Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/1999


Lykilorð

  • Kynferðisbrot


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 27. maí 1999.

Nr. 44/1999:

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Eiríki Stefánssyni

(Örn Clausen hrl.)

Kynferðisbrot.

E var ákærður fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa strokið með hendi um læri stúlkunnar X, 14 ára, nærri kynfærum hennar. Sekt E var talin sönnuð og niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og heimfærslu til refsiákvæða staðfest. Var brot E talið smávægilegt og staðhæfingar X um að E hafi áður sýnt sér í orðum kynferðislega áreitni taldar ósannaðar. Var E dæmdur til greiðslu sektar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun að fengnu áfrýjunarleyfi og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu ákærða og að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði öll skilorðsbundin. Til þrautavara er krafist ómerkingar og heimvísunar málsins til dómsálagningar að nýju.

I.

Af hálfu ákærða er krafa um heimvísun málsins einkum á því reist að við skýrslutökur af vitnum hafi héraðsdómari sýnt hlutdrægni, sem geti hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins. Þannig hafi hann ítrekað meinað verjanda ákærða að beina spurningum til vitna og oft gripið fram í fyrir honum með óeðlilegum hætti eða stöðvað spurningar hans. Þá hafi dómarinn jafnframt hafnað því að kveðja nafngreind vitni öðru sinni fyrir dóm þrátt fyrir tilmæli verjanda ákærða þar um.

Skýrslutökur af vitnum fyrir héraðsdómi voru hljóðritaðar. Verður ekki ráðið af endurriti þeirra að annmarkar hafi orðið á framkvæmd þinghalda, sem varðað geti ómerkingu málsins. Aðrar haldbærar ástæður hafa heldur ekki verið fram bornar, sem leitt geta til þeirrar niðurstöðu. Verður kröfu ákærða um ómerkingu og heimvísun málsins því hafnað.

Með framburði vitna, sem rakinn er í héraðsdómi, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæðis.

II.

Ákærði hefur gefið þá skýringu á háttsemi sinni, að fyrir sér hafi vakað það eitt að stríða stúlkunni X, sem var tæpra 15 ára er hið refsiverða atvik varð. Hafi hún ekki svarað endurteknu ávarpi hans og sýnt honum óvirðingu. Viðbrögð hans skýrist af þessu, en ætlun sín hafi alls ekki verið að hafa í frammi neins konar kynferðislega tilburði. Það hafi hann heldur aldrei gert áður, hvorki í orðum né í verki.

Brot ákærða var smávægilegt, og staðhæfingar brotaþola um að ákærði hafi áður sýnt sér í orðum kynferðislegt áreiti eru ósannaðar. Verður ákærða gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem þykir hæfilega ákveðin 20.000 krónur, og komi fangelsi í sex daga í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest, en ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem greinir í héraðsdómi.

Dómsorð:

Ákærði, Eiríkur Stefánsson, greiði 20.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í sex daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

Dómur Héarðsdóms Austurlands 30. nóvember 1998.

Ár 1998, mánudaginn 30. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Austurlands, sem háð er í dómssalnum að Lyngási 15, Egilsstöðum, af Loga Guðbrandssyni, dómstjóra, kveðinn upp dómur í málinu nr. S 70/1998: Ákæruvaldið gegn Eiríki Stefánssyni.

Málið, sem þingfest var 12. ágúst 1998 og dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 19. október 1998, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 18. júní 1998 gegn Eiríki Stefánssyni, kt. 270350-7399, til heimilis að Skólavegi 50, Fáskrúðsfirði, „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 18. mars 1998, í samkomuhúsinu [...], strokið með hendi um læri stúlkunnar X, 14 ára, nærri kynfærum hennar.

Telst þetta varða við 209 gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Ákærði krefst aðallega sýknu og að allur kostnaður sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans verði greiddur úr ríkissjóði.

Til vara krefst ákærði að honum verði dæmd vægasta refsing, sem lög leyfa.

Málavextir eru þeir, að kl. 21:43, miðvikudaginn 18. mars 1998 óskaði A eftir lögreglu á heimili sitt vegna máls, sem hún óskaði að ræða við lögreglu. Þegar lögreglumenn komu stuttu síðar var A í stofu hússins ásamt dóttur sinni X, en X var mjög langt niðri og grét. Sagði A lögreglumönnunum, að X hefði verið í samkomuhúsinu [...] þá fyrr um kvöldið, en þar fer m.a. fram æskulýðsstarfsemi. X sagði síðan sjálf frá því, að hún hafi verið stödd frammi á gangi og verið að tala við krakka, er hönd hafi verið sett á læri sitt og strokið upp í átt að klofi. Hún hafi þá snúið sér við og hafi þá ákærði Eiríkur Stefánsson þá verið þar og hörfað frá sér.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hafi komið umrætt kvöld, ásamt öðrum manni, í æskulýðsheimilið til þess að horfa þar á knattspyrnuleik í sjónvarpi. Þeir hafi komið saman inn á ganginn og hann hafði orð á því við félaga sinn, hvort hann kæmi ekki upp með honum að horfa á leikinn. Það vildi hann ekki og kvöddust þeir þarna þegar ákærði ætlaði að fara upp stigann upp á loftið. Í leiðinni, þegar þetta er að ske, kallaði hann inn, en tók fram, að hann hafi ekki ætlað inn, heldur kallaði hann og spurði að því, hvort það væri verið að senda út leiki. Þá hafi X verið stödd þarna næst honum og hafi hún snúið sér við og grett sig framan í hann og svaraði honum ekki. Hann hafi kallað aftur og hélt að hann hefði kallað í þriðja sinn og hún svaraði honum ekki að heldur. Þá hafi hann gengið til hennar og slegið lauslega á hné hennar. Ákærði sagði, að X hefði snúið sér við um leið og hann gekk upp á loftið. Ákærði kvaðst hafa verið uppi á loftinu í um það bil 20 mínútur. Eftir það leit hann inn í danssalinn og kom þá sama stúlka og byrjar að munnhöggvast þarna við hann og segja honum að hann skuli hypja sig út, hann eigi ekki að vera þarna. Hann kvaðst hafa gert þau mistök að fara að munnhöggvast á móti. Ekki sagði ákærði, að X hefði minnst neitt á það í þessum orðaskiptum þeirra, að hann hefði neitt áreitt hana. Hann hafi hins vegar farið að rifja það upp, hvernig hún hafi, ásamt öðrum krökkum áreitt hann í gegnum árin með grjótkasti, snjókasti, látum og banki á glugga og annað. Þá hafi hann rifjað upp, að hann hefði hjálpað fjölskyldu hennar um peninga í mörg ár. Taldi ákærði að þetta hefði X sárnað. Hann kvaðst síðan hafa farið heim til sín og hafi verið liðnar 30 mínútur ef ekki 50, þá hafi forstöðukona æskulýðsheimilisins hringt og spurt, hvað hafi gerst þar. Taldi hann að frá því hann kom í húsið og þar til X fór til forstöðukonunnar hafi liðið ekki minna en 60 mínútur.

Nánar aðspurður um atvik, sem lýst er í ákæru taldi ákærði, að hann hefði þurft að ganga ein fjögur fimm skref til X, frá dyrunum, sem hann stóð í þegar hann kallaði. Hann kvaðst hafa snert X með hægri hendi með lófann að, utanfótar á vinstra hné. Hann hafi gripið með fingrum um hnéð.

Aðspurður um það, hvort nokkurn tíma hafi komið til samskipta milli hans og X, sem heimfæra mætti sem kynferðisleg, svaraði hann  „Ég skal náttúrulega ekki alveg.... Ég vil ekki játa því né neita.”

Vitnið, X, skýrði svo frá fyrir dómi, að hún hefði verið að tala við vinkonu sína í sjoppunni, það er rétt hjá inngöngudyrunum. Ákærði hafi staðið þarna í dyrunum smástund, en hún hefði ekki tekið eftir honum. Þar sem hún hafi verið að tala við þessa vinkonu sína hafi ákærði komið og gengið fyrst framhjá eins og hann ætli að fara upp í annað herbergi, en gekk svo til baka og lætur hendina á læri hennar. Hún kveðst hafa kallað hann ógeð eða „þú ert ógeðslegur”. Ákærði hafi bara hlegið og farið upp stigann.

Vitnið kvaðst síðan hafa farið inn í danssalinn til vinkonu sinnar og fór að segja henni frá þessu og þá hafi ákærði komið þangað og verið að fylgjast með þeim, eins og hann hefði oft gert áður. Vitnið kvaðst hafa sagt honum að hann mætti ekki vera þarna inni, þar sem þetta væri fyrir unglinga og hann hefði ekkert leyfi til að vera þarna. Vitnið fór síðan til forstöðukonunnar og skýrði henni frá atvikinu. Sérstaklega aðspurð taldi hún að stuttur tími hefði liðið eða um tvær mínútur frá því að atvikið varð og hún fór til forstöðukonunnar.

Nánar aðspurð um sjálft atvikið, lýsti hún því svo, að ákærði hefði lagt hendina rétt fyrir aftan hné, aftanfrá og strauk upp lærið og aðeins undir pilsið sem hún var í.

Hún kvaðst hafa verið í pilsi, sem var stutt eða um 15 cm fyrir ofan hné. Vitnið kvaðst annars hafa verið þannig klædd að hún var í joggingpeysu, í svörtu pilsi, bláum sokkabuxum og í svörtum skóm.

Vitnið var spurt um hvernig hún hefði upplifað þennan atburð og svaraði hún: „Þetta var náttúrulega alveg hrikalega óþægilegt þegar einhver kall er að gera eitthvað svona. Systir mín lenti í svona máli, henni var nauðgað. Mér leið alveg agalega illa.”

Vitnið A, móðir vitnisins X, hefur skýrt svo frá, að hún hafi verið heima hjá sér þetta kvöld, þegar X hafi hringt grátandi og sagt henni að ákærði hafi komið þarna inn og sett hendina upp undir pilsið hjá henni. Hún hefði brugðið við og fengið vinkonu sína til að keyra með sig inn eftir. Þegar þangað kom hafi X verið inni hjá æskulýðsfulltrúanum, hágrátandi og hafi hún tekið hana með sér heim. Vitnið kveðst hafa verið hálf smeyk, því hún hélt að X væri að fá snert af taugaáfalli, því hún kom engu tauti við hana og hún titraði öll og skalf og grét bara. Vitnið hringdi þá í lögreglu, sem ráðlagði henni að hafa samband við lækni, sem kom og ræddi við hana. Aðspurð um hvernig X hafi liðið eftir þessa atburði, lýsir hún því svo, að hún sé hrædd við að hitta ákærða. Þannig fari hún ekki beinustu leið í og úr skóla  að hún væri keyrð, því  að hún væri alltaf hrædd um að mæta honum.

Vitnið segir, að áður en atburður sá varð, sem mál þetta snýst um, hafi hún beðið ákærða að gefnu tilefni, að láta X í friði.

Vitnið ÁJ, 15 ára, kvaðst hafa verið stödd í sjoppunni eins og X en hún hafi setið þar á borði. Vitnið kvaðst ekki hafa verið með X, en hafa séð hana. Hún hefði ekki séð hana frá mjög góðu sjónarhorni, en samt svo, að hún hafi alveg séð atburðinn. Ákærði hafi komið inn og fannst vitninu hann ekki eiga þarna neitt erindi, en þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn, sem hann kom þarna. Ákærði hafi gengið „rosalega sakleysislega” framhjá X og fer með hendina undir pilsið, en hún hafi verið í frekar stuttu pilsi. Ekki mundi vitnið, með hvorri höndinni ákærði snerti X, þar sem hún hefði séð aftan á hann, en hún taldi að hann hefði snert X innan fótar. Vitnið sagði að við þetta hefði X snúið sér við og öskrað á ákærða, að hann væri geðveikur.

Vitnið H, 14 ára, sagðist hafa séð, að X stóð við sjoppuna, þar sem sælgætissalan er og að ákærði stóð fyrir aftan hana og fór með hendina undir pilsið. Hún kvaðst ekki vita, hversu hátt hann fór. Síðan sá hún, að hann bakkaði hratt aftur á bak og hún kallaði á eftir honum: „ógeðið þitt”. Síðan sá hún að hann gekki upp í sjónvarpsherbergið og sá hann svo ekki meir þetta kvöld. Ekki vissi hún til að nein orðaskipti hefðu farið á milli þeirra ákærða og X áður en þetta varð. Nánar aðspurð sagði vitnið að ákærði hefði hefði aðeins gengið framhjá X og ekkert beygt sig niður. Hún taldi að ákærði hefði notað hægri hendi og minnti, að hann hefði snert hægri fót X.

Vitnið S, 13 ára, kvaðst hafa staðið fyrir ofan sjoppuna á litlum palli og séð ákærða koma og hafi verið eins og hann gengi fyrst tvö skref framhjá henni en bakkað og strokið snöggt undir pilsið hjá henni. Vitnið kvaðst ekki vera viss um hversu langt hann fór, en hann hefði farið snöggt út aftur og gengið upp í sjónvarpsherbergið. X hefði kallað á hann „eitthvað ógeð”. Vitnið kvaðst hafa haldið að um væri að ræða eitthvert grín og farið inn í danssalinn. Þar hafi X komið til hennar mjög döpur og sagt henni að standa fyrir henni, vegna þess að ákærði væri að gægjast inn í salinn. X hafi síðan sagt ákærða að fara og þá hafi einnig komið vinkona hennar, G að nafni, og farið að reka ákærða út.

Að ósk ákærða komu fyrir dóm sem vitni, HP, móðir vitnisins S og fósturfaðir hennar, K. Töldu þau, að vitnið S mundi ekki hafa sagt rétt frá atburðum, en höfðu það eitt til marks, að þau ættu því að venjast, að dóttir þeirra segði þeim alla hluti fljótt, en það hefði hún ekki gert í þetta sinn. Vitnið HP var viðstödd skýrslugjöf vitnisins S hjá lögreglu og vitnið K var viðstaddur skýrslugjöf hennar fyrir dómi, og gerði hvorugt þeirra neinar athugasemdir um framburð hennar. Verður ekki talið, að þessir framburðir dragi úr trúverðugleika vitnisins S.

Vitnið M, 13 ára, kvaðst hafa verið ásamt H vinkonu sinni að ganga þarna á ganginum og hafi þær verið í enda gangsins. H hafi sagt við hana „sjáðu”. Hún hafi þá litið við og séð X, sem stóð fyrir neðan sjoppuna og ákærði hafi staðið fyrir aftan hana og „þá var hann að koma svona undan pilsinu.” með hendina. X hafi þá öskrað á hann. Hún kvaðst aðeins hafa séð ákærða koma með höndina undan pilsinu. Hún taldi, að það hafi verð hægri hendi ákærða, sem hún sá og hún hafi verið við hægri fót X.

Vitnið SS, æskulýðsfulltrúi, sagði, að inni hjá sér hefðu verið nokkrir krakkar. Þá hafi X komið inn hálf skælandi og bölvar ákærða í sand og ösku, kallar hann „helvítis ógeð” og annað þess háttar. Þegar vitnið spurði X, hvað hefði skeð, sagði hún að ákærði hefði gripið í pilsið og spurt, hvort hún væri með lærasýningu hérna. Vitnið reyndi að róa hana til að fá að vita, hvað hefði í raun skeð, en hún vildi bara að það yrði hringt í mömmu hennar, sem vitnið gerði. Sagði hún að X hefði verið orðin róleg, þegar móðir hennar kom skömmu seinna, en þá hefði hún brotnað niður aftur. Hún hefði þá sagt móður sinn það sama og hún hafði áður sagt vitninu.

Vitnið Brynjólfur Karl Hauksson, læknir, sagði, að fyrst hefði verið haft samband við hann kl. rúmlega 21 um kvöldið út af þessum atburði. Hann hafi þá verið upptekinn og ekki getað komið, en benti á, að um væri að ræða mál, sem heyrði undir lögreglu. Rúmlega klukkustund síðar var aftur haft samband og hafi hann þá getað komið. X hafi þá verið í uppnámi og í rauninni ekki bara stúlkan, heldur allt heimilið. Það hafi tekið töluverðan tíma að róa hana, þannig að hann næði sambandi við hana og hún lýsti síðan því fyrir honum, sem hafði gerst. Hann hefði skrifað það niður nokkurn veginn eftir hennar orðum og hennar upplifun, að hún hefði verið uppi í æskulýðsheimili, eins og þau kalla þetta þarna í [...], þarna safnast æskulýðurinn saman til að skemmta sér. Þá hafi meintur gjörningsmaður komið þar inn og hann hefði komið að henni og hún var í svokölluðu pínupilsi og farið uppundir pilsið og strokið lærið utanvert og niður eftir lærinu og um leið viðhaft óviðurkvæmileg orð, sem hann taldi mega kalla klám. Vitnið sagði, að X hefði talið að þetta væri ekki í fyrsta skipti, sem hún hefði orðið fyrir einhvers konar áreiti, en ekki líkamlegu. Hún hafi síðan farið að skemmta sér með jafnöldrum sínum og taldi þá, að hann hafi staldrað við og hafi horft á sig með einhverju ögrandi augnaráði, sem endaði með því að hún fór til hans og sagði honum að koma sér burtu. Eftir að hún hafði talað við SS, forstöðukonu, hafi hún farið heim, og þar hafi allt farið í uppnám. Vitnið taldi það eðlilegt ástand mála, miðað við það sem á undan hafði gengið. Hann sagði X hafa verið mjög æsta, milli þess, sem hún var mjög ákveðin. Hún hafi verið ákaflega greinargóð og ekki hefði verið um að ræða „hysteríu”, en inn á milli hafi hún grátið og misst stjórn á sér og komið hafi fram mikil reiði. Vitnið sagði greinilegt fyrir hann sem fagmann að bæði blygðunarsemi hennar og sjálfsvirðingu hafði verið gróflega misboðið. Það hafi greinilega verið ásetningur hennar, að þetta skyldi ekki endurtaka sig gagnvart henni, en um leið var hún hrædd um að þetta gæti komið henni í koll eða að henni yrði hegnt fyrir á einhvern hátt. Hafi hún borið kvíða fyrir að fara út daginn eftir, hvað mundi gerast, hvort hugsanlega yrði setið fyrir henni, eða hvort hún yrði fyrir einhverju áreiti. X hafði ekki orðið fyrir líkamlegum áverka, hún var ekki rifin eða líkamlega særð, en andlega. Vitnið taldi það hafa slegið sig sérstaklega, hún vildi ekki fara að sofa ein og taldi þetta bera vott um klassískt einkenni um „post traumatískt syndrome”, hún hafi verið óttaslegin og hrædd við martraðir og treysti sér ekki þótt hún sé 14 ára gömul að fara ein í rúmið.

Lagt hefur verið fram í málinu vottorð dr. Gunnars Hrafns Birgissonar, sálfræðings, og segir hann þar frá því, að hann hafi átt viðtöl við X og foreldra hennar. Síðan segir í vottorðinu: „Tilgangur viðtalanna var að veita sálfræðilega ráðgjöf og stuðning við fjölskylduna í ljósi þess að X hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Ég sá enga ástæðu til að rengja það, að slík áreitni hefði átt sér stað. X sýndi ekki merki um geðræn vandamál tengd þessum atburðum. Hún naut góðs af því að foreldrar hennar sýndu henni skilning og veittu henni viðeigandi stuðning við að yfirstíga erfiðleikana.

Niðurstaða:

Óumdeilt er, að ákærði hafi að kvöldi miðvikudagsins 18. mars 1998, komið í samkomuhúsið [...] og gengið þar að X, sem þar stóð í gangi hússins. Ákærði hefur viðurkennt að hafa komið aftan að X og gripið um hægra hné hennar með hægri hendi. Með framburðum vitna þeirra, sem voru á staðnum og greint er frá að ofan, er sannað, að ákærði hafi einnig farið með hægri hendi upp undir pils stúlkunnar og strokið niður eftir læri utanvert.

Er þannig sannað, að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar hún við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Refsingar

Ákærði, sem er 48 ára að aldri hefur á árunum 1977 til 1990 tíu sinnum undirgengist sáttir, sektir fyrir áfengislaga-, umferðarlaga- og hegningarlagabrot. 1977 hlaut hann dóm, 60 daga varðhald fyrir brot gegn 259. gr. alm. hgl. og fyrir ölvunarakstur. Sviptur ökuleyfi ævilangt. 1980 hlaut hann dóm fyrir ölvunarakstur, varðahald 30 daga og var enn sviptur ökuleyfi ævilangt. 1982 hlaut hann dóm í Hæstarétti, þriggja mánaða varðhald fyrir ölvunarakstur, sviptur rétti til að öðlast ökuleyfi ævilangt.

Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga, að atvikið átti sér stað á opinberum stað og innan um nokkurn fjölda unglinga.

Á hinn bóginn var verkið framið í flýti, snertingin létt og ekki gerð tilraun til að snerta X innan klæða eða nær kynfærum hennar en að ofan greinir. Ekki hefur verið sýnt fram á ásetning til að ganga lengra en úr varð.

Samkvæmt vottorði sálfræðings sýndi X ekki merki um geðræn vandamál tengd þessum atburðum og ekki hafa verið gerðar kröfur um bætur vegna þessa.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin sekt 80.000 krónur og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 60.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hrl. 80.000 krónur.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri kvað upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Eiríkur Stefánsson, greiði 80.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 20 daga varðhald í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun 60.000 krónur til ríkissjóðs og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns 80.000 krónur.