Hæstiréttur íslands
Mál nr. 651/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
|
Fimmtudaginn 16. desember 2010. |
|
|
Nr. 651/2010. |
A (Guðmundur Ágústsson hrl.) gegn Héraðsdómi Reykjaness (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar þar sem beiðni A samræmdist ekki 2. mgr. 7. gr., sbr. 3. tölulið 34. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir Hæstarétti leitaðist A við að bæta úr ýmsu því sem óljóst var talið við meðferð málsins í héraði en eigi að síður þótti hann ekki hafa uppfyllt nægilega skilyrði 3. töluliðar 34. gr. laga nr. 21/1991. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann málskostnaðar vegna meðferðar málsins í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var niðurstaða héraðsdóms sú að beiðni sóknaraðila samræmdist ekki 2. mgr. 7. gr., sbr. 3. tölulið 34. gr. laga nr. 21/1991 og yrði því að hafna kröfu hans samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 38. gr. laganna. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili leitast við að bæta úr ýmsu því sem óljóst var talið við meðferð málsins í héraði. Eigi að síður verður að telja að sóknaraðili hafi ekki uppfyllt nægilega skilyrði 3. töluliðar 34. gr. laga nr. 21/1991 og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Það athugast að beiðni sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjaness 26. mars 2010 en málið var á hinn bóginn ekki tekið fyrir fyrr en 2. nóvember 2010. Sá dráttur hefur ekki verið skýrður og er hann aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2010.
A, kt. [...], [...], 201 Kópavogi, hefur farið þess á leit með vísan til ákvæða X. kafla a 3. þáttar laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, að honum verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína. Beiðni skuldara er dagsett 23. mars 2010 og móttekin hjá Héraðsdómi Reykjaness 26. mars sl. Beiðnin er reist á því að skuldari sé um fyrirséða framtíð ófær um að standa við skuldbindingar sínar.
Í beiðni skuldara kemur fram að hann búi að [...], í Kópavogi ásamt eiginkonu og tveimur sonum, 13 og 16 ára. Skuldari hafi starfað undanfarin ár sem húsasmiður en við hrunið hafi hann misst starf sitt og í ljósi aðstæðna á byggingarmarkaðnum sé ólíklegt að hagur hans muni batna í bráð umfram það sem nú sé. Kveður skuldari að ástæða skulda hans sé að hluta uppsafnaður vandi síðustu ára. Fram til ársins 2003 hafi hann stundað atvinnurekstur í eigin kennitölu sem húsasmiður. Það ár hefði skuldari fengið hjartaáfall og í kjölfar þess hafi atvik háttað þannig til að til varð tollaskuld vegna innflutnings og meðlagsgreiðslur hafi orðið alvarlega eftirá. Innheimta útistandandi krafna hans hefðu tafist og aukið enn á vandann. Niðurstaða dómsmála sem hann hefði höfðað hefði legið fyrir á árinu 2007 og hefðu kröfur hans þá að fjárhæð rúmlega fimmtán milljónir verið fyrndar. Til þess að freista þess að gera að hluta til upp við lánadrottna hefði skuldari tekið á árinu 2007 lífeyrissjóðslán hjá Sameinaða Lífeyrissjóðnum með lánsveði í fasteign eiginkonu sinnar B að fjárhæð 8.000.000 króna. Hafi þetta verið neyðarráðstöfun til þess að forða skuldara frá gjaldþrota og koma til móts við lánadrottna. Skuldari kveðst hafa hætt sjálfstæðri atvinnustarfsemi seint á árinu 2003 og hafi síðan verið launamaður en misst vinnu sína við hrun bankakerfisins. Skuldari hafi verið atvinnulaus frá bankahruninu og einnig notað upp það sparifé sem hann hafði eignast. Skuldari segir fasteignina vera séreign eiginkonu sinnar en ekki sé ætlast til að eiginkonan greiði skuldir skuldara. Skuldari kveður heildartekjur þeirra hjóna vera 342.828 krónur en rekstrarkostnað fjölskyldunnar á mánuði vera 424.932 krónur. Greiðslustaða skuldara sé því neikvæð um 82.104 krónur á mánuði. Samningskröfur hans séu 24.247.888 krónur sem séu að stórum hluta til komnar vegna veikinda hans og hruns efnahagskerfisins.
Forsendur og niðurstaða:
Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Mál þetta barst upphaflega dóminum þann 26. mars sl. Þann 2. nóvember sl. mætti skuldari fyrir dóminn samkvæmt boðun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Upplýsti hann að hann hefði notið aðstoðar lögfræðings við gerð beiðninnar og fyrir lægju allar upplýsingar og gögn, sem máli skiptu fyrir beiðni hans.
Beiðni sem berst dómstól um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skal vera svo úr garði gerð sem greinir í 7. gr., 1., 3. og 4. tölulið 34. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrot o.fl., sbr. 1. mgr. 63. gr. c sömu laga, sbr. lög nr. 24/2009. Að þessum áskilnaði er meðal annars vikið í dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. mars sl. Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991 segir að ef beiðni stafi frá skuldaranum sjálfum skuli koma fram, auk þess sem tilgreint er í 1. mgr., sundurliðaðar upplýsingar um eignir hans og skuldir. Þá segir í 4. mgr. að gögn sem beiðni er studd við skuli fylgja beiðni. Í 1. mgr. 34. gr. segir að auk þess sem segi í 7. gr. laganna skuli koma fram í beiðni, eða greinargerð með henni, ástæður þess að skuldari leitar nauðasamnings, þar sem sérstaklega skuli greint frá því hvað hafi valdið skuldastöðu hans, hvers vegna hann geti ekki staðið að fullu skil á skuldum sínum, á hvaða forsendum samningsboð hans hafi verið ákveðið og hvernig hann rökstyðji að hann muni geta staðið við það. Þá skuli koma fram nákvæm talning eigna skuldara ásamt áætluðu verðmæti hverrar þeirra og nákvæm talning skulda hans ásamt fjárhæð hverrar þeirra á þeim tíma sem beiðnin er gerð. Þá skal koma fram hvort einhverjar ráðstafanir hafi átt sér stað sem kynnu að vera riftanlegar ef nauðasamningur kemst á. Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 38. gr. laganna skal héraðsdómari synja um heimild til að leita nauðasamnings ef beiðni skuldara er áfátt, fylgigögn vantar með henni eða annmarkar eru á þeim. Samkvæmt 1. tölulið 63. gr. d laganna hafnar dómari einnig beiðni ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara.
Í beiðni skuldara er aðallega fjallað um tildrög fjárhagserfiðleika hans. Í greiðsluáætlun sem fylgdi beiðni skuldara kemur fram að hann skuldi Innheimtustofnun Sveitarfélaga 3.590.307 krónur, Ríkissjóði 11.520.433 krónur og Sameinaða Lífeyrissjóðnum 9.137.148 krónur. Í beiðni skuldara er ekki vikið að neinum þessum kröfum eins og áskilið er í 2. mgr. 7. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 34. gr., laga nr. 21/1991 né fylgja gögn með beiðninni sem styðja upptaldar kröfur í greiðsluáætlun nema að litlu leyti. Þá er að finna á skattframtali skuldara fyrir árið 2010 upptaldar skuldir við Arion banka, samtals að fjárhæð 36.391.125 krónur. Að þessum skuldum er ekki vikið í beiðni skuldara. Þá eru skuldir við BYR, Borgun ehf. og fleiri skuldir taldar upp undir liðnum „aðrar skuldir og vaxtagjöld“ í skattframtalinu, samtals að fjárhæð 19.622.285. Engar skýringar eru í beiðni skuldara á þessum skuldum, hvorki fjárhæð, tilurð eða hverjum þær tilheyri utan skuldar við Sameinaða lífeyrissjóðinn. Þá kemur fram í skattframtalinu hlutabréfaeign, kaup og sala í fyrirtækjunum C, D, E og F, en þeirra að engu getið í beiðni skuldara. Að lokum eru upptaldar inneignir samtals að fjárhæð 1.062.705 í skattframtalinu en þeirra ekki getið í beiðni utan að skuldari kveðst hafa gengið á sparifé sitt eftir hrun. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 skal dómari hafna beiðni skuldara sé beiðni áfátt, fylgigögn vanti með henni eða annmarkar séu á þeim o.fl. Er beiðni skuldara svo áfátt að ekki verður bætt úr undir rekstri málsins. Ber því að hafna kröfunni.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.