Hæstiréttur íslands
Mál nr. 255/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 16. apríl 2013. |
|
Nr. 255/2013.
|
Sýslumaðurinn á Akranesi (Halla Bergþóra Björnsdóttir settur lögreglustjóri) gegn X (Jón Haukur Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Hafnað var kröfu lögreglustjóra um að gæsluvarðhaldsvist X yrði framlengd á grundelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til [miðvikudagsins] 8. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður sakborningi ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna nema sterkur grunur leiki á að hann hafi framið brot sem fellur undir ákvæðið. Varnaraðila og brotaþola ber í meginatriðum saman um málsatvik allt þar til þau komu í anddyri fjölbýlishússins að [...] á [...]. Þar segir brotaþoli að varnaraðili hafi nauðgað sér en hann neitar eindregið sök og segir að þau hafi haft mök með hennar samþykki. Að þessu leyti standa því orð varnaraðila gegn orðum brotaþola. Þótt framburður brotaþola, ásamt öðru því sem liggur fyrir í málinu, kunni að undangenginni ákæru og sönnunarfærslu fyrir dómi að leiða til sakfellingar er varhugavert á þessu stigi máls að slá því föstu að fyrir hendi sé svo sterkur grunur að fullnægt sé fyrrgreindu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2013.
Lögreglustjórinn á Akranesi, hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að Héraðsdómur Vesturlands úrskurði að X, kt. [...] -[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í allt að 4 vikur eða til fimmtudagsins 8. maí 2013, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að til rannsóknar hjá lögreglunni á Akranesi sé kæra A, kt. [...]-[...] vegna nauðgunar. Kærandi hafi komið á lögreglustöðina á Akranesi að kvöldi laugardagsins 30. mars 2013 og lagt fram kæru vegna nauðgunar og líkamsárásar er hún kvaðst hafa orðið fyrir aðfaranótt 28. mars 2013. Þann 2. apríl 2013 hafi kærandi komið aftur og gefið nánari skýrslu samhljóða þeirra sem hún hafi gefið áður. Kærandi hafi lýst ferðum sínum að kvöldi miðvikudagsins 27. og aðfaranótt 28. mars sl. Hún hafi sagt frá því að hún hefði drukkið talsvert áður en hún fór á veitingastaðinn „[...] á[...]“. Hún lýsi síðan að þar hafi hún drukkið einn stóran bjór og síðan farið að dansa. Þá hefði komið til hennar maður sem hefði farið að dansa við hana og hann hafi svo reynt að kyssa hana. Þau hafi svo farið út í skot við dansgólfið þar sem maðurinn hefði reynt að setja lim sinn upp í hana og sagðist hún hafa tottað hann eitthvað smávegis. Hún hefði ekki viljað það og því farið til B, staðarhaldarans, sem hafi útvegað henni leigubíl og jafnframt spurt hana hvort þau gætu ekki deilt bíl, hún og maðurinn sem hún hafði verið með á dansgólfinu. Það hefði orðið úr að þau fóru saman í bíl sem ók þeim að [...], þar sem þau hefðu farið inn í anddyrið eftir að maðurinn bað hana að koma með sér inn. Þar inni hefði maðurinn tekið á hægri handlegginn á henni og dregið hana niður í gólfið og klætt hana úr buxunum og nærbuxunum og sagðist hún hafa spurt hann hvað hann ætlaði sér. Maðurinn hafi verið mjög stór og sterkur og sagði kærandi að hún hefði ekki ráðið neitt við hann. Þegar hann hafi verið búinn að klæða hana úr buxunum hafi hann sjálfur farið úr buxunum og lagst ofan á hana og sett olnbogann ofan á vinstri öxl hennar og haldið henni fastri þannig. Kærandi sagði að hún hefði reynt að krossleggja fætur en hann hefði tekið í lærið á henni og fært fætur hennar í sundur og síðan lagst ofan á hana og reynt að setja lim sinn inn í leggöng hennar en hefði gengið illa. Hann hefði þá sett fingur inn í leggöng hennar og víkkað þau út og síðan sett lim sinn inn í hana aftur og byrjað að hafa við hana samfarir. Þá hefði síminn hans hringt og hann hefði ekki svarað. Hún sagði að hún hefði reynt að æpa en hann hefði þá sett hendi yfir munn hennar og sagt henni að þegja hún mætti ekki hafa hátt. Síminn hans hefði hringt aftur og hann svarað og þar hefði einhver verið að spyrja hann hvort hann væri ekki að koma. Hann hefði svarað að hann væri alveg að koma blótað og hætt að hafa við hana samfarir. Hann hefði svo klætt sig í buxurnar og farið inn í blokkina.
Kærandi sagði að hún hefði sofnað á gólfinu og þegar hún hafi vaknað einhverju síðar hafi hún náð að komast á fætur en fundið mikið til í öxlinni þar sem hann hafði hvílt á henni og ekki getið tekið með sér fötin sem voru á gólfinu. Hún hefði náð að komast út og hefði hneppt að sér úlpunni en verið ber að neðan. Hún hefði labbað svoleiðis heim til sín, en ekki komist inn af því hún hefði skilið lyklana eftir að [...]. Hún hefði því hringt á bjöllunni hjá C sem hefði hleypt henni inn og hefði hún síðan sagt henni frá hvað hefði gerst. Þær hefðu farið út að leita að blokkinni en ekki farið nægilega langt og farið heim aftur.
Kærandi sagði að henni hefði liðið mjög illa á meðan þessu stóð. Maðurinn hefði verið mjög stór, þungur og sterkur og það hefði meitt hana þegar hann lá ofan á henni með olnbogann ofan á öxl hennar. Hún sagði að hann hefði ekki meitt hana í kynfærunum en hún hefði meitt sig mikið í öxlinni og hún væri brotin að sögn læknis. Hún hefði ekkert getað hreyft handlegginn síðan þetta gerðist.
Kærandi sagðist hafa sagt tveimur vitnum frá því sem hefði gerst. Þeim C og D sem staðfest hafa frásögn kæranda.
Þá hafi verið yfirheyrð tvö vitni E og F sem töldu að kærandi hafi verið ofurölvi og að kærði hafi verið að notfæra sér ástand hennar. Þau hefðu tekið efir því að kærði og kærandi fóru af staðnum og öðru vitninu sem hafði séð kærða vera að káfa á kæranda á staðnum hafði komið til hugar að hvort kærði væri að fara að nauðga kæranda.
Kærandi hafi farið til skoðunar á Neyðarmóttöku LSH þann 30. mars sl. Í skýrslu neyðarmóttökunnar segir að kærandi hafi komið á Neyðarmóttökuna frá heilsugæslunni í [...]. Hún hafi lýst árásinni á sig á sama hátt og hún gerði hjá lögreglu. Fram komi í skýrslu neyðarmóttöku að kærandi sé brotin á vinstri upphandlegg og með marbletti víðsvegar um líkamann, sem geti samrýmst sögu hennar um hvað gerðist í átökum hennar við manninn.
Kærði hafi verið handtekinn 5. apríl sl. samkvæmt beiðni lögreglunnar á Akranesi. Þá hafi skýrsla verið tekin af kærða þann 6. apríl sl. þar sem framburður hans sé að mestu leyti í samræmi við framburð kæranda hvað gerðist á skemmtistaðnum en í algjörri andstöðu við framburð kæranda varðandi það hvað gerðist í anddyri fjölbýlishússins. Kærði játi að hafa hafa haft mök við kæranda í anddyrinu en telji að hafi verið með hennar vilja og hafni því að hafa verið valdur af þeim áverkum sem kærandi ber. Þá hafi verið tekin önnur skýrsla af kærða þann 11. apríl 2013 og hafi hún verið í samræmi við fyrri skýrslu. Þar hafi kærði skýrt svo frá að kærandi hafi verið ómeidd að því sem hann best vissi er þau hafi farið inn í anddyrið.
Með tilliti til þess er að framan greinir svo og vegna alvarleika hins kærða verknaðar er nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir kærða.
Lögreglan á Akranesi telji sterkan grun fyrir hendi um brot X á 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsiramminn fyrir greinarnar sé fangelsi allt að 16 árum. Eins og gögnin beri með sér sé um að ræða sterkur grunur um gróft kynferðislegt ofbeldi kærða gegn kæranda sem hafi byrjað á skemmtistaðnum [...] og endað með grófri nauðgun í anddyri fjölbýlishússins [...]. Grunur sé að kærði hafi notfært sér ölvunarástand hennar og það að hún sé minni máttar. Samkvæmt læknisvottorði þá séu áverkar kæranda í samræmi við frásögn hennar og áverkar hennar samrýmist kynferðismökum án samþykkis. Rannsókn málsins sé vel á veg komin búið að tala við flest vitni en eftir að afla fleiri vottorða frá sérfræðingum. Sé það mat lögreglustjóra að háttsemi kærða hafi verið mjög alvarleg og þá verði að telja að ríkir almannahagsmunir standa til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á.
Þá sé vísað til dóma Hæstaréttar í málunum 255/2007, 261/2011 og 473/2011.
Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og eðli hinna meintu brota verði talið að nauðsynlegt sé að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til rannsóknar og til meðferðar í réttavörslukerfinu.
Með vísan til þess sem fram kemur í kröfu setts lögreglustjóra á Akranesi svo og til gagna málsins, er fallist á að fyrir hendi sé sterkur grunur um kærði hafi framið brot sem að lögum geti varðað við 10 ára fangelsi, samanber skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, og að framlenging á gæsluvarðhaldi kærða sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...]-[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. maí 2013, kl. 16:00.