Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010 |
|
Nr. 93/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn X(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) (Dögg Pálsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var gefið að sök að hafa í starfi sem umsjónarmaður á meðferðarstöð sett fingur í leggöng A þegar hann var að sinna henni og meðal annars gefið henni slævandi lyf gegn fráhvarfseinkennum eftir fíkniefnaneyslu, en A sem hafi komið til vímuefnameðferðar daginn áður, eftir að hafa skömmu áður sprautað sig með vímuefni, hafi ekki getað spornað við þessu vegna lyfjaáhrifa sem hún hafi verið undir. Í ákæru var þessi háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 194. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga. X gekkst við þessum sakargiftum að því frátöldu að hann andmælti því að A hafi ekki getað spornað við verknaði hans vegna lyfjaáhrifa, en af þeim sökum taldi hann háttsemina eingöngu varða við síðarnefnda lagaákvæðið. Í málinu var talið ósannað að X hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, enda sakargiftir á hendur honum að þessu leyti ekki studdar við matsgerð dómkvadds manns eða önnur sérfræðileg gögn. Við aðalmeðferð málsins í héraði var sú varakrafa gerð af hálfu ákæruvaldsins að háttsemi X yrði talin varða við 1. mgr. 194. gr. fyrrgreindra laga, ef ekki yrðu skilyrði til að fella hana undir ákvæði 2. mgr. sömu greinar. Með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var talið að ekki væru fyrir hendi skilyrði til að fjalla frekar um þessa varakröfu að efni til. X var sakfelldur fyrir brot gegn 197. gr. almennra hegningarlaga og refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, þar af 6 mánuðir skilorðsbundnir. Þá var X dæmdur til að greiða A 250.000 krónur í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2010 af hálfu ákæruvaldsins og krefst aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, en til vara fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Í báðum tilvikum er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 25. september 2009 í starfi sem umsjónarmaður á meðferðarstöðinni F sett fingur í leggöng A þegar hann hafi verið að sinna henni og meðal annars gefið henni slævandi lyf gegn fráhvarfseinkennum eftir fíkniefnaneyslu, en A, sem hafi komið til vímuefnameðferðar í F 24. sama mánaðar eftir að hafa skömmu áður sprautað sig með vímuefni, hafi ekki getað spornað við þessu vegna lyfjaáhrifa, sem hún hafi verið undir. Í ákæru var þessi háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 194. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur gengist við þessum sakargiftum að því frátöldu að hann andmælir því að A hafi ekki getað spornað við verknaði hans vegna lyfjaáhrifa, en af þeim sökum varði háttsemi hans eingöngu við síðarnefnda lagaákvæðið.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi bar ákærða og A ekki saman í skýrslum fyrir dómi um hvernig hún hafi verið á sig komin þegar framangreind atvik gerðust með tilliti til þess hvort henni hefði verið fært að aftra því að hann bryti gegn henni. Fyrir héraðsdómi gaf skýrslu læknir, sem veitt hefur þjónustu við meðferðarstöðina F, og lét í ljós álit á því hvaða áhrif lyf, sem A hafi fengið eftir komuna þangað, gætu hafa haft á færni hennar í þessu sambandi, eftir atvikum með tilliti til undangenginnar neyslu hennar á vímuefnum. Hvorki mun þessi læknir né aðrir hafa skoðað hana þar á staðnum, en að virtum framburði hans var í hinum áfrýjaða dómi talinn vera fyrir hendi skynsamlegur vafi á því að henni hafi verið ófært að sporna við háttsemi ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins hafa sakargiftir á hendur ákærða ekki verið studdar að þessu leyti við matsgerð dómkvadds manns eða önnur sérfræðileg gögn. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að ósannað sé að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu ákæruvaldsins var við aðalmeðferð málsins í héraði gerð sú varakrafa að háttsemi ákærða yrði talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga ef ekki yrði fallist á að skilyrði væru til að færa hana undir ákvæði 2. mgr. sömu lagagreinar, enda hafi ákærði beitt ólögmætri nauðung til hafa önnur kynferðismök en samræði við A. Um þetta verður að gæta að því að verknaði ákærða er ekki lýst á þann hátt í ákæru að fundin verði þar stoð fyrir sakargiftum um að hann hafi beitt ólögmætri nauðung í háttsemi sinni gagnvart konunni og brestur því skilyrði samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fjalla frekar um þessa varakröfu ákæruvaldsins að efni til.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella ákærða fyrir brot gegn 197. gr. almennra hegningarlaga. Að virtu því, sem þar greinir varðandi ákvörðun refsingar á hendur ákærða, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en rétt er að binda hana að hluta skilorði á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Í málinu hafa engin sérfræðileg gögn verið lögð fram um hverjar afleiðingar brot ákærða hafi haft á A. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um skaðabætur henni til handa.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Rétt er að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af þeirri refsingu og sá hluti hennar falla niður að liðnum fimm árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 15. þ.m., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 29. október 2009 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 25. september 2009 í starfi sínu sem umsjónarmaður á meðferðarstöðinni í [...], [...], sett fingur í leggöng A er hann var að sinna konunni og gaf henni meðal annars slævandi lyf gegn fráhvarfseinkennum fíkniefnaneyslu, en A, sem kom í vímuefnameðferð í [...] 24. september og hafði sprautað sig með vímuefnum skömmu fyrir komuna, gat ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum lyfjaáhrifa sem hún var undir.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. september 2009 til 7. nóvember 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst vægustu fangelsisrefsingar sem lög framast leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Ákærði samþykkir bótaskyldu en mótmælir bótakröfunni sem of hárri.
I.
Áður en aðalmeðferð málsins hófst játaði ákærði að vera sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæruskjali að öðru leyti en því að hann fellst ekki á þá lýsingu sem þar er, sem segir að brotaþoli hafi ekki getað spornað við kynferðisbrotinu sökum lyfjaáhrifa sem hún var undir. Telur verjandi hans að brotið eigi að heimfærast undir 197. gr. almennra hegningarlaga eingöngu en ekki 2. mgr. 194. mgr. eins og ráð er fyrir gert í ákæruskjali.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa starfað í [...] m.a. við móttöku vistmanna og hafi hann verið svokallaður umsjónarmaður og hafi starfið m.a. falist í því að gefa vistmönnum lyf samkvæmt fyrirfram gerðum áætlunum. Kvaðst hann hafa tekið á móti brotaþola og gefið henni lyf sem hann þurfi að skammta miðað við almennar leiðbeiningar sem hann hafði en kæmi til stærri skammta sé það ekki gert án samráðs við lækni. Um verkun lyfjanna sem hann gaf brotaþola sé honum ljóst að þau séu öll róandi og minnki fráhvarfseinkenni. Sagði ákærði að brotaþoli hafi sagt henni að hún hefði fengið sér skot um morguninn áður en hún kom í [...] en skot þýði að hún hafi sprautað sig. Brotaþoli innritaðist milli eitt og þrjú þann 24. september og hafi hann tekið af henni almenna skýrslu um heilsufar og mælt blóðþrýsting. Hafi hann séð hana liggja sofandi inni hjá sér í gallabuxum og hafi hann bent henni á að fara í þægilegri buxur sem hún gerði. Hafði brotaþoli orð á því að henni væri illt í maganum og hafi hann þá strokið henni um magann smá stund og alveg niður á lífbein og spurt hana hvort hún væri snertiaum sem hún kvaðst vera. Hann hafi spurt hana hvort hún vildi fá eitthvað að borða sem hún hafi ekki viljað. Brotaþoli hafi ekki komið í matsalinn um kvöldið og henni því verið færður matur. Hann hafi síðan gefið henni lyf um kl. 10.30 um kvöldið. Hann hafi síðan litið inn til hennar um kl. þrjú um nóttina og þá hafi hann enn strokið henni um magann og farið með fingur niður á lífbein og síðan sett fingur inn í leggöng hennar í örfáár sekúndur en hætt þegar hún sneri sér á hliðina. Ákærði kannast ekki við að brotaþoli hafi sagt honum að hætta. Hann hafi neitað því um morguninn að hafa brotið gegn A um nóttina, er það var borið á hann, en síðan haft samband við B, forstöðukonu, og sagt allan sannleikann vegna þess að hafi ekki getað haft þetta á samviskunni. Kvaðst ákærði hafa unnið í tvö ár í [...] þegar þetta átti sér stað. Lýsti ákærði ástandi brotaþola þannig að hún hafi verið syfjuð þegar atvikið átti sér stað en það hafi ekki haft nein áhrif á gerðir hans. Hann getur engar skýringar gefið á framkomu sinni en dettur helst í hug að um geti verið að ræða afleiðingar kynferðislegs ofbeldis sem hann sjálfur varð fyrir allt frá þriggja ára til sextán ára aldurs, fyrst af föðurbróður sínum og síðan er hann var ellefu ára var hann misnotaður af manni sem hann nafngreindi sem síðar var dæmdur fyrir misnotkun á drengjum. Sagðist ákærði strax hafa sagt konu sinni frá því sem gerðist og reynt að hafa samband við brotaþolann. Kvaðst hann ekki hafa fundið til neinnar kynferðislegrar örvunar við atvikið og hann viti ekki hvað honum gekk til.
Í vitnisburði brotaþola A kom fram að þegar hún kom í [...] umræddan dag hafi hún verið búin að vera lengi á biðlista. Hún hafi verið búin að reyna að draga úr fíkniefnaneyslu en hafði þó sprautað sig með morfíni fyrr um morguninn. Kvað hún ákærða hafa lýst ánægju sinni með að hún væri kominn en hún hafði einu sinni komið heim til hans með kunningja sínum. Ákærði hafi gefið henni lyf og vísað henni til herbergis og hélt hún að hún hefði sofnað. Ákærði hafi síðan komið til hennar aftur og gefið henni meiri lyf og spurt hana hvort hún vildi ekki fara úr gallabuxunum sem hún var í og hafi hann hjálpað henni að fara í íþróttabuxur. Ákærði hafi sest á rúmstokkinn og farið að strjúka á henni magann. Seinna þegar allt var orðið kyrrt í húsinu kom hann inn aftur og þegar hún áttaði sig þá var ákærði kominn með fingur inn í leggöng hennar. Kvaðst hún hafa sagt honum að hætta og þá hafi hann fljótlega hætt og farið fram. Fannst henni andardráttur ákærða verða hraðari en venjulega þegar atvikið átti sér stað en hún hafi bara legið kyrr og sofnað fljótlega aftur. Um morguninn hafi hún pakkað öllu saman í skyndi og ætlað að fara. Kvaðst hún hafa sagt B, forstöðukonu, hvað kom fyrir en B hafi ekki spurt ákærða sem var viðstaddur hvort hann hafi gert henni það sem hún hafi sagt henni. Sagði A að atburðurinn hafi verið mikið áfall fyrir hana. Sagði A aðspurð að morfínið sem hún tók um morguninn hafi haft róandi áhrif á hana en hún hafi tekið það til þess að verða ekki veik. Sagði A að hún hafi haft þá tilfinningu að hún gæti ekki hreyft sig þegar atvikið átti sér stað en hún hafi getað sagt honum að hætta.
Vitnið B sagði að ákærði hafi verið umsjónarmaður í [...] og séð um lyfjagjafir eftir fyrirmælum læknis þegar þurfti að trappa niður fólk sem kom inn á stofnunina í meðferð. Sagði B að vel sé fylgst með lyfjagjöf. Hún hafi farið yfir þá lyfjagjöf í samráði við lækni sem brotaþoli fékk er hún kom í [...] og hafi þau verið sammála um að þessi lyf séu bara róandi en ekki slævandi og ýti undir að fólk geti sofið og slái á ranghugmyndir. Sagði vitnið að A hafi við komu verið illa á sig komin og látið mikið á sjá frá því að hún var síðast hjá þeim í [...] og haft miklar magakvalir. Næsta morgun hafi hún sagt vitninu hvað hafði gerst um nóttina.
Vitnið C læknir sem hefur leiðbeint um og haft eftirlit með lyfjagjöf í [...] sagði aðspurður um verkun þeirra lyfja sem brotaþola voru gefin umræddan dag að afar hæpið væri að álykta að þau gætu haft einhverskonar lömunaráhrif í för með sér. Vissulega geti brotaþoli orðið töluvert sljó eftir að hafa fengið lyfin en hæpið sé að álykta að hún hafi ekki getað hreyft sig. Sagði vitnið að sú lyfjagjöf sem um ræðir geti verið innan þess ramma sem leiðbeiningar gerðu ráð fyrir.
Vitnið D hefur haft brotaþola til meðferðar sem geðlæknir og sagði hann að hún ætti við mörg og erfið vandamál að stríða og hafi lengi verið í neyslu hinna ýmsu fíkniefna. Sagði hann að hún hafi oft farið í meðferð m.a. á geðdeild. Taldi vitnið að þessar meðferðir hafi eins og hann orðaði það haldið í henni lífinu. Sagði vitnið að brotaþoli hafi sagt sér frá umræddu atviki en ekki rætt það neitt nánar hvernig það hafi borið að eða hvers vegna þetta hafi gerst.
II.
Dómari er þeirrar skoðunar að bókun saksóknara, við upphaf munnlegs málflutnings og eftir að skýrslutökum var lokið, þess efnis að til vara væri gerð krafa um að brot ákærða yrði heimfært til 1. mgr. 194. almennra hegningarlaga yrði ekki fallist á heimfærslu til 2. mgr. þeirrar greinar auk þess að brot hans ætti undir 197. gr. almennra hegningarlaga, komi ekki til skoðunar við mat á sekt ákærða hvað varðar heimfærslu til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Telur dómari að hendur hans séu bundnar af ákvæðum 180. gr. laga nr. 88/2008 enda væri þá verið að dæma ákærða fyrir aðra hegðun en í ákæru greinir. Samkvæmt lýsingu í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa sett fingur í leggöng brotaþola er hann var að sinna henni og gefið henni meðal annars slævandi lyf sem hafi að því er best verður séð valdið því að hún gat ekki spornað við kynferðisbrotinu vegna lyfjaáhrifa sem hún var undir. Ekki er lýst í ákæru þeirri ólögmætu nauðung sem hann hafi gerst sekur um og réttlætt gæti heimfærslu brots ákærða undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Í því sambandi skipti engu hvort sú verknaðaraðferð sem lýst er sem ólögmætri nauðung í 1. mgr. 194. gr. verði ekki talin eins alvarleg og sú sem lýst er í 2. mgr.
Við mat á því hvort ákærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er fyrst til þess að líta að ákærða og brotaþola ber ekki saman um það hvort brotaþoli hafi ekki getað spornað við kynferðisbrotinu. Sagði brotaþoli að þegar hún hafi áttað sig þá hafi ákærði verið kominn með fingur inn í leggöng hennar en áður hafi hann strokið á henni magann. Kvaðst hún hafa sagt honum að hætta og þá hafi hann fljótlega hætt og farið fram. Ákærði kvaðst hafa litið inn til hennar um kl. þrjú um nóttina og þá hafi hann enn strokið henni um magann og farið með fingur niður á lífbeinn og síðan sett fingur inn í leggöng hennar í örfáár sekúndur en hætt þegar hún sneri sér á hliðina. Ákærði kannaðist ekki við að brotaþoli hafi sagt honum að hætta. Ákærði gat ekki gefið neinar haldbærar skýringar á framferði sínu. Við mat á ástandi brotaþola þegar atvikið átti sér stað er ekki við annað að styðjast að þessu slepptu en þá ástandslýsingu sem áður er rakin er hún kom í [...] en þá kvaðst brotaþoli hafa sprautað sig með morfíni fyrr um daginn. Síðan voru henni gefin lyf til þess að bregðast við fráhvarfseinkennum undanfarinnar fíkniefnaneyslu. Í framburði C læknis sem hefur leiðbeint um og haft eftirlit með lyfjagjöf í [...] kom fram um verkun þeirra lyfja sem brotaþola voru gefin umræddan dag að hann teldi afar hæpið að álykta að þau gætu haft einhverskonar lömunaráhrif í för með sér. Vissulega gæti brotaþoli hafa orðið töluvert sljó eftir að hafa fengið lyfin en hæpið sé að álykta að hún hafi ekki getað hreyft sig. Sagði vitnið að sú lyfjagjöf sem um ræðir sé innan þess ramma sem leiðbeiningar gerðu ráð fyrir. Samkvæmt þessu þykir skynsamlegur vafi leika á því að svo hafi verið svo komið fyrir brotaþola að hún hafi ekki getað spornað við brotinu vegna lyfjaáhrifa og því verði að sýkna ákærða af því að hafa með háttsemi sinni brotið gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur játning ákærða að öðru leyti á þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru og fallist er á að beri að heimfæra undir 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samrýmist játning ákærða gögnum málsins.
Viðurlög og skaðabætur.
Ákærði er samkvæmt framangreindu sakfelldur fyrir brot gegn 197. gr. almennra hegningarlaga. Enginn vafi leikur á því að [...] er stofnun þeirrar gerðar sem á undir greinina og að ákærði var umsjónarmaður þar. Brot ákærða fólst í því að hann setti fingur inn í leggöng vistmanns sem honum var sem umsjónarmanni trúað fyrir. Af framburðum ákærða og brotaþola lét ákærði af hátterni sínu eftir örstutta stund.
Ákærði er fæddur 1961. Samkvæmt framlögðu sakarvottorði á hann ekki að baki neinn sakaferil sem hér skiptir máli enda aðeins um að ræða tvær sektir fyrir brot gegn umferðarlögum á árunum 2001 og 2002.
Ákærði hefur játað brot sitt af hreinskilni og sýnt mikla iðrun. Hann hefur ekki getað skýrt refsiverða framkomu sína með öðru en frásögn um kynferðislega misnotkun í æsku um árabil, fyrst af nákomnum og síðar öðrum og ranghugmyndum sem hann hafi fengið af þeirri lífsreynslu. Í dóminum var lögð fram greinargerð E, guðfræðings sem er jafnframt með meistarapróf í fíknifræðum frá háskóla í Minnesota sem styður frásögn ákærða, en þar segir að hann hafi leitað til hennar allt frá árinu 2003 vegna fíkniefnavanda og afleiðinga af kynferðislegri misnotkun frá barnæsku. Hefur sækjandi lýst því yfir að vottorð þetta sé ekki vefengt á neinn hátt. Þó að ekki sé tilefni til þess að líta á framansagt sem málsbætur gefur þetta dómara fremur en ekki tilefni til þess að skilorðsbinda refsingu ákærða.
Fram hjá því verður ekki litið að brot ákærða er alvarlegt og að með því brýtur hann trúnað sem honum var treyst fyrir og brotaþoli mátti reiða sig á að hann gætti. Refsing ákærða þykir að öllu virtu hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi, en rétt þykir að skilorðsbinda 3 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti skuli niður falla að liðnum 5 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
A hefur krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 úr hendi ákærða auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. september 2009 til 7. nóvember 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Er krafan grundvölluð á 26. laga nr. 50/1993, sbr. 172. gr. laga nr. 88/2008. Er einkum á því byggt brotaþoli hafi verið fórnarlamb alvarlegs brots ákærða og afleiðingum þess sem hafi valdið henni mikilli vanlíðan. Ákærði hefur samþykkt bótaskyldu en mótmælt bótakröfunni sem of hárri. Þegar allt framangreint er virt og með hliðsjón af málsúrslitum eru bætur til brotaþola ákveðnar 250.000 krónur sem ákærði er dæmdur til að greiða með vöxtum eins og segir í dómsorði.
Sakarkostnaður.
Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 þykir dómara rétt að ákærði greiði ¼ hluta sakarkostnaðar sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns sem nema alls 251.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, alls 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda 3 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar skuli niður falla að liðnum 5 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 250.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. september 2009 til 7. nóvember 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði ¼ hluta sakarkostnaðar sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns sem nema alls 251.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, alls 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti en ¾ hlutar greiðast úr ríkissjóði.