Print

Mál nr. 5/2018

Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að landsréttardómari viki sæti í máli ákæruvaldsins gegn honum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í röksemdum X fyrir kröfu sinni væri hvergi haldið fram nokkru því, sem valdið gæti eftir 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að landsréttardómarinn teldist vanhæf til að fara með málið gegn honum og bæri af þeim sökum að víkja sæti í því, heldur sneru röksemdir hans að því að ekki hefði verið farið að lögum við skipun dómarans. Hefði hann klætt álitaefnið sem hann í raun leitaði úrlausnar um ranglega í búning kröfu um að dómarinn viki sæti í málinu. Úrskurður Landsréttar sneri þannig ekki að réttu lagi að ágreiningi um það efni og gæti hann af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar samkvæmt b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 22. febrúar 2018, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn honum. Um kæruheimild vísar varnaraðili til b. liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að „Arnfríður Einarsdóttir verði talin vanhæf til þess að dæma í máli Landsréttar nr. 6/2018 og gert að víkja sæti í málinu.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Með ákæru 31. janúar 2017 höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu mál á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjaness vegna nánar tilgreindra umferðarlagabrota. Málið var þingfest 2. mars 2017 og dómtekið 16. sama mánaðar í framhaldi af því að varnaraðili játaði að hafa framið þau brot, sem greindi í ákæru. Dómur gekk síðan í héraði 23. mars 2017 og var varnaraðila þar gert að sæta fangelsi í 17 mánuði auk þess að vera sviptur ökurétti ævilangt. Varnaraðili lýsti yfir áfrýjun dómsins í tilkynningu til ríkissaksóknara 6. apríl 2017 og var áfrýjunarstefna gefin út sama dag. Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar 31. maí 2017 var þess krafist að refsing samkvæmt héraðsdómi yrði milduð, en í greinargerð ríkissaksóknara til réttarins sama dag var krafist staðfestingar dómsins. Við svo búið var málið tilbúið til flutnings fyrir Hæstarétti. Með því að málið hafði á hinn bóginn ekki verið munnlega flutt í Hæstarétti fyrir lok ársins 2017 færðist frekari meðferð þess til Landsréttar samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 4. gr. laga nr. 53/2017, og voru gögn málsins send þeim dómstóli með bréfi Hæstaréttar 2. janúar 2018.

Fyrir liggur að Landsréttur tilkynnti sakflytjendum með tölvubréfi 29. janúar 2018 að málið, sem hafi fengið auðkennið nr. 6/2018, yrði munnlega flutt þar fyrir dómi 6. febrúar sama ár, svo og að landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson myndu skipa dóm í málinu. Af þessu tilefni ritaði verjandi varnaraðila bréf til Landsréttar 2. febrúar 2018, þar sem sagði meðal annars: „Af dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017, uppkveðnum 19. desember 2017, þar sem fjallað var um skipan dómara við Landsrétt, má ráða að skipan þeirra fjögurra dómara sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um, en voru ekki í hópi þeirra fimmtán sem dómnefnd mat hæfasta, hafi ekki verið í samræmi við lög. Af nýlegri dómaframkvæmd í Evrópu er jafnframt ljóst að með vísan til þess hversu mikilvægt það er að dómarar séu sjálfstæðir og óhlutdrægir í störfum sínum verði að gera strangar kröfur til þess að lögmætri málsmeðferð sé fylgt við skipan þeirra. Sé út af því brugðið kann það að leiða til þess að sá sem var skipaður dómari telst ekki með réttu handhafi dómsvalds. Hvað varðar skipan þeirra fjögurra dómara við Landsrétt, sem voru ekki í hópi þeirra fimmtán ... sem dómnefnd mat hæfasta, er mögulegt að niðurstaða skipunarferlisins hefði orðið önnur ef tillaga ráðherra hefði verið sjálfstæð fyrir hvern og einn hinna fjögurra. Auk þess má ætla að niðurstaðan hefði getað orðið önnur hefði verið framkvæmd fullnægjandi rannsókn á hæfni einstakra umsækjenda til samræmis við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þeirri ástæðu er unnt að líta svo á að framangreindir fjórir dómarar hafi ekki verið skipaðir í samræmi við lög, en slíkt er fortakslaust skilyrði, sbr. 59. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og kann að leiða til þess að dómsúrlausnir þeirra séu ekki gildar. Fyrir liggur að Arnfríður Einarsdóttir, sem skipar dóm í máli Landsréttar nr. 6/2018, er einn ofangreindra fjögurra dómara. Með vísan til alls framangreinds telur ákærði óhjákvæmilegt að krefjast þess að hún víki sæti við dómsmeðferð í máli Landsréttar nr. 6/2018.“

Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi í Landsrétti 6. febrúar 2018 lagði verjandi varnaraðila fram skriflega samantekt á rökstuðningi fyrir þeirri kröfu sinni að „Arnfríður Einarsdóttir verði úrskurðuð vanhæf til þess að dæma í máli Landsréttar nr. 6/2018 og gert að víkja sæti í málinu“, svo sem þar var komist að orði. Í þinghaldinu var málið munnlega flutt um þetta efni og gekk síðan hinn kærði úrskurður eins og áður segir 22. sama mánaðar.

II

 Í 6. gr. laga nr. 88/2008 er að finna talningu á þeim tilvikum, þar sem dómari, hvort heldur í héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti, er vanhæfur til að fara með sakamál. Er það nánar tiltekið í fyrsta lagi ef dómari er sjálfur sakborningur, brotaþoli eða fyrirsvarsmaður annars hvors eða hann hefur gætt réttar sakbornings eða brotaþola í málinu, í öðru lagi ef dómari hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið, í þriðja lagi ef dómari tengist einhverjum áðurnefndum með því að vera eða hafa verið maki hans, skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum á einhvern þennan hátt vegna ættleiðingar, í fjórða lagi ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður, sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa og loks í fimmta lagi ef dómari hefur áður tekið til greina kröfu um að ákærði í málinu sæti gæsluvarðhaldi eftir 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Telji aðili að sakamáli eitthvert framangreindra atriða eiga við um dómara getur aðilinn krafist þess að dómarinn víki sæti í málinu, en að lögum geta þessi atriði ein og engin önnur orðið til þess að svo fari. Komi slík krafa fram tekur dómari, sitji hann í héraðsdómi eða Landsrétti, afstöðu til hennar með úrskurði, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 207. gr. laga nr. 88/2008. Lúti úrskurður að því hvort dómari við Landsrétt víki sæti er unnt að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar samkvæmt b. lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga.

Í úrskurði Landsréttar er greint frá því, sem varnaraðili tefldi fram til stuðnings fyrrnefndri kröfu sinni þar fyrir dómi, en röksemdir hans í kæru og greinargerð til Hæstaréttar eru efnislega þær sömu. Þar er hvergi haldið fram nokkru því, sem valdið gæti eftir 6. gr. laga nr. 88/2008 að landsréttardómarinn Arnfríður Einarsdóttir teldist vanhæf til að fara með mál þetta og bæri af þeim sökum að víkja sæti í því, heldur snúa röksemdir varnaraðila í hvívetna að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þessa dómara. Jafnvel þótt á það yrði fallist gæti það samkvæmt framansögðu aldrei orðið til þess að krafa varnaraðila yrði tekin til greina. Hefur hann því í málatilbúnaði sínum klætt það álitaefni, sem hann í raun leitar úrlausnar um, ranglega í búning kröfu um að dómarinn víki sæti í málinu. Úrskurður Landsréttar 22. febrúar 2018 snýr þannig ekki að réttu lagi að ágreiningi um það efni og getur hann af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar samkvæmt b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Máli þessu verður því án kröfu vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Landsréttar 22. febrúar 2018.

Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð þennan.

Dómkröfur aðila

1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar Íslands 6. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Málsgögn bárust Landsrétti 2. janúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2017. Á þessu stigi er aðeins til úrlausnar krafa ákærða um að einn dómaranna, Arnfríður Einarsdóttir, verði úrskurðuð vanhæf til að dæma í málinu og gert að víkja sæti í því.

2        Ákæruvaldið krefst þess aðallega að kröfu ákærða verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.

Málsmeðferð

3        Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði mál þetta með ákæru 31. janúar 2017. Í henni er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa mánudaginn 24. október 2016 ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi og gert að sæta fangelsi í 17 mánuði. Fyrir Landsrétti krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

4        Í þinghaldi 6. febrúar 2018 gerði ákærði þá kröfu sem hér er til úrlausnar og fór munnlegur málflutningur um hana fram í sama þinghaldi. Kröfu sína reisir ákærði á g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er um vanhæfisástæður vísað til annmarka á skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti dómara við Landsrétt 8. júní 2017 og á því byggt að ákærði hafi af þeim sökum réttmæta ástæðu til að ætla að draga megi óhlutdrægni hennar við meðferð málsins í efa.

Málsatvik

5        Hinn 10. febrúar 2017 auglýsti innanríkisráðuneytið laus til umsóknar embætti 15 dómara við Landsrétt með umsóknarfresti til 28. sama mánaðar og var Arnfríður Einarsdóttir meðal umsækjenda.

6        Dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla skilaði dómsmálaráðherra umsögn um umsækjendur 19. maí 2017. Var það niðurstaða nefndarinnar að 33 umsækjendur voru metnir hæfir en þeir 15 hæfastir sem nafngreindir voru í ályktarorði umsagnarinnar.

7        Dómsmálaráðherra afhenti forseta Alþingis 29. maí 2017 bréf með tillögum sínum um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt. Þar kom fram að ráðherra hygðist, að fengnu samþykki Alþingis, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 50/2016 um dómstóla, leggja til við forseta Íslands að nánar tilgreindir 15 einstaklingar yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt. Á meðal þeirra var Arnfríður Einarsdóttir þótt hún hefði ekki verið á lista dómnefndar yfir þá 15 hæfustu. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis gerði 31. maí 2017 tillögu til Alþingis um að þeir umsækjendur sem ráðherra hafði gert tillögu um í framangreindu bréfi yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt.

8        Alþingi afgreiddi málið 1. júní 2017 með því að tillögur dómsmálaráðherra voru bornar undir atkvæði í einu lagi og samþykktar með 31 atkvæði gegn 22 en átta þingmenn greiddu ekki atkvæði. Tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt, sem Alþingi samþykkti í atkvæðagreiðslunni, voru ásamt skipunarbréfum í framhaldinu sendar forseta Íslands.

9        Forseti Íslands undirritaði 8. júní 2017 skipunarbréf þeirra 15 dómara við Landsrétt sem dómsmálaráðherra hafði gert tillögu um og Alþingi samþykkt.

10      Tveir umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt, sem voru á lista dómnefndar en ekki á lista ráðherra sem hann gerði að tillögu sinni til Alþingis, höfðuðu hvor um sig mál á hendur íslenska ríkinu. Var þess í fyrsta lagi krafist að ógilt yrði með dómi ákvörðun dómsmálaráðherra 29. maí 2017 um að leggja ekki til að stefnendur yrðu skipaðir í stöður dómara við Landsrétt og jafnframt eða til vara að ógilt yrði sú ákvörðun að leggja til við forseta Íslands að þeir yrðu ekki meðal þeirra 15 sem skipaðir yrðu í embætti dómara við Landsrétt. Í öðru lagi að viðurkenndur yrði réttur stefnenda til skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna tjóns sem framangreindar ákvarðanir dómsmálaráðherra hefðu haft í för með sér fyrir þá. Í þriðja lagi að íslenska ríkinu yrði gert að greiða þeim miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru þeirra sem falist hafi í framangreindum ákvörðunum.

11      Með dómum sínum 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017 leysti Hæstiréttur úr viðurkenningarkröfum stefnenda um skaðabætur og kröfum þeirra um miskabætur, en með dómum 31. júlí 2017 í málum nr. 451/2017 og 452/2017 staðfesti rétturinn úrskurði héraðsdóms um að vísa ógildingarkröfum stefnenda frá dómi. Var það niðurstaða Hæstaréttar að málsmeðferð dómsmálaráðherra, í aðdraganda þess að hún tók aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið, hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiddi að annmarki væri á meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr annmörkum á málsmeðferð hennar þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þá taldi rétturinn að ráðherra hefði borið að gera sjálfstæða tillögu um sérhvern þeirra fjögurra umsækjenda sem hún lagði til að skipaðir yrðu en voru ekki í hópi þeirra 15 sem dómnefnd hafði metið hæfasta. Vegna annmarka á málsmeðferðinni ættu stefnendur rétt á miskabótum, en kröfum þeirra um skaðabætur var hafnað þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um fjártjón.

Málsástæður aðila

Málsástæður ákærða

12      Til stuðnings kröfu sinni vísar ákærði til ákvæða 59. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og tilvitnaðra dóma Hæstaréttar 19. desember 2017. Af dómunum sé ljóst að málsmeðferð við skipunina hafi ekki verið í samræmi við lög. Annars vegar sökum þess að dómsmálaráðherra hafi ekki gert sjálfstæða tillögu um skipun Arnfríðar Einarsdóttur svo sem honum hafi borið að gera samkvæmt lögum nr. 50/2016 um dómstóla. Hins vegar hafi málsmeðferð ráðherrans við mat á hæfi Arnfríðar verið ófullnægjandi og í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ráðherra með tillögu sinni um skipunina brotið gegn þeirri meginreglu í íslenskum rétti að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Skipun Arnfríðar í embætti landsréttardómara hafi samkvæmt þessu ekki uppfyllt það fortakslausa skilyrði 59. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að vera í samræmi við lög.

13      Til stuðnings kröfu sinni vísar ákærði jafnframt til ákvörðunar EFTA-dómstólsins 14. febrúar 2017 í máli nr. E-21/2016 og dóms Evrópudómstólsins 23. janúar 2018 í máli nr. T-639/16 P. Sú ályktun verði dregin af þessum dómum að sé skipun dómara ólögmæt sé hann ekki með réttu handhafi dómsvalds og dómsúrlausnir sem hann stendur að séu þá dauður bókstafur. Með vísan til framangreindra dóma Hæstaréttar verði ekki annað séð en að fyrir liggi að dómur í máli ákærða muni hljóta sömu örlög verði ekki fallist á kröfu ákærða um að Arnfríði Einarsdóttur verði gert að víkja sæti í málinu sökum vanhæfis hennar.

14      Ákærði vísar í því samhengi til þess að hann eigi skýran og ótvíræðan rétt á því að réttað sé í máli hans af hæfum, óvilhöllum og sjálfstæðum dómstóli sem skipaður sé lögum samkvæmt. Þannig sé mælt fyrir um það í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að öllum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þeir annmarkar sem séu á skipun Arnfríðar Einarsdóttur og þar af leiðandi stöðu hennar við fyrirhuguð dómstörf í máli ákærða samræmist ekki þessum réttindum hans. Ákærði heldur því fram að við mat á því hvort dómstóll uppfylli skilyrði um sjálfstæði þurfi auk annarra atriða að kanna fyrirkomulag skipunar dómara við dómstólinn og leggja mat á hvort hann hafi almennt þá ásýnd að hann sé sjálfstæður. Svo sé ekki í máli ákærða. Er í því sambandi tilgreint að dómsmálaráðherra skipi ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra og sé æðsti yfirmaður lögreglu í landinu. Þá skipi hann ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og saksóknara. Mál þetta hafi verið rannsakað af starfsmönnum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ákæra gefin út af saksóknara við það embætti. Þá sé fyrirhugað að dómur í málinu verði skipaður dómurum við Landsrétt sem dómsmálaráðherra hafi einnig skipað. Ákærði geri ekki athugasemdir við þetta fyrirkomulag svo lengi sem réttra og lögmætra aðferða sé gætt við skipun viðkomandi embættismanns eða dómara. Svo sé ekki í tilviki Arnfríðar, enda hafi dómsmálaráðherra skipað hana í embætti dómara við Landsrétt samkvæmt eigin geðþótta, þvert á tillögu dómnefndar og í trássi við lög og reglur.

15      Að því sögðu sem að framan er rakið er á því byggt af hálfu ákærða að ásýnd dómsins sé að svo stöddu þannig háttað að hann geti ekki talist sjálfstæður eða nægilega óháður. Ákærði hafi því réttmætar efasemdir um að réttindi hans samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu séu tryggð.

Málsástæður ákæruvaldsins

16      Af hálfu ákæruvaldsins er byggt á því að við skipun dómara í Landsrétt hafi verið farið að lögum, bæði að því er varðar undirbúning hennar og skipunina sjálfa. Fyrir liggi að Arnfríður Einarsdóttir uppfylli almenn hæfisskilyrði 21. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þá hafi ferlið við málsferð í aðdraganda skipunar hennar verið í samræmi við fyrirmæli laganna. Þar til bær dómnefnd hafi lagt mat á hæfni umsækjenda og ákvörðun ráðherra hafi byggst á málefnalegum og rökstuddum ástæðum um að leggja bæri meira vægi á dómarareynslu umsækjenda en dómnefndin hefði gert. Loks hafi Alþingi greitt atkvæði um tillögur ráðherra samkvæmt fyrirmælum laganna. Arnfríður hafi í kjölfarið verið skipuð dómari við Landsrétt af forseta Íslands. Af hálfu ákæruvaldsins er jafnframt bent á að í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar Íslands hafi ekki verið fjallað um gildi skipunar dómara við Landsrétt eða vanhæfi þeirra.

Niðurstaða Landsréttar

17      Ákæruvaldið hefur ekki rennt stoðum undir kröfu sína um frávísun í þessum þætti málsins og verður henni hafnað.

18      Sú krafa ákærða sem hér er til úrlausnar lýtur, svo sem fram er komið, að því að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari sé með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vanhæf til að fara með málið og beri af þeim sökum að víkja sæti í því.

19      Samkvæmt 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna, en ákvæðunum verður beitt um Landsrétt, skal dómari af sjálfsdáðum gæta að hæfi sínu til að fara með mál og leysa með úrskurði úr kröfu aðila um að hann víki sæti sökum vanhæfis, ýmist einn eða ásamt öðrum embættisdómurum í fjölskipuðum dómi.

20      Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess. Jafnframt er tilgangur þeirra sá að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans, sbr. dóma Hæstaréttar 23. febrúar 2017 í máli nr. 809/2015 og 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016. Í hæfisreglunum birtist útfærsla á þeirri skyldu löggjafans samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að setja skýrar reglur um hvenær dómari verður talinn vanhæfur í máli. Grundvallast sú skylda á skilyrði ákvæðisins um óhlutdrægan dómstól, en það felur í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, sem ásamt áskilnaði þess um óháða dómstóla er undirstaða þess að maður geti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir þeim. Sömu kröfur verða leiddar af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þar er einnig að finna ákveðna samsvörum við ákvæði 59. gr. stjórnarskrárinnar um að skipun dómsvaldsins verði eigi ákveðin nema með lögum.

21      Ákvæði g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 snýr samkvæmt orðum sínum sérstaklega að því að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómarans í efa. Við afmörkun á inntaki þessarar vanhæfisástæðu þarf að hafa í huga að hún er mjög samofin kröfunni um að dómstólar séu sjálfstæðir.

22      Samkvæmt málatilbúnaði ákærða er ekki byggt á því að persónuleg afstaða Arnfríðar Einarsdóttur til ákærða eða efnis máls sé með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hennar í efa. Hann heldur því á hinn bóginn fram að í ljósi annmarka á skipun dómara í Landsrétt samkvæmt dómum Hæstaréttar, sem áður er vísað til, hafi hann réttmæta ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni dómarans og sjálfstæði hans. Vísast um nánari grundvöll fyrir kröfunni til umfjöllunar í kafla  um málsástæður ákærða hér að framan. Af henni má þó ljóst vera að þótt dómkrafan einskorðist við vanhæfi á grundvelli hæfisreglna tekur hún mið af því að þessir annmarkar séu þess eðlis að dómarinn sé ekki með réttu handhafi dómsvalds og því ekki bær til að fara með málið.

23      Um skipun dómara í Landsrétt í júní 2017 fór eftir ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. lög nr. 10/2017. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skyldi nefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um nefndina gilda. Væri ráðherra óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd teldi ekki hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu mætti þó víkja ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna.

24      Í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins segir síðan að þegar ráðherra geri tillögu um skipun dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skuli hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skuli hann senda þær forseta Íslands sem skipi í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skuli ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2016 kom fram að í ljósi þess að skipaðir yrðu samtímis 15 dómarar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því. 

25      Svo sem fram er komið afhenti dómsmálaráðherra forseta Alþingis 29. maí 2017 bréf með tillögum um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt. Alþingi lauk meðferð sinni á málinu 1. júní 2017 með því að tillögur dómsmálaráðherra voru í einu lagi bornar undir atkvæði og samþykktar á þann hátt sem áður er getið. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu var Arnfríður Einarsdóttir skipuð af forseta Íslands 8. júní 2017 til að vera dómari við Landsrétt frá 1. janúar 2018 að telja. Skipunin er ótímabundin og henni hefur ekki verið haggað. Þá liggur fyrir að Arnfríður uppfyllir og uppfyllti við skipunina almenn hæfisskilyrði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Sem skipuðum dómara ber henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við 61. gr. stjórnarskrárinnar. Þá nýtur hún þess sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum sem ákvæðið og ákvæði VIII. kafli laga nr. 50/2016 tryggja, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipun hennar í embættið.

26      Með vísan til þess sem að framan er rakið og að virtum þeim annmörkum sem að mati Hæstaréttar voru á skipun dómara í Landsrétt og sjónarmiðum sem að öðru leyti hefur verið vísað til af hálfu ákærða í tengslum við þá, verður ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga megi hæfi Arnfríðar Einarsdóttur til að fara með málið með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Er því hafnað kröfu ákærða um að hún víki sæti í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti í málinu.