Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsvist


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. apríl 2002.

Nr. 160/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen hrl.)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsvist.

Lögregla krafðist þess að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en X hafði gengist við því að hafa ráðið Y bana og brotist inn á hjólbarðaverkstæði. X mótmælti ekki kröfunni, en krafðist þess að gæsluvarðhaldið yrði reist á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þá krafðist hann þess að aflétt yrði takmörkunum á réttindum hans í gæsluvarðhaldsvist samkvæmt b.-e. lið 1. mgr. 108. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar var talið fullnægt skilyrðum til að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, og tekið fram að það væri ekki á valdi X að leita eftir því að mælt yrði fyrir um að gæsluvarðhald yfir honum á grundvelli strangari reglu en lögregla hefði kosið að beita um kröfu sína. Þá voru ekki talin efni til að verða að svo komnu við kröfum X um að aflétt yrði frekar þeim takmörkunum á réttindum, sem hann hefði búið við í gæsluvarðhaldsvist.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. maí nk., jafnframt því sem leyst var úr ágreiningi um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að gæsluvarðhald, sem hann sætir samkvæmt hinum kærða úrskurði, verði reist á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, svo og að aflétt verði takmörkunum á réttindum hans í gæsluvarðhaldsvist samkvæmt b. - e. lið 1. mgr. 108. gr. laganna. Til vara krefst hann þess að honum verði heimilað að fá heimsóknir frá þremur nafngreindum mönnum til viðbótar þeim fjórum, sem sóknaraðili hefur veitt heimild til að heimsækja hann.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

 

I.

Samkvæmt gögnum málsins var lögreglunni tilkynnt aðfaranótt 18. febrúar 2002 að maður lægi meðvitundarlaus á gangstétt framan við tiltekið hús við Víðimel í Reykjavík. Þegar lögreglan kom á vettvang reyndist maðurinn vera látinn og var talið ljóst af ummerkjum að honum hefði verið ráðinn bani. Sömu nótt var brotist inn í hjólbarðaverkstæði við Ægisíðu og kveður sóknaraðili grun hafa komið upp um að tengsl væru milli þessara afbrota. Hafi böndin borist að varnaraðila, sem var handtekinn sama dag. Við skýrslugjöf hjá lögreglunni gekkst hann við báðum brotunum og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 19. febrúar 2002 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. apríl sl. að gæsluvarðhald yfir varnaraðila yrði framlengt og þá enn á grundvelli sama lagaákvæðis. Á dómþingi þann dag mótmælti varnaraðili ekki kröfunni um gæsluvarðhald, en krafðist þess að það yrði reist á ákvæði 2. mgr. sömu lagagreinar.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að rannsókn málsins sé ekki lokið. Þannig hafi ekki verið skýrðar ástæður þess að lík þess látna hafi verið fært til á vettvangi. Beðið sé niðurstöðu krufningar og DNA rannsóknar á sýnum, sem hafi fundist á vettvangi, en ekki sé útilokað að fleiri geti hafa átt hlut að máli en varnaraðili. Þá sé ekki upplýst eftir hvern skófar sé, sem þar hafi fundist.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir því að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þess tíma, sem þar greinir. Sóknaraðili hefur ekki krafist þess að varnaraðili verði hafður í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna og því ekki rökstutt fyrir sitt leyti að fullnægt geti verið þeim strangari skilyrðum, sem sett eru fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt því ákvæði, en gilda samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Er ekki á valdi varnaraðila að leita eftir því að mælt verði fyrir um gæsluvarðhald yfir sér á grundvelli strangari reglu en sóknaraðili hefur kosið að beita um kröfu sína. Getur því ekki komið frekar til álita fyrrgreind krafa varnaraðila um að ákveðið verði að hann sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

II.

Í bréfi sóknaraðila til fangelsisyfirvalda 27. mars 2002 kom fram að þann dag kl. 15 skyldi aflétt takmörkunum, sem varnaraðili hafði sætt á aðgangi að fjölmiðlum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðila yrði áfram bannað að fá heimsóknir, sbr. c. lið 1. mgr. sömu lagagreinar, að undanskildum heimsóknum fjögurra nafngreindra manna. Skyldu takmarkanir samkvæmt b. og d. lið 1. mgr. 108. gr. haldast óbreyttar frá því, sem verið hefði. Fram er komið að varnaraðili hafi að auki fengið að hafa símsamband við föður sinn, sem sé erlendis. Með vísan til þess, sem áður er rakið um stöðu rannsóknar málsins, og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar eru ekki efni til að verða að svo komnu við kröfum varnaraðila um að aflétt verði frekar þeim takmörkunum á réttindum, sem hann hefur búið við í gæsluvarðhaldsvist.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald yfir varnaraðila, X, er staðfest.

Kröfum varnaraðila um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans er hafnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2002.

                Ár 2002, þriðjudaginn 2. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. maí 2002 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík segir að lögreglan í Reykjavík hafi til rannsóknar ætlað manndráp sem framið hafi verið á Víðimel í Reykjavík aðfaranótt 18. þ.m. Þar fannst látinn Bragi Óskarsson. Kærði hefur fyrir dómi játað að hafa lent í átökum við hinn látna á þessum stað þessa nótt.

                Fyrr sömu nótt hafi verið brotist inn í Hjólbarðaviðgerðir Vesturbæjar, Ægissíðu 102, Reykjavík. Kærði hafi skýrt svo frá að hann hafi farið frá heimili sínu laust eftir miðnætti þann 18. febrúar með áhöld sem hann hafi ætlað að nota við innbrot á verkstæðið. Á leið sinni þangað hafi hann rekist á Braga heitinn og hafi komið til átaka á milli þeirra sem endað hafi með því að Bragi heitinn lá hreyfingarlaus eftir. Kærði hefur ítrekað borið að hann hafi verið einn að verki.

                Lögreglan segir að rannsókn máls þessa standi nú yfir og enn eigi eftir að afla gagna sem hafi mikla þýðingu í málinu. Megi nefna að enn sé beðið eftir skýrslu réttarmeinafræðings um krufningu á líki Braga heitins og hafi lögreglu verið tjáð að hún verði tilbúin um miðjan þennan mánuð. Þá sé beðið eftir niðurstöðum úr DNA-rannsókn á sýnum sem tekin hafi verið á vettvangi og af sönnunargögnum í málinu. Loks megi nefna að tæknideild embættisins eigi eftir að ljúka úrvinnslu á þeim hluta rannsóknarinnar sem að henni snúi.

Lögreglan kveðst rannsaka ætlað brot kærða sem talið sé varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Styður lögreglan kröfuna við a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

                Niðurstaða:

                Kærði hefur játað sakargiftir og er einnig með vísan til rannsóknargagna rökstuddur grunur um að hann hafi framið það brot sem hér um ræðir og varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er langt komin. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að fleiri en kærði hafi komið við sögu. Er nauðsynlegt að rannsaka nánar þær vísbendingar sem veitt geta svör við þeim spurningum og er hætta á því að kærði gæti torveldað rannsóknina færi hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, eins og hún er fram sett.

                Verjandi kærða hefur sérstaklega mótmælt því að hann sæti takmörkunum samkvæmt b-e liðum 108. gr. laga nr. 19/1991. Hefur hann skýrt þau mótmæli sín með greinargerð er hann lagði fram. Krefst hann þess aðallega að aflétt verði öllum takmörkunum, til vara að aflétt verði fjölmiðlabanni og að sjö tilgreindum einstaklingum verði heimilað að heimsækja kærða. Loks að honum verði heimiluð símasamskipti við föður sinn.

                Sækjandi hefur andmælt sjónarmiðum verjanda í þessu efni.

                Fallast ber á með lögreglu að ekki sé fyllilega unnt að útiloka að fleiri en kærði hafi átt þátt í láti Braga Óskarssonar. Verður því fallist á að varðhald kærða verði með þeim takmörkunum sem lýst er í bréfi lögreglustjóra dagsettu 27. mars 2002, þar sem aflétt var fjölmiðlabanni svo og heimilaðar heimsóknir A, B, C og D.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. maí 2002 kl. 16.00.

                Tilhögun vistarinnar skal vera í samræmi við bréf lögreglustjóra 27. mars sl. um breytingu á vistunarseðli.