Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Þriðjudaginn 9. maí 2006. |
|
Nr. 231/2006. |
Ákæruvaldið(Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Ekki var fallist á kröfu X um að dómari opinbers máls viki sæti á grundvelli 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, af þeim ástæðum að hann hefði í dómi í öðru máli lagt mat á trúverðugleika X sem vitnis.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2006, sem barst réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2006 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Arngrímur Ísberg héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila og tveimur öðrum mönnum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að dómarinn víki sæti í málinu.
Sóknaraðili hefur sent Hæstarétti athugasemdir sínar, en gerir ekki kröfu í málinu.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2006.
Með ákæru 31. mars sl. höfðaði settur ríkissaksóknari opinbert mál á hendur ákærðu, A, B og X. Eru þeim gefin að sök brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um bókhald, auk þess sem ákærðu, A og B, eru gefin að sök brot gegn lögum um hlutafélög.
Málið var þingfest fyrr í dag og krafðist ákærði, X, þess að dómari málsins viki sæti. Aðrir ákærðu lýstu því yfir að þeir tækju ekki undir kröfuna. Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir að það tæki ekki undir kröfu ákærða, X, um að dómarinn viki sæti. Settur ríkissaksóknari benti þó dómaranum á að afstaða hans til túlkunar á 104. gr. hlutafélagalaga í málinu nr. S-1026/2005 kynni að leiða til vanhæfis hans.
Kröfu sína um að dómarinn víki sæti byggir ákærði á því að hann telji dómarann vanhæfan til að fara með málið þar sem hann hafi verið einn dómara sem kvað upp dóm 15. mars 2006 í sakamálinu nr. S-1026/2005 en meðákærðu í málinu voru einnig ákærðir í því máli.
Ákærði telur að dómarinn hafi í framangreindu máli tekið afstöðu til trúverðugleika framburðar hans sem vitnis með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í máli þessu í efa. Um kröfuna vísar ákærði til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, 6. gr. sömu laga og 6. gr. laga nr. 19/1991.
Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Dómari málsins var einn þriggja dómara sem dæmdi framangreint mál 15. mars sl. Ákærði, X, var vitni í því máli og lagði dómurinn mat á sönnunargildi framburðar hans eins og dómurum ber að gera þá þeir dæma mál. Niðurstaða dómara í einu máli, hvort sem hún byggist á mati á sönnunargildi framburðar eða túlkun laga, veldur ekki því að hann sé vanhæfur til að dæma annað mál þar sem reynir á mat á framburði sömu vitna og ákærðra manna eða túlkun á ákvæðum sömu laga. Kröfu ákærða um að dómarinn víki sæti er því hafnað. Af sömu ástæðum eru engin efni til að dómarinn víki sæti af sjálfsdáðum vegna ábendinga setts ríkissaksóknara.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari víkur ekki sæti í málinu.