Hæstiréttur íslands
Mál nr. 209/2008
Lykilorð
- Handtaka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2008. |
|
Nr. 209/2008. |
Guðmundur Jónsson(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigurður Gísli Gíslason hrl.) |
Handtaka. Skaðabætur. Gjafsókn.
G höfðaði mál á hendur Í og krafðist miskabóta vegna ólögmætrar frelsissviptingar. G byggði kröfu sína á því að hann hefði verið sviptur frelsi án þess að hafa verið handtekinn. G var stöðvaður af lögreglunni fyrir of hraðan akstur og með útrunnið ökuskírteini og í kjölfar þess fór hann án þvingunar í lögreglubifreið á lögreglustöð. Hann var hvorki handtekinn né vistaður í fangageymslu. Heldur beið inni á skrifstofu á lögreglustöðinni þar til tekin var af honum skýrsla út af öðru máli. Í skýrslu lögreglunnar var þess ekki getið að G hefði verið handtekinn og í framburði G kom hvergi fram að lögreglan hefði gert honum grein fyrir því að hann hefði verið handtekinn. G lét ekki á það reyna að yfirgefa lögreglustöðina, en samkvæmt framburði vitna bendir ekkert til að honum hefði verið haldið þar að óvilja sínum. Samkvæmt þessu var ekki talið sannað að fullyrðing G um að hann hefði verið sviptur frelsi ætti við rök að styðjast og var Í því sýknað af bótakröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. mars 2005 til 1. mars 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskarður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðmundar Jónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2008.
Mál þetta var höfðað 28. febrúar 2007. Það var dómtekið var 18. desember 2007.
Stefnandi er Guðmundur Jónsson, Drangshlíð 1, Hvolsvelli
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur
Stefnandi gerir í málinu eftirfarandi dómkröfur:
Að stefnda, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 22. mars 2005 til 1. mars 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Málavextir
Kl. 09.09 að morgni þriðjudagsins 22. mars 2005 var stefnandi stöðvaður af lögreglunni í Árnessýslu þar sem hann ók eftir Skeiða- og Hrunamannavegi í Árnessýslu. Voru honum gefin að sök brot á umferðarlögum með því að hafa ekið bifreið sinni yfir löglegum hámarkshraða og að hafa ekið án tilskilinna ökuréttinda. Var stefnandi beðinn að koma í lögreglubifreið þar sem hann játaði brot sín greiðlega.
Með stefnanda í bifreiðinni var pólskur maður, P að nafni, sem dvalist hafði á gistiheimili foreldra stefnanda að D og hafði stefnandi verið beðinn um að aka honum að Syðra-Langholti í Árnessýslu. Þegar lögregla hafði tal af P framvísaði hann vegabréfi sínu, en reyndist við athugun lögreglu hvorki hafa dvalar- né atvinnuleyfi. Grunur vaknaði hjá lögreglu um að P væri við vinnu hér á landi án leyfa, sem lögregla taldi hann þurfa að hafa. Samkvæmt skýrslu lögreglu bar P og stefnanda á þessum tíma ekki saman um ferðir þeirra og hvert þeir væru að fara. Var P handtekinn kl. 09.09 og ók lögreglumaður bifreið stefnanda með P innanborðs að lögreglustöðinni á Selfossi.
Stefnandi kveður sér hafa verið meinað að yfirgefa lögreglubifreiðina og kveðst hafa verið fluttur með henni á lögreglustöð á Selfossi. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að stefnandi hafi farið með lögreglunni af fúsum og frjálsum vilja. Stefnandi hafi á þessum tíma verið án endurnýjaðra ökuréttinda og honum því óheimilt að aka bifreið.
Þegar á lögreglustöð var komið kveðst stefnandi hafa verið færður fyrir varðstjóra, sem hafi spurt hann í þaula um atvik máls og hafi hann verið hinn ruddalegasti, m.a. hafi hann öskrað að honum og vænt hann um lygar. Hafi varðstjórinn handskrifað meginatriði frásagnar stefnanda. Hvorki þá, fremur en áður í lögreglubifreiðinni, hafi stefnanda verið kynnt hverjum sökum hann væri borinn til viðbótar við umferðarlagabrotin né hver réttarstaða hans sem sakbornings væri, þ.á m. um að neita að svara spurningum um sakarefnið eða hafa verjanda viðstaddan. Hafi honum heldur ekki verið kynnt að hann væri handtekinn. Að loknu viðtali við varðstjóra hafi stefnandi áfram verið sviptur frelsi og gert að dvelja á skrifstofu á lögreglustöðinni, ávallt undir eftirliti, a.m.k. eins lögreglumanns.
Eftir nokkurra klukkustunda dvöl á lögreglustöð kveðst stefnandi hafa verið færður til formlegrar yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni. Þá fyrst hafi stefnanda verið tilkynnt að hann hefði stöðu sakbornings og honum kynnt réttarstaða hans sem slíks. Hafi hann verið grunaður um akstur án ökuréttinda, of hraðan akstur og ,,aðild að ólöglegri veru og vinnu útlendinga“. Við skýrslutöku kveðst stefnandi hafa viðurkennt, eins og hann hafi áður gert í lögreglubifreiðinni, að hafa ekið of hratt og að hafa verið með útrunnin ökuréttindi. Hafi hann síðan svarað nokkrum spurningum um veru Pólverjanna þriggja í D og ferðir sínar og P umræddan morgun.
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið handtekinn. Honum hafi hins vegar verið ekið á lögreglustöðina á Selfossi þar eð hann hafi sjálfur valið að koma með þangað, en ljóst var að taka þyrfti af honum framburðarskýrslu vegna ætlaðs umferðarlagabrots auk þess að ræða við hann til að kanna mál farþegans. Er því mótmælt af hálfu stefnda að stefnandi hafi verið handtekinn eða frelsi hans skert á annan máta.
Stefndi kveður farþegann hafa verið færðan í fangaklefa þegar á lögreglustöðina kom, en ekki stefnandi. Stefnandi hafi ekki verið handtekinn, enda komi ekkert fram í gögnum málsins til stuðnings þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi verið handtekinn eða sviptur frelsi sínu. Stefnandi hafi dvalið á skrifstofu lögreglu. Sú staðreynd að stefnandi gat ekki að vild valsað um húsakynni lögreglustöðvarinnar á Selfossi á meðan hann var þar, verði ekki til þess að stefnandi teljist hafa verið handtekinn. Sömuleiðis eigi það sér eðlilegar skýringar að lögreglumaður hefði auga með stefnanda meðan hann var á lögreglustöðinni, en það tíðkist ekki að borgarar og jafnvel fólk sem á eftir að gefa skýrslu fái óheftan og eftirlitslausan aðgang að skrifstofum og vinnuaðstöðu lögreglumanna.
Framburðarskýrsla hafi verið tekin af stefnanda á lögreglustöðinni á Selfossi. Í skýrslunni sé sakarefni tilgreint sem akstur án ökuréttinda, of hraður akstur og aðild að ólöglegri veru og vinnu útlendinga. Sé skýrslan ekki tímasett, en ástæðu þess kveður stefndi mega rekja til þess að á þessum tíma hafi lögregla verið að taka í notkun nýtt tölvukerfi með ýmsum byrjunarörðugleikum. Komi fram að þegar faðir stefnanda hafi komið á lögreglustöð hafi hann reynt að taka stefnanda með sér inn á stöðina, en það ekki verið leyft. Samkvæmt því hafi stefnandi verið frjáls að því að bíða í anddyri eða móttöku lögreglustöðvarinnar þegar faðir hans kom þangað, sem hafi verið fyrir kl. 13:27. Frá því að afskipti voru upphaflega höfð af stefnanda hafi þannig liðið fjórar og hálf klukkustund þar til ljóst sé samkvæmt gögnum að stefnandi hafi ekki verið sviptur frelsi í móttöku lögreglustöðvarinnar. Fullyrðingar stefnanda um frelsissviptingu á lögreglustöð í sex klukkustundir fá þannig ekki staðist.
Fram kemur í skýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli að lukkan 10.55 þennan sama dag hafði Jón Gunnar Þórhallsson lögregluvarðstjóri haft samband og óskað eftir því að kannað yrði hvort erlendir menn væru við vinnu að heimili foreldra stefnanda að D. Fór lögreglan þangað og handtók þar kl. 11.58 tvo aðra Pólverja, K og J að nafni. Á sama tíma var faðir stefnanda, A, handtekinn, sbr. dskj. 5. Í frumskýrslu lögreglu segir hins vegar að hann hafi verið handtekinn kl. 13.27.
Ekki kemur fram í lögregluskýrslu hvenær yfirheyrslan yfir stefnanda hófst né hvenær henni lauk. Yfirheyrsla yfir A, föður stefnanda, hófst kl. 15.05. Er honum þar m.a. kynntur framburður stefnanda. Stefnandi telur því mega ætla að skýrslutöku yfir stefnanda hafi lokið um eða eftir kl. 15.00 umræddan dag. Kveðst stefnandi hafa verið látinn laus eftir yfirheyrsluna, en lögregla hafi lagt hald á farsíma hans. Stefnandi hafi því samkvæmt þessu verið sviptur frelsi og í haldi lögreglu í um sex klukkustundir.
Skýrslutökum yfir öðrum lauk að kvöldi 22. mars 2005. Daginn eftir gaf sýslumaðurinn á Selfossi út ákæru á hendur K, J og P fyrir meint brot á lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Voru þeir samdægurs dæmdir í Héraðsdómi Suðurlands til að sæta fangelsi í einn mánuð, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins. Dómfelldu áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar, sem með dómi sínum, 16. júní 2005, ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Hinn 30. mars 2005 gaf nefndur sýslumaður út ákæru á hendur A fyrir meint brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og almennum hegningarlögum.
Stefnandi kveðst hafa greitt sekt vegna brota sinna á umferðarlögum. Hann hafi hins vegar engar spurnir haft af afdrifum máls, sem varðaði meint brot hans á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Hinn 3. apríl 2006 hafi lögmaður stefnanda sent bréf til sýslumannsins á Selfossi og hafi óskað upplýsinga um afdrif málsins. Hafi erindið verið ítrekað með bréfi lögmannsins, dags. 30. ágúst 2006. Með bréfi sýslumanns, dags. 1. september 2006, hafi lögmanninum verið tilkynnt að mál stefnanda, að því er varðaði meint brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga, hefði verið fellt niður.
Stefnandi telur að frelsissvipting hans hinn 22. mars 2005 hafi verið ólögmæt. Hafi engin heimild verið til hennar að lögum og hvorki tilefni til né nauðsyn á að svipta hann frelsi, auk þess sem hún hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt. Þá hafi frelsissvipting stefnanda staðið lengur en efni stóðu til og þörf var á.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi rökstyður kröfur sínar svo:
1.Óheimil lögreglurannsókn.
Stefnandi bendir í fyrsta lagi á að við mat á aðgerðum lögreglu gagnvart stefnanda verði að hafa í huga að snemma hafi orðið ljóst og ágreiningslaust að meint brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga hafi átt sér stað í umdæmi sýslumannsins í Rangárvallasýslu. Rannsókn þessara meintu brota hafi því átt að fara fram í því umdæmi, sbr. þágildandi 2. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. og 2. mgr. 7. gr. laganna. Sé og í þessum efnum vísað til meginreglu 1. mgr. 2. gr. þágildandi reglugerðar nr. 396/1997 um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, sbr. nú reglugerð nr. 1130/2006, en þar hafi verið mælt fyrir um að brot skyldi að jafnaði rannsaka í lögregluumdæmi þar sem talið sé að það hafi verið framið. Þá hafi lögreglu og mátt vera ljóst að hugsanlegt dómsmál skyldi höfða í umdæmi sýslumannsins í Rangárvallasýslu og skyldi rannsóknin því fara fram í því umdæmi, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 396/1997.
Verði að telja samkvæmt framansögðu að lögregla á Selfossi hafi enga heimilt haft til að hefja eða halda áfram rannsókn vegna ætlaðs brots stefnanda eða annarra manna í umdæmi sýslumannsins í Rangárvallasýslu. Leiði þetta að mati stefnanda eitt og sér til þess að aðgerðir lögreglu teljast ólögmætar og bótaskyldar.
2. Óheimil frelsissvipting.
Stefnandi telur að með aðgerðum lögreglu í greint sinn hafi hann verið sviptur stjórnarskrárvörðu frelsi sínu. Hafi honum verið gert að fara með lögreglu á lögreglustöð þar sem honum hafi verið gert að dvelja klukkustundum saman. Rangt sé að stefnandi og P hafi sjálfviljugir komið með lögreglu eins og greini í frumskýrslu lögreglu. Hafi P formlega verið handtekinn kl. 09.09 en stefnanda bæði verið meinuð för úr lögreglubifreiðinni og að aka eigin bifreið á lögreglustöð.
Stefnandi byggir á því að hann hafi verið ófrjáls í vörslu lögreglu í um sex klukkustundir eða allt þar til honum var veitt frelsi að lokinni yfirheyrslu. Hafi honum verið óheimilt að yfirgefa lögreglustöðina þar sem honum var gert að dvelja á skrifstofu undir eftirliti og í vörslu lögreglumanna allt þar til hann fékk að fara frjáls ferða sinna um miðjan dag. Stefnandi hafi ekki ráðið ferðum sínum eða athöfnum sjálfur í umræddan tíma heldur hafi, í einu og öllu, verið háður ákvörðunum og valdi lögreglu, sem hafi fylgst grannt með honum á skrifstofunni og hafi meinað honum för þaðan.
Stefnandi hafi ekki verið handtekinn formlega og hafi ekki verið vistaður í fangageymslu. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.Verður ekki annað ráðið af aðgerðum lögreglu en að hún hafi ekki talið skilyrði laga uppfyllt fyrir handtöku stefnanda, sbr. hins vegar handtöku annarra sakborninga. Ekki hafi verið gerð sérstök skýrsla um frelsissviptingu stefnanda eða honum kynntur réttur hans sem handtekins manns, ólíkt öðrum sakborningum sem einnig hafi verið sviptir frelsi.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að engin heimild hafi að lögum verið til þeirrar frelsissviptingar sem hann sætti svo sem áskilið sé í 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hafi aðgerðir lögreglu því verið ólögmætar og brotið í bága við stjórnarskrá. Þar sem um mikilsverð stjórnarskrárvarin mannréttindi stefnanda hafi verið að tefla verði að gera þá kröfu að lögregla hafi skýrar lagaheimildir fyrir aðgerðum sínum og að slíkum heimildum sé ekki beitt nema að gefnu tilefni og að virtum réttum málsmeðferðarreglum. Þá telur stefnandi heimildarlausa frelsissviptingu sína hafa farið í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.
3. Ekkert tilefni til frelsissviptingar.
Auk þess sem engin heimild hafi að lögum verið til þeirrar frelsissviptingar sem stefnandi sætti, telur hann að ekkert tilefni hafi verið til að hann yrði sviptur frelsi með þeim hætti sem raun varð á. Sé ítrekað að lögregla hafi ekki talið skilyrðum laga um meðferð opinberra mála fullnægt til að unnt væri að handtaka stefnanda, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hafi því heldur ekkert tilefni verið til annarrar frelsissviptingar stefnanda.
Bent sé á að stefnandi hafi játað umferðarlagabrot sín greiðlega. Hann hafi ennfremur svarað öllum spurningum lögreglu varðandi P eins og vitneskja hans hafi leyft. Í raun hafi það eitt legið fyrir að stefnandi var í bifreið með erlendum manni þegar hann var stöðvaður. Stefnandi hafi hins vegar strax gert grein fyrir ferðum sínum og tengslum við farþegann í bifreiðinni.
Rétt sé að vekja athygli á að ekki hafi legið fyrir formleg kæra um meinta refsiverða háttsemi stefnanda þegar hann var sviptur frelsi. Þá hafi heldur ekki legið fyrir lögreglu neinar vísbendingar, hvorki í formi gagna né upplýsinga, um meinta háttsemi stefnanda sem varðað gæti við verknaðarlýsingu í lögum sem teldist refsinæm. Sé því ekki unnt að líta svo á að fyrir hafi legið rökstuddur grunur um meinta háttsemi stefnanda, sem varðað gæti hann refsingu samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en stefnandi hafi þá þegar viðurkennt brot sín á umferðarlögum. Hafi lögregla og ekki talið tilefni til handtöku stefnanda.
Af hálfu stefnanda sé vísað til þess að skýra verði heimildir lögreglu til frelsissviptingar afar þröngt. Frelsissvipting hafi í för með sér inngrip í stjórnarskrárvernduð mannréttindi einstaklinga og þurfi því mikið til að koma svo að þeir verði sviptir frelsi sínu. Verði lögregla að gæta meðalhófs og málefnalegra sjónarmiða við beitingu slíkra heimilda.
4. Frelsissvipting ónauðsynleg.
Jafnvel þótt með einhverjum hætti hafi mátt líta svo á að uppi hafi verið rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi stefnanda verði með engu móti séð að frelsissvipting hans hafi verið nauðsynleg. Hafi lögregla heldur ekki talið nauðsyn á handtöku stefnanda til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot stefnanda, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Ekki hafi verið ástæða til að tryggja návist stefnanda og því síður öryggi. Engin hætta hafi verið á að stefnandi gæti spillt sönnunargögnum. Hafi lögreglu og strax verið fullljóst að meint brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga hefðu verið framin af öðrum en stefnanda.
5. Sviptur frelsi lengur en efni voru til.
Verði talið að lögreglu hafi einhverra hluta verið heimilt að svipta stefnanda frelsi með þeim hætti sem gert var og að tilefni hafi verið til og nauðsyn á slíkri frelsissviptingu, byggir stefnandi á því að frelsissvipting hans hafi varað mun lengur en nokkur efni voru til.
Vakin sé athygli á að P hafi verið handtekinn kl. 09.09 og hafi stefnandi því engin áhrif getað haft á framburð hans. Verði talið að nauðsynlegt hafi verið að flytja stefnanda á lögreglustöð, sé á því byggt að málavextir hafi þá fljótlega legið fyrir. Komi og fram í frumskýrslu lögreglu að í viðtali á lögreglustöð hafi komið í ljós að tveir aðrir pólskir ríkisborgarar dveldu að D í Rangárvallasýslu. Sé þar væntanlega vísað til viðtals varðstjóra við stefnanda sem fyrr er lýst. Verði að telja að stefnandi hefði þá mátt vera frjáls ferða sinna, enda þá þegar gert sitt til að upplýsa málið til hins ýtrasta.
Að mati stefnanda hafi lögreglu verið óheimilt að svipta hann frelsi þar til faðir hans og aðrir Pólverjar höfðu verið handteknir. Verði frelsissvipting stefnanda því ekki réttlætt með því að lögregla hafi þurft að hafa upp á öðrum mönnum. Þá sé enn fremur vísað til þess að samkvæmt handtökuskýrslum hafi A, K og J allir verið handteknir kl. 11.58. Hafi örugglega engin nauðsyn verið á frelsissviptingu stefnanda eftir þann tíma, enda hafi þá að fullu legið ljóst fyrir að Pólverjarnir þrír voru grunaðir um að hafa stundað störf í þágu A án leyfa, sem lögregla hafi talið þá þurfa, og þeir því allir undir grun um brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Verði miðað við að A hafi verið handtekinn og vistaður í fangaklefa kl. 13.27, eins og greini í frumskýrslu lögreglu, hafi í öllu falli ekki verið tilefni til frekari frelsissviptingar stefnanda eftir þann tíma.
Rétt sé að benda á að frelsissvipting stefnanda verði ekki réttlætt með því að taka hafi þurft framburðarskýrslu af honum. Ekki hafi verið nauðsyn á frelsissviptingu þess vegna, auk þess sem lögreglu hafi borið skylda til að hraða þeirri skýrslutöku sem mest hún mátti þar sem stefnandi hafi verið sviptur frelsi með þeim hætti sem fyrr sé rakið. Verði lögregla að bera allan halla af því hversu lengi dróst að taka skýrslu af stefnanda. Af skýrslunni sjálfri verði og ráðið að lögregla hafi fremur yfirheyrt stefnanda sem vitni um meint brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga fremur en sakborning.
6. Frelsisskerðing framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt.
Stefnandi byggir enn fremur á því að frelsissviptingu hans hafi verið hagað á móðgandi og særandi hátt. Hafi honum verið haldið á skrifstofu á lögreglustöðinni þar sem lögreglumaður hafi haft gætur á honum allan tímann. Jafnframt telur stefnandi að varðstjórinn sem tók viðtal við hann á lögreglustöð hafi farið offari og sýnt af sér ruddaskap, sbr. hins vegar til hliðsjónar ákvæði 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu.
7. Meðalhófs ekki gætt.
Samkvæmt framansögðu telur stefnandi ljóst að lögregla hafi farið offari í störfum sínum og misbeitt valdi sínu til að svipta stefnanda frelsi í um sex klukkustundir. Hafi lögregla í öllum aðgerðum sínum, og ekki hvað síst gagnvart stefnanda, gengið miklu lengra en nauðsyn hafi borið til og heimilt hafi verið að lögum. Vísist hér til meginreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sérstök ástæða hafi verið fyrir lögreglu að gæta meðalhófs í aðgerðum sínum þar sem meint brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið framin utan umdæmis hennar, auk þess sem verulegur vafi hafi leikið á að meint háttsemi sakborninga kynni að vera refsiverð að lögum, sbr. það sem hér greinir.
Stefnandi bendi í þessu sambandi á að með lögum nr. 8/2004 um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, með síðari breytingum, hafi Alþingi veitt heimild til að fullgildur yrði fyrir Íslands hönd samningur um þátttöku Póllands og fleiri ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, sem gerður hafi verið í Lúxemborg 14. október 2003. Hafi lögin tekið gildi 22. mars 2004 og samningurinn 1. maí sama ár. Samkvæmt 28. gr. EES-samningsins sé mælt fyrir um frjálsa för launþega innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hafi fyrrgreindir Pólverjar því mátt ætla að þeim væri heimil dvöl og atvinna hér á landi án sérstakra takmarkana. Sé og vísað til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna við áðurgreindan samning um frelsi launþega til flutninga þar sem því sé m.a. lýst yfir af Íslands hálfu að leitast verði við að veita m.a. ríkisborgurum Póllands greiðari aðgang að vinnumarkaði samkvæmt landslögum. Hafi nefndur samningur veitt Pólverjunum þremur rétt til starfa hér í atvinnuskyni að svo miklu leyti sem hægt sé að líta á háttsemi þeirra í slíku ljósi.
Stefnandi bendi jafnframt á að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 96/2002 megi útlendingur, sem falli undir reglur EES-samningsins, svokallaður EES-útlendingur, koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast eða starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu til landsins, eða allt að sex mánuðum ef hann sé í atvinnuleit. Í kjölfar áðurgreinds samnings frá 14. október 2003 var ákvæðum laga nr. 96/2002 breytt með lögum nr. 20, 2004 og við þau bætt ákvæði til bráðabirgða. Sagði þar m.a. að ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit myndi ekki taka gildi fyrr en 1. maí 2006.
Undanþága þessi hafi hins vegar ekki getað girt fyrir heimild ríkisborgara Póllands og annarra EES-útlendinga samkvæmt 1. mgr. 35. gr. til að dveljast og starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði án sérstaks leyfis.
Um ofangreint hafi ríkt lagaóvissa og ágreiningur sem þá hafi verið vel kunnur. Hafi sú óvissa, ásamt því sem fyrr greinir um valdmörk lögreglunnar í Árnessýslu, gefið lögreglu tilefni til að gæta sérstaks hófs í málinu og sérstaklega gagnvart stefnanda.
8. Bótaskylda stefnda.
Stefnandi byggir á því að stefndi beri bótaábyrgð á ólögmætri frelsissviptingu hans. Vísar stefnandi um bótarétt sinn til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt sé fyrir um að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju, sbr. og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er enn fremur vísað til 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. og 175. gr., enda hafi lögmæt skilyrði skort til frelsissviptingar stefnanda eða í öllu falli hafi ekki verið nægilegt tilefni til hennar. Beri stefnanda því bætur úr ríkissjóði vegna hinna ólögmætu aðgerða. Fyrir liggi að mál stefnanda vegna meints brots á lögum um atvinnuréttindi útlendinga var fellt niður og ákæra ekki gefin út. Eigi stefnandi því rétt til bóta. Verði hann hvorki sakaður um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu gagnvart sér þannig að efni séu til að lækka eða fella niður bætur. Með hliðsjón af atvikum máls verði að telja bótakröfu stefnanda í hóf stillt.
Stefnandi vísar til stuðnings kröfum sínum til 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, svo og 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Um handtöku vísast til XII. kafla, einkum 1. mgr. 97. gr. og 102. gr. Um yfirheyrslur vísar stefnandi til reglugerðar nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu, einkum 7. og 8. gr. Þá er og vísað til lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæða reglugerðar nr. 396/1997 um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, sbr. nú reglugerð nr. 1130/2006. Þá er vísað til meginreglu 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf.
Stefnandi vísar ennfremur til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 5. gr., og Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. augl. nr. 10/1979. Þá er og vísað til ákvæða laga um Evrópska efnahagssvæði nr. 2/1993 með síðari breytingum og ákvæða laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 96/2002 með síðari breytingum.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvaxtakrafa hans á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt við ákvæði laga nr. 50/1988.
Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91, 1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Í stefnu sé byggt á því að lögreglurannsókn sú, sem málið er af sprottið, hafi verið ólögmæt þar sem annað embætti hafi átt að rannsaka málið vegna umdæmaskiptingar lögreglu. Þessu mótmælir stefndi, enda sé regla sú sem stefnandi vísi til ekki án undantekninga, sbr. orðalag 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála nr. 396/1997, sem raunar hafi verið felld brott með reglugerð nr. 1130/2006. Stjórn og skipulag lögreglu og lögreglurannsókna varði innra starf og skipulag lögreglu og verði ekki eitt sér til að lögreglurannsókn verði ólögmæt að meint brot og háttsemi sé rannsakað af lögreglu í öðru umdæmi en því sem meint brot er framið í, enda skerðist réttindi sakbornings á engan hátt við það og valdi það hvorki sakar- né réttarspjöllum, hvorki fyrir sakborning né aðra. Það hvar hugsanlegt dómsmál hafi mátt höfða skiptir heldur ekki máli, en fyrir liggur að opinber mál sem höfðuð voru á grundvelli rannsóknarinnar voru höfðuð af Sýslumanninum á Selfossi og verður hvorki séð að Héraðsdómur Suðurlands né Hæstiréttur Íslands hafi haft um það athugasemdir. Sjónarmiðum stefnanda um að lögreglu hafi ekki verið heimilt að hefja rannsókn vegna þessa, eða að þetta valdi ólögmæti rannsóknar, sé vísað á bug, enda sé lögreglan stofnun á vegum ríkisvaldsins sem nái til landsins alls og sé skylt að hafa afskipti af ætluðum afbrotum og rannsaka þau í samræmi við lagaákvæði sem um það efni gilda. Auk þess sé bent á að samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli, dags. 22. mars 2005, hafi Sýslumaðurinn á Hvolsvelli verið í fullri samvinnu við lögreglu á Selfossi við rannsókn málsins.
Í stefnu sé því haldið fram að um hafi verið að ræða óheimila frelsissviptingu stefnanda. Þessu mótmæli stefndi sem röngu og ósönnuðu. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi alls ekki verið handtekinn eða sviptur frelsi sínu eins og áður var rakið. Hann hafi komið sjálfviljugur með lögreglu á lögreglustöð og hafi beðið þar eftir að gefa framburð vegna þess sem til rannsóknar var. Komi enda fram í stefnunni sjálfri að stefnandi hafi ekki verið handtekinn formlega, en ekki sé því lýst að stefnandi hafi verið handtekinn á óformlegan hátt og hafi lög ekki að geyma slíkt. Stefnandi hafi ekki verið handtekinn á lögreglustöð, en ekki hafi reynt á það að hann yfirgæfi lögreglustöðina og ekki verði ráðið af gögnum málsins að hann hafi óskað eftir því. Ekki verði fullyrt að stefnandi hefði verið handtekinn ef hann hefði látið á það reyna og verði almennt ekki byggt á slíku.
Í stefnu er því haldið fram að ekki hafi verið neitt tilefni til frelsissviptingar stefnanda. Stefndi ítreki að stefnandi hafi hvorki verið handtekinn né á annan hátt sviptur frelsi sínu. Sömu athugasemdir hafi stefndi uppi vegna þeirrar málsástæðu stefnanda að frelsissvipting stefnanda hafi verið ónauðsynleg og að hún hafi staðið lengur en efni hafi verið til. Hið sama gildi um það að frelsisskerðing hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt og að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Vegna málsástæðu stefnanda sem varðar meðalhófsreglu bendir stefndi á að stefnandi hafi verið skemur á lögreglustöð en stefnandi haldi fram. Stefnandi hafi ekki verið handtekinn. Verði hins vegar talið að stefnandi hafi verið handtekinn þá bendi stefndi á að handtakan stóð um skamman tíma, stefnandi hafi hvorki verið færður í handjárn né fangaklefa og gengið að öðru leyti eins skammt og unnt var í aðgerðum lögreglu gagnvart stefnanda. Í tengslum við málsástæður sínar um meðalhófsreglu og meint brot á henni setji stefnandi fram ákveðin atriði sem hann kveður sýna að lagaóvissa hafi ríkt um dvöl og atvinnu útlendinga á þessum tíma og vitni stefnandi m.a. til samnings um Evrópska efnahagssvæðið í því sambandi. Þessum sjónarmiðum vísi stefndi á bug. Þessi sjónarmið hafi ekki áhrif á það að rökstuddur grunur hafi verið um tiltekin brot. Lagaþrætur í sambandi við lög um útlendinga verði ekki til þess að lögreglu beri að halda að sér höndum við rannsókn slíkra mála. Um sé að ræða sjónarmið sem einkum komi til skoðunar á síðari stigum hjá ákæravaldi og eftir atvikum við dómsmeðferð slíkra mála. Hér vilji stefndi taka fram að afdrif þeirra opinberu mála sem höfðuð voru á grundvelli umræddrar lögreglurannsóknar séu óviðkomandi mati á bótaskyldu í þessu máli.
Sú staðreynd að meint brot kynni að hafa verið framið í öðru umdæmi hafi engin áhrif á meðalhófsreglu eða beitingu og skýringu hennar.
Við upphaf afskipta lögreglu hafi verið eðlilegt að rökstuddur grunur vaknaði hjá lögreglu um að brotið kynni að vera gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, sbr. m.a. 17. gr. þeirra, en ekki hafi verið ljóst á þeim tíma um dvalar- og atvinnuleyfi P, sem hafi verið klæddur til vinnu en kvaðst þó vera ferðamaður. Frásögnum þeirra hafi ekki borið saman og hafi stefnandi sagst lítið þekkja til farþegans. Á föður stefnanda hafi jafnframt fallið grunur um brot gegn téðum lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en fyrir lá að P hefði dvalið í D hjá föður stefnanda og hafi verið um það grunsemdir að hann væri þar í vinnu án tilskilinna leyfa eins og fram hafi komið í framburði annarra í málinu. Talið hafi verið mögulegt eða líklegt að stefnandi hefði verið fenginn til að aka P á annan vinnustað. Hlutdeild og tilraun til brots samkvæmt lögunum sé refsiverð, en ekki skipti máli hvort rökstuddur grunur lögreglu beindist að broti gegn tilteknu ákvæði eða hafi verið á annan hátt nákvæmlega afmarkað, en slík atriði skýrist jafnan eftir því sem á líði rannsóknina. Réttmætt hafi verið að rökstuddur grunur beindist jafnframt að stefnanda enda hafi hann ekið manni þeim sem grunsemdirnar beindust m.a. að og hafi frásögn þeirra í upphafi verið í ósamræmi.
Verði talið að stefnandi hafi verið sviptur frelsi sínu með handtöku eða á annan hátt, þá bendi stefndi á það að nauðsynlegt hafi verið vegna rannsóknarinnar að ná sem fyrst utan um rannsóknina og tryggja það að hagsmunum rannsóknarinnar yrði ekki spillt og tryggt væri að sakborningar og aðrir sem yfirheyra þyrfti gætu ekki samræmt framburð sinn. En fyrir liggi að þegar afskipti voru höfð af stefnanda þá hafi átt eftir að hafa tal af öllum öðrum sem yfirheyra þurfti vegna rannsóknarinnar. Um heimild til handtöku vísar stefndi m.a. til 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Það að stefnandi hafi ekki verið handtekinn, hvorki formlega né óformlega, leiði ekki til þess að mat lögreglu hafi verið, eða sé, að ekki væri heimilt að handtaka hann. Hafi þannig verið fullt tilefni til þess að stefnandi væri handtekinn þar sem um hafi verið að ræða rökstuddan grun um refsiverð brot og raunveruleg hætta á því að framburður yrði samræmdur og jafnvel gögnum komið undan ef ekki væri komið í veg fyrir það. Engu skipti hvort formleg kæra hafi legið fyrir við upphaf rannsóknar eða síðar, en rannsókn slíks máls og málshöfðun sé ekki háð kæru.
Fullyrðingum stefnanda um að frelsissvipting hans hafi varað of lengi sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Fyrir það fyrsta telji stefndi að stefnandi hafi alls ekki verið sviptur frelsi sínu. Verði allt að einu talið að svo hafi verið þá bendi stefndi á að tímasetningar í því sambandi séu ekki ljósar og alls ekki unnt að setja samasemmerki milli þess hvenær fyrst voru höfð afskipti af honum kl. 09:09 og þess hvenær frelsissvipting hófst og í annan stað sé ekki unnt að slá því föstu hvenær henni lauk, en ljóst sé þó að miðað við gögn málsins hafi stefnanda verið frjálst að fara kl. 13:27, en vera kunni að frelsissviptingu hafi verið lokið fyrr. Stefnandi beri sjálfur alla sönnunarbyrði um þessi atriði. Bendi stefndi á það að frá kl. 09:09 um morguninn hafi verið höfð afskipti af stefnanda og P, þeir fluttir á lögreglustöð ásamt bifreiðinni, rannsóknarlögreglumaður settur inn í málið, þrír aðrir menn handteknir, gagna aflað frá Sýslumanninum á Hvolsvelli, Lögreglunni í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Allan þann tíma sem stefnandi telur sig hafa verið handtekinn, en hafi í raun verið sjálfviljugur á lögreglustöð, hafi þannig verið unnið sleitulaust að rannsókn málsins og án tafa.
Í stefnu byggi á því að handtaka hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt. Stefndi mótmæli þessu. Hvort sem stefnandi hafi verið handtekinn eða ekki, en um það sé ágreiningur, byggir stefndi á því að öll framkoma við hann og meðferð á hans máli, frá því að afskipti lögreglu hófust og þar til þeim lauk, hafi verið lögum samkvæm. Í stefnu komi ekki annað fram um þetta en að stefnandi hafi verið á lögreglustöð og í návist lögreglumanns, ásamt því að varðstjóri hafi farið offari og sýnt honum ruddaskap, án þess að því sé nánar lýst. Því sé mótmælt að það að bíða á skrifstofu lögreglu í návist lögreglumanns sé móðgandi og særandi, hvort sem maður sé handtekinn eða ekki. Sé maður handtekinn þá sé það vægasta leið sem unnt sé að fara til að gæta handtekins manns. Hafi stefnandi ekki verið handtekinn, eða sviptur frelsinu sínu á annan hátt, þá eigi ákvæði b liðar 176 gr. laga um meðferð opinberra mála um óþarflega særandi og móðgandi aðferð, ekki við. Þá sé það alls ósannað og rangt að stefnanda hafi verið sýndur ruddaskapur og farið offari gagnvart honum.
Bótaskilyrði 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála séu ekki uppfyllt í máli stefnanda og ekki sé af hans hálfu vísað til annarra efnisreglna, s.s. ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993.
Verði stefndi allt að einu dæmdur bótaskyldur í málinu þá telur stefndi þó að fjárhæð bótakröfu sé fjarri öllu lagi. Dæmdar bætur vegna handtöku og annarrar frelsissviptingar hafi verið mun lægri en kröfur stefnanda í þessu máli og sé dómkrafan einnig óraunhæf að þessu leyti. Sé þannig inn í sýknukröfu stefnda byggð krafa um stórkostlega lækkun á stefnukröfum ef fallist verði á bótaskyldu, en í því falli telur stefndi eðlilegt að málskostnaður falli niður.
Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt með vísun til niðurlagsákvæðis 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi byggir bótakröfu sína á 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt er fyrir um að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Til stuðnings bótakröfu sinni vísar stefnandi enn fremur til 176. gr. laga nr. 19/1991 þar sem segir m.a. að dæma megi bætur vegna handtöku ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Stefnandi virðist byggja málatilbúnað sinn á því að hann hafi verið sviptur frelsi án þess þó að hafa verið handtekinn eða vistaður í fangageymslu.
Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði verið að koma úr bænum þegar lögregla stöðvaði hann. Hann hafi verið að fara með pakka á Flúðir. Hann hafi verið stöðvaður af lögreglu fyrir of hraðan akstur og með útrunnið ökuskírteini og í kjölfar þess hafi hann verið færður yfir í lögreglubíl. Þar hafi verið byrjað á því að spyrja hann út í hraðaaksturinn og ökuskírteinið. Að því loknu hafi hann verið spurður hvort farþeginn, sem hann var með í bílnum hjá sér, og faðir hans hafði beðið hann um að taka með sér úr bænum, hefði leyfi til þess að keyra. Hann hafi ekki vitað hvort svo væri og hafi lögreglan þá farið og athugað það og í kjölfar þess hafi einhver samskipti farið í gang hjá þeim gegnum talstöðvar og síma. Stefnandi kveðst hafa verið í bíl lögreglunnar og hafi litið svo á að honum væri ekki heimilt að fara þaðan. Í kjölfar þessa hafi honum verið tilkynnt að annað hvort yrði hann handtekinn eða hann gæti farið með lögreglunni af fúsum og frjálsum vilja á lögreglustöðina. Hann hafi ekki talið sig eiga aðra kosti í stöðunni en fara bara af fúsum og frjálsum vilja og hafi því farið með þeim á lögreglustöðina.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu um atburðinn er skráð að stefnandi og farþegi hans hafi komið sjálfviljugir með á lögreglustöðina. Samkvæmt framburði lögreglumanna sem stöðvuðu stefnanda var hann ekki handtekinn og ekki kynnt sú staða. Báru þeir að stefnandi hefði verið spurður hvort hann vildi koma með þeim þar sem enginn væri til að aka bifreiðinni og jafnframt til að kanna mál farþegans betur. Stefnandi hafi komið með af fúsum og frjálsum vilja. Í samráði við Jón Gunnar Þórhallsson varðstjóra á lögreglustöðinni hafi verið gengið frá því að stefnandi gæti gefið skýrslu þá þegar við komu á stöð eða hann gæti beðið þess að vera boðaður í skýrslutöku út af málinu ef til þess kæmi. Hafi aldrei komið til þess að stefnanda væri meinað að fara ferða sinna.
Jón Gunnar Þórhallsson, varðstjóri á Selfossi, bar fyrir dómi að hann hefði rætt við stefnanda á lögreglustöðinni. Bar hann að aldrei hefði komið til greina að handtaka stefnanda. Stefnandi hafi ekki verið færður í fangaklefa. Hann hafi komið og rætt við sig í herbergi sem sé samhliða inngangi. Svo hafi hann bara beðið frammi í anddyri lögreglustöðvarinnar. Honum hafi aldrei verið meinuð för og aldrei haldið þarna nauðugum. Minntist Jón Gunnar þess ekki að stefnandi hefði óskað eftir því að fara.
Stefnandi lýsti dvöl sinni á lögreglustöðinni á Selfossi þannig að þegar hann var kominn þangað hafi hann verið beðinn að fara inn í herbergi. Stuttu síðar hafi Jón Gunnar komið og byrjað að spyrja hann ýmissa spurninga varðandi einhverja menn sem voru í D, þar sem hann átti heima, og manninn sem var í bílnum hjá honum. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um hann enda hefði hann bara verið að koma þangað í páskafrí og hefði verið að aðstoða föður sinn. Síðan hafi hann verið beðinn að bíða á aflokaðri skrifstofu sem þarna var. Fyrir utan hana hafi ávallt verið lögregluþjónn. Hafi hann talið að honum væri ekki frjálst að fara þaðan. Einu sinni hafi hann spurt hvort hann mætti fara á klósettið. Það hafi verið annars staðar í húsinu. Honum hafi verið fylgt þangað og aftur inn í herbergið eftir að hafa fengið að fara á klósettið. Síðan hafi verið skipt um vakt. Lögreglumennirnir hafi verið fyrir utan skrifstofuna. Það hafi verið opið inn og hafi þeir fylgst með honum þar inni. Kveðst hann hafa beðið þar í töluverðan tímaí, í allt að 3-4 tíma, að yfirheyrslunni meðtalinni. Síðan hafi hann loks verið færður í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni sem tekið hafi af honum skriflega skýrslu. Það hafi sennilega verið um klukkan hálf tvö til tvö. Síðan hafi honum verið hleypt úr haldi og þá hafi hann hitt föður sinn, um þrjúleytið, og hafi farið með honum út í bíl. Eftir þetta hafi hann í rauninni bara verið að bíða eftir að faðir sinn yrði leystur úr haldi á Selfossi. Eftir að hann var leystur úr haldi hafi þeir ekki leyft honum að fá síma sem þeir höfðu tekið af honum. Hann hafi komið um það bil hálftíma síðar og þá hafi hann fengið símann.
Samkvæmt framburði Odds Árnasonar yfirlögreglumanns á Selfossi kom það aldrei til að stefnandi yrði handtekinn.
Elís Kjartansson lögreglufulltrúi, tilgreindur rannsóknarlögreglumaður í lögregluskýrslu, tók skýrslu af stefnanda. Liggur skýrslan frammi í málinu. Var stefnandi yfirheyrður um brot sitt samkvæmt umferðarlögum og jafnframt spurður út í samskipti sín við Pólverjann sem var farþegi í bíl hans. Hvergi er þess getið í skýrslunni að stefnandi hafi verið handtekinn.
Spurður um það hvað stefnandi hefði verið að gera á lögreglustöðinni bar Elís að hann hefði komið á stöðina og beðið eftir að tekin væri af honum skýrsla. Í framburði hans kom fram að menn væru aldrei skildir eftir einir á skrifstofum lögreglunnar án eftirlits, hvort sem um vitni í umferðarslysamáli væri að ræða eða kæranda. Borgarar fái ekki að valsa um skrifstofur lögreglunnar án eftirlits.
Í framburði stefnanda kemur hvergi fram að lögregla hafi gert honum grein fyrir því að hann væri handtekinn. Ósannað er að lögregla á vettvangi hafi hótað honum með því að annað hvort yrði hann handtekinn eða hann gæti farið með lögreglunni af fúsum og frjálsum vilja á lögreglustöðina. Hefur ekkert það komið fram í gögnum máls eða skýrslum fyrir dómi sem styður þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi í umrætt sinn verið svipur frelsi eða haldið nauðugum á lögreglustöðinni á Selfossi. Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu verður ekki annað ráðið en stefnandi hefði getað yfirgefið lögregluna bæði á vettvangi, þegar hann var stöðvaður fyrir hraðaakstur, og á lögreglustöðinni á Selfossi hefði hann óskað þess. Hins vegar liggur ekki fyrir að stefnandi hafi óskað að fara í burtu og reyndi því aldrei á það.
Fyrir liggur að samvinna var milli lögreglunnar á Hvolsvelli og lögreglunnar á Selfossi um rannsókn á máli P og fleiri útlendinga vegna meintra brota á lögum um útlendinga. Hefur ekki verið sýnt fram á að ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996 eða ákvæði reglugerðar nr. 396/1997 um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála geti haft nein áhrif á niðurstöðu í máli þessu.
Hefur stefnandi ekki getað sýnt fram á að fullyrðing hans um að hann hafi verið sviptur frelsi eigi við rök að styðjast. Er ekki í málinu sýnt fram á bótaskyldu stefnda, hvorki samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar né samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 varðandi meint atvik og ber því að sýkna stefnda af kröfum hans í málinu.
Eftir atvikum og með hliðsjón af gjafsókn stefnanda í málinu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Jónssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.