Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2003


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Húftrygging
  • Vörslur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. júní 2003.

Nr. 28/2003.

Jón Óskar Júlíusson

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Vátryggingarsamningur. Bifreiðir. Ölvunarakstur. Húftrygging. Vörslur.

Tjón varð á bifreið J við það að þáverandi unnusta hans, sem var ölvuð, missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin á ljósastaur. J krafði S hf. um bætur vegna tjónsins sem neitaði greiðslu með vísan til ákvæðis í vátryggingarskilmálum tryggingarinnar, þar sem ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis. Hélt J því fram að unnusta hans hefði tekið bifreiðina traustataki og ekið henni án leyfis. Með vísan til þess að bifreiðin var geymd við heimili unnustunnar og lyklar að henni í tösku J, sem hún varðveitti, var talið að bifreiðin hefði verið í vörslu unnustunnar og takan ekki þjófnaður í skilningi ákvæðis vátryggingarskilmálanna. Var S hf. því sýknað af kröfum J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. janúar 2003. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 1.410.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. maí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

         Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi því fram að tjónið megi hugsanlega rekja til þess að sprungið hafi á bifreiðinni. Ennfremur að áfrýjandi hafi enga ástæðu haft til þess að vantreysta ökumanni bifreiðarinnar og að ákvæði skilmála beri að skýra með hliðsjón af 18. og 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Hefur stefndi mótmælt því að þessar málsástæður komist að í Hæstarétti þar sem þeim hafi ekki verið hreyft í héraði. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður þessum málsástæðum ekki haldið fram fyrir Hæstarétti, enda mundi það raska grundvelli málsins og engin afsökun hefur verið færð fram fyrir því að þær voru ekki hafðar uppi í héraði. Líta verður þó til þess að ákvæði vátryggingarskilmála ber að skýra með hliðsjón af lögum nr. 20/1954, enda um lagaatriði að ræða.

II.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Kemur þar fram að tjón varð á bifreið áfrýjanda 1. maí 2000 við það að þáverandi unnusta hans missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin á ljósastaur. Stefndi bar ekki brigður á að bifreiðin væri húftryggð með unnustuna sem ökumann hennar, en neitaði greiðslu með vísun til ákvæðis 2.8 í vátryggingarskilmálum tryggingarinnar, en ágreiningslaust er að unnustan var ölvuð í skilningi ákvæðisins. Þykja ákvæði 18. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954, ekki standa þeirri neitun í vegi, eins og ölvun hennar var háttað.

        Kröfugerð áfrýjanda í héraði var á því reist að unnusta hans hefði tekið bifreiðina traustataki og ekið henni án leyfis, sbr. ákvæði 1.2 í vátryggingarskilmálum tryggingarinnar. Hefur hann borið að hefði hún beðið leyfis til að nota bifreiðina hefði hann veitt það, en ætlun hennar var að sækja hann til skips í Grindavík og koma honum á óvart. Bifreiðin var geymd við heimili hennar og lyklar að henni í tösku áfrýjanda, sem unnustan varðveitti. Verður að telja að bifreiðin hafi verið í vörslu hennar og taka hennar hafi ekki verið þjófnaður í skilningi ákvæðis 1.2 vátryggingarskilmála húftryggingarinnar. Ákvæðið ber að skýra þannig að það nái bæði til þjófnaðar í skilningi 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og nytjastuldar samkvæmt 259. gr. sömu laga. Ber að þessu athuguðu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2002.

         Mál þetta var höfðað 30. október 2001, þingfest 6. nóvember og dómtekið 20. september 2002.

Stefnandi er Jón Óskar Júlíusson, kt. 110374-5699, Sæbólsbraut 28, Kópavogi.

Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.433.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 1.509.000 krónum frá 15. maí 2000 til 15. júní 2000, af 1.601.400 krónum frá þeim þeim degi til 15. júlí 2000 af 1.693.800 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2000, af 1.786.200 krónum frá þeim degi til 15. október 2000 af 1.878.600 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2000, af 1.971.000 krónum frá þeim degi til 15. desember 2000, af 2.063.400 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2001 af 2.155.800 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2001 af 2.248.200 krónum frá þeim degi til 15. mars 2001 af 2.340.600 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2001 og af 2.433.000 krónum frá þeim degi til 15. maí 2001 til 1. júlí 2001 en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er gerð sú dómkrafa að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.509.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 15. maí 2000 til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að dráttarvextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi. Í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

 

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Mánudaginn 1. maí 2000 var bifreiðinni AI-269, af tegundinni VW Golf 1600, árgerð 1998, í eigu stefnanda, ekið á ljósastaur við Fjarðarhraun í Hafnarfirði. Í framlagðri lögregluskýrslu kemur fram að talsverðar skemmdir hafi orðið á bifreiðinni og ljósastaurnum og bifreiðin verið flutt af vettvangi með kranabifreið. Ökumaður bifreiðarinnar var Laufey Tinna Guðmundsdóttir og reyndist hún hafa verið undir áhrifum áfengis. Áfengismagn í blóði hennar reyndist við mælingu eftir aksturinn 1.70‰.

Laufey Tinna var á þessum tíma kærasta stefnanda og hafði samband þeirra staðið með hléum frá því í ágúst 1999. Stefnandi stundaði sjósókn frá Grindavík, var á sjó í mánuð og síðan fjóra daga í landi. Hún bjó í foreldrahúsum að Sjávargrund 13b í Garðabæ og dvaldi stefnandi jafnan þar þegar hann var í landi. Geymdi hann yfirleitt bifreið sína við hús foreldra hennar meðan hann var á sjó.

Mánuði eftir ofangreint óhapp mætti stefnandi hjá lögreglunni í Hafnarfirði og tilkynnti að Laufey Tinna hefði í umrætt sinn tekið bifreiðina ófrjálsri hendi. Aðspurður af lögreglu sagðist stefnandi ekki hafa kært fyrr þar sem Laufey Tinna hafi verið miður sín fyrstu vikuna eftir slysið. Í tilefni þessa var tekin skýrsla af Laufeyju Tinnu hjá lögreglu 7. júní 2000 og sagðist hún ekki líta svo á, að hún hafi stolið bifreiðinni. Hún hafi ætlað að koma kærasta sínum á óvart og sækja hann til Grindavíkur, enda hafi hún haft lykla bifreiðarinnar undir höndum, þar sem bifreiðin hafi verið geymd heima hjá henni meðan kærastinn var á sjó. Hún gat þess að hún hefði ætíð hringt í stefnanda þegar hún hafi viljað fá afnot af bifreið hans og hafi hann gefið henni leyfi til þess í nokkur skipti á þeim tíma sem þau hefðu þekkst.

Fyrir liggur að Laufey Tinna hefur sætt refsingu fyrir umræddan ölvunarakstur. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði féll hins vegar frá saksókn á hendur Laufeyju Tinnu fyrir ætlaðan nytjastuld og eignaspjöll. Með bréfi ríkissaksóknara dagsettu 28. desember 2000 var henni tilkynnt að ríkissaksóknari hefði ákveðið að ákvörðun sýslumanns myndi standa.

Í júní 2000 krafði stefnandi stefnda um bætur úr kaskótryggingu bifreiðarinnar AI-269, en bifreiðin var tryggð hjá stefnda með 98.700 króna eigin áhættu.

Kröfu stefnanda um bætur var hafnað með þeim rökum að ekki hefði verið um þjófnað að ræða og ökumaðurinn auk þess undir áhrifum áfengis. Málið var lagt fyrir Tjónanefnd vátryggingafélaganna og Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og var niðurstaða fyrir báðum nefndunum á þann veg að bótaréttur væri ekki fyrir hendi úr húftryggingu bifreiðarinnar.

 

Málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi byggir á því að hann hafi geymt bifreið sína við heimili Laufeyjar Tinnu þar sem hann hafi talið bifreiðina óhultari þar en við heimili sitt. Laufey Tinna hafi yfirleitt haft afnot af bifreið móður sinnar, en í nokkur skipti fengið bifreið stefnanda lánaða, þó aldrei án þess að hringja fyrst til stefnanda og biðja um leyfi og þá af sérstöku tilefni. Þegar stefnandi hafi verið að koma af sjó 1. maí 2000 hafi Laufey Tinna ákveðið að koma honum á óvart með því að sækja hann til Grindavíkur. Í þetta eina sinn hafi hún ekki hringt til þess að fá leyfi til að aka bifreiðinni, heldur tekið lykla bifreiðarinnar ófrjálsri hendi og ekið af stað með fyrrgreindum afleiðingum. Hún hafi þá verið undir áhrifum áfengis. Stefnandi hafi ekki haft nokkra möguleika á að koma í veg fyrir að Laufey Tinna tæki bifreiðina. Lyklarnir af  bifreið stefnanda hafi ekki verið í hennar vörslum heldur hafi hún tekið þá úr tösku hans.

Stefnandi byggir á því að taka Laufeyjar Tinnu á bifreiðinni hafi verið nytjastuldur en slíkt brot sé í daglegu tali nefndur þjófnaður. Skýra verði orðið þjófnaður í grein 1.2. í tryggingarskilmálum stefnda svo rúmt að það taki til nytjastuldar á bifreið samkvæmt 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, enda sé þar ekki sérstaklega vísað til þjófnaðarákvæðisins í 244. gr. laganna. Af hálfu stefnanda eru gefnar þær skýringar á því hversu seint meint brot Laufeyjar Tinnu hafi verið kært að hún hafi ekki talið sig vera undir áhrifum áfengis við aksturinn. Er stefnandi hafi haft samband við stefnda hafi honum verið tjáð að 1,7‰ alkóhóls hafi mælst í blóði Laufeyjar Tinnu og hann þyrfti að kæra hana fyrir nytjastuld til þess að geta fengið bætur. Stefnandi hafi þá lagt fram kæru og verði að líta svo á að sú kæra hafi verið sett fram strax og stefnandi hafi haft ástæðu til.

Aðalkröfu sína kveðst stefnandi byggja á upplýsingum frá Heklu hf. um verð sambærilegrar bifreiðar. Auk þess fari hann fram á bætur vegna þess að hann hafi verið bíllaus allt frá því að bifreiðin lenti í tjóni, þar sem bifreiðin hafi verið veðsett vegna kaupverðs hennar og afborganir af því láni of þungar til þess að bæta við kaupum á annarri bifreið. Samkvæmt óformlegu tilboði Bílaleigu Flugleiða nemi mánaðarleg leiga á ódýrum bíll 92.400 krónur, miðað við 1800 km mánaðarlegan akstur, og sé bótakrafan við það miðuð.

Í varakröfu sé ekki tekið tillit til annars fjártjóns en vegna skemmda á bifreiðinni.

Um lagarök vísar stefnandi meðal annars til laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, og skilmála stefnda um "kaskótryggingu" ökutækja.

Stefndi kveður sýknukröfu í fyrsta lagi á því byggða að umrætt atvik falli ekki undir bótasvið greinar 1.2. í skilmálum stefnda fyrir kaskótryggingar bifreiða. Handhöfn Laufeyjar Tinnu Guðmundsdóttur á bifreiðinni AI-269 teljist hvorki þjófnaður að lögum né í merkingu framangreindra skilmála og geti tjónið því ekki talist bótaskylt samkvæmt skilmálum. Því er haldið fram að skilmálar stefnda fyrir húftryggingu bifreiða séu að öllu leyti í samræmi við ákvæði vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, enda hafi öðru ekki verið haldið fram af hálfu stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að orðið "stolið" hafi áður verið notað í skilmálum kaskótryggingar hjá stefnda. Skilmálunum hafi hins vegar verið breytt og eftir þær breytingar leiki ekki vafi á því að með orðinu þjófnaður sé vísað til 244. gr. almennra hegningarlaga og það því skilyrði fyrir greiðslu bóta að sá sem tekið hafi bifreið hafi slegið eign sínni á hana eða taki vörslur hennar í þeim tilgangi.

Af hálfu stefnda er því einnig hafnað að taka Laufeyjar Tinnu á bifreiðinni geti talist nytjastuldur. Þótt hún hafi tekið bifreiðina í óleyfi stefnanda hafi ekki verið um algert heimildarleysi að ræða. Óheimil eða óleyfileg notkun geti ekki talist nytjastuldur, enda hafi Laufey Tinna ekki verið ákærð fyrir slíkt brot.

Krafa um sýknu er auk þess á því byggð að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar og algerlega óhæfur til að aka bifreið, þar sem áfengismagn í blóði hafi reynst vera 1.7‰. Samkvæmt grein 2.8. í skilmálum stefnda fyrir húftryggingu bifreiða, bæti félagið ekki tjón, sem verði við þær aðstæður. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið mótmælt að það ákvæði eigi við í þessu tilviki.

Af hálfu stefnda er kröfu um bætur fyrir leiguafnot bifreiðar mótmælt þar sem kostnaður  við leiguafnot annarrar bifreiðar sé utan bótasviðs skilmála stefnda. Í greinum 1.1. til 1.7. í skilmálum stefnda sé tæmandi talið hvað sé bætt. Leiguafnot eða afnotamissir sé þar ekki tilgreindur og bætist því ekki. Þá sé sérstaklega tiltekið í grein 16.8. í skilmálunum að óbeint tjón, svo sem afnotamissir, sé ekki bættur.

Kröfu stefnanda, sem byggð er á yfirlýsingu starfsmanna Heklu hf., er mótmælt tölulega með þeim rökum að ekki komi fram hvort starfsmenn Heklu hafi skoðað bifreiðina og ekki hvort um ásett verð sé að ræða eða staðgreiðsluverð. Þá miðist matið við það að bifreiðinni hafi verið ekið 33.000 km en raunverulegur akstur á tjónsdegi hafi verið 36.000 km.

Skoðunarmaður stefnda hafi skoðað bifreiðina og telji markaðsverð bifreiðarinnar hafa verið 1.500.000 krónur á tjónsdegi og verðmæti bílflaksins eftir áreksturinn 300.000 krónur.  Samkvæmt greinum 15.1. og 16.3. í skilmálum stefnda beri í tilvikum sem þessum að greiða staðgreiðsluverð á tjónsdegi að frádregnu verðmæti bifreiðarinnar eftir tjón. Þá skuli 98.700 króna eigin áhætta stefnanda koma til frádráttar bótakröfu, sbr. grein 20 í skilmálum stefnda.

 Dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögu er mótmælt þar sem stefnandi hafi ekki sett fram kröfu með þeim hætti að unnt væri að taka afstöðu til kröfunnar og eig því ekki rétt á dráttarvöxtum frá fyrri tíma.

 

Niðurstaða

Í tryggingarskilmálum stefnda fyrir kaskótryggingu ökutækja segir í grein 1.2. að vátryggingin bæti tjón á hinu vátryggða ökutæki af völdum þjófnaðar eða tilraunar til þjófnaðar á því, enda hafi ökutækið verið læst. Einnig að bótaskylda sé háð því að þessi tilvik séu kærð til lögreglu strax og þeirra hafi orðið vart.

Ljóst er að orðið þjófnaður er í daglegu notað yfir fleiri verknaði en falla undir 244. gr. almennra hegningarlaga, svo sem flest auðgunarbrot og nytjastuld. Þótt skilmálar stefnanda mættu vera skýrar orðaðir að þessu leyti þykir ótvírætt að skýra beri þá þannig að orðið þjófnaður vísi til 244. gr. almennra hegningarlaga og venjubundinnar skilgreiningar á þjófnaðarhugtakinu í íslenskum rétti. Samkvæmt því er vátryggingarvernd kaskótryggingar samkvæmt umræddu ákvæði bundin við töku ökutækis í þeim tilgangi að kasta eign sinni á það eða tilraunar til slíkrar vörslutöku. Samkvæmt því fellur tjón af völdum nytjastuldur ekki undir vátryggingavernd kaskótryggingarinnar.

Eins og fram kom í framburði stefnanda og vitnisins Laufeyjar Tinnu Guðmundsdóttur fyrir dómi geymdi stefnandi bifreið sína við heimili Laufeyjar Tinnu. Samkvæmt framburði þeirra voru lyklar að bifreiðinni geymdir í tösku í eigu stefnanda á heimilinu. Laufey Tinna hafði í nokkur skipti fengið leyfi stefnanda til að aka bifreiðinni en ók henni án leyfis í umrætt skipti. Enda þótt Laufey Tinna hafi þannig ekið bifreiðinni í umrætt sinn og undir áhrifum áfengis er útlokað að líta svo á að um þjófnað hafi verið að ræða, enda hefur því ekki verið haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi ætlað að kasta eign sinni á bifreiðina. Með vísan til framangreindrar skýringar á grein 1.2. í vátryggingarskilmálunum verður ekki fallist á að stefnda beri að bæta tjón stefnanda á grundvelli umræddrar greinar.

Í grein 1.1. í vátryggingarskilmálunum segir að vátryggingin bæti tjón á hinu vátryggða ökutæki af völdum meðal annars áreksturs og áaksturs.  Grein 2.8. hefur hins vegar að geyma takmarkanir á vátryggingarverndinni þar segir að félagið bæti ekki tjón sem verða kann á ökutækinu þegar ökumaður vegna undanfarandi neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja telst ekki geta stjórnað ökutækinu eða vera óhæfur til þess, samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Óumdeilt er að áfengismagn í blóði Laufeyjar Tinnu, ökumanns bifreiðarinnar í umrætt sinn, mældist 1,7 ‰ og telst hún því, samkvæmt 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, hafa verið óhæf til að stjórna bifreiðinni. Þar sem ökumaður hinnar kaskótryggðu bifreiðar var óhæfur til að aka henni í umrætt sinn er stefnda vegna greinar 2.8. í vátryggingarskilmálunum ekki skylt að bæta það tjón sem ökumaðurinn olli á bifreiðinni.

Takmörkunarákvæðið þykir eiga við um umrætt tilvik þótt Laufey Tinna hafi ekið bifreiðinni í leyfisleysi enda ekki um að ræða þjófnað samkvæmt framansögðu. Eins og máli þessu er varið þarf hins vegar ekki að taka afstöðu til þess hvort tjón á bifreið af völdum ölvaðs ökumanns, sem tekið hefur vörslur bifreiðar í auðgunarskyni, falli utan vátryggingarverndar kaskótryggingar stefnda.

Með vísan til framangreindra greina í vátryggingarskilmálum stefnda, sem ekki hefur verið haldið fram í málinu að séu í andstöðu við lög um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, ber stefnda ekki skylda til að bæta stefnanda tjón það sem varð á ökutækinu. Þegar af framangreindum ástæðum ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þar sem hugtakið þjófnaður hefur talsvert víðtækari merkingu í mæltu máli en í lagamáli mættu umræddir vátryggingaskilmálar stefnda að ósekju hafa að geyma nákvæmari skírskotun til þjófnaðarákvæðis almennra hegningarlaga.  Með hliðsjón af því þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af máli þessu.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Hilmar Baldursson hdl. en af hálfu stefnda Ingvar Sveinbjörnsson hrl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jóns Óskars Júlíussonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.