Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 29. apríl 2015. |
|
Nr. 274/2015.
|
Gljúfurbyggð ehf. (Örn Karlsson fyrirsvarsmaður) gegn Orkuveitu Reykjavíkur (Viðar Lúðvíksson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G ehf. á hendur O var vísað frá dómi. Í málinu krafðist G ehf. greiðslna samkvæmt samningi aðila um sölu G ehf. á jarðhitaréttindum til O. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt lýsing málsástæðna í stefnu væri ekki að öllu leyti skýr yrði engu að síður ráðið á hvaða málsástæðum G ehf. reisti kröfu sína og hvaða röksemdir ættu að styðja þá túlkun samkomulags aðila sem hann legði til grundvallar. Þeir hnökrar sem væru á málatilbúnaði hans hefðu ekki komið niður á vörnum O. Væri málið því ekki svo vanreifað af hálfu G ehf. að ekki yrði lagður á það dómur. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta til efnda á samkomulagi hans og varnaraðila 15. desember 2014 ,,um frágang mála varðandi réttindi landeiganda gagnvart rekstri hitaveitu er vinnur vatn í Gljúfurárholti, Austurveitu.“ Samkvæmt því skyldi varnaraðili greiða í fjórum hlutum samtals 15.800.000 krónur fyrir þau réttindi sem samkomulagið tók til, þar af skyldu tvær síðustu greiðslurnar vera háðar því að tilgreindur fjöldi íbúða eða sumarhúsa hefði tengst hitaveitunni. Var fyrri greiðslan miðuð við 80 íbúðir eða sumarhús en hin síðari 150. Varnaraðili hefur innt af hendi aðrar greiðslur samkvæmt samkomulaginu en þær sem mál þetta varðar.
Sóknaraðili telur að skilyrði þess að krefjast efnda á tveimur síðustu greiðslunum séu fyrir hendi. Í lýsingu á málsástæðum í stefnu tilgreinir hann hvaða atvik valdi því að hann telji að skilyrði séu til að krefjast efnda á greiðslunum tveimur. Hann tilgreinir jafnframt ýmis rök fyrir því hvers vegna túlka beri samkomulagið á þann hátt sem hann reisir kröfur sínar um efndir á. Þótt lýsing málsástæðna í stefnu sé ekki að öllu leyti skýr verður ráðið á hvaða málsástæðum sóknaraðili reisir kröfu sína og hvaða röksemdir eigi að styðja þá túlkun samkomulagsins sem hann leggur til grundvallar. Þeir hnökrar sem eru á málatilbúnaði hans hafi ekki komið niður á vörnum gagnaðila. Er málið því ekki svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að ekki verði lagður á það dómur. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kostnað hans af málinu fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður efnisdóms í málinu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðili, Orkuveita Reykjavíkur, greiði sóknaraðila, Gljúfurbyggð ehf., 150.000 krónur í kostnað af máli fyrir Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015.
Stefnandi máls þessa er Gljúfurbyggð ehf., Birkihvammi 18, Kópavogi, en stefndi Orkuveita Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 7.498.849 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 17. mars 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og til þrautavara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Loks er krafist málskostnaðar.
Í þessum hluta málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda.
Varnaraðili krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið.
Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 13. mars sl. og málið tekið til úrskurðar að því loknu.
I
Málsatvik eru þau helst að aðilar málsins gerðu með sér samkomulag 15. desember 2004 um sölu á harðhitaréttindum í landi Gljúfurholts í Ölfusi til sóknaraðila. Samkomulagið var gert samhliða því að sóknaraðili keypti hitaveituna Austurveitu í Ölfusi. Sú hitaveita nýtir jarðhitann í Gljúfurholti. Samkomulag aðila skiptist í sex efnisatriði og vörðuðu fjögur þeirra skyldur varnaraðila, en tvö skyldur sóknaraðila. Skyldur varnaraðila snéru að sölu á öllu vatni úr borholum í landi Gljúfurholts, að undanskyldu vatni um hemil til varnaraðila, afsali varnaraðila á heimildum landeiganda til rannsókna og vinnslu jarðhita í landi jarðarinnar til sóknaraðila, sölu varnaraðila til sóknaraðila á rannsóknum á jarðhita í landi jarðarinnar og endurgjaldslausum aðgangs- og umferðarrétti sóknaraðila að hitaveitumannvirkjum í landi jarðarinnar. Sóknaraðili tók að sér að leggja hitaveitu í alla skipulagða byggð í Gljúfurárholti, að skilyrðum uppfylltum, auk þess sem sóknaraðili skyldi greiða varnaraðila tilgreinda fjárhæð í fjórum áföngum, að skilyrðum uppfylltum. Greiðslum skyldi háttað þannig að 8.000.000 króna skyldu greiðast við staðfestingu stjórnar varnaraðila á samkomulaginu, 2.800.000 krónur við gildistöku samkomulagsins, 2.500.000 krónur þegar 80 íbúðareigendur tengdust veitunni í fyrirhugaðri byggð í Gljúfurárholti og loks 2.500.000 króna þegar alls 150 íbúðareigendur hefðu tengst veitunni í hinni nýju byggð. Ágreiningslaust er að sóknaraðili stóð við fyrstu tvær greiðslurnar. Ekki hefur komið til þess að síðastgreindu greiðslurnar tvær hafi verið greiddar og er ágreiningur um hvort skyldur samkvæmt samkomulaginu hafi verið efndar til að svo verði. Krefur varnaraðili sóknaraðila um þessar greiðslur og nemur stefnufjárhæð samanlagðir fjárhæðinni, að teknu tilliti til vísitölu neysluverðs frá dagsetningu samkomulagsins.
II
Sóknaraðili, Orkuveita Reykjavíkur, kveður varnaraðila hafa þingfest mál á hendur sóknaraðila 25. mars 2014. Það mál hafi verið höfðað vegna sama samkomulags og mál það sé sprottið af sem sé til umfjöllunar hér. Sóknaraðili hafi krafist frávísunar og varnaraðili lýst því yfir í fyrirtöku 26. maí 2014 að málið væri fellt niður. Hafi málið verið höfðað innan fyrningarfrests, skv. 22. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Hafi sóknaraðili gert ráð fyrir að málsástæður og framsetning málsins yrðu skýrð, svo ekki þyrfti á ný að koma til frávísunarkrafa af hálfu sóknaraðila. Svo hafi ekki farið og enn vísi varnaraðili í stefnu til ýmissa atvika, sem túlka megi með þeim hætti að varnaraðili telji ógildingarákvæði III. kafla laga nr. 7/1936, ekki síst 30. og 31. gr. laganna, eigi við, án þess að varnaraðili krefjist þess að samkomulag aðila teljist ógilt vegna þeirra. Verði fallist á málsástæður varnaraðila um að sóknaraðili hafi beitt afli og stærðarmun í krafti einokunar til að ná fram ósanngjörnum samningi, jafnvel með hótunum, eins og haldið sé fram í stefnu, sé óhjákvæmilegt að ógilda samninginn á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1936. Þess sé hins vegar ekki krafist, heldur að honum verði breytt svo varnaraðili fái greiðslur langt umfram skyldur sóknaraðila samkvæmt efni samningsins. Geri það málatilbúnað varnaraðila óskýran og ruglingslegan. Sóknaraðili telji að málatilbúnaður varnaraðila uppfylli ekki kröfur 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega d. og e. liði. Því beri að vísa málinu frá dómi.
Varnaraðili mótmælir því að vísa beri málinu að frá dómi. Deilt sé um ákvæði um lokagreiðslur í samkomulagi aðila frá 15. desember 2004. Varnaraðila hafi ekki verið skylt að knýja á um ógildingu samkomulagsins á grundvelli 30. og 31. gr. laga nr. 7/1936. Varnaraðili vilji virða samninginn og krefjast lokagreiðslna í samræmi við tilgang ákvæða þar um í samkomulagi aðila. Túlka beri hin umdeildu ákvæði í samræmi við tilgang þeirra. Ef ekki sé á það fallist sé til vara byggt á ákvæði 36. gr. laganna og óskráðum reglum um brostnar forsendur og rangar. Ákvæðið veiti rétt á að krefjast breytinga á samkomulaginu að hluta ef það verði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera þann hluta fyrir sig, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
III
Í máli þessu krefur varnaraðili sóknaraðila um greiðslur samkvæmt samkomulagi aðila frá 15. desember 2004, sem ber heitið ,,um frágang mála varðandi réttindi landeiganda gagnvart rekstri hitaveitu er vinnur vatn í Gljúfurárholti, Austurveitu.“ Samkvæmt ákvæði 6 í nefndu samkomulagi skyldu 2.500.000 króna greiðast er alls 80 íbúðir og/eða sumarhús í landi Gljúfurárholts hafi verið tengd hitaveitunni og samkomulagið tekið gildi og síðan aðrar 2.500.000 króna er alls 150 íbúðir og/eða sumarhús hefðu verið tengd hitaveitunni. Nemur stefnufjárhæð samanlagðri fjárhæðinni, að teknu tilliti til breytingum á vísitölu neysluverðs.
Varnaraðili krefur sóknaraðila um peningagreiðslu á grundvelli lögverndaðra kröfuréttinda sinna í tvíhliða kröfuréttarsambandi. Í stefnu í málinu rökstyður varnaraðili hins vegar dómkröfur sínar út frá sjónarmiðum er búa að baki III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 30. og 31. gr. laganna, auk 36. gr. laganna, er öll snúa að ógildingu löggerninga. Varnaraðili getur ekki í einu og sama máli haft uppi dómkröfur um efndir á grundvelli samningsskyldu um greiðslu peninga, í aðra röndina, og á hina gert kröfu um að samningurinn verði ógiltur, vikið til hliðar eða honum breytt. Á þann hátt stangast kröfugerð varnaraðila á við málsástæður að baki kröfunni. Er málið vanreifað að þessu leyti til og verður því vísað frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði varnaraðili sóknaraðila málskostnað svo sem í úrskurðarorði er mælt fyrir um.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Varnaraðili, Gljúfurbyggð ehf., greiði sóknaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur, 200.000 krónur í málskostnað.