Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ökuréttur
  • Bráðabirgðasvipting


                                                                                              

Föstudaginn 20. janúar 2012

Nr. 47/2012.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Ökuréttur. Bráðabirgðasvipting.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun um sviptingu ökuréttar X til bráðabirgða. Byggði héraðsdómur á því að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 væri lögreglustjóri einn bær til að taka slíka ákvörðun. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hafi staðið lagarök til að fella fyrrgreinda ákvörðun lögregluvarðstjóra úr gildi, meðal annars með vísan til dóms Hæstaréttar frá árinu 2000, bls. 4228. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012, þar sem felld var úr gildi ákvörðun 21. ágúst 2011 um sviptingu ökuréttar varnaraðila til bráðabirgða. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var lögregla við umferðareftirlit á Hafnarfjarðarvegi 21. ágúst 2011 þegar bifreið varnaraðila var ekið vestur eftir veginum. Þar sem bifreiðin mældist á 111 km hraða á klukkustund hóf lögregla eftirför og gaf varnaraðila merki um að stöðva hana. Eftir viðræður við hann munu grunsemdir hafa vaknað hjá lögreglu um að hann væri ölvaður og var honum þá á vettvangi boðið að blása í öndunarprófsmæli. Því boði mun varnaraðili hafa neitað og var hann þá færður á lögreglustöð þar sem hann neitaði enn að blása í slíkan mæli. Fór svo að blóðsýni var þess í stað tekið úr honum og samdægurs var hann jafnframt sviptur ökurétti til bráðabirgða með skriflegri ákvörðun lögregluvarðstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga skal lögreglustjóri svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða telji hann skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi. Varnaraðili hefur borið brigður á að lögreglumaður hafi heimild til að taka slíka ákvörðun og telur að orðalag áðurgreinds ákvæðis hafi í för með sér að lögreglustjóra sé einum heimilt að taka hana. Hæstiréttur hefur áður hafnað því að ákvæðið verði skýrt á þann veg að lögreglustjóri þurfi sjálfur að taka afstöðu til sérhverrar ákvörðunar, sem felur í sér sviptingu ökuréttar til bráðabirgða, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar frá árinu 2000, bls. 4228 í dómasafni réttarins það ár. Þar var litið svo á að óhjákvæmilegt væri að tilteknir undirmenn lögreglustjóra gætu tekið ákvörðun sem þessa í umboði og á ábyrgð hans, enda getur hann endurskoðað ákvörðunina hvenær sem er. Þá er sviptingu ökuréttar, sem hér um ræðir, ætlað að standa skamman tíma, auk þess sem bera má hana sérstaklega undir dómstóla, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga. Að öllu þessu virtu verður hafnað þeirri málsvörn varnaraðila að lögregluvarðstjórinn, sem svipti hann ökurétti til bráðabirgða, hafi ekki verið til þess bær.

Í 3. málslið 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga er kveðið á um að  ökumanni sé skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn á ætluðum ölvunarakstri samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Þá segir í 2. mgr. 102. gr. laganna að svipting ökuréttar skuli eigi vara skemur en eitt ár ef stjórnandi vélknúins ökutækis neitar að veita atbeina sinn við rannsókn máls samkvæmt 3. mgr. 47. gr. þeirra. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði játaði varnaraðili í þinghaldi 11. janúar 2012 að hafa neitað að láta lögreglu í té öndunarsýni umrætt sinn.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, stóðu ekki lagarök til þess til að fella úr gildi fyrrgreinda ákvörðun um sviptingu ökuréttar varnaraðila til bráðabirgða. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.  

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012.

Ákærði í máli þessu, [X], var sviptur ökurétti til bráðabirgða 21. ágúst sl. eftir að hann hafði neitað að blása í vínandamæli lögreglu þegar grunur vaknaði um að hann hefði ekið bíl sínum undir áhrifum áfengis.  Hann hefur krafist þess við þingfestingu málsins í dag að bráðabirgðasvipting þessi verði felld úr gildi þar sem ekki séu lagaskilyrði til hennar fyrir hendi.

Fyrir liggur að maður sá sem svipti ákærða ökurétti til bráðabirgða var lögreglumaður í Hafnarfirði.  Ákvæði 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga verður ekki skilið á annan hátt en þann að það sé lögreglustjóri sem fari með vald til þess að svipta mann ökurétti til bráðabirgða.  Í lögum er ekki að finna heimild til þess að fela lögreglumönnum vald þetta.  Þá er á það að líta að um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsathöfn sem getur skipt miklu máli fyrir þann sem í hlut á.  Eru því ekki aðrir bærir til þess að framkvæma þá stjórnvaldsathöfn en lögreglustjóri eða löglærður fulltrúi hans.  Ber þegar af þeirri ástæðu að fella úr gildi ofangreinda ákvörðun.  

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Bráðabirgðasvipting ökuréttar yfir [X], ákærða í máli þessu, dagsett 21. ágúst 2011, er felld úr gildi.