Hæstiréttur íslands
Mál nr. 155/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2009. |
|
Nr. 155/2009. |
Dögg Pálsdóttir(sjálf) gegn Saga verktökum ehf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Máli D gegn S var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að slíkir annmarkar væru á reifun þess að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á kröfur D.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Dögg Pálsdóttir, greiði varnaraðila, Saga verktökum ehf., 125.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 9. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 25. júní sl. af Dögg Pálsdóttur, Laugarnesvegi 89, Reykjavík á hendur Saga verktökum ehf., Gauksási 8, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 14.445.401 krónu ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðra og lægri fjárhæð með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefnandi krafðist þess jafnframt í stefnu, með vísan til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að málið yrði sameinað öðru máli nr. E-1886/2008 sem rekið væri milli sömu aðila vegna framkvæmda stefnda í þágu stefnanda við endurgerð íbúða að Hátúni 6 í Reykjavík. Var þeirri kröfu stefnanda hafnað með úrskurði uppkveðnum 8. desember sl.
Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda. Er það frávísunarþáttur málsins sem hér er til meðferðar.
Til stuðnings kröfu sinni um frávísun málsins frá dómi vísar stefndi til þess að lýsing kröfugerðar, málavaxta og málsástæðuna í stefnu sé svo óljós og óskýr að ekki sé hægt að taka til varna af þeim sökum. Um sé að ræða fjölmarga kröfuliði og sé sjaldnast gerð grein fyrir tölulegum útreikningum og forsendum fyrir hverjum kröfulið fyrir sig. Nánast ekkert sé hirt um að gera grein fyrir einstökum skjölum eða málsástæðum sem byggt sé á heldur látið duga að vitna til óskilgreindra bakskjala sem skýra eigi útreikning stefnanda. Þannig sé í málsástæðnakafla í stefnu fjallað um ofkrafinn efnis- og vinnukostnað, liðir 1-5. Sé þar í öllum tilvikum talað um að við skoðun ótilgreindra bakskjala hafi komið í ljós að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um einhvern tiltekinn kostnað án þess að það sé rökstutt frekar. Þá sé í 6. liðnum í þessum kafla áætlað að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um 1.000 vinnustundir. Engin tilraun sé hins vegar gerð til að útskýra hvernig þessi vinnustundafjöldi hafi verið fundinn, um hvaða vinnustundir sé að ræða og hvers vegna þær séu ofkrafðar. Þá sé fjallað í málsástæðnakaflanum, í liðum 1-3, um skaðabótakröfur vegna galla. Enginn möguleiki sé heldur þar á að átta sig á þeim kröfum vegna óskýrleika, en þær séu í öllum tilvikum áætlaðar. Loks sé í málsástæðum fjallað um fjárkröfur á hendur stefnda undir liðnum almennar bótakröfur. Vanti þar allan rökstuðning fyrir þeim skaða- og miskabótakröfum sem stefnandi telji sig eiga. Engin tilraun sé gerð til að lýsa hinum slæmu vinnubrögðum og vinnusvikum forsvarsmanna og annarra starfsmanna stefnda. Ekkert sé tilgreint hvert óhagræði stefnanda hafi verið og í hverju matsvinna vegna ágreinings við stefnda hafi verið fólgin og vandséð og órökstutt sé hvernig 26. gr. skaðabótalaga geti átt við vegna þessara lögskipta aðila.
Loks vísar stefndi til þess að stefnandi hafi enga grein gert fyrir þeim sönnunargögnum sem hún hyggist byggja á, eins og áskilið sé í g-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Engin matsgerð liggi fyrir um alla þá þætti sem stefnandi hafi tiltekið og gert athugasemdir við heldur séu þeir áætlaðir af stefnanda .
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefna fullnægi öllum skilyrðum sem sett séu í 80. gr. laga nr. 91/1991. Þannig sé dómkrafan tiltekin með tiltekinni fjárhæð og því sé fullnægt ákvæði d-liðar ákvæðisins. Þá sé tilgreining málsástæðna skýr og gagnorð. Mótmæli stefnandi þeirri staðhæfingu stefnda að nauðsynlegt sé að sundurliða kröfur í stefnu og segir málsástæður stefnda um vöntun á sönnunargögnum eiga fremur að leiða til sýknu en frávísunar. Þá kveðst stefnandi vísa til þess að ætlunin hafi verið að mál þetta yrði sameinað máli sama dómstóls nr. E-1886/2008, sem rekið sé milli sömu aðila, og hafi hann talið sig hafa vilyrði lögmanns stefnda fyrir því að nægilegt væri að vísa til þeirra skjala án þess að leggja þau sérstaklega fram í þessu máli. Nú hafi dómari hafnað að sameina málin og því liggi þau ekki nú fyrir í málinu.
Niðurstaða.
Í kafla um málsástæður og lagarök í stefnu er gerð grein fyrir fjárkröfum stefnanda með þeim hætti að þar sé í fyrsta lagi um að ræða ofkrafinn efnis- og vinnukostnað af hálfu stefnda sem nánar er sundurliðaður í 1.- 6. lið. Í 1.- 5. kröfulið er lítið annað sagt til skýringar um viðkomandi kröfur en að skoðun á ótilgreindum bakskjölum hafi sýnt að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um að minnsta kosti tilgreinda fjárhæð. Þannig er í 1. lið einungis talað um ofkrafinn efniskostnað að fjárhæð a.m.k. 2.219.084 krónur, í 2. lið um efniskostnað pípara að fjárhæð a.m.k. 1.260.678 krónur o.s.frv. Þá er í 6. lið áætlað að vinnutímafjöldi sem stefndi hafi ofkrafið stefnanda um sé a.m.k. 1.000 klst. sem, miðað við lægsta meðaltímagjald tímabilsins, nemi a.m.k. 4.108.400 krónum.
Þá er í öðru lagi tilgreint að um sé að ræða skaðabótakröfur vegna galla sem nánar er gert grein fyrir í 1.- 3. kröfulið. Er í 1. og 2. lið greint frá göllum á svalahurð og þakglugga en í 3. lið frá öðrum göllum og í því sambandi nefndur leki á gluggum og óþéttni við gólf í svefnherbergi. Kröfuliðir þessir eiga það sammerkt að meintum göllum er þar í engu lýst og ekki vísað til neinna gagna í því sambandi. Þá er kröfufjárhæð hvers kröfuliðs eftir sem áður lýst þannig að um sé að ræða áætlaðan kostnað án þess að það sé í einhverju rökstutt frekar.
Loks er þriðja hluta fjárkrafna stefnanda lýst þannig í stefnu að þar sé um að ræða almennar bótakröfur. Er þeim nánar lýst þannig að þetta séu skaðabætur og miskabætur að álitum vegna þess umtalsverða tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna vinnubragða og vinnusvika forsvarsmanna og starfsmanna stefnda, bæði fjárhaglegs og ófjárhagslegs. Þannig sé um að ræða almenna skaðabótakröfu upp á 3.000.000 króna, og sé sú fjárhæð metin að álitum, en að teknu tilliti til viðbótarkostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir þar eð „nauðsynlegt reyndist að segja upp samningi aðila, vegna alls kyns matsvinnu vegna ágreinings við stefnda og annar viðbótarkostnaður sem lagðist á verkið vegna vanefnda stefnda“. Loks kveðst stefnandi gera miskabótakröfu á hendur stefnda að fjárhæð 1.000.000 krónur „vegna ófjárhagslegs tjóns, ama og miska sem starfsmenn stefnda bökuðu henni, bæði vegna vanefnda á verklokum og vegna þess ágreinings sem á eftir kom“. Engin tilraun er gerð af hálfu stefnanda til að lýsa því frekar í hverju hin meintu vinnusvik stefnda hafi verið fólgin og ekki er heldur hér vísað til neinna gagna til sönnunar þessum staðhæfingum eða því lýst með einhverjum hætti hvernig stefnandi hyggist renna stoðum undir sinn málatilbúnað.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er allar málatilbúnaður stefnanda í framangreindum kröfuliðum mjög óljós og þannig fram settur að torvelt er fyrir stefnda að taka til varna í málinu. Þá er málsgrundvöllur stefnanda þar fyrir utan um margt óskýr. Þannig kveður stefnandi lög nr. 42/2000 um þjónustukaup gilda um samningssamband málsaðila og að bótakröfur og endurkröfur í stefnu byggist á þeim lögum, án þess þó að eitthvað liggi fyrir um það hvernig samningssambandi þeirra var háttað eða tilgreint sé nánar á hvaða lagaákvæðum kröfugerðin byggist. Loks er í stefnu ekki gerð frekari grein fyrir sönnunargögnum en svo, að boðað er að stefnandi muni leggja fram skjöl við þingfestingu málsins til stuðnings kröfum sínum en jafnframt er vísað til framlagðra skjala í málinu nr. 1886/2008, sem stefnandi krafðist sameiningar við.
Þegar allt framangreint er virt þykja slíkir annmarkar vera á reifun málsins af hendi stefnanda, og röksemdir hans fyrir kröfum sínum og útlistun þeirra með þeim hætti, að óhjákvæmilegt er að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 220.000 krónur í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Dögg Pálsdóttir, greiði stefnda, Saga verktökum ehf., 220.000 krónur í málskostnað.