Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2001


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Ökuhraði
  • Svipting ökuréttar
  • Sekt


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. maí 2001.

Nr. 47/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Ágústi Heimi Ásgeirssyni

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Bifreiðir. Umferðarlög. Ökuhraði. Svipting ökuréttar. Sekt.

Á var ákærður fyrir að hafa ekið vestur Seljabraut í Reykjavík á 72 km hraða á klukkustund en þar var leyfilegur hámarkshraði 30 km á klukkustund. Á krafðist sýknu og reisti kröfu sína á að umferðarmerki, sem sýndi 30 km hámarkshraða, hefði ekki sést þaðan sem hann ók. Var á það fallist og miðað við hið almenna ákvæði 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga um 50 km hámarkshraða á klukkustund í þéttbýli. Var engu talið breyta að ákvörðun um 30 km hámarkshraða hafði verið birt með opinberri auglýsingu, enda kvæði 4. mgr. 81. gr. umferðarlaga skýrt á um að slíkar ákvarðanir skyldu kynntar með umferðarmerkjum. Í því ljósi varð ekki talið að akstur Á hefði verið mjög vítaverður og voru því ekki talin skilyrði til að svipta hann ökurétti samkvæmt 101. gr. umferðarlaga. Var honum gerð fésekt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sviptur ökurétti, en að öðru leyti verði héraðsdómur staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti. Kemur sýknukrafa hans ekki til álita nema að því marki sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

Atvik málsins eru þau að ákærði ók bifreiðinni MK 983 vestur Seljabraut í Reykjavík árdegis föstudaginn 2. júní 2000. Mældi lögregla ökuhraða bifreiðarinnar þar klukkan 10.16 með ratsjá, sem sýndi 75 km á klukkustund. Ákærði var samdægurs sviptur ökurétti til bráðabirgða í þrjá mánuði. Ákærða var með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 9. júní 2000 boðið að ljúka málinu með sátt en sinnti því ekki. Ákærði sótti ekki þing í héraði og var málið dæmt að honum fjarstöddum samkvæmt 1. mgr 126. gr. laga nr. 19/1991. Ákærða er gefið að sök að hafa í umrætt sinn ekið með 72 km hraða á klukkustund að teknu tilliti til vikmarka á vegarkafla þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klukkustund. Ákærði reisir sýknukröfu sína á því að ákvörðun um 30 km hámarkshraða á klukkustund á umræddum vegarkafla hafi ekki verið kynnt á fullnægjandi hátt. Hafi hann í umrætt sinn verið á leið vestur Seljabraut. Sé umferðarmerki, sem gefur til kynna 30 km hámarkshraða á klukkustund á þessum hluta Seljabrautar þannig staðsett við gatnamót Jaðarsels að ókleift sé fyrir vegfarendur, er aka suður Jaðarsel og beygja til vesturs inn Seljabraut, að sjá merkið.

Dómendur í málinu hafa gengið á vettvang ásamt ríkissaksóknara og skipuðum verjanda ákærða.

 Á gatnamótum Jaðarsels og Seljabrautar er eitt umferðarmerki, sem gefur til kynna að 30 km hámarkshraði á klukkustund sé á Seljabraut. Er merkið á gatnamótunum norðan Seljabrautar, fast við Jaðarsel, og á hægri hönd þeirra, sem aka inn á Seljabraut. Snýr merkið til norðausturs og blasir því við þeim sem koma úr norðri eftir Jaðarseli frá Breiðholtsbraut. Sé hins vegar komið úr suðri, er framhlið merkisins ekki sýnileg vegfarendum. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar upplýsingar frá gatnamálastjóranum í Reykjavík um að merki varðandi 30 km hámarkshraða á Seljabraut hafi verið sett upp við báða enda þess vegarkafla, sem hraðatakmörkuninni var ætlað að gilda á, 10. nóvember 1999 og hafi þau staðið þar óbreytt síðan.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr umferðarlaga nr. 50/1987 má ökuhraði í þéttbýli ekki vera meiri en 50 km á klukkustund. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar má ákveða lægri hraðamörk þar sem æskilegt þykir til öryggis eða af öðrum ástæðum. Er sú ákvörðun í höndum lögreglustjóra að fengnum tillögum sveitarstjórnar samkvæmt 3. mgr 81. gr umferðarlaga og skal samkvæmt 4. mgr. hennar gefa ákvarðanir samkvæmt greininni til kynna með umferðarmerkjum, nema lögreglan stjórni umferðinni. Ákvörðun varðandi stöðvun eða lagningu ökutækja, sem ekki er bundin við ákveðinn vegarkafla, má þó þess í stað birta með opinberri auglýsingu. Í 84. gr. laganna er dómsmálaráðherra falið að setja reglur meðal annars um gerð og notkun umferðarmerkja. Það hefur ráðherra gert með reglugerð nr. 289/1995 með síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar skulu umferðarmerki sett þannig að þau sjáist greinilega. Ákvörðun um að hámarkshraði verði 30 km á klukkustund á Seljabraut milli Jaðarsels og Engjasels frá 10. nóvember 1999 var tekin af lögreglustjóranum í Reykjavík með auglýsingu 25. október þess árs, er birtist í Lögbirtingablaði 10. nóvember 1999.

 Eins og að framan er rakið er merki því, sem gefur til kynna 30 km hámarkshraða á Seljabraut, komið þannig fyrir við austurenda götunnar að það dylst vegfarendum, sem sveigja inn á götuna úr suðri. Hefur ákvörðun um sérstakan hámarkshraða því ekki verið kynnt þeim, er þá leið aka, með fullnægjandi hætti, sbr. 4. mgr 81. gr. umferðarlaga og 19. gr. reglugerðar nr. 289/1995. Verður henni því ekki beitt gagnvart þeim. Breytir engu í þeim efnum að ákvörðunin var birt með opinberri auglýsingu svo sem að framan er rakið, enda kveður 4. mgr. 81. gr. umferðarlaga skýrt á um að slíkar ákvarðanir skuli kynntar með umferðarmerkjum. Ákærði ók vestur Seljabraut í umrætt sinn en ekki nýtur gagna í málinu hvaðan hann ók inn á þá götu. Verður vafi um það skýrður ákærða í hag. Verður samkvæmt því að miða við að hið almenna ákvæði 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga um 50 km hámarkshraða á klukkustund í þéttbýli hafi átt við um akstur ákærða. Með vísan til forsendna héraðsdóms telst sannað að ákærði hafi í umrætt sinn ekið á þeim hraða, sem í ákæru greinir. Verður hann því sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 37. gr umferðarlaga. Á þeim hluta Seljabrautar, sem hér um ræðir, háttar svo til að íbúðarhús standa öðrum megin götunnar og vita inngangar sumra þeirra að götunni. Þá er verslunarhús við götuna, biðstöð strætisvagna beggja vegna hennar og gönguleiðir yfir hana.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 8000 króna sekt, sem greiðist í ríkissjóð, og komi fangelsi í tvo daga í hennar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Í ljósi þess, sem að framan greinir um beitingu 4. mgr. 37. gr. umferðarlaga, verður ekki talið að akstur ákærða í umrætt sinn hafi verið mjög vítaverður og eru því ekki skilyrði fyrir hendi til að svipta hann ökurétti samkvæmt 101. gr. sömu laga. 

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ágúst Heimir Ásgeirsson, greiði 8000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í tvo daga.

Sakarkostnaður í héraði og allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2000.

I.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 5. september 2000 á hendur ákærða, Ágústi Heimi Ásgeirssyni, kt. 250978-5459, Engjaseli 86, Reykjavík “fyrir umferðarlagabrot með því að hafa föstudaginn 2. júní 2000, ekið bifreiðinni MK-983 með 72 km hraða á klst. vestur Seljabraut í Reykjavík, á vegarkafla að Engjaseli, þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klst.

Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 55/1993.”

Ákærði kom ekki fyrir dóm þegar málið var þingfest þrátt fyrir löglega birt fyrirkall.  Í fyrirkalli var þess getið að fjarvist ákærða kynni að verða metin til jafns við viðurkenningu hans og að dómur gengi um málið þótt hann sækti ekki þing, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um umferðarlagabrot það, sem greinir í ákæru.

Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði hefur fjórum sinnum á árunum 1996 til 1999 gengist undir sátt vegna brota á umferðarlögum.  Á árinu 1996 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna ölvunaraksturs og var hann jafnframt sviptur ökurétti í 12 mánuði.  Árið 1997 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna aksturs án ökuréttar.  Árið 1998 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna hraðaksturs og brots gegn 48. gr. umferðarlaga.  Þá gekkst ákærði í janúar 1999 undir greiðslu sektar vegna hraðaksturs og var sviptur ökurétti í 3 mánuði frá 12. janúar 1999 að telja.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 30.000 króna sekt, sem greiðist í ríkissjóð, og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Er ákærði var stöðvaður í umrætt sinn var sólskin og yfirborð vegar malbikað; slétt og þurrt.  Ekki verður talið að akstur ákærða, eins og hér stóð á, hafi verið mjög vítaverður.  Þykja því ekki fyrir hendi skilyrði til að svipta ákærðu ökurétti samkvæmt 101. gr. umferðarlaga.  Ber því að hafna kröfu ákæruvaldsins um sviptingu ökuréttar.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.

Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Ágúst Heimir Ásgeirsson, greiði 30.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.