því kr. 384.295 vegna bifreiða.
5.Sóknaraðili byggir á að óumdeilt sé að hún hafi staðið að kaupum á C fyrir varnaraðila. Hún hafi prúttað eignina niður og málað hana og standsett. Hún hafi þannig náð eigninni á hagstæðara verði en ella og aukið verðmæti hennar með vinnu sinni. Eðlilegt sé og sanngjarnt að hún fái sinn hlut í hagnaðinum kr. 3.000.000.
6.Sóknaraðili byggir á að hún hafi ekki farið fram á að varnaraðili flytti út heldur hafi það verið hans ákvörðun sem sóknaraðila var ekki tilkynnt fyrr en með bréfi lögmanns dags. 28. janúar 2005. Ekkert samkomulag sé um að leigja og varnaraðili hafi ekki svarað spurningum sóknaraðila varðandi það hvort rétt væri að taka inn leigjanda.
IV
1.Varnaraðili styður kröfu sína um að viðurkennt verði að hann eigi 50% hlutdeild í fasteign aðila að A, Reykjavík við það að hann sé þinglýstur eigandi eignarinnar til jafns við sóknaraðila og aðilar hafi staðið saman að kaupum á henni. Aðilar hafi báðir selt fasteignir sem þeir áttu við upphaf sambúðar þegar þeir keyptu eignina. Þá hafi varnaraðila fallið til arfur sem hann hafi notað til kaupa á fasteigninni. Framlag varnaraðila til kaupa á eigninni hafi síst verið minna en sóknaraðila. Hann hafi aflað góðra tekna og þ.a.l. hafi hann haft gott fjárhagslegt bolmagn til að leggja fram framlög til eignamyndunar og reksturs heimilisins. Aðilar hafi samið um það við kaup á eigninni að þau ættu hana í jöfnum hlutföllum og sé sóknaraðili bundinn af því samkomulagi.
Verði ekki fallist á að varnaraðili eigi 50% hlutdeild í eigninni krefst hann þess að viðurkennt verði að hann eigi 44% í samræmi við samkomulag aðila um að eignin væri þeirra í hlutföllunum 44/56%. En við samkomulagið hafi m.a. verið litið til þess að varnaraðili hafði lagt til mikla eigin vinnu og fjármuni til standsetningar eignarinnar. Telur varnaraðili sóknaraðila bundinn af samkomulagi sínu við hann.
Verði ekki fallist á það krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að hann eigi 42% eignarhluta í fasteigninni enda hafi sá hluti eignarinnar verið fjármagnaður af honum einum með peningum og lánsfé. Um það hafi verið samið við kaup á eigninni að hann bæri einn ábyrgð á skuld við Íbúðalánasjóð, áhvílandi á 1. veðrétti eignarinnar og að skuldin væri hans framlag til kaupanna. Í samræmi við það sé hann einn ábyrgur fyrir skuldinni sem hann hafi einn greitt af á sambúðartímanum. Greiðsluseðlar hafi einungis verið sendir á hans nafn og hann einn talið skuldina fram til skatts. Sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir skuldinni á skattframtali sínu. Lánið við Byggingasjóð hafi verið 5.687.234 eða 30% af kaupverði eignarinnar. Þá sé viðurkennt af hálfu sóknaraðila að hann lagði fram a.m.k. kr. 2.262.999 í peningum til kaupanna eða 12%. Með vísan til þessa sé ljóst að hreint framlag hans til kaupanna hafi numið a.m.k. 42% af kaupverðinu. Auk þess hafi hann lagt til kr. 669.193 til endurbóta á fasteign sóknaraðila að B, Reykjavík.
Þá hafi sóknaraðili með athöfnum sínum staðfest að fyrrgreind skuld við Byggingasjóð hafi verið framlag varnaraðila til kaupanna. Sóknaraðili hafi þannig við upphaf fjárskipta notið aðstoðar annars lögmanns og hafi þá verið við það miðað að skuldin væri framlag varnaraðila. Þá hafi aðilar gert drög að fjárskiptasamningi þar sem ráð hafi verið fyrir því gert að eignin skiptist í hlutföllunum 42,4/52,6% og hafi sú skipting byggst á því að enginn vafi hafi verið um það í hugum málsaðila að hin umdeilda skuld væri framlag varnaraðila til kaupanna.
2.Varnaraðili byggir kröfu um leigu á því að sóknaraðili hafi haft afnot af hans hluta fasteignarinnar fyrir sig, börn sín og barnabörn frá 1. janúar 2005 en þá hafi hann neyðst til að flytja úr eigninni. Krefst hann leigu allt til þess að sóknaraðili flytur úr eigninni. Til stuðnings kröfunni vísar varnaraðili til 104. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Þá er vísað til Hrd. 41/2005. Fjárhæð kröfunnar byggir sóknaraðili á yfirlýsingu frá Leigulistanum ehf.
3.Varnaraðili mótmælir öllum kröfum sóknaraðila og færir fyrir því eftirfarandi rök:
Varnaraðili byggir á að sú staðreynd að hann er þinglýstur eigandi að 50% fasteignarinnar að A, Reykjavík sé grundvallaratriði. Kröfu sóknaraðila um að hún eigi 82,68% en varnaraðili 17,32% sé því algerlega hafnað enda krafan hvorki í samræmi við þinglýstar eignarheimildir né framlög varnaraðila til eignamyndunar. Sóknaraðili miði útreikning sinn við hreina eign en sú aðferð sé mjög ósanngjörn gagnvart varnaraðila og geri það að verkum að verðmætaaukning eignarinnar komi að meginstefnu í hlut sóknaraðila. Aðferðin sé röng og óeðlileg.
Varnaraðili hafnar sem algjörlega tilhæfulausum kröfum sóknaraðila um að hann greiði henni kr. 1.035.000 vegna búsetu hans og uppihalds í eign sóknaraðila að B, Reykjavík og að hann verði dæmdur til að greiða henni hlut í heimilishaldi með kr. 528.888. Varnaraðili byggir á að hvorki sé venja né grundvöllur fyrir slíkri kröfugerð. Enginn samningur eða sönnun liggi að baki kröfugerðinni. Þá hafi framlag varnaraðila, sem hafi notið góðra tekna, verið síst minna en sóknaraðila.
Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um að hann verði dæmdur til að greiða sóknaraðila “sinn hluta” í vinnulaunum, kr. 1.200.000, vegna málunar á A, Reykjavík. Byggir varnaraðili á að ekki sé unnt að taka slíka kröfu vegna meints vinnuframlags við endurbætur á sameiginlegum eignum til greina. Þá hafi varnaraðili lagt síst minni vinnu og fjármuni til endurbóta á eigninni en sóknaraðili. Þá sé fjárhæð kröfunnar fráleit.
Varnaraðili hafnar kröfu um að honum verði gert að greiða sóknaraðila kr. 480.000 fyrir eignarhluta sóknaraðila í bifreið í nafni fyrirtækis hans. Fjárhæð kröfunnar sé með öllu óljós og grundvöllur hennar einnig. Kröfunni sé ranglega beint að varnaraðila.
Varðandi meinta skuld varnaraðila við sóknaraðila vegna bílaviðgerða kr. 348.295 byggir varnaraðili á að ekki sé hægt að taka til greina slíkar óljósar kröfur vegna meintra útgjalda og framlaga í sambúð.
Kröfu sóknaraðila um helming verðmætaaukningar mótmælir varnaraðili og telur engin rök standa til kröfunnar. Húsnæðið sé í eigu fyrirtækisins D ehf. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram fé til kaupa á eigninni og hafi þar af leiðandi ekki öðlast neina hlutdeild í henni. Krafan sé óljós og eigi sér enga lagastoð auk þess sem hún beinist ekki að réttum aðila.
V
Óumdeilt er að málsaðilar hófu óvígða sambúð í júlí mánuði 1997 í íbúð sóknaraðila að B, Reykjavík. Aðila greinir hins vegar á um hvort sambúðinni lauk í desember 2003 eins og varnaraðili heldur fram eða í mars 2004 eins og sóknaraðili heldur fram. Með úrskurði 17. desember 2004 var bú þeirra tekið til opinberra skipta.
Með kaupsamningi dags. 20. október 2000 keyptu málsaðilar fasteignina A, Reykjavík og var kaupverðið kr. 18.750.000 sem þeir eru báðir þinglýstir eigendur að. Greinir aðila á um hver sé eignarhlutur hvors þeirra í eigninni. Óumdeilt er að kaupverð eignarinnar var greitt með kr. 10.799.797 fjárframlagi sóknaraðila, kr. 2.262.999 fjárframlagi varnaraðila og yfirtöku á skuld við Íbúðarlánasjóð að fjárhæð kr. 5.697.234. Sóknaraðili heldur því fram að málsaðilar hafi sameiginlega yfirtekið skuldina en varnaraðili heldur því fram að hann hafi einn yfirtekið hana.
Almennt verður að líta á þinglýsingu eignarheimilda yfir fasteignum sem sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð yfir þeim. Hins vegar hefur það verið talin meginregla í íslenskum rétti að við slit óvígðrar sambúðar teljist hvor aðili eiga þau verðmæti sem hann kemur með inn í sambúðina og þau verðmæti sem hann eignast á sambúðartímanum. Samkvæmt því og í ljósi þess sem fyrir liggur í máli þessu um hvernig kaup hinnar umdeildu eignar voru fjármögnuð þykir óhjákvæmilegt að víkja frá hinum þinglýstu eignarhlutföllum.
Varnaraðili heldur því fram að aðilar hafi þann 15. júní 2002 gert með sér samkomulag um að eignarhlutföll þeirra í fasteigninni væru þannig að sóknaraðili ætti 56% en varnaraðili 44%. Í skjali því sem varnaraðili kveður fela í sér samkomulag aðila, og er meðal gagna málsins, er gerð grein fyrir framlagi þeirra til kaupa á fasteigninni A. Skjalið ber með sér að því hafi verið breytt. Er framlag varnaraðila samkvæmt því breyttu samtals kr. 7.950.233, þ.e. greitt með peningum kr. 2.262.999 og með yfirtöku Byggingasjóðsláns kr. 5.687.234, og framlag sóknaraðila samtals kr. 10.799.767. Þá kemur þar fram að eignarhluti varnaraðila í eigninni sé 44% en sóknaraðila 56%. Til hliðar við textann er skráð “Samþ. 15/6 ´02” og upphafsstafir aðila. Neðar á skjalinu er m.a upptalning lána sem hvíla á fasteigninni A og eru tvö lán við Byggingarsjóð merkt varnaraðila. Enn neðar hefur verið krotað yfir texta þar sem m.a. kemur fram að aðilar séu sammála um að kostnaðarskipting vegna rekstrar fasteignarinnar skiptist í samræmi við ofangreinda eignarhluta frá og með árinu 2002. Neðst á skjalinu er handskrifað að sóknaraðili afsali til varnaraðila kvaðalaust fellihýsi og Toyota. Kostnaðarskiptin rekstrar hússins verði 50/50. Skjalið er óvottað. Í upphaflegum texta skjalsins kemur fram að framlag varnaraðila til kaupa á eigninni hafi að auki verið kr. 669.193 sem er sagt vera framlag hans til viðgerða á fasteigninni B. Er sama fjárhæð dregin frá framlagi sóknaraðila. Í samræmi við þetta var eignarhluti varnaraðila upphaflega tilgreindur 46% en sóknaraðila 54%.
Sóknaraðili hafnar því alfarið að skjalið feli í sér samkomulag skiptingu eigna og kveður það einungis hafa að geyma tillögur varnaraðila. Sóknaraðili svaraði spurningum varðandi tilurð skjalsins með afar ruglingslegum og óskilmerkum hætti og neitaði að hafa skrifað upphafsstafi sína á það.
Í ljósi þess í hvaða formi skjalið er og þar sem sóknaraðili neitar að hafa samþykkt þá eignaskiptingu sem þar kemur fram þykir ekki unnt að byggja á að í því felist bindandi samkomulag aðila um eignaskipti.
Meðal gagna málsins er einnig ljósrit skjals sem ber yfirskriftina “ÁÆTLUN HE rekstur fyrir 2001”. Á skjalinu koma fram hlutföllin 57,3% og 42,7%. Sóknaraðili kveður prósentutölurnar ekki varðaeignarhlutföll og kveðst ekki geta svarað því hvort þær séu ritaðar með hennar hönd. Voru svör sóknaraðila við spurningum varðandi skjalið afar óskilmerkilegar. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að prósentutölur þær sem fram koma á skjalinu séu niðurstaða einnar af mörgum tilraunum málsaðila til að ná samkomulagi um skiptingu eignarinnar.
Samkvæmt yfirlýsingu Íbúðalánasjóðs dags. 22. október 2004 eru málsaðilar samskuldarar að 2 lánum frá Byggingasjóði upphaflega að fjárhæð kr. 2.319.000 og 2.436.000, sem eru með veði í fasteigninni A, Reykjavík.
Greiðsluseðlar Íbúðalánasjóðs vegna lánanna með gjalddaga frá 1. febrúar 2001 til og með 1. maí 2004 eru hins vegar stílaðir á varnaraðila einan og greiddi hann einn afborganir af lánunum á sambúðartímanum. Þá liggur fyrir að hann hefur einn gert grein fyrir lánunum á skattframtölum sínum á tímabilinu. Þykir framangreint eindregið styðja staðhæfingar varnaraðila um að um það hafi verið samið að skuldin við Íbúðalánasjóð væri framlag hans til kaupa á fasteigninni. Þá þykir ekki verða fram hjá því litið að efni skjala þeirra sem lýst hefur verið og stafa frá aðilum þykja styðja staðhæfingar varnaraðila um að yfirtaka lánsins hafi verið framlag hans til kaupanna. Sömuleiðis þykja framlögð gögn um samskipti fyrri lögmanns sóknaraðila og lögmanns varnaraðila renna stoðum undir það.
Samkvæmt framanröktu er það niðurstaða dómsins, að þrátt fyrir yfirlýsingu Íbúðalánasjóðs, að við það verði að miða að varnaraðili hafi einn yfirtekið skuldina við Íbúðarlánasjóð við kaup fasteignarinnar. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili sé eigandi 57,6% og varnaraðili 42,4% fasteignarinnar A, Reykjavík.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að varnaraðili verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.035.000 vegna búsetu hans og uppihalds í eign sóknaraðila að B. Málsaðilar eru sammála um að þeir hafi gert munnlegt samkomulag við upphaf sambúðar þeirra um að varnaraðili greiddi til heimilisins. Heldur sóknaraðili því fram að samið hafi verið um að varnaraðili greiddi 50.000 á mánuði eða samtals kr. 2.050.000 í þá 41 mánuði sem þau bjuggu að B, en af þeirri fjárhæð hafi hann einungis greitt samtals kr. 1.015.000. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að hann hafi gefið sóknaraðila sjálfdæmi um að ákveða hvert mánaðarlegt framlag hans væri og hafi hún ákveðið að hann greiddi kr. 25.000 krónur á mánuði. Kveðst hann ætíð hafa staðið í skilum með greiðslu þeirrar upphæðar. Ekki er við annað að styðjast en staðhæfingar aðila um hvað þeir sömdu. Verður því að telja ósannað að samkomulag hafi orðið um að varnaraðili greiddi kr. 50.000 á mánuði til heimilisins. Með hliðsjón af því og þar sem sóknaraðili viðurkennir að varnaraðili hafi á tímabilinu greitt kr. 1.015.000 eða upphæð sem nær samsvarar því að hann hafi mánaðarlega greitt þá fjárhæð til heimilisins sem hann kveðst hafa átt að greiða þykir ekki verða hjá því komist að sýkna varnaraðila af kröfu sóknaraðila.
Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hlut í heimilishaldi með kr. 528.888. Heldur sóknaraðili því fram að aðilar hafi samið um það þegar þeir keyptu fasteignina að A, Reykjavík að þau myndu skipta rekstrarkostnaði eignarinnar til helminga. Heldur sóknaraðili því fram að hún hafi greitt kr. 1.057.776 umfram varnaraðila vegna rekstrarkostnaðar og að sóknaraðili skuldi henni því helming þeirrar fjárhæðar. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að ekki hafi verið sérstaklega samið um skiptingu rekstrarkostnaðar eignarinnar og að hann hafi lagt síst minna til heimilisins en sóknaraðili. Með hliðsjón af því og þar sem ekki er við skriflegt samkomulag að styðjast þykir ekkert annað liggja fyrir en að aðilar hafi rekið heimili sitt sameiginlega eftir að þau fluttu að A. Samkvæmt því og þar sem telja verður ósannað að sóknaraðili hafi greitt umfram varnaraðila vegna rekstrarkostnaðar eignarinnar verður varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila sem aðeins að hluta til er byggð á reikningum og því vanreifuð.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sinn hluta í vinnulaunum, kr. 1.200.000, vegna málunar á A, í samræmi við þá prósentutölu sem lögð verði til grundvallar sem eignarhluti hennar í fasteigninni. Kveðst sóknaraðili hafa sagt við varnaraðila að það væri lágmark að hann borgaði henni fyrir vinnuna. Varnaraðili hafi talið það sanngjarnt og hafa ætlað að greiða henni þegar hann eignaðist pening. Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili hafi ekki málað eignina ein. Málarameistari hafi verið ráðinn til verksins auk þess sem tveir aðrir menn hafi komið þar við sögu. Þá kveðst hann sjálfur hafa málað. Hafnar hann því að um það hafi verið samið að hann greiddi sóknaraðila fyrir málningarvinnuna og heldur því fram að hann hafi lagt síst minni vinnu og fjármuni til endurbóta á eigninni en sóknaraðili. Krafa sóknaraðila byggist á yfirlýsingu málarameistara um að, “Ef öll þessi vinna við að auka verðmæti eignarinnar hefði verið aðkeypt er það álit mitt, að heildarkostnaður hefði verið á bilinu 1,2 til 1,4 milljónir króna”. Yfirlýsing þessi er með öllu órökstudd og ósundurliðuð. Samkvæmt því og þar sem ósannað er að um það hafi verið samið á varnaraðili greiddi sóknaraðila vegna málningarvinnu verður varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði skylda varnaraðila til að greiða henni kr. 480.000 fyrir hennar hlut í bifreið. Fyrir liggur að andvirði Nissan Sunny bifreiðar sóknaraðila kr. 600.000 rann á árinu 1997 til kaupa á bifreiðinni [...] sem kostaði 1.300.000 og var síðan seld á árinu 1999 fyrir 690.000. Andvirði þeirrar bifreiðar rann síðan til kaupa á bifreiðinni [...] sem kostaði kr. 3.260.000. Báðar bifreiðarnar voru skráðar eign sóknaraðila. Sóknaraðili afsalaði bifreiðinni [...] síðan til varnaraðila á árinu 2000 og er kaupverð hennar tilgreint 2.000.000 á skattframtali hennar 2001. Varnaraðili mun síðan hafa látið þá bifreið upp í bifreið sem skráð er eign fasteignasölu hans. Varnaraðili neitar því að um það hafi verið samið að hann endurgreiddi sóknaraðili upphaflegt framlag til sameiginlegra kaupa þeirra á bifreið. Þegar af þeirri ástæðu, og þar sem fyrir liggur að sóknaraðili afsalaði varnaraðila bifreiðinni [...] eins og áður er rakið, verður ekki hjá því komist að sýkna varnaraðila af kröfunni sem byggir á órökstuddu mati bílasala.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða kr. 384.295 vegna bifreiða. Krafan er annars vegar vegna rekstrarkostnaðar, samtals kr. 228.315 og hins vegar lán sóknaraðila til varnaraðila vegna viðgerða á bifreiðinni [...], samtals kr. 155.980. Ekki liggur fyrir samkomulag um skiptingu rekstrarkostnaðar bifreiða á milli málsaðila á sambúðartímanum né að samið hafi verið um að varnaraðili endurgreiddi sóknaraðila reikninga vegna viðgerða. Þegar það er virt og það að sóknaraðili var ein skráð eigandi bifreiða þeirra sem krafan er vegna þykir ekki verða hjá því komist að sýkna varnaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði skylda varnaraðila til greiðslu helmings verðmætaaukningar skrifstofuhúsnæðis að C, kr. 3.000.000. Fjárhæð kröfunnar styðst ekki við nein gögn. Þá er umrætt húsnæði ekki í eigu varnaraðila og hefur ekki verið. Verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum leigu kr. 70.000 á mánuði frá 1. janúar 2005. Sóknaraðili heldur því fram að henni hafi ekki verið kunnugt um flutning varnaraðila fyrr en með bréfi lögmanns 28. janúar 2005, en í bréfinu var hún krafin um greiðslu húsaleigu kr. 150.000 á mánuði frá 1. janúar s.á. Varnaraðili kveðst hins vegar hafa flutt af heimilinu í lok desember mánaðar 2004 og fær það stoð í gögnum málsins. Fyrir liggur að varnaraðili bjó á neðri hæð fasteignar aðila frá því í desember 2003, en þá heldur hann því fram að sambúð aðila hafi lokið, og þar til í desember 2004. Hefur varnaraðili ekki sannað með ótvíræðum hætti að hann hafi ekki getað haldið áfram að nýta eignina fyrir sig á móti sóknaraðila ef hann hefði svo kosið. Þykir með hliðsjón af því verða að sýkna sóknaraðila af leigukröfu varnaraðila.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili greiði sinn hluta málskostnaðar.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Viðurkennt er að sóknaraðili, K, sé eigandi 57,6% og varnaraðili, M, sé eigandi 42,4% fasteignarinnar að A, Reykjavík.
Varnaraðili er sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 1.035.000 krónum.
Varnaraðili er sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 528.888 krónum.
Varnaraðili er sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 1.200.000 krónum.
Varnaraðili er sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 480.000 krónum.
Varnaraðili er sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 348.295 krónum.
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennd verði skylda varnaraðila til greiðslu 3.000.000 króna vegna verðmætaaukningar skrifstofuhúsnæðis að C, Reykjavík.
Sóknaraðili er sýknaður af kröfu varnaraðila um greiðslu 70.000 króna í húsaleigu á mánuði.
Málskostnaður fellur niður.