Hæstiréttur íslands

Mál nr. 176/2012


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Riftun
  • Gjöf
  • Endurgreiðslukrafa
  • Varnarþing
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 25. október 2012.

Nr. 176/2012.

Magnús Guðmundsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Guðni Á Haraldsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Gjöf. Endurgreiðslukrafa. Varnarþing. Aðfinnslur.

Fjármálafyrirtækið K hf., sem tekið hafði verið til slitameðferðar, höfðaði mál gegn M og krafðist riftunar þeirrar ákvörðunar fyrrum stjórnar K hf. að fella niður ábyrgð M á lánum sem hann hafði tekið hjá K hf. til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu er hann starfaði þar. M krafðist ómerkingar hins áfrýjaða dóms þar sem héraðsdómari hafði ekki hafnaði frávísunarkröfu hans með úrskurði heldur ákvörðun. Hæstiréttur taldi þennan formgalla ekki valda ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Héraðsdómari hefði fært rök fyrir niðurstöðu sinni og dregið hana saman í ályktarorð eins og um úrskurð væri að ræða. Með vísan til ákvæða í lánssamningnum sjálfum féllst Hæstiréttur ekki á þau rök M fyrir frávísunarkröfu sinni að málið væri höfðað á röngu varnarþingi. Þá var hvorki fallist á með M að K hf. væri ekki eigandi kröfunnar né að M hefði verið lofað skaðleysi af hlutabréfakaupunum. Talið var að gjafatilgangur hefði búið að baki ákvörðun fyrrum stjórnar K hf. og að fyrirtækinu hefði því verið heimilt að rifta ráðstöfuninni á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Var því fallist á endurgreiðslukröfu K hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2012. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms sem og ákvörðunar héraðsdómara um að hafna frávísunarkröfu hans. Til vara krefst áfrýjandi frávísunar málsins frá héraðsdómi, en að því frágengnu sýknu og að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 22. júní 2011 um kyrrsetningu í máli nr. K-16/2011 verði felld úr gildi. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi krefst þess aðallega að „hinn áfrýjaði dómur frá 20. desember 2011, sem og ákvörðun héraðsdómara frá 23. september 2011 um að hafna frávísunarkröfu áfrýjanda, verði hvort tveggja ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.“ Skilja verður  kröfugerðina á þann veg að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm af þeirri ástæðu að héraðsdómari hafi ekki hafnað frávísunarkröfu áfrýjanda með úrskurði, svo sem honum hafi borið, heldur með ákvörðun.

Í 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um að dómari taki afstöðu til atriða, sem varða rekstur máls, með ákvörðun að því leyti sem önnur ákvæði laganna mæla ekki á annan veg og ágreiningur er ekki uppi. Slík atriði megi einnig leiða til lykta með ákvörðun, þótt ágreiningur sé um þau, sæti ágreiningsefnið ekki kæru til æðra dóms. Með gagnályktun frá j. lið 1. mgr. 143. gr. laganna sætir úrlausn héraðsdóms um að hafna frávísun máls ekki kæru til æðra dóms. Í fyrri málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 er á hinn bóginn að finna sérstakt ákvæði um málsmeðferð þegar krafist er frávísunar máls. Segir þar að sé slík krafa gerð skuli málið flutt munnlega og leyst úr henni í úrskurði. Í ákvæðinu er þannig kveðið fortakslaust á um að leysa beri úr ágreiningi um frávísun máls með úrskurði og gildir þá einu hvort krafan er tekin til greina eða henni hafnað. Héraðsdómari færði rök fyrir niðurstöðu sinni og dró hana saman í ályktarorð, eins og um úrskurð væri að ræða, sbr. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, en úrlausnin hefði að réttu lagi átt að bera það heiti. Er þetta aðfinnsluvert, en þessi formgalli veldur ekki ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

Til vara krefst áfrýjandi þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi, annars vegar vegna þess að það sé höfðað á röngu varnarþingi og hins vegar að stefndi hafi ekki lögvarða hagsmuni af sakarefni því er lýtur að riftun þeirrar ráðstöfunar sem um ræðir í málinu.

Áfrýjandi byggir á því að hann verði eingöngu sóttur til saka fyrir dómstólum í Lúxemborg, þar sem hann eigi lögheimili, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu liggja fyrir fjórir lánssamningar milli málsaðila vegna hlutfjárkaupa áfrýjanda í stefnda. Þrír þeirra eru á ensku og er svofellt ákvæði í þeim öllum: „Any dispute arising from this loan agreement shall be heard before Reykjavík District Court (Héraðsdómur Reykjavíkur). This agreement shall be governed by Icelandic law.“ Í þeim fjórða, sem er á íslensku, segir svo um þetta atriði: „Rísi mál vegna lánssamnings þessa skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samningur þessi skal lúta íslenskum lögum.“

Mál þetta á rætur að rekja til umræddra lánssamninga. Í kröfu stefnda um riftun á ráðstöfun um eftirgjöf ábyrgðar áfrýjanda samkvæmt samningunum felst að ákvæði þeirra þessa efnis skuli halda gildi sínu. Þegar af þeirri ástæðu var stefnda heimilt með skírskotun til þeirra ákvæða, sem áður er vísað til, að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæða áfrýjanda um að stefnda skorti lögvarða hagsmuni af málshöfðun þessari lýtur í reynd að því að stefndi sé ekki réttur eigandi kröfu þeirrar, er hann hefur uppi í málinu, og eigi þar með ekki aðild að því. Varnir byggðar á þeirri málsástæðu leiða til sýknu en ekki frávísunar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framanröktu eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi.

II

Áfrýjandi var bankastjóri Kaupthing Luxembourg S.A., dótturfélags stefnda, á þeim tíma sem atvik máls þessa taka til.

Hinn 21. desember 2005 gerði áfrýjandi lánssamning við stefnda um lán í svissneskum frönkum að jafnvirði 1.327.383.945 krónur, en óumdeilt er að af þeirri fjárhæð hafi 1.107.383.945 krónum verið varið til endurfjármögnunar á kaupum áfrýjanda á hlutum í stefnda. Samkvæmt samningnum skyldi lánið endurgreitt með einni greiðslu 1. desember 2010. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar setti áfrýjandi að handveði 2.859.870 hluti í stefnda með yfirlýsingu 21. desember 2005. Ábyrgð áfrýjanda á skuldinni skyldi takmarkast við andvirði handveðsins og hvers konar viðbótartrygginga, sem hann kynni að leggja fram, í samræmi við samninginn, en auk þess skyldi áfrýjandi því til viðbótar bera ábyrgð með eignum sínum á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún væri á hverjum tíma. Þá skuldbatt áfrýjandi sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti. Áþekkt ákvæði var í fyrrgreindri handveðsyfirlýsingu, en þar var þó tekið fram að áfrýjandi mætti ráðstafa veðinu hefði hann áður fengið til þess skriflegt leyfi stefnda.  

Áfrýjandi gerði 5. mars 2007 annan lánssamning við stefnda í svissneskum frönkum og japönskum jenum að jafnvirði 12.096.834 krónur til fjármögnunar hlutafjárkaupa í stefnda og skyldi greiða lánið 15. maí 2009 með einni greiðslu. Sama dag og lánssamningurinn var gerður keypti áfrýjandi 20.000 hluti í stefnda og setti þá að handveði til tryggingar greiðslu skuldarinnar með yfirlýsingu þann dag. Sagði í handveðsyfirlýsingunni að áfrýjanda væri óheimilt að ráðstafa veðinu nema með skriflegu samþykki stefnda.

Þriðji lánssamningurinn vegna hlutabréfakaupa áfrýjanda í stefnda var gerður 7. maí  2007. Samkvæmt honum lánaði stefndi áfrýjanda 327.000.000 krónur sem greiða skyldi í einu lagi 7. maí 2011. Með láninu skyldi greiða upp eldra lán frá 2006, en áfrýjandi hafði á þeim tíma keypt 462.630 hluti í stefnda. Samkvæmt samningnum skuldbatt áfrýjandi sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti, auk þess sem þar var kveðið á um að handveðsyfirlýsingin 21. desember 2005 tæki til hlutanna.

Aðilar gerðu fjórða lánssamninginn vegna umræddra hlutafjárkaupa 20. ágúst 2007. Tók samningurinn til láns áfrýjanda í svissneskum frönkum að jafnvirði 110.457.365 krónur sem hann skyldi greiða í einu lagi 20. ágúst 2010. Áfrýjandi keypti sama dag og lánssamningurinn var gerður 100.000 hluti í stefnda. Sem áður var í samningnum ákvæði um bann við sölu eða veðsetningu hlutanna, auk þess sem kveðið var á um að handveðsyfirlýsingin 21. desember 2005 tæki til þeirra.

Í engum lánssamninganna var kveðið á um að stefndi skyldi tryggja áfrýjanda skaðleysi vegna umræddra lána.

Áfrýjandi naut arðs af hlutunum og voru honum á árunum 2005 til 2008 greiddar alls 207.315.336 krónur í arð af hlutum, sem keyptir höfðu verið fyrir lán frá stefnda, að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

Á fundi stjórnar stefnda 25. og 26. september 2008 var lögð fram greinargerð frá starfskjaranefnd hans sem tekin hafði verið saman fyrr í þeim mánuði. Í henni var meðal annars tekið fram að í samræmi við launastefnu stefnda hafi hann gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í sér og fjármagnað þau kaup. Síðan sagði: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað stjórnin að veita forstjóra stefnda heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt því gaf forstjórinn 25. september 2008 út yfirlýsingu til áfrýjanda þar sem honum var tilkynnt að stefndi hafi ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ hans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í stefnda.

Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn stefnda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar hans í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Daginn eftir, 9. sama mánaðar, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum stefnda, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., að undanskildum nánar tilgreindum eignum. Samkvæmt því voru kröfur stefnda á hendur áfrýjanda vegna fyrrgreindra fjögurra lánssamninga framseldar til umrædds banka.

Hinn 25. maí 2009 var stefnda skipuð slitastjórn sem ákvað að rifta þeirri ráðstöfun 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna fjögurra. Var honum tilkynnt þessi ákvörðun slitastjórnarinnar með bréfi 19. maí 2010 og hann jafnframt krafinn um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna riftunarinnar.

III

Eins og kröfugerð stefnda er háttað hér fyrir dómi gerir hann aðallega þá kröfu að ráðstöfuninni 25. september 2008 verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem í gildi var þegar til ráðstöfunarinnar var gripið, og áfrýjanda gert að endurgreiða sér 717.334.575 krónur eftir 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, má krefjast riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eins og stefnda eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fyrirtækisins muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Frestdagur við slit stefnda var 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008.

Krafa áfrýjanda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti vegna þess að fyrrgreind fjárkrafa stefnda hafi verið framseld til Nýja Kaupþings banka hf. 21. október 2008 og hann þar með fyrirgert rétti til að sækja kröfuna á hendur áfrýjanda. Að því er þessa málsástæðu varðar ber að horfa til þess að þegar kröfur samkvæmt lánssamningunum fjórum voru framseldar voru þær einungis tryggðar með veði í hlutum í stefnda sem voru með öllu verðlausir eftir fall hans skömmu áður. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að ekkert endurgjald hafi komið fyrir kröfurnar úr hendi Nýja Kaupþings banka hf. Einnig stofnaðist endurgreiðslukrafan, sem stefndi hefur uppi í málinu, ekki fyrr en 19. maí 2010 er hann lýsti yfir riftun gagnvart áfrýjanda. Að þessu virtu er stefndi réttur aðili að lögum til að beina síðastgreindri kröfu að áfrýjanda og verður því ekki fallist á sýknukröfu hans vegna aðildarskorts, en stefndi hefur ávallt haldið því fram í málatilbúnaði sínum að krafan tilheyri sér og hafi ekki verið framseld öðrum.

Sýknukrafa áfrýjanda er í öðru lagi reist á því að yfirlýsing stefnda 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð áfrýjanda samkvæmt lánssamningunum fjórum hafi aðeins falið í sér staðfestingu eldri loforða stefnda um að hann tryggði skaðleysi áfrýjanda vegna kaupa hans á hlutabréfum í stefnda. Svo sem áður segir er ekki kveðið á um slíkt skaðleysi í lánssamningunum, heldur er ábyrgð áfrýjanda verulega takmörkuð í einum þeirra, en að engu leyti í hinum. Þótt fyrir liggi samkvæmt ýmsum gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að því hafi verið lýst yfir af stefnda og ýmsum stjórnendum hans á árunum 2004 til 2008 að æskilegt væri að starfsmenn yrðu ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á hlutum í honum kemur þar hvergi fram að áfrýjanda hafi verið lofað skaðleysi af þeim kaupum svo að skuldbindandi sé fyrir stefnda. Samkvæmt því sem að framan greinir verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að færa sönnur á áðurgreinda staðhæfingu um að honum hafi verið lofað skaðleysi og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með vísan til málsatvika verður ekki heldur fallist á þær röksemdir áfrýjanda að lánssamningar þeir, sem hér um ræðir, hafi verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir hann á grundvelli reglna um brostnar forsendur eða vegna ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

IV

Ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið skýrt svo að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni, nema hún falli undir 3. mgr. sömu lagagreinar, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni.

Sem fyrr segir reisir stefndi riftunarkröfu sína aðallega á því að sú ráðstöfun stefnda 25. september 2008, tæpum tveimur mánuðum fyrir frestdag, að gefa eftir persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna tveggja hafi verið gjafagerningur í merkingu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Því mótmælir áfrýjandi, einkum með þeirri röksemd að ósannað sé að hann hafi auðgast á ráðstöfuninni. Vísar áfrýjandi til þess að hlutafjáreign hans, sem hafi verið til tryggingar greiðslu lánanna, hafi 25. september 2008 numið 2.599.087.500 krónum, en af því leiði að krafa stefnda hafi ávallt verið tryggð.

Sú ákvörðun stjórnar stefnda 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, var augljóslega byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir stefnda. Þótt fallast megi á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni stefnda í huga var hún í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið höfðu lánin, þar á meðal áfrýjanda. Samkvæmt því bjó einnig gjafatilgangur að baki ákvörðuninni þegar hún var tekin og mátti áfrýjanda vera það ljóst.

Áfrýjandi hefur jafnframt fært frekari röksemdir fyrir því að ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 verði ekki beitt í máli þessu. Eru þau rök haldlaus. Samkvæmt því sem að framan greinir er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að stefnda hafi á grundvelli ákvæðisins verið heimilt að rifta fyrrgreindri ráðstöfun, sem gerð var í þágu áfrýjanda.

Af orðalagi 1. og 2. mgr. 142. gr. laganna, þar sem kveðið er á um endurgreiðslu úr hendi þess sem hefur haft hag af riftanlegri ráðstöfun, er ljóst að það tímamark, sem miðað er við í þeim ákvæðum, er hvenær riftun er lýst yfir eða eftir atvikum hvenær endurgreiðslukrafa er gerð upp. Þótt gögn málsins bendi til að verðmæti hlutanna, sem settir höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu á skuldbindingum áfrýjanda samkvæmt lánssamningunum fjórum, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð hans á lánunum var felld niður, er ljóst að tveimur vikum síðar voru hlutirnir orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgð hans orðið virk. Þar sem sú ábyrgð hafði verið gefin eftir með hinni riftanlegu ráðstöfun varð stefndi fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu auðgaðist áfrýjandi að sama skapi. Verður krafa stefnda um endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda því tekin til greina, en að öllu virtu eru ekki efni til að lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991 eða af öðrum ástæðum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um kyrrsetningu í eign áfrýjanda verður staðfest með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Magnús Guðmundsson, greiði stefnda, Kaupþingi hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011.

                Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember sl., er höfðað með stefnu 2. nóvember 2010 af Kaupþingi banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Magnúsi Guðmundssyni, 15 Rue Neuve, L-6137 Junglinster, Lúxemborg. Réttarstefna 13. júlí 2011 hefur verið sameinuð málinu.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, ráðstöfun Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008, um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga aðila nr. 3015, dagsettum 21. desember 2005, nr. 4735, dagsettum 5. mars 2007, nr. 5094, dagsettum 7. maí 2007 og nr. 6042, dagsettum 20. ágúst 2007. Jafnframt er gerð sú krafa aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 823.861.541 króna með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 717.334.575 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að staðfest verði kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-16/2011, sem fram fór þann 22. júní 2011 um kyrrsetningu 20% eignarhluta stefnda í Hvítsstöðum ehf., kt. 470503-3190. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu, að ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu verði felld úr gildi og að kyrrsetningarkröfu stefnanda verði hrundið. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar.

I.

Málsatvik.

                Stefnandi lýstir atvikum málsins þannig að málið lúti að riftanleika þeirrar ráðstöfunar Kaupþings banka hf. að fella niður persónulega ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningum vegna hlutabréfakaupa stefnda í Kaupþingi banka hf. Stefndi hafi verið forstjóri Kaupþings banka hf. í Lúxemborg og þannig einn af æðstu yfirmönnum samstæðunnar Kaupþings banka hf.

                Stefndi hafi 21. desember 2005 ritað undir lánssamning nr. 3015 við stefnanda um lán í svissneskum frönkum að jafnvirði 1.327.383.945 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi 1.107.383.945 krónum verið varið til endurfjármögnunar á hlutabréfakaupum stefnda eða 83.43% af andvirði lánsins. Lánið hafi verið til endurfjármögnunar á hlutabréfakaupum stefnda á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Lánið skyldi greitt í þeirri sömu mynt og það hafi samanstaðið að. Skyldi það greitt 1. desember 2010 eða fyrr léti stefndi fyrr af starfi sínu hjá samstæðunni. Vextir skyldu vera breytilegir LIBOR vextir að viðbættu 1.20% vaxtaálagi. Vextir skyldu reiknaðir á 3ja mánaða fresti í fyrsta sinn 21. mars 2006 og bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 21. desember 2006. Í gr. 6 hafi verið svo um samið að greiðslubyrgð stefnda skyldi takmarkast á hverjum tíma við 10% af uppgreiðsluverðmæti lánsins. Til tryggingar greiðslu lánsins hafi stefndi sett að handveði sama dag 2.859.870 hluti í bankanum til tryggingar greiðslu lánsins. Þann 25. september 2008 hafi lánið staðið í 2.177.032.066 krónum.

                Stefndi hafi 5. mars 2007 ritað undir lánssamning nr. 4735 við stefnanda um lán til jafns í svissneskum frönkum og japönskum jenum að jafnvirði 12.096.834 krónur. Tilgangur lánsins hafi verið hlutabréfakaup en sama dag hafi stefndi keypt 20.000 hluti í Kaupþingi banka hf. og sett þá að handveði til tryggingar greiðslu lánsins. Gjalddagi lánsins hafi verið 15. maí 2009 eða fyrr léti stefndi fyrr af starfi sínu í bankanum. Lánið skyldi greitt í þeim sömu gjaldmiðlum og það hafi samanstaðið af. Vextir skyldu vera breytilegir LIBOR vextir að viðbættu 1.75% vaxtaálagi. Þeir skyldu leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 7. maí 2008. Þann 25. september 2008 hafi lánið staðið í 403.240.068646 krónum.  

                Stefndi hafi 20. ágúst 2007 ritað undir lánssamning nr. 6042 við stefnanda um lán í svissneskum frönkum að fjárhæð jafnvirði 110.457.365 krónur og hafi tilgangur lánsins verið hlutabréfakaup en sama dag hafi stefndi keypt 100.000 hluti í Kaupþingi banka hf. Gjalddagi lánsins skyldi vera 20. ágúst 2010 eða fyrr léti stefndi fyrr af störfum sínum í bankanum. Vextir skyldu vera breytilegir LIBOR vextir að viðbættu 1.75% álagi. Þeir skyldu reiknast á 3ja mánaða fresti í fyrsta sinn 20. nóvember 2007 og bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 20. ágúst 2008. Þann 25. september 2008 hafi lánið staðið í 183.042.330 krónum.  

                Í öllum lánssamningum hafi komið fram að réttarágreiningur tengdur framangreindum lánssamningum skyldi lagður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

                Á fundi í stjórn Kaupþings banka hf. dagana 25. og 26. september 2008 hafi greinargerð frá starfskjaranefnd Kaupþings banka hf. verið rædd. Í henni hafi m.a. komið fram að starfskjaranefndin hafi haft áhyggjur af því að ýmsir háttsettir stjórnendur innan bankans ættu í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna lækkunar virði hlutabréfa í bankanum. Nefndin hafi talið að bæta yrði úr þessu ástandi. Tryggja yrði að lykilstarfsmenn gætu einbeitt sér að starfsemi bankans á erfiðistímum. Á grundvelli tillagna starfskjaranefndar hafi stjórn bankans ákveðið að fela Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings samstæðunnar, að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaup þeirra í bankanum með það að leiðarljósi að tryggja að þeim væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í þágu bankans, eins og sagt hafi í fundargerð stjórnar. Ábyrgð starfsmanna skyldi þannig takmörkuð við þau hlutabréf sem sett hefðu verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum. 

                Kaupþing banki hf. hafi 25. september 2008 gefið út yfirlýsingu til stefnda um að bankinn hefði ákveðið að krefja stefnda ekki, eða ,,not to enforce“, um persónulega ábyrgð hans vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Ábyrgð hans skyldi því takmarkast því við þau hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sem sett hafi verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum hans. Stefndi hafi staðfest yfirlýsinguna með undirritun sinni.

                Kaupþingi banka hf. hafi 9. október 2008 verið skipuð skilanefnd af hálfu Fjármálaeftirlitsins í samræmi við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og 5. gr. hinna svokölluðu neyðarlaga nr. 125/2008. Hafi stjórn Kaupþings banka hf. verið búin að fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar í bankanum og að stjórn bankans segði jafnframt af sér í heild sinni.

                Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., síðar Arion banki hf., frá 21. október 2008, hafi öllum eignum Kaupþings banka hf., þ.m.t. kröfuréttindum, sbr. lið 1 í ákvörðuninni, verið ráðstafað til Arion banka hf. Í samræmi við þetta hafi lánssamningur Kaupþings banka hf. og stefnda verið framseldur til Arion banka hf. Mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf., sem útbúinn hafi verið af Fjármálaeftirlitinu, hafi verið 0 krónur, sbr. yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers hf. Hafi það mat eðli málsins samkvæmt helgaðist af því að engin persónuleg ábyrgð hafi lengur verið til staðar vegna lánveitinganna og lánin eingöngu tryggð með veði í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. sem að áliti stefnanda hafi án nokkurs vafa verið einskis virði.

                Kaupþingi banka hf. hafi verið skipuð slitastjórn af Héraðsdómi Reykjavíkur 25. maí 2009 á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og lög nr. 44/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Kaupþingi banka hf. hafi áður verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sérreglum um slíka heimild fjármálafyrirtækja í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008, en sú greiðslustöðvun hafi síðar verið framlengd tvisvar. Í 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, sé kveðið á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Fyrir liggi að eignir stefnanda dugi hvergi nærri til að efna skuldbindingar hans að fullu og sé stefnanda því heimilt að krefjast riftunar ráðstafana eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns samkvæmt lögum nr. 21/1991. Frestdagur í skilningi laga nr. 21/1991 sé 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki.

                Þar sem stefnandi telji að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda samkvæmt áður greindum lánssamningi hafi verið ólögmæt hafi stefnandi rift ráðstöfuninni, aðallega á grundvelli 131. gr. en til vara á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bréf stefnanda til stefnda dagsett 18. maí 2010. Hafi stefndi samfara riftuninni verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar auðgunar, til vara skaðabóta að sömu fjárhæð, sem stefnandi telji að stefndi hafi haft af ráðstöfuninni auk áfallinna vaxta, eða alls 823.861.541krónu. Hafi stefnda verið gefinn kostur á að greiða skuldina við stefnanda en að öðrum kosti að leggja fram viðeigandi tryggingar og semja um greiðslukjör. Þessu hafi stefndi hafnað með bréfi 27. maí 2010. Í framhaldi af því hafi málið verið höfðað.

                Stefndi lýsir atvikum þannig að við undirbúning að skráningu hlutabréfa stefnanda á Verðbréfaþingi Íslands árið 2000 hafi stjórn stefnanda rætt um þann kost að starfsmenn myndu eignast hlutabréf í stefnanda. Í því sambandi hafi stjórnin meðal annars fjallað um álitamál tengd því að tryggja skaðleysi starfs­manna af slíkum kaupum. Á fundi sínum 10. ágúst 2000 hafi stjórn stefnanda rætt um þau vandkvæði sem hlytust af því að starfsmenn gætu ekki stofnað félög með takmarkaðri ábyrgð í því skyni að kaupa hlutabréf í stefnanda.

                Á aðalfundi stefnanda 27. mars 2004 hafi verið samþykkt tillaga stjórnar stefnanda um að kaup- og söluréttir til starfsmanna gætu á hverjum tíma numið allt að 9% af heildarhlutafé. Jafnframt hafi verið samþykkt tillaga stjórnar um að samið yrði við starfsmenn um að þeir ættu sölurétt vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Þessi tillaga hafi áður verið kynnt Fjármálaeftirlitinu. Í ræðu formanns launanefndar stefnanda, sem mælt hafi fyrir tillög­unni, hafi tillagan verið rökstudd með vísan til þess að starfsmenn ættu að njóta ávinningsins ef verð hlutabréfanna hækkaði en ættu ekki bera fjárhagslega áhættu af kaupunum ef verð hluta­bréfanna lækkaði.

                Í samningum stefnanda við starfsmenn, þar á meðal stefnda, hafi verið reynt að tryggja skaðleysi með sölurétti þar sem kveðið hafi verið á um að starfsmaður sem tekið hefði lán til kaupa á hlutum í stefnanda hefði heimild til að selja hlutinn að tilteknum árum liðnum, eða í ákveðnum tilvikum við starfslok, á markaðsvirði þess dags auk þess sem stefnanda hafi borið að greiða starfsmanni „uppbót“ sem ætti að nema mismun á því verði sem starfsmaðurinn hafi keypt hlutabréfin að viðbættum fjármagnskostnaði að frádregnu markaðsvirði á söludegi. Þannig hafi verið tryggt að söluverðið og uppbótin myndu samanlagt ætíð duga til að standa straum af greiðslu lánanna sem tekin hefðu verið til að fjármagna kaupin. Sú starfskjarastefna sem ákveðin hafi verið og samþykkt af hluthöfum félagsins og kynnt Fjármálaeftirlitinu hafi falið í sér að hagnaðarvon starfsmanna byggðist á því að verð bréfanna myndi hækka umfram fjármagnskostnað þeirra. Þeir hafi hins vegar verið tryggðir fyrir því að þeir yrðu ekki fyrir tjóni ef verð bréfanna lækkaði.

                Á árinu 2005 hafi Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við að kaup starfsamanna á hlutabréfum í stefnanda væru fjármögnuð af öðrum bönkum en stefnanda. Að beiðni launa­nefndar stjórnar stefnanda hafi  framkvæmdastjóri lögfræðisviðs stefnanda 19. september 2005 samið minnis­blað um helstu álitaefni varðandi kaup starfsmanna á hlutum í stefnanda. Í minnisblaðinu sé meðal annars bent á nauðsyn þess að tryggja hagsmuni starfsmanna ef verð hlutabréfa í stefnanda lækki.  Jafnframt sé bent á að endurskoðendur félagsins hafi ekki verið reiðubúnir til þess að telja lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa sem hluta af eigin fé stefnanda þegar samið hafi verið um sölurétt. Formaður launa­nefndar stefnanda hafi sent framangreint minnisblað til annarra launanefndarmanna með tölvupósti 21. september 2005 þar sem  sérstaklega hafi verið bent á að hagsmunir stefnanda fælust í því að tryggja skaðleysi starfsmanna. Á fundi sínum 28. september 2005 hafi stjórn stefnanda samþykkt að stefnandi myndi eftirleiðis annast lánveitingar til kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Jafnframt hafi verið samþykkt að stefnandi myndi leita leiða til að takmarka áhættu starfsmanna ef verð hlutabréfa í stefnanda lækkaði í verði.

                Vegna áhrifa söluréttar á útreikninga á eigin fé hafi stefnandi í árslok 2005 ákveðið að fella niður áður gerða samninga um sölurétt við starfsmenn. Til að tryggja skaðleysi starfsmanna hafi verið farin sú leið að takmarka persónulega ábyrgð við 10% af heildarfjárhæð lánsins. Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því í lánssamningnum að bréfin yrðu seld þegar verðmæti þeirra færi niður fyrir 120% af heildar­verðmæti lánsins og söluandvirði þeirra yrði notað til greiðslu skuldarinnar.  Með þessu hafi verið talið að starfsmenn væru tryggðir fyrir því að ekki reyndi á persónulega ábyrgð þeirra þrátt fyrir að sölurétturinn væri felldur niður. Hafi það verið í samræmi við yfirlýsta stefnu bankans og ákvarðanir stjórnar bankans um að tryggja skaðleysi starfsmanna.

                Stefndi hafi verið bankastjóri Kaupthing Luxembourg S.A., sem hafi verið dótturfélag stefnanda í Lúxemborg, en þar hafi stefndi átt lögheimili sl. 13 ár. Sem yfirmaður dótturfélags stefnanda hafi stefndi átt rétt til ýmissa hlunninda, m.a. kauprétt að hlutabréfum í stefnanda. Stefnda hafi í fyrsta skipti á árinu 2003 boðist að kaupa hlut í stefnanda á grundvelli þeirrar stefnu hans að starfsfólk skyldi vera meðal hlut­hafa. Skaðleysi stefnda af þessum viðskiptunum hafi í upphafi verið tryggt með samningi um sölu­rétt eins og áður sé lýst.

                Lánssamningar aðila séu að mestu leyti efnislega eins. Í þeim skuldbindi stefndi sig til þess að hvorki selja né veðsetja þá hluti í stefnanda, sem keyptir hafi verið fyrir andvirði lánsins, nema með skriflegu samþykki stefnanda. Samhliða lánssamningunum hafi verið gerð handveðs­yfirlýsing þar sem stefndi hafi sett hlutabréfin sem hann hafi keypt fyrir lánsfjárhæðina að handveði. Öll ný hlutabréf sem keypt hafi verið hafi síðar verið bætt við sem frekari veð. Hluta­bréfin hafi því verið í vörslu stefnanda sem handveð. Skuldbindingin um bann við sölu og veðsetningu bréfanna hafi verið áréttuð í handveðsyfirlýsingunni. Á það sé sérstaklega bent að svo virðist sem að fyrir mistök hafi takmörkun á persónulegri ábyrgð stefnda ekki verið skjalfest í öllum samningum aðila líkt og um hafi verið samið.

                Á þessum tíma hafi tryggingar­staða stefnda verið afar sterk vegna mikillar verðhækkunar hlutanna. Almennar reglur bankans um veðsetningarhlutföll hafi því að fullu verið virtar. Þar sem reglur á fjármálamarkaði á þessum tíma hafi komið í veg fyrir að starfsmenn gætu stofnað félög utan um kaupin hafi ábyrgð starfsmanna verið takmörkuð við 10% og lagt til grundvallar að bréfin yrðu seld áður en reyndi á persónulega ábyrgð. Síðar hafi verið fallið frá þessum reglum og starfsmönnum veitt heimild til að framselja hlutabréf og lán til einkahlutafélaga starfsmanna. Slíkt hafi stefndi þó ekki gert vegna loforða stefnanda um skaðleysi. Á þessum tíma hafi stefnandi nánast eingöngu veitt lán til verðbréfakaupa til félaga með takmarkaða ábyrgð. Með því að gangast undir ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar hafi stefndi því gengist undir ríkari ábyrgð fyrir skuldbindingum verðbréfalána en aðrir viðskiptavinir stefnanda.

                Ákvörðun stefnanda um að fella niður sölurétt starfsmanna hafi byggst á þeirri forsendu að starfs­menn bæru takmarkaða ábyrgð og veðköll yrðu virt þannig að komið yrði í veg fyrir persónulegan skaða starfsmanna. Vegna ákvæða í samningi aðila hafi það alfarið verið í höndum bankans að heimila sölu bréfanna og orðalag samningsins ekki heimilað starfsmönnum að selja bréfin og greiða upp lánið, heldur þyrfti bankinn að veita samþykki sitt fyrir því. Af hálfu stjórnar bankans hafi verið ítrekað að þessar breytingar ættu ekki að leiða til þess að starfsmenn bæru fjárhagslega áhættu vegna kaupanna og hafi engin ákvörðun verið tekin um slíka stefnubreytingu af hálfu stjórnar stefnanda, hvorki fyrr né síðar. 

                Vegna lækkunar á verði hlutabréfa í stefnanda hafi stefnandi þurft að taka afstöðu til þess hvort nýta skyldi þær heimildir sem fólust í lánssamningum og handveðsyfirlýsingu og krefja stefnda og aðra starfsmenn um frekari tryggingar vegna skulda við stefnanda eða hreinlega selja hina veðsettu hluti til uppgjörs á skuldinni. Hefði það verið hagfelldast fyrir stefnda og forðað honum frá tjóni. Samkvæmt skilmálum lánssamnings og handveðsyfirlýsingar hafi stefnda verið óheimilt að selja hlutabréf í stefnanda nema með hans samþykki. Stefnandi hafi því í raun farið með ráðstöfunarrétt á hlutabréfum stefnda og þ.a.l. ákvörðunarvald um hvort þau skyldu seld til efnda skuldbindingar stefnda.

                Á stjórnarfundi 25. september 2008 hafi stjórn bankans samþykkt að fela forstjóra félagsins að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna þannig að ábyrgð þeirra myndi takmarkast við þær tryggingar sem lagðar hefðu verið fram til greiðslu lána. Á þeim tíma hafi tryggingarstaða stefnda verið góð þó svo verðmæti veða hafði vissulega lækkað vegna lækkunar gengis stefnanda. 

                Á grundvelli laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið 21. október 2008 að taka yfir hluta af réttindum og skyldum stefnanda og færa þau yfir í Nýja Kaupþing banka hf. Meðal þeirra réttinda sem á þessum grundvelli hafi verið flutt yfir í Nýja Kaupþing banka hf. hafi verið kröfur á hendur starfsmönnum vegna lánveitinga til hlutafjárkaupa, þar með talið láns­samningar stefnanda og stefnda enda hafi þessar kröfur ekki verið undanskildar í viðauka.  

                Í kjölfar fall bankans 9. október 2008 hafi starfsmenn talið nauðsynlegt að eyða óvissu varðandi lánin og ganga til samninga um uppgjör þeirra þar sem tekið væri m.a. tillit til óvissu um réttmæti kröfunnar. Af hálfu starfsmanna hafi strax verið gerð tillaga um að vikið yrði frá ákvörðun bankans þann 25 september 2008 og gengið til samninga við hvern og einn starfsmann á svipuðum kjörum og reglur bankans um niðurfellingu skulda einstaklinga geri ráð fyrir. Þessar hugmyndir hafi einnig verið kynntar starfsmönnum PWC sem endurmetið hafi eignir yfir í nýja bankann, Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu sem fulltrúa eiganda nýja bankans. Bráðabirgðastjórn bankans hafi samþykkt að óska eftir lögfræðiáliti um réttarstöðu bankans vegna starfsmannalána og Viðar Már Matthíasson prófessor og Hörður Felix Harðarson lögmaður skilað álitum sínu í nóvember 2008.

                Í upphafi aðalmeðferðar málsins voru lagðar fram af hálfu beggja málsaðila í endurriti skýrslur sem vitni gáfu við aðalmeðferð tveggja annarra einkamála er dæmd voru 9. maí 2011 og varða samkynja sakarefni og það er hér er til meðferðar. Er um að ræða mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-5862/2010 og nr. E-4903/2010. Voru aðilar þessa máls sammála um að leggja skýrslur greindra vitna til grundvallar niðurstöðu þessa máls. Verður framburður vitnanna rakinn hér á eftir.  

                Ásgeir Thorodssen kvaðst hafa verið kjörinn í stjórn stefnanda á árinu 2003 og setið í stjórn allt til falls bankans á árinu 2008. Undirnefnd stjórnar hafi verið svokölluð starfskjaranefnd og hafi Ásgeir verið formaður þeirrar nefndar. Hlutverk starfskjaranefndar hafi verið að móta launastefnu í bankanum og að semja um laun við forstjóra og stjórnarformann bankans. Ný heildstæð launastefna hafi verið kynnt á aðalfundi í bankanum á árinu 2004. Þá hafi verið farið yfir grundvallaratriðin í stefnunni. Í þeirri stefnu hafi verið tengdir saman hagsmunir lykilstarfsmanna bankans og hluthafa bankans sjálfs. Með lykilstarfsmönnum hafi verið átt við æðstu stjórnendur bankans, eins og framkvæmdastjóra mismunandi sviða og æðstu stjórnendur í aðalbanka og sviða hans. Eins hafi fallið undir skilgreininguna æðstu stjórnendur í stærstu útibúum bankans. Slík stefna hafi ekki verið nein nýlunda á þeim tíma þar sem slíkt hafi verið alþekkt í fjármálaheiminum. Stefnan hafi falið það í sér að bankinn hafi fjármagnað kaup lykilstarfsmanna á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Útgangspunkturinn hafi verið sá að bankinn fjármagnaði kaupin sjálfur þannig að starfsmennirnir færu ekki að gera það sjálfir t.d. með lánum í öðrum bönkum. Með þessum hætti hafi verið við það miðað að starfsmenn gætu eignast allt að 9% af heildarhlutafé í bankanum. Gengið hafi verið út frá því að um langtímafjárfestingu væri að ræða. Á henni gætu starfsmenn hagnast ef bréf myndu hækka umfram kostnað starfsmanna af þeim. Lykilatriði hafi hins vegar verið að viðkomandi starfsmenn tækju ekki of mikla áhættu samfara kaupunum. Það atriði hafi endurspeglast í starfskjarastefnunni sem samþykkt hafi verið 2004 og áréttuð fyrir árin 2005 til 2008. Umræddir lykilstarfsmenn hafi átt að eiga bréfin sem ígildi lífeyrissjóðs á meðan þeir störfuðu hjá bankanum. Að mati nefndarmanna í starfskjaranefndinni hafi þeir ekki mátt selja bréfin á meðan þeir væru við störf í bankanum. Útfærsla á því fyrirkomulagi hafi hins vegar verið í höndum forstjóra bankans. Stjórn bankans eða nefndarmenn í starfskjaranefnd hafi ekki komið að þeirri útfærslu. Þannig hafi bankinn átt að móta stefnu sem tryggði skaðleysi lykilstarfsmanna og kæmi skaðleysisákvæðið fram í starfskjarastefnu sem samþykkt hafi verið 2004 og endurnýjuð árin 2005 til 2008. Það hafi t.d. verið gert með þeim hætti að bankinn yrði að kaupa hlutabréf af þessum lykilstarfsmönnum ef gengi bréfa færi niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk. Starfskjaranefndin hafi fjallað um skaðleysið en ekki útfært það. Vandamál hafi risið varðandi útreikning á eigin fé bankans. Það vandamál hafi í raun ekki komið til starfskjaranefndarinnar en vitað hafi verið um að afnema hafi þurft sölurétt starfsmanna vegna útreikninga á eigin fé bankans. Í staðinn hafi komið ákvæði um veðþekju og 10% ábyrgð starfsmanna á lánum. Þessi útfærsla hafi leitt til vandræða á árinu 2008 sem ekki hafi verið séð fyrir. Forstjóri félagsins hafi á árinu 2006 óskað eftir því að fá að færa hlutabréfaeign sína í sérstakt einkahlutafélag. Málið hafi verið tekið upp í stjórn stefnanda. Samþykkt hafi verið að heimila forstjóranum þetta. Skýrt hafi komið fram að það fyrirkomulag að lykilstarfsmenn ættu bréf í bankanum ætti aldrei að geta leitt til þess að þeir yrðu persónulega gjaldþrota. Á árinu 2008 hafi verðmæti hlutabréfa lækkað. Ekki hafi lykilstarfsmenn stefnanda snúið sér sérstaklega til starfskjaranefndarinnar vegna beiðna um sölu bréfa. Í febrúar 2008 hafi ástandið verið rætt þar sem einhverjir lykilstarfsmanna hafi verið með miklar áhyggjur af stöðu sinni. Þá hafi verið ákveðið að gera ekki veðköll gagnvart þeim þar sem bankinn hafi ekki viljað að lykilstarfsmenn seldu bréf sín. Á fundi í stjórn 25. september 2008 hafi verið ákveðið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna. Þá hafi ekki legið fyrir að bankinn væri ógjaldfær. Á fundi 25. og 26. september 2008 hafi verið farið yfir stöðu bankans og útlitið verið mjög gott miðað við horfur á markaði.

                Bjarnfreður Ólafsson, Gunnar Páll Pálsson og Brynja Halldórsdóttir áttu öll sæti í stjórn stefnanda. Bjarnfreður tók sæti í stjórn á árinu 2003, Gunnar Páll á árinu 2001 eða 2002 og Brynja á árinu 2004. Staðfestu þau öll að starfskjarastefna fyrir stefnanda hafi verið samþykkt á aðalfundi á árinu 2004. Í þeirri stefnu hafi falist að starfsmenn stefnanda hafi átt að eiga þess kost að kaupa allt að 9% af heildarhlutabréfum í stefnanda. Með því hafi verið tengdir saman hagsmunir hluthafa í stefnanda og hagsmunir lykilstarfsmanna stefnanda. Út frá því hafi verið gengið að stefnandi veitti umræddum starfsmönnum lán til hlutabréfakaupanna. Með þessum hætti hafi starfsmenn átt að njóta ávinnings af hækkun bréfa en ekki þurfa að taka á sig tap ef illa færi. Starfsmennirnir hafi í upphafi verið með sölurétt sem hafi átt að tryggja skaðleysi þeirra af hlutabréfakaupunum, en skaðleysið hafi verið útgangspunktur við kaupin. Þá hafi starfsmennirnir átt að eiga bréfin til langframa, en það hafi verið hin almenna stefna. Þó svo einstök lán hafi verið í tilteknum tímaramma hafi fjárfestingin verið til langframa. Vandkvæði hafi komið upp varðandi sölurétt starfsmanna og áhrif hans á útreikning á eigin fé stefnanda. Hafi það leitt til þess að starfsmenn hafi fallið frá söluréttinum. Stjórn stefnanda hafi ákveðið að finna aðra leið til að tryggja skaðleysið og falið forstjóra og stjórnarformanni að finna leið til þess. Hafi stjórnin sjálf ekki verið með á sinni hendi að útfæra skaðleysisákvæðin. Ekki hafi gengið auðveldlega að finna leið við að tryggja áframhaldandi skaðleysi en ljóst væri að algert skaðleysi hafi ekki verið fyrir hendi þar sem starfsmenn hafi borið ábyrgð á 10% af lánaskuldbindingum tengdum kaupum á hlutabréfum í stefnanda. Hafi starfsmönnum stefnanda verið kunnugt um þá afstöðu stjórnenda stefnanda að þeir ættu að eiga bréfin til langframa. Ekki hafi legið fyrir algjört bann við sölu bréfa en almennt hafi verið við það miðað að starfsmenn seldu ekki bréf sín þar sem um væri að ræða langtímafjárfestingu. Af þessum ástæðum hafi legið ljóst fyrir að dræmt yrði tekið í beiðnir um sölu bréfa. Ljóst hafi legið fyrir að ekki ætti að ganga að einstökum lykilstarfsmönnum vegna skaðleysisákvæðanna. Hafi hagur bankans þar verið hafður að leiðarljósi. Staðfestu stjórnarmann að á stjórnarfundi 25. og 26. september 2008 hafi verið tekin sú ákvörðun að fella niður persónulegar ábyrgðir lykilstarfsmanna. Á þessum fundi hafi staða bankans verið rædd og legið fyrir það mat að staða bankans væri góð.

                Sigurður Einarsson kvaðst hafa verið forstjóri stefnanda frá 1996 til 2003 og stjórnarformaður bankans frá því ári til loka. Á vegum bankans hafi verið í gildi starfskjarastefna fyrir starfsmenn. Sú stefna hafi gengið út á að bankinn héldi í sína lykilstarfsmenn til langs tíma. Þannig hafi farið saman hagsmunir hluthafa bankans og umræddra lykilstarfsmanna. Slíkt fyrirkomulag hafi þá verið þekkt í starfsemi banka á alþjóðavettvangi. Stefnan hafi verið útfærð á árinu 2003 og lögð fyrir hluthafafund á árinu 2004. Á þeim fundi hafi formaður starfskjaranefndar gert grein fyrir inntaki þeirrar stefnu. Áttu starfsmenn þess kost að eiga allt að 9% af heildarhlutafé í bankanum og það til lengri tíma. Fyrir þeim kaupum áttu starfsmennirnir að fá lán frá bankanum sjálfum og eiga þau út lánstímann. Skaðleysi tengt kaupunum hafi verið tryggt með svokölluðum sölurétti starfsmanna. Á árinu 2005 hafi alþjóðlegar reikningsskilareglur leitt til þess að hverfa hafi þurft frá ákvæðum um sölurétt starfsmanna á bréfum. Hafi það verið tengt útreikningi á eigin fé bankans. Í kjölfarið hafi framkvæmdinni verið breytt en það sérstaklega fært til bókar að skaðleysi starfsmanna yrði áfram tryggt. Hafi einungis verið um að ræða tæknilegt atriði að finna leið til að tryggja starfsmönnum áframhaldandi skaðleysi. Á þeim forsendum hafi einstakir starfsmenn verið tilbúnir til að falla frá sölurétti á bréfum sínum. Á árinu 2007 hafi hins vegar komið í ljós að skaðleysisákvæðin hafi ekki alls kostar gengið eftir. Gengið hafi verið út frá því að bréf starfsmanna yrðu seld færi gengi þeirra niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk. Gengið hafi verið út frá því að viðkomandi starfsmenn ættu bréfin á meðan þeir væru við störf í bankanum. Þegar gengi bréfa hafi lækkað og veðþekja farið niður fyrir viðmiðunarmörk hafi verið ákveðið að nýta ekki ákvæðin í samningum og selja bréfin. Hafi það ekki verið fær leið fyrir bankann sjálfan og hagsmuni hans. Ef lykilstarfsmenn hefðu selt hefði það sent slæm skilaboð út á markað. Haf staðan einfaldlega verið sú að bankinn hafi átt að tryggja einstaka starfsmenn fyrir skaðleysi. Engin mál tengd einstökum beiðnum um sölu hafi komið inn á borð Sigurðar. Honum hafi hins vegar verið kunnugt um að ef persónulegar aðstæður starfsmanna hafi verið með þeim hætti hafi verið skoðað að heimila einstaka sölur. Einstaka starfsmenn hafi komið til Sigurðar á árunum 2007 og 2008 og Sigurður fullvissað starfsmennina um að skaðleysi þeirra væri tryggt og að lausn yrði fundin á þeirra málum. Sigurður kvaðst ekki muna eftir einstaka tilviki þar sem starfsmanni hafi verið neitað um sölu en starfsmönnum hafi átt að vera ljóst að þeir fengju ekki að selja bréfin. Þau skilaboð hafi starfsmönnum átt að vera ljós. Í upphafi árs 2008 hafi stjórnendum verið ljóst að upp yrði að taka mál tengd hlutabréfakaupum starfsmanna. Á fundi 25. og 26. september 2008 hafi verið tekin ákvörðun um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna. Hafi sú ákvörðun verið í samræmi við gefin loforð til starfsmanna um skaðleysið. Á þeim fundi hafi legið fyrir að staða bankans væri traust í samanburði við stöðu banka almennt á fjármálamarkaði. Bankinn hafi hvergi verið í vanskilum og með mikið reiðufé. Í kjölfar þess að yfirvöld í Bretlandi hafi yfirtekið dótturfélag stefnanda í Bretlandi hafi allir lánssamningar stefnanda verið gjaldfelldir, en ákvæði í þeim hafi heimilað slíkt við þær aðstæður að eining á stærð við dótturfélagið hafi verið yfirtekin. Enginn banki hafi getað staðið af sér þær aðstæður að allir lánssamningar væru gjaldfelldir. Þær aðstæður hefðu ekkert með laust fé bankans að gera. Útilokað hafi verið að stjórnendur stefnanda hafi í lok september 2008 getað séð fyrir þá atburðarás sem orðið hafi 9. október 2008.

                Hreiðar Már Sigurðsson kvaðst hafa verið gerður að aðstoðarforstjóra stefnanda á árinu 1998 og forstjóra stefnanda á árinu 2003. Því starfi hafi hann gegnt þar til yfir lauk. Er hugað hafi verið að því að skrá bankann á markað á árinu 2000 hafi starfskjarastefna fyrir bankann verið til umræðu. Þá hafi verið stefnt að því að tengja saman hagsmuni eigenda bankans og einstaka lykilstarfsmanna. Það hafi verið algeng aðferð á fjármálamarkaði á þeim tíma. Á árunum 2003 og 2004 hafi stefnan verið útfærð. Við það hafi verið miðað að einstaka lykilstarfsmenn gætu keypt hlutabréf í bankanum. Hlutabréfin ættu starfsmennirnir lánstímann. Af þessum kaupum hafi starfsmenn átt að geta hagnast við starfslok. Skaðleysi starfsmannanna af kaupunum yrði tryggt með sölurétti þeirra á bréfunum. Vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi stefnunni lítillega verið breytt á þann veg að bankinn sjálfur myndi lána fyrir kaupum á bréfunum. Á sama tíma hafi söluréttur starfsmanna verið felldur niður vegna reglna um útreikning á eigin fé bankans. Þrátt fyrir þá ráðstöfun hafi verið fært til bókar að skaðleysi starfsmanna yrði áfram tryggt. Hafi starfsmenn fallist á að falla frá söluréttinum. Hafi verið gerður við þá skriflegur samningur þar sem miðað hafi verið við að þeir bæru takmarkaða ábyrgð á lánaskuldbindingum. Þá hafi verið ákvæði í lánssamningum sem hafi miðað við að bankinn myndi selja bréf starfsmanna ef gengi þeirra færi niður fyrir viðmiðunarmörk. Seinni hluta árs 2007 hafi komið í ljós að útfærslan á skaðleysinu hafi farið á skjön við starfskjarastefnu þá sem gilt hafi. Útfærslan hafi leitt til þess að starfsmenn hafi nánast verið þvingaðir til sölu við ákveðnar aðstæður. Í upphafi árs 2008 hafi verið tekin sú ákvörðun að þvinga starfsmenn ekki til sölu. Í skýrslu ytri endurskoðanda, KPMG, á þeim tíma hafi komið fram að stjórn stefnanda hafi ákveðið að nýta ekki veðköll vegna bréfanna. Margir starfsmenn hafi haft áhyggjur af stöðunni og verið í sambandi við forstjóra. Hafi þeir verið að spyrjast fyrir um stöðu mála. Í þágu bankans og stefnu hans hafi verið að þvinga ekki fram sölur á bréfum. Lykilstarfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir því að kaup þeirra í bankanum væri langtímafjárfesting og að ekki hafi verið ætlast til að þeir seldu bréfin á meðan þeir væru við störf. Einhver dæmi hafi þó verið um að starfsmenn hafi fengið að selja. Hafi það verið vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi. Þau mál hafi þó ekki verið á borði Hreiðars sjálfs. Ekki kvaðst Hreiðar viss um hvort einhver dæmi hafi verið þess efnis að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín án heimildar. Þessi mál hafi m.a. verið rædd við starfsmannastjóra stefnanda eftir að bréf hafi tekið að falla í verði. Skilaboð til starfsmanna hafi verið þau að unnið væri að lausn málsins. Erfitt væri þó að segja til um hvernig brugðist hafi verið við einstaka beiðni um sölu. Í upphafi árs 2008 hafi þessi vandi verið til umræðu. Stjórnarfundir í stefnanda hafi verið haldnir í september ár hvert. Það hafi því legið fyrir að á fundi í september 2008 yrðu þessi mál til meðferðar, en starfskjarastefnan hafi jafnan verið til meðferðar á þeim fundi. Á fundinum 25. og 26. september 2008 hafi stjórn ákveðið að fella niður ábyrgðir starfsmanna. Á þeim tíma hafi staða bankans verð mjög góð. Hafi það verið skoðun stjórnar eftir þann fund að bankinn væri að komast út úr þeim stormi er ríkt hafi á fjármálamörkuðum heims. Hafi lausafjárstaða bankans verið að batna á þeim tíma en innlánasöfnun hafi gengið vel. Fall Glitnis banka og Landsbanka Íslands hafi gert það að verkum að yfirvöld í Bretlandi hafi tekið yfir Singer og Friedland. Lánssamningar hafi gert það að verkum að bankinn hafi fallið þar sem í öllum samningum hafi verið gjaldfellingarákvæði sem hafi orðið virkt við aðgerðirnar í Bretlandi. 

                Svali Björgvinsson kvaðst hafa verið starfsmannastjóri hjá stefnanda frá í september 2003. Hafi hann gegnt því starfi þar til í febrúar eða mars 2009. Kvaðst hann þekkja þá starfskjarastefnu er samþykkt hafi verið á aðalfundi stefnanda á árinu 2004. Meginatriðin hafi verið þau að lykilstarfsmenn ættu að eiga hlut í bankanum sem væru fjármagnaðir með lánum úr bankanum sjálfum. Hlutina hafi starfsmennirnir átt að eiga til langframa og væri engin fjárhagsleg áhætta fyrir starfsmennina tengd því. Með eign til langframa hafi verið átt að lykilstarfsmennirnir myndu ekki selja bréfin. Söluréttur hafi verið felldur niður af bréfunum á árinu 2005 án þess að breytingar hafi verið gerðar á starfskjarastefnunni. Öll þessi atriði hafi komið fram í samtölum Svala við stjórnendur bankans og afstaða stjórnendanna verið skýr. Eftir að gengi bréfa hafi tekið að lækka hafi fjöldi starfsmanna komið að máli við Svala og lýst áhyggjum sínum af stöðu mála. Eins hafi starfsmenn spurst fyrir um hvort þeir mættu setja hlutabréfaeign sína í einkahlutafélög. Hafi Svali komið þeim skilaboðum áleiðis til stjórnenda stefnanda. Eins hafi hann sjálfur hvatt starfsmenn til að hafa samband við stjórnendurna. Skýr afstaða stjórnenda hafi verið að starfsmenn myndu ekki selja bréf sín og að verið væri að vinna að lausn málsins. Þá hafi Svali vitað að ekki væri vel tekið í hugmyndir um að setja eignir í einkahlutafélög. Hafi Svali m.a. farið á fund með forstjóra 17. júlí 2008 þar sem þetta hafi komið skýrt fram. Ekki kvaðst Svali hafa haft vitneskju um að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín í bankanum fyrir fall hans. Hann hafi hins vegar frétt eftirá að einhverjir slíkir hafi sett hluti sína í einkahlutafélög.

                Helgi Sigurðsson kvaðst hafa verið gerður að framkvæmdastjóra lögfræðisviðs stefnanda 2002 og hafi hann gegnt því starfi til falls bankans. Fyrirkomulag tengt starfskjarastefnu starfsmanna bankans hafi verið til umræðu í tengslum við skráningu bankans á markað á árinu 2000. Þá hafi verið uppi hugmyndir um að starfsmenn gætu fengið lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Málið hafi verið rætt við Fjármálaeftirlitið og hvort einstaka starfsmenn gætu stofnað einkahlutafélög til að halda utan um hlutabréfaeign sína. Það hafi að mati eftirlitsins ekki reynst unnt og fyrir því verið færðar tilteknar ástæður. Í tenglum við það hafi verið umræða um atriði eins og hver mætti veita slík lán og stærð hluta. Þá hafi verið rætt um skaðleysi starfsmanna og söluréttur nefndur í því sambandi. Helgi kvaðst hafa verið ritari stjórnar á aðalfundum í stefnanda. Starfskjarastefna bankans hafi verið kynnt á aðalfundi bankans á árinu 2004. Í tengslum við aðalfundinn á árinu 2004 hafi Helgi komið að máli við Ásgeir Thorodssen formann starfskjaranefndar til að ræða það efni. Þá hafi m.a. verið rætt um hvort heppilegt gæti verið að stofna félag eða sjóð utan um eign starfsmanna á hlutabréfum. Söluréttur starfsmanna hafi verið felldur niður á árinu 2005 vegna breyttra reglna um útreikning á eigin fé bankans. Skýrt hafi legið fyrir að tryggja hafi átt skaðleysi starfsmanna af hlutabréfakaupum í stefnanda. Afgreiðsla stjórnar á árinu 2005 hafi áfram miðað við að tryggja skaðleysi starfsmanna. Stjórnin hafi hins vegar ekki komið að útfærslu þess kerfis er nota hafi átt í þeim efnum, heldur hafi það verið í verkahring forstjóra að hafa það með höndum. Helgi kvaðst sjálfur ekki hafa komið að því máli. Sú útfærsla sem komið hafi í ljós hafi hins vegar verið slæm. Ekki hafi lengur verið til staðar hjá starfsmönnum forræði á efninu, heldur hafi það alfarið verið hjá bankanum sjálfum. Starfsmenn hafi getað staðið allt af sér tengt hlutabréfaeigninni á meðan þeir hafi haft söluréttinn. Ekkert sambærilegt því hafi komið með hinu nýja fyrirkomulagi. Inn hafi verið tekin ákvæði um handveðsrétt í bréfunum en eftir það og samkvæmt lögum um samningsveð hafi forræðið eftir það allt verið hjá bankanum. Eftir þetta hafi einstaka starfsmenn ekki getað selt bréf án heimildar frá bankanum. Aflétta hafi þurft handveðsetningunni ef til sölu hafi átt að koma. Ekki hafi Helga verið ljóst að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín fyrr en eftir fall bankans. Upplýst hafi verið um þau tilvik í tengslum við álitsgerð sem Viðar Már Matthíasson lagaprófessor hafi unnið fyrir bankann. Bankinn hafi ákveðið að gera engin veðköll eftir að veðþekja hjá einstaka starfsmönnum hafi farið undir viðmiðunarmörk. Hafi það m.a. komið fram í skýrslu ytri endurskoðanda félagsins fyrir árið 2008. Hið umrædda sölubann hafi tekið til lykilstarfsmanna hjá stefnanda. Ef þessir starfsmenn hafi keypt bréf í bankanum fyrir utan þetta fyrirkomulag hafi ekkert verið til staðar sem bannað hafi starfsmönnunum að selja þau bréf. Einhver tilvik hafi verið þar sem starfsmenn hafi óskað eftir sölu bréfa og þá við sérstakar aðstæður. Hafi það verið heimilað við aðstæður eins og vegna hjónaskilnaða, fjölskylduerfiðleika og þess háttar. Þá hafi legið ljóst fyrir að einstaka starfsmenn hafi getað selt bréf sín væru þeir að hætta störfum fyrir bankann. Afstaða stjórnar stefnanda hafi verið skýr um það að lykilstarfsmenn mættu ekki selja bréf sín. Sú aðgerð stjórnar bankans að fella niður persónulega ábyrgð á aðalfundinum 25. og 26. september 2008 hafi verið sjálfgefin í ljósi forsögu málsins. Bankinn hafi verið að uppfylla áður gefin loforð um skaðleysi. 

                María Sigurðardóttir Norðdahl kvaðst hafa verið starfsmaður hjá stefnanda frá árinu 2006 og allt til falls bankans. Hafi hún haldið utan um afleiðusamninga um hlutabréfaeign og verðbréfaeign í bankanum. Er hlutabréf hafi tekið að lækka á árinu 2007 hafi óbreyttu verklagi verið fylgt í bankanum. Ef trygging bankans hafi farið niður fyrir viðmiðunarmörk hafi verið beitt svokölluðum veðköllum.

                Helgi Bragason kvaðst hafa verið lánastjóri í lánadeild bankans. Hafi hann haft með lánveitingar til hlutabréfakaupa í bankanum að gera. Veðköll hafi verið tíðkuð ef veðþekja hafi farið niður fyrir tiltekin mörk. Ef veðköllum hafi verið sinnt með auknum tryggingum hafi málið verið úr sögunni. Annars hafi verið gripið til þess ráð af hálfu bankans að selja umrædd bréf og ráðstafa fjármunum inn á lán tengd kaupum á bréfunum. Með þessum hætti hafi almennir viðskiptavinir í stefnanda fengið veðkall ef skilyrði til þess hafi skapast. Hafi Helgi fengið tilkynningu frá framkvæmdastjóra viðskiptabanka um að bankinn gengi ekki að veðum viðkomandi lykilstarfsmanna þó svo veðþekjan færi niður fyrir viðmiðunarmörk.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi máls þessa byggja kveðst aðild til sóknar á 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þar sem kveðið sé á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Enda þótt lánssamningar þeir, sem hin persónuleg ábyrgð stefnda hafi lotið að, hafi verið framseldur Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins standi slíkt ekki í vegi því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda verið að endurheimta verðmæti sem Kaupþing banki hf. hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Arion banka hf. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta með málshöfðun þessari. Lánssamningar stefnda við Kaupþing banka hf. hafi 25. september 2008 verið eign bankans. Þann sama dag hafi verðmæti þeirra verið rýrt með því að fella niður persónulega ábyrgð lántakanda. Þannig hafi sú rýrnun átt sér stað á sama tíma sem bankinn hafi átt lánssamningana. Sú staðreynd að lánin hafi eftir það verið flutt yfir til Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 breyti ekki þeirri staðreynd að niðurfelling ábyrgðarinnar hafi þá átt sér stað. Því sé krafan um endurgreiðslu á auðgun stefnda eign stefnanda. 

                Stefnandi byggi aðallega á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laganna megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Umþrætt niðurfelling og þar með gjafagerningur að mati stefnanda, hafi átt sér stað 25. september 2008. Frestdagur sé 15. nóvember 2008. Gjöfin hafi þannig verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í skilningi tilvísaðs ákvæðis.

                Gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991 sé talið hafa þrjú meginskilyrði. Í fyrsta lagi að gjöfin rýri eignir skuldara, í annan stað að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda og í þriðja lagi að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt. Að því er varði fyrsttalda skilyrðið þá telji stefnandi óumdeilt að það skilyrði teljist uppfyllt. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að niðurfærsla hinnar persónulegu ábyrgðar hafi falið í sér eftirgjöf kröfuréttinda af hálfu stefnanda, en eftirgjöf kröfuréttinda geti m.a. talist til gjafagernings í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Af ráðstöfuninni hafi leitt að stefnandi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings. Ráðstöfunin hafi þegar af þessum ástæðum leitt til rýrnunar á eignum stefnanda.

                Að því er varði annað skilyrðið, um auðgun móttakanda, þá telji stefnandi að það skilyrði sé jafnframt uppfyllt. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefndi sé laus undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti um leið fjármuna sem hefðu að öðrum kosti runnið til stefnanda og um leið kröfuhafa hans. Af framangreindu sé ljóst að ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefnda, enda tilgangur ráðstöfunarinnar beinlínis að fella niður persónulegar skuldbindingar stefnda.

                Að því er þriðja skilyrðið varði, þ.e. að gjafatilgangi sé til að dreifa, þá telji stefnandi jafnframt ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt. Að mati stefnanda verði ekki séð að ráðstöfunin hafi haft annan tilgang en að ívilna stefnda, ásamt öðrum starfsmönnum, og létta af þeim fjárhagslegar byrðar á kostnað bankans þannig að þeir hafi getað einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans á erfiðleikatímum. Hafi stefndi og aðrir starfsmenn, verið leyst undan persónulegri greiðsluábyrgð og um leið á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Ákvörðun bankans hafi verið tekin þegar fyrirsvarsmönnum hafi verið, eða mátti vera ljóst, að tekið hafi verið að fjara undan fjárhag bankans eða a.m.k. hætt við að svo yrði í ljósi þess ástands sem þá hafi ríkt í bankakerfinu, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað. Telji stefnandi að um sé að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi umrædd ákvörðun bankans hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu hans.

                Verði ekki falist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggi stefnandi til vara á því að hún sé riftanlega á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Samkvæmt tilvísuðu ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af henni hafi vitað eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Samkvæmt 141. gr. sé það þannig skilyrði riftunar að ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg, hin ótilhlýðilega ráðstöfun falli í einn hinna þriggja flokka sem taldir séu upp í ákvæðinu, skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt.

                Stefnandi telji ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu stefnanda gagnvart stefnda án þess að nokkuð endurgjald hafi komið fyrir. Ekki verði séð að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefnda, svo og annarra starfsmanna bankans, hafi verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna starfsmönnum í þeirri stöðu sem upp hafi verið komin. Ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili í starfsemi bankans og fyrirsvarsmönnum bankans, sem tóku ákvörðun um ráðstöfunina, mátt vera það ljóst. Af þessu leiði að eftirgjöf kröfuréttindanna geti ekki talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og á hafi staðið. Þá telji stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda, hér kröfuréttindi, hafi ekki getað orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda hafi leitt til þess að stefndi hafi losnað undan persónulegri greiðsluskyldu. Með því hafi stefnandi og kröfuhafar hans orðið fyrir tjóni sem því nemi, enda ljóst að eftir það hafi ekki verið unnt að ganga að stefnda persónulega um greiðslu skuldarinnar.

                Stefnandi byggi jafnframt á því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á tímamarki ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé á því byggt að fjárhagsstaða stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar, 25. september 2008, hafi verið orðin slík að hann hafi í raun ekki verið fær um að greiða skuldir sem fallið hafi á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Sé þannig á því byggt að á þessu tímamarki hafi í raun að óbreyttu verið ljóst, eða því sem næst, að fyrirsjáanlegt greiðsluþrot hafi blasað við stefnanda og eins og síðar hafi komið á daginn. Þannig hafi stefndi orðið greiðsluþrota skömmu síðar og fyrir frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað.

                Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndi hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Stefnandi bendi á að grandsemiskilyrði 141. gr. sé talið fullnægt ef móttakanda hefði átta að gruna að skuldari væri ógjaldfær. Í ljósi þess sé á því byggt að stefndi, stöðu sinnar vegna sem framkvæmdarstjóri viðskiptaþróunar Kaupþings banka hf., hafi vitað eða mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 og jafnframt um þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg í þeim skilningi sem getið er hér að framan.

                Stefnandi vísi til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. – 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, svo sem stefnandi krefjist, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt.

                Stefnandi byggi á því að auðgun stefnda svari til hinnar persónulegu ábyrgðar sem hafi verið felld niður. Ef ekki hefði komið til niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar stefnda á láni gagnvart stefnanda, hefði stefnandi getað krafið stefnda persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun bankans hafi sá möguleiki stefnanda verið felldur niður og hafi það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari jafnframt til þeirrar auðgunar stefnda.

                Krafa stefnanda sundurliðist þannig:

Samningur 3015

Uppgreiðsluverðmæti þess hluta lánssamnings sem notaður

var til hlutabréfakaupa lána 25.09.2008                                                     2.177.032.066 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                                        217.703.206 kr.

Samningur 4735

Uppgreiðsluverðmæti 25.09.2008                                                                 19.875.937 kr.

Samningur 5094

Uppgreiðsluvermæti 25.09.2008                                                                    403.240.068 kr.

Samningur 6042

Uppgreiðsluvermæti 25.09.2008                                                                    183.042.330 kr.

                Fjárhæðir skv. ofanrituðu byggist á samantekt PricewaterhouseCoopers hf. sbr. dómskjal nr. 10.

                Verði hins vegar á því byggt, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010 og 153/2010, að lán stefndu sé lán í íslenskum krónum tengt við gengi erlendra gjaldmiðla, og þannig að brjóti í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, leggur stefnandi fram varakröfu til samræmis við fjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Um sundurliðun varakröfu sé vísað til útreiknings  PricewaterhouseCoopers hf. á dómskjali nr. 32. Varakrafan byggist á því að verði lánssamningar aðila talinn fela í sér skuldbindingu í íslenskum krónum með óheimilli viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla miðist vaxtaútreikningar lánssamninga við almenna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Varakrafa byggist að öðru leyti á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og byggt sé á í aðalkröfu.

                Varakrafa sundurliðist þannig:

1.Lánssamningur nr. 3015 með 10% takmörkun                       160.715.332 kr.

2. Lánssamningur nr. 4735                                                             15.473.520 kr.

3. Lánssamningur nr. 5094                                                             403.240.067 kr.

4. Lánssamningur nr. 6042                                                              131.905.656 kr.

                Samtals                                                                                717.334.575 kr.

                Það athugist að 16.573954% af lánssamningi nr. 3015 hafi ekki verið notað til hlutabréfakaupa, sbr. dskj. nr. 11. Heildarfjárhæð lánsins sé 1.998.360.704 krónur miðað við gengisdóma Hæstaréttar. Þegar dregin hafi veri 16.573954% sé fjárhæðin 1.667.153.327 krónur. Krafið sé um 10% af þeirri fjárhæð.

                Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2008 til greiðsludags. Vísist um það til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun fór fram.

                Stefnandi vísi til þess að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggi á því að tjón stefnanda, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu stefnanda. Sé þannig á því byggt að niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefnandi og kröfuhafar hans hafi ekki fengið notið þeirra kröfuréttinda á hendur stefnda sem þau hefðu ellegar átt á grundvelli lánssamninga stefnanda og stefnda. Tjón stefnanda svari til fjárhæðar hinna niðurföllnu kröfuréttinda eða 823.861.541 krónu. Sé jafnframt krafist dráttavaxta frá sama tímamarki og í auðgunarkröfu en til vara frá dagsetningu riftunarbréfs stefnanda. Af framansögðu leiði að fjár- og dráttarvaxtakrafa stefnanda, bæði að því er varðar auðgunar- og skaðabótakröfu, sé hin sama.

                Að því er varðar kröfu um staðfestingu kyrrsetningar hafi Héraðsdómur Reykjavíkur með dómum í málum nr. E-5862/2010 og nr. E-4903/2010 staðfest riftunarkröfu stefnanda í sambærilegum riftunarmálum og höfðað hafi verið til staðfestingar á riftun slitastjórnar á niðurfellingu ábyrgðar stefnda. Ekki hafi komið fram af hálfu stefnda aðrar mótbárur gegn riftunarkröfu stefnanda en fram hafi komið í framangreindum dómsmálum. Stefndi hafi þó krafist frávísunar málsins vegna þess að hann eigi varnarþing erlendis. Með ákvörðun í héraðsdómsmálinu nr. E-7492/2010 hafi slíkri kröfu verið hafnað. Þar sem um sé að ræða sambærileg mál megi því telja á því miklar líkur að dómur í máli stefnanda gegn stefnda verði stefnanda í vil. Telji stefnandi því að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 sé uppfyllt. 

                Vegna þess álags sem sé á dómstólum nú um stundir sé þó ljóst að nokkur tími muni líða uns endanleg dómsniðurstaða liggi fyrir í máli stefnanda á hendur stefnda. Stefnandi fullyrði að stefndi hafi að undanförnu haft frammi þær ráðstafanir sem telja megi líklegar til að minnka og takmarka líkur á að takist að fullnusta kröfu stefnanda á hendur stefnda þegar dómur hafi gengið um hana sbr. og skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990. Þá beri einnig að hafa í huga að efnahagsstaða stefnda hafi versnað mjög með framangreindum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur enda hafi með þeim dómum aukist mjög líkur á að sambærilegt mál stefnanda gegn stefnda fari á sama hátt. Af því leiði að hvati hafi aukist mjög fyrir stefnda til að hafa uppi þær aðgerðir sem kunni að leiða til þess að hagsmunum stefnanda sé stefnt í hættu.

                Í annan stað þá liggi einnig fyrir að krafa sú er liggi að baki kyrrsetningarbeiðni þessari sé mjög há og kunni það því að leiða til þess að enn frekari ástæða sé fyrir stefnda að koma eignum undan enda standi líkur til þess að gangi endanlegur dómur stefnanda í vil muni eigur stefnda ganga að mestu eða öllu leyti til stefnanda og ef til vill annarra kröfuhafa stefnda. Stefnandi telji að eignastaða stefnda fari versnandi þannig að nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja þær eignir sem enn kunni að vera fyrir hendi hér á landi fyrir kröfu sinni að því marki sem þær nægi til að tryggja kröfu stefnanda.

                Stefnandi styðji heimild sína til að krefjast kyrrsetningar hjá stefnda við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, sbr. og 3. tl. 1. mgr. 7. gr. sömu laga.  Stefnandi bendi á að kyrrsettar hafi verið eignir hér á landi í eigu stefnda. Því hafi gerðin mátt fara fram hér á landi. Stefndi sé skráður fyrir 20% hlut í einkahlutafélaginu Hvítsstöðum ehf., Skólavörðustíg 12, Reykjavík.

                Þá bendi stefnandi á að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skipað stefnanda slitastjórn þann 25. maí 2009. Riftun hafi átt sér stað 19. maí 2010 og mál vegna riftunar hafi verið höfðað með stefnu birtri í október sama ár. Héraðsdómur hafi með ákvörðun í málinu nr. E-7492/2010 hafnað því að vísa ætti sambærilegum málum frá dómi vegna varnarþings og eins lögvarinna hagsmuna. Mál það sem þingfest hafi verið á sínum tíma sé sambærilegt máli stefnanda gegn stefnda. Þá liggi fyrir að stefndi hafi flutt lögheimili sitt til Lúxemborgar og þannig gert það örðugra fyrir stefnanda að tryggja kröfu sína. Telji stefnandi að þegar af þeirri ástæðu séu líkur á að stefndi muni flytja frekari eignir úr landi og leiði af því að líkur minnki á að stefnanda takist að fullnusta kröfu sína gagnvart stefnda. Má meðal annars megi benda á að stefndi hafi möguleika á að nýta sér undanþáguheimildir þær sem felist í reglum Seðlabanka Íslands nr. 370 frá 29. apríl 2010 sbr. og lög um 87/1992 til að koma peningum úr landi. Hafi stefnandi þá í huga fjármuni þá sem kunni að vera til staðar á bankareikningum stefnda og/eða kunni að hafa fengist með sölu á eignum hans hér á landi vegna flutnings hans til Lúxemborgar. Stefnanda þyki ljóst að flutningur heimilis og fjölskyldu stefnda til annars lands leiði til þess að hvati sé fyrir hann að koma eignum, er annars stæðu til greiðslu á skuldbindingum hans hér á landi, undan til að nýta við framfærslu sína og sinna í Lúxemborg.

                Ætla verði samkvæmt framansögðu að það muni draga mjög úr líkum á að stefnandi fái fullnustu kröfu sinnar ef staðfestingu á kyrrsetningu verði hafnað.  Af því leiði að öllum lagaskilyrðum laga nr. 31/1990 sé fullnægt sbr. 1. mgr. 5. gr. þeirra laga.

                Um lagarök vísar stefnandi einkum til 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum, sbr. meðal annars lög nr. 44/2009. Þá vísar stefnandi til 5. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Af hálfu stefnda er byggt á því að krafa um sýknu sé í fyrsta lagi reist á þeirri staðreynd að stefnandi geti ekki krafist riftunar á grundvelli X. kafla laga nr. 21/1991 eftir að kröfu­réttindi samkvæmt lánssamningnum hafi verið framseld Nýja Kaupþingi banka hf. og síðar Arion banka hf. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Kaupþings banka hf. hafi kröfuréttindi stefnanda á grundvelli lánssamninga við stefnda verið flutt til Nýja Kaupþings banka hf. Það framsal sé afar víðtækt. Samkvæmt orðalagi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sé öllum eignum stefnanda, hverju nafni sem nefnist, svo sem kröfuréttindum, að undanskildum eignum og réttindum sem tiltekin séu í viðauka, ráðstafað til Arion banka hf. Því sé ljóst að ætluð krafa sem stefnandi telji sig hafa átt á hendur stefnda 21. október 2008 verið framseld Arion banka hf. sama dag. Með ákvörðuninni hafi því öll réttindi stefnanda á grundvelli lánssamninga aðila verið framseld til Nýja Kaup­þings banka hf.,  þar á meðal ætluð skilyrt endurgreiðslukrafa stefnanda. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við framsalið að hugsanleg riftunarúrræði sem síðar kynnu að koma til væru undanskilin framsalinu. Áhættuskipti hafi orðið milli stefnanda og Nýja Kaupþings banka hf. á þeim tímapunkti. Af því leiði jafnframt að stefnandi öðlist ekki síðar réttindi sem séu bundin við eiganda kröfunnar. Það sé meginregla við framsal kröfuréttinda að framsalshafi, í þessu tilviki Arion banki hf., öðlist öll þau réttindi við framsalið sem framseljandi, þ.e. stefnandi, hafi átt þegar framsalið hafi farið fram. Ætluð persónuleg ábyrgð stefnda hafi verið hluti af lánssamningi hans við stefnanda og verði ekki frá honum skilin. Það sé því einungis Arion banki hf. sem hafi hagsmuni af því að hin persónulega ábyrgð sé til staðar á fyrrgreindum lánssamningi. Stefnandi byggi á því að meint hans hafi stofnast fyrir 21. október 2008. Verði fallist á riftunarkröfuna beri að sýkna stefnda af fjárkröfunni sökum aðildarskorts. Fjárkrafa stefnanda hafi verið framseld Arion banka hf. 21. október 2008 og þrátt fyrir að riftunarkrafa stefnanda nái fram að ganga geti fjárkrafa stefnanda ekki náð fram að ganga þar sem stefnandi sé ekki eigandi fjárkröfunnar.

                Hið sama eigi við um skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 91/1991 þar sem skaðabótakröfur stofnist undantekningarlaust við tjónsatvik samkvæmt íslenskum rétti. Verði fallist á skaðabótakröfu stefnanda þurfi framsalshafi ekki að sæta því að taka tillit til niðurfellingarinnar á grundvelli þess að starfsmaðurinn hafi vitað um stöðu bankans á þessum tíma og geti því ekki borið hana fyrir sig. Stefndi bendir einnig á að Arion banki hf. hafi nú þegar hafið innheimtuaðgerðir gegn stefnda á grundvelli þeirra sömu lánssamninga og stefnandi reyni að innheimta með málssókn þessari. Ljóst sé því að Arion banki hf. telji sig eiga alla hagsmuni af máli þessu.

                Þá mótmæli stefndi því að krafa stefnanda hafi orðið til fyrir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Riftunarkröfur geti eingöngu stofnast eftir að skiptameðferð hefjist. Er ákvörðunin hafi verið tekin hafi stefnandi aðeins átt kröfu á hendur stefnda á grundvelli láns­samnings­ins enda hafi bú stefnandi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta eða hann tekinn til slitameðferðar samkvæmt 3 mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 né hefði hann fengið heimild til að leita nauðasamninga. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi ekki verið heimilt að rifta niðurfellingu stefnanda á persónulegri ábyrgð á lánssamningum fyrr en eftir stefnandi hafi farið í slitameðferð með lögum nr. 44/2009 sem samþykkt hafi verið á Alþingi 15. apríl 2009. Rökstuðningur stefnanda fyrir kröfugerð sinni sé því haldlaus.

                Krafa stefnda um sýknu sé í öðru lagi reist á því að yfirlýsing stefnanda 25. september 2008 hafi aðeins falið í sér staðfestingu eldra loforðs stefnanda um að hann tryggði skaðleysi starfs­manna vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í stefnanda. Stefnandi hafi talið hagsmuni sína betur tryggða með því að starfsmenn væru í hópi hlut­hafa. Af þeim sökum hafi starfsmenn verið hvattir til að kaupa hlutabréf í stefnanda. Hluti þeirrar hvatningar hafi falist í loforði stefnanda um að hann tryggði skaðleysi starfsmanna vegna kaupanna. Í upphafi hafi þetta verið gert með samningum um að starfsmenn hefðu sölurétt á hlutabréfunum en í ljósi þeirra áhrifa sem slíkir samningar höfðu á eigið fé stefnanda hafi stefndi einhliða ákveðið að fella niður slíka samninga. Þar sem söluréttur hafi tryggt stefnda með betri hætti hafi því ítrekað verið lýst yfir að starfsmenn ættu að vera skaðlausir af þessum lánum.   

                Engu skipti þótt sumir lánssamningar stefnda hefðu að geyma ákvæði um að ábyrgð þeirra takmarkist við 10% af höfuðstól lánsins en önnur ekki. Skaðleysi stefnda hafi átt að vera algert. Á því sé byggt að það hafi verið mistök hjá stefnanda að ekki hafi verið getið um takmörkun á persónulegri ábyrgð stefnda í öllum lánssamningum aðila. Slík ákvæði hafi átt að vera í öllum samningum aðila. Samt sem áður feli ákvæði um persónulega ábyrgð ekki í sér efndir á loforði stefnanda um að hann tryggði skaðleysi starfsmanna vegna kaupanna.  Stefndi byggi á því að stefnandi sé bundinn við að hafa lofað stefnda skaðleysi vegna kaup­anna.  Yfirlýsing stefnanda hafi því aðeins falið í sér staðfestingu á eldra loforði stefnanda þar um.

                Stefndi byggi á því að stjórn stefnanda hafi gert sér grein fyrir því þegar á árinu 2007 að sú ábyrgðar­­takmörkun sem almennt hafi verið kveðið á um í lánssamningum væri ekki nægileg til að tryggja skaðleysi starfsmanna. Í stað þess að leysa til sín hlutabréf starfsmanna eða selja þau á markaði hafi stjórnin hins vegar ákveðið 25. september 2008 að veita forstjóra stefnanda umboð til að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna. Yfirlýsing forstjóra stefnanda þar um hafi sem fyrr segir verið gefin út sama dag og hafi stefnda verið gert að stað­festa mót­töku hennar með undir­ritun sinni. Stefndi byggi á því að yfirlýsing þessi feli í sér efndir á eldri yfirlýsingum og loforðum um að stefnandi tryggði skaðleysi starfs­manna. Af þessari ástæðu eigi stefnandi enga kröfu á hendur stefnda vegna hlutafjár­kaupanna.

                Krafa stefnda um sýknu af kröfum stefnanda sé í þriðja lagi reist á því að það sé ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig lánssamninginn sem gerður hafi verið vegna kaupa stefnda á hlutabréfum í stefnanda, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda lög­gerninga. Stefndi byggi þess vegna á því að víkja beri samningnum til hliðar vegna atvika sem komið hafi til eftir samningsgerðina. Þá byggi stefndi á því að forsendur hafi brostið fyrir samningnum. Stefnandi hafi tryggt fjármögnun vegna kaupanna og annast skjalagerð vegna þeirra. Í láns­samningunum komi fram að lántaki setji stefnanda að veði 3.442.5000 hlut í stefnanda til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar. Þá sé síðan mælt fyrir um að markaðsverðmæti trygginga skuli á hverjum tíma vera að lágmarki 150% af eftirstöðvum lánsins. Fari veðhlutfallið niður fyrir 120% í fimm bankadaga samfleytt skuli lántaki að fenginni tilkynningu stefnanda leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið nái aftur 150%. Þá skuld­bindi lántaki sig jafnframt til að selja ekki hið veðsetta nema að fengnu skriflegu samþykki stefnanda. Tilvitnuð ákvæði endurspeglist í handveðsyfirlýsingu þeirri sem undirrituð hafi verið sam­hliða láns­samningnum en þar komi meðal annars fram að hafi veðsali vanefnt einhverjar skyldur sínar samkvæmt einhverri þeirri skuld sem veðandlagið eigi að tryggja sé veðhafa heimilt að nota andvirði veðandlagsins til fullnustu þeirrar kröfu, t.d. með því að selja eða leysa til sín veð­andlagið á markaðsverði. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi ekki hegðað sér eins og gott og gegnt fjármálafyrirtæki með hagsmuni stefnda í huga, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002.  Í stað þess að leysa til sín eða selja hluta­bréf stefnda er verð þeirra hafi lækkað, í samræmi við heimildir í lánssamningnum, hafi stefnandi ekkert aðhafst sem leitt hafi aftur til þess að stefndi hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi byggi á því að hann hafi mátt gera ráð fyrir að stefnandi myndi selja hlutabréfin er verð þeirra myndi lækka eða nýtta þær heimildir sem kveðið sé á um í hvort tveggja lánssamningum og veðskjölum enda hafi hann gert það í tilviki annarra viðskiptavina. Stefndi byggi á því að það hafi verið forsenda og ákvörðunarástæða að hann yrði skaðlaus af þessum viðskiptum og stefnanda verið það kunnugt. Aðgerðaleysi stefnanda hafi ekki verið í samræmi við þær væntingar sem stefndi hafi mátt hafa til þess hvernig samningurinn yrði framkvæmdur, þ.e. að tryggja skaðleysi stefnda af þessum viðskiptum. Engu skipti hvaða ástæður hafi legið þar að baki, svo sem hvort stefnandi hafi talið óheppilegt að það kæmist í hámæli að starfs­menn þyrftu að selja hlutabréf sín og gæti skapað tortryggni meðal annarra hluthafa, fjárfesta og greiningaraðila.

                Stefndi byggi á því að stefnandi hafi valdið sér tjóni er nemi hærri fjárhæð en krafa stefnanda með því að selja ekki hlutabréf sín er markaðsvirði þeirra hafi lækkað eða ákveða sjálfur að leysa þau til sín. Verði fallist að einhverju leyti á kröfur stefnanda sé hér með lýst yfir skuldajöfnuði á þeim kröfum á móti því tjóni sem stefndi hafi orðið fyrir, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

                Í ljósi alls þessa sé ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig lánssamninginn.  Stefndi byggi þess vegna á því að lánssamningnum beri að víkja til hliðar. Verði á það fallist eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefnda á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991.

                Stefndi mótmæli því að skilyrði 131. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi til rifta þeirri ráðstöfun að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna stefnanda. Þannig mótmæli stefndi því að tilgangur ráðstöfunar stefnanda hafi verið að gefa, að ráðstöfunin hafi rýrt eignir stefnanda og að hún hafi leitt til auðgunar stefnda. Stefndi byggi á því að tilgangur yfirlýsingar forstjóra stefnanda 25. september 2008 hafi ekki verið að gefa starfmönnum, þar á meðal stefnda, verðmæti heldur bregðast við beiðnum margra starfsmanna um leyfi til að selja veðsett hlutabréf sín í stefnanda.  Þegar á árinu 2007 hafi stefnandi virst líta svo á að hagsmunum hans væri best borgið með því að fallast ekki á beiðnir starfsmanna um að fá að selja hlutabréf í stefnanda og hvorki leysa þau til sín né selja þau er verð þeirra lækkaði. Ítrekuð loforð og yfirlýsingar stefnanda um að hann tryggði skaðleysi starfsmanna hafi því falið í sér aðferð hans til að komast hjá því að leysa til sín eða selja hlutabréfin.  

                Þá sé einnig byggt á þeirri staðreynd að tilgangur yfirlýsingar forstjóra stefnanda 25. september 2008 hafi verið að tryggja eigin hagsmuni stefnanda. Á þessum tíma hafi verið óvissa í efnahagsmálum heimsins og það haft áhrif á vinnu starfsmanna stefnanda og þar af leiðandi starfsemi stefnanda í heild sinni. Í greinargerð starfskjaranefndar stefnanda frá september 2008 komi skýrt fram að nefndin telji að úrbóta sé þörf í málefnum tengdum hlutabréfakaupum starfsmanna. Megináhersla bankans ætti að vera að lykilstarfsmönnum hans væri unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum. Þá segi stjórn stefnanda í fundargerð sinni frá 25. september 2008 að niðurfellingin sé gerð „með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnunum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum.“ Ljóst sé að heildarhagsmunir stefnanda hafi verið mun meiri en heildarhagsmunir starfsmannanna á þessum tíma og því hafi í þessari ákvörðun ekki getað falist gjöf til stefnda þar sem um hafi verið að ræða ákvörðun sem átt hafi að tryggja starfsemi  og vonandi auka arðsemi stefnanda sjálfs. 

                Verði ekki á þetta fallist byggi stefndi á því að endurgjald sitt hafi falist í þeirri kvöð að honum hafi verið óheimilt að selja hlutabréfin sín. Dags­lokaverð hlutabréfa stefnanda 25. september 2008 hafi verið 755 krónur. Verðmæti hlutabréfa stefnda í stefnanda hafi því numið 2.599.087.500 krónum á umræddum tíma og hafði lækkað töluvert. Með sölu hlutabréfanna hefði stefndi greitt upp að öllu eða verulegu leyti skuld sína við stefnanda. Stefnandi hafi litið svo á að endurgjald þetta væri þýðingarmikið til að halda í tiltrú á starfsemi sinni. Með ráðstöfuninni hafi stefnandi getað tryggt að starfsemi hans raskaðist eins lítið og mögulegt var á tíma þar sem hann hafi þurft á kröftum allra sinna starfs­manna. Með vísan til þessa mótmæli stefndi því að yfirlýsingin hafi rýrt eignir stefnanda og leitt til auðgunar sinnar.

                Stefndi mótmæli því jafnframt að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu til rifta þeirri ráðstöfun að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna stefnanda, þar á meðal stefnda. Stefndi mótmæli því sérstaklega að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Í stefnu sé ótilhlýðileiki ráðstöfunarinnar talinn felast í því að hún hafi ekki verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi.  Stefndi mótmæli þessu. Stefnandi hafi metið það svo að hagsmunum hans væri betur borgið með því að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna sinna í stað þess að leysa til sín eða selja hluta­­­bréfin sem um ræði. Þá ítreki stefndi það sem áður hafi komið fram varðandi riftun samkvæmt 131. gr., en ráðstöfunin að fella niður persónulega ábyrgð hafi verið gerð til að tryggja starfsfrið innan stefnanda. Stefndi byggi því á að engin þau sjónarmið sem byggt sé á í stefnu geti leitt til þess að ráðstöfunin geti talist ótilhlýðileg og því verði að sýkna stefnda af kröfum sem reistar séu á 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Stefndi hafi allt frá upphafi verið fullvissaður um að hann bæri ekki fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Þá hafi stefndi einnig verið meðvitaður um að stefnandi teldi sig hafa af því mikla hagsmuni að stefndi og aðrir starfsmenn myndu ekki selja hlutabréf sín í stefnanda á almennum markaði.  Stefndi hafi því enga ástæðu haft til að ætla annað en að ákvörðun stefnanda hefði verið skjalfesting veittra loforða og framkvæmd sökum hagsmuna stefnanda. Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu að stefnandi hafi verið ógjaldfær er ráðstöfunin hafi verið framkvæmd. Engin gögn séu lögð fram þessari fullyrðingu stefnanda til stuðnings og engin rök færð fyrir henni önnur en þau að stefnandi hafi verið greiðsluþrota stuttu síðar og honum skipuð skilanefnd. Ógjaldfærni stefnanda stuttu eftir ráðstöfunina sé ekki sönnun um ógjaldfærni er ráðstöfunin hafi átt sér stað. Lausafjárstaða stefnanda hafi tekið gríðarlegum breytingum frá 25. september 2008 til 9. október sama árs. Ljóst sé að Seðlabanki Íslands og Seðlabanki Svíþjóðar hefðu ekki lánað stefnanda tugi milljarða króna 6. október og 8. október 2008 ef bankinn hefði verið ógjaldfær 25. september 2008. Hvað sem því líði mótmæli stefndi því að hann hafi getað gert sér grein fyrir því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á þessum tíma. Stefndi hafi ekki verið starfmaður stefnanda og ekki haft aðgang að lánabók né lausfjáryfirlitum stefnanda og ekki vitað betur en að staða stefnanda væri góð. Það hafi verið sú mynd sem fyrirsvarsmenn stefnanda hafi í það minnsta komið á framfæri við fjölmiðla. Stefndi hafi verið lykilstjórnandi í ljósi mikilvægis Lúxemborgar í tekjuöflun samstæðurnar en ekki vegna þess að viðkomandi hafði yfirsýn yfir mikilvægum rekstrarupplýsingum samstæðurnar. Einu rekstrarupplýsingar sem stefndi hafi haft aðgang að hafi verið þær sömu og almennir starfsmenn og hluthafar. Þá bendi stefndi á að yfirlýsingar stefnanda eftir stjórnarfundi sína 25. og 26. september 2008 hafi þvert á móti gefið ástæðu til að ætla að staðan væri betri en stjórnamenn bankans hafi átt von á. Stefndi byggi á að stefnandi beri sönnunarbyrðina um grandsemi stefnda og að sönnun þar um hafi ekki tekist. Stefndi byggi einnig á því að ekki sé nægjanlegt að stefnandi sanni að grunur hafi verið til staðar um möguleika á ógjaldfærni stefnanda á einhverjum síðari tímapunkti eða um óljósa stöðu hans heldur verði stefnandi að sanna að umræddur grunur hafi staðið til þess að stefnandi hafi í raun og veru verið ógjaldfær er ráðstöfunin hafi átt sér stað.

                Stefndi hafni því að hann hafi auðgast með nokkru móti á ákvörðun stefnanda. Stefndi  byggi á því að gagngjald sitt og tryggingar verði að koma til frádráttar enda mæli 1. mgr. 142. gr. fyrir um greiðslu fjármuna sem svara til þess sem greiðsla þrotamanns kom riftunarþola að notum. Stefndi byggi á því að sér sé einungis skylt að endurgreiða þá auðgun sem hann hafi haft af ráðstöfuninni. Í því sambandi verði að meta þau fjárhagslegu verðmæti sem felist í gagn­gjaldi hans. Eftirgjöf persónulegrar ábyrgðar hafi verið gerð til að tryggja skaðleysi starfsmanna og gerð á þeirri forsendu að starfsmenn myndu ekki selja hluti sína í bankanum eða bæðu ekki um leyfi til að selja þá. Þá sé jafnframt óhjákvæmilegt að draga frá láni starfsmanna verðmæti þess hluta­fjár sem sett hafi verið að veði fyrir skuldinni miðað við gengi hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008. Verðmæti hlutabréfanna hafi á þeim tíma numið 2.599.087.500 krónum sem sé þreföld stefnufjárhæð máls þessa.

                Þá sé því hafnað að stefnandi hafi tapað nokkru á þessari ákvörðun. Sú ákvörðun að fella niður persónulegar ábyrgðir hafi ekki rýrt eignir stefnanda nema að því takmarkaða marki sem hafi leitt af neikvæðri eiginfjárstöðu, sem aftur á móti hafi verið afleiðing banns stefnanda við sölu bréfanna. Sú rýrnun sé því alfarið á ábyrgð stefnanda. Á þessum tíma hafi eignir stefnanda verið metnar á um 60 milljarða evra. Þeir hagsmunir sem um sé að ræða í þessu tilviki telji ekki í þeim samanburði. Með vísan til þessa geti aldrei komið til álita að ákvörðun stefnanda frá 25. september 2008 geti talist riftanlegur gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Ákvörðun stjórnar stefnanda hafi fyrst og fremst verið til hagsbóta fyrir bankann sjálfan og átt að tryggja að starfsmenn bankans gætu einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans. Verði litið svo á að stefndi hafi haft hagsmuni af framangreindri ráðstöfun og hún talin riftanleg byggi stefndi á að ráðstöfunin hafi aðeins komið sér að notum að svo miklu leyti sem hann hafi borið persónulega ábyrgð á greiðslum krafna stefnanda samkvæmt lánssamningunum eftir að búið sé að draga frá verðmæti hlutabréfa hans í stefnanda þann dag sem sú ráðstöfun hafi átt sér stað. Að teknu tilliti til þessa sé hagnaður stefnda auðsjáanlega enginn og tap hans í raun mikið.

                Stefndi mótmæli því að stefnandi hafi í raun orðið fyrir verðmætamissi við niðurfellingu á persónulegri ábyrgð stefnda enda þótt lánssamningurinn sé nú eign Arion banka hf.  Í stefnu sé byggt á því að í stofnefnahagsreikningi Arion banka sé lánssamningurinn metinn á 0 kr., sbr. yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers hf., en stefnandi virðist byggja á því að þannig hafi lánssamningur stefnda verið metinn við framsalið. Stefndi byggi á því að niðurfelling á persónulegri ábyrgð hans hafi engu máli skipt varðandi verðmætamat á lánssamningunum í umræddri yfirtöku.  Lánssamningar með veðum í verð­lausum hlutabréfum hafi verið metnir á 0 krónur við yfirfærslu samkvæmt ákvörðunum Fjármála­eftirlitsins óháð því hvort skuldarinn hafi verið einstaklingur eða lögaðili eða hvort um persónulega ábyrgð hafi verið að ræða eða ekki. Samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 geti stefnandi ekki krafist greiðslu sem nemi hærri fjárhæð en tjóni þrotabúsins. Tjón stefnanda sé því ekkert þar sem niðurfelling persónulegrar ábyrgðar skipti engu máli við mat á verðmæti láns­samninga með veði í hlutafjáreign í þeim tilvikum þar sem hlutafjáreignin hafi verið einskis virði. 

                Stefndi byggi jafnframt á því að krafa stefnanda um tjón sé með öllu ósannað.  Ætlað tjón stefnanda stafi af þeirri verðmætarýrnun sem hafi orðið við það að lánssamningurinn hafi verið fluttur yfir til Arion banka hf.  Stefndi byggi á því að það fái ekki staðist að sú verðmætarýrnun nemi stefnufjárhæðinni þar sem lánasöfn sem flutt hafi verið til nýju bankanna hafi verið metin á mjög lágu verði, m.a. vegna þeirra markaðsaðstæðna sem þá hafi verið fyrir hendi. Lán til hlutabréfakaupa þar sem veðandlagið hafi verið einskis virði hafi verið metin á 0 krónur. Sé skorað á stefnanda að leggja fram mat sambærilegra hlutabréfalána eða forsendur mats vegna lána sem veitt hafi verið til hlutabréfa­kaupa og færð til Arion banka hf. Tjón stefnanda geti ekki jafngilt eftirstöðvum lánsins heldur aðeins þeirri verðmætarýrnun sem hlotist hafi af því að persónuleg ábyrgð stefnda hafi verið felld niður. Stefndi vísi jafnframt til þess að stjórn nýja bankans, stefnanda sjálfum, fjármálaráðuneytinu sem fulltrúa hluthafa nýja bankans, Fjármálaeftirlitinu og PWC sem séð hafi um að endurmeta eignir yfir í nýja bankann, hafi strax við hrun bankans verið gerð grein fyrir því að starfsmenn væru reiðubúnir til þess að víkja frá ákvörðun bankans 25. september 2008 og ganga til samninga um uppgjör lánanna. Það fái því ekki staðist að engin persónuleg ábyrgð hafi verið til staðar á þeim tíma sem lánin hafi verið flutt yfir til nýja bankans.  Ástæðan fyrir því að verðmæti þeirra hafi verið 0 krónur hafði því ekkert haft með það að gera hvort persónuleg ábyrgð hafi verið til staðar eða ekki, heldur þá staðreynd að lán til hlutabréfakaupa þar sem verðmæti bréfanna hafi verið orðið að engu hafi verið flutt yfir í nýja bankann án sérstaks endurgjalds.

                Telji dómurinn að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda byggi stefndi á því að þá kröfu eigi að lækka af sanngirnisástæðum, sbr. 145. gr. laga nr. 21/1991. Í fyrsta lagi eigi krafa stefnanda rót sína að rekja til starfssambands stefnda við stefnanda.  Kaup stefnda á hlutabréfum í stefnanda hafi verið gerð að frumkvæði stefnanda og verið talin hluti af launakjörum stefnda. Ákvörðun um launakjörin hafi byggst á starfskjarastefnu stefnanda. Við kaupin og í kjölfar þeirra hafi stefnandi lýst því ítrekað yfir að stefndi myndi ekki bera fjárhags­lega áhættu af kaupum. Í því sambandi byggi stefndi á því að stefnandi hafi verið vinnu­veitandi sinn og sem slíkur í mun sterkari stöðu við samningsgerð og sýnt af sér aðgerðaleysi við framkvæmd lánssamnings aðila.

                Í öðru lagi hafi engir fjármunir farið úr höndum stefnanda er stefndi hafi keypt hlutabréfin. Umrædd hlutabréf hafi verið keypt af stefnanda sjálfum en ekki þriðja aðila. Stefnandi hafi því aldrei innt neina fjármuni af hendi í tengslum við lánveitinguna. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna láns­samningana. Í þriðja lagi hafi stefnandi lýst því yfir að hann tryggði skaðleysi stefnda og komið í veg fyrir að starfs­menn seldu hlutabréfin er markaðsvirði þeirra hefðu enn dugað til fullrar greiðslu kaup­verðs þeirra. Í fjórða lagi séu hlutabréfin verðlaus vegna ástæðna sem stefnandi hafi borið ábyrgð á.

                Telji dómurinn að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda byggi stefndi á því að hann eigi þá til skuldajafnaðar kröfu á hendur stefnanda á grundvelli yfirlýsinga og loforða stefnanda um að hann tryggði skað­leysi starfsmanna vegna hlutafjárkaupa og þess aðgerða­leysis stefnanda sem hafi lýst sér í því að hann hafi tekið dræmt í beiðnir starfsmanna um að selja hlutabréfin og hvorki leysti þau til sín né selt þau eftir að veðhlutfall hafi orðið ófullnægjandi. Stefndi byggi á því að tjón hans vegna þessa nemi verðmæti hlutabréfanna á þeim tíma er hin ætlaðra riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað, þ.e. 2.599.087.500 krónur. Skaðabótakrafa stefnda byggi á hinni almennu sakarreglu og þeirra krafna sem gera verði til góðs og gegns bankamanns.

                Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 geti kröfuhafi krafist dráttarvaxta frá gjalddaga að greiðsludegi, ef um sé að ræða kröfu með fyrirfram ákveðnum gjalddaga. Enda þótt lánssamningur aðila sé með fyrirfram ákveðnum gjalddaga, sem hafi verið ókominn er mál þetta hafi verið höfðað, leiði yfirlýsing stefnanda um riftun ekki til þess krafa hans hafi fallið í gjalddaga sama dag. Verði skaðabótakrafa stefnanda tekin til greina geti stefnandi fyrst krafist dráttar­vaxta að liðnum mánuði frá þeim degi er sannanlega hafi verið lagðar fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu að sá dagur sé 25. september 2008. Þá mótmæli stefndi því að upphaf dráttarvaxta beri að miða við þann dag er ráðstöfun hafi átt sér stað. Þá mótmæli stefndi öllum útreikningum stefnanda á fjárhæðum eftirstöðvum lánasamninga aðila sem röngum og ósönnuðum. Um sé að ræða lán í erlendri mynt sem séu gengistryggð í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

                Að því er varði kröfu um staðfestingu kyrrsetningar byggi stefndi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að skilyrði 7. gr. laga nr. 31/1991 séu ekki fyrir hendi. sýslumaðurinn í Reykjavík hafi ekkert vald til að kyrrsetja eignir stefnda. Kyrrsetningarlög, aðfararlög og nauðungarsölulög byggist öll á staðbundnu valdi sýslumanna og verði ákveðin atriði að vera til staðar sem tengt geti gerðina við það umdæmi sýslumanns, þar sem beiðni um hana sé sett fram. Engin slík tenging sé til staðar í þessu máli og því skorti með öllu lagaheimild fyrir sýslumann til að kyrrsetja eignir stefnda. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 31/1990 skuli kyrrsetningarbeiðni að jafnaði beint til sýslumanns í því umdæmi þar sem gerðarþoli eigi heimilisvarnarþing. Ljóst sé að slíkt eigi ekki við um stefnda þar sem hann hafi verið búsettur í Lúxemborg um langa hríð. Undantekningar 7. gr. laganna eigi ekki við. Sérstaklega sé bent á að sú eign sem kyrrsett hafi verið, þ.e. eignarhlutir stefnda í Hvítsstöðum ehf., sé ekki að finna í Reykjavík, sbr. 3. tl. 7. gr. laganna, þó að félagið sjálft hafi þar varnarþing. Eignarhlutir í einkahlutafélögum séu ekki áþreifanlegir hlutir sem hægt sé að staðsetja heldur fylgi þeir eigandanum hverju sinni. Af þeim sökum séu þessir hlutir í Lúxemborg hjá stefnda. Kyrrsetningin hafi því ekkert gildi.

                Í öðru lagi byggi stefndi sýknukröfu sína á því að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 séu ekki fyrir hendi. Annars vegar telji stefndi að stefnandi sé ekki eigandi þeirra krafna sem um sé deilt í þessu máli þar sem þær kröfur hafi verið framseldar til Arion banka hf. Óumdeilanlegt sé að stefnandi hafi framselt öll réttindi sín samkvæmt þeim lánssamningum sem um sé deilt í kyrrsetningarmáli þessu til Arion banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Það sé meginregla við framsal kröfuréttinda að framsalshafi, í þessu tilviki Arion banki hf., öðlist öll þau réttindi við framsalið sem framseljandi, þ.e. stefnandi, hafi átt þegar framsalið hafi farið fram. Persónuleg ábyrgð stefnda hafi verið hluti af lánssamningi hans við stefnanda og verði ekki skilin frá honum. Það sé því einungis Arion banki hf. sem hafi hagsmuni af því að hin persónulega ábyrgð sé til staðar á fyrrgreindum lánssamningi. Þá hafi stefnandi heldur ekki lagt fram heimild Arion banka hf. eða sönnun um eftirgjöf Arion banka hf. á þessum hluta réttinda þeirra sem sannanlega hafi verið framseld til bankans. Þvert á móti hafi Arion banki hf. nú þegar hafið innheimtuaðgerðir gegn stefnda á grundvelli þeirra sömu lánssamninga. Því sé ljóst að Arion banki hf. telji sig eiganda réttinda samkvæmt lánssamningunum. Stefnandi hafi því hvorki sýnt fram á að krafa hans sé lögvarin, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, né að hann eigi réttindin sem hann hyggist tryggja með gerð þessari og því beri að hrinda henni, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga sömu laga.

                Hins vegar telji stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á knýjandi ástæður fyrir því að kyrrsetningin fari fram. Kyrrsetning sé úrræði sem beita megi ef yfirvofandi hætta sé á að hagsmunir fari forgörðum þar sem skuldari reyni að koma þeim undan. Slíkt eigi ekki við hér. Stefndi hafi í 13 ár átt lögheimili og búið í Lúxemborg en stefnandi geri því skóna að stefndi hafi nýverið flutt lögheimili sitt. Slíkt sé alrangt. Þá sé þeirri fullyrðingu stefnanda um að „stefndi hafi að undanförnu haft frammi þær ráðstafanir sem telja megi líklegar til að minnka og takmarka líkur á að takist að fullnusta kröfu stefnanda á hendur stefnda“ harðlega mótmælt. Sé fullyrðingin með öllu órökstudd og ósönnuð. Þá sé þeirri fullyrðingu einnig mótmælt að fjárhagsstaða stefnda hafi versnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málum annarra og ótengdra aðila. Enn hafi riftunarmál stefnanda á hendur stefnda ekki verið tekið fyrir af héraðsdómi og því með öllu ótímabært að kasta fram slíkri fullyrðingu. Sé hún því algjörlega órökstudd og ekkert annað en dylgjur í garð stefnda. Stefndi telji að dómar héraðsdóms gagnvart öðrum einstaklingum sem stefnandi byggi kyrrsetningargerð sína á hafi ekkert gildi gagnvart stefnda.

                Loks byggi stefndi á því að stefnanda beri að sýna fram á að skilyrði kyrrsetningar séu til staðar og að það dragi verulega úr líkum á því að hann fái fullnustu kröfu sinnar eða að slík fullnusta verði að mun örðugri ef kyrrsetning á eignum stefnda fari ekki fram. Telji stefndi að stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á að sú aðstaða sé fyrir hendi í máli þessu. Máli sínu til stuðnings bendi stefndi á að um eitt og hálft ár sé liðið síðan stefnandi hafi ákveðið að rifta niðurfellingu á persónulegum ábyrgðum starfsmanna Kaupþings banka hf., en ákvörðun þess efnis hafi verið tekin af stjórn bankans í september 2008. Þá hafi stefnandi heldur ekki séð ástæðu til að krefjast kyrrsetningar fyrr en rúmlega heilu ári eftir ákvörðun um riftun niðurfellingarinnar. Fái stefndi því ekki séð hvaða knýjandi hætta sé nú á ferðum sem geri það af verkum að nauðsynlegt sé að kyrrsetningin fari fram, en fyrir því hafi stefnandi alfarið sönnunarbyrði. Slík sönnun hafi ekki tekist.

                Krafa stefnda um sýknu af kröfum stefnanda er reist á meginreglum samninga- og kröfuréttar, lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um kyrrsetningu og lögbann nr. 31/1990, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Niðurstaða:

                Mál þetta varðar fjóra lánssamninga milli aðila þessa máls. Voru samningarnir gerðir í tilefni af kaupum stefnda á hlutabréfum í stefnanda. Samkvæmt lánssamningum setti stefndi hin keyptu hlutabréf að handveði til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Var undirrituð sérstök handveðsyfirlýsing þar að lútandi. Lánssamningar þeir er málið snýst um eru nr. 3015, 4735, 5094 og 6042. Var einn þeirra gerður á árinu 2005 en hinir þrír á árinu 2007. Samkvæmt ákvæðum í lánssamningi nr. 3015 undir yfirskriftinni takmörkun ábyrgðar skyldi ábyrgð stefnda takmarkast við andvirði handveðsins og viðbótartrygginga, en auk þess skyldi hann til viðbótar bera persónulega ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar. Þá hafði samningurinn að geyma ákvæði þess efnis að færi svonefnt veðhlutfall samkvæmt samningi niður fyrir 120% í a.m.k. 5 bankadaga samfleytt, skyldi stefndi að fenginni tilkynningu frá bankanum leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfall næði aftur 150%. Skyldi viðbótartryggingin lögð fram innan tilskilins frests. Samkvæmt ákvæðum um uppsögn samnings var stefnanda heimilt að segja upp samningnum m.a. í því tilviki ef stefndi legði ekki fram viðbótartryggingar innan hins tilskylda frests. Aðrir lánssamningar er hér eru til meðferðar báru ekki samsvarandi ákvæði um takmörkun ábyrgðar. Hins vegar báru þeir samsvarandi ákvæði um veðhlutfall og úrræði færi veðhlutfall niður fyrir tilgreind mörk. 

                Með yfirlýsingu 25. september 2008 lýsti stefnandi því yfir að fallið væri frá allri persónulegri ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga og að ábyrgð hans takmarkaðist við þau hlutabréf í stefnanda sem stefndi hefði sett að veði til tryggingar lánsskuldbindingum. Afrit af þessari yfirlýsingu liggur frammi í málinu. Með bréfi stefnanda til stefnda 19. maí 2010 lýsti stefnandi því yfir að rift væri þeirri ráðstöfun að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á lánum. Samfara þessu var stefndi krafinn um endurgreiðslu á þeirri auðgun sem stefnandi taldi stefnda hafa haft af ráðstöfuninni. Til vara var gerð skaðabótakrafa á hendur stefnda sömu fjárhæðar.

                Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á aðildarskorti af hálfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í annan stað því að yfirlýsing stefnanda 25. september 2008 hafi falið í sér staðfestingu á eldra loforði um að stefnandi tryggði skaðleysi starfsmanna sinna vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Þá er byggt á því að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda að bera samningana fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og að víkja beri samningum til hliðar vegna atvika sem komið hafi til eftir samningsgerð, auk þess sem um forsendubrest hafi verið að ræða. Í þriðja lagi er sýknukrafan reist á því að skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt, hvorki að því er varðar 131. gr. laga nr. 21/1991, né 141. gr. sömu laga. Loks hefur stefndi uppi ýmis andmæli við fjárkröfu stefnanda. Er meðal annars á því byggt að stefndi hafi ekki auðgast af ráðstöfuninni og að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni.

                Að því er aðild í málinu varðar reisir stefnandi hana á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt nefndu ákvæði megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þrotamanns eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti, ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir efndum skuldbindinga þess að fullu. Enda þótt lánssamningar þeir sem hin persónulega ábyrgð stefnda hafi lotið að hafi verið framseldir Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 standi slíkt ekki í vegi því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda verið að endurheimta verðmæti sem stefnandi hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Nýja Kaupþings banka hf. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta.

                Stefndi rökstyður sýknukröfu sína að þessu leyti með því að stefnandi geti ekki krafist riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 eftir að kröfuréttindi samkvæmt lánssamningnum hafi verið framseld Nýja Kaupþingi banka hf. Eftir framsal krafna til Nýja Kaupþings hf. og Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 hafi Arion banki hf. öðlast öll réttindi stefnanda til greiðslna samkvæmt lánssamningum. Eftir þann tímapunkt geti stefnandi engan rétt byggt á umræddum lánssamningum og réttindi sem hann hafi síðar öðlast á grundvelli réttarsambands síns við stefnda en framsalshafi geti ekki öðlast tapist þar af leiðandi. Í stefnu miði stefnandi við að krafa hans hafi stofnast fyrir 21. október 2008. Verði fallist á riftunarkröfu beri að sýkna stefnda af fjárkröfunni sökum aðildarskorts. Hið sama eigi við um skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Þá geti riftunarkrafa eingöngu stofnast eftir að skiptameðferð hefjist. Er ákvörðunin hafi verið tekin hafi stefnandi aðeins átt kröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamninga. Hafi stefnanda ekki verið heimilt að rifta niðurfellingu stefnanda á persónulegri ábyrgð fyrr en eftir að stefnandi hafi farið í slitameðferð.

                Með auglýsingu 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og vék félagsstjórn í heild sinni frá störfum þegar í stað. Skipaði Fjármálaeftirlitið jafnframt skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002. Skyldi skilanefndin m.a. hafa umsjón með allri meðferð bankans, svo og að annast rekstur hans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Kaupþings banka hf. var öllum eignum stefnanda ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. Samkvæmt 1. tl. í ákvörðuninni gilti það m.a. um öll kröfuréttindi stefnanda. Í samræmi við það voru lánssamningar stefnanda og stefnda framseldir Nýja Kaupþing banka hf. Á dskj. nr. 9 liggur fyrir að bókfært verð útlána tengdum hlutabréfakaupum lykilstarfsmanna stefnanda 21. október 2008 hafi verið 55.360.430.370 krónur en mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþing banka hf. sem útbúinn hafi verið af Fjármálaeftirlitinu hafi verið 0 krónur. Að beiðni skilanefndar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir stefnanda 25. maí 2009. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 var lýst eftir kröfum í stefnanda og rann kröfulýsingafrestur út 30. desember 2009.

                Samkvæmt 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti, ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis í slitameðferð muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 161/2002, er það einungis fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem getur beitt riftunarúrræðum kaflans. Framsalshafi kröfuréttindanna á þess ekki kost, en af því leiðir að Nýja Kaupþing banki hf. eða Arion banki hf. geta ekki nýtt riftunarúrræði XX. kafla laga nr. 21/1991. Riftunar- og endurgreiðsluákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 eru opinbers réttar eðlis og hafa það að markmiði að endurheimta verðmæti sem glatast hafa í aðdraganda gjaldþrots. Á meðan frestir til slíkra ráðstafana eru virtir eru heimildir þessar tiltækar þrotabúum, í þessu tilviki fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Reglur gjaldþrotaréttar víkja í veigamiklum atriðum til hliðar reglum kröfuréttar sem annars gilda. Þannig getur stefnandi beitt þessum úrræðum, óháð framsali kröfu, svo lengi sem lögbundnir frestir til ráðstafana eru virtir. Önnur niðurstaða gæti í sumum tilvikum leitt til óeðlilegrar auðgunar þess sem notið hefur góðs af ráðstöfuninni. Eins og áður greinir rann frestur til að lýsa kröfum í stefnanda út 30. desember 2009. Mál það sem hér er til meðferðar var höfðað með stefnu birtri 2. nóvember 2010. Var stefnandi innan þess frests sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009 og 148. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem áður greinir eru riftunar- og endurgreiðsluákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 opinbers réttar eðlis og ætlað að endurheimta verðmæti til handa þeim sem kröfu eiga á hendur þrotabúi við gjaldþrot. Endurgreiðslukrafa stefnanda gagnvart riftunarþola stofnast ekki fyrr en í kjölfar yfirlýsingar stefnanda um riftun. Verður ekki fallist á með stefnda að stefnandi hafi ráðstafað sakarefni málsins á þann veg að hann hafi afsalað sér rétti til að hafa uppi riftunarkröfu í málinu og endurgreiðslukröfu þannig að leiði til aðildarskorts af hálfu stefnanda þó svo dráttarvaxtakrafa með fjárkröfu miði dráttarvexti við þann dag sem hinni riftanlegu ráðstöfun var lýst yfir. Með hliðsjón af þessu verður hafnað kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts.

                Næst verður leyst úr þeim málsástæðum stefnda að yfirlýsing stefnanda 25. september 2008 hafi falið í sér staðfestingu á eldra loforði um að stefnandi tryggði skaðleysi starfsmanna sinna vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Við úrlausn um að hvaða marki fyrir liggi yfirlýsing um skaðleysi lykilstarfsmanna stefnanda af hlutabréfakaupum verður fyrst leyst úr því á hvern veg fjallað hafi verið um skaðleysið í þeim skriflegu sönnunargögnum sem lögð hafa verið fram í þessu máli og til urðu fyrir 9. október 2008. Samkvæmt fundargerð stjórnarfundar í stefnanda 7. júní 2000 lá fyrir fundinum að gera tillögu til hluthafafundar 19. júní 2000 vegna skráningar stefnanda á Verðbréfaþing Íslands. Hluti tillögunnar varðaði útboðsskilmála. Samkvæmt 4. tl. þeirrar tillögu yrði samhliða útboði og skráningu á Verðbréfaþingi Íslands gengið frá kaupréttarsamningi við starfsmenn. Samkvæmt tillögunni skyldu allir starfsmenn sem unnið hefðu a.m.k. 12 mánuði samfellt í fullu starfi fá kauprétt í mismunandi hlutföllum samkvæmt ákvörðun forstjóra og stjórnar. Samsvarandi tillaga er aftur tekin fyrir á stjórnarfundi í stefnanda 7. júní 2000 sem skyldi lögð fyrir hluthafafundinn 19. júní 2000. Þá liggur fyrir í gögnum málsins yfirlit af vef stefnanda frá 29. mars 2004. Samkvæmt því yfirliti á aðalfundur stefnanda 27. mars 2004 að hafa fjallað um valrétt á hlutabréfum til starfsmanna og stjórnenda bankans. Fram kemur að stefnandi hafi gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í stefnanda. Þá kemur fram að aðalfundur staðfesti að rétt sé að viðhalda sömu stefnu og að kaup- og söluréttur til starfsmanna geti á hverjum tíma numið í heild allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum. Í gögnum málsins liggur fyrir ræða formanns launanefndar stefnanda, sem hann flutti á aðalfundi stefnanda 27. mars 2004. Í ræðunni víkur formaðurinn að því að við samruna Kaupþings og Búnaðarbanka Íslands hafi stjórn stefnanda skipað launanefnd til að sinna skyldum stjórnar í málum sem vörðuðu laun og kaupréttaráætlanir stjórnenda. Hafi launanefnd verið falið það verkefni að tryggja að stjórnendur hefðu hvata til að auka verðmæti félagsins fyrir hluthafa til langs tíma. Síðar í ræðunni víkur formaður launanefndar að því að starfandi stjórnarformanni og forstjóra verði boðinn valréttur á hlutum í stefnanda. Verði þeim skylt að eiga bréfin í hverri árlegri úthlutun í a.m.k. 3 ár. Fyrirkomulagið veiti lykilstarfsmönnum hvata til að halda tryggð við bankann til lengri tíma og samtvinni fjárhagslega hagsmuni þeirra við hagsmuni hluthafa. Muni stefnandi bjóða þeim lán til að gera þeim kleift að kaupa bréfin. Enginn viti hvert gengi bréfa verði eftir 3 eða 8 ár. Valréttir gætu leitt til mikils fjárhagslegs tjóns fyrir þá einstaklinga sem um ræði ef valréttarsamningar innihéldu ekkert öryggisnet. Það væri sannarlega óásættanlegt fyrir viðkomandi einstaklinga og slík áhætta væri einnig óásættanleg fyrir bankann. Þá kemur fram að á sama tíma og stefnandi vilji gefa lykilstarfsmönnum kost á að njóta talsverðs ávinnings til samræmis við aðra hluthafa geri stefnandi þá kröfu að lykilstarfsmenn taki ekki sjálfir óásættanlega fjárhagslega áhættu ef svo færi að gengið lækkaði. Stjórn telji mikilvægt að söluréttir séu til staðar ef svo færi að gengi bréfa lækkaði með hliðsjón af meginreglu áhættustýringar. Söluréttur sé hugtak sem merki að aðilar valréttarsamnings geti selt stefnanda bréfin aftur ef gengi þeirra lækki niður fyrir kaupgengið að viðbættum vaxtakostnaði. Þannig séu þeir varðir gegn persónulegu tjóni.

                Þá liggur fyrir í gögnum málsins afrit fundargerðar stjórnarfundar stefnanda frá 28. september 2005. Undir 8. tl. fundargerðar var fjallað um launamál og kaup starfsmanna á hlutabréfum í stefnanda. Fram kemur að starfsmenn, forstjóri og stjórnarformaður skuli fjármagna kaup á hlutabréfum með lánum frá stefnanda. Í niðurlagi er tekið fram að stjórn óski eftir því að ,,measures be adressed“ til að takmarka áhættu lykilstarfsmanna vegna hugsanlegrar lækkunar hlutabréfaverðs. Loks liggur frammi afrit fundargerðar frá stjórnarfundi sem haldinn var í stefnanda 25. og 26. september 2008. Undir lið um launanefnd er fært að formaður launanefndar hafi rætt skýrslu launanefndar. Helsta áhyggjuefni væru ákvæði um lán til starfsmanna til að fjármagna kaup á hlutabréfum í stefnanda. Launanefndinni hafi verið kunnugt um vandamálið í nokkurn tíma og rætt það. Ráðstafanir hefðu verið gerðar til að sporna við neikvæðum áhrifum á starfsmenn og þeir fullvissaðir um að leyst yrði úr vandanum. Sú staðreynd að stefnandi hafi lagt áherslu á að lykilstarfsmenn ættu hlutabréf til lengri tíma hefði í raun takmarkað möguleika þeirra til að selja hlutabréfin í þeim tilgangi að draga úr persónulegri áhættu. Loks er tekið fram að samkvæmt tillögu launanefndar hafi stjórn samþykkt að veita forstjóra leyfi til að fella úr gildi persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lána sem þeir hafi fengið til hlutabréfakaupanna í þeim tilgangi að tryggja að þeir gætu einbeitt sér að því að sinna skyldum sínum fyrir stefnanda. Ábyrgð starfsmanna skyldi takmarkast við hlutabréfin sem sett hafi verið að veði. 

                Engar skriflegar yfirlýsingar liggja fyrir í málinu, sem út hafa verið gefnar fyrir 25. september 2008 og beint hefur verið til stefnda sérstaklega, þar sem skýrt er tekið fram af hálfu fyrirsvarsmanna stefnanda að stefndi skuli vera öldungis skaðlaus af hlutabréfakaupum sínum í stefnanda í því tilviki að verðfall verði á hlutabréfum í stefnanda. Fyrir dóminum liggja skýrslur fyrrverandi stjórnarformanns stefnanda, þriggja fyrrverandi stjórnarmanna í stefnanda, fyrrverandi forstjóra stefnda, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs stefnanda og fyrrverandi starfsmannastjóra stefnanda. Það var einróma afstaða þeirra sem skýrslu gáfu að fyrir hafi legið með skýrum hætti að lykilstarfsmenn sem tekið hafi þátt í hvatakerfi bankans með því að kaupa hlutabréf í stefnanda gegn láni frá stefnanda, skyldu vera skaðlausir ef gengi bréfa í stefnanda myndi falla. Var því lýst hvernig hvatakerfi bankans hafi verið byggt upp þar sem tengdir hafi verið saman hagsmunir eigenda stefnanda og hagsmunir lykilstarfsmanna. Kom fram í þessum framburðum að skaðleysi starfsmanna hafi í upphafi verið tryggt með svonefndum sölurétti starfsmanna á hlutabréfum. Vegna breyttra reglna um útreikning eiginfjár stefnanda hafi þurft að fella niður sölurétt starfsmanna og hafi það verið gert í lok árs 2005. Hafi stjórn bankans ekki haft með höndum útfærslu á skaðleysisákvæðinu en af því verður að álykta að forstjóra stefnanda hafi verið falið það hlutverk að leysa úr því máli. Ekki varð upplýst við skýrslutökur hver hafi haft það hlutverk með höndum en þeir er skýrslur gáfu voru sammála um að í stað söluréttar hafi verið tekin upp ákvæði um svonefnda veðþekju og 10% ábyrgð á lánssamningum. Reynslan hafi hinsvegar leitt í ljós að hin nýju ákvæði hafi ekki tryggt algert skaðleysi lykilstarfsmanna, svo sem síðar hafi komið í ljós. Þá hafi legið fyrir að starfsmennirnir mættu ekki selja bréf sín þar sem þau hafi verið langtímafjárfesting, auk þess sem samþykki stefnanda hafi þurfti fyrir hverri og einni sölu í ljósi handveðssamninga.

                Svo sem áður er rakið hefur stefndi staðhæft að söluréttur hafi fylgt þeim hlutabréfum sem keypt hafi verið á grundvelli þeirra lánssamninga sem gerðir hafi verið frá því starfsmenn áttu þess kost að kaupa hlutabréf í stefnanda þar til í lok árs 2005. Með sölurétti hafi skaðleysi stefnda verið tryggt. Stefnandi hefur mótmælt því að stefnda hafi verið lofað algjöru skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda. Að sölurétti er vikið í ræðu formanns launanefndar hér að framan. Er lýst yfir mikilvægi þess að söluréttir séu til staðar. Söluréttur sé hugtak sem merki að aðilar valréttarsamnings geti selt bréfin aftur ef gengi þeirra lækki niður fyrir kaupgengið að viðbættum vaxtakostnaði. Engin önnur sýnileg sönnunargögn hafa verið lögð fram um nefndan sölurétt. Að honum var hins vegar vikið í framburðum þeirra er skýrslur gáfu hér fyrir dómi svo sem áður var rakið.

                Stefndi heldur því fram að skaðleysi af hlutabréfakaupum hafi verið eðlilegur fylgifiskur þess að stefnda hafi verið óheimilt að selja þau hlutabréf sem hann hafi keypt sem hluta af hvatakerfi stefnanda. Þessari staðhæfingu hefur stefnandi mótmælt. Hefur stefnandi staðhæft að stefndi hafi getað selt hlutabréf í bankanum hafi hann eftir því leitað. Það hafi hann hins vegar ekki gert með formlegum hætti. Að framan er rakið úr fundargerðum stjórnarfunda stefnanda og úr ræðu formanns launanefndar að stefnt hafi verið að því að fjárfestingar lykilstarfsmanna í hlutabréfum í stefnanda skyldu vera langtímafjárfestingar. Hafi stjórnarformanni stefnanda og forstjóra stefnanda verið óheimilt að selja hlutabréf þau er keypt hafi verið sem hluti af hvatakerfi stefnanda. Í framburðum vitna kemur einnig skýrt fram að ætlast hafi verið til að lykilstarfsmenn sem tækju þátt í hvatakerfinu myndu eiga hlutabréf þau sem keypt væru til langframa. Fyrrverandi stjórnarformaður stefnanda og fyrrverandi forstjóri lýstu því að skilaboð hafi átt að vera starfsmönnum ljós, að þeir hafi átt að eiga hlutabréfin til langframa. Fyrrverandi stjórnarformaður kvaðst ekki muna eftir tilviki þar sem starfsmanni hafi verið neitað um sölu. Fyrrverandi forstjóri lýsti því að einhver dæmi hafi verið um það að starfsmenn fengju að selja hlutabréf. Hafi það verið vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs kvað einnig ljóst vera að ef lykilstarfsmaður hafi hætt í bankanum hafi honum verið heimilt að selja bréf sín. Þá er óumdeilt að fyrrverandi forstjóri stefnda færði hlutabréfaeign sína og lán þeim tengdum í einkahlutafélag á árinu 2006. Stefnandi hefur lagt fram skýrslu PricewaterhouseCoopers hf. frá 26. apríl 2011 varðandi lán til starfsmanna stefnanda vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Í skýrslunni er tekið fram að PricewaterhouseCoopers hf. hafi rannsakað starfsemi stefnanda fyrir slitastjórn stefnanda samkvæmt sérstökum samningi þar um. Fram kemur að framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn á hlutabréfaviðskiptum starfsmanna stefnanda og lánveitingar þeim tengdum á árunum fyrir fall bankans. Viðskipti starfsmanna hafi verið tekin til skoðunar á árunum 2007 og 2008 og meðal þeirra gagna sem rannsökuð hafi verið hafi verið listi regluvarðar yfir hlutabréfaviðskipti starfsmanna, en samkvæmt reglum stefnanda hafi starfsmönnum borið skylda til að tilkynna regluverði um öll verðbréfaviðskipti sín. Hafi regluvörður í framhaldinu tekið afstöðu til viðskiptanna með tilliti til stöðu viðkomandi og hvort viðkomandi byggi yfir innherjaupplýsingum á viðskiptadegi. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að á árunum 2007 til 2008 hafi 48 starfsmenn sem fengið hafi lánafyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa í 107 tilvikum selt hlutabréf í bankanum.

                Bæði þau sönnunargögn er til urðu fyrir 9. október 2008 sem og þeir framburðir er gefnir voru fyrir dóminum leiða í ljós tiltekin meginsjónarmið varðandi kaup lykilstarfsmanna á hlutabréfum í stefnanda. Er þar vikið að áhættu því samfara að lykilstarfsmenn eigi hlutabréf í stefnanda sem keypt hafi verið fyrir lán frá stefnanda sjálfum og nauðsyn á því að takmarka þá áhættu. Þó svo ýmis gögn hafi verið lögð fram er varða atburði fyrir 9. október 2008 felst að mati dómsins í engu þeirra afdráttarlaus yfirlýsing um algert skaðleysi starfsmanna af hlutabréfakaupum ef frá er talin yfirlýsingin frá 25. september 2008 og fundargerðir tengdar henni. Þá hefur að mati dómsins, gegn mótmælum stefnanda, ekki verið sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að svonefndur söluréttur hafi tryggt algert skaðleysi starfsmanna, en takmarkaðra gagna nýtur um söluréttinn. Loks liggja engin ótvíræð skrifleg sönnunargögn frammi um að algert sölubann lykilstarfsmanna hafi verið á bréfum, en framlögð gögn þykja fremur benda til að slíkt hafi verið heimilað hafi eftir því verið leitað. Verða ummæli fyrrverandi stjórnarformanns stefnanda í niðurlagi á dskj. nr. 24 ekki skilin á annan veg en að nánast allir starfsmenn stefnanda hafi getað selt hluti sína og greitt upp skuldir. Skýrslugjafar hér fyrir dómi hafa hins vegar lýst því yfir að skaðleysið skyldi vera algert og um ótvírætt sölubann hafi verið að ræða. Við mat á þeim yfirlýsingum verður ekki fram hjá því litið að þær eru til komnar eftir að mál þetta var höfðað og varða auk þess persónulega hagsmuni sumra þeirra er skýrslu gáfu. Að öllu framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að ósannað sé gegn andmælum stefnanda að stefnda hafi frá því hann tók fyrst lán hjá stefnanda til hlutabréfakaupa verið lofað algeru skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda. Verður sýknukröfu stefnda á þessari forsendu því hafnað. 

                Þá er krafa stefnda um sýknu á þeim grundvelli að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda að bera samningana fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og að víkja beri samningum til hliðar vegna atvika sem komið hafi til eftir samningsgerð, auk þess sem um forsendubrest hafi verið að ræða. Stefnandi hefur mótmælt þessum málatilbúnaði stefnda.  

                Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat samkvæmt 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Lánssamningar þeir er málið varðar hafa allir að geyma sambærileg uppsagnarákvæði. Samkvæmt þeim var stefnanda heimilt að segja upp láni einhliða og fyrirvaralaust meðal annars ef tryggingar eða ábyrgðir að baki lánum væru ekki lengur fullnægjandi að mati stefnanda. Samkvæmt þessu var gjaldfellingarákvæði samninga tengt veðhlutfalli heimildarákvæði til handa stefnanda en honum bar engin skylda til þess þó svo skilyrðum ákvæðisins væri fullnægt. Stefndi var forstjóri Kaupþings banka hf. í Lúxemborg er stefnanda var skipuð skilanefnd. Fram kom í aðilaskýrslu stefnda að hann hóf störf hjá stefnanda á árinu 1994 og hafði því að baki langan starfsferil í bankanum. Honum var því mæta vel ljós áhætta tengd viðskiptum með hlutabréf sem fólst í von um hagstæða framvindu að gjalddaga. Sú áhætta verður almennt ekki takmörkuð. Stefnandi hefur staðhæft í málflutningi að stefndi hafi notið töluverðs arðs af hlutabréfum sínum í stefnanda og greitt sér um 200.000.000 krónur í arð. Þeirri staðhæfingu hefur stefndi ekki andmælt. Áður var komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að stefnda hafi verið óheimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda. Fram hefur komið að starfsmenn stefnanda sendu lykilstarfsmönnum tilkynningar um veðþekju lána þegar þekjan fór niður fyrir viðmiðunarmörk. Stefndi hafði því fulla yfirsýn yfir verðmæti hlutabréfa sinna og þróun virðis þeirra í tengslum við lánssamninga. Þegar þessi atriði eru virt verður ekki fallist á með stefnda að framferði stefnanda í tengslum við lánssamninga valdi því að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera þá fyrir sig eða að forsendur að baki samningum hafi brostið. Verður því ekki fallist á að víkja beri lánssamningum til hliðar á grundvelli sjónarmiða um brostnar forsendur og á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.   

                Stefnandi byggir riftunarkröfur sínar aðallega á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf sem sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt ákvæðinu megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Hin umþrætta niðurfelling og þar með gjafagerningurinn hafi átt sér stað 25. september 2008 en frestdagur sé 15. nóvember 2008. Uppfyllt séu þau skilyrði ákvæðisins að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa.  

                Áður hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ekki liggi fyrir sönnun af hálfu stefnda um að honum hafi verið óheimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda og að stefnanda hafi ekki borið skylda til að selja hlutabréfin eftir að veðþekjan tók að lækka. Þá hafi stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi lofað honum algeru skaðleysi af kaupum á hlutabréfum í bankanum. Samkvæmt lánssamningi nr. 3015 bar stefndi persónulega ábyrgð á 10% af lánsfjárhæðinni. Að því er aðra lánssamninga varðar bar stefndi að fullu persónulega ábyrgð á lánsfjárhæðum samkvæmt þeim samningum. Stefnda hefur ekki tekist sönnun þess að mistök ráði því að sambærileg 10% takmörkun hafi ekki verið í þeim lánssamningum.

                Lánssamningar nr. 3015, 4735 og 6042 eru allir orðaðir með nokkuð svipuðum hætti. Lofar lántaki að taka að láni og bankinn að lána að jafnvirði tiltekna fjárhæð í íslenskum krónum í tilgreindum erlendum myntum og hlutföllum. Að því marki er lánin voru í evrum skyldu lánin bera EURIBOR vexti, en LIBOR vexti að því er aðra gjaldmiðla varðar. Lánshlutar í íslenskum krónum skyldu bera REIBOR vexti. Að því er lánssamning nr. 4735 varðar var greiðslustaður hjá bankanum þar sem lántaki heimilar að láta skuldfæra tékkareikning í bankanum fyrir greiðslum afborgana og vaxta samkvæmt samningi. Að því er aðra lánssamninga varðar er einungis tilgreint að greiðslustaður sé í bankanum. Þar kemur t.a.m. ekki fram að lánin séu skuldfærð af gjaldeyrisreikningi eða viðlíka ákvæði. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands meðal annars í málum nr. 153/2010 og nr. 155/2011 fela allir ofangreindir samningar að mati dómsins í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem miðar fjárhæðir samkvæmt samningnum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 2. og 3. gr. samningsins. Slík gengistrygging er óheimil eftir ófrávíkjanlegum reglum laga nr. 38/2001.  

                Að því er lán nr. 5094 varðar var lánsfjárhæð í því tilviki miðuð við íslenskar krónur. Þó svo lánssamningur nr. 6035 heimili einnig að láni verði breytt yfir í íslenskar krónur er óumdeilt að það var aldrei gert. Lánssamningur var undirritaður 7. maí 2005 og skuldi lánsfjárhæð greidd á einum gjalddaga 7. maí 2011. Vextir skyldu vera REIBOR vextir að því marki sem lán væri í íslenskum krónum. Þegar þessi atriði eru virt er það niðurstaða dómsins að lán þetta hafi verið í íslenskum krónum sem tekið hafi mið af íslenskum vöxtum.  

                Vegna óheimillar gengistryggingar hefur Hæstiréttur talið í dómi í máli nr. 471/2010 óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þar sem í samningi aðila væru ákvæði um vaxtahæð, sem samkvæmt framansögðu yrði ekki beitt, svari atvik til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skuli vextir þegar svo standi á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Stefnandi hefur í endanlegri varakröfu sinni miðað fjárhæðir við útreikning með hliðsjón af ofangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Samkvæmt því nam uppgreiðsluverðmæti lánssamninga þann 25. september 2008, að teknu tilliti til 10% ábyrgðar á láni nr. 3015, alls 717.334.575 krónum, en fjárhæð láns nr. 5094 breytist ekki þar sem í útreikningi var uppgreiðsluverðmæti miðað við íslenskar krónur.

                Samkvæmt þessu bar stefndi 25. september 2008 persónulega ábyrgð á greiðslu fjárskuldbindingar sem á þeim degi nam alls 717.334.575 krónum. Með yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra stefnanda þann dag var sú ábyrgð felld niður. Af því leiðir að eign stefnandi rýrnaði með samsvarandi hætti og liggur ekki annað fyrir réttinum en að hann hafi orðið fyrir tjóni í samræmi við það. Yfirfærsla á lánssamningum samkvæmt Stefndi auðgaðist í réttu hlutfalli við það. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins að stefnda hafði ekki verið lofað algjöru skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda verður ekki litið á yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra stefnanda sem annað en gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af þessu verður fallist á kröfu stefnanda um að rift verði með dómi ráðstöfun Kaupþings banka hf. 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga þeirra sem um er deilt í málinu.

                Þá gerir stefnandi kröfu samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann auðgaðist um við ákvörðun um niðurfellingu hinnar persónulegu ábyrgðar. Gegn þeirri kröfu teflir stefndi fram kröfu um að gagngjald sem komi til frádráttar, enda mæli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 fyrir um greiðslu fjármuna sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns komi riftunarþola að notum. Stefndi byggir á því að sér sé einungis skylt að endurgreiða þá auðgun sem hann hafi haft af ráðstöfuninni. Það sé því óhjákvæmilegt að draga frá láni starfsmanna verðmæti þess hlutafjár sem sett hafi verið að veði fyrir skuldinni miðað við gengi hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008. Í greinargerð sinni staðhæfir stefndi að verðmæti hlutabréfanna hafi á þeim degi numið 2.599.087.500 krónum. Stefnandi hefur ekki mótmælt þessari staðhæfingu stefnda.

                Um endurgreiðslu stefnda fer samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 en samkvæmt því ákvæði skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Samkvæmt þessu er þeim sem þola þarf riftun gert að endurgreiða þá auðgun sem viðkomandi hefur haft af hinni riftanlegu ráðstöfun. Ber honum ekki að greiða hærri upphæð en sem nemur tjóni búsins. Með hliðsjón af því sem áður sagði nam fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda 25. september 2008 samtals 717.334.575 krónum. Sú fjárhæð hefði orðið stefnanda að notum ef ekki hefði komið til sú yfirlýsing er nú hefur verið rift. Nemur verðmæti fjárkröfunnar miðað við ábyrgð stefnda 25. september 2008 tjóni þrotabúsins. Hér kemur til skoðunar sú málsástæða stefnda að draga beri verðmæti hinna veðsettu muna frá kröfu stefnda miðað við stöðu bréfanna 25. september 2008. Hugtakið auðgun í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 er ekki skilgreint sérstaklega í lögunum. Þá veita úrlausnir dómstóla ekki skýrar leiðbeiningar um á hvern veg meta beri auðgunina. Svo sem áður er rakið átti yfirlýsing stefnanda 25. september 2008 um að lýsa yfir að persónuleg ábyrgð starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa væri felld niður sér talsverðan aðdraganda. Á mánuðunum þar á undan hafði verðmæti hlutabréfa í stefnanda fallið jafnt og þétt. Leiddi það til þess að staða yfirmanna í stefnanda var rædd og lýstu margir yfir áhyggjum vegna stöðu mála. Ákvörðun stefnanda að fella niður persónulega ábyrgð á lánum var rökstudd með því að með því þyrftu þessir starfsmenn ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegum skuldbindingum sínum og gætu þeir í staðinn einbeitt sér að störfum sínum í stefnanda. Verðmæti hlutabréfa í stefnanda féllu samfellt þar til þau urðu verðlaus við það að bankanum var skipuð skilanefnd af hálfu Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Fjárhagsleg verðmæti í skilningi endurgreiðslu auðgunar verður að skilja sem raunhæf verðmæti. Þó svo unnt sé að setja miða á verðmæti hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008 hefðu þau verðmæti aldrei komið stefnanda að notum þar sem raunhæft verðmæti bréfanna var á þeirri stundu í reynd lítið og mikilli óvissu háð. Hefði stefnandi aldrei getað selt bréfin eins og ástand var á hlutabréfamarkaði 25. september 2008 og var bókfært verðmæti þeirra við flutning eigna yfir í Nýja Kaupþing hf. og Arion banka hf. ekkert. Á þessum forsendum verður hafnað þeirri málsástæðu stefnda að verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa stefnda 25. september 2008 komi til frádráttar endurgreiðslukröfu stefnanda. 

                Stefndi hefur uppi málsástæður er varða fjárkröfu stefnanda. Verður hér á eftir vikið að málsástæðum er ekki hefur þegar verið leyst úr og snúa að því að endurgreiðslukrafa stefnanda, sem dómurinn hefur fallist á, byggir á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. 

                Stefndi gerir þá kröfu samkvæmt 145. gr. laga nr. 21/1991 að krafa stefnanda verði lækkuð eða felld niður með vísan til hinnar sérstöku heimildar í 145. gr. Samkvæmt ákvæðinu má lækka eða fella niður kröfu á þann sem hag hafði af ráðstöfun eða fullnustugerð ef sérstaklega stendur á ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiða til þess sama. Að því er þessa kröfu varðar hefur stefndi að engu leyti sýnt fram á fjárhagslegar aðstæður sínar til að krafa þessi sé tæk til meðferðar. Verður henni af þeim sökum hafnað. 

                Stefndi gerir þær kröfur að skaðabótakrafa hans á grundvelli yfirlýsinga og loforða um að hann tryggði skaðleysi starfsmanna vegna hlutabréfakaupa og aðgerðarleysis sem lýsi sér í því að hann hafi tekið dræmt í beiðnir starfsmanna um að selja hlutabréf verði skuldajafnað við kröfu stefnanda. Tjón stefnda nemi verðmæti hlutabréfanna á þeim tíma er hin ætlaða riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað og nemi 2.599.087.500 krónum. Byggi skaðabótakrafan á hinni almennu sakarreglu og þeirra krafna sem gera verði til góðs og gegns bankamanns. Skaðabótakrafa stefnda á þessum grundvelli er vanreifuð af hálfu stefnda og getur af þeirri ástæðu ekki komið til álita.

                Loks mótmælir stefndi öllum útreikningum stefnanda á fjárhæðum eftirstöðva lánssamninga sem röngum og ósönnuðum. Stefndi hefur ekki skotið sérstökum rótum undir staðhæfingar sínar að þessu leyti til. Kröfur stefnanda byggja á útreikningum sem sjá má stað í gögnum málsins og þá sérstaklega útreikningi PriceWaterhouseCoopers á dskj. nr. 11. Varakrafa byggir á dskj. nr. 32. Að mati dómsins styðja þessi skjöl dómkröfur stefnanda nægjanlega til að á þeim verði byggt í niðurstöðu málsins.

                Að öllu framangreindu virtu verður stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda verðmæti fjárkröfu stefnanda miðað við ábyrgð stefnda 25. september 2008, eða 717.334.575 krónur. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá 25. september 2008 til greiðsludags, en til vara miðað við riftunarbréf stefnanda. Stefndi hefur mótmælt upphafstíma vaxta. Dómurinn telur rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, enda hér um endurgreiðslukröfu að ræða.

                Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga, ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða fullnusta verði verulega örðugri. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga skal kyrrsetningarbeiðni að jafnaði beint til sýslumanns í því umdæmi, þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing. Undantekningar frá því er að finna í 1. til 3. tl. 1. mgr. 7. gr., en samkvæmt 3. tl. er heimilt að beina kyrrsetningarbeiðni til sýslumann þar sem eignir gerðarþola er að finna, hafi hann ekki skráð heimili hér á landi.

                Stefndi er búsettur í Lúxemborg og hefur þar skráð heimili. Með dómi í máli þessu er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 717.334.575 krónur, ásamt vöxtum. Þar var hafnað málsástæðum stefnda um aðildarskort stefnanda í málinu. Með hliðsjón af búsetu stefnda í Lúxemborg og fjárhæð dæmdra krafna í máli þessu verður að telja skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fullnægt til að kyrrsetja eignir stefnda, en búseta stefnda í útlöndum minnkar líkur fyrir því að fullnusta á kröfum stefnanda takist og gerir hana örðugri en ella. Kyrrsetning sýslumanns 22. júní 2011 fór fram í eignarhlut stefnda í einkahlutafélaginu Hvítsstöðum. Það félag er samkvæmt ársreikningi þess félags fyrir árið 2009 með skráð aðsetur að Skólavörðustíg 12 í Reykjavík. Upplýsingar úr Hlutafélagaskrá 23. ágúst 2011 staðfesta það sama. Með þessu er fullnægt því skilyrði 3. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 31/1991 að kyrrsetningin hafi mátt fara fram af hálfu sýslumannsins í Reykjavík, en kyrrsetning í eignarhluta í skráðu félagi fer fram á skráðu lögheimili félagsins. Með vísan til alls þessa er skilyrðum laga nr. 31/1990 fullnægt til að verða við kröfu stefnanda og staðfesta kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík frá 22. júní 2011 í máli nr. K-16/2011.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Guðmundur Ingvi Sigurðsson héraðsdómslögmaður.

                Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Rift er ráðstöfun stefnanda, Kaupþings banka hf., frá 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda, Magnúsar Guðmundssonar, á greiðslu lánssamninga aðila nr. 3015, dagsettum 21. desember 2005, nr. 4735, dagsettum 5. mars 2007, nr. 5094, dagsettum 7. maí 2007 og nr. 6042, dagsettum 20. ágúst 2007.

                Stefndi greiði stefnanda 717.334.575 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2010 til greiðsludags.

                Staðfest er kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. K-16/2011, sem fram fór 22. júní 2011 um kyrrsetningu 20% eignarhluta stefnda í Hvítsstöðum ehf., kt. 470503-3190, fyrir dæmdri kröfu.

                Málskostnaður fellur niður.