Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2014

Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)
gegn
A (Ólafur Örn Svansson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

A krafði V hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er bifreið, sem hún ók, valt utan vegar 17. janúar 2010. Ekki var deilt um bótaskyldu V hf. en deila aðilanna laut að því hvernig ákveða skyldi árslaun samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga vegna varanlegrar örorku hennar. Síðustu þrjú árin fyrir slysið hafði A unnið í fiskvinnslu, en viðurkennt var af hálfu aðila að A hefði verið á unglingataxta árin 2007 og 2008 og því væri rétt að taka einvörðungu mið af árinu 2009 við útreikninginn. Deila aðilanna laut hins vegar að því hvort miða ætti við meðalárslaun verkafólks árið 2009, líkt og A byggði á, eða raunverulegar tekjur hennar á greindu tímabili, sem voru nokkuð lægri. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, kom fram að A hefði verið 18 ára á slysdegi og unnið við fiskvinnslu árin 2007 og 2008 á unglingataxta. A hefði ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum og ætlað sér að vinna áfram sem verkakona við fiskvinnslu ef slys hefði ekki orðið. Hún hefði unnið fullt starf á árinu 2009 og hefðu laun hennar verið í samræmi við það, en líkur stæðu til þess að launin hefðu hækkað með hækkandi starfsaldri. Var því fallist á það með A að meðalárslaun verkafólks árið 2009 gæfu réttasta mynd af líklegum framtíðartekjum hennar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2014. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar greinir slasaðist stefnda í bílveltu 17. janúar 2010. Í málinu er ekki ágreiningur um að beita beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku stefndu, heldur einvörðungu um hvort miða beri við meðalárslaun verkafólks árið 2009 eða laun hennar sama ár við þann útreikning.

Stefnda var 18 ára á slysdegi og hafði unnið við fiskvinnslu árin 2007 og 2008 með ,,unglingalaun til að byrja með“.  Hún hefur ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum og bar við skýrslutökur fyrir héraðsdómi að hún hefði ætlað sér að vinna áfram sem verkakona við fiskvinnslu, ef slys hefði ekki orðið. Hún kvaðst hafa unnið fullt starf á árinu 2009 og voru laun hennar í samræmi við það, en í ljósi ungs aldurs hennar á slysdegi standa líkur til þess að þau hefðu hækkað með hækkandi starfsaldri. Í matsgerð kom fram að matsmenn hefðu metið varanlega örorku hennar 15% í ljósi skerðingar á getu hennar til að vinna erfiðari störf, þar sem stefnda hefði takmarkaða menntun og hefði auk þess unnið líkamlega erfið störf.  

Þegar allt framangreint er virt er fallist á með héraðsdómi að meðalárslaun verkafólks árið 2009 gefi réttasta mynd af líklegum framtíðartekjum stefndu og breytir 6. gr. skaðabótalaga engu í því sambandi, sbr. dóm Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 110/2003. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða  600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og rennur hann í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2013.

I.

Mál þetta var höfðað 18. apríl 2013 og dómtekið 12. nóvember 2013 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er A, […]. Stefndi er  Vátryggingafélag Íslands, Ármúla 3, Reykjavík.

      Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 3.538.625 krónur með 4,5% vöxtum frá 15. ágúst 2010 til 20. október 2011, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.

II.

Í máli þessu er deilt um hvaða árslaunaviðmið beri að leggja til grundvallar bótagreiðslum til stefnanda vegna varanlegrar örorku. Telur stefnandi að miða beri við meðalárslaun verkafólks á árinu 2009, samtals að fjárhæð 4.396.264 krónur. Stefndi telur að leggja beri til grundvallar árslaun stefnanda eins og þau voru á árinu 2009, eða 2.700.964 krónur. Ekki er ágreiningur með aðilum um bótaskyldu, og liggur fyrir matsgerð samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, þar sem varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins var metinn 15 stig og varanleg örorka 15%, auk tímabundinnar óvinnufærni og þjáningartíma.

                Stefnandi í máli þessu varð fyrir umferðarslysi þann 17. janúar 2010. Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar […] sem ekið var út af […], en bifreiðin valt og hafnaði í fjörunni. Bifreiðin var vátryggð hjá stefnda. 

                Málsaðilar óskuðu sameiginlega eftir því 28. júní 2011 að B læknir og C hæstaréttarlögmaður legðu mat á afleiðingar umferðarslyssins á heilsufar stefnanda. Í matsgerð, dags. 7. september 2011, töldu þeir varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 15 stig og varanlega örorku 15%. Segir í matsgerðinni að við mat á varanlegri örorku sé litið til afleiðinga slyssins og aðstæðna tjónþola. Um sé að ræða tvítuga konu sem matsmenn hafi metið 15 stig í miska vegna afleiðinga alvarlegs umferðarslyss. Hún hafi afar takmarkaða menntun og engin starfsréttindi. Lítið hafi reynt á vinnugetu hennar eftir slysið vegna barnsburðar og sé hún nú í fæðingarorlofi. Matsmenn telji að hún eigi að geta unnið öll léttari störf án mikilla takmarkana en þeir telji hins vegar líklegt að um sé að ræða áhrif á starfsgetu í öllum erfiðari störfum.

                Þann 20. september 2011, sendi lögmaður stefnanda, stefnda kröfubréf, á grundvelli greindrar matsgerðar dags. 7. nóvember 2011. Var í kröfubréfinu gert ráð fyrir því að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku yrðu árslaun metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og miðað við meðalárslaun verkafólks á árinu 2009, þ.e. árinu fyrir slysið. Stefndi hafnaði því viðmiði og tók fram að miða bæri við raunverulegar tekjur stefnanda við útreikning á varanlegri örorku eða launatekjur hennar árið 2009. Var uppgjörið samþykkt af hálfu lögmanns stefnanda, þann 9. nóvember 2011, með fyrirvara um mat á afleiðingum slyssins og árslaunaviðmið.

                Samkvæmt gögnum málsins starfaði stefnandi sem ófaglærð verkakona við fiskvinnslu á þeim tíma sem hún varð fyrir slysinu. Hafði hún á þeim tíma lokið grunnskóla og verið eina önn í framhaldsskóla, en hætti eftir það námi og hefur ekki haft nein áþreifanleg áform um frekara nám í framtíðinni. Námu árslaunatekjur hennar síðustu þrjú árin fyrir slysið 465.434 krónum tekjuárið 2007, 1.810.666 krónum tekjuárið 2008 og 2.700.964 krónum tekjuárið 2009. Var stefnandi óvinnufær í þrjá og hálfan mánuð eftir slysið. Hún hóf síðan hlutastarf í byrjun maí 2010, en hætti eftir miðjan ágúst sama ár vegna þungunar. Eignaðist hún barn […] nóvember 2010.

                Samkvæmt því er fram kemur í greinargerð stefnda, nema bætur til stefnanda fyrir varanlega örorku 11.882.200 krónum, ef miðað er við meðalárslaun verkafólks árið 2009, en 8.343.375 krónum ef miðað er við árslaun stefnanda árið 2009. Voru bætur gerðar upp með fyrirvara á grundvelli síðargreindu fjárhæðarinnar, þann 27. október 2011. Mismunurinn 3.538.625 krónur, er stefnufjárhæð málsins.

                Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kom þar fram að framtíðaráætlanir hennar væru að vinna áfram við fiskvinnslu. Hún hefði engin áform um að fara í frekara nám. Þegar hún hóf fyrst störf í fiskvinnslunni á árinu 2008 hafi hún verið með unglingalaun. Í dag væru full laun í fiskvinnslu 280.000 fyrir utan alla aukavinnu sem væri alltaf í boði. Fram kom að framtíðaráætlanir væru þær að vinna einhvers konar verkamannavinnu, en í dag ynni hún á leikskóla. Hún tók fram að starf hennar við fiskvinnslu hefði verið fólgið í að snyrta, salta fisk og pakka. Hún hafi verið í fullu starfi frá febrúar árið 2008. Eftir að hún eignaðist barn á árinu 2010, hafi hún farið í fæðingarorlof. Að því loknu hafi hún reynt að hefja aftur störf í fiskvinnslu, en komið hafi í ljós að hún hafi ekki getað unnið slíka vinnu og þá farið að vinna á leikskóla. Þá kom fram að hún ætti nú von á sínu öðru barni.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að miða beri uppgjör bóta til hennar við meðaltekjur verkafólks árið 2009, er nemi að teknu tilliti til launavísitölu og framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð 4.396.264 krónum. Telur stefnandi að um sérstakar og óvenjulegar aðstæður sé að ræða og að leggja beri til grundvallar 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta. Stefnandi telur meðaltekjur verkamanna vera réttari viðmiðun en að miða við laun hennar fyrir slysið. Fellst stefnandi ekki á þau rök stefnda að hún hafi verið komin með reynslu á vinnumarkaði, enda hafi starfsreynsla hennar verið afar takmörkuð, þar sem hún hafi einungis verið 19 ára þegar hún lenti í slysinu. Hún hafi því vegna ungs aldurs ekki verið búin að marka sér starfsvettvang þegar slysið varð. Tekur stefnandi fram að hún hafi takmarkaða menntun og engin starfsréttindi. Hún hafi lokið grunnskóla og verið eina önn í framhaldsskóla, en hætt og hafi engin áform um frekara nám. Hún hafi lengst af unnið við fiskvinnslu og þá mest við saltfiskverkun. Hafi matsmenn litið til þessara atriða. Tekið hafi verið tillit til skerðingar á getu stefnanda til að vinna erfiðari störf þar sem stefnandi hefði takmarkaða menntun og hefði auk þess unnið líkamlega krefjandi störf.

                Stefnandi telur með vísan til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2004 og nr. 26/2006, að í því fælist mismunun á grundvelli kynferðis og þar með brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár, ef mál stefnanda fengi aðra meðferð en komist var að niðurstöðu um í greindum málum, en í þeim hafi verið fallist á að leggja til grundvallar meðaltekjur verkamanna við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku.

                Til skýringar á dómkröfu tekur stefnandi fram að við ákvörðun árslauna skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sé miðað við meðaltekjur verkafólks árið 2009, þ.e. 3.840.000 kr. Þá sé tekið tillit til 8% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og árslaunin svo uppreiknuð miðað við launavísitölu fram til stöðugleikadags, sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993. Launavísitala ársins 2009 hafi verið 358 og launavísitala á stöðugleikadegi 379,5. Til frádráttar komi greiðsla stefnda, sem innt hafi verið af hendi þann 11. nóvember 2011, að fjárhæð 8.343.375 kr. Er krafist 4,5% vaxta skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 vegna varanlegrar örorku frá stöðugleikadegi þann 15. ágúst 2010 fram til 20. október 2011, (mánuði eftir að kröfubréf var sent stefnda) en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi og fram til greiðsludags.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Byggir stefndi á því, að eins og atvikum sé háttað sé ekki rétt við útreikning örorkubóta til stefnanda að miða við meðalárslaun verkafólks árið 2009, heldur sé réttara að miðað við uppreiknuð árslaun hennar sjálfrar árið 2009 eins og gert hafi verið við bótauppgjörið.

                Bendir stefndi á að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli árslaun metin sérstaklega þegar óvenju­legar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari en meðalat­vinnu­tekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.

                Telur stefndi að ósannað sé að meðalárslaun verkamanna á árinu 2009 séu réttari mælikvarði á fram­tíðar­vinnutekjur stefnanda, ef slysið hefði ekki orðið, heldur en árslaun hennar sjálfrar árið 2009, sem voru vel yfir lágmarkslaunum skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Vinnutekjur stefnanda árið 2009 hafi numið 2.700.964 krónum og uppreiknaðar til stöðugleikadags 15. ágúst 2010 3.087.052, krónur. Lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi á  sama tíma  numið 2.628.500 krónum. 

                Stefnandi hafi verið 19 ára að aldri á slysdegi, ófaglærð með öllu og hefði undanfarin ár eingöngu unnið við fiskvinnslu. Hún hafi ekki haft neina reynslu af öðrum störfum verkafólks.  Þá bendi ekkert sérstakt  til þess að stefnandi komi til með að ná meðallaunum verkafólks,  þó að slysið hefði ekki orðið. Það sé því ósannað að meðalárslaun verkafólks á árinu 2009 gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda en árslaun hennar sjálfrar á árinu 2009.

                Þá telur stefndi að greindir dómar Hæstaréttar Íslands hafi takmarkað fordæmisgildi í máli stefnanda. Í máli nr. 386/2006 hafi tjónþoli fyrir slysið unnið ýmiss konar verkamannastörf, sem stefnandi hefði ekki gert, og hafi einnig haft réttindi til að stjórna vinnuvélum ásamt meiraprófi, sem stefnandi hefði ekki. Í máli nr. 26/2006 hefði verið miðað við árslaun tjónþola fyrsta heila árið eftir slysið, en ekki meðaltekjur verkamanna. Telur stefndi að nærtækara sé að hafa hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 613/2011 og nr. 464/2009.

                Þá er því mótmælt að um sé að ræða mismunun á grundvelli kynferðis og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ákvörðun um árslaunaviðmið ráðist af því, hvað telja megi að gefi réttasta mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola í hverju tilviki óháð því hvort karl eða kona á í hlut.

                Þá bendir stefnandi á að meðalvinnutekjur verkafólks og annarra starfsstétta séu almennt óhæfur viðmiðunar­grundvöllur þegar í hlut eigi mjög ungir tjónþolar, þar sem inn í margföldunarstuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga er reiknað sérstakt aldursálag fyrir tjónþola yngri en 30 ára. Aldursálagið hækki eftir því sem tjónþoli sé yngri. Þannig nemi aldursálagið 29% fyrir 19 ára tjónþola, 30% fyrir 18 ára tjónþola og lækki með hækkandi aldri.

                Að lokum telur stefndi rétt, ef miða eigi við meðalatvinnutekjur starfsstéttar á annað borð, þá skuli miðað við meðalvinnutekjur þriggja síðustu ára fyrir slys í takt við meginregluna í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki aðeins við síðasta árið fyrir slys eins og stefnandi gerir.

Stefndi gerir ekki athugasemdir við tölulegan þátt stefnukröfu, en mótmælir upphafstíma dráttarvaxta, frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. 

IV.

Í máli þessu er deilt um hvaða árslaunaviðmið beri að leggja til grundvallar bótagreiðslum til stefnanda vegna varanlegrar örorku. Telur stefnandi að miða beri við meðalárslaun verkafólks á árinu 2009. Stefndi telur á hinn bóginn að leggja beri til grundvallar raunveruleg árslaun stefnanda eins og þau voru á árinu 2009.

                Í 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er mælt fyrir um að þegar tjón vegna örorku er metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Frá þessu megi þó víkja þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

                Stefnandi var 19 ára þegar hún varð fyrir slysinu og hafði þá unnið við fiskvinnslustörf í þrjú ár þar á undan. Hún hafði takmarkaða menntun og engin starfsréttindi og hefur ekki lokið neinu öðru námi en grunnskólanámi eða aflað sér starfsréttinda síðan. Námu árslaun hennar síðustu þrjú árin fyrir slysið 465.434 krónum tekjuárið 2007, 1.810.666 krónum tekjuárið 2008 og 2.700.964 krónum tekjuárið 2009. Samkvæmt skýringum stefnanda og lögmanns hennar við aðalmeðferð málsins var hún á árinu 2007 með unglingalaun auk þess sem hún sótti nám í framhaldsskóla eina önn. Hún hafi ekki verið komin í fullt starf fyrr en í febrúar 2008 og þá verið á byrjunarlaunum. Kom fram að starfsfólk hækkaði í launum eftir þrjú ár í starfi og aftur eftir fimm ár. Grunnlaun í fiskvinnslunni væru nú 280.000 krónur á mánuði en síðan væri alltaf aukavinna sem kæmi til viðbótar. Þessu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.

                Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að tekjur stefnanda árin 2007-2009 gefi rétta mynd af þeim framtíðartekjum sem stefnandi var líkleg til að njóta, ef slysið hefði ekki komið til. Það sama á við þótt miðað sé einungis við tekjur ársins 2009. Þykja því skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðbótalaga vera fullnægt til þess að víkja frá reikningsgrundvelli árslauna til ákvörðunar bóta samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu þykir rétt með hliðsjón af aldri stefnanda, störfum hennar fyrir umrætt slys og því að hún hafði ekki lagt grunn að fagmenntun, að miða bætur fyrir varanlega örorku til hennar við meðaltekjur verkafólks á árinu 2009 í samræmi við dómkröfu stefnanda.

                Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Þann 20. september 2011, sendi stefnandi stefnda kröfubréf þar sem stefndi var krafinn um greiðslu bóta í samræmi við kröfugerð stefnanda. Með vísan til þess er kröfu stefnda um að miða upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppsögu hafnað.

                Samkvæmt framangreindu verður stefndi því dæmdur til greiðslu með þeim hætti sem greinir í dómsorði. 

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.

                Innanríkisráðuneytið veitti stefnanda gjafsóknarleyfi 23. maí sl. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns  hennar, 600.000 krónur.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjörg Benjamínsdóttir hdl.

                Af hálfu stefnda flutti málið Hákon Árnason hrl.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 3.538.625 krónur með 4,5% vöxtum frá 15. ágúst 2010 til 20. október 2011, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.