Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 11. september 2001. |
|
Nr. 317/2001. |
Alþjóða flutningaverkamannasambandið(Jónas Haraldsson hdl.) gegn New World Ship Management LLC og Clipper Cruise Line Ltd. (Jón Finnsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá Hæstarétti.
A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem lagt var fyrir sýslumann að leggja samkvæmt kröfu N og C lögbann við því að A beitti farþega á tilteknu skipi, áhöfn þess og starfsmenn hindrunum þegar það yrði við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001. Mun skipið hafa komið að morgni 7. ágúst 2001 til Reykjavíkur, þar sem lögbanni sýslumanns var framfylgt, en farið þaðan að kvöldi þess dags. Hæstiréttur taldi tilefni lögbannsins hafa gengið um garð þegar skipinu var siglt frá Reykjavík og samkvæmt því gæti A ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá lögbannið fellt úr gildi. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2001, þar sem sýslumanninum í Reykjavík var gert að leggja samkvæmt kröfu varnaraðila lögbann við því að sóknaraðili beitti farþega á skipinu Clipper Adventure, áhöfn þess og starfsmenn, sem afgreiði það, hindrunum þegar það yrði við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um lögbann verði hafnað og „lagt fyrir héraðsdómara að taka málið aftur til efnismeðferðar”, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði. Til vara krefst sóknaraðili þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn falla niður.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til þrautavara að þeir „verði sýknaðir af kröfu sóknaraðila á grundvelli aðildarskorts.“ Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kröfðust varnaraðilar þess 3. ágúst 2001 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að sóknaraðili ásamt þremur öðrum nánar tilgreindum samtökum og þremur nafngreindum mönnum létu verða af yfirvofandi hindrunum, kyrrsetningu, viðskiptabanni, uppgöngu í skip og öðrum athöfnum, sem þeir hefðu boðað að gripið yrði til, gegn varnaraðilum, sem væru útgerð og eigandi farþegaskipsins Clipper Adventure, þegar það kæmi til landsins 7. ágúst 2001. Sýslumaður tók beiðni varnaraðila fyrir samdægurs og hafnaði henni. Varnaraðilar kröfðust úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá ákvörðun sýslumanns með bréfi, sem barst dóminum 4. ágúst 2001. Af því tilefni var mál þetta þingfest fyrir héraðsdómi sama dag. Það var munnlega flutt degi síðar, en hinn kærði úrskurður kveðinn upp sem áður segir 6. ágúst 2001. Að kvöldi þess dags lagði sýslumaðurinn í Reykjavík á lögbann í samræmi við niðurstöðu úrskurðar héraðsdómara. Mun skipið síðan hafa komið að morgni 7. ágúst 2001 til Reykjavíkur, þar sem lögbanni sýslumanns var framfylgt, en farið þaðan að kvöldi þess dags.
Af því, sem að framan greinir, er ljóst að lögbann, sem kveðið var á um með hinum kærða úrskurði, var lagt á 6. ágúst 2001. Tilefni lögbannsins var um garð gengið 7. sama mánaðar þegar skipinu Clipper Adventure var siglt frá Reykjavík. Samkvæmt því getur sóknaraðili ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af því að fá lögbannið fellt úr gildi. Af þeim sökum verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra í máli þessu var bersýnilega að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Alþjóða flutningaverkamannasambandið, greiði varnaraðilum, New World Ship Management LLC og Clipper Cruise Line Ltd., hvorum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2001.
Sóknaraðilar eru New World Ship Management, LLC, 7711 Bonhomme Avenue, Suite 300, Saint Louis, Missouri í Bandaríkjunum og Clipper Adventure Ltd., Mareva House, 4 George Street, Nassau, Bahamaeyjum, en varnaraðili er Alþjóða flutningaverkamannasambandið, hér eftir nefnt ITF.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 4. ágúst sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila dagsettu 3. ágúst. Sóknaraðilar óskuðu þess að málið yrði tekið þegar til meðferðar og samþykkti varnaraðili þá málsmeðferð. Málið var tekið til úrskurðar 5. ágúst sl.
Sóknaraðilar krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, um að synja um lögbann í lögbannsmáli nr. L - 25/2001, og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við boðuðum og yfirvofandi hindrunum, kyrrsetningu, „boycott“ eða viðskiptabanni, uppgöngu í skip og athöfnum, sem hótað var af hálfu varnaraðila gegn útgerð og eiganda Clipper Adventurer og farþegum þess, en skipið er væntanlegt hingað til lands að morgni þriðjudagsins 7. ágúst 2001.
Sóknaraðilar krefjast málskostnaðar að mati dómsins og þess að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar.
Málavextir.
Eins og fram kemur nánar í lýsingu á málsástæðum aðila er skemmtiferðaskipið Clipper Adventurer væntanlegt til Reykjavíkur nk. þriðjudag, 7. ágúst. Skip þetta er rekið af sóknaraðilum máls þessa og er skráð í skipaskrá á Bahamaeyjum. Varnaraðili hefur í fjölmiðlum og í bréfum til sóknaraðila tilkynnt að gripið verði til aðgerða við komu skipsins til Reykjavíkur til að knýja útgerð skipsins til að ganga til samninga við varnaraðila um launakjör á skipinu. Kröfu um lögbann báru sóknaraðilar fram við Sýslumanninn í Reykjavík 3. ágúst og var beiðni þeirra hafnað samdægurs.
Sóknaraðilar skýra aðild sína að málinu. Þeir segja að Clipper Cruise Line sé svokallaður Beneficial Owner skipsins eða rekstraraðili þess, en raunverulegur aðili að viðskiptum sem stunduð séu undir því nafni sé sóknaraðili New World Ship Management Company. Clipper Adventure Ltd. sé skráður eigandi skipsins.
Varnaraðili sé Alþjóða flutningaverkamannasambandið (ITF), sem hafi umboðsskrifstofu að Skipholti 50d í Reykjavík. Starfsmaður þess hér á landi sé Borgþór S. Kjærnested, kt. 030943-4069.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðilar segja að Clipper Adventurer sé nú á ferð með farþega og muni hafa viðkomu hér á landi að morgni þriðjudagsins 7. ágúst 2001 og halda af landi brott að kvöldi sama dags. Varnaraðili hafi ítrekað með viðtölum í dagblöðum, vefmiðlum og sjónvarpi á undanförnum dögum og með bréfum sem send hafi verið skrifstofu sóknaraðila, hótað að ónáða farþega og starfsmenn skipsins, að kyrrsetja það og setja úr skorðum alla þjónustu við skipið. Hafi fyrirsagnir frétta borið fyrirsagnir á við „Stríð gegn sjóræningjaskipum“ og „Barátta gegn skemmtiferðaskipi“. Fram komi að fyrirsvarsmenn varnaraðila muni „kyrrsetja“ skipið á Íslandi og koma í veg fyrir að farþegar fari frá borði þegar skipið leggist að bakka í Reykjavíkurhöfn. Um mjög alvarlegar hótanir sé að ræða, sem ekki einasta beinist gegn útgerð og eigendum skipsins, heldur muni farþegum skipsins vera meinað að fara frjálsir ferða sinna. „Komist“ farþegarnir í rútur og fari í skoðunarferðir sínar, megi þeir eiga von á því að komast ekki aftur til skips á ný. Af framangreindum orsökum sjái sóknaraðili sig knúinn til að krefjast lögbanns á fyrrnefndar yfirvofandi og auglýstar athafnir.
Sóknaraðilar segja að umrætt skemmtiferðaskip muni hafa eina viðkomu á Íslandi. Það hafi verið yfirlýst stefna Sjómannafélags Reykjavíkur og ITF á Íslandi að gera tilkall til samningsréttar fyrir skipverja á þeim skipum sem sigli undir fánum annarra ríkja en Íslands og komi hingað reglulega. Skipið sem um ræði sé ekki kaupskip í vöruflutningum, sem haldi reglulegri tímaáætlun. Þvert á móti sé um að ræða farþegaskip sem geri út á siglingar víðsvegar um heiminn. Samningar við áhöfn skipsins Clipper Adventurer hafi því óveruleg áhrif fyrir íslenska farmenn og hagsmunasamtök þeirra. Columbia Ship Management Ltd. á Kýpur útvegi áhafnir á skip sóknaraðila, en sóknaraðili New World Ship Management sé formlega vinnuveitandi þeirra. Vegna ábendinga af hálfu varnaraðila á undanförnum mánuðum, hafi nefnt ráðningarfyrirtæki gengið frá launataxta, sem lagður sé til grundvallar launagreiðslum áhafnar og sé hærri, en viðmiðunartaxtar ITF. Auk þessa felist í samningum sóknaraðila ákvæði um líf- og sjúkratryggingar, lífeyrissjóðsgreiðslur, heimferðartryggingu, vinnufatnað, tryggingar til aðstandenda og aðrar félagslegar tryggingar og réttindi. Sé kostur áhafnarmeðlima hjá sóknaraðilum sambærilegur eða betri en viðmiðunarreglur ITF. Áhafnarmeðlimum sé auk þess frjálst að ganga til samninga við útgerðina og velja að hafna samningum þeirra og ráða sig til vinnu annarsstaðar. ITF eigi hvergi kröfu á því að útgerðir eða áhafnarmeðlimir gangi til samninga við samtökin og skrifi undir „kjarasamninga“ þeirra. Staða samninga þessara sé ekki önnur en sú, að um alþjóðlega viðmiðunartaxta sé að ræða, sem ekkert samnings- eða lagagildi hafi eða skuldbindingargildi. Nefndir viðmiðunartaxtar og kjör séu ekki kjarasamningar, því að ITF sé ekki formlegur viðsemjandi. Samningsfrelsi sé eitt af grundvallar réttindum einstaklinga, sem og félagafrelsi. Áhafnarmeðlimum og útgerðum eigi almennt að vera frjálst við hverja þeir semji um kost og kjör og á hvaða skilmálum. Sóknaraðilar bjóði starfsmönnum sínum góð kjör og sýni reynslan að starfsmenn þeirra kjósi að starfa lengri tíma hjá þeim. Samtökin hafi neitað að hverfa frá áætlunum sínum um aðgerðir gegn skipinu.
Sóknaraðilar segja að skipið sem um ræði sé skráð á Bahamaeyjum, með skráningarnúmer 730585 og IMO númer 7391422 og sigli undir fána þess ríkis og lúti lögum þess og reglum. Eigendur skipsins séu Clipper Adventure Ltd. á Bahamaeyjum og að það sé gert út af New World Ship Management Company, LLC í Saint Louis í Missourifylki í Bandaríkjunum. Í áhöfn séu 72 skipverjar og sé skipstjóri þýskur. Aðrir áhafnarmeðlimir séu frá ýmsum ríkjum, svo sem Írlandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi og Filippseyjum. Íslensk lög taki ekki til skipsins, því það sigli undir erlendum fána. Sóknaraðilar eigi ekki í neins konar kjaradeilu við íslensk verkalýðsfélög, né heldur við erlend verkalýðsfélög eða aðra sem gæti hagsmuna áhafnar skipsins. Engir félagsmenn íslenskra stéttarfélaga séu um borð og ITF sé ekki stéttarfélag eða viðsemjandi. Komi til þess að leysa þurfi úr ágreiningi á milli málsaðila sé vandséð hvernig úrlausnarefnið geti átt undir lögsögu íslenskra dómstóla. Varnaraðili hafi enga laga- eða samningsheimild til að knýja sig til samninga.
Sjómannafélag Reykjavíkur eða annað íslenskt verkalýðsfélag hafi ekki umboð frá áhafnarmeðlimum Clipper Adventurer til að semja um kaup þeirra og kjör. Eigi það einnig við um Alþjóða flutningaverkamannasambandið.
Sóknaraðilar vísa til laga nr. 31/1990, einkum ákvæðis 24. gr, og V. kafla laganna. Þá vísa þeir til aðfararlaga nr. 90/1989, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og loks einnig til laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur. Sóknaraðilar mótmæla því sérstaklega að undantekningarákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 komi hér til álita. Ekki sé unnt að leggja fjárhagslegan mælikvarða á það tjón, sem kunni að leiða af athöfnum varnaraðila. Reglur um skaðabætur og refsingar geti ekki tryggt skaðleysi sóknaraðila nái lögbannið ekki fram að ganga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili kveðst hafa um langt árabil barist fyrir því, að útgerðarmenn þeirra skipa, sem gerð séu út undir svokölluðum hentifánum, eins og til dæmis fána Bahama, gangist undir það að greiða áhöfnum skipa sinna svokölluð lágmarkskjör, sem ITF hafi útbúið og séu í samræmi við samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, nr. 107/1976 um lágmarkskjör farmanna, Merchant Shipping (Minimum Standard) Convention. Lögð sé á það áhersla, að gerð samninga ITF á sínum tíma um lágmarkslaun farmanna sé með samþykki alþjóðasamtaka útgerðarmanna farskipa, International Maritime Shipowners Association.
Varnaraðili hafi síðan 1999 reynt að fá útgerð farþegaskipsins Clipper Adventurer, sem sigli undir hentifána, til að gangast undir lágmarkssamninga ITF, en án árangurs.
Clipper Adventurer muni koma til Reykjavikur þriðjudaginn 7. ágúst n.k. Skipið komi frá Írlandi, en þar hafi árangurslaust verið reynt að fá útgerðina til að gangast undir lágmarkskjör ITF. Allt frá því vitað hafi verið um þessa ferð skipsins hafi verið reynt af hálfu ITF að fá útgerðina til að gangast undir lágmarkskjörin. Hafi útgerðinni verið fullljóst að gripið yrði til aðgerða í öllum viðkomuhöfnum til að freista þess að fá útgerðina til að gangast undir samning um lágmarkskjör. Þess megi geta að af 41 skemmtiferðaskipi, sem komi til Íslands á árinu 2001 hafi útgerðir allra skipanna nema Clipper Adventurer gengið frá lágmarkssamningum ITF. Ennþá þverskallist útgerð þessa eina skips við, eins og hún hafi gert í mörg ár.
Við komu skipsins til Reykjavíkur muni verða reynt að kynna farþegum stöðu kjaramála áhafnar skipsins. Þá muni þeir farþegar, sem hafi hug á að fara í skoðunarferðir með fólksflutningabifreiðum, verða hindraðir í því að komast inn í bifreiðarnar. Aðrar aðgerðir muni ekki verða hafðar í frammi. Hér verði því um friðsamleg mótmæli að ræða. Engar tilraunir verði gerðar til að kyrrsetja skipið eða setja alla þjónustu við skipið úr skorðum, eins og stefnandi haldi fram, né heldur verði gerð tilraun til þess að hindra farþega á nokkurn hátt í að stíga á land eða fara ferða sinna um Reykjavík á eigin vegum. Mótmælir varnaraðili þeim fullyrðingum sóknaraðila að hindra eigi farþega í að stíga á land, þ.e. kyrrsetja þá um borð og að þeim muni stafa hætta af fyrirhuguðum aðgerðum. Það að komast ekki í skoðunarferð kunni að valda einhverjum farþegum hugarangri, en ekki fjárhagstjóni, því það verði útgerðarinnar að endurgreiða farþegum þau útgjöld.
Varnaraðili kveðst leggja áherslu á það, að með friðsamlegum mótmælaaðgerðum sínum hér á Íslandi, hyggist hann leggja sitt af mörkunum til að útgerð Clippers Adventure tryggi áhöfn skipsins mannsæmandi laun.
Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína um að synjun Sýslumanns í Reykjavík að leggja lögbann á væntanlegar mótmælaaðgerðir sínar vegna komu skemmtiferðaskipsins Clipper Adventure til Reykjavíkur hinn 7. ágúst n.k., verði staðfest af eftirfarandi ástæðum:
Í 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fjallað um skilyrði þess að lögbann verði lagt á. Það sé gert m.a. að skilyrði í lögunum, að gerðarbeiðandi sanni að hann verði fyrir ólögmætri röskun. Í 3. mgr. 24. gr. komi fram m.a., að lögbanni verði ekki beitt, „ef talið verði að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna tryggi þá nægilega.
Varnaraðili kveðst telja í fyrsta lagi að sóknaraðilar verði ekki fyrir ólögmætri röskun vegna fyrirhugaðra mótmæla. Varnaraðili kveðst byggja þá skoðun sína á því, að þrátt fyrir að íslenskir dómstólar hafi ekki tekið á ágreiningsmáli sem þessu, þá liggi fyrir víðtækur dómapraksis á hinum Norðurlöndunum, þar sem reynt hafi á þá grundvallarspurningu, hvort Alþjóða flutningaverkamannasambandinu ITF sé lögmætt að beita sér fyrir aðgerðum eða mótmælum á Norðurlöndunum til að freista þess að fá útgerðarmann viðkomandi hentifánaskips, sem komi þar að landi, til að gangast undir lágmarkskjör ITF. Fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir séu ekki ólögmætar aðgerðir, sem sóknaraðilar geti fengið lagt við lögbann. Mótmælaaðgerðir séu réttmætar og lögmætar. Vísar varnaraðili til 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um fundarfrelsi.
Þá vísar varnaraðili til 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga 31/1990. Hagsmunir sóknaraðila séu tryggðir með þeirri vernd sem réttarreglur um refsingu og skaðabætur veiti og því sé lögbann óþarft. Sé enda augljóst, þar sem lögaðili eigi í hlut, að málið geti einvörðungu varðað fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins. Brölt sóknaraðila vegna fyrirhugaðra mótmæla sé fyrst og fremst vegna þess álitshnekkis, sem útgerð skipsins kunni að verða fyrir í augum annarra, svo sem farþega skipsins. Ekki verði lagt lögbann á í því skyni að komast hjá álitshnekki. Eina fjárhagstjón sem sóknaraðilar kunni að verða fyrir sé væntanlega endurgreiðsla skoðunarferða. Sú fjárhæð liggi ljós fyrir og geti sóknaraðilar krafið um þá fjárhæð í skaðabótamáli. Slík krafa verði ekki grundvöllur lögbanns. Undartekningarákvæði l. tl. 3. m.gr. 24. gr. eigi því við um sóknaraðila. Lögbann verði ekki lagt á af þessum ástæðum, ella væri verið að misnota þessa nauðvarnarleið sem lögbann sé. Í þessu sambandi kveðst varnaraðili árétta að með lögfestingu laga nr. 31/1990 hafi verið þrengd skilyrði þess að lögbannskrafa næði fram að ganga.
Forsendur og niðurstaða.
Engin gögn eða nánari útskýringar fylgja fullyrðingum aðila um kjör áhafnar Clipper Adventurer. Þá hefur varnaraðili ekki lagt fram eintak af samningi er hann telur sóknaraðila skylduga til að gera eða tilboði sem hann hefur gert þeim.
Varnaraðili boðar tilteknar aðgerðir sem hann virðist einkum beina að för farþega umrædds skips. Hann telur þessar aðgerðir vera réttlætanlegar sem lið í kjaradeilu sem hann eigi í við útgerð skipsins. Fram er komið að aðilar hafa ræðst við um gerð kjarasamnings, en slíkur samningur hefur að því er virðist aldrei verið gerður milli þeirra.
Umrætt skip er skráð í skipaskrá á Bahamaeyjum. Ekki hefur verið sýnt fram á að sóknaraðilum sé skylt samkvæmt lögum eða samningum að gera kjarasamning við varnaraðila f.h. áhafnar skipsins. Staðhæfa sóknaraðilar að sú skylda hvíli ekki á sér og hefur þeirri staðhæfingu ekki verið hnekkt. Varnaraðili vísar til samþykktar Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, ILO, Merchant Shipping (Minimum Standards) Convention frá 1976, sem bæði Ísland og Bahamaeyjar hafa fullgilt. Ekki hefur verið sýnt fram á brot gegn þeirri samþykkt eða að í henni felist bein skylda sóknaraðila til að gera kjarasamning við varnaraðila.
Aðgerðum þeim sem varnaraðili undirbýr er því ætlað að knýja sóknaraðila til samningagerðar sem ósannað er að þeim sé skylt að ganga til. Eru allar aðgerðir sem fela í sér hindrun á ferðum farþega eða annarra við afgreiðslu skipsins því ólögmætar. Ekki verður byggt á þeirri staðhæfingu varnaraðila að ekki verði beitt valdi. Fyrir dómi lýsti fyrirsvarsmaður varnaraðila því yfir að ætlunin væri að hindra eða að koma í veg fyrir að farþegar færu í áður skipulagðar skoðunarferðir með langferðabifreiðum. Verður slíkri hindrun augljóslega ekki komið fram nema með valdbeitingu.
Undantekningarákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 getur ekki í þessu tilviki hindrað lögbann. Lögbann fæli heldur ekki í sér óheimila takmörkun á fundafrelsi samkvæmt 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt framansögðu verður mælt svo fyrir að Sýslumaðurinn í Reykjavík skuli leggja lögbann við því að varnaraðili beiti farþega, áhöfn eða starfsmenn er afgreiða skipið hindrunum er farþegaskipið Clipper Adventurer verður við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001.
Í samræmi við þessa niðurstöðu er rétt að varnaraðili greiði sóknaraðilum sameiginlega 125.000 krónur í málskostnað. Er virðisaukaskattur innifalinn.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Að kröfu sóknaraðila, New World Ship Management Company, LLC og Clipper Adventure Ltd., skal Sýslumaðurinn í Reykjavík leggja lögbann við því að varnaraðili, Alþjóða flutningaverkamannasambandið, beiti farþega, áhöfn eða starfsmenn er afgreiða skipið hindrunum er farþegaskipið Clipper Adventurer verður við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum 125.000 krónur í málskostnað.