Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. janúar 2004.

Nr. 491/2003.

Pétur Stefánsson ehf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Guðmundi Bárðarsyni

(enginn)

 

Kærumál. Dómarar.Vanhæfi.

P ehf. krafðist að héraðsdómari viki sæti í máli hans gegn G sökum þess að dómarinn hefði viðhaft tiltekin ummæli í þinghaldi. Með vísan til þess að ekki yrði séð að dómarinn hefði andmælt því að hafa látið umrædd ummæli falla var fallist á kröfu P ehf. og dómaranum gert að víkja sæti í málinu, sbr. g. lið 5. gr. lag nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ólöf Pétursdóttir dómstjóri viki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Krafa sóknaraðila er reist á því að dómari málsins hafi í þinghaldi viðhaft þau ummæli að hún teldi tiltekin fordæmi Hæstaréttar mjög skýr um sakarefni málsins og látið í ljós það álit að ekkert væri fram komið í málatilbúnaði sóknaraðila sem réttlætti að vikið yrði frá þeim fordæmum. Fengi dómarinn ekki betur séð en að mjög yrði á brattann að sækja fyrir sóknaraðila í málinu. Telur hinn síðastnefndi að ráða megi af ummælunum að dómarinn hafi þegar í fyrsta þinghaldi verið búinn að taka efnislega afstöðu til sakarefnis málsins. Þótt dómari leiti sátta með aðilum meðan á málsmeðferð standi breyti það engu um að honum beri að varðveita hæfi sitt og tjá sig ekki efnislega um afstöðu sína til þess ágreinings, sem til úrlausnar sé, fyrr en í dómi.

Af forsendum hins kærða úrskurðar verður ekki ráðið að dómarinn andmæli því að hafa látið þau ummæli falla, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á. Að þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 488/1998 í dómasafni réttarins 1998, bls. 4512 verður fallist á með sóknaraðila að rétt sé að dómarinn víki sæti í málinu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri víkur sæti í málinu.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2003.

                Mál þetta höfðaði stefnandi Guðmundur Bárðarson, Neðstutröð 2, Kópavogi, þann 26. ágúst síðastliðinn og gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum 2.123.888 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

                Stefndi Pétur Stefánsson ehf., Dalvegi 26, Kópavogi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

                Dómari fékk málið úthlutað þann 27. október síðastliðinn og boðaði til þing­halds þann 10. nóvember síðastliðinn til þess að leita sátta með aðilum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Í því þinghaldi kannaði dómari möguleika til sátta með aðilum og var þá meðal annars vikið að hæstaréttardómi 1990:1246, en þar var leyst úr sambærilegu ágreiningsefni, en ágreiningur er um uppgjör launa við stefnanda sem hafði verið 1. stýrimaður hjá stefnda, en var sagt upp fyrirvaralaust.

                Lögmaður stefnda óskaði eftir stuttum fresti til frekari sáttaumleitana.

                Málið var á ný tekið fyrir þann 17. nóvember síðastliðinn. Í því þinghaldi upp­lýsti lögmaður stefnda að forsvarsmaður stefnda væri út á sjó og af þeim sökum hefði hann ekki haft tækifæri til þess að ræða við umbjóðanda sinn. Lögmaðurinn upplýsti að forsvarsmaður stefnda væri væntanlegur í land í síðustu viku nóvember. Með sam­þykki lögmanns stefnanda var málinu frestað til mánudagsins 1. desember til frekari sáttaumleitana.

                Þann 1. desember var málið tekið fyrir á ný og nú krafðist lögmaður stefnda að dómari viki sæti með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Kröfu sína rökstuddi lögmaður stefnda með þeim rökum að í stefnu komi fram að stefnandi styðji kröfur sínar meðal annars við nokkra nánar tilgreinda hæsta­réttardóma. Fram hafi komið hjá dómaranum í fyrsta þinghaldi eftir úthlutun málsins að hún teldi að fordæmi Hæstaréttar mjög skýr um sakarefni málsins. Hafi dómarinn upplýst að það væri hennar mat að ekkert væri fram komið í málatilbúnaði stefnda sem réttlætti að vikið yrði frá fordæmum Hæstaréttar og að hún fengi ekki betur séð en að mjög yrði á brattann að sækja fyrir stefnda í málinu.

                Stefndi byggir á þeirri málsástæðu að miðað við þessi ummæli dómarans hafi hann réttmæta ástæðu til að óttast að hún hafi þegar gert upp hug sinn um úrslit málsins. Í það minnsta sé ljóst að dómarinn hafi þegar tekið afstöðu til þess hvert fordæmisgildi dómur Hæstaréttar sé varðandi sakarefni málsins.

                Í ljósi þessa telur stefndi að í málinu séu upp aðstæður sem veiti honum rétt­mæta ástæðu til þess að efast um óhlutdrægni dómarans.

                Lögmaður stefnanda mótmælir því að dómarinn víki sæti í máli þessu. Dómarinn hafi í þinghaldi þar sem verið var að leita sátta með aðilum innt stefnda eftir því hvort einhverjar þær aðstæður væru í hans máli sem gerðu það að verkum að ekki verði litið til úrlausnar Hæstaréttar í sambærilegu máli gangi mál þetta til dóms. Sú spurning til stefnda geti engan veginn gert dómarann vanhæfan á grundvelli g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála.

                Eins og áður greinir boðaði dómari málsaðila til þinghalds 10. nóvember síðastliðinn til þess að leita sátta með aðilum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Í því þinghaldi bar á góma hæstaréttardómur 1990:1246, þar sem málsatvik eru mjög hliðstæð þeim sem mál þetta snýst um. Vísaði stefnandi á þennan dóm dóm­kröfu sinni til stuðnings. Aftur á móti víkur stefndi ekki að þessum dómi í greinargerð sinni. Af þeirri ástæðu innti dómari lögmann stefnda eftir því hvort aðstæður væru frábrugnar í þessu máli sem leitt gætu til annarar niðurstöðu við úrlausn málsins. Þegar dómari leitar sátta með málsaðilum er horft á lagarök og tekið mið af úrlausnum Hæstaréttar þegar málsatvik eru með þeim hætti að hæsta­réttardómar falla að máli því sem er til úrlausnar hverju sinni og dómar Hæstaréttar geta með þeim hætti haft leið­beiningargildi við úrlausn málsins. Í máli því sem hér um ræðir var það sjálfsögð spurning af hálfu dómarans að spyrja lögmann stefnda að því á hvaða málsástæðum hann hygðist byggja sína kröfu ef hann teldi nefndan dóm ekki eiga við í máli þessu. Að mati dómarans er það aldeilis fjarstæða að slík spurning sem beint er til málsaðila geti gert hana vanhæfa til þess að dæma málið á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Af þeirri ástæðu telur dómari ekki lagaskilyrði til þess að verða við kröfu stefnda að víkja sæti í máli þessu á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Dómari málsins, Ólöf Pétursdóttir, hafnar að víkja sæti í máli þessu.