Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 1.apríl 2004. |
|
Nr. 431/2003. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Marlowe Oyod Diaz (Ásgeir Jónsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Miskabætur.
M var sakfelldur fyrir nauðgun og dæmdur í tveggja ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. október 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu en refsing verði þyngd. Jafnframt er krafist greiðslu 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2003 til 9. júní sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, að öðrum kosti verði hann sýknaður og bótakröfu vísað frá dómi. Til vara krefst ákærði þess að refsing verði milduð og hann sýknaður af kröfu um miskabætur eða þær lækkaðar.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Verjandi ákærða hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf Ragnars Benediktssonar yfirdeildarstjóra símstöðvardeildar Landsímans hf. 17. febrúar 2004. Þar kemur fram að Ragnar hefur að beiðni verjandans skoðað yfirlit frá Landsímanum hf. og Tali hf. sem sýna samskipti símanúmeranna [...] og [...] að morgni 5. janúar 2003. Vitnar Ragnar til skjala lögreglumálsins nr. 16 og 17, en það eru skrár um hringingar og SMS skilaboð þennan dag úr síma [...] á milli 7:07:28 og 7:23:18 og úr síma [...] frá 7:06:01 til 7:59:33. Í bréfinu segir síðan: „Niðurstaða mín er sú að þrjú samtöl hafi átt sér stað frá [...] til [...], sbr. skjal 16, þau áttu sér stað kl. 07:09:59, lengd 14 sek., kl. 07:11:47 lengd 270 sek. og kl. 07:23:18 lengd 35 sek. Aðrar færslur af gerðinni rt 11, eru hringingar frá [...] til [...] sem fluttar eru í talhólf [...], þær færslur koma fram á skjali 17.“
Af hálfu ákærða er krafist heimvísunar málsins þar sem héraðsdómur hafi ekkert mat lagt á sönnunargildi gagna sem aflað hafi verið um framangreind símasamskipti kæranda og vitnisins T. Vitnað er til þess að ákærði haldi því fram að kærandi hafi rætt tvívegis í síma eftir að hann kom inn í íbúð hennar. Fyrra símtalið hafi hún átt skömmu eftir að þau komu í íbúðina og hafi það staðið allt að 5-6 mínútum. Síðara samtalið hafi verið nokkru síðar og verið mun styttra og hafi hann og kærandi þá verið byrjuð að láta vel hvort að öðru. Ákæruvaldið vísar hins vegar til þess að framburði stúlknanna beri saman um að kærandi hafi sent vinkonu sinni SMS skilaboð og hún hafi, eftir að hafa lesið þau, hringt til kæranda sem hafi sagt allt vera í lagi og að ákærði væri inni á salerni. Ítrekað aðspurðar fyrir dómi minntist hvorug þeirra fleiri símtala.
Fyrir héraðsdómi var árangurslaust reynt að fá samræmi milli framburðar ákærða og vitna og skýrslna símafélaganna. Verður ekki séð að frekari tilraunir í þá átt geti borið árangur.
Héraðsdómur hefur metið sönnunargildi framburðar ákærða, kæranda og fleiri vitna og reist sakfellingu á því mati. Verður ekki séð að framangreindar upplýsingar um símhringingar séu til þess fallnar að ætla að sú niðurstaða kunni að vera röng, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt því og annars með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu til refsiákvæðis, refsingu, sakarkostnað og fjárhæð skaðabóta. Skulu bæturnar bera vexti svo sem greinir í héraðsdómi til 9. júní 2003, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, en þann dag var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt krafa um þær, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dæmd bótafjárhæð úr hendi ákærða, Marlowe Oyod Diaz, til Z skal bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2003 til 9. júní sama ár, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmans, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2003.
Ár 2003, mánudaginn, er á dómþingi, sem háð er í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, af héraðsdómurunum Finnboga H. Alexanderssyni, og Guðmundi L. Jóhannessyni og Sveini Sigurkarlssyni, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-984/2003: Ákæruvaldið gegn Marlowe Oyod Diaz, sem tekið var til dóms 4. september sl.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 10. júní 2003, á hendur ákærða, Marlowe Oyod Diaz, fyrir nauðgun, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 5. janúar 2003, á heimili Z með ofbeldi þröngvað henni til holdlegs samræðis.
Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður krefst þess fyrir hönd Z að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð krónur 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. janúar 2003 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt honum, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og réttargæsluþóknunar að viðbættum virðisaukaskatti.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu á hendur honum verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna
I.
Laugardagskvöldið 4. janúar sl. var Z, hér eftir nefnd Z, í fertugsafmæli í [...] þar sem hún drakk bollu og nokkra bjóra. Um kl. 03:00 um nóttina fór hún á veitingastaðinn [...] ásamt T og fleirum. Þar höfðu þær stutta viðdvöl en héldu yfir á veitingastaðinn [...]. Þar hitti hún strák úr [...] B. að nafni og dansaði við hann. Hún kom þar að, þar sem T sat í sófa á tali við nokkra karlmenn af asískum uppruna, þar á meðal ákærða. Hún settist hjá þeim og var rætt um daginn og veginn. Menn þessir gáfu þeim Z sinn hvorn bjórinn. Rétt fyrir lokun staðarins, er fólk var að tygja sig til heimferðar, kom T að máli við Z og sagði að tveir þessara Asíubúa ætluðu að skutla þeim heim. Z samþykkti það og settist aftur í bifreið sem ákærði átti ásamt T og og B. J. vinur ákærða ók bifreiðinni en ákærði sat í framsæti farþegamegin. Fyrst var ekið að [...] þar sem þau versluðu en síðan suður í [...] þar sem B. var hleypt út. Eftir það var ekið í [...], fyrst stöðvað við heimili T þar sem henni var hleypt út og þaðan að heimili Z. Þar fór ákærði inn með henni en ökumaðurinn J beið í bílnum.
Z og ákærða greinir á um það af hvaða ástæðum ákærði fékk að koma inn til hennar. Z kvað ákærða fyrst hafa beðið um að fá að koma inn með henni en hún sagt nei og hefði hann þá beðið um að fá að skreppa á salerni inni hjá henni og hún samþykkt það. Ákærði kvaðst á hinn bóginn ekki hafa beðið um að fá að fara á salerni heldur hefði honum leikið forvitni á að skoða bílskúrinn sem Z bjó í og hefði hún boðið honum að skoða hann. Áður en þau fóru inn sendi Z T SMS skilaboð sem hljóðuðu einhvern veginn svona: “O my God, hann er að koma inn” Upplýst er að þá var klukkan 07:06
Eftir að þau Z og ákærði fóru inn í íbúð hennar hófst sú atburðarás, sem síðar leiddi til ákæru í máli þessu.
Z hefur frá upphafi borið að er ákærði hafi komið af salerninu hafi hann gengið að henni, tekið í hendur hennar, kysst hana á hálsinn og síðan ýtt henni afturábak ofan í sófa, klætt hana úr síðbuxum og nærbuxum, klætt sjálfan sig úr buxunum, í fyrstu reynt að setja getnaðarlim sinn upp í hana en er það tókst ekki, fært sig neðar, komið limnum inn í leggöng hennar og haft við hana samfarir. Ákærði hefði haldið henni allan tímann og hún verið lömuð af skelfingu og enga mótspyrnu getað veitt.
Ákærði kvaðst á hinn bóginn hafa verið að kyssa Z bless og klappað henni á bakið er hún hefði tekið hönd hans og sett á brjóst sér. Hann hefði þá faðmað hana og kysst og sett hönd á hné hennar. Z hefði svo farið úr buxunum og hann haldið áfram að kyssa hana á hálsinn og strjúka brjóst hennar. Í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu þvertók ákærði fyrir að hafa haft samfarir við Z hvað þá að hafa nauðgað henni. Þegar í ljós kom með DNA rannsókn á sæði, sem fannst í Z, að það var úr ákærða, sneri ákærði við blaðinu og játaði samfarir við Z en kvað þær hafa farið fram með hennar vilja.
Áður en ákærði yfirgaf heimili Z kallaði hann kunningja sinn J inn. J kvað Z hafa setið á sófa klædda nærbuxum er hann kom inn og verið að klappa hundi. Hún hefði verið döpur og þögul að sjá en ekki grátandi. Hann hefði spurt hana hvort allt væri í lagi og hún svarað því játandi. Sjálf kvaðst Z hafa verið grátandi er J kom inn. Þegar ákærði og J voru farnir læsti Z útidyrunum og hringdi í T Er T svaraði ekki hringdi hún í vinkonu sína G í [...]. Þá var klukkan 07:56. Z hágrét í símann og gat ekkert talað við G. G. brást við með því að aka heim til Z og fara með hana heim til sín. Þar var E frá [...] og einnig var hringt í vinkonu Z sem kom á staðinn. Z gat ekki greint konum þessum frá því sem gerst hafði að öðru leyti en því að henni hefði verið ekið heim af tveimur karlmönnum, annar þeirra hefði komið inn til hennar og ekki hlustað á hana. Þær G, E og B ákváðu, þrátt fyrir andstöðu Z í fyrstu, að fara með hana á sjúkrahús. Þær fóru fyrst með hana á sjúkrahúsið í [...] en var bent á að fara á neyðarmóttöku vegna nauðgunar í Reykjavík og gerði læknirinn í [...] neyðarmóttökunni viðvart um komu þeirra þangað. Á leiðinni á neyðarmóttöku grét Z og gat lítið tjáð sig um atvik. Verður nánar vikið að framburðum ákærða, Z og annarra vitna síðar.
II
Kl. 10:10 sama dag kom Z í fylgd vinkvenna sinna, þeirra B, G og E á neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir tók á móti henni, skoðaði hana læknisfræðilega og skráði eftir henni frásögn af ætluðu broti og eigin lýsingu um ástand hennar við skoðun. Skýrslurnar voru lagðar fram í málinu og staðfestar af lækninum. Umrædd skýrsla höfð eftir Z hljóðar svo:
“Var með vinkonum mínum í gærkveldi í 40 ára afmæli í [...]. Margmenni og góð veisla. Fór svo til [...] með vinkonum mínum til að fara á kaffihús. Þá hefur verið komið fram yfir miðnætti. Fórum þaðan á [...], þar var margmenni. Fann vel á mér en alls ekki drukkin. Vorum þar til ca 06:00. Þá fékk ég og vinkona mín sem heitir T far með tveimur strákum sem ég þekkti ekki, útlendingum, asíubúum sem töluðu ensku. Þeir keyrðu hana fyrst heim og óku mér svo áleiðis heim en þar sem þeir rötuðu ekki þurftum við að segja þeim til vegar. Þegar heim kom fór einn þeirra með mér inn og vildi fá að fara á WC. Við fórum inn og ég lokaði útidyrahurðinni þar sem ég á hund. Hann fór inn á WC en ég var að tala við hundinn minn. Þegar hann kom út fór hann að tala við mig en ég segi honum að fara en hann hlustar ekkert á mig þrátt fyrir að ég ítreki þetta. Hann var örugglega eitthvað við skál (en ekki sá sem ók). Hann reyndi að kyssa mig en ég ýtti honum frá mér en hann hélt áfram og þá gafst ég upp og hann kæddi mig úr að neðan þarna á gólfinu og nauðgaði mér þrátt fyrir það að ég bæði hann að hætta. Geri mér ekki grein fyrir hve lengi þetta stóð yfir og veit ekki hvort hann hefur lokið sér af eða ekki. Svo hætti hann bara og fór. Þá hringdi ég í G vinkonu mína sem kom og hún hringdi í B en þriðja stúlkan var hjá G. Ég sat þarna á gólfinu bara stjörf.
Ekki var um neitt ofbeldi heldur þvingaði hann sig upp á mig”.
Í samantekt læknisins um ástand Z við skoðun er þetta skráð: “Situr í hnipri í ullarpeysu, grátandi og vill helst ekki muna hvað gerðist en kemur upp með sögu hægt og bítandi sem raðast saman í eðlilega frásagnarröð. Líður mjög illa”. Í niðurstöðu læknisins segir m. a.: “....Er útgrátin, líður illa, situr í hnipri en þó samvinnuþýð og gefur góða sögu. Við skoðun sjást engir ytri áverkar á líkama né kynfærum. Ekki finnast sæðisfrumur við smásjárskoðun frá leggöngum eða leghálsi en ein sæðisfruma finnst í gleri frá leggangsopi”.
Lögð var fram í málinu umsögn Sigurlaugar Hauksdóttur, félagsráðgjafa í neyðarmóttöku vegna nauðgunar dagsett 1. september sl. varðandi áhrif meintrar nauðgunar á líf og aðstæður Z. Þar kemur fram að Z hafi komið í 21 viðtal til hennar frá því að ætlað brot átti sér stað. Í niðurlagi umsagnarinnar í kaflanum sem ber heitið Mat, kemur fram að Z hafi verið haldin mörgum einkennum áfalls sem séu einkennandi í kjölfar nauðgunar. Megi þar t.d. nefna óttann við snertingu, martraðirnar og óöryggið að vera innan um fólk. Atburðurinn hafi raskað verulega hennar daglega lífi t.d. með því að hún hafi einangrast frá vinafólki sínu í langan tíma, tekið sér frí úr vinnunni í upphafi vegna vanlíðanar og er hún mætti hafi henni liðið illa. Þá hafi henni fundist hún tilneydd til að flytja úr íbúð sinni til að reyna að bæta líðan sína. Þetta áfall hafi dregið verulega úr lífsgæðum hennar og hún lifi enn við óttann að hitta gerandann. Sum einkennanna séu alveg horfin en önnur hái henni enn í dag. Einhver þeirra séu töluvert alvarleg eins og t. d. sjálfsvígshugmyndir sem skjóti öðru hvoru upp kollinum, innilokunarkennd sem hún sé farin að finna fyrir og hin miklu kvíðaköst. Sé ekki vafi að meint nauðgun hafi haft veruleg áhrif á tilfinningalega líðan Z, á líf hennar og athafnir. Z komi henni fyrir sjónir sem heilsteyptur og hlýr persónuleiki sem eigi auðvelt með að tengjast traustum vináttuböndum. Hún hafi góða rökhugsun og sé samviskusöm og ábyrgðarfull. Hún sé ákveðin í að komast í gegnum þetta áfall og það muni takast með áframhaldandi sérhæfðri meðferð yfir lengri tíma. Sigurlaug staðfesti umsögn sína fyrir dómi. Hún greindi frá því að Z hefði tvívegis verið lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegra kvíðakasta sem rekja mætti til hins meinta brots er hún varð fyrir.
III.
Þann 15. janúar 2003 kom Z á lögreglustöðina í [...] í fylgd réttargæslumanns síns og lagði fram kæru í málinu. Var þá tekin af henni skýrsla vitnis. Þá var ekki vitað hver ákærði væri. Hún kvað ákærða hafa viljað fá að koma inn með henni er þau komu að heimili hennar í bifreið ákærða er vinur hans ók. Hún hefði sagt nei við því, en þá hefði ákærði sagst þurfa á klósettið og hefði hún leyft honum það. Hún hefði ekki verið alveg sátt við þetta og á leiðinni að útidyrunum hefði hún sent vinkonu sinni T SMS boð í GSM síma hennar og skrifað: O my god hann vill koma inn” eða eitthvað þess háttar. Er þau hafi verið nýkomin inn hefði T hringt og spurt hvort allt væri í lagi. Hún hefði svarað því játandi og sagt að hann væri á klósettinu. Hún hefði staðið við útidyrnar er ákærði kom af salerninu og hefði hann gengið að henni og reynt að kyssa hana. Hún hefði vikið sér undan en þá hefði hann tekið um upphandleggi hennar og þannig ýtt henni á undan sér með afli. Í leiðinni hefði hann kysst hana á hálsinn. Hún hefði sagt honum að hætta á ensku en hann ekkert sagt. Hann hefði svo ýtt henni á undan sér og niður í sófann í stofunni og hefði hún lent á bakinu. Þarna hafi hún verið orðin skelfingu lostin og ítrekað sagt við hann “stop” eða “no” til skiptis. Hann hefði ekkert hlustað og ekkert sagt. Hann hefði síðan fært hana úr buxunum og tekið nærbuxurnar með og tekið hana alveg úr að neðan. Áður en hann tók hana úr buxunum hefði hún reynt að ýta honum ofan af sér en ekki náð því þar sem hann hefði verið sterkari og beitt afli. Næst hefði hún tekið eftir því að hann var kominn úr buxunum og nærbuxunum. Hann hefði reynt að setja getnaðarlim sinn upp í munn hennar, en hún hefði náð að koma í veg fyrir það með því að færa höfuð sitt frá. Ákærði hefði verið ofan á henni og fært sig upp eftir líkama hennar er hann reyndi að setja liminn upp í hana. Þá hefði hann reynt að setja getnaðarliminn inn í leggöng hennar og það hefði honum tekist. Hún mundi ekki hvort hann hefði haldið henni fastri en sjálf hefði hún verið frosin af hræðslu og ekkert getað gert. Hún mundi ekki hvort ákærði hefði sett fingur sína í leggöng hennar áður en hann setti lim sinn inn. Hann hefði síðan viðhaft samfarahreyfingar við hana en svo hætt. Hún kvaðst ekki vita hve lengi samfarirnar stóðu, en hún hefði upplifað þetta sem langan tíma. Hún hélt að ákærða hefði orðið sáðlát inni í henni en þó væri hún ekki viss. Meðan á samförunum stóð hefði ákærði verið með aðra hönd fyrir innan brjóstahaldara og bol og káfað á brjóstum hennar. Hvorugt þeirra hefði sagt orð, hún hefði ekkert getað sagt, búin að gefast upp, ekki getað hugsað og verið skelfingu lostin. Er þessu hefði lokið hefði ákærði klætt sig í nærbuxur og buxur og á meðan hefði hún náð að klæða sig í nærbuxurnar. Þarna hefði vinur ákærða komið inn en dyrnar hefðu verið ólæstar. Hann hefði greinilega verið að gá að ákærða. Þarna hefði hún farið að hágráta. Á þessu augnabliki hefði ákærði farið út og hefði vinur ákærða þá spurt hana hvers vegna hún væri að gráta og hún svarað á ensku: “I said no”. Ákærði hefði komið aftur inn og hún sagt þeim báðum að fara út og hefðu þeir síðan báðir farið út. Eftir að ákærði og ökumaðurinn fóru hefði hún hringt í T úr GSM síma sínum en hún ekki svarað. Hún hefði þá hringt í vinkonu sína G í [...] og hefði klukkan þá verið 07:56. Hún hefði ekkert getað talað við hana en hágrátið. Skömmu síðar hefði G komið til hennar. Hún hefði ekki getað sagt henni hvað gerðist, nema að hann hefði ekki hlustað á hana. G hefði síðan farið með hana heim til sín og þar hefði verið fyrir E frá [...]. Einnig hefði komið þangað vinkona hennar, B. Hún kvaðst lítið hafa getað sagt þeim, en bara grátið. Þær hefðu svo farið með hana á sjúkrahúsið í [...] og þaðan á neyðarmóttöku. Hún kvað sér hafa liðið mjög illa eftir þetta og ekki getað mætt í vinnu fyrr en 9. janúar sl. Þá hefði hún aðeins getað unnið fram á hádegi, verið óglatt, liðið mjög illa andlega og ekki getað verið innan um annað fólk. Hún væri samkynhneigð og því hefði hún engan kynferðislegan áhuga á karlmönnum.
Í þágu rannsóknar málsins voru einnig teknar vitnaskýrslur af G, B, J, T, E, J og B.
Eftir að lögregla fékk upplýsingar um hver ákærði væri var hann handtekinn þann 19. janúar sl. Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu greindi hann frá veru sinni á [...] og hvernig þau Z hittust. Hann kvað þær T og Z hafa beðið um far heim en áður hefðu þær verið búnar að spyrja þá félaga hvort þeir væru á bíl og hafi þeim verið svarað játandi. Hefðu þær sagt þeim félögum að fara niður á undan þeim, þær kæmu á eftir. Þær hefðu svo komið niður og Íslendingur með þeim. Hann hefði einnig fengið far. J hefði ekið þar sem ákærði var búinn að drekka einn bjór. Eftir að hafa komið við á [...] þar sem verslað var hefði verið ekið til baka og Z, sem sat aftur í, hallað sér fram og hvíslað í eyra ákærða að skutla íslenska stráknum fyrst út í [...]. Honum hafi verið ekið út í [...] og svo hefði verið ekið í [...], þar sem T var hleypt út, þar sem hún átti heima og loks hefði verið ekið heim til Z. Hún hefði bent á bílskúrinn við húsið og sagst búa þar, leigja skúrinn. Hann hefði ekki trúað henni og spurt hana aftur. Z hefði yfirgefið bifreiðina og rætt við hann gegnum bílgluggann sem var opinn. Hann hefði verið undrandi á því að [...] byggi í bílskúr og því enn verið að minnast á þetta við Z. Hefði það endað með því að hún bauð honum að koma inn og skoða. Þau hefðu gengið að húsinu og farið inn. Þau hefðu rétt verið komin inn fyrir dyrnar er hringt var í GSM síma Z. Hún hefði svarað og talað í um það bil fimm eða sex mínútur. Er símtalinu var lokið hefði hann sagst vera að fara. Hann hefði viljað kveðja hana með handabandi og því gengið til hennar inn í stofu, tekið í hönd hennar og klappað henni á öxlina. Hún hefði þá tekið fast utan um hann með báðum höndum. Hann hefði þá kysst hana á hálsinn og fengið það á tilfinninguna að henni líkaði það sem hann var að gera, hún hefði ekki brugðist illa við, ekki orðið reið. Hún hefði þá tekið hönd hans og sett á brjóst sitt utanklæða. Hefði honum fundist hann vera búinn að æsa hana upp kynferðislega, en hún hefði látið eins og henni líkaði þetta. Þarna hefði síminn aftur hringt og hún svarað í símann og talað í eina mínútu eða svo. Hann hefði þá sagst vera að fara heim en hún hefði þá komið aftur að honum og tekið utan um hann. Hann hefði þá kysst hana á vangann og tekið um mjaðmir hennar. Hún hefði þá sjálf farið að losa um síðbuxur sínar og farið úr þeim og síðan leitt hann að sófa sem var þarna og lagst í sófann á bakið með fætur upp að sér. Hann hefði sest í sófann við fætur hennar. Hún hefði þá dregið hann að sér og kysst hann á hálsinn, kannski í tvær mínútur. Hann hefði þá sagt henni að ekki væri dregið fyrir gluggann við útidyrnar og hefði hún þá staðið á fætur og dregið fyrir. Hún hefði komið til hans aftur og þau kysst aðeins meira á hálsinn og svo hefði hún sagt að þau ættu að hætta þessu. Hún hefði sagt honum að hringja í bílstjórann J og segja honum að koma inn en um ástæðu þess vissi hann ekki. Hann hefði hringt í J og hann komið inn og þeir sest hjá Z sem hafi setið með fæturna upp að sér og verið að klappa litlum hundi. J hefði spurt hvað þau hefðu verið að gera og hann svarað því til að þau hefðu verið að kyssast. Hann hefði síðan farið út í bíl og gangsett hann, farið aftur inn og sótt J. Hann hefði spurt Z hvort þeir mættu heimsækja hana aftur og hefði hún sagt að það væri í lagi. Hann hefði þá aðallega verið að hugsa um J sem var einhleypur.
Hann kvaðst ekki hafa verið að reyna við Z á [...] eða láta henni finnast hann hafa kynferðislegan áhuga á henni. Honum hefði hins vegar fundist hún vera utan í sér eins og hún væri að reyna við hann, en hún hefði reyndar verið drukkin. Ákærði þvertók fyrir að hafa beðið um að fá að fara á salernið hjá Z eftir að hún hafði neitað beiðni hans um að fá að koma inn. Þá hefði hann aldrei farið á salerni hjá henni. Aðspurður neitaði ákærði að hafa haft samfarir við Z. Þá kvaðst hann ekki hafa komið við kynfæri hennar. Þá hefði hún eingöngu farið úr síðbuxunum og hann ekki klætt hana úr neinu.
Ákærða var tekið blóð til DNA rannsóknar og samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Rettmedisinsk Institutt í Oslo, dagsettu 24. mars 2003, sýndi rannsóknin að sæði það sem fannst í leggangaopi Z og nærbuxum hennar, var með DNA-sniði, sem svaraði til þess, sem fannst í blóðsýni því er tekið var úr kærða.
Á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness þann 30. apríl sl., þar sem tekin var fyrir krafa um framlengingu á farbanni yfir ákærða, var honum kynnt DNA niðurstaðan. Kvaðst kærði þá vilja breyta framburði sínum hjá lögreglu og viðurkenndi hann að hafa haft samfarir við Z, en með hennar samþykki.
Ákærði var að nýju yfirheyrður hjá lögreglu þann 9. maí sl. þar sem hann viðurkenndi samfarir við Z en kvað þær hafa verið með hennar samþykki. Hann kvaðst hafa ætlað að kveðja Z er hún lauk símtali rétt eftir að þau voru komin inn til hennar. Hann hefði gengið til hennar og tekið utan um hana og hún tekið utan um hann á móti. Er þau hefðu verið að faðmast hefði honum fundist hún sýna honum áhuga. Hann hefði kysst hana á hálsinn og hún þá tekið hönd hans og sett á brjóst sín utanklæða. Hann hefði fært hendurnar á mjaðmir hennar og kysst hana aftur á hálsinn. Hún hefði þá tekið aðra hönd hans frá til að losa buxurnar, rennt niður rennilásum á hliðum buxnanna og farið úr þeim og sett á stakan stól. Þau hefðu haldið áfram að kyssast standandi á gólfinu fyrir framan sófa. Hún hefði þá tekið í hann og farið með hann að sófanum þar sem hún hefði lagst á bakið og farið úr nærbuxunum. Áður hefði hún átt stutt símtal í GSM síma. Þar sem hann sé karlmaður og Z búin að sýna honum áhuga hefði hann sjálfur farið úr síðbuxum sínum og nærbuxum og einnig peysu. Þau hefðu síðan haft samfarir á þann hátt að hann lagðist ofan á hana og setti getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar og hafði við hana samfarir. Z hefði ekkert sagt og þannig ekki mótmælt þessu, en gefið frá sér ánægjustunur. Hann hefði spurt hana hvort hann ætti að hafa sáðlát inn í hana og hefði hún svarað því neitandi. Hann hefði því tekið lim sinn út úr leggöngum hennar og fengið sáðlát á maga hennar. Hann hefði síðan fundið rúllu með pappír í íbúðinni og þurrkað sæðið af sér og maga Z, vafið þessu saman, tekið það með sér og fleygt í ruslatunnu í sjoppunni [...] á heimleiðinni.
Hann kvað þau Z hafa rætt saman um daginn og veginn eftir að þau klæddust eftir samfarirnar. M. a. hefði hún sagt honum að hún leigði bílskúrinn á 35.000 krónur á mánuði og að rafmagn og hiti væri innifalið.
Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki sagst hafa haft samfarir við Z er hann var yfirheyrður hjá lögreglu 19. janúar sl. kvaðst hann hafa sagt ósatt um samfarirnar þar sem hann hefði fengið sjokk, lost, og verið hræddur er lögreglan handtók hann og setti í fangaklefa og sakaði hann um nauðgun sem hann væri saklaus af. Þá hefði hann einnig verið hræddur um að málið myndi eyðileggja hjónaband hans.
IV.
Ákærði neitaði eindregið sök fyrir dómi og kvaðst ekki hafa nauðgað Z heldur haft við hana kynmök með hennar vilja. Hann rakti hvernig þau hittust á skemmtistaðnum [...] og gat þess að þær Z og vinkona hennar T hefðu beðið hann um að skutla þeim heim. Z hefði beðið sérstaklega um að íslenska stráknum B, sem einnig fékk far, yrði skutlað heim út í [...] áður en þeim vinkonum yrði ekið í [...]. Eftir að T hafði verið hleypt út úr bifreiðinni hefði verið ekið heim til Z sem hefði bent á bílskúr og sagst eiga þar heima. Um það hefðu spunnist umræður milli þeirra. Hann hefði beðið um að fá að sjá innganginn þar sem hann ætti sjálfur heima í bílskúr. Z hefði sýnt honum innganginn, opnað og spurt hvort hann vildi ekki koma inn. Hann hefði svarað því til að of áliðið væri. Z hefði þá sagt honum að koma aðeins inn og hann þegið það, en orðið hræddur við hund og staðið við dyrnar. Z hefði sagt honum að vera óhræddum og boðið honum sæti. Þá hefði síminn hringt til Z. Hann hefði verið að pissa í sig og fengið að fara á salernið. Er hann kom þaðan hefði Z enn verið að tala í símann. Hann hefði viljað kveðja hana og eftir að símtali hennar lauk, gengið til hennar, sagst vera á förum, kvatt hana með kossi og klappað henni á bakið. Er hann hefði þannig faðmað hana og kysst hefði hún virst breytast mikið, enda hefði hún verið búin að fá sér að drekka. Hún hefði tekið hönd hans og sett á brjóst sér utanklæða. Hann hefði faðmað hana og kysst og sett hendur á mjaðmir hennar. Z hefði farið úr síðbuxum sínum og nærbuxum er hann var að kyssa hana. Hún hefði viljað láta hann gera það. Þá hefði einhver hringt í hana aftur en eftir það hefðu þau haldið áfram að kyssast og farið í sófann. Hann hefði þá verið í öllum fötum. Z hefði þá aftur farið úr nærbuxunum sem hún hafði farið aftur í er síminn hringdi. Þau hefðu síðan kysst í sófanum og hann þá vitað að Z vildi eitthvað meira. Hann hefði bent henni á að ekki væri dregið fyrir glugga við útidyrnar og að einhver gæti séð hvað þau væru að gera. Z hefði þá staðið upp og dregið fyrir. Hann hefði þá spurt Z hvort hún vildi hafa samfarir og hvort ekki væri betra að gera það í svefnherberginu. En hann hefði óttast að einhver kynni að vera þar inni. Z hefði þá sagt að í lagi væri að gera þetta í sófanum. Hann hefði því afklæðst og haft samfarir við Z. Hún hefði ekki hreyft neinum mótmælum. Er hann hefði verið við það að koma hefði hann spurt hana hvort hann ætti að sprauta sæði inn í hana eða utan á hana. Hún hefði sagt honum að sprauta sæðinu utan á hana. Um leið og hann hafði tekið liminn út úr leggöngum Z hafi sæðið sprautast úr honum og lent á maga hennar. Eftir samfarinnar hefði hann fundið bréfþurrku og þurkað sæðið af sjálfum sér og Z en ekki fundið neina ruslafötu til að fleygja bréfinu í og því vafið því inn í pappír og stungið í vasann eftir að hafa klæðst. Þau hefðu síðan ræðst saman um hitt og þetta m.a. húsaleigu Z. Hún hefði spurt hvort ekki væri hægt að fá J inn og hefði hann svarað því játandi og hringt í hann. Hann hefði síðan hleypt honum inn. Aðspurður hefði J sagst hafa drepið á vél bílsins og hefði hann því fengið bíllyklana og farið út til þess að setja bílinn í gang og miðstöðina á svo að hann kólnaði ekki. Er hann kom aftur inn hefði J setið í sófanum hjá Z sem hefði klappað hundi sínum. Hann hefði sagt að þeir þyrftu að fara heim og aðspurð hefði Z sagt að þeir mættu heimsækja hana aftur. Hann hefði kvatt Z með kossi og síðan hefðu þeir haldið heim og á leiðinni hefði hann losað sig við bréfþurrkuna með sæðinu. Hann kvað Z hafa liðið vel er þau kvöddust og hefði hún verið ánægð.
Aðspurður hvers vegna hann hefði neitað samförum í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu kvað ákærði lögregluna hafa sagt að hann hefði nauðgað Z og hann því neitað að hafa nauðgað henni. Hann hefði verið settur í fangelsi og hafður þar 2-6 klukkustundir og verið spurður aftur og aftur um nauðgunina. Hann hefði alltaf neitað að hafa nauðgað einhverri. Hann hefði neitað samförum af því að hann var sakaður um nauðgun og óttast að kona hans frétti af þessu. Þá hefði hann verið að hugsa um hvort sæðið úr honum hefði farið inn í Z svo hann hefði viljað vita hvort það var hann eða einhver annar.
Z gaf skýrslu fyrir dóminum og var frásögn hennar af kynnum hennar af ákærða og félaga hans og akstrinum frá [...] að [...], þaðan út í [...] þar sem vitnið B var settur út og akstrinum þaðan og í [...] þar sem T var fyrst sett út og svo heim til hennar, á sama veg og í framangreindri skýrslu er hún gaf hjá lögreglu. Hún kvað ákærða hafa komið út á eftir henni er hún yfirgaf bifreiðina við heimili sitt og spurt hvort hann mætti koma inn. Hún hefði svarað því neitandi en þá hefði hann beðið um að fá að fara á salernið og hefði hún samþykkt það. Á leiðinni að útidyrunum hefði hún sent T áðurnefnd SMS skilaboð. Ákærði hefði farið á salernið er þau voru komin inn og á sama tíma hefði T hringt og spurt hvort ekki væri allt í lagi og hún svarað því játandi. Er ákærði hefði komið út af salerninu hefði hún staðið við útidyrnar. Hann hefði gengið beint til hennar og ætlað að kyssa hana og hefði hún þá snúið höfði þannig að ákærði kyssti hana á hálsinn. Hún hefði beðið hann að hætta en hann tekið í upphandleggi hennar og ýtt henni afturábak að sófanum. Hún hefði beðið hann að hætta en hann ekki hlustað á hana en ýtt henni afturábak niður í sófann og á bakið. Hún hefði þá verið orðin hrædd, ekki getað hugsað og verið lömuð. Búin að segja nei við hann og segja honum að hætta. Ákærði hefði þá tekið hana úr síðbuxum og nærbuxum. Hún hefði verið á bakinu en hann ofan á. Hann hefði fært sig ofar eins og hann ætlaði að setja lim sinn upp í hana. Hún hefði fært höfuðið frá og þá hefði ákærði fært sig neðar og tekist að setja lim sinn inn í hana. Henni hefði fundist sem hún gæti ekkert gert. Eftir að ákærði var búinn hefði hann staðið upp og klætt sig. Hún hefði þá getað teygt sig í nærbuxur sínar og farið í þær. Þá hefði hún verið byrjuð að gráta. Þá hefði J komið inn en ákærði farið út. J hefði spurt hvers vegna hún væri að gráta og hún sagt honum að hún hefði sagt nei. Ákærði hefði þá komið inn og hún sagt þeim báðum að fara út. Hún hefði öskrað á þá að fara út. Eftir að þeir voru farnir hefði hún læst og hringt í vinkonu sína G en ekkert getað sagt í símann en hágrátið. Skellst hefði á þannig að G hringdi til baka. Hún hefði ekkert getað sagt nema að henni hefði verið skutlað heim og hún sagt nei. G hefði einskis spurt en hún endurtekið að strákar hefðu skutlað henni heim og hún sagt nei. Er G hefði komið að sækja hana hefði hún setið á gólfinu. Hún hefði síðan farið heim með G og þaðan hefði verið farið með hana á sjúkrahúsið í [...] og þaðan á neyðarmóttökuna í Reykjavík.
Hún kvaðst ekki hafa beðið ákærða um aksturinn í umrætt sinn og þá væri það ekki rétt að hún hefði sýnt ákærða áhuga, enda samkynhneigð. Hún hefði ekki haft neitt frumkvæði. Ákærði hefði gert allt og ekki virst hlusta á hana er hún sagði “no” og “stop” á ensku. Hún hefði ekki vitað á þessum tíma að ákærða hefði orðið sáðlát. Hann hefði ekki þurrkað neitt sæði af maga hennar. Hún kvaðst hafa brotnað niður við aðfarir ákærða sem hefði haldið henni og ýtt niður þannig að hún gat ekki komist undan. Hann hefði beitt hana ofbeldi en hún reynt að komast undan.
Z kvað ástæðu þess að hún lagði kæru fyrst fram 10 dögum eftir atvikið þá, að hún hefði ekki verið búin að gera sér grein fyrir atvikum og verið tóm. Hún hefði ekki trúað því að þetta hefði gerst. Hún hefði ekki mætt í vinnu, liðið óskaplega illa, ekkert getað sofið, verið hrædd, óglatt og lystarlaus fyrstu dagana á eftir. Strax daginn eftir atvikið hefði hún byrjað að ganga til félagsráðgjafa sem hún gangi enn til.
Aðspurð kvaðst Z aðeins hafa talað einu sinni við T í síma umrædda nótt eða þegar hún var nýkomin inn og ákærði á salerninu.
Vitnið A leigusali Z kvaðst hafa vaknað eftir kl. 07:00 umræddan morgun við hurðarskell hjá Z og orðið hissa og hverft við. Hann hefði ekki athugað það frekar og ekki heyrt í neinum bifreiðum. Hann kvað Z hafa borgað 35.000 krónur í leigu á mánuði og hefði hiti og rafmagn verið innifalið.
Vitnið T kvaðst hafa verið með Z í fertugsafmælinu, á [...] og á [...]. Hún hefði verið meira drukkin en Z. Á [...] hefðu þær m. a. rætt við menn af asískum uppruna. Við lokun staðarins hefði hún farið út og hefðu þá tveir þessara manna kallað í hana og spurt hvort hún vildi far heim. Hún hefði ekki hlustað á það í fyrstu en er Z og B komu út hefði hún sagt þeim frá boðinu. Mennirnir hefðu sífellt verið að kalla og hefðu þau því ákveðið að þiggja farið. Eftir viðkomu á [...] hefði B verið skutlað út í [...], en svo hefði verið ekið í [...] þar sem henni hefði fyrst verið hleypt út. Hún hefði ekki verið alveg sátt við að Z færi ein með mönnunum. Hún hefði farið inn til sín og farið inn á bað og er hún hefði komið aftur fram hefði hún séð SMS skilaboð Z frá 07:06. Hún hefði þá hringt í Z kl. 07:23 og spurt hvort allt væri í lagi og hefði Z sagt svo vera og að maðurinn sem fór með henni inn væri á salerninu. Hún kvað ekkert hafa verið rætt um það í bifreiðinni hvort fyrst ætti að aka út í [...] eða til [...]. Hún kvað B hafa sagt sér daginn eftir hvað hefði komið fyrir Z. Hún kvaðst hafa hitt Z þremur dögum seinna en þær hefðu þó lítið rætt um hvað gerðist. Þær hefðu hist á fimmtudegi eftir atvikið og þá rætt um hvort kæra ætti atvikið. Z hefði helst viljað gleyma þessu. Hún kvaðst hafa rætt tvívegis við J vin ákærða á [...] þann 18. janúar eftir að hann sendi Z SMS skilaboð. Í seinna samtalinu hefði henni tekist að veiða upp úr J nafn ákærða. J hefði verið afar vandræðalegur og m. a. spurt hvort eitthvað hefði skeð milli ákærða og Z.
Hún kvaðst hafa horft upp á lifandi manneskju dána þar sem Z var næstu mánuði á eftir og hefði hún lagt sig fram við að hjálpa henni. Áður hefði Z verið kát, hress og vel tilhöfð stúlka. Það hefði gjörbreyst. Hún kvað Z vera samkynhneigða og eiga kærustu.
Vitnið J kvaðst hafa hitt Z og T á [...] og síðan ekið þeim heim. Hann kvað Z og ákærða hafa farið út úr bifreiðinni sem hann ók við heimili Z og eftir 20 mínútur hefði ákærði kallað hann upp og beðið hann að koma inn til að kveðja Z. Hann hefði farið inn og rætt í smástund við Z, sem sat í sófa og klappaði hundi. Z hefði ekki verið grátandi og virst líða vel. Ákærði hefði farið út og sett bílinn í gang, komið aftur inn og kvatt Z með kossi. og síðan hefðu þeir farið út. Ákærði hefði ekkert rætt við hann á heimleiðinni hvað gerst hefði milli hans og Z en þar sem hann sé karlmaður hefði hann vitað hvað ákærði hafði verið að gera. Hann kvað þá hafa stansað við videóleiguna [...] á heimleiðinni og ákærði farið þar út, en ekki vissi hann hvað hann var að gera. Hann kannaðist við að hafa spurt Z hvort allt væri í lagi og hún svarað því játandi. Hann kvað hana frekar hafa verið þreytta en dapra og þögula eins og haft var eftir honum hjá lögreglu. Hann kvaðst strax hafa sagt T nafn ákærða á fundi þeirra í [...] þann 18. janúar s.l. Hann hefði ekki verið að fela neitt. Hann kvaðst hafa haft samband við Z af því að hann langaði að kynnast henni. Það hefði ekkert tengst því sem átti að hafa skeð milli ákærða og Z. Þá hefði honum einnig leikið forvitni á að vita hvort náið samband hefði myndast milli Z og ákærða. Aðspurður hvort hann hefði grunað að eitthvað hefði gerst milli Z og ákærða þar sem hún sat í nærbuxum og döpur í bragði er hann kom inn kvaðst hann hafa séð hana aðeins í nærbuxum og því spurt hvort allt væri í lagi af því að hún var aðeins í nærbuxum.
Vitnið B vinkona Z og samstarfskona bar fyrir dómi að hún hefði ekið Z, T og fleirum til [...] umrætt laugardagskvöld en sjálf farið heim. Þær Z og T hefðu báðar verið ölvaðar en kátar og hressar og ekkert ofurölvi. Hún kvað E hafa vakið sig laust upp úr 08:00 umræddan sunnudagsmorgun og sagt að eitthvað hefði komið fyrir Z og að G hefði sótt hana. Hefði E beðið hana að koma heim til G. Hún hefði strax séð að Z var í losti og hefði ekkert fengist upp úr henni. Þær hefðu gert sér í hugarlund hvað gerst hefði, en Z hafði sagt G að maður hefði komið inn til hennar um nóttina. Ákveðið hefði verið að fara með Z á sjúkrahús og hefði fyrst verið farið á sjúkrahúsið í [...] en þeim verið vísað á neyðarmóttöku í Reykjavík og hefði allt verið tilbúið er þær komu þangað. Á leiðinni hefði ekkert verið rætt um atvikið en Z grátið og skolfið. Á neyðarmóttökunni hefði hún heyrt Z segja hjúkrunarfræðingi hvað hefði skeð og síðar hefði Z sagt henni hvað skeði. Hún kvaðst hafa verið með Z í öllu þessu ferli. Þær hefðu hist kvöldið eftir atvikið og hefði Z liðið illa. Hún hefði kvatt Z til að kæra en Z hefði ekki verið tilbúin til þess fyrr en eftir 10 daga þar sem henni hefði liðið rosalega illa og ekki viljað ræða þetta fyrr en þá. Vitninu fannst Z líða mjög illa. Hún hefði sofið illa, haft uppköst og fengið kvíðaköst þannig að þurft hefði að leggja hana tvívegis inn á sjúkrahús. Þetta hefði verið uppsöfnuð streita og kvíði vegna atviksins sem málið snýst um. Z sé lokuð og gjörn á að byrgja inni og sé því hætt við að brotna niður. Hún kvað þær Z, G og E vera samkynhneigðar.
Vitnið B hitti Z og T á [...] þar sem hann dansaði við Z og gaf henni tvo bjóra. Hann kvaðst hafa verið samferða þeim heim í bifreið ákærða. Hann kvaðst ekki vita hvernig það kom til að þau fengu far með ákærða og J félaga hans. Hann kvaðst ekki hafa séð Z hvísla í eyra ákærða er þau voru stödd í bifreiðinni.
Vitnið G var góð vinkona Z og samstarfskona. Hún kvað Z hafa hringt í hana umræddan sunnudagsmorgun rétt fyrir kl. 08.00 og hefði hún verið grátandi í símanum. Sambandið hefði slitnað og hefði hún þá hringt í Z og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Z hefði svarað því játandi og sagt henni að fara að sofa. Hún hefði þá hringt aftur í Z sem hefði grátið. Hún hefði enn spurt hvort eitthvað hefði komið fyrir og hefði Z þá tjáð henni að tveir menn hefðu ekið henni heim. Hún hefði þá sagt Z að hún kæmi til hennar og er hún hefði komið inn til hennar hefði hún setið hálfklædd á gólfinu og ljóst að ekki var allt með felldu. Buxur hennar hefðu legið á stólbaki og verið úthverfar. Hún hefði klætt hana í buxurnar og síðan tekið hana heim með sér, vakið sambýliskonu sína E og beðið hana að hringja í B, vinkonu Z og biðja hana að koma. Hún hefði fengið það á tilfinninguna að eitthvað hefði komið fyrir er Z sagði henni að tveir strákar hefðu ekið henni heim, en er hún hefði verið spurð hvort eitthvað hefði komið fyrir hefði gráturinn færst í aukana. Hún hefði síðar frétt það hjá [...] félagsráðgjafa hvað gerst hefði. Hún kvað þær hafa ákveðið að fara með Z á sjúkrahús þótt hún hefði andmælt því í fyrstu. Hefðu þær fyrst farið á sjúkrahúsið í [...] en verið vísað þaðan á neyðarmóttöku vegna nauðgunar í Reykjavík. Um kvöldið hefði hún heimsótt Z á heimili foreldra hennar og þrátt fyrir að vera sofandi hefði Z titrað og skolfið. Hún hefði síðan fylgst með líðan Z næstu daga á eftir, en ekki hitt hana sjálf.
Vitnið E kvaðst hafa kynnst Z í gegnum B fyrir þremur árum. Hún hefði verið heima hjá G er Z hringdi margnefndan morgun og hefði G sagt að eitthvað væri að hjá Z og að hún ætlaði að fara til hennar. Er hún kom aftur heim með Z hefði Z verið grátandi og erfitt að ná sambandi við hana. Hún hefði verið ólík sjálfri sér. Þær hefðu reynt að hlúa að henni og fá hana til að hætta að gráta. Hún hefði haft samband við B sem hefði getað ekið þeim með Z til læknis. Þær hefðu fyrst farið á sjúkrahúsið í [...] en verið vísað þaðan á neyðarmóttöku vegna nauðgunar í Reykjavík. Á leiðinni þangað hefði Z lítið sagt en grátið í hviðum og starað út í loftið. Ástand hennar hefði verið mjög óstöðugt. Hún kvaðst síðan hafa fengið fréttir af líðan Z frá B. Hún kvaðst aldrei fyrr hafa séð Z í ástandi þessu líku.
V.
Í málinu hefur ekkert komið fram um samdrátt ákærða og Z áður en þau fóru inn á heimili hennar umrædda nótt, hvorki á meðan þau voru á skemmtistaðnum [...] né er þau voru í bifreið ákærða. Hefur ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að ákærði hafi mátt ætla að Z hefði áhuga á honum. Þá hefur ekkert komið fram um að ákærði hafi á þessum tíma sýnt henni sérstakan áhuga eða farið á fjörur við hana.
Ekki er hægt að slá því föstu hvort ákærði og félagi hans buðu Z, T og B far í bifreið ákærða eða hvort vitnið T bað um það, en á hinn bóginn er upplýst að Z kom þar hvergi nærri. Ósannað er að Z hafi sérstaklega óskað eftir að B yrði ekið heim á undan henni og T þar sem hún vildi losna við hann.
Ákærði og Z eru ein til frásagnar um hvað gerðist nákvæmlega eftir að þau voru komin inn til Z og ber mikið á milli í frásögn þeirra. Eins og ráða má af atvikalýsingu hér að framan hefur framburður Z um atburðarás verið stöðugur í öllum meginatriðum frá því að hún tjáði sig fyrst um atvik málsins. Framburður ákærða hefur á hinn bóginn verið óstöðugur. Ber þar hæst að hann neitaði alveg í fyrstu að hafa haft samfarir við Z og dró að öðru leyti mjög úr því sem þeim fór á milli. Það var ekki fyrr en hann stóð frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd samkvæmt DNA rannsókn í málinu, að sæði sem hefði fundist í líkama Z hefði reynst stafa frá honum, að hann viðurkenndi samfarir við hana en bar þá fyrir sig að þær hefðu verið með samþykki hennar. Hafa skýringar ákærða á hinum ranga framburði hjá lögreglu, sem áður er getið um, sumpart verið með nokkrum ólíkindablæ. Í báðum skýrslum sínum hjá lögreglu neitaði ákærði því að hafa fengið að fara á salerni heima hjá Z. Framburður Z um það atriði hefur verið stöðugur og studdur framburði vitnisins T sem hringdi í Z umrædda nótt en í því símtali sagði Z T að ákærði væri á klósettinu. Í skýrslu sinni fyrir dóminum kom hins vegar allt í einu fram hjá ákærða án nokkurra skýringa að hann hefði verið að pissa í sig inni hjá Z og fengið að fara á klósettið. Er þetta enn eitt dæmið um reikulan framburð ákærða. Með vætti vinkvenna Z, þeirra G, B og E, sem borið hafa um alvarlegt ástand og vanlíðan hennar örstuttu eftir hið ætlaða brot svo og í ljósi gagna frá neyðarmóttöku um komu Z þangað sem og skýrslu og vættis Arnars Haukssonar læknis á neyðarmóttökunni, þar sem þess var getið að Z hefði eftir komu á neyðarmóttökuna setið í hnipri, útgrátin og liðið mjög illa, þykir mega slá því föstu, að Z hafi orðið fyrir mjög alvarlegu áfalli umræddan morgun er ákærði var staddur inni á heimili hennar. Umsögn Sigurlaugar Hauksdóttur félagsráðgjafa um líðan Z og hvernig henni hefði síðan reitt af styðja og þessa ályktun. Hefur ekkert komið fram um að rekja megi áfall hennar til annarra atvika en samskipta hennar við ákærða. Þykja þessi atriði styrkja það að frásögn Z af atvikum sé rétt. Þykir dóminum framburður hennar því trúverðugur. Í ljósi þessa verður að telja framburð ákærða um að Z hafi haft allt frumkvæði í samskiptum þeirra og að hann hafi nánast verið þiggjandi, fjarstæðukenndan og léttvægan. Allt bendir eindregið til þess að Z hafi orðið fyrir miklu áfalli umrætt sinn. Þá má geta þess að þegar G kom á heimili Z sat hún á gólfinu fáklædd og grátandi. G kvað síðbuxur Z hafa legið úthverfar á stólbaki. Z hefur borið að ákærði hafi rifið hana úr buxunum. Ákærði hefur á hinn bóginn haldið því fram að Z hafi sjálf farið úr buxunum. Það hvernig buxurnar voru er G kom til Z styrkir frásögn Z. Þá þykir það ennfremur styrkja frásögn Z að hún er að eigin sögn og samkvæmt framburði fjölda vitna samkynhneigð.
Þegar öll framangreind atriði eru vegin og metin heildstætt, er það álit dómsins að þrátt fyrir eindregna neitun ákærða á sakargiftum, megi leggja til grundvallar vitnisburð Z um það sem átti sér stað inni á heimili hennar umrædda nótt. Þykir ekkert hafa komið fram sem veiki vitnisburð hennar eða dragi úr trúverðugleika hennar. Þykir því sannað að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað Z til holdlegs samræðis á heimili hennar greint sinn en hún hvorki getað spornað við verknaðinum né veitt mótspyrnu þar sem ákærði beitti hana aflsmunum og hún varð skelfingu lostin, lömuð af hræðslu og hreinlega fraus. Varðar háttsemi ákærða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
VI.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu hér á landi svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar ber að líta til hinnar alvarlegu háttsemi sem ber merki um fullkomið virðingarleysi gagnvart kynfrelsi Z, sem þekkti ákærða ekkert, hafði ekki gefið honum neitt tilefni til að ætla að hún vildi hafa við hann kynmök og bað hann að hætta er hann neytti aflsmunar og þröngvaði hana til kynmaka. Hafði verknaður ákærða alvarlega afleiðingar á andlega líðan Z. Ákærði á sér engar málsbætur. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.
VII.
Af hálfu Z er þess krafist í málinu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 1.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. janúar 2003 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Kröfunni til stuðnings er vísað til a-og b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum
Af hálfu ákærða er aðallega krafist frávísunar bótakröfunnar en til vara lækkunar.
Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot á 194. gr. almennra hegningarlaga. Ber því að dæma Z sem brotaþola í málinu, miskabætur úr hendi ákærða vegna ólögmætrar meingerðar gegn persónu hennar og friði, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga. Atburður sá er ákærða varð fyrir er til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Dóminum þykir ekki leika vafi á því að Z hafi orðið fyrir alvarlegu andlegu og tilfinningalegu áfalli, sem komi til með að há henni um ókomna framtíð. Er í þessu sambandi vísað til vottorðs Sigurlaugar Hauksdóttur félagsráðgjafa á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar dags. 1. september 2003 sem staðfest var fyrir dómi. Þar kom fram að Z hefði komið í 21 viðtal til hennar eftir að ætlað brot var framið. Þar kom m. a. fram að Z hafi verið haldin mörgum einkennum áfalls sem séu einkennandi í kjölfar nauðgunar, eins og óttann við snertingu, martraðir, óttann við að hitta gerandann og óöryggi innan um fólk. Sum einkennanna séu horfin en önnur skjóti öðru hvoru upp kollinum eins og sjálfsvígshugmyndir, innilokunarkennd og mikil og alvarleg kvíðaköst. Telur félagsráðgjafinn að henni muni takast að komast í gegnum þetta áfall sem hún varð fyrir með áframhaldandi sérhæfðri meðferð yfir lengri tíma. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og skal sú fjárhæð bera vexti eins og í dómsorði greinir.
VIII.
Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 400.000 krónur og þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z, sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur og er þá innifalinn kostnaður vegna öflunar vottorðs félagsráðgjafa 28.000 krónur.
Dómsuppsaga dróst vegna embættisanna dómara og forfalla.
Sigríður Jósefdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Finnbogi H. Alexandersson, Guðmundur L. Jóhannesson og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Marlowe Oyod Diaz, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði Z 600.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2003 til dómsuppsögudags, en frá þeim degi og til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur og þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z, 200.000 krónur.