Hæstiréttur íslands
Mál nr. 15/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Stjórnvaldsákvörðun
- Kæra
|
|
Miðvikudaginn 3. febrúar 2010. |
|
Nr. 15/2010. |
Sérstakur saksóknari (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Stjórnvaldsákvörðun. Kæra.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum hans yrði lýst ólögmæt og felld niður. Sérstakur saksóknari hóf rannsóknina í kjölfar kæru FME, en FME hafði áður tilkynnt X að athugun á máli hans yrði hætt. Talið var að heimilt hafi verið að binda ákvörðun FME um að hætta athugun á málinu þeim fyrirvara að athugun yrði fram haldið ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram í málinu, enda hafi sá fyrirvari verið í eðlilegu samræmi við ákvörðunina og það markmið með athuguninni að upplýsa málið til hlítar. X hafi því ekki með réttu getað haft væntingar um að þar með væri málinu endanlega lokið. Talið var að mat FME um að ný gögn og upplýsingar skyldu leiða til frekari athugunar yrði ekki vefengt. Þá var talið að þótt vera kynni að málsmeðferð fyrir stjórnvöldum og eftirfarandi ákvörðun á stjórnsýslustigi um niðurfellingu máls gæti fallið undir ákvæði 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, yrði samkvæmt framansögðu ekki talið að bréf FME um niðurfellingu málsins teldist ígildi lokaafgreiðslu máls í merkingu ákvæðisins. Kæra FME hafi þegar af þeirri ástæðu ekki falið í sér brot gegn banni við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. janúar 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. til 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum hans í september 2008 yrði lýst ólögmæt og hún felld niður. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum hans verði lýst ólögmæt og felld niður. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði varðar mál þetta ágreining um lögmæti rannsóknaraðgerða og er lagt fyrir dóm með heimild í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008.
Fjármálaeftirlitið hóf haustið 2008 athugun á sölu varnaraðila á hlutum sínum í Landsbanka Íslands hf., 4.696.791 hlut 17. september 2008 og 4.363.018 hlutum daginn eftir. Athugunin mun einkum hafa beinst að því hvort varnaraðili hafi búið yfir innherjaupplýsingum er nefnd viðskipti áttu sér stað, sbr. 120. gr., 121. gr. og 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti vegna starfa sinna sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis og sem nefndarmaður í sérstökum samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Vegna þessarar athugunar áttu sér stað bréfaskipti milli Fjármálaeftirlitsins og varnaraðila frá 11. nóvember 2008 til 7. maí 2009, en þá ritaði Fjármálaeftirlitið varnaraðila bréf þar sem segir meðal annars: „Fjármálaeftirlitið hefur farið yfir þær upplýsingar og gögn sem fram hafa komið í málinu með hliðsjón af þeim ástæðum sem þér hafið veitt varðandi tímasetningu viðskipta yðar m.t.t. þess hvort þér hafið mögulega búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma, sbr. 120., 121. og 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum sem aflað hefur verið vegna málsins telur Fjármálaeftirlitið að fullnægjandi skýringar og gögn hafi komið fram til stuðnings fullyrðinga yðar um að þér hafið ekki búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma. Fjármálaeftirlitið telur því ekki tilefni til frekari athugunar á máli þessu. Fjármálaeftirlitið áskilur sér þó þann rétt að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar koma fram er varða mál þetta.“
Fjármálaeftirlitið sendi varnaraðila bréf 9. júlí 2009 þar sem vísað var í áðurgreindan fyrirvara um lok athugunar en síðan segir í niðurlagi þess: „Með vísan til framangreinds tilkynnist yður hér með að Fjármálaeftirlitið hefur hafið aftur athugun máls yðar þar sem nýjar upplýsingar komu fram í málinu. Á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem fram komu ákvað Fjármálaeftirlitið þann 8. júlí sl. að vísa máli yðar til embættis sérstaks saksóknara, sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008. Samkvæmt 3. mgr. 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 gilda ákvæði IV.VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.“ Málið var sent sama dag til embættis sérstaks saksóknara. Varnaraðili andmælti þessari ákvörðun með bréfum til Fjármálaeftirlitsins 21. júlí og 25. september 2009. Hann var boðaður til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara er fór fram 11. nóvember 2009. Við upphaf skýrslutöku lagði varnaraðili fram bókun með andmælum við rannsókninni. Varnaraðili ítrekaði andmæli sín bréflega daginn eftir og var þeim hafnað. Varnaraðili sendi héraðsdómi kröfu sína 19. nóvember 2009.
II
Kröfum aðila og röksemdum fyrir þeim er nægilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar er rakið reisir varnaraðili kröfu sína einkum á því að athugun á háttsemi hans hafi lokið með endanlegri stjórnvaldsákvörðun samkvæmt framangreindu bréfi 7. maí 2009. Ekki hafi verið lögmætt að binda þá ákvörðun fyrirvara og hafi varnaraðili haft réttmætar væntingar um að niðurstaðan væri endanleg. Með síðari athugun Fjármálaeftirlitsins og kæru í kjölfar hennar hafi ennfremur verið brotið gegn banni við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt 133. gr. laga nr. 108/2007 hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með framkvæmd laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Fer nánar um það eftir XIV. og XV. kafla laganna og lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt 141. gr. laga nr. 108/2007 hefur Fjármálaeftirlitið heimildir til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn tilgreindum ákvæðum laganna. Er þar meðal annars getið 123. gr., en Fjármálaeftirlitið vísaði til þess ákvæðis í bréfum sínum til varnaraðila um ætluð brot hans. Í 148. gr. er að finna ákvæði um verklag við rannsókn mála þar sem ætluð brot varða bæði stjórnvaldssektum og refsiviðurlögum og um samskipti milli Fjármálaeftirlitsins, lögreglu og ákæruvalds. Þar kemur fram í 1. mgr. sú sérregla að brot gegn lögunum sæti aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins. Þá segir í 2. mgr. að varði ætlað brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot er meiri háttar beri Fjármálaeftirlitinu að vísa máli til lögreglu. Brot teljist meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Fjármálaeftirlitið geti á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu.
Samkvæmt lögum nr. 135/2008 taka rannsóknar- og ákæruheimildir embættis sérstaks saksóknara meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð hafa verið af Fjármálaeftirlitinu og vísað hefur verið til lögreglu. Er ætlað brot varnaraðila sem til rannsóknar er á valdsviði embættisins, sbr. 1. gr. laganna.
Í 3. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007 er tekið fram að ákvæði IV.VII. kafla stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 108/2007 kemur fram sá skilningur að slík ákvörðun teljist ekki til stjórnvaldsákvörðunar. Í framangreindum köflum stjórnsýslulaga er meðal annars að finna ákvæði um andmælarétt, birtingu stjórnvaldsákvörðunar og rökstuðning fyrir henni, um skilyrði til breytingar og afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar og um stjórnsýslukæru.
III
Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. maí 2009 um að hætta athugun á ætluðum brotum varnaraðila var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Hana var heimilt að binda þeim fyrirvara að athugun yrði fram haldið ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram í málinu, enda var sá fyrirvari í eðlilegu samræmi við ákvörðunina og það markmið með athuguninni að upplýsa málið til hlítar. Varnaraðila var kunngerð ákvörðunin í bréfi sama dag. Hann gat samkvæmt þessu ekki með réttu haft væntingar um að þar með væri málinu endanlega lokið. Verður því ekki fallist á röksemdir um að réttmætar væntingar hans standi í vegi fyrir framangreindri ákvörðun.
Ákvörðun Fjármálaeftirlitins um framhald málsins var á því reist að ný gögn og upplýsingar hefðu komið fram. Nokkur grein er gerð fyrir þessu í hinum kærða úrskurði og nánar í bréfi Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí 2009. Verður mat Fjármálaeftirlitins um að hin nýju gögn og upplýsingar skyldu leiða til frekari athugunar og eftirfarandi kæru ekki vefengt.
Þótt vera kunni að málsmeðferð fyrir stjórnvöldum og eftirfarandi ákvörðun á stjórnsýslustigi um niðurfellingu máls geti fallið undir ákvæði 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, verður samkvæmt framansögðu ekki talið að bréf Fjármálaeftirlitsins 7. maí 2009 teljist ígildi lokaafgreiðslu máls í merkingu ákvæðisins. Kæra Fjármálaeftirlitsins fól þegar af þeirri ástæðu ekki í sér brot gegn banni við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010.
Með kröfu 19. nóvember 2009, sem barst Héraðsdómi sama dag, krafðist sóknaraðili, X, kt. [...],[...] þess að rannsókn sérstaks saksóknara, á meintum innherjasvikum hans í september 2008, verði lýst ólögmæt og að hún verði felld niður. Þá er þess krafist að ríkissjóður greiði allan málskostnað vegna rannsóknar málsins og kostnað vegna kröfu þessarar.
Af hálfu sérstaks saksóknara er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Krafan var tekin til úrskurðar að loknum flutningi 15. desember 2009.
Málavextir
Málavextir eru þeir að haustið 2008 hóf Fjármálaeftirlitið (FME) athugun á nánar tilgreindum viðskiptum sóknaraðila með hluti í Landsbanka Íslands hf. Um var að ræða sölu hans á 4.696.791 hlut í bankanum hinn 17. september 2008 og á 4.363.018 hlutum hinn 18. september 2008, eða 9.059.809 hlutir fyrir samtals 192.658.716 krónur. Athugunin beindist að því hvort sóknaraðili hefði yfir að ráða innherjaupplýsingum í skilningi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, þegar viðskiptin áttu sér stað, einkum vegna starfa hans sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og nefndarmaður í sérstökum samráðshópi forsætis-ráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað.
Athugun Fjármálaeftirlitsins fór fram skriflega, en í málinu liggja fyrir ítarleg bréfaskipti sóknaraðila og Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu frá 11. nóvember 2008 til 28. apríl 2009. Bréfin fólu annars vegar í sér óskir Fjármálaeftirlitsins um upplýsingar, gögn og skýringar og hins vegar svör sóknaraðila við þeim óskum.
Þeirri athugun lauk með bréfi Fjármálaeftirlitsins til sóknaraðila, dags. 7. maí 2009, þegar sóknaraðila var tilkynnt að Fjármálaeftirlitið teldi ekki tilefni til frekari athugunar á málinu. Jafnframt að Fjármálaeftirlitið áskildi sér þó rétt til að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram er vörðuðu málið.
Um tveimur mánuðum síðar, eða þann 9. júlí 2009, sendi Fjármálaeftirlitið sóknaraðila bréf og tilkynnti honum að Fjármálaeftirlitið hefði hafið athugun málsins á ný, þar sem nýjar upplýsingar hefðu komið fram. Honum var jafnframt tilkynnt að Fjármálaeftirlitið hefði vísað málinu til embættis sérstaks saksóknara. Það gerði Fjármálaeftirlitið sama dag. Endurupptöku málsins mótmælti sóknaraðili með bréfi, dags. 21. júlí 2009, og krafðist að þessar ákvarðanir yrðu afturkallaðar. Að fenginni synjun á þeirri beiðni ítrekaði hann mótmæli sín með bréfi 25. september 2009.
Sóknaraðili gaf munnlega skýrslu hjá sérstökum saksóknara þann 11. nóvember 2009. Af hans hálfu voru enn ítrekuð mótmæli og þess krafist að rannsókn málsins yrði hætt og hún felld niður. Með bréfi sérstaks saksóknara, sem barst sóknaraðila 18. nóvember, var honum tilkynnt að ekki væri fallist á kröfuna og rannsókn málsins yrði haldið áfram.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili kveðst setja kröfu sína fram á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann vísar í fordæmi Hæstaréttar Íslands (hrd. 248/2006 og hrd. 661/2006) um að ótvírætt sé að ágreiningur um lögmæti rannsóknar verði borinn undir dómstóla með þessum hætti.
Sóknaraðili kveðst telja að málsmeðferð og efnislegur grundvöllur ákvarðana Fjármálaeftirlitsins að því er varðar endurupptöku málsins og kæru til sérstaks saksóknara hafi verið ólögmætur. Þetta leiði til þess að sérstökum saksóknara beri að hætta rannsókn málsins og fella það niður. Sóknaraðili kveður að sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að kæra sig til sérstaks saksóknara geti ekki talist gild stjórnvaldsákvörðun, enda sæti brot gegn lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni gildri kæru Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007.
Sóknaraðili telur að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að afturkalla eða endurupptaka ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að hætta rannsókn málsins. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvörðun. Almennir fyrirvarar í tilkynningu ákvörðunar um hugsanlega endurupptöku breyti þar engu, enda telur sóknaraðili slíka fyrirvara ekki eiga stoð í lögum. Um það vísar hann til 1. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til að breyta megi stjórnvaldsákvörðun sem þegar hefur verið tekin verði skilyrðum 24. og/eða 25. gr. laganna að vera fullnægt. Hann bendir á að samkvæmt 24. gr. geti aðili máls átt rétt á að fá mál endurupptekið en það sama gildi ekki um stjórnvald. Þá sé í 25. gr. fjallað um heimild stjórnvalds til afturköllunar ákvörðunar en grundvallarskilyrði þess sé að slík afturköllun verði aðila ekki til tjóns og að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sé stjórnvaldi einungis heimilt að afturkalla ákvörðun sína í þeim tilvikum að hún teljist ógildanleg. Sóknaraðili telur enga þá annmarka á stjórnvaldsákvörðuninni að hún geti talist ógildanleg og því séu ekki lagaskilyrði fyrir hendi til að afturkalla hana og hefja rannsókn að nýju.
Sóknaraðili kveður Fjármálaeftirlitið enn fremur hafa brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og sjónarmiðum um réttmætar væntingar borgarans. Stjórnvaldi beri að rannsaka með fullnægjandi hætti alla þætti mála, annast viðhlítandi gagnaöflun, spyrja markvissra spurninga og ganga úr skugga um nákvæmni svara eftir því sem unnt er. Fjármálaeftirlitið hafi notað 6 mánuði til rannsóknarinnar og haft öll úrræði til að rannsaka málið með fullnægjandi hætti. Það sé óeðlilegt að unnt sé að taka mál upp að nýju vegna þess að rannsókn hafi áður verið ábótavant.
Sóknaraðili heldur því jafnframt fram að sjónarmið um réttmætar væntingar hafi þýðingu í þessu máli. Borgararnir eigi almennt að geta treyst því að mál sem eru íþyngjandi verði ekki tekin upp aftur nema í alveg sérstökum undantekningartilvikum. Það eigi hins vegar ekki við í þessu máli. Þvert á móti hafi sóknaraðili legið undir árásum og ásökunum á opinberum vettvangi allt frá hausti 2008 um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar er hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands. Í ljósi þessa hafi mátt gera enn ríkari kröfur til Fjármálaeftirlitsins um að athugun þess væri tæmandi og ákvörðun endanleg og að sama skapi hafi hann haft ríka ástæðu til að líta svo á að málinu væri lokið.
Sóknaraðili kveður ákvæði 1. mgr. 4. gr. viðauka 7 við mannréttindasáttmála Evrópu hafa þýðingu í þessu sambandi. Þar sé mælt fyrir um bann við því að menn séu saksóttir eða þeim refsað tvívegis. Hann telur það fara í bága við grunnrök þess ákvæðis að hefja rannsókn hjá saksóknara á máli sem lokið hefur verið með formlegum hætti hjá Fjármálaeftirlitinu í skilningi 1. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007.
Í munnlegum málflutningi lagði sóknaraðili megináhersluna á þessa málsástæðu. Hann kvaðst telja að hann hafi í raun verið sýknaður með niðurfellingu rannsóknar í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Hann vitnaði til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 15. desember 2004 í máli Nikitin gegn Rússlandi. Þar hefði verið kveðið á um að í þeim undantekningartilvikum sem 2. mgr. 4. gr. 7. viðauka tæki til, gæti einstaklingur þurft að sæta ákæru fyrir sömu sakir og áður hefði verið réttað um, ef ný gögn hefðu komið í ljós og fyrir hendi væri lagaheimild viðkomandi ríkis þar að lútandi. Lagði sóknaraðili áherslu á að sjálfstæðri lagaheimild til endurupptöku væri ekki fyrir að fara í 148. gr. verðbréfalaganna.
Sóknaraðili leggur jafnframt áherslu á að það réttlæti ekki endurupptöku málsins að Fjármálaeftirlitið skyldi setja fyrirvara í bréf sitt, 7. maí 2009, þess efnis að rannsókn gæti hafist að nýju ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram er vörðuðu málið. Hann telur þennan fyrirvara ekki eiga stoð í lögum.
Sóknaraðili kveðst hafna því að það sem Fjármálaeftirlitið tilgreinir í bréfi til sérstaks saksóknara, 9. júlí 2009, sem ný gögn og upplýsingar, séu í raun ný gögn og upplýsingar. Í bréfinu segi að fyrri athugun Fjármálaeftirlitsins á viðskiptum sóknaraðila hafi beinst að vitneskju hans sem ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins í tengslum við yfirfærslu Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi úr útibúi í dótturfélag og upplýsingum sem hann gæti hafa búið yfir vegna fundar með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, þann 2. september 2008. Sóknaraðili kveður þessa lýsingu á athugun Fjármálaeftirlitsins ranga og villandi þar sem í engu sé getið um að athugunin hafi enn fremur beinst að setu hans sem nefndarmanns í sérstökum samráðshópi forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Þetta styður hann með tilvísun til bréfs Fjármálaeftirlitsins til sín, dags. 7. maí 2009, þar sem segi að athugunin hafi beinst að því hvort sóknaraðili hafi búið yfir innherjaupplýsingum vegna starfa hans sem ráðuneytisstjóri og nefndarmaður í áðurnefndum samráðshópi.
Þetta styður sóknaraðili með tilvísun til bréfs Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara, dags. 9. júlí 2009. Þar segi að hinar nýju upplýsingar og gögn séu annars vegar upplýsingar sem fram hefðu komið í fundargerðum samráðshópsins þegar athugað hafi verið lengra tímabil en áður hafði verið gert, upplýsingar í fylgigögnum með fundargerðum og skýringar fulltrúa viðskiptaráðuneytis í hópnum á þessum upplýsingum við skýrslugjöf hjá Fjármálaeftirlitinu og hins vegar upplýsingar og gögn sem fram hafi komið á fundi sóknaraðila og ráðuneytisstjórans í viðskiptaráðuneytinu með stjórnendum Landsbankans, 13. ágúst 2008.
Sóknaraðili bendir á að Fjármálaeftirlitið hafi átt beina aðild að samráðshópnum og hafi því haft aðgang að öllum fundargerðum hópsins frá upphafi. Þá hafi upplýsingar og gögn sem kynnt hafi verið á vettvangi hópsins að töluverðu leyti stafað frá Fjármálaeftirlitinu. Því sé ljóst að upplýsingar og gögn sem komu frá þessum samráðshópi geti aldrei talist nýjar upplýsingar og gögn samkvæmt þeim fyrirvara sem Fjármálaeftirlitið setti í bréf sitt 7. maí 2009. Gera verði þá kröfu til Fjármálaeftirlitsins að það framkvæmdi tæmandi athugun á fundargerðum og fylgigögnum samráðshópsins og aflaði viðbótarskýringa frá sóknaraðila og öðrum, eftir því sem tilefni hefði gefist til. Hann kveðst telja að sú nálgun Fjármálaeftirlitsins að stofnunin hafi einvörðungu verið að skoða gögn samráðshópsins á ákveðnu tímabili geti ekki staðist eða leitt til þess að gögn vegna samráðshópsins á öðrum tímabilum geti talist ,,nýjar upplýsingar og gögn“.
Þá mótmæli sóknaraðili því að fyrirvaranum um ,,nýjar upplýsingar og gögn“ sé fullnægt að því er varðar fund hans og ráðuneytisstjórans í viðskiptaráðuneytinu með stjórnendum Landsbankans 13. ágúst 2008. Fundurinn hafi verið haldinn að beiðni stjórnenda Landsbankans til að upplýsa um viðræður Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins (FSA) um flutning Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi úr útibúi í dótturfélag. Hér hafi ekki verið um að ræða upplýsingar sem ráðuneytisstjórunum hafi ekki verið þegar kunnar vegna setu sinnar í umræddum samráðshópi. Um það vísar hann til fundargerðar samráðshópsins frá 31. júlí 2008.
Sóknaraðili kveður að jafnvel þótt talið yrði að endurupptaka fyrri ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi verið heimil sé ljóst að slík endurupptaka feli í sér nýja stjórnvaldsákvörðun. Við töku þeirrar ákvörðunar hafi borið að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Hann vill því gera skýran greinarmun á endurupptökuþætti málsins hjá Fjármálaeftirlitinu annars vegar, sem feli í sér sjálfstæða ákvörðun, og þeirri ákvörðun eftirlitsins að kæra málið til sérstaks saksóknara. Hann kveður ekki hafa verið farið eftir gildum réttarreglum við töku þessara ákvarðana.
Þá kveður sóknaraðli að ákvæði 3. mgr. 148. gr. verðbréfalaga nr. 108/2007, sem samkvæmt orðum sínum aftengir ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga, þegar um sé að ræða þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að kæra málið til lögreglu, fái ekki staðist. Um það vísar hann til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Sóknaraðili tekur fram að undir rannsókn málsins hjá Fjármálaeftirlitinu hafi því borið að upplýsa sig um rétt sinn til að neita að svara spurningum, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglu sakamálaréttarfars. Þessum upplýsingum hafi hins vegar aldrei verið komið á framfæri við sig. Þetta hafi þau áhrif að rannsókn sérstaks saksóknara sé reist á ólögmætum grundvelli.
Sóknaraðili kveðst telja að meðferð Fjármálaeftirlitsins á stjórnsýsluvaldi í máli sínu hafi farið í bága við lög á margvíslegan hátt. Það leiði til þess að grundvöllur málsins í heild og þar af leiðandi málsmeðferðin hjá sérstökum saksóknara sé ólögmæt.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveður málavexti vera þá að þann 17. og 18. september 2008 hafi sóknaraðili, sem þá var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf., samtals 9.059.809 hluti fyrir 192.658.716 krónur. Grunur hefði vaknað um að hann hefði á þeim tíma búið yfir innherjaupplýsingum og Fjármálaeftirlitið því hafið athugun á viðskiptunum. Hafi Fjármálaeftirlitið og sóknaraðili átt bréfaskipti um þetta mál frá 11. nóvember 2008 til 7. maí 2009. Rannsóknin hafi á þeim tíma sérstaklega beinst að vitneskju hans sem ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins um kröfur breska fjármálaráðuneytisins um yfirfærslu Icesave reikninga bankans úr útibúi í dótturfélag og upplýsingum sem sóknaraðili gæti hafa búið yfir vegna fundar með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, þann 2. september 2008.
Varnaraðili segir að í tengslum við rannsókn Fjármálaeftirlitsins hafi sóknaraðili lagt fram afrit af ýmsum greinum sem birst höfðu í fjölmiðlum um Icesave reikningana, sem hann taldi sýna að markaðurinn hefði haft sömu vitneskju og hann sjálfur þegar viðskiptin fóru fram. Þá hafi hann fullyrt í bréfi til Fjármálaeftirlitsins að hann hefði aldrei átt samskipti við stjórnendur Landsbankans eða annarra fjármálafyrirtækja. Aflað hafi verið afrita af fundargerðum samráðshóps forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika frá 1. til 31. september 2008, en ekkert hafi þótt koma þar fram sem beinlínis sýndi fram á að sóknaraðili hefði búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi umrædd hlutabréf.
Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins eftir þessa athugun á málinu hafi því orðið sú að ekki væri ástæða til að aðhafast í því frekar að svo stöddu. Því hafi sóknaraðila verið sent bréf þann 7. maí 2008, þar sem hann var upplýstur um að athugun eftirlitsins á málinu væri lokið. Í bréfinu hafi Fjármálaeftirlitið gert þann fyrirvara að það áskildi sér rétt til að taka málið upp aftur ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram er vörðuðu málið.
Varnaraðili kveður að á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins 19. júní 2009 hafi komið fram ábendingar um að fyrir gætu legið ítarlegri upplýsingar í fundargerðum samráðshópsins sem sóknaraðili átti sæti í, ef athugað væri lengra tímabil en Fjármálaeftirlitið hafði gert í fyrri athugun sinni. Þá var á það bent að þær Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri og nefndarmaður í samráðshópnum, og Áslaug Árnadóttir, settur ráðuneytisstjóri og nefndarmaður í fjarveru Jónínu frá janúar til ágúst 2008, gætu búið yfir upplýsingum sem gæfu til kynna að sóknaraðili hefði búið yfir innherjaupplýsingum þegar salan átti sér stað. Þá var á það bent að skýrsla af þeim gæti leitt í ljós að sóknaraðili hefði í einhverjum tilvikum gefið Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar í samskiptum sínum við eftirlitið vegna málsins.
Varnaraðili gerði ítarlega grein fyrir skýrslugjöf Áslaugar Árnadóttur, setts ráðuneytisstjóra og Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra, hjá Fjármálaeftirlitinu, auk tíu nánar tilgreindra atriða úr fundargerðum ofangreinds samráðshóps á tímabilinu frá 10. apríl 2008 til og með 16. september 2008. Þá tiltók varnaraðili ýmsar upplýsingar úr bréfaskiptum á milli Landsbanka Íslands og Financial Supervisory Authority (FSA) í júlí og ágúst 2008 og gögn sem afhent voru á fundi sóknaraðila og Jónínu S. Lárusdóttur með bankastjórum Landsbanka Íslands þann 13. ágúst 2008.
Varnaraðili segir að þegar Fjármálaeftirlitið hafði yfirfarið þessi nýju gögn og upplýsingar hafi það komist að þeirri niðurstöðu að komnar væru fram nægjanlega tilgreindar upplýsingar, sem væru líklegar til að hafa verðmótandi áhrif á fjármálagerninga bankans. Sóknaraðila hefði verið kunnugt um þær upplýsingar þegar hann seldi hlutabréf sín. Því hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að hann hafi framið meiri háttar brot gegn 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Um hafi verið að ræða verulegar fjárhæðir, auk þess sem fyrir hendi hafi verið aðstæður sem talið var að ykju saknæmi brots.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti sæti brot aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins. Í 2. mgr. 148. gr. sé kveðið á um að sé um meiri háttar brot að ræða beri Fjármálaeftirlitinu að vísa málinu til lögreglu. Einnig að Fjármálaeftirlitið geti á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögunum til rannsóknar lögreglu. Þá kveði 3. mgr. ákvæðisins á um að IV.-VII. kafli stjórnsýslulaganna gildi ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að kæra mál til lögreglu. Varnaraðili bendir á að í IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga séu öll þau ákvæði laganna sem sóknaraðili vísar til. Þarna séu meðal annars málsmeðferðarreglurnar um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar og rökstuðning, um afturköllun og endurupptöku máls og stjórnsýslukærur.
Samkvæmt þessu sé aðstaðan sú, þegar upp kemur rökstuddur grunur um meiri háttar brot við rannsókn Fjármálaeftirlitsins, að eftirlitinu beri að vísa málinu til lögreglu án tillits til hvar það er statt í stjórnsýsluferlinu. Við þá aðgerð skuli ekki fara eftir þeim reglum sem annars gildi um stjórnvaldsákvarðanir, enda sé málið ekki lengur stjórnsýslumál heldur sakamál. Um rannsókn sakamála gildi önnur lög, þ.e. lög um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hann bendir á í því sambandi að regla þessi sé eðlileg og nauðsynleg þar sem óeðlilegt væri að sérstakt stjórnsýslumál yrði flutt um það hvort unnt væri að vísa máli til lögreglu og ljóst yrði að rannsóknarhagsmunir spilltust. Það sem meginmáli skipti sé að hinn kærði komi að öllum sínum vörnum við meðferð lögreglu og síðar dómstóla í samræmi við lög um meðferð sakamála.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að jafnvel þótt dómurinn kæmist að því að 25. gr. stjórnsýslulaga ætti við um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að vísa málinu til lögreglu 9.júlí 2009 þá séu skilyrði 2. töluliðar ákvæðisins uppfyllt, þ.e. að ákvörðunin sé ógildanleg. Fjármálaeftirlitinu hafi því verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína.
Ákvarðanir hafi verið taldar ógildanlegar hafi aðili máls veitt rangar eða villandi upplýsingar af ásetningi eða gáleysi. Varnaraðili kveðst vísa til þeirrar staðreyndar að sóknaraðili upplýsti með bréfi til Fjármálaeftirlitsins dags. 18. nóvember 2008 að hann hefði átt ,,engin samskipti við stjórnendur Landsbankans...“. Þvert á móti hafi hin nýju gögn sýnt að sóknaraðili hafi hitt forsvarsmenn bankans á fundi þann 13. ágúst 2008 eða rúmum mánuði áður en hann seldi bréf sín í Landsbankanum. Á þeim fundi hafi verið rætt um stöðu bankans með hliðsjón af Icesave innstæðum í Bretlandi og boðuðum kvöðum breska fjármálaeftirlitsins. Á þeim fundi hafi sóknaraðili meðal annars tekið við trúnaðarskjölum sem vörðuðu málefni Landsbankans.
Þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðun sína, þann 7. maí 2009, hafi ekki komið fram að sóknaraðili hefði setið þennan fund. Því megi leiða líkur að því að hann hafi verið grandsamur um að Fjármálaeftirlitið hafði rangar upplýsingar eða a.m.k. ekki tæmandi upplýsingar þegar það tók ákvörðun um að aðhafast ekki frekar í málinu.
Þá telur varnaraðili fráleitt að sjónarmið 1. mgr. 4. gr. viðauka 7 við mannréttindasáttmála Evrópu eigi við í máli þessu. Um það vísar hann annars vegar til þess sem áður hefur komið fram um ógildanleika ákvörðunarinnar og hins vegar til fyrirvara sem Fjármálaeftirlitið setti í bréf sitt, 7. maí 2008, um að málið kynni að vera tekið upp að nýju kæmu ný gögn eða upplýsingar í ljós. Um þetta segir hann að fyrirvarinn hljóti að hafa áhrif á væntingar sóknaraðila, þannig að hann hafi átt að gera sér grein fyrir að ekki væri óyggjandi að málinu væri endanlega lokið.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að engin ný gögn eða upplýsingar hafi komið fram. Um það vísar hann til framburða ráðuneytisstjóranna, Jónínu S. Lárusdóttur, Áslaugar Árnadóttur og Bolla Þórs Bollasonar.
Athugasemdum sóknaraðila við aðferðir Fjármálaeftirlitsins við upplýsingaöflun hjá sóknaraðila, þ.e. að honum hafi ekki verið leiðbeint um rétt sinn til að svara ekki spurningum og að afhenda ekki gögn, svarar varnaraðili. Hann kveður sóknaraðila vera hæstaréttarlögmann með umtalsverða þekkingu á stjórnsýslurétti og lögum. Þá komi það ekki að sök í máli þessu að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir þessari stöðu sinni þar sem ekki hafi verið byggt á gögnum frá honum sjálfum þegar Fjármálaeftirlitið kærði málið.
Varnaraðili leggur áherslu á mikilvægi þess að sóknaraðili sé grunaður um innherjasvik. Innherjasvik séu annað af tveimur alvarlegustu brotum verðbréfaviðskiptalöggjafarinnar. Verndarhagsmunir þeirrar löggjafar snúi að vernd og trausti fjárfesta á skipulegum verðbréfamarkaði. Því séu ríkir almannahagsmunir í málinu. Taka verði tillit til þessa og til almennra réttarvörslusjónarmiða þegar um sé að ræða rannsókn um meinta refsiverða háttsemi.
Niðurstöður
Mál þetta er til meðferðar fyrir dómi á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ákvæðið kveður á um að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Ákvæðið, sem er samhljóða 75. gr. eldri laga um meðferð opinberra mála, hefur verið skýrt svo að heimilt sé að bera ágreining um lögmæti rannsóknar lögreglu eða ákæranda í heild sinni undir dómara á grundvelli ákvæðisins, sbr. hæstaréttardóma nr. 248/2006 og 661/2006.
Mál þetta snýst um lögmæti þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að taka rannsókn á broti gegn 123. gr. laga nr. 108/2007 upp að nýju og vísa því til embættis sérstaks saksóknara og þar með hvort eftirfarandi rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðu broti hafi borið að með lögmætum hætti. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. verðabréfaviðskiptalaganna sætir brot aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlits til lögreglu. Er því fallist á að bera megi ágreining um lögmæti rannsóknar sérstaks saksóknara undir héraðsdóm, enda hefur sérstakur saksóknari stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara.
Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á því hvort sóknaraðili hafi búið yfir innherjaupplýsingum vegna starfa sinna sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og nefndarmaður í sérstökum samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað á þeim tíma er hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands fyrir rúmlega 192 milljónir króna þann 17. og 18. september 2008. Rannsóknin beindist að því hvort sóknaraðili hefði gerst sekur um innherjasvik, sbr. 120., 121., og 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Lauk þeirri rannsókn með bréfi Fjármálaeftirlitsins til sóknaraðila, dags. 7. maí 2008. Í bréfinu segir orðrétt: ,,Með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum sem aflað hefur verið vegna málsins telur Fjármálaeftirlitið að fullnægjandi skýringar og gögn hafi komið fram til stuðnings fullyrðinga yðar um að þér hafið ekki búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma. Fjármálaeftirlitið telur því ekki tilefni til frekari athugunar á máli þessu. Fjármálaeftirlitið áskilur sér þó þann rétt að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar koma fram er varða mál þetta“.
Sóknaraðili byggir á því að fyrirvarinn um að málið verði tekið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar komi fram sé ólögmætur. Ekki sé fyrir hendi sérstök lagaheimild til endurupptöku og atvik málsins séu með þeim hætti að skilyrði 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu ekki uppfyllt. Málsmeðferðarreglur um rannsókn og kæru Fjármálaeftirlits á brotum gegn lögum um verðbréfaviðskipti eru settar fram í 148. gr. þeirra laga. Brot gegn lögunum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins. Ef brot er meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka á saknæmi brotsins. Fjármálaeftirlitið getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Þá er í 3. mgr. 148. gr. tekið fram að ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
Það kemur því, samkvæmt framangreindum málsmeðferðarreglum laga um verðbréfaviðskipti, ekki til skoðunar hvort við stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka upp rannsókn og vísa henni til sérstaks saksóknara hafi verið gætt andmælaréttar eða hvort fyrri ákvörðun um niðurfellingu rannsóknar sé ógildanleg í skilningi stjórnsýsluréttar. Málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar gilda ekki um þá ákvörðun. Ákvörðunin breytir stöðu málsins úr stjórnsýslumáli í sakamál.
Kemur þá til skoðunar hvort fyrirvarinn í bréfi Fjármálaeftirlitsins, um að málið kynni að vera tekið til skoðunar á ný ef ný gögn eða upplýsingar komi í ljós, sé lögmætur. Fyrirvarinn er að efni til sambærilegur við heimild lögreglu og ákæruvalds til að taka rannsókn upp á ný gegn sakborningi ef ný sakargögn eru fram komin, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekki er fyrir að fara slíkri beinni lagaheimild í lögum þeim sem Fjármálaeftirlitið starfar eftir. Verður því að telja eðlilegt að Fjármálaeftirlitið geri slíkan fyrirvara og upplýsi þann sem verður fyrir rannsókn um að mál geti verið tekið upp á ný að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Sóknaraðili byggir jafnframt á 2. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins og lög nr. 62/1994. Ákvæðið hljóðar svo:
,,Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
Ákvæði undanfarandi töluliðar skulu ekki vera því til fyrirstöðu að málið sé endurupptekið í samræmi við lög og sakamálaréttarfar viðkomandi ríkis ef fyrir hendi eru nýjar eða nýupplýstar staðreyndir, eða ef megingalli hefur verið á fyrri málsmeðferð sem gæti haft áhrif á niðurstöðu málsins“.
Sóknaraðili kveðst hafa í raun verið sýknaður í skilningi mannréttindasáttmálans þegar rannsóknin á hendur honum var felld niður og að skilyrði 2. mgr. um að fyrir hendi sé lagaheimild í íslenskum rétti til að endurupptaka málið sé ekki uppfyllt. Dómurinn telur engin rök til þess að bréf Fjármálaeftirlitsins, dags. 7. maí 2009, sem tilkynnti um að ekki væri tilefni til frekari athugunar á máli hans, með fyrirvara um að það kynni að vera tekið upp að nýju, hafi réttaráhrif lokadóms um sýknu í sakamáli. Sóknaraðili hefur hvorki verið ákærður fyrir brot það sem rannsakað er, né hlotið fyrir það dóm. Kemur því ekki til álita hvort skilyrði séu til þess að sóknaraðili þurfi að sæta ákæru tvisvar fyrir sama brot.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því að, jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að fyrirvari í bréfi Fjármálaeftirlitsins um að málið kynni að vera endurupptekið ef nýjar upplýsingar og gögn kæmu fram sé lögmætur, hafi öll gögn og allar upplýsingar legið fyrir hjá stjórnvöldum á þeim tíma sem málið var til rannsóknar. Því til stuðnings bendir sóknaraðili á að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi sjálfur átt sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og því haft aðgang að fundargerðum hópsins frá upphafi.
Varnaraðili byggir aftur á móti á því að upphaflega hafi rannsóknin beinst aðallega að fundi stjórnvalda með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins 19. júní 2009 hafi hins vegar komið fram ábendingar um hvar ný gögn og upplýsingar gæti verið að finna vegna málsins sem mögulega gætu leitt til þess að máið yrði tekið aftur til athugunar. Beindist ábending stjórnar Fjármálaeftirlitsins að því að aðrir meðlimir í samráðshópi um fjármálastöðugleika gætu mögulega gefið nánari upplýsingar og fyllri mynd af því sem fram hefði komið á fundum hópsins, auk þess sem bent var á að gagnlegt gæti verið að skoða fundargerðir hópsins yfir lengra tímabil en áður hafði verið gert, þ.e. frá janúar til september 2008. Í framhaldi af þessu hafi ráðuneytisstjórar viðskiptaráðuneytis verið kallaðir til skýrslugjafar þann 28. júní sama ár, en við þá skýrslugjöf hafi komið fram að ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis og sóknaraðili hafi átt fund með stjórnendum Landsbanka Íslands þann 13. ágúst 2008. Á þeim fundi hafi þau fengið afhent gögn sem sýndu samskipti bankans við breska fjármálaeftirlitið vegna yfirfærslu Icesave reikninga bankans. Þá hafi rannsóknin formlega verið tekin upp að nýju þann 9. júlí 2008 með bréfi Fjármálaeftirlitsins til sóknaraðila og vísun málsins til embættis sérstaks saksóknara með bréfi sama dag.
Með vísan til framangreinds verður að fallast á það með varnaraðila að nýjar upplýsingar hafi komið fram sem hafi gefið Fjármálaeftirlitinu tilefni til að taka upp athugun sína að nýju. Fjármálaeftirlitið fór að málsmeðferðarreglum sem settar hafa verið í lög um verðbréfaviðskipti við rannsókn málsins og vísan þess til embættis sérstaks saksóknara. Er því eftirfarandi rannsókn embættis sérstaks saksóknara lögmæt og kröfu sóknaraðila hafnað.
Eftir að málið var tekið til úrskurðar barst dómnum bréf sóknaraðila, dags. 21. desember 2009, þar sem athygli dómsins er vakin á efni viðtals Fréttablaðsins við Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, varðandi skjalavörslu fundargerða samráðshóps um fjármálastöðugleika. Hér er um að ræða atriði sem heyra undir rannsókn sérstaks saksóknara.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfum sóknaraðila, X, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.