Hæstiréttur íslands

Mál nr. 549/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Fimmtudaginn 21. ágúst 2014.

Nr. 549/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95.gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 12. september nk., kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar alvarlega líkamsárás X á A að kvöldi laugardagsins 9. ágúst sl. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að kl. 19:21 það kvöld hafi komið tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra (FMR) um að slagsmál ættu sér stað fyrir utan [...] og [...] við [...] í [...]. Skömmu síðar hafi önnur tilkynning komið frá FMR um að þarna væri slegist með hníf. Þá segi í frumskýrslunni að á vettvangi hafi verið mikið af fólki en það fyrsta sem lögreglumenn hafi séð hafi verið kærði og hafi hann verið alblóðugur í andliti og með skurð á enni. Lögreglumenn hafi síðan séð árásarþola hvar hann hafi verið með stungusár á hægri síðunni og stungugöt aftan á úlpunni. Bæði kærði og árásarþoli hafi verið fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Skýrsla hafi verið tekin af kærða þann 10. ágúst 2014 og fram komi í skýrslunni að kærði muni ekkert frá atburðinum. Segist hann eingöngu hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki annarra vímuefna en lögregla bíði niðurstöðu vegna rannsóknar á blóðsýnum frá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræðum. Aðspurður hafi kærði sagst ekki þekkja árásarþola og ekki hafa séð hann fyrr en kvöldið sem árásin hafi átt sér stað. Kærði segist muna það að hann hafi verið að drekka á bar og þegar hann hafi farið út af barnum hafi hópur útlendinga ráðist á hann fyrirvaralaust. Hafi hann sagst hafa fengið þungt höfuðhögg og muni því lítið. Hann hafi eingöngu varið sig með hnefunum, hann hafi ekki notað vopn og gengi aldrei með vopn. Þá hafi hann aðspurður sagst ekki hafa ráðist á árásarþola að fyrra bragði. Enn fremur hafi hann aðspurður neitað að hafa verið með hníf á sér umrætt sinn og muni ekki eftir að hafa stungið árásarþola. Kærði hafi hins vegar sagst hljóta að hafa gert það sem hann sé sakaður um miðað við framburð vitna og upptökuna sem honum hafi verið sýnd, þó hann muni ekki eftir því.

Lögregla hafi rætt við fjölda vitna og komi fram í framburði nokkurra þeirra að kærði og árásarþoli hafi verið í átökum, m.a. verið slegist með beltum, og samkvæmt framburði tveggja vitna hafi þeir séð kærða slá árásarþola með hnífskefti í höfuð, en það hafi þó ekki verið sami hnífur og kærði hafi notað við að stinga árásarþola. Samkvæmt vitnunum hafi kærði síðan gengið upp Frakkastíg, í átt að Laugavegi, og komið arkandi til baka með hníf á lofti og stungið árásarþola ítrekað. Því sé jafnframt lýst að árásarþoli hafi hlotið stungur er hann hafi legið í götunni. Vitni hafi síðan náð að komast á milli þeirra og náð hnífnum af kærða. Þá greini vitni frá því að kærði hafi byrjað átökin og það hafi verið að því er virst hafi að tilefnislausu. Lögregla hafi í höndunum upptöku þar sem sjáist hvar kærði hafi árásarþola undir í átökum og vegfarandi reyni að ná kærða af árásarþola og að því er virðist haldandi í höndina á kærða þar sem hann haldi á hnífnum.

Í bráðabirgðalæknisvottorði A, dags. 9. ágúst 2014, frá Landspítala háskólasjúkrahúsi, komi fram að hann sé með fjóra áverka eftir stungu; yfir hægri öxl, yfir hægra herðablaði, stungu í hægri lægri bakhluta brjósthols og í hægri nára. Stungan í brjóstholið sé greind sem djúp stunga. Tölvusneiðmynd af brjóstholi og kvið sýni ekki innri áverkamerki inni í brjóstholi eða kviðarholi. Þá komi fram í vottorðinu að á þessum tímapunkti hafi ekkert bent til að áverkar væru lífshættulegir en þar segi jafnframt að árásin hefði getað verið lífhættuleg. Í læknisvottorði, dags. 14. ágúst sl., komi fram að lítill skurður sé yfir vinstra kinnbeini, tæplega 1 cm á lengd. Á höfði sé ekki að sjá frekari áverkamerki. Á afanverðum brjóstkassa, hægra megin, sé opinn skurður í hæð við geirvörtu, 5 cm langur og djúpur að sjá. Á hægri upphandlegg, yfir aftanverðum axlarvöðva sé 3 cm skurður. Ofarlega á upphandlegg grunnur, 3 cm skurður. Þá segi að á hægri mjöðm, fyrir ofan rasskinn, sé 6 cm langur skurður og gapi töluvert. Skurðir hafi verið saumaðir 25 sporum, en ekki sjáist merki á tölvusneiðmyndum að hnífstungurnar hafi farið inn fyrir mjúkvefi, þ.e.a.s. ekki sjáist skaði á hjarta, lungum eða kviðarholslíffærum. Þá komi einnig fram að ekki sé búist við langtímaafleiðingum áverkanna.

Lögregla hafi unnið að rannsókn málsins nú í vikunnni og sé rannsóknin komin vel á veg. Á næstunni muni lögregla klára að taka skýrslur af þeim fjölda vitna sem hafi verið á vettvangi árásarinnar. Þá þurfi tæknideild lögreglu að vinna úr sínum niðurstöðum og beðið sé niðurstöðu frá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Þá þurfi e.a. að taka frekari skýrslur af kærða og árásarþola, og afla ítarlegri læknisvottorða.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. ágúst sl.

                Kærði sé undir sterkum grun um að hafa veist að árásarþola með hnífi og stungið hann fjórum sinnum fyrir utan skemmtistað í miðborg Reykjavíkur en nokkuð margir almennir borgara hafi verið á vettvangi og orðið vitni að árásinni. Lýsi vitni því, eins og að framan er rakið, að kærði hafi farið af vettvangi slagsmála þeirra í milli og komið skömmu síðar arkandi að árásarþola með hníf í hendi og stungið hann. Vitni lýsi því m.a. að kærði hafi stungið árásarþola á meðan hann hafi legið í götunni og verði því ekki fram hjá því litið að kærði hafi ráðist á varnarlausan mann, en vitni á vettvangi náð að hindra frekari árás, og lagt sig jafnvel í hættu við það. Hafi kærði því hlotið að gera sér grein fyrir því sem hann hafi verið að gera, en hnífsstunga í brjósthol manns hljóti ávallt að teljast til þess fallin að valda dauða hans.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr. sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi, eða ævilöngu, og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds. Telja verði að umrætt brot sé í eðli sínu svo svívirðilegt að gangi kærði frjáls ferða sinna myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa mjög réttarvitund almennings.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

         Með vísan til alls þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og í fyrirliggjandi rannsóknargögnum málsins þykir liggja nægilega fyrir að kærði sé undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um alvar­lega líkamsárás þann 9. ágúst sl. Eins og lýst er að framansögðu ber fyrirliggjandi læknisvottorð, dags 9. ágúst sl., með sér að áverkar brotaþola hafi verið eftir fjórar hnífsstungur og þar á meðal er djúp stunga á brjóstholi. Þá kemur fram að árásin hefði getað verið lífshættuleg. Rannsókn málsins stendur yfir en fjöldi vitna var að árás kærða á brotaþola sem kann að varða a.m.k. allt að 10 ára fangelsi. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 10. ágúst sl. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með fulltrúa lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.    

         Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi,

 allt til föstudagsins 12. september nk., kl. 16:00.