Hæstiréttur íslands

Mál nr. 497/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit


           

Fimmtudaginn 13. janúar 2000.

Nr. 497/1999.

Lánasýsla ríkisins

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

(Baldur Guðlaugsson hrl.)

             

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

Fallist var á þá kröfu stefnda í einkamáli að óskað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um hvort tiltekin atriði í íslenskri löggjöf stæðust ákvæði samningsins um hið Evrópska efnahgassvæði. Á hinn bóginn var talið að þær spurningar sem héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits um, hlytu að taka mið hlutverkaskiptingu milli þess dómstóls og íslenskra dómstóla. Því var það ekki talið hafa þýðingu fyrir efni málsins að spyrja EFTA-dómstólinn um þau atriði málsins sem féllu utan túlkunar samningsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 1999, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á nánar tilgreindum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem haldið er fram að tengist málarekstri aðilanna fyrir héraðsdómi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

                                      I.

Í máli þessu krefur sóknaraðili varnaraðila um svonefnt ríkisábyrgðargjald. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 37/1961 um ríkisábyrgðir, svo sem henni var breytt með lögum nr. 65/1988, skyldu bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar, sem lögum samkvæmt nytu ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún byggðist á eignaraðild ríkissjóðs eða öðru, greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs af skuldbindingum sínum gagnvart erlendum aðilum. Ábyrgðargjald þetta skyldi greiða ársfjórðungslega og nam það 0,0625% af höfuðstóli gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann var að meðaltali á hverju gjaldtímabili. Ný lög um ríkisábyrgðir nr. 121/1997 tóku gildi 1. janúar 1998. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skyldi ábyrgðargjaldið eftir sem áður nema 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstóli gjaldskyldra erlendra skuldbindinga en einnig var heimilað að taka 0,0375% ábyrgðargjald á ársfjórðungi af höfðuðstóli gjaldskyldra innlendra skuldbindinga. Var gerð breyting á frumvarpi að lögum þessum í meðförum Alþingis, en samkvæmt frumvarpinu eins og það var lagt fram skyldi ábyrgðargjald nema 0,0625% af öllum gjaldskyldum skuldbindingum, erlendum sem innlendum.

II.

Sá ágreiningur aðila sem hér skiptir máli varðar þá málsástæðu varnaraðila að óheimilt sé samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum), en meginmál hans hefur lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, að gera lántakendum sem njóta ríkisábyrgðar að greiða hærra ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum gagnvart lánveitendum á Evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands heldur en af skuldbindingum við innlenda aðila. Vísar hann í því sambandi til 4. gr.,  40. gr.,  1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 61. gr. samningsins.

Fallast ber á það með héraðsdómi að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um þetta atriði geti orðið til þess að varpa skýrara ljósi á ágreiningsefni aðila og geti haft þýðingu fyrir úrslit málsins eins og það hefur verið lagt fyrir héraðsdóm. Spurningar þær sem héraðsdómur leggur fyrir EFTA-dómstólinn hljóta þó að taka mið af hlutverkaskiptingu milli þess dómstóls og íslenskra dómstóla. Það leiðir af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, að hlutverk EFTA-dómstólsins er að skýra EES-samninginn. Íslenskir dómstólar fara hins vegar með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum. Að þessu virtu verður ekki litið svo á að það hafi þýðingu fyrir úrslit málsins að spurningar í liðum 2 og 3 verði bornar upp við EFTA-dómstólinn. Staðfesta ber aftur á móti að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim atriðum sem getið er um í lið 1 í niðurstöðu héraðsdóms  á þann veg sem nánar greinir í dómsorði.

Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Leita ber ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

Er það samrýmanlegt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 4., 40., 42. og 61. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um:

a.                         Að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum samningsins en ekki af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum?

b.                        Að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða hærra ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum samningsins en af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum?

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 1999.

Í máli þessu hefur stefndi krafist þess með vísan til laga nr. 21/1994 að héraðsdómur leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins en þeirri kröfu hefur verið mótmælt af hálfu stefnanda.

Vafi þykir leika á um hvort það samrýmist ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 4., 40., 42. og 61. gr., að gildandi lög um ríkisábyrgðir nr. 121/1997 kveði á um að aðilum, sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs, skuli gert að greiða hærra ábyrgðargjald af erlendum skuldbindingum en innlendum og eins hvort það hafi samrýmist EES-rétti að í eldri lögum um ríkisábyrgðir nr. 37/1961, sbr. lög nr. 65/1988, var kveðið á um að greiða skyldi ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum gagnvart erlendum aðilum en ekki af skuldbindingum gagnvart innlendum aðilum. Ennfremur þykir leika vafi á því hvort og þá hvernig stefndi geti byggt rétt á umræddum reglum EES-réttar í máli þessu.

Þar sem ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins þykir til þess fallið að varpa skýrara ljósi á ágreiningsefni þau sem uppi eru í málinu og niðurstöður þess þykja geta haft verulega þýðingu fyrir úrslit málsins, eins og það hefur verið lagt fyrir dóminn, þykir rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem í úrskurðarorði greinir.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Leita ber ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

Er það samrýmanlegt EES-rétti, einkum 4., 40., 42. og  61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé kveðið á um

a.að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en ekki af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum ?

b.að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða hærra ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum ?

2.Ef svarið við 1. spurningu er það að umræddar lagareglur séu ekki samrýmanlegar EES-rétti, getur þá lántakandi sem á heimili í ríki sem aðild á að samningnum og gert er að greiða hærra ríkisábyrgðargjald af lánum teknum í öðrum aðildarríkjum samningsins en af innlendum lánum, byggt rétt á umræddum reglum EES-réttar.

Hafa 4., 40., 42., eða 61. gr. EES-samningsins eða aðrar reglur sem falla undir samninginn þýðingu við mat á því hverjir teljist innlendir eða eftir atvikum erlendir aðilar ?