Hæstiréttur íslands

Mál nr. 343/2012


Lykilorð

  • Veð
  • Ábyrgð


                                     

Fimmtudaginn 6. desember 2012.

Nr. 343/2012.

Helga Hauksdóttir

(Eyvindur Sólnes hrl.)

gegn

Arion Banka hf. 

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Veð. Ábyrgð

H krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning sem hún veitti í fasteign sinni vegna skuldabréfs útgefnu af P, tengdasyni hennar, til K hf., [síðar A hf.] Byggði H m.a. á því að bankinn hefði ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og að því væru fyrir hendi forsendur samkvæmt 36. gr. samningalaga til að víkja veðsetningunni til hliðar. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var fallist á það með H að annmarkar hefðu verið á upplýsingagjöf bankans til hennar, þar sem ósannað var að henni hefði verið kynnt niðurstaða greiðslumats P vegna lántökunnar. Hins vegar yrði að líta til þess að niðurstaða greiðslumatsins hefði verið jákvæð og að H hefði borið fyrir dómi að hún hefði undirritað skuldabréfið sem veðsali þótt henni hefði verið kynnt niðurstaða þess fyrir veðsetninguna. Yrði því hvorki talið ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að halda ábyrgðinni upp á H. Var A hf. því sýknað af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Skarphéðinn Þórisson hæstaréttarlögmaður.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2012. Hún krefst þess að felld verði úr gildi með dómi veðsetning sú sem áfrýjandi veitti í fasteign sinni að Kleppsvegi 34 í Reykjavík, vegna skuldabréfs 22. maí 2007, útgefnu af Pétri Hannessyni til Kaupþings banka hf. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. febrúar sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 27. maí 2011 af Helgu Hauksdóttur, Háaleitisbraut 107, Reykjavík, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að felld verði úr gildi veðsetning sú, sem stefnandi veitti í fasteign sinni að Kleppsvegi 34, Reykjavík, fasteignanúmer 201-6265, á 3. veðrétti með undirritun á skuldabréf nr. 0319-74-11591, útgefnu af Pétri Hannessyni til Kaupþings banka hf. og dagsettu 22. maí 2007. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnda samkvæmt tímaskýrslu lögmanns stefnanda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

I.

Hinn 22. maí 2007 gaf Pétur Hannesson út veðskuldabréf nr. 0319-74-11591 til Kaupþings banka hf. Um var að ræða námslokalán að fjárhæð 3.000.000 króna. Stefnandi skrifaði undir skuldabréfið fyrir hönd Péturs samkvæmt umboði frá honum þar sem hann var staddur erlendis á þeim tíma. Stefnandi skrifaði undir samþykki  á veðsetningu á Kleppsvegi 34, Reykjavík, fasteignanúmer 201-6265, á 3. veðrétti, sem þinglýstur eigandi.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. október 2008 var nánar tilgreindum eignum og skuldum Kaupþings banka hf. ráðstafað til Nýja Kaupþings hf., nú Arion banka hf. Samkvæmt 1. tölulið ákvörðunarinnar tók Arion banki hf., sem þá hét Nýja Kaupþing hf., við öllum eignum Kaupþings banka hf., m.a. kröfuréttindum, og fluttist umrætt námslokalán því yfir til stefnda.

Með bréfi, dagsettu 8. október 2010, skoraði lögmaður stefnanda á stefnda að leggja fram gögn sem sýndu fram á að bankinn hefði staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, ellegar skyldi stefndi afmá umrætt veð á fasteign stefnanda. Með bréfi, dagsettu 27. desember 2010, hafnaði stefndi kröfum stefnanda um að veði í umræddri fasteign yrði aflétt.

Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og var kvörtun hans móttekin 8. febrúar 2011. Stefndi skilaði inn athugasemdum til úrskurðarnefndarinnar við kvörtun stefnanda 18. mars 2011 og kom stefnandi á framfæri athugasemdum sínum við nefndina með bréfi, dagsettu 4. apríl 2011.

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í málinu 15. apríl 2011 og var þar tekið undir sjónarmið stefnanda og talið að forsendur væru til að víkja til hliðar veði því sem stefnandi veitti í fasteign sinni. Úrskurðaði nefndin því að stefndi skyldi aflétta umræddu veði af fasteign stefnanda.

Með bréfi, dagsettu 18. maí 2011, frá stefnda til lögmanns stefnanda og Fjármálaeftirlitsins, tilkynnti stefndi að hann sætti sig ekki við framangreindan úrskurð og að hann myndi ekki afmá veð það, sem hvílir á 3. veðrétti á fasteign stefnanda, fyrr en að undangengnum dómi. Höfðaði stefnandi því mál þetta eins og áður er rakið.        

Í greinargerð stefnda er því lýst að hinn 10. maí 2007 hafi útibúi Kaupþing banka í Mjóddinni borist tölvu­póstur frá Pétri Hannessyni, lántaka á umræddu veðskuldabréfi, þar sem hann sótti um námslokalán að fjárhæð 2-3 milljónir króna og óskaði eftir upplýsingum um hvaða gögn og upplýsingar þyrftu að liggja fyrir við lántökuna. Starfsmaður bankans hafi svarað lántaka samdægurs og tilkynnt honum að námslokalán væru að hámarki að fjárhæð 1.500.000 krónur en hægt væri að lána allt að 3.000.000 króna með veðtryggingu. Lántakinn hafi síðan fengið lán að fjárhæð 3.000.000 króna þar sem stefnandi, tengdamóðir lántaka, hefði samþykkt að veita veð í fasteign sinni að Kleppsvegi 34 í Reykjavík. Í tölvupósti hafi lántaki verið upplýstur um að það þyrfti að greiðslumeta hann og hafi þess verið óskað að hann veitti upplýsingar um hvort hann væri með önnur lán. Lántaki hafi svarað því til að hann væri ekki með önnur lán en námslán en af þeim þyrfti hann ekki að byrja að greiða fyrr en eftir tvö ár. Lántaki hafi sent bankanum undirritað umboð, dagsett 16. maí 2007, þar sem hann veitti stefnanda fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita skuldaskjöl og öll þau skjöl sem þyrftu, til þess að hann gæti tekið náms­lokalán hjá Kaupþingi banka að fjárhæð 3.000.000 króna.

Hinn 18. maí 2007 hafi bankinn framkvæmt greiðslumat á lántaka og hafi niðurstaða þess verið jákvæð um 227.718 krónur eftir að gert hafði verið ráð fyrir greiðslu af hinu umbeðna námslokaláni. Stefnandi hafi mætt í útibú bankans fjórum dögum síðar, eða 22. sama mánaðar, og undirritað lánaskjöl og fylgiskjöl, fyrir sína hönd og lántaka.

Skömmu eftir undirritun hafi starfsmönnum bankans orðið ljóst að láðst hefði að fá stefnanda og lántaka til að undirrita umrætt greiðslumat. Því hafi strax verið hafist handa við að reyna að ná sambandi við stefnanda og lántaka til að óska eftir að þau kæmu til að undirrita greiðslumatið. Bankinn hefði ekki getað stöðvað lán­veit­ing­una þar sem lántaki hafði þegar tekið fjármunina út af reikningi sínum. Eftir ítrekaðar beiðnir bankans, hafi lántaki loks komið til að sækja greiðslumatið og hafi sagst ætla að fá undirritun stefnanda. Hinn 30. desember 2009 hafi stefnandi undirritað breytingar á greiðsluskilmálum lánsins, sem falist hafi í því að vanskilum var bætt aftan við lánið. Stefndi hafi þar samþykkt áframhaldandi ábyrgð sína á láninu, þrátt fyrir vitneskju um að lántaki ætti í erfiðleikum með að standa í skilum með afborganir en stefnanda hafi verið tilkynnt um vanskilin með bréfum, dagsettum 11. nóvember 2009, 11. desember 2009 og 11. janúar 2011. Komi að auki fram í áðurnefndri skilmálabreytingu að hún sé gerð vegna vanskila á umræddu námslokaláni.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, þar sem stefnanda hafi ekki verið kynnt greiðslumat áður en hann tók sér ábyrgðina á hendur. Þá hafi stefndi ekki staðið við upplýsingaskyldu sína samkvæmt ákvæðum samkomulagsins.

Ekki verði ráðið af veðskuldabréfinu að stefnanda hafi verið kunnugt um að greiðslumat hafi verið framkvæmt á skuldara þess, Pétri Hannessyni. Þá komi hvergi fram á veðskuldabréfinu sjálfu né annars staðar að stefnandi hafi fengið tækifæri til að kynna sér greiðslumat á skuldara. Þannig sé ljóst að stefndi fullnægði á engan hátt skyldum sínum í tengslum við samþykki stefnanda á veðsetningu fasteignar hans, samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr., samkomulagsins frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Stefnandi vísar til þess að stefndi sé fjármálafyrirtæki, sem starfi á grundvelli starfsleyfis frá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 3. gr. laga nr. 161/2002. Stefnandi sé hins vegar atvinnulaus og öryrki að hluta og hafi hvorki sérmenntun né reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga. Þess vegna verði að gera enn ríkari kröfur en ella til stefnda um að hann starfi í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefnda, sbr. t.a.m. 19. gr. laga nr. 161/2002. Í því felist m.a. að sjá til þess að öllum reglum og skyldum, sem settar séu til hagsbóta og verndar fyrir almenning, sé fylgt í þaula. Samkvæmt markmiðsákvæði 1. gr. samkomulagsins frá 2001, um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sé það markmið samkomulagsins að setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings séu sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Þá samrýmist það illa góðum og eðlilegum viðskiptaháttum að vísa til þess og halda því fram að „starfsmenn bankans telji víst að Pétur hafi komið með greiðslumatið til baka undirritað. Það er ekki útséð með að greiðslumatið finnist undirritað hjá bankanum“. Það sé ekki tilgangur samkomulagsins að kynna greiðslumatið eftir að lánveiting hefur átt sér stað eins og stefndi segist hafa gert í bréfi sínu frá 27. desember 2010, enda kannist stefnandi ekki við að hafa verið kynnt greiðslumatið eftir á. Verði að gera strangar kröfur til stefnda um að hann tryggi sönnun fyrir því að öllum reglum og skyldum hafi verið fullnægt í tengslum við umrædda lánveitingu. Sé ótækt að halda því fram að greiðslumat hafi legið frammi þegar lánveitingin var afgreidd og hvað þá að stefnanda hafi verið gefið færi á að kynna sér niðurstöður þess. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því.

Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins frá 2001, um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sé fjármálafyrirtæki skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema sá, sem veitir veðið, óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Fjármálafyrirtæki sé þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi hærri fjárhæð en 1.000.000 króna. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir því að greiðslumat yrði ekki framkvæmt, auk þess sem ábyrgð hans með veðsetningunni hafi samkvæmt skuldabréfinu numið 3.000.000 króna.

Ekki liggi fyrir að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins frá 2001 um að greiðandi, Pétur Hannesson, hafi samþykkt greiðslumatið eða að tryggt hafi verið að stefnandi gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins áður en hann veitti veðleyfið. Þá hafi stefndi ekki gætt að ákvæðum 4. gr. samkomulagsins þar sem kveðið sé á um að dreifa skuli upplýsingabæklingi um skuldaábyrgðir og veðsetningar með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar og með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna sem fyllt séu út í tengslum við afgreiðsluna. Þannig liggi ekki fyrir staðfesting stefnanda um að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir.

Stefndi beri allan halla af því, að hvorki liggi fyrir sannanir á því að stefnandi hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir, né að skuldari hafi samþykkt greiðslumatið og að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að kynna sér matið áður en hún veitti veðleyfið. Það, að stefndi haldi því fram að mat á greiðslugetu Péturs Hannessonar hafi verið lagt fyrir Pétur og stefnanda skömmu eftir undirritun lánsins, breyti því ekki að framkvæmd stefnda var ekki í samræmi við samkomulagið frá 2001, auk þess sem slík fullyrðing sé með öllu ósönnuð. Þá liggi engin gögn fyrir, sem staðfesti að skuldari og stefnandi hafi nokkurn tíma undirritað umrætt greiðslumat og hljóti slíkt að jafngilda því að greiðslumatið hafi aldrei farið fram. Þá verði stefndi einnig að bera hallann af því að ekki liggi fyrir, hvort stefnandi hefði eftir sem áður gengist í ábyrgð fyrir Pétur eftir að hafa kynnt sér mat á greiðslugetu hans.

Að öllu framangreindu virtu verði því að telja að fyrir hendi séu forsendur til að víkja til hliðar veði því, sem stefnandi veitti í fasteign sinni, á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr.  7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. einkum 36. gr. þeirra laga. Stefnandi vísar jafnframt til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 3. gr. og 19. gr. laganna. Auk þess vísar hann til laga nr. 32/2009 eftir því sem þau geta átt við, sem og samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er byggð á lögum nr. 50/1988 og því að hann sé ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi og sé því nauðsyn að fá stefnda dæmdan til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að hann hafi staðið við skuldbindingar samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Líkt og fram komi í 1. mgr. 3. gr. samkomulagsins eigi fjármálafyrirtæki að meta greiðslu­getu greiðanda sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuld­bind­ingu, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Greiðslumat hafi verið framkvæmt 18. maí 2007, enda sé það ágreiningslaust. Niðurstaða greiðslumatsins hafi verið jákvætt um 227.718 krónur, þ.e. niðurstaða þess hafi verið að lántaki hefði mánaðarlega greiðslugetu að fjár­hæð 227.718 krónur eftir að gert hafði verið ráð fyrir greiðslu af námslokaláninu. Greiðslu­matið hafi því verið framkvæmt í tengslum við ábyrgðarskuldbindinguna og lántaki hafi talist vel greiðslufær á þeim tíma sem lánið var tekið, þ.e. 22. maí 2007.

Þá sé ákvæði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins einnig uppfyllt. Þar segi að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendi til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skuli hann staðfesta það skriflega. Ljóst sé að ábyrgðarmaður, stefnandi þessa máls, hafi getað kynnt sér greiðslumatið, bæði fyrir undirritun námslokalánsins og eftir undirritun þess. Greiðslumatið hafi verið framkvæmt 18. maí 2007 en stefnandi hafi undirritað lánið 22. maí 2007. Skortur á undirritun á greiðslumatið sjálft sé ekki brot á samkomulaginu um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, enda segi hvergi í samkomulaginu að ábyrgðarmaður skuli undirrita greiðslumat sem hefur jákvæða niðurstöðu. Í 3. mgr. 4. gr. samkomu­lagsins sé ekki tekið fram að ábyrgðarmaður þurfi að staðfesta greiðslumatið skriflega áður en hann gengst í ábyrgðina. Á öðrum stöðum í samkomulaginu sé þó kveðið á um að ábyrgðarmaður þurfi að gefa afstöðu sína skriflega til kynna, t.d. í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. Af þessu sé ljóst að þegar sam­komulagið var gert hafi það ekki verið ætlunin að gera það að skilyrði að ábyrgðarmaður staðfesti greiðslumatið skriflega þegar niðurstaða þess er jákvæð.

Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að þær upplýsingar, sem fram koma í greiðslumatinu, hafi verið rangar né hvers vegna undirritun á mati á greiðslugetu lántaka ætti að hafa breytt vilja stefnanda til að setja fasteign sína að veði til tryggingar á láninu. Markmið með gerð samkomulagsins hafi verið að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans, sbr. 1. gr. samkomulagsins. Lánveiting sú, sem hér um ræði, hafi uppfyllt þetta markmið samkomulagsins, enda hafi lánið verið veitt út á getu greiðanda lánsins til að efna skuldbindingar sínar, þótt tryggingarinnar hafi hins vegar verið krafist gegn hærri lánsfjárhæð samkvæmt reglum bankans. Forsenda lánveitingarinnar hafi því verið greiðslugeta aðalskuldara. Stefnandi líti svo á að þar sem undirritun sé ekki til staðar, feli það í sér, samkvæmt samkomulaginu, að trygging lánsins verði felld úr gildi. Þessu sé harðlega mótmælt, enda sé það í engu samræmi við samkomulagið né markmið þess að fella ábyrgð úr gildi við þessar aðstæður þar sem greiðslumat hafi verið framkvæmt áður en lánið var veitt. Varðandi þetta vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 116/2010, sem kveðinn var upp 21. október 2010.

Ekki verði séð að nokkuð komi fram í greiðslumati lántaka, sem hefði getað breytt afstöðu stefnanda til lánsveðsins, enda sé greiðslumat lántaka jákvætt og lánveitingin því í samræmi við markmið samkomulagsins. Ekki sé hægt að halda því fram að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. 

Stefndi hafnar því alfarið að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ábyrgðina, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga. Þau atriði, sem líta skuli til við mat á þessu og talin eru upp í 2. mgr. 36. gr., séu efni samnings, staða samningsaðila, atvik við samningsgerðina og atvik sem síðar komu til. Stefnandi hafi tekist á hendur umrædda ábyrgð af fúsum og frjálsum vilja og skrifað undir hana sjálfviljug. Greiðslumatið hafi legið fyrir og hafi stefnandi haft fulla möguleika á að kynna sér það. Stefndi hafi farið eftir gildandi lögum og venjum á fjármálamarkaði og hafi framkvæmdin verið í samræmi við 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í þeim málum, sem ábyrgð hefur verið dæmd ógild á grundvelli 36. gr. samningalaga, sé alltaf um það að ræða að annað hvort hafi greiðslumat ekki verið framkvæmt, sjá t.d. Hrd. 2005, bls. 2096, eða það hafi verið neikvætt. Hafi verið litið svo á, að komi upp sú staða að ábyrgðarsamningur sé gerður við einstakling þar sem skuldbinding samningsins sé augljóslega mun þyngri en fjárhagur gefur tilefni til, megi ógilda samning með vísan til 36. gr. samningalaga. Engin rök séu fyrir því að ógilda samning, sem hafi verið í fullkomnu samræmi við fjárhagsgetu skuldara. Það skuli að auki tekið fram að greiðslumat veiti einungis upplýsingar um fjárhagslega getu aðalskuldara á því tímamarki, sem það er framkvæmt, en hún geti að sjálfsögðu breyst og sé sú breyting á ábyrgð stefnanda. Þá falli ábyrgð ábyrgðarmanns ekki niður þótt aðalskuldari sé gjaldfær, heldur geti vanefnd aðalskuldara einnig verið rakin til skorts á greiðsluvilja, sbr. Hrd. 1995, bls. 328.

Stefnandi og lántaki séu skyld en stefnandi sé tengdamóðir skuldara. Fullvíst megi telja að þótt greiðslumatið hefði verið neikvætt, hefði stefnandi samt tekist ábyrgðina á hendur. Þetta megi meðal annars sjá af undirritun stefnanda á skilmálabreytingu lánsins sem gerð hafi verið þrátt fyrir að 4 gjalddagar lánsins væru þá í vanskilum. Í breytingunni hafi falist að vanskilin á láninu voru færð aftan við lánið. Þetta skjal hafi stefnandi undirritað 30. desember 2009. Af þessu sé skýrt að vilji aðila stóð til að taka þetta lán. Vilji stefnanda til ábyrgðar á láninu hafi haldist, þrátt fyrir vanskil á láninu, og því sé ljóst að hún hafi gert sér fulla grein fyrir að greiðsluskyldan gæti fallið á hana.

Stefndi fullyrðir að upplýsingabæklingar um skuldaábyrgðir og veðsetningar hafi legið frammi í öllum útibúum og að þeir hafi verið afhentir fyrir undirritun lánssamninga líkt og þeim, sem sé til umfjöllunar í málinu. Þetta geti starfsmenn stefnda staðfest.

Verði ekki fallist á ofangreind málsrök, byggir stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því að þrátt fyrir að greiðslumatið hafi ekki fundist undirritað, hefði stefnandi gengist í umrædda ábyrgð engu að síður þar sem ekkert komi fram í greiðslumatinu sem hefði getað breytt afstöðu stefnanda til að gangast í ábyrgð. Lántaki hafi verið vel greiðslufær og því verði ekki séð hvernig stefndi hafi brotið gegn samkomulaginu eða markmiði þess. Stefndi ítreki í þessu sambandi að stefnandi hafi undirritað breytingu á greiðsluskilmálum lánsins 30. desember 2009. Greiðslumat, hvort sem það var jákvætt eða neikvætt, hafi því ekki átt stóran þátt í ákvörðun stefnanda um að takast á hendur ábyrgð á láninu. Stefndi vísi til megin­reglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða í þessu sambandi. Athafnir að­ila í tengslum við ábyrgðir, sem í upphafi kunni að vera ógildar, geti leitt til þess að þeir beri allt að einu ábyrgð, sbr. Hrd. 2002, bls. 1936. Í þessu máli telji stefndi þó ábyrgð­ina aldrei hafa verið ógilda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að með því að hafa ekki uppi kröfur vegna óundirritaðs greiðslumats fyrr en þremur og hálfu ári eftir undirritun ábyrgðar­innar, hafi stefnandi sýnt af sér verulegt tómlæti. Stefnandi hafi undirritað lánaskjöl hinn 22. maí 2007 en ekki haft uppi kröfur vegna óundirritaðs greiðslu­mats fyrr en 6. október 2010. Fullt tilefni hafi þó verið fyrir stefnanda að hafa sam­band fyrr fyrst hún taldi að Kaupþing banki eða stefndi hefði ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt ábyrgðar­manna­samkomulaginu. Athuga­semdir um gildi ábyrgða eigi að koma fram innan eðlilegs tíma. Stefndi hafi heldur haft ekki uppi athugasemdir um lánið þegar hún undirritaði breytingu á greiðsluskilmálum lánsins 30. desember 2009 en þá hafi henni þó mátt vera ljóst að tengdasonur hennar ætti í erfiðleikum með að greiða af láninu. Stefndi telji að þetta eigi að leiða til sýknu hans af kröfum stefnanda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fjórða lagi á því að með því að undirrita skilmálabreytingu á umræddu láni 30. desember 2009, vitandi um vanskil lántaka, hafi stefnandi gefið eftirfarandi samþykki sitt á ábyrgð sinni á lánveitingunni. Því skipti ætlað brot stefnda á samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga við upphaf lánveitingar ekki máli.

Stefndi mótmælir því, að lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sem tóku gildi 4. apríl 2009, eigi við í málinu þar sem þau hefðu ekki öðlast gildi þegar umþrætt lán var veitt og gildi ekki afturvirkt, sbr. t.a.m. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 274/2010.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins um efndir in natura, meginreglna samningaréttarins um tómlæti og tillitsskyldu samningsaðila. Þá vísar stefndi til Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Um málskostnað vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991, um meðfer einkamála, einkum 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

IV.

Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um það, hvort ógilda beri veðsetningu þá, sem stefnandi heimilaði í fasteign sinni, íbúð með fasteignanúmer 201-6265 að Kleppsvegi 34 í Reykjavík, með undirritun sinni á skuldabréf, útgefnu af tengdasyni hennar, Pétri Hannessyni, vegna námslokaláns hans hjá Kaupþingi banka hf., upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna. Óumdeilt er að stefndi tók við kröfuréttindum samkvæmt láninu frá Kaupþingi banka hf. og sé því réttur aðili málsins. Þá er óumdeilt að stefnandi undirritaði hinn 22. maí 2007 framangreint skuldabréf til staðfestingar á því að hún væri samþykk veðsetningunni sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar, auk þess sem hún undirritaði bréfið sama dag fyrir hönd tengdasonar síns sem lántaka samkvæmt umboði.

Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína á því að stefndi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2011 og því séu fyrir hendi forsendur samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 til að víkja til hliðar framangreindri veðsetningu. Er óumdeilt að Kaupþing banki hf. var aðili að framangreindu samkomulagi og nú stefndi. Af hálfu stefnda er sýknukrafa byggð á því að skilyrði samkomulagsins hafi verið uppfyllt og greiðslumat framkvæmt. Þá sé ljóst að þótt stefnandi hefði aldrei séð greiðslumatið, hefði hún allt að einu gengist í þá ábyrgð sem hún gerði, auk þess sem hún hefði sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki upp mótmæli fyrr en þremur árum eftir að ábyrgð var tekin. Loks vísar stefndi til þess að stefnandi hafi veitt eftir á samþykki sitt fyrir ábyrgð sinni á umræddri lánveitingu. 

Framangreint Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga liggur frammi í málinu en samkvæmt 2. gr. þess tekur það til þess þegar einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings eins og hér háttar til. Samkvæmt 3. gr. er fjármálafyrirtæki skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema sá, sem veitir veðið óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Ávallt er þó skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum skuldarans nemur meira en 1.000.000 króna.

Í málinu liggur frammi skjal, dagsett 18. maí 2007, sem ber heitið niðurstöður greiðslumats. Á skjalið vantar þó þær undirritanir, sem ráð er fyrir gert í skjalinu, þ.e. af hálfu greiðanda, eiganda veðs og starfsmanns bankans. Einnig liggja fyrir útprentanir af tölvupóstum milli starfsmanna Kaupþings banka hf. og lántaka, Péturs Hannessonar, frá því fyrr í sama mánuði, þar sem fram kemur m.a. að gera þurfi greiðslumat hjá honum og konu hans. Þá kemur þar fram að Pétur hafi gefið bankanum upplýsingar um skuldastöðu sína og tekjur sínar og konu sinnar. Verður því að ganga út frá því að Kaupþing banki hf. hafi framkvæmt greiðslumat á skuldara bréfsins og maka hans áður en stefnandi samþykkti veðsetningu fasteignar sinnar hinn 22. maí 2007 og þannig uppfyllt skilyrði 3. gr. framangreinds samkomulags að þessu leyti.

Við munnlegan málflutning málsins færði stefnandi fram þau rök fyrir kröfu sinni, að umrætt greiðslumat væri rangt þar sem ráðstöfunartekjur Péturs og konu hans hefðu verið allt of hátt metnar. Af hálfu stefnda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni. Fyrir liggur að málsástæðu þessari var fyrst hreyft af hálfu stefnanda við aðalmeðferð málsins og í ljósi mótmæla stefnda telst hún of seint fram komin og verður því ekki frekar um hana fjallað.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins bar stefnandi um að henni hefði hvorki verið kynnt umrætt greiðslumat né hefði hún vitað af tilvist þess og þá hefði henni ekki verið afhentur upplýsingabæklingur bankans um skuldaábyrgðir og veðsetningar. Hefði hún heldur ekki verið upplýst um efni þeirra skjala áður en hún tók á sig umrædda ábyrgð. Að þessu virtu verður að fallast á það með stefnanda að ósannað sé að stefndi hafi uppfyllt ákvæði áðurgreinds samkomulags frá 2001 um að tryggja skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgð. Verður að þessu leyti ekki talið nægja að leitt sé í ljós að greiðslumat hafi legið fyrir nokkrum dögum áður en stefnandi undirritaði skuldabréfið sem veðsali. Þá verður í ljósi framburðar stefnanda að telja ósannað að uppfyllt sé skilyrði samkomulagsins um að dreifa beri upplýsingabæklingi með lánsgögnum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Hafa engin gögn verið lögð fram sem leiða til annarrar niðurstöðu.

Þótt stefndi beri hallann af þessum sönnunarskorti, verður á hinn bóginn að líta til þess að niðurstaða umrædds mats á greiðslugetu skuldara bréfsins var jákvætt og benti til þess að skuldarinn gæti staðið í skilum með afborganir af láninu. Þá kom fram í skýrslu stefnanda fyrir dóminum að það hefði engu breytt að þessu leyti, þótt henni hefði verið kynnt efni umrædds greiðslumats áður en hún skrifaði undir skuldabréfið í maí 2007, hún hefði allt að einu undirritað bréfið sem veðsali eins og hún gerði. Að þessu virtu verður ekki talið að framangreindir annmarkar á upplýsingagjöf bankans til stefnanda hafi í þessu tilviki gengið gegn markmiðum Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, þ.e. að vernda ábyrgðarmenn í þeim tilvikum þegar veð í eigu annars einstaklings er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og eigin tryggingar hans. Verður það því hvorki talið ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju þótt ábyrgð samkvæmt umræddu skuldabréfi yrði haldið upp á stefnanda. Er því ekki unnt að fallast á það með stefnanda að fella beri úr gildi veðsetningu þá, sem stefnandi veitti í fasteign sinni, eins og krafist er, með vísan til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í ljósi framanritaðs er heldur ekki fallist á það með stefnanda að ógilding verði byggð á þeim rökum að veðsetningin hafi verið í ósamræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 19. gr. laganna. Þá verður ákvæðum laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sem stefnandi vísar til í stefnu, ekki beitt með afturvirkum hætti í máli þessu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda um að felld verði úr gildi framangreind veðsetning í fasteign stefnanda. Hins vegar þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið og með vísan til ákvæða 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Helgu Hauksdóttur.

Málskostnaður fellur niður.