Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/2002


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Ölvunarakstur
  • Blóðsýni


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002.

Nr. 326/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Stefáni Ragnari Pálssyni

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Umferðarlög. Ölvunarakstur. Blóðsýni.

S var ákærður fyrir ölvunarakstur með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis frá Ólafsvík austur Snæfellsveg, en bifreiðin hafnaði utan vegar í austanverðum Búlandshöfða. Blóðsýni var tekið úr S um þremur og hálfri klukkustund frá því að akstri lauk en þá mældist áfengismagn í blóði hans 0,5‰. Í málinu lágu fyrir upplýsingar frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði um brotthvarfshraða etanóls í blóði. Talið var, að þegar þær upplýsingar væru hafðar til hliðsjónar þannig að ítrustu varfærni væri gætt við útreikninga og allur vafi virtur S í hag, væri ekki varhugavert að telja að áfengismagn í blóði S þegar hann ók hafi verið a.m.k. 0,7 til 0,75‰ þegar tillit hafi verið tekið til vikmarka. Samkvæmt þessu væri hafið yfir skynsamlegan vafa að áfengismagn í blóði S við aksturinn hafi verið yfir lögleyfðum mörgum. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu S staðfest og hann dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

          Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvalds.

          Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

          Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað af málinu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Stefán Ragnar Pálsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. mars 2002.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Stykkishólmi með ákæru 27. nóvember 2001 á hendur ákærða, Stefáni Ragnari Pálssyni, kt. 190378-5869, Brautarholti 3 í Ólafsvík. Málið var dómtekið 14. mars 2002.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir ölvunarakstur, en ákærða er gefið að sök „að hafa laugardaginn 28. júlí 2001 ekið Mitsubishi fólksbifreiðinni JL-288 undir áhrifum áfengis frá Ólafsvík austur Snæfellsnesveg en bifreiðin hafnaði utan vegar í austanverðum Búlandshöfða.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. ofangreindra umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993.“

Við munnlegan flutning málsins krafðist ákæruvaldið þess einnig að ákærði yrði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð. Til vara er þess krafist að ákærða verði gerð svo væg viðurlög sem lög frekast leyfa og að refsing verði skilorðsbundin.

I.

Samkvæmt skýrslum lögreglunnar í Stykkishólmi eru málavextir þeir að laugardaginn 28. júlí 2001, kl. 14.23, var tilkynnt til neyðarlínu um umferðaróhapp austan í Búlandshöfða. Lögregla kom á vettvang kl. 14.35 en bifreiðinni JL-288 hafði verið ekið til austurs á Snæfellsvegi og ökumaður misst stjórn á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór veltur niður vegakantinn vinstra megin miðað við akstursstefnu og hafnaði utan vegar. Ákærði var ökumaður bifreiðarinnar en farþegi með honum var Björn Heiðar Björnsson. Kallað var eftir sjúkrabifreið sem flutti ákærða og Björn á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar.

Við rannsókn málsins vöknuðu grunsemdir um að ákærði hefði ekki verið alsgáður við aksturinn og því var blóðsýni dregið úr honum til að kanna alkóhólinnihald. Í blóðtökuvottorði læknis kemur fram að blóðsýni hafi verið tekið úr ákærða kl. 17.50 þann sama dag. Samkvæmt vottorði Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði 8. ágúst 2001 mældist áfengi í blóði ákærða 0,50 o/oo án tillits til vikmarka. Ekki tókst að fá þvagsýni frá ákærða vegna meiðsla hans.

Með bréfi sýslumannsins í Stykkishólmi 3. október 2001 var þess farið á leit að Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræði léti á té álit á því hvert hefði verið magn alkóhóls í blóði ákærða þegar slysið varð kl. 14.23 eða þremur klukkustundum og 27 mínútum áður en blóðsýni var tekið úr ákærða og að því gefnu að hann hefði ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk. Þessu erindi svaraði Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri, fyrir hönd rannsóknarstofunnar með bréfi 8. sama mánaðar. Þar segir að ekki sé hægt með nákvæmni að segja til um hver etanólþéttni í blóði ákærða hafi verið kl. 14.23 fyrir töku blóðsýnis. Að því gefnu að ákærði hafi ekki neytt áfengis eftir akstur megi ætla að áfengi í blóði hans á umræddum tíma hafi verið frá 0,9 til 1,4 o/oo. Þá sé reiknað með hámarks og lágmarks brotthvarfshraða etanóls úr blóðinu, en sá hraði sé einstaklingsbundinn og geti verið frá 0,12 til 0,27 o/oo á klukkustund.

Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræði ritaði sýslumanni aftur bréf 26. febrúar 2002. Þar kemur fram að upplýsingar í fyrra bréfi hafi allar verið settar fram miðað við mælda niðurstöðu en ekki endanlega niðurstöðu að teknu tilliti til vikmarka. Ef reikna ætti með fráviki í tilviki ákærða hefðu tölur lækkað um 10% og því hefði áfengi í blóði hans þegar slysið varð verið 0,8 til 1,3 o/oo.

II.

Ákærði greindi frá því fyrir dómi að laust eftir hádegi umræddan dag hefði hann farið akandi frá Ólafsvík áleiðis til Grundarfjarðar. Farþegi með honum í bifreiðinni hefði verið Björn Heiðar Björnsson. Þegar ákærði var komin skammt áleiðis kvaðst hann hafa misst stjórn á bifreiðinni í lausamöl og hafnað utan vegar. Ákærði sagði að Björn Heiðar hefði aðstoðað sig út úr bifreiðinni og síðan hefði sjúkrabifreið komið og flutt þá á sjúkrahúsið á Akranesi. Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvað klukkan var þegar blóðsýni var tekið úr honum en vel geti verið að það hefði verið gert kl. 17.50, eins og greini í blóðtökuvottorði. Aðspurður sagði ákærði að kvöldið áður hefði hann farið á dansleik og dvalið þar til kl. 3.00 en þá farið heim og sofnað um klukkustund síðar. Ákærði sagðist hafa drukkið um sex bjóra þá um kvöldið og nóttina og verið þéttur. Daginn eftir hefði hann ekki fundið til áfengisáhrifa við aksturinn en þó verið lítillega timbraður. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk.

Vitnið Kristín Magnúsdóttir, lyfjafræðingur og deildarstjóri hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, gaf skýrslu fyrir dómi. Kristín greindi frá því að samkvæmt ítarlegum rannsóknum hefði verið leitt í ljós að brotthvarfshraði etanóls úr blóði væri hjá flestum á bilinu 0,12 til 0,27 o/oo á klukkustund. Algengast væri að brotthvarfshraði lægi á bilinu 0,15 til 0,16 o/oo í neðri mörkun en 0.2 o/oo í efri mörkum. Þegar magn etanóls í blóði væri hins vegar orðið minna en 0,4 o/oo hægði á brotthvarfshraða og nálgaðist hann þá venjulega 0,12 o/oo. Kristín taldi litlar líkur á að brotthvarfshraði etanóls úr blóði ákærða hefði verið minni en 0.12 o/oo. Nánar aðspurð sagði hún að rannsóknir hefðu leitt í ljós að í um 95% tilvika væri brotthvarfshraðinn á fyrrgreindu bili frá 0,12 til 0,27 o/oo og að þau tilvik væru einsdæmi þar sem hraðinn væri minni en 0,1. Fram kom hjá Kristínu að aðhlynning ákærða á sjúkrahúsi, verkjalyf, mataræði eða annað hefði ekki getað haft áhrif á brotthvarf etanóls úr blóði hans eða áreiðanleika við mælingu þess. Þá sagði hún að hreyfing breytti engu til né frá varðandi brotthvarfshraða. 

III.

  Svo sem hér hefur verið rakið ók ákærði í umrætt sinn frá Ólafsvík áleiðis til Grundarfjarðar en hafnaði utan vegar. Tilkynning um umferðaróhappið barst kl. 14.23 en blóðsýni var tekið úr ákærða síðar sama dag kl. 17.50 að því er greinir í blóðtökuvottorði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að ónákvæmni hafi gætt við umræddar tímasetningar og verður því lagt til grundvallar að blóðsýni hafi verið tekið úr ákærða þegar rétt tæplega þrjár og hálf klukkustund voru liðnar frá því akstri lauk. Þá hefur ákærði staðfest fyrir dómi að hann neytti ekki áfengis eftir akstur þar til dregið var úr honum blóðsýni.

Við rannsókn málsins hefur komið fram að brotthvarfshraði etanóls úr blóði reynist í lang flestum tilvikum vera á bilinu 0,12 til 0,27 o/oo. Fyrir dómi greindi Kristín Magnúsdóttir, deildastjóri hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá því að þau tilvik væru einsdæmi þar sem brotthvarfshraði etanóls úr blóði væri minni en 0,1 o/oo á klukkusund. Ef þetta er haft til hliðsjónar þannig að ýtrustu varfærni sé gætt við útreikninga og allur vafi virtur ákærða í hag er óhætt að leggja til grundvallar að brotthvarf alkóhóls úr blóði hans á þeim tíma sem leið frá slysi þar til blóðsýni var tekið hafi verið á bilinu 0,3 til 0,35 o/oo en þá mældist áfengismagn í blóði hans 0,5 o/oo. Því þykir ekki varhugavert að telja að áfengismagn í blóði ákærða þegar hann ók hafi að minnsta kosti verið 0,7 til 0,75 o/oo þegar tillit hefur verið tekið til vikmarka, sem nema 0,1 o/oo í samræmi við dómvenju. Samkvæmt þessu er hafið yfir skynsamlegan vafa að áfengismagn í blóði ákærða við aksturinn hafi verið yfir lögleyfðum mörkum og verður brot hans heimfært til 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir lögreglustjórasátt árið 1998 og hlaut dóm árið 2000 vegna brota á umferðarlögum. Þau brot hafa ekki áhrif við ákvörðun viðurlaga í þessu máli.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 35.000 króna sekt og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Með skírskotun til 101. og 102. gr. umferðarlaga verður ákærði einnig sviptur ökurétti í 4 mánuði frá sama tímamarki.   

Dæma ber ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 80.000 krónur, auk virðisaukaskatts.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Stefán Ragnar Pálsson, greiði 35.000 króna sekt í ríkissjóð og komi  8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar, hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur, auk virðisaukaskatts.