Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Mánudaginn 2. júní 2014. |
|
Nr. 375/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Hjörtur Örn Eysteinsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. maí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 29. maí 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að [...], kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. júní 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra.
I
Í greinargerð lögreglustjóra segir að um kl. 3:06 í nótt hafi lögregla verið kölluð að skemmtistaðnum A, [...] í [...], en tilkynning hafi borist símleiðis um meðvitundarlausan mann þar innandyra. Á leiðinni á vettvang hafi frekari upplýsingar borist lögreglu um að maðurinn væri meðvitundarlaus vegna þess að honum hefði verið hrint, hann lent í átökum og fallið í gólfið.
Á vettvangi hafi lögreglu verið vísað inn á dansgólf skemmtistaðarins en þar hafi brotaþoli legið meðvitundarlaus framan við sviðið. Mikið hafi blætt úr höfði hans, svo mikið að blóðpollur hafi myndast. Einnig hafi mátt sjá blæðingu úr eyra brotaþola. Dyraverðir og einhverjir gestir staðarins hafi verið að hlúa að brotaþola. Sjúkraflutningamenn hafi í kjölfarið flutt brotaþola á Landspítalann í Fossvogi. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild hafi brotaþoli verið settur í röntgenmyndatöku. Á röntgenmyndum hafi mátt sjá blæðingu inn á heila á tveimur stöðum og einnig höfuðkúpubrot. Hafi ástand brotaþola verið talið alvarlegt. Brotaþoli hafi í framhaldinu verið fluttur á gjörgæsludeild til frekari aðhlynningar.
Lögreglustjóri segir að samkvæmt vottorði lækna slysadeildar og heila- og taugaskurðdeildar sé brotaþoli með lífshættulega höfuðáverka. Hann sé höfuðkúpubrotinn, með blæðingar milli heila og höfuðkúpu og marbletti víða á heilanum. Áverkar sem þessir séu lífshættulegir og liggi brotaþoli nú á gjörgæsludeild, sbr. fyrirliggjandi bráðabirgðavottorð sérfræðinga.
Á vettvangi hafi vitni gefið sig á tal við lögreglu sem sagst hafi séð er aðili í blárri skyrtu hafi hrint hinum slasaða þannig að hann hafi fallið harkalega aftur fyrir sig. Þá hafi vitnið borið að það hefði bent dyraverði á skemmtistaðnum á gerandann. Í kjölfarið hafi lögregla talað við dyravörðinn, sem bent hafi á kærða, er þá hafi verið að fara út um aðaldyr skemmtistaðarins, og sagt hann þann aðila sem vitnið hafi bent á sem geranda. Lögregla hafi farið út á eftir kærða og er hann hafi veitt því athygli hafi hann reynt að hlaupa í burtu. Lögregla hafi hins vegar náð kærða strax. Hann hafi í kjölfarið verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð, um kl. 3:47.
Lögregla hafi talað við dyravörð á staðnum sem sagst hafi hafa verið annarsstaðar í húsinu þegar hann og starfsfélagi hans hafi verið kallaðir til. Maður hafi þá legið hreyfingarlaus á maganum á gólfinu, rotaður, með vinstri hlið andlits í gólfi, í blóðpolli. Fastagestur staðarins hafi komið að máli við dyravörðinn og greint honum frá því að hann hefði séð atvikið, þ.m.t. hver gerandinn hefði verið. Vitnið hefði verið að dansa við hlið tvímenninganna þegar þeir hefðu rekist hvor í annan og í kjölfarið hefði gerandinn kýlt brotaþola. Vitnið hefði síðan bent á kærða sem þennan mann. Dyravörðurinn kvaðst í framhaldinu hafa farið til kærða og tekið í jakka hans. Kærði hefði verið klæddur í [...],[...] skyrtu og gallabuxur. Þá telji dyravörðurinn hann hafa verið með bindi. Kærði sagði vitnið hafa verið ölvaðan. Hann hefði verið í uppnámi og sagt dyraverðinum að hann hefði skallað brotaþola í sjálfsvörn, en brotaþoli hefði verið að ýta í kærða og áreita hann. Í þessu hafi dyravörðurinn verið beðinn um að opna fyrir sjúkraflutningamönnum og þegar hann hafi komið til baka hafi kærði verið farinn. Dyravörðurinn hefði síðan aftur komið auga á kærða þar sem hann hefði verið að ganga með félögum sínum út af staðnum. Dyravörðurinn hefði gengið á eftir kærða og stoppað hann úti, kærði reynt að losa sig og gert sig líklegan til að hlaupa í burtu. Lögregla hefði þá verið komin að og hefði hún handtekið kærða í kjölfarið. Lögreglustjóri segir dyravörðinn enn fremur hafa upplýst að systir kærða hafi komið til hans og sagt að þetta hefði allt verið brotaþola að kenna þar sem að hann hefði verið að reyna við aðra systur kærða, eða að grípa í hana, og því hefði komið til átaka.
Lögreglustjóri segir kærða hafa borið fyrir lögreglu að hann muni ekkert eftir atvikinu vegna ölvunar. Hann neiti að hafa ráðist að brotaþola en viðurkenni að hafa verið á vettvangi.
II
Lögreglustjóri segir kærða undir rökstuddum grun um sérstaklega hættulega líkamsárás, þar sem ráðist hafi verið á brotaþola með alvarlegum afleiðingum. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi. Eftir sé að taka skýrslur af vitnum og skýrslu af brotaþola, sem og frekari skýrslur af kærða. Einnig eigi eftir að afla mynda úr upptökuvélum af atvikum og þá sé tæknirannsókn jafnframt eftir. Þyki lögreglustjóra því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og hinum rökstudda grun, sem að kærða beinist, að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. Veruleg hætta sé á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og brotaþola ef hann fái að fara frjáls ferða sinna.
Að mati lögreglu séu ríkir rannsóknarhagsmunir á þessu stigi og því nauðsynlegt að kærði gangi ekki laus meðan á rannsókn stendur, en kærði sé grunaður um að hafa slegið, skallað og hrint brotþola. Um sé að ræða grófa atlögu sem hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Verið sé að rannsaka brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998, en slíkt brot geti varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannast.
Lögreglustjóri segir kærða undir rökstuddum grun um aðild að málinu samkvæmt rannsókn lögreglu. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs, og gagna málsins að öðru leyti, að kærða verði, með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 5. júní 2014, kl. 16:00, og til að sæta einangrun skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. og 2. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
III
Fyrir liggur að áverkar brotaþola eru mjög alvarlegir og liggur hann nú á gjörgæsludeild. Með vísan til þess og alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu getur varðað allt að sextán ára fangelsi.
Rannsókn málsins er á algeru frumstigi en lögregla var kölluð að skemmtistaðnum Spot rúmlega þrjú í nótt. Fallist er á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. júní nk., kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.