Hæstiréttur íslands
Mál nr. 287/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Réttindaröð
|
|
Föstudaginn 23. maí 2014. |
|
Nr. 287/2014.
|
Eignasafn Seðlabanka Íslands hf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.) gegn SPB hf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu E hf. við slit S hf. Krafa E hf. var til komin vegna þess að E hf., N hf. og B yfirtóku tilteknar skuldbindingar S hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009. E hf. taldi raunvirði eignanna, sem áttu að mæta áðurgreindum skuldbindingum, hafa verið lægra en bókfært virði þeirra og því ekki jafnverðmætar hinum yfirteknu skuldbindingum. Félagið hefði þannig verið vanhaldið í lögskiptunum. Í hinum kærða úrskurði, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, kom fram að E hf. hefði fært fullnægjandi sönnur á að munur hefði verið á verðmæti þeirra skuldbindinga sem E hf. tók að sér að greiða fyrir S hf. og raunvirði þeirra eigna sem S hf. afhenti félaginu sem gagngjald. Bæri fyrrnefnda félaginu að greiða E hf. umræddan mismun. Þá var talið að S hf. bæri ennfremur að greiða E hf. það sem upp á vantaði í uppgjöri fyrrnefnda félagsins við N hf. og B, en E hf. hafði tekið að sér að greiða þann mismun. Var því fallist á að E hf. ætti fjárkröfu á hendur S hf. og kröfu félagsins skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest og tekið fram í því sambandi að ekki yrði talið að breytt kröfugerð E hf. í héraði hefði falið í sér nýjar málsástæður.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2014, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 2.737.798.407 krónur var samþykkt í réttindaröð við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreindri kröfu hans ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verði skipað í réttindaröð sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 8. apríl 2014. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og öllum kröfum sóknaraðila hafnað, en til vara að krafa sóknaraðila verði einungis viðurkennd að fjárhæð 370.805.515 krónur og skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sín. Í báðum tilvikum krefst hann „málskostnaðar“.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði 30. janúar 2014 lagði sóknaraðili fram bókun vegna breyttrar kröfugerðar sinnar. Samkvæmt henni lækkaði hann kröfu sína úr 10.036.074.467 krónum í 2.737.798.407 krónur. Skýrði hann breytta kröfu sína svo, að hún væri mismunur á yfirteknum innstæðum og yfirteknum eignum samkvæmt yfirliti, sem sett var fram í bókuninni. Í kröfulýsingu var ekki tekið tillit til yfirtekinna eigna, enda kom þar fram að miðað væri við að fjárhæð kröfunnar svaraði til fulls endurgjalds fyrir yfirteknar innstæðuskuldbindingar. Kom þar fram að óvissa væri um verðmæti yfirtekinna eigna og útreikningum og viðræðum um þær ekki lokið. Við aðalmeðferð málsins var bókað af hálfu dómara að í andmælum varnaraðila við athugasemdum sóknaraðila við málflutningsræðu hans í héraði hefði komið fram að ef skilja bæri ,,viðbót sóknaraðila við kröfulýsingu sína, að bæta við skuldbindingum Arion banka og Byrs, sem nýja málsástæðu þá mótmæli hann henni sem of seint fram kominni.“
Í kröfulýsingu var eingöngu miðað við yfirteknar innstæðuskuldbindingar sóknaraðila og sú krafa sett fram án frádráttar svo sem áður greinir. Í framangreindri bókun hefur sóknaraðili tekið tillit til skuldbindinga, sem Arion banki hf. og Byr sparisjóður, síðar Íslandsbanki hf., yfirtóku, en sóknaraðili hefur undir rekstri málsins yfirtekið þær skuldbindingar með uppgjöri við bankana tvo. Er það gert á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009, sem mælir fyrir um að innbyrðis uppgjör Seðlabanka Íslands, Arion banka hf. og Byrs, síðar Íslandsbanka hf., eigi að fara fram og í framhaldi af því skil á mismun til varnaraðila ef mismunur sé honum í hag. Krafa sóknaraðila hefur frá öndverðu einkum verið reist á þeirri málsástæðu að varnaraðili eigi að halda honum skaðalausum af þeirri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að hann skuli yfirtaka tilteknar eignir og skuldir varnaraðila. Með vísan til þess og hins að í hinni breyttu kröfugerð fólst lækkun kröfunnar verður ekki talið að sóknaraðili hafi reist kröfu sína á nýjum málsástæðum eftir breytingu á kröfugerðinni.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2014.
Þetta mál, sem barst dóminum, 27. október 2010, með bréfi slitastjórnar Sparisjóðabanka Íslands hf., var þingfest 10. desember það ár og tekið til úrskurðar 30. janúar 2014.
Sóknaraðili, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., kt. 701209-2060, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík, krefst þess aðallega að fjárkrafa hans, 2.737.798.407 krónur, við slit varnaraðila, SPB hf., verði viðurkennd sem veðkrafa, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo og að hún beri dráttarvexti, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. apríl 2009 til greiðsludags.
Til vara krefst sóknaraðili þess að fjárkrafa hans, 2.737.798.407 krónur, við slit varnaraðila, SPB hf., verði viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í báðum tilfellum krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, SPB hf., kt. 681086-1379, Borgartúni 25, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Til vara krefst varnaraðili þess að lýst krafa sóknaraðila við slit varnaraðila verði aðeins viðurkennd að fjárhæð 370.805.515 krónur, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Frá lokum október 2008 hafði staða eigin fjár Sparisjóðabanka Íslands hf. verið lægri en lögboðið var. Fjármálaeftirlitið veitti bankanum undanþágu frá reglunum, 15. desember það ár, til þess að honum gæfist kostur á því, í samvinnu við kröfuhafa sína, að koma við raunhæfri endurskipulagningu á fjárhag sínum. Samhliða þessu frestaði Seðlabankinn veðkalli, sem hann hafði sent Sparisjóðabankanum í október 2008.
Í bréfi Seðlabanka Íslands, 21. mars 2009, til Fjármálaeftirlitsins var vikið að neikvæðri eiginfjárstöðu og óviðunandi lausafjárstöðu Sparisjóðabanka Íslands hf. Í bréfinu kom jafnframt fram það mat bankaráðs Seðlabankans að það sæi sér ekki annað fært en óska eftir því að eftirlitið gripi til þeirra úrræða sem embættinu væru veitt í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008.
Þennan sama dag, 21. mars 2009, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila með vísan til þágildandi 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Enn fremur ákvað Fjármálaeftirlitið þennan sama dag, 21. mars 2009, að ráðstafa eignum og skuldum Sparisjóðabanka Íslands hf. til Nýja Kaupþings hf. (nú Arion-banki) og Seðlabanka Íslands.
Í 1. tölulið ákvörðunar eftirlitsins segir að Seðlabanki Íslands yfirtaki skuldbindingar Sparisjóðabanka Íslands hf. vegna innstæðna sparisjóða. Í 2. tölulið er tekið fram að Nýi Kaupþing banki yfirtaki skuldbindingar Sparisjóðabanka Íslands hf. vegna innstæðna annarra aðila en sparisjóða. Jafnframt að yfirdráttur á veltureikningum, ásamt tilheyrandi tryggingarréttindum, flytjist til Nýja Kaupþings banka hf.
Í 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins segir orðrétt:
Sem endurgjald fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga skv. 1.-3. tl. framselur Sparisjóðabanki Íslands hf. útlán sín til sparisjóða alls að fjárhæð u.þ.b. 10,7 milljarðar króna auk skuldabréfakröfu á hendur Byr-sparisjóði, að fjárhæð 2,75 milljarðar króna, eða samtals 13,45 milljarðar króna. Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki eru viðtakendur umræddrar greiðslu. Þeir annast uppgjör vegna hennar sín á milli og standa Sparisjóðabanka Íslands hf. skil á mismun á milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna ef einhver er.
Í 6. tölulið ákvörðunarinnar segir jafnframt:
Stjórn Sparisjóðabankans er í samráði og með samþykki Fjármálaeftirlitsins falið að hrinda þessari ákvörðun í framkvæmd; staðreyna þau innlán sem falla undir gildissvið annars vegar 1.-2. tl. og hins vegar 3. tl. þessarar ákvörðunar, útbúa þau skjöl sem nauðsynleg eru til að tryggja endurgjaldið samkvæmt 5. tl. og tryggingarréttindi sem því fylgja, og hafa samráð við Nýja Kaupþing banka hf. og Seðlabanka Íslands um nánari framkvæmdaatriði.
Tveimur dögum síðar, 23. mars 2009, var Sparisjóðabankanum veitt heimild til greiðslustöðvunar. Samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, telst upphaf slitameðferðar bankans 22. apríl 2009. Samkvæmt 4. tölulið sama ákvæðis skipaði héraðsdómur Reykjavíkur Sparisjóðabanka Íslands hf. slitastjórn 20. maí 2009. Hún birti innköllun til skuldheimtumanna í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 29. júní 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 3. nóvember 2009.
Á tímabilinu 22. mars-24. apríl 2009 breytti Fjármálaeftirlitið ákvörðun sinni, tekinni 21. mars 2009, sex sinnum. Fimm sinnum veitti eftirlitið Sparisjóðabankanum aukinn frest til þess að færa innstæðuskuldbindingar og eignir yfir til Seðlabankans og Nýja Kaupþings (og síðar einnig Byrs) en með ákvörðun, 17. apríl 2009, gerði Fjármálaeftirlitið fimm efnislegar breytingar á fyrri ákvörðun. Í þeirri ákvörðun, 17. apríl 2009, var endurgjaldi í áðurnefndum 5. tölulið breytt þannig að „endurgjald fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga skv. 1.-3. tl. framselur Sparisjóðabanki Íslands hf. útlán sín til sparisjóða alls að fjárhæð u.þ.b. kr. 10,9 milljarðar auk skuldabréfakröfu á hendur Byr-sparisjóði, að fjárhæð kr. 1,5 milljarðar, eða samtals 12,4 milljarðar króna“. Þá átti Seðlabanki Íslands einnig að taka við innlánum Íbúðalánasjóðs hjá Sparisjóðabanka Íslands.
Hinn 27. apríl 2009 tók Seðlabanki Íslands við innstæðuskuldbindingum og innlánum sem námu um það bil 9,5 milljörðum króna, Nýi Kaupþing banki (nú Arion-banki) tók við innstæðum sem námu um það bil 1,4 milljörðum króna og Byr sparisjóður (nú Íslandsbanki) tók við skuldbindingum vegna innstæðna Allanz-trygginga sem samsvöruðu 1,4 milljörðum króna.
Með bréfi varnaraðila, 28. apríl 2009, voru eignir Sparisjóðabanka Íslands framseldar Seðlabankanum, sem endurgjald fyrir þær skuldbindingar bankans sem hann og Nýi Kaupþing banki og Byr sparisjóður tóku yfir skv. 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2008, eins og henni var breytt með ákvörðun 17. apríl. Þarna voru framseld skammtímalána í erlendri mynt, rammasamningar um lánsheimild, skuldabréf í erlendri mynt, veðlánaskuldir og skuldabréf. Í bréfinu var bókfært verðmæti skuldbindingar hvers sparisjóðs tilgreint og námu þær samtals 12.463.918.942 krónum. Skjalið var undirritað af formanni skilanefndar varnaraðila og aðstoðarmanni í greiðslustöðvun. Sá starfsmaður Seðlabanka Íslands sem tók við bréfinu ritaði nafn sitt til staðfestingar á viðtöku skjalsins svo og löggerningum um ofangreindar kröfur.
Varnaraðili tekur fram að starfsmaður Seðlabankans hafi ekki, þegar hann tók við skjölunum, gert neinn fyrirvara við fjárhæð endurgjaldsins.
Snemma í júlí 2009 lá fyrir það mat endurskoðunarskrifstofunnar PricewaterhouseCoopers að verðmæti krafna Sparisjóðabankans á hendur öðrum sparisjóðum sem höfðu verið framseldar Seðlabanka Íslands, 28. apríl, væri ofmetið um ríflega 3 milljarða króna.
Að liðnu um það bil hálfu ári frá framsali krafnanna og eftir kvartanir frá viðtakendum skulda Sparisjóðabankans, yfir því að verðmæti eigna sem með fylgdi samsvaraði ekki skuldbindingunum, hélt Fjármálaeftirlitið fund með fulltrúum skilanefndar og slitastjórnar 14. október 2009. Viku síðar, 21. október 2009, ritaði eftirlitið Sparisjóðabankanum bréf þar sem er áréttað að þær fjármálastofnanir sem hefðu tekið við endurgjaldi, samkvæmt ákvörðun eftirlitsins, hafi talið það ófullnægjandi. Fjármálaeftirlitið hafi yfirfarið það endurgjald, sem fór yfir til viðtakendanna og ljóst væri að vafi léki á raunverulegu verðmæti þess, enda hefði einungis verið miðað við bókfærða stöðu krafnanna á ákvörðunardegi án þess að tekið hefði verið tillit til hugsanlegra afskrifta af þeim. Með hliðsjón af þessu kynnu upphaflegar forsendur ákvörðunar eftirlitsins að hafa breyst. Fjármálaeftirlitið tilkynnti varnaraðila að embættið hefði í hyggju að endurskoða fyrri ákvörðun sína um endurgjald. Fjármálaeftirlitið vísaði einnig til þess að það hefði lagaheimild til þess að taka í sínar vörslur þær eignir sem eigi að mæta skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefði. Vegna óvissunnar um verðmæti eignanna væri þörf á að verðmeta þær og eftir atvikum ráðstafa frekari eignum til viðtakendanna gæfi matið til kynna að verðmæti eignanna væri minna en þær skuldbindingar sem tekið var við. Í lok bréfsins tók eftirlitið fram að það teldi rétt að gefa aðilum kost á að ná samkomulagi um endurgjaldið áður en verðmats yrði aflað og gaf málsaðilum frest til 21. nóvember til þess að ná samkomulagi. Hefðu málsaðilar þá ekki náð samkomulagi færi fram óháð verðmat og embættið myndi eftir atvikum ákvarða viðbótarendurgjald á grundvelli þess mats.
Málsaðilar ræddust við til þess að reyna að ná samkomulagi og leiðrétta þetta uppgjör en án árangurs.
Þessu bréfi Fjármálaeftirlitsins svaraði varnaraðili með bréfi 24. nóvember 2009. Hann taldi sig hafa framfylgt ákvörðun eftirlitsins, 21. mars 2009, í einu og öllu og ekki hafa heimild til að ráðstafa eignum bankans á þann hátt er eftirlitið hafði gefið í skyn í framangreindu bréfi.
Þar sem Seðlabankinn taldi varnaraðila ekki hafa afhent fullnægjandi eignir á móti þeim skuldum sem hann tók við, einnig fyrir hönd Nýja Kaupþings banka hf. og Byrs, lýsti hann kröfu við slit varnaraðila samtals að fjárhæð 10.036.074.467 kr., með kröfulýsingu, 3. nóvember 2009, og krafðist þess að krafan nyti stöðu veðkröfu, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Fjármálaeftirlitið sendi varnaraðila á ný erindi, 23. desember 2009. Þar segir að Seðlabanki Íslands hafi óskað eftir því að ákvörðunin frá 21. mars yrði endurupptekin og frekara endurgjaldi ráðstafað frá Sparisjóðabankanum fyrir hinar yfirteknu innstæðuskuldbindingar en gert var í apríl. Eftirlitið taldi ekki forsendur fyrir því að taka upp á ný fyrri ákvörðun. Í lok bréfsins segir:
Ljóst er af fyrri ákvörðun eftirlitsins og þeim ákvæðum laga nr. 125/2008 sem hún byggði á að móttakandi þeirra skuldbindinga sem Fjármálaeftirlitið mælir fyrir um að verði fluttar frá fjármálafyrirtæki á að vera skaðlaus af þeirri aðgerð, þ.e. hann á að fá í hendur verðmæti sem duga til að mæta þeim skuldbindingum sem til hans eru fluttar, hvorki hærri né lægri.
Fjármálaeftirlitið telur að ákvörðunin hafi ekki verið að öllu leyti framkvæmd á fullnægjandi máta og í samræmi við forsendur sem fyrir lágu í upphafi. Fjármálaeftirlitið leggur það því fyrir skilanefnd Sparisjóðabanka Íslands að flytja til samræmis við fyrri ákvörðun eftirtalda eignaliði yfir til viðtakenda endurgjaldsins:
· Öll útlán Sparisjóðabankans til Sparisjóðsins í Keflavík að fjárhæð u.þ.b. 490 m.kr., en þau voru áætluð u.þ.b. 470 m.kr. í upphaflegri ákvörðun.
· Önnur útlán til sparisjóða að fjárhæð u.þ.b. 452 m.kr. sem ekki voru flutt yfir.
Þá telur Fjármálaeftirlitið að viðtakandi endurgjaldsins eigi rétt til þeirra eigna sem eru á svokölluðum stórgreiðslureikningi og IG reikningum Sparisjóðabankans hjá Seðlabanka Íslands sem hafa komið til vegna innlána viðskiptavina á innlánsreikningum þeirra hjá Sparisjóðabankanum á tímabilinu 21. mars 2009 og þar til sömu reikningar voru fluttir yfir til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka hf.), Byrs sparisjóðs eða Seðlabanka Íslands enda hækkuðu þessi innlán yfirteknar innlánsskuldbindingar viðtakanda þeirra án frekara endurgjalds. Sparisjóðabankanum er falið að greina þessar eignir í samráði við Seðlabanka Íslands.
Endanlegum frágangi á flutningi endurgjaldsins í samræmi við ofangreint skal lokið eigi síðar en þann 15. janúar nk. og skal Fjármálaeftirlitið upplýst um lok málsins eigi síðar en þann dag.
Með bréfi, 13. janúar 2010, svaraði varnaraðili kröfum eftirlitsins og hafnaði því að flytja ákveðna eignaliði sína til hinna þriggja viðtakenda endurgjalds samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Slitaferli varnaraðila væri hafið, kröfum hefði verið lýst og því taldi varnaraðili ólöglegt að framselja eignir þegar svo væri komið.
Eignasafn Seðlabanka Íslands er stofnað í desember 2009 og framseldi Seðlabankinn því félagi þær skuldir og eignir Sparisjóðabankans sem þetta mál snýst um.
Með tölvupósti, 11. ágúst 2010, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að hann hafnaði þeirri kröfu sem Seðlabankinn lýsti við slit varnaraðila. Fyrir því færði varnaraðili þau rök að hann hefði uppfyllt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 í einu og öllu með því að flytja innstæður að fjárhæð 12,3 milljarðar króna og sem endurgjald framselt útlán og skuldabréf, samtals 12,5 milljarða króna, að viðbættum yfirdrætti á veltureikningum til Kaupþings að fjárhæð 975 milljónir króna, samtals 13,4 milljarða króna. Þá sagði jafnframt að Seðlabankinn hefði staðfest að hafa tekið við endurgjaldinu, 28. apríl 2008, án fyrirvara um fjárhæð eða réttmæti þess. Varnaraðili hafnaði því alfarið að endurgjaldið hefði ekki verið fullnægjandi svo og að upphaflegar forsendur ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hefðu breyst þannig að leiða ætti til frekara framlags varnaraðila.
Málsaðilar reyndu, á fundi 26. ágúst 2010, að leysa ágreininginn. Þar sem það bar ekki árangur var honum, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991, vísað til héraðsdóms til úrlausnar, 25. október 2010.
Sóknaraðili krafðist þess í greinargerð sinni til héraðsdóms að öll sú fjárhæð sem hann lýsti við slit varnaraðila, 10.036.074.467 krónur, yrði viðurkennd sem veðkrafa en til vara sem almenn krafa.
Hinn 16. september 2011 var dómkvaddur matsmaður til þess að meta líkur fyrir endurheimtu þeirra krafna sem varnaraðili afhenti Seðlabanka Íslands sem endurgjald fyrir þeim skuldum sem Fjármálaeftirlitið fól viðtakendunum þremur að greiða fyrir Sparisjóðabankann.
Matsmaðurinn lauk matinu í nóvember 2012. Það var niðurstaða hans að endurheimtuhlutfall hefði í mars/apríl 2009 verið 68,7% af bókfærðu virði krafnanna. Á grundvelli matsins lækkaði sóknaraðili fjárkröfu sína í 2.737.798.407 krónur.
Í máli nr. 668/2011 fyrir Hæstarétti krafðist Íslandsbanki þess að viðurkennt yrði að hann ætti kröfu við slit SPB hf. sem samsvaraði þeim mismun á verðmæti skulda sem hann tók að sér að greiða samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009 og eigna sem hann fékk afhentar. Með dómi Hæstaréttar, 17. janúar 2012, var kröfu Íslandsbanka hafnað, ekki vegna þess að hann hefði ekki verið vanhaldinn í lögskiptum sínum við Sparisjóðabankann heldur vegna þess að viðtakendunum þremur hefði borið að annast uppgjör greiðslunnar frá bankanum sín í milli og ekki lægi fyrir hvort slíkt uppgjör hefði farið fram.
Sóknaraðili hefur nú gert upp við Arion-banka þá fjárhæð sem nam þeim mismun sem var á verðmæti skulda sem Fjármálaeftirlitið fól bankanum að greiða og þeim eignum sem Sparisjóðabankinn afhenti sem endurgjald fyrir skuldirnar. Jafnframt mun sóknaraðili hafa gert upp við Íslandsbanka samsvarandi mismun á yfirteknum skuldum og eignum frá Sparisjóðabankanum. Krafa til þeirrar fjárhæðar sem upp á vantaði í heild tilheyrir því sóknaraðila.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili telur ótvírætt að þær kröfur sem honum, Nýja Kaupþingi hf. (nú Arion-banka hf.) og Byr sparisjóði hf. (nú Íslandsbanka) voru framseldar með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi ekki verið jafnverðmætar þeim skuldbindingum sem sóknaraðili tók yfir. Til marks um hversu vanreiknaðar kröfur varnaraðila hafi verið muni þær ekki einu sinni nægja fyrir skuldbindingum sóknaraðila, hvað þá Arion banka (áður Kaupþings) eða Íslandsbanka (áður Byrs). Sóknaraðili bendir á að sumar kröfur séu á hendur sparisjóðum sem séu í verulegum rekstrarerfiðleikum, hafi farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og alls óljóst hvort nokkuð fáist upp í þær. Þá hafi Byr sparisjóður verið tekinn til slitameðferðar og muni vafalaust lítið vera til skiptanna fyrir almenna kröfuhafa. Margir þessara sparisjóða hafi óskað eftir því að íslenska ríkið legði þeim til eigið fé svo þeir gætu rétt af fjárhag sinn í samræmi við heimild í lögum nr. 125/2008. Verðmæti krafnanna sé því ofmetið að mati sóknaraðila og krefjist hann þess vegna hærra endurgjalds sem jafngildi þeim skuldbindingum sem sóknaraðili tókst á hendur.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi vanefnt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins enda ljóst að útlán varnaraðila til sparisjóða hafi alls ekki numið fjárhæðinni „u.þ.b. kr. 10,9 milljarðar“ auk þess sem „skuldabréfakrafa á hendur Byr-sparisjóði, að fjárhæð u.þ.b. kr. 1,5 milljarðar“, sé næsta verðlaus. Varnaraðili hafi því síður en svo framselt sóknaraðila 12,4 milljarða króna eins og Fjármálaeftirlitið hafi fyrirskipað honum. Að mati sóknaraðila geti varnaraðili ekki notast við óraunhæft verðmat á virði útlánasafns síns eða skuldabréfakrafna. Samkvæmt ákvörðun eftirlitsins skuli sóknaraðili fá raunverulegt endurgjald fyrir þær skuldbindingar sem hann tók á sig. Það endurgjald hafi ekki skilað sér og beri varnaraðila að efna ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins í samræmi við skýrt orðalag þeirra.
Það hafi verið tilgangurinn með því að færa innstæðu varnaraðila til sóknaraðila að sá síðarnefndi yrði skaðlaus af þessum skuldbindingum. Virði útlánasafns varnaraðila, sem átti að vera gagngjald til sóknaraðila, hafi alfarið verið reiknað út af starfsmönnum varnaraðila og beri hann því einn allan halla af mistökum við útreikning þess. Sóknaraðili telji reyndar að starfsmönnum varnaraðila hafi ekki getað dulist að kröfusafnið hafi verið vanreiknað strax við framsal. Seðlabanki Íslands, og síðar sóknaraðili, Eignasafn Seðlabanka Íslands, hafi ítrekað bent á þessa villu en þessi augljósu mistök hafi aldrei verið leiðrétt.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að þótt starfsmaður Seðlabanka Íslands hafi tekið við framsalssamningunum, 28. apríl 2009, hafi ekki falist í því samþykki við útreikningum varnaraðila. Sóknaraðili byggir á því að í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi falist að fara þyrfti fram úttekt á raunverulegu virði umræddra útlána. Orðalag 5. töluliðar ákvörðunar eftirlitsins, 21. mars 2009, bendi til þess að uppgjör hafi átt að fara fram á síðari stigum. Þar komi fram að Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki taki við umræddri greiðslu, þ.e. endurgjaldi fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga. Svo segi að þeir annist uppgjör vegna greiðslunnar sín á milli og standi varnaraðila skil á mismun milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna, sé hann einhver. Hér blasi við, að mati sóknaraðila, að slíkt uppgjör hefði getað farið á báða vegu, þ.e.a.s. reyndist endurgjaldið of lágt ætti varnaraðili að sama skapi að standa skil á mismun til sóknaraðila og Nýja Kaupþings banka, nú Arion-banka hf. Önnur skýring á töluliðnum fæli í sér þá órökréttu niðurstöðu að sóknaraðili og Arion-banki hf. ættu að taka á sig alla áhættu reyndist endurgjaldið ekki fullnægjandi.
Sóknaraðili byggir á því að í fyrrgreindum orðum ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins felist ekki að Seðlabanki Íslands hafi átt að taka á sig nokkra áhættu af þessum björgunaraðgerðum. Í ákvörðuninni segi að „Seðlabanki Íslands, Nýi Kaupþing banki hf. og Byr-sparisjóður [séu] viðtakendur umræddrar greiðslu“. Í þessum orðum felist að það sem þeir hafi tekið við eigi að hafa fjármunalegt gildi og vera hæft til að greiða fyrir þær skuldbindingar sem teknar voru yfir. Sóknaraðili bendir á að í öllum samskiptum málsaðilanna hafi varnaraðili ekki mótmælt því að framseldar kröfur hafi verið vanreiknaðar og séu því ófullnægjandi greiðsla.
Sóknaraðili byggir á því að ljóst sé að hefði hann ekki yfirtekið innlánsskuldbindingar varnaraðila hefðu þær skuldbindingar aldrei fengist greiddar nema að hluta með eignum varnaraðila. Eigendur þeirra innlána, sem Seðlabanki Íslands tók yfir, hafi verið fjármálafyrirtæki. Af þeim sökum hafi innstæður þeirra ekki verið tryggðar hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Hefði Seðlabanki Íslands ekki tekið innstæðuskuldbindingarnar yfir hefðu kröfur þessara sparisjóða verið almennar kröfur í bú varnaraðila. Því sé óhætt að fullyrða að við flutning þessara innstæðna hafi hagur sparisjóðanna vænkast mjög. Með því að neita að efna ákvörðun Fjármálaeftirlitsins færi varnaraðili tjón þessara innstæðueiganda yfir á sóknaraðila. Slík niðurstaða brjóti freklega gegn meginreglum gjaldþrotaskiptaréttarins um jafnræði kröfuhafa.
Sóknaraðili byggir á því að þær kröfur sem voru framseldar honum, Nýja Kaupþingi banka og Byr sparisjóði standi til tryggingar kröfum sóknaraðila, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991, þar til leiðrétt uppgjör hafi farið fram. Þá eigi sóknaraðili jafnframt veð, í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991, í útlánasafni varnaraðila sem nemi mismuninum á þeim kröfum, sem sóknaraðili hafi nú þegar tekið við, og þeim 12,4 milljörðum króna sem átti að afhenda sóknaraðila. Sóknaraðili telur hafið yfir allan vafa að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi útlánasafn varnaraðila átt að standa til tryggingar innstæðuskuldbindingunum. Sú ákvörðun standi enn þar til varnaraðili hafi uppfyllt ákvörðunina.
Verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila krefst hann þess til vara að fjárhæð mismunar þess endurgjalds, sem hann hafi raunverulega tekið við, og þeim innstæðuskuldbindingum sem Seðlabanki Íslands tók við, verði viðurkennd sem almenn krafa. Byggt er á öllum sömu málsástæðum og færðar eru fyrir aðalkröfu.
Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína þannig:
Yfirteknar innstæður:
Seðlabanki Íslands 9.536.847.017 kr.
Arion banki 1.446.453.123 kr.
Íslandsbanki/BYR 1.419.767.219 kr.
Samtals: 12.403.067.359 kr.
Yfirteknar eignir:
Seðlabanki Íslands 8.590.622.499 kr.
Arion banki 1.074.646.453 kr.
Samtals: 9.665.268.952 kr.
Mismunur alls: 2.737.798.407 kr.
Krafa sóknaraðila nemi mismun á yfirteknum innstæðum og yfirteknum eignum samkvæmt ofangreindu yfirliti, eða 2.737.798.407 kr.
Sóknaraðili byggi fjárhæð yfirtekinna innstæðna á niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns í málinu, dagsettri 21. nóvember 2012. Fjárhæð innstæðna sem Arion banki hafi tekið yfir miðist við yfirlýsingu Arion-banka, dags. 13. janúar 2014. Fjárhæð innstæðna sem Íslandsbanki/Byr tók yfir sé studd við kröfu Íslandsbanka hf. í bú varnaraðila nr. 188 í kröfuskrá, sbr. enn fremur dómkröfu Íslandsbanka hf. á hendur varnaraðila í Hæstaréttarmáli nr. 668/2011. Við útreikning á kröfu Íslandsbanka hf. sé miðað við miðgengi ISK/EUR á úrskurðardegi, 22. apríl 2009, eða 169,23.
Fjárhæð þeirra eigna, sem sóknaraðili tók yfir, taki mið af niðurstöðu matsgerðar dómskvadds matsmanns, dags. 21. nóvember 2012. Vísað er til yfirlýsingar Arion-banka hf., 13. janúar 2014, varðandi fjárhæð þeirra eigna sem Arion-banki hf. tók yfir.
Í aðalkröfu krefst sóknaraðili dráttarvaxta af vangoldinni fjárhæð frá upphaflegum afhendingardegi eigna, 28. apríl 2009, til greiðsludags. Fallið er frá vaxtakröfum í varakröfu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf. til Nýja Kaupþings og Seðlabanka Íslands, skyldu þessir tveir bankar taka yfir skuldbindingar Sparisjóðabankans vegna innstæðna, sbr. 1.-3. tölulið ákvörðunarinnar. Sem endurgjald fyrir þessar skuldbindingar skyldi Sparisjóðabankinn framselja útlán sín til sparisjóða svo og skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði, samtals um 13,45 milljarðar króna, sbr. 5. tölulið ákvörðunarinnar. Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki hafi tekið við umræddri greiðslu. Þeir skyldu annast uppgjör hennar sín í milli og standa varnaraðila skil á mismun yfirtekinna skuldbindinga og eigna, ef einhver yrði, sbr. 5. tölulið ákvörðunarinnar, 21. mars 2009.
Skilanefnd varnaraðila hafi uppfyllt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í einu og öllu með því að flytja innlánsskuldbindingar að fjárhæð u.þ.b. 12,34 milljarðar króna og sem endurgjald framselt útlán og skuldabréf, samtals 12.463.918.942 króna, að viðbættum yfirdrætti á veltureikningum til Nýja Kaupþings banka að fjárhæð 975 milljónir króna, eða samtals u.þ.b. 13,4 milljarða króna. Seðlabanki Íslands hafi staðfest að hann hafi tekið við endurgjaldinu, 28. apríl 2008, án nokkurs fyrirvara við fjárhæð eða réttmæti endurgjaldsins. Á þeim tíma hafi Seðlabankinn ekki látið vinna neitt mat á verðmæti endurgjaldsins en ákvörðun Fjármálaeftirlitsins byggi augljóslega á þeirri forsendu að andvirði endurgjaldsins hafi á þeim tíma verið hærra en andvirði þeirra skuldbindinga sem bankarnir yfirtóku.
Orðalag 5. töluliðar ákvörðunarinnar eitt og sér staðfesti þennan skilning varnaraðila. Viðtakendur greiðslunnar, Seðlabanki Íslands, Nýi Kaupþing banki hf. og Byr-sparisjóður hafi átt að annast uppgjör hennar sín í milli. Þar fyrir utan hafi viðtakendurnir átt að standa varnaraðila skil á mismuninum, ef einhver yrði. Það að „standa skil á e-u“ merki að fullnægja skyldum sínum, endurgreiða eða afhenda. Engin slík kvöð hafi verið á varnaraðila samkvæmt ákvörðun eftirlitsins enda ljóst að endurgjaldið hafi verið ríflega metið.
Hefði raunverulega staðið til að varnaraðili greiddi sóknaraðila og/eða öðrum viðtakendum greiðslunnar aukið endurgjald hefði þurft skýr lagafyrirmæli til þess enda ljóst að allar greiðslur úr búi fjármálafyrirtækis í slitameðferð til einstaka kröfuhafa raski jafnræði kröfuhafa, en það jafnræði sé meginregla gjaldþrotaréttarins. Þetta hafi starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins verið ljóst þegar þeir tóku umræddar ákvarðanir embættisins. Fyrirséð hafi verið að skipa þyrfti varnaraðila slitastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og eftirlitið hafi þá þegar lagt fyrir stjórn varnaraðila að leita heimildar til greiðslustöðvunar, sbr. 6. tölulið upprunalegrar ákvörðunar þess, 21. mars 2009.
Sóknaraðili byggi á því að fjárhæð þeirra krafna, sem hann tók yfir, sé ofmetin og ekki líkur á því að fjárhæðin fáist innheimt og jafnframt að varnaraðili hafi vanefnt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Sóknaraðili færi hins vegar ekki nein rök fyrir því á hvaða hátt varnaraðili eigi að hafa vanefnt sínar skyldur. Varnaraðili hafi aðeins framkvæmt skýra ákvörðun eftirlitsins. Samkvæmt henni skyldi varnaraðili framselja útlán sín til sparisjóða að fjárhæð u.þ.b. 10,9 milljarðar króna auk skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði, að fjárhæð u.þ.b. 1,5 milljarðar króna, eða samtals um 12,4 milljarðar króna sem endurgjald fyrir yfirtöku innlánaskuldbindinga.
Ákvörðun eftirlitsins hafi þannig verið uppfyllt og ríflega það. Þegar endurgjaldið frá Sparisjóðabanka Íslands hafi verið afhent Seðlabanka Íslands, Nýja Kaupþingi banka hf. og Byr sparisjóði, hafi ekki borist neinar athugasemdir, hvorki frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu né öðrum. Breytingar á forsendum, sem kunni að hafa orðið eftir að ákvörðuninni var framfylgt, séu að mati varnaraðila alfarið á áhættu viðtakanda endurgjaldsins, Seðlabanka Íslands, sem sóknaraðili leiðir rétt sinn frá.
Hvergi hafi komið fram að fjárhæð þessara útlána standist ekki eða að fjárhæð skuldabréfakröfunnar sé röng. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi þær skyldur verið lagðar á herðar skilanefndar varnaraðila að staðreyna þau innlán sem falli undir gildissvið 1.-3. töluliðar ákvörðunarinnar og útbúa þau skjöl sem nauðsynleg væru til að tryggja endurgjaldið samkvæmt 5. tölulið og tryggingaréttindi sem því fylgdu, svo og hafa samráð við viðtakendur endurgjaldsins um nánari framkvæmdaratriði. Allt þetta hafi varnaraðili gert án þess að fá athugasemdir. Samkvæmt þessu hafi varnaraðila ekki borið nokkur skylda til þess að staðreyna sérstaklega hvort verðmæti þeirra krafna sem eftirlitið hafi sjálft valið að taka sem endurgjald væri of- eða vanmetið.
Þrátt fyrir ítarlega ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og alls sex breytingar á henni sé hvergi vikið að því að varnaraðili eigi að hlutast til um að auka við endurgjald sitt. Hefði eftirlitið talið endurgjaldið of lágt hefði því verið í lófa lagið að breyta ákvörðun sinni. Fjármálaeftirlitið hefði einnig getað tekið ákvörðun sína upp á ný áður en formleg slitameðferð Sparisjóðabankans hófst og honum skipuð slitastjórn, hefði það talið hana byggjast á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Þessi staðreynd sé ekki síst athyglisverð í ljósi þess að eftirlitinu hafi vel verið kunnugt að skuldabréfakrafa á hendur Byr sparisjóði hafi ekki numið 2,75 milljörðum króna eins og haldið hafi verið fram í upphaflegu ákvörðuninni heldur um 1,5 milljörðum króna, sbr. fimmtu breytingu ákvörðunarinnar, 17. apríl 2009. Heildarendurgjaldið hafi jafnframt lækkað úr u.þ.b. 13,45 milljörðum króna í u.þ.b. 12,4 milljarða króna á innan við mánuði, samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, án þess að það eða aðrir aðilar krefðust frekara endurgjalds.
Varnaraðili hafnar því alfarið að endurgjaldið hafi ekki verið fullnægjandi og að upphaflegar forsendur ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi breyst þannig að leiða eigi til þess að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila. Eftirlitið hafi breytt ákvörðunum sínum alls sex sinnum, oftast nær aðeins til að veita frekari fresti en með fimmtu breytingu sinni, 17. apríl 2009, hafi verið tilgreint að afhenda ætti útlán til sparisjóða í endurgjaldinu að fjárhæð u.þ.b. 10,9 milljarðar króna. Endanleg afhending útlána sparisjóða hafi numið u.þ.b. 11,1 milljarði króna. Þá hafi skuldabréf á hendur Byr, sem nam um það bil 1,5 milljörðum króna, verið afhent samkvæmt ákvörðuninni og þar að auki hafi yfirdrættir á veltureikningum að fjárhæð u.þ.b. 975 milljónir króna, verið fluttir til Kaupþings þrátt fyrir að ákvörðun eftirlitsins hafi ekki sagt sérstaklega til um það. Því nemi hækkun endanlegs endurgjalds u.þ.b. 1,2 milljörðum kr., þ.e. umfram þá 12,4 milljarða króna sem voru tilgreindir í ákvörðun eftirlitsins, 17. apríl 2009.
Varnaraðili telur bréf Fjármálaeftirlitsins til hans, 21. október og 23. desember 2009, ekkert gildi hafa fyrir ágreiningsefnið. Ekki sé hægt að bera saman þá réttarstöðu sem Sparisjóðabankinn hafi verið í annars vegar áður en og hins vegar eftir að héraðsdómur skipaði bankanum slitastjórn og formleg slitameðferð hófst. Frá og með þeim degi þegar slitastjórn sé skipuð ráðstafi hún hagsmunum fjármálafyrirtækis eftir sömu reglum og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 162/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009. Í því felist meðal annars að slitastjórn verði að gæta jafnræðis milli allra kröfuhafa og breyti afstaða opinberrar stofnunar til ætlaðra krafna á hendur varnaraðila þar ekki neinu.
Varnaraðili bendir á að Fjármálaeftirlitið hafi átt allt frumkvæði að því hvaða eignir voru valdar sem endurgjald. Til dæmis hafi eftirlitið sérstaklega valið að undanskilja kröfu á hendur Sparisjóði Keflavíkur og virðist sem markmiðið hafi verið að velja eignir sem stæðu undir fjárhæð þeirra innlána sem voru framseld. Fjármálaeftirlitið hafi fengið allar þær upplýsingar frá Sparisjóðabanka Íslands sem það óskaði eftir. Það hafi því haft öll umbeðin gögn við höndina til að taka upplýstar ákvarðanir sem sneru að varnaraðila. Varnaraðili hafnar þeirri málsástæðu sóknaraðila að starfsmenn varnaraðila hafi gert mistök. Raunar sé í greinargerð sóknaraðila hvorki vísað til þeirra mistaka sem hann eigi við né tilgreint á hvaða hátt starfsmenn varnaraðila hafi brugðist starfsskyldum sínum. Það hafi ekki verið í verkahring varnaraðila að meta hugsanlegar afskriftir krafna eða miða við annað en bókfærða stöðu þeirra. Þá séu hvergi færðar sönnur á þær fullyrðingar sóknaraðila að Seðlabankinn hafi ítrekað komið athugasemdum sínum á framfæri gagnvart varnaraðila hvað varðar útreikning endurgjaldsins.
Hvorki varnaraðili né viðtakendur endurgjaldsins hafi fengið nokkru ráðið um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og geti vangaveltur sóknaraðila, um það hver atburðarásin hefði verið hefðu skuldbindingarnar ekki verið teknar yfir, ekki skipt neinu máli fyrir sakarefnið. Rétt sé þó að geta þess að eftir afhendingu endurgjaldsins hafi varnaraðili ekki getað varið umræddar eignir með tiltækum aðgerðum þar sem þær hafi ekki verið á forræði hans. Meinta verðrýrnun eignanna megi ef til vill rekja til þess að varnaraðili hafi ekki getað hámarkað andvirði þeirra með skuldajöfnunum eða öðrum úrræðum.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sé ekki vikið einu orði að því að viðtakandi endurgjaldsins eigi að vera skaðlaus af ákvörðuninni og ekkert sé þar um meint skaðleysi í breytingunum á ákvörðuninni eins og sóknaraðili byggi á. Það hafi ekki verið fyrr en að níu mánuðum liðnum frá því að eftirlitið tók upphaflega ákvörðun að það lét í ljós þá skoðun að viðtakandi greiðslu eigi að vera skaðlaus. Þessi síðari tíma skýring eftirlitsins sé varnaraðila með öllu óviðkomandi og byggi hann á því að þetta sjónarmið embættisins hefði þurft að koma skýrt fram í ákvörðunum þess í öndverðu en ekki löngu síðar þegar formleg slitameðferð sé vel á veg komin og kröfulýsingarfrestur útrunninn.
Varnaraðili hafnar því að endurgjaldið hafi ekki verið „hæft til greiða fyrir þær skuldbindingar sem teknar voru yfir“. Afar sérstakar ástæður hafi verið fyrir hendi þegar Fjármálaeftirlitið tók sína ákvörðun og verði ákvörðuninni ekki jafnað við samning á milli tveggja aðila. Ekkert hafi verið athugavert við greiðsluna sem slíka. Hún hafi óumdeilanlega haft fjármunalegt gildi og verið hæf til að greiða fyrir þær skuldbindingar sem Seðlabanki Íslands, Kaupþing og Byr sparisjóður tóku yfir. Það hafi verið mat Fjármálaeftirlitsins að endurgjaldið væri bæði hæfilegt og eðlilegt. Það að andlag greiðslunnar, þ.e. skuldabréf, skammtímalán o.fl., sé mögulega ekki jafn verðmætt og eftirlitið gerði ráð fyrir sé varnaraðila með öllu óviðkomandi. Telji sóknaraðili ákvörðunina hafa brotið gegn lögvörðum réttindum sínum verði hann að krefja Fjármálaeftirlitið um bætur.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að krafa sóknaraðila sé verulega vanreifuð svo og staða hennar í röð krafna. Aðalkrafa sóknaraðila byggist á heildartölu þeirra skuldbindinga, sem Seðlabankinn yfirtók, og að sú fjárkrafa eigi að njóta stöðu veðkröfu skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili geri ekki á nokkurn hátt grein fyrir því á hvaða grundvelli fjárkrafa hans eigi að njóta rétthæðar sem veðkrafa í réttindaröð þar sem ekki hafi stofnast nein veðréttindi samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, eða á annan hátt, og því sé hafnað að útlánasafn varnaraðila hafi átt að standa til tryggingar innstæðuskuldbindingum.
Varnaraðili byggir á því að hafi, í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, átt að felast að útlánasafn varnaraðila stæði til tryggingar hefði slíkt staðið þar berum orðum. Sá háttur hafi meðal annars verið hafður á í ákvörðun eftirlitsins þar sem ráðstafað var skuldbindingum Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka til Íslandsbanka, sbr. 3. tölulið ákvörðunar embættisins, 17. mars 2009, og ákvörðun þess um ráðstöfun eigna og skulda SPRON, sbr. 4. tölulið ákvörðunar embættisins, 21. mars 2009.
Að öðru leyti hafi ekki verið sýnt fram á hvernig veðréttindi sóknaraðila eigi að hafa stofnast í eignum varnaraðila en sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir slíkri staðhæfingu sinni.
Varnaraðili hafnar varakröfu sóknaraðila alfarið með sömu rökum og hann færir gegn aðalkröfu sóknaraðila.
Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 75/1997 um samningsveð, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, stjórnsýslulaga nr. 37/1995 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála o.fl. Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða
Fjármálaeftirlitið ákvað, 21. mars 2009, að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands og skipaði honum síðan skilanefnd 27. mars. Á sama tíma, 21. mars, ákvað eftirlitið að ráðstafa eignum og skuldum Sparisjóðabankans til Nýja Kaupþings banka og Seðlabanka Íslands. Með ákvörðun, 17. apríl 2009, var fyrri ákvörðun breytt þannig að Byr sparisjóður skyldi einnig taka við tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðabankans. Hvort tveggja skyldi þó afhenda Seðlabankanum sem sá um að koma þeim skuldbindingum og eignum til Nýja Kaupþings banka og Byrs sem þeim tilheyrði.
Skuldbindingarnar voru yfirfærðar til Seðlabanka Íslands 27. apríl 2009. Jafnframt afhenti Sparisjóðabankinn Seðlabanka Íslands, 28. apríl, eignir sem áttu að mæta skuldbindingunum sem voru afhentar daginn áður. Sóknaraðili, Eignasafn Seðlabanka Íslands, sem leiðir rétt sinn frá Seðlabankanum, telur raunvirði eignanna hafa verið lægra en bókfært virði. Af þeim sökum hafi Sparisjóðabankinn vanefnt þau fyrirmæli sem hann fékk frá Fjármálaeftirlitinu og jafnframt sé sóknaraðili vanhaldinn af þeim lögskiptum sem Seðlabankinn átti við Sparisjóðabankann vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.
Í þessu máli er sú spurning lögð fyrir dóminn hvort varnaraðili, SPB hf., hafi fullnægt þeim skyldum sem á fyrirrennara hans, Sparisjóðabanka Íslands hf., voru felldar með áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Það er óumdeilt að raunvirði þeirra eigna, sem varnaraðili framseldi Seðlabankanum, hafi ekki samsvarað bókfærðu virði þeirra, svo og að þær hafi ekki verið jafnverðmætar þeim skuldbindingum sem Seðlabanka Íslands, Nýja Kaupþingi banka og Byr sparisjóði var falið að greiða fyrir hann.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila hafi borið að framselja Seðlabanka Íslands, Nýja Kaupþingi banka og Byr sparisjóði fjárhæð sem samsvaraði, að raunvirði sínu, þeim skuldbindingum sem þessir aðilar tóku yfir fyrir Sparisjóðabankann. Þessa samsvörun milli verðmætis skulda og þeirra eigna sem áttu að fylgja með til að tryggja greiðslu skuldanna byggir sóknaraðili á 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009 og breytingu á henni 17. apríl sama ár, þar sem segir að sem endurgjald fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga komi „greiðsla“ að tiltekinni fjárhæð til viðtakendanna þriggja.
Fallist er á það með sóknaraðila að bréf Fjármálaeftirlitsins til varnaraðila 23. desember 2009, svo og 5. gr. laga nr. 125/2008, sýni að samsvörun hafi átt að vera á milli raunverulegs verðmætis þeirra eigna og skulda sem voru yfirteknar, samkvæmt áðurnefndum ákvörðunum eftirlitsins. Dómurinn getur því ekki fallist á þau rök varnaraðila að hann hafi fullnægt skyldum sínum með því að afhenda Seðlabanka Íslands eignir sem námu að bókfærðu virði fjárhæð skuldbindinganna sem Seðlabankinn yfirtók. Ekki er heldur fallist á þau rök að reyndist bókfært virði lægra en raunvirði hafi það verið ætlun Fjármálaeftirlitsins að ríkissjóður, í gegnum Seðlabankann, tæki á sig mismuninn.
Þrátt fyrir að það hafi verið opinber stofnun sem ákvað, með heimild í lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að færa tilteknar skuldbindingar frá Sparisjóðabankanum til Seðlabanka Íslands, Nýja Kaupþings banka og Byr sparisjóðs gilda þó meginreglur kröfuréttar um þessi lögskipti. Þar sem þessir þrír bankar áttu að vera skaðlausir af því að taka að sér greiðslu skuldbindinga Sparisjóðabankans urðu þeir kröfuhafar hans um leið og þeir höfðu tekið við skuldbindingunum.
Eins og segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 er það meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá þessari meginreglu eru þó undantekningar, meðal annars sú að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti valdið því að hann glati frekari kröfu. Það sem hefur þýðingu er, að skuldara hafi við móttöku kvittunar verið afhent sú viljayfirlýsing kröfuhafa að greiðslu sé lokið og skuldarinn hafi þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann hafi gert greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga upp að fullu og geti treyst því að hann verði ekki krafinn um frekari greiðslu síðar.
Varnaraðili ber því við að staðfesting starfsmanns Seðlabanka Íslands á því að hún hafi tekið við endurgjaldi, samkvæmt 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009, og framsalssamningum svo og tilheyrandi skuldaskjölum, jafngildi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu kröfu.
Dómurinn getur ekki fallist á þennan skilning. Í fyrsta lagi er ekki vitað hvaða starfi í Seðlabankanum viðkomandi gegndi og þar með ekki hvort hún hafði nokkrar heimildir til að skuldbinda Seðlabankann á einhvern hátt. Í öðru lagi er skjalið sem hún undirritar yfirlýsing samin af Sparisjóðabankanum.
Skjalinu verður ekki með nokkru móti jafnað við yfirlýsingu Seðlabanka Íslands þess efnis að Sparisjóðabankinn hafi afhent eignir sem Seðlabankinn taki við sem fullnaðargreiðslu fyrir þær skuldbindingar sem honum voru afhentar, einnig fyrir hönd tveggja annarra fjármálafyrirtækja, og Sparisjóðabankinn megi treysta því að verða ekki krafinn um frekara endurgjald síðar, reynist raunverulegt verðmæti eignanna ekki samsvara verðmæti skuldbindinganna.
Fjárkröfu sóknaraðila við slit varnaraðila verður því ekki hafnað af þeim sökum að sóknaraðili hafi afhent varnaraðila fullnaðarkvittun.
Varnaraðili hefur ekki mótmælt þeirri matsgerð sem sóknaraðili leggur fram til sönnunar réttmætis fjárkröfu sinnar. Þykir hann með henni hafa fært fullnægjandi sönnur á þann mun sem var á verðmæti þeirra skuldbindinga sem hann tók að sér að greiða fyrir varnaraðila og raunvirði þeirra eigna sem varnaraðili afhenti honum til að mæta þessum skuldbindingum. Að mati dómsins skiptir ekki máli hver mat verðmæti eignanna rangt. Raunvirði eignanna samsvaraði ekki verðmæti skuldanna og þann mismun ber varnaraðila að greiða.
Nú hefur sóknaraðili, með því að greiða Arion-banka (sem tók við réttindum og skyldum Nýja Kaupþings banka) og Íslandsbanka (sem tók við réttindum og skyldum Byrs sparisjóðs) það sem vantaði á fullnægjandi greiðslur til þeirra, eignast kröfu til þeirrar fjárhæðar sem upp á vantaði í heild sinni. Varnaraðili, SPB hf., hefur ekki staðið við skyldur sínar. Eignasafn Seðlabankans hefur fært sönnur fyrir fjárhæð kröfu sinnar. Af þessum sökum er viðurkennt að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem nemi 2.737.798.407 krónum.
Með þessari niðurstöðu er því hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að þau fjármálafyrirtæki sem tóku að sér að greiða skuldbindingar varnaraðila geti ekki leitað fullnustu kröfu sinnar við slit varnaraðila nema til komi skýr lagafyrirmæli. Því er jafnframt hafnað að þessi niðurstaða brjóti gegn meginreglunni um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti eða slit fjármálafyrirtækja. Málsástæðu varnaraðila um tómlæti sóknaraðila og Seðlabanka Íslands er jafnframt hafnað enda lét Seðlabankinn endurskoðunarskrifstofu vinna, þegar í upphafi júlí 2009, mat sem sýndi að raunverulegt verðmæti yfirtekinna krafna samsvaraði ekki því bókfærða verðmæti sem tilgreint var á yfirlitsblaði sem fylgdi framsalsgerningunum og var afhent Seðlabanka Íslands 27. apríl 2009. Vegna umkvartana viðtakenda skuldbindinganna gekk Fjármálaeftirlitið í málið í október 2009.
Aðrar málsástæður varnaraðila geta ekki heldur komið honum undan greiðsluskyldunni.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að fjárkrafa hans njóti stöðu í kröfuröð sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili byggir á því að hann eigi veð, í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991, í útlánasafni varnaraðila sem nemi mismuninum á þeim kröfum, sem sóknaraðili hafi nú þegar tekið við, og þeim 12,4 milljörðum króna sem átti að afhenda sóknaraðila. Sóknaraðili telur hafið yfir allan vafa að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi útlánasafn varnaraðila átt að standa til tryggingar innstæðuskuldbindingunum. Sú ákvörðun standi enn þar til varnaraðili hafi uppfyllt ákvörðunina.
Að mati dómsins verður ekki ótvírætt lesið út úr ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, 21. mars og 17. apríl 2009, að þau fjármálafyrirtæki, sem tóku að sér að greiða innstæður varnaraðila hafi átt að eiga, reyndust framseldar eignir ekki nægilega verðmætar, tryggingaréttindi í öðrum eignum varnaraðila.
Af þessum sökum er ekki unnt að fallast á að fjárkrafa sóknaraðila við slit varnaraðila njóti stöðu í kröfuröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar nýtur hún ótvírætt stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga eins og sóknaraðili krefst til vara.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað. Varnaraðili ljáði hvorki máls á því að Seðlabanki Íslands og síðar sóknaraðili né þau fjármálafyrirtæki, hverra réttindi sóknaraðili hefur nú yfirtekið, ættu rétt til nokkurra fjármuna úr slitabúinu. Sóknaraðili varð því að fá dómkvaddan matsmann til þess leggja mat á endurheimtuvirði greiðslunnar frá varnaraðila og þar með hversu há fjárkrafa sóknaraðila gæti orðið. Af þessum sökum verður allur kostnaður við mat dómkvadds matsmanns felldur á varnaraðila, 14.684.371 króna. Honum ber jafnframt að greiða sóknaraðila málflutningsþóknun sem þykir hæfilega ákveðin, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 2.008.000 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Eignasafns Seðlabanka Íslands, við slit SPB hf., 2.737.798.407 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa í samræmi við ákvæði 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Varnaraðili, SPB hf., greiði sóknaraðila 16.692.371 krónu í málskostað.