Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2008. |
|
Nr. 289/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til að verða við kröfu hans. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fd. [...], rúmenskum ríkisborgara, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 30. maí 2008, kl. 16.00, en til vara að henni verði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 20. júní 2008, kl. 16:00.
Kærða mótmælir kröfum sækjanda og krefst þess að þeim verði hafnað. Til vara er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglu segir að kærða hafi ásamt samferðamanni sínum og unnusta verið stöðvuð í tollhliði við reglubundið eftirlit er þau komu til landsins með flugi frá London sunnudaginn 18. maí s.l. Við leit í farangri kærðu hafi lögregla og tollgæsla fundið 60 óútfyllt kort, samskonar og greiðslukort, sem höfðu að geyma segulrönd. Hafi kortin verið vandlega falin innan um klæðnað í ferðatöskum kærðu.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Telur lögreglan rökstuddan grun til að ætla að kærðu hafi ætlað að nota þau kort sem haldlögð voru í vörslum þeirra í ólögmætum tilgangi með því að koma þeim í umferð hér á landi. Er sérstaklega vísað til þess að hinn 23. maí sl. hafi lögreglustjóra borist þær upplýsingar frá greiðslukortafyrirtækinu Borgun að það kort sem notað var við greiðslu farmiða kærðu og samferðarmanns hennar hingað til lands sé í vörslum lögmæts handhafa þess í Rúmeníu sem kannist ekkert við að hafa greitt farmiða til Íslands. Hafi samferðarmaður kærðu borið um það í skýrslutöku hjá lögreglu að faðir hans hafi greitt farmiða hans og kærðu hingað til lands en lögmætur handhafi kortsins sé kvenmaður. Telur lögreglustjóri því fram kominn rökstuddan grun fyrir því að það kort sem notað var við greiðslu miðanna hafi verið falsað. Þá hafi við rannsókn málsins komið í ljós að eitt af þeim kortum sem kærða og samferðarmaður hennar höfðu í vörslum sínum við komuna til landsins hafi verið notað af lögmætum handhafa þess hér á landi tveimur dögum áður en kærða og samferðarmaður hennar komu til landsins en það kort muni jafnframt vera enn í vörslum lögmæts handhafa þess sem mun vera bresk kona. Rökstuddur grunur sé því til að ætla að það kort sem kærða og samferðarmaður hennar höfðu undir höndum við komuna til landsins sé afrit af því korti og því falsað. Staðfest hafi verið af greiðslukortafyrirtækjum að 50 af kortum þeim sem kærða og samferðarmaður hennar höfðu undir höndum geymi greiðslukortaupplýsingar sem greiðslukortafyrirtæki hafi gefið út, all flest á Bretlandseyjum. Lögreglustjóri vísar jafnframt til meðfylgjandi gagna málsins þar sem fram komi peningafærslur, annars vegar til samferðarmanns kærðu frá manni í USA og hins vegar tvær færslur frá kærðu og samferðarmanns hennar til manns, hvora færsluna upp á 1.600,00 .
Með vísan til þessa telur lögreglustjóri að ætluð brot kærðu og samferðarmanns hennar kunni að vera mun umfangsmeiri og tengjast aðilum og skipulagðri glæpastarfsemi víða um heiminn. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferða kærðu til landsins og tengsl hennar við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis, auk annarra atriða.
Lögreglustjóri telur fram kominn rökstuddan grun til að ætla að kærða og samferðarmaður hennar hafi brotið gegn ákvæðum XVII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 155. gr., með því að afrita kort og gefa út samskonar kort með greiðslukortaupplýsingum til notkunar og gegn XXVI. kafla sömu laga, einkum 248. og 249. gr. með því að hafa notað og ætlað að nota afrituð greiðslukort til greiðslu farmiða þeirra hingað til lands og til frekari úttekta og notkunar hér á landi. Kunni ætluð háttsemi kærðu að varða fangelsisrefsingu allt að 8 árum. Lögregla telur að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16.00.
Samkvæmt gögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi kærðu, í félagi við annan, sem getur varðað allt að 8 ára fangelsisrefsingu, með því að hafa afritað greiðslukort og gefið út samskonar kort með greiðslukortaupplýsingum til notkunar, notað afrituð greiðslukort til greiðslu farmiða hingað til lands og ætlað að nota þau til frekari úttekta hér á landi.
Rannsókn málsins er enn á frumstigi. Fyrir liggur að lögreglan þarf að rannsaka hugsanleg tengsl kærðu við mögulega vitorðsmenn bæði hérlendis og erlendis. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á framburð vitna og annarra sakborninga, eða komið sönnunargögnum undan. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærðu, X, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008, kl. 16.00.