- Vinnusamningur
- Trúnaðarskylda
- Uppsögn
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2005. |
Nr. 374/2004. |
Ægir Geirdal(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) |
Vinnusamningur. Trúnaðarskylda. Uppsögn.
Æ höfðaði mál gegn KB hf. til heimtu bóta vegna fyrirvaralauss brottrekstrar úr starfi hjá félaginu. Fallist var á að KB hf. hefði verið heimilt að vísa Æ úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara þar sem hann hefði farið út fyrir verksvið sitt og brotið gegn trúnaðarskyldu. Þá var ekki fallist á með Æ að fyrir hendi væru skilyrði til að dæma honum miskabætur úr hendi KB hf. vegna þess hvernig staðið var að uppsögninni eða vegna athafna félagsins í kjölfar hennar. Var KB hf. því sýknað af kröfum Æ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.761.304 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti tók lögmaður áfrýjanda fram að ekki væri gerð athugasemd við lýsingu héraðsdóms á þeim myndskeiðum sem um ræðir í málinu og sýna athafnir áfrýjanda á skrifstofu eins af bankastjórum stefnda.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að stefnda hafi verið heimilt að vísa áfrýjanda úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara. Þá er ekki fallist á með áfrýjanda að fyrir hendi séu skilyrði til að dæma honum miskabætur úr hendi stefnda vegna þess hvernig sá síðarnefndi stóð að uppsögn áfrýjanda eða vegna athafna stefnda í kjölfar hennar.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ægir Geirdal, greiði stefnda, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2004.
I
Málið var höfðað 3. desember sl. og tekið til dóms 26. maí sl.
Stefnandi er Ægir Geirdal, Þrastarási 16, Hafnarfirði.
Stefndi er Kaupþing Búnaðarbanki hf., Austurstræti 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 5.761.304 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar.
II
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að hann hafi starfað sem vaktmaður hjá aðalbanka Búnaðarbanka Íslands hf., er síðar varð að stefnda. Kveðst hann hafa hafið störf seinni hluta árs 2000 og að loknum 6 mánaða reynslutíma í febrúar 2001 hafi verið gerður við hann ráðningarsamningur. Stefnandi kveður starfssvið sitt hafa verið að annast gæslu í bankanum eftir lokun ásamt öðrum vaktmanni og hafi það m.a. verið hluti af starfi hans að ganga um húsakynni bankans í reglulegum eftirlitsferðum. Til að unnt væri að staðfesta eftirlitsferðirnar hafi stefnandi þurft að setja hnappalesara í samband við hnappa, sem staðsettir voru víða á leið hans um bygginguna. Stefnandi kveðst hafa fengið ofnæmisexem við notkun hnappalesarans fljótlega eftir að hann hafi hafið störf hjá stefnda og þess vegna hafi hann að jafnaði notað gúmmíhanska á ferðum sínum.
Stefnandi kveðst hafa sinnt starfi sínu af miklum áhuga og jafnan gert athugasemdir í vaktbók hafi hann talið aðra starfsmenn bankans ekki fara eftir settum öryggisreglum. Að mati stefnanda hafi mikið vantað á að reglum um meðferð trúnaðarskjala væri fylgt, þau hafi oft verið skilin eftir óvarin á skrifborðum og skápar ólæstir. Kveðst hann hafa gert athugasemdir við þetta við yfirstjórn bankans. Stefnandi tekur fram að engar athugasemdir hafi verið gerðar við störf hans hjá stefnda, hvorki á meðan hann var í starfi né við riftun ráðningarsamningsins.
Í byrjun júlí 2002 kveður stefnandi hafa komið fram í fjölmiðlum að starfsmenn Búnaðarbankans hafi, ásamt utanaðkomandi aðilum, gert drög að samkomulagi um ráðstöfun eigna eins viðskiptavina bankans án vitundar hans eða samþykkis. Þessi drög höfðu borist til viðskiptavinarins sem hafi kært þetta til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hafi komist að því að bankinn hafi með þessu brotið gegn þagnarskyldu og eðlilegum viðskiptaháttum. Búnaðarbankinn hafi kært til lögreglu og óskað rannsóknar á því hvernig á því stóð að trúnaðarskjöl gátu borist frá honum til viðskiptavinarins. Stefnandi kveður þetta þó ekkert hafa snert sig fyrr en hann kom úr sumarleyfi í byrjun september 2002. Þá hafi samstarfsmenn hans í bankanum ýjað að því við hann að hann væri sá aðili er komið hefði trúnaðarskjölunum til viðskiptavinar bankans. Var þetta tengt því að sonur stefnanda vann hjá viðskiptavininum. Stefnandi kveður þó engan forsvarsmann bankans hafa rætt þetta við sig en hann heldur því fram að viðmót yfirmanna hafi verið annað eftir að hann kom úr sumarfríinu heldur en það var áður.
Stefnandi kveðst hafa mætt á kvöldvakt í bankanum 25. september 2002. Á vaktinni kveðst hann hafa farið í reglubundið eftirlit um bankann á móti öðrum vaktmanni. Hann kveðst meðal annars vegna starfs síns hafa farið inn á allar skrifstofur í bankanum og þar á meðal inn á skrifstofur tiltekins bankastjóra. Á þeirri skrifstofu kveðst stefnandi hafa gengið að skrifborðinu til að athuga hvort allt væri eins og vera ætti, þ.e. hvort slökkt væri á tölvum, reiknivélum og öðrum rafmagnstækjum svo og athugað hvort gluggi væri lokaður. Stefnandi kveðst hafa orðið var við það áður að á þessari tilteknu skrifstofu hafi ekki verið slökkt á tækjum eða skápar læstir. Stefnandi kveðst hafa séð skjal á skrifborðinu sem merkt hafi verið trúnaðarmál og hafi sér nokkuð brugðið við það, ekki síst vegna þess máls sem komið hafði upp fyrr á árinu og fjallað var um að framan. Stefnandi kveðst hafa litið yfir skjalið til að kanna hvers eðlis það væri og þá hafi hann séð á því nöfn Búnaðarbankans, framangreinds viðskiptavinar bankans og annars banka. Kveður stefnandi sig hafa furðað á þessu broti bankastjórans á starfsreglum bankans en engu að síður engar ráðstafanir gert vegna þessa þar eð hann taldi að bankastjórinn gæti tekið því illa ef hann gerði athugasemdir við þetta. Stefnandi kveðst ekki hafa tekið skjöl af skrifborðinu eða gert annað þar en að fletta í gegnum tímarit eða dagblað sem lá á borðinu. Þegar stefnandi stóð við borðið þá kveðst hann hafa tekið lítið blað úr vasa sínum og skrifað drög að ljóði á það fyrir dóttur sína sem hafi átt afmæli þennan dag, en stefnandi kveðst hafa haft það fyrir venju að semja ljóð fyrir börn sín á afmælum þeirra. Annað kveðst stefnandi ekki hafa aðhafst á skrifstofu bankastjórans og eftirlitsferðir hans í bankanum þessa nótt verið tíðindalausar. Hann kveðst ekkert hafa hringt frá bankanum á þessari næturvakt frekar en áður, enda hafi hann verið með eigin síma sem hann hafi hringt úr.
Í lok vaktarinnar kveðst stefnandi hafa verið handtekinn af lögreglu og ásakaður um að hafa fjarlægt skjöl úr bankanum eða ljósrit af þeim. Stefnandi kveðst að lokum hafa í lögregluyfirheyrslu játað að hafa ætlað að koma upplýsingum til sonar síns sem vinnur hjá framangreindum viðskiptavini stefnda. Stefnandi kveðst hafa gert þetta þar sem hann hafi þá verið búinn að vaka í 40 klukkustundir og verið tilbúinn til þess að segja lögreglunni hvað sem var til að hann kæmist heim að sofa. Í annarri skýrslugjöf hafi hann síðan leiðrétt þetta og tiltekið meðal annars að hann hafi verið með gúmíhanska þessa nótt vegna exemsins. Ennfremur sagðist stefnandi hafa litið yfir skjalið hjá bankastjóranum þar sem hann grunaði að þetta væri gildra fyrir hann eða aðra starfsmenn bankans til að sjá viðbrögð þeirra við þessari gáleysislegu meðferð skjalsins.
Að lokinni yfirheyrslu kveðst stefnandi hafa hringt í yfirmann sinn og spurst fyrir um það hvenær hann ætti að mæta næst á vakt en yfirmaðurinn bent á starfsmannastjórann. Starfsmannastjórinn og stefnandi áttu síðan fund með sér 26. september 2002 og þar afhenti starfsmannastjórinn stefnanda bréf þar sem honum var tilkynnt að starfssamningi hans væri rift með vísun til ákvæða kjarasamnings. Stefnandi kveður að hvorki þá né síðar hafi honum verið gefnar skýringar á brottrekstrinum, hvað þá að honum hafi verið gefinn kostur á að tala máli sínu hjá bankanum. Þá kveður hann einnig að hann hafi aldrei fengið neinar athugasemdir við störf sín af neinu tagi svo að hann gæti brugðist við þeim.
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig:
Laun í uppsagnarfresti í 6 mánuði kr. 2.042.211
Hækkun skv. kjarasamningi v/tímabilsins 1.1. til 31.1. 2003 kr. 30.633
Lífeyrisiðgjöld, hlutur vinnuveitanda 7,4% kr. 173.032
Orlof á laun í uppsagnarfresti 11,59% kr. 240.243
Vangreitt v/13. mánaðar 2002, 19,54% kr. 25.185
Áætluð hækkun kröfu v/vangreiddrar yfirvinnu kr. 250.000
Alls kr. 2.761.304
Krafa um miskabætur kr. 3.000.000
Samtals kr. 5.761.304.
Af hálfu stefnda er málavöxtum lýst þannig að í starfi stefnanda hafi meðal annars falist að fara eftirlitsferðir um bankann samkvæmt ákveðnu kerfi. Stimpilhnappar séu staðsettir um bankann og eigi vaktmaður að skrá eftirlitsferðir sínar með því að bera lesara að stimpilhnapp þegar hann fari hjá. Númer stimpilhnappsins, tími og dagsetning skráist þá í minni. Þá skuli vaktmaður auk þess skrá í dagbók allt markvert sem gerist á vaktinni. Margar eftirlitsferðir séu farnar á hverri vakt en í þeirri fyrstu eftir að vinnu ljúki í bankanum skuli fara vandlega yfir öll tæki og athuga hvort slökkt sé á þeim tækjum sem eigi að vera slökkt á, og hvort gluggar og eldtraustir skápar séu lokaðir. Þannig eigi að yfirfara öll herbergi en í vinnuhandbók vaktmanna sé ekkert kveðið á um skrifborð starfsmanna. Stefndi kveður þó þá meginreglu gilda að óheimilt sé með öllu að eiga við gögn á skrifborðum annarra starfsmanna enda samrýmist það ekki meginreglu bankans um meðferð trúnaðarskjala. Á göngum bankans séu öryggismyndavélar og að auki hafi verið komið fyrir myndavélum á lokuðum skrifstofum þaðan sem stefndi hafði grun um að trúnaðarupplýsingar hefðu horfið. Þannig var komið fyrir myndavél á skrifstofu tiltekins bankastjóra og var henni beint að skrifborði hans. Kveðst stefndi hafa náð myndum af ferðum stefnanda um bankann á kvöldvakt 25. september og næturvakt 26. september 2002. Samkvæmt tímaskráningum úr kerfi bankans og myndum á fyrrgreindum myndavélum hafi stefndi farið fimm sinnum inn á skrifstofu bankastjórans. Fyrst kl. 19.59 og þá komið auga á merkt trúnaðarskjal sem legið hafi á skrifborðinu. Klukkan 20.10 fari hann inn í bankaráðsherbergið og dveljist þar í tæpar 4 mínútur en á sama tíma sé hringt úr síma sem þar er án þess að símtalinu sé svarað. Klukkan 20.31 fari stefnandi aftur inn á skrifstofu bankastjórans og skrifi niður á lítið minnisblað það sem hann sjái á borðinu. Klukkan 20.35 kíki hann á skjalið í þriðja sinn og þurrki síðan fingraför af því. Klukkan 20.39 til 20.40 hringi einhver þrívegis úr síma sem sé í eldhúsi og í einu tilviki er svarað og vari símtalið í 46 sekúndur. Vaktmaður sé á sama stað í húsinu samkvæmt upptöku. Klukkan 21.24 sé stefnandi enn kominn inn á skrifstofu bankastjórans og skoðar skjalið í fjórða sinn og þurrkar fingraför af því. Klukkan 23.03 hringi vaktmaðurinn úr vaktmannsherberginu 19 sekúndna langt símtal og klukkan 03.11 er stefnandi enn kominn að skrifborði bankastjórans og skoði skjalið í fimmta sinn og skrifi aftur hjá sér. Klukkan 04.26 er stefnandi í sjötta sinn við skrifborðið með dagblað í hendinni, setji upp hanska og taki skjalið og fari með það út af skrifstofunni falið í dagblaðinu. Klukkan 04.28 hverfi stefnandi úr myndavél á leið inn í ljósritunarherbergi og birtist aftur 65 sekúndum síðar með dagblaðið og hanskaklæddur. Klukkan 04.29 skili stefnandi skjalinu og þurrkar hugsanleg fingraför. Er hann nú greinilega með blað í rassvasanum. Klukkan 06.38 kíki vaktmaðurinn á skjalið í síðasta sinn og sé pappír í rassvasa vel sýnilegur. Klukkan 06.55 hringir bjalla þegar innri endurskoðandi komi til vinnu og heyri vaktmaðurinn það. Gangi hann upp stiga í átt að skrifstofu innri endurskoðanda klukkan 07.18 og sé enn með pappír í rassvasanum. Stefnandi er fyrir utan skrifstofu innri endurskoðanda þegar hann hringir til lögreglu kl. 07.19 eftir að hafa skoðað myndbandsupptökuna af athöfnum stefnanda á skrifstofu bankastjórans. Klukkan 07.25 sést stefnandi aftur á mynd og hefur þá losað sig við pappírinn úr rassvasanum.
Stefndi kveður stefnanda hafa verið handtekinn og færðan til yfirheyrslu í framhaldi af þessu en Búnaðarbankinn hafi áður kært til lögreglu og óskað eftir rannsókn á því hvernig upplýsingar úr trúnaðarskjölum bankans gátu komist í hendur annarra aðila. Í framhaldi af þessu hafi ráðningarsamningi stefnanda verið rift sama dag með vísun til ákvæða kjarasamnings um brot á starfsreglum bankans. Ákvæði þetta er nr. 11.2.5 og segir þar: “Hafi starfsmaður brotið starfsreglur bankans í verulegu atriði má víkja honum úr starfi fyrirvaralaust og fellur þá launagreiðsla niður þegar í stað.”
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 13. maí 2003 var stefnanda, stefnda og lögmanni framangreinds viðskiptavinar tilkynnt að rannsókn, sem hafin var í tilefni af kæru stefnda á hendur viðskiptavininum, hafi ekki gefið tilefni til frekari aðgerða og hafi málið verið látið niður falla.
III
Stefnandi byggir á því að gerður hafi verið gildur og skuldbindandi samningur milli sín og Búnaðarbankans sem bankinn hafi rift með ólögmætum hætti og þess vegna bakað stefnanda tjón sem stefnda beri að bæta. Stefnandi byggir á því að hann hafi unnið störf sín hjá bankanum með fullnægjandi hætti og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við þau. Stefnandi hafi ekkert aðhafst í starfi sínu sem gefið hafi Búnaðarbankanum tilefni til að rifta samningnum einhliða. Þá hafi stefnandi aldrei verið áminntur og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við störf hans þannig að hann gæti bætt ráð sitt. Athæfi Búnaðarbankans hafi ekki verið í samræmi við ákvæði kjarasamninga um það hvernig standa eigi að riftun og þá hafi viðbrögð stefnda við meintum brotum hans í starfi heldur ekki verið í samræmi við ákvæði þeirra.
Stefnandi byggir á því að hann hafi aldrei kynnt sér trúnaðarmál með óeðlilegum hætti eða farið með þau úr bankanum eða gefið öðrum upplýsingar um þau. Óljósar myndir úr eftirlitsmyndavélum bankans, sem teknar hafi verið án vitundar stefnanda, geti ekki verið sönnunargögn um ætlað trúnaðarbrot hans eða annað brot í starfi. Það eina sem þessar myndir gætu hugsanlega sýnt er að hann hafi verið að sinna eftirlitsskyldu sinni á skrifstofu bankans. Þær einu athugasemdir sem hægt væri að gera við framferði hans væru þær að hann hefði hugsanlega dvalið of lengi á einum eftirlitsstað umfram aðra.
Verði fallist á það að stefnandi hafi kannað gögn, sem hafi verið honum óviðkomandi, þá byggir hann á því að það eitt feli ekki í sér trúnaðarbrot er varðað geti riftun ráðningarsamnings. Trúnaðarbrotið hafi orðið að fela það í sér að stefnandi gæfi utanaðkomandi aðila upplýsingar frá bankanum sem hann ekki mátti gefa. Það nægi ekki að hann hafi fengið upplýsingar, viljandi eða óviljandi, sem hann hafi ekki átt að fá heldur hafi hann þurft að koma þeim til utanaðkomandi aðila og það hafi stefnandi ekki gert.
Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því að hann hafi verið borinn þeim sökum að hafa borið upplýsingar og gögn frá Búnaðarbankanum til fjölmiðla og annarra utanaðkomandi aðila. Með þessu hafi æra hans og orðspor verið skaðað og honum valdið miskatjóni auk þess sem honum hafi verið gert verulega erfitt fyrir um að fá vinnu eftir að störfum hans lauk hjá bankanum.
Stefndi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi rofið trúnað við Búnaðarbankann og þess vegna hafi honum verið rétt að rifta ráðningu hans. Stefnandi hafi í starfi sínu borið ríkar trúnaðarskyldur gagnvart bankanum samkvæmt meginreglum vinnuréttarins. Forsenda ráðningar hans hafi verið sú að hann gætti trúnaðar gagnvart bankanum, enda sé tekið fram í starfsreglum vaktmanna að þeir séu bundnir þagnar- og trúnaðareiði um allt sem snerti öryggi bankans og starfsemi hans. Sú meginregla gildi um starfsmenn stefnda, og hafi gilt um starfsmenn Búnaðarbankans, þar á meðal vaktmenn, að þeim sé með öllu óheimilt að eiga við skjöl á borðum annarra starfsmanna. Það samrýmist ekki meginreglu stefnda um meðferð trúnaðarskjala, sem banni starfsmönnum að afla sér eða skýra óviðkomandi aðilum frá málefnum stefnda, viðskiptum einstakra aðila, stofnana eða fyrirtækja við hann svo og skuldum þeirra. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi brotið gegn fyrrgreindum skyldum sínum með því að fara ítrekað í óeðlilegum tilgangi inn á læsta skrifstofu bankastjóra og kynna sér þar í heimildarleysi efni merkts trúnaðarskjals, skrifa hjá sér það sem hann sá í skjalinu og fara með það út af skrifstofunni til ljósritunar, falið í dagblaði eftir að hafa þurrkað burt fingraför og sett upp hanska. Framangreint brot stefnanda komi skýrt og greinilega fram á myndbandi úr eftirlitsmyndavél. Þetta hafi ekki samrýmst trúnaðarskyldum stefnanda og því hafi forsendur fyrir ráðningu hans brostið og Búnaðarbankanum verið heimilt að víkja honum úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara. Stefndi byggir á því að engu máli skipti í þessu sambandi þótt ekki hafi verið höfðað opinbert mál á hendur stefnanda í framhaldi af lögreglurannsókn.
IV
Hér að framan var þess getið að í júlí 2002 komst upp að Búnaðarbankinn hafði lagt drög að meðferð eigna eins af viðskiptavinum sínum án samráðs við hann. Málið var kært til Fjármálaeftirlitsins, sem úrskurðaði í febrúar 2003 að bankinn hefði með þessu brotið gegn reglum um bankaleynd. Um sumarið höfðu fjölmiðlum borist gögn um þetta mál úr bankanum og grunaði forsvarsmenn hans að einhver starfsmanna ætti þar hlut að máli. Kom fram við aðalmeðferð að stefnandi var undir grun og kvaðst hann sjálfur hafa tekið eftir því, er hann kom úr sumarfríi í byrjun september, að viðmót samstarfsmanna hans bar þess merki. Það kom enn fremur fram hjá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Búnaðarbankans að ákveðið hafi verið í lok september að leggja gildru fyrir stefnanda. Á skrifborð tiltekins bankastjóra var lagt tilbúið skjal er bar yfirskriftina “Trúnaðarmál”. Skjalið fjallaði um samning á milli Búnaðarbankans og annars banka og varðaði lánamál fyrrgreinds viðskiptavinar. Komið var fyrir myndavél, er beint var að skrifborðinu, og tók hún upp myndir af stefnanda við skrifborðið að kvöldi 25. og aðfaranótt 26. september 2002.
Myndbandið var sýnt við aðalmeðferð og á fyrsta myndskeiði sést að stefnandi kemur inn og gengur fram hjá skrifborðinu og úr myndfletinum. Hann kemur síðan til baka og stansar við borðið og horfir á það nokkra stund áður en hann fer aftur út úr skrifstofunni að því er virðist. Á næsta myndskeiði sést að einhver annar en stefnandi kemur inn og gengur hratt fram hjá skrifborðinu og fer út aftur. Þá kemur stefnandi aftur inn og stillir sér upp þeim megin við borðið sem setið er. Hann er með blað í hendi og greinilega sést að hann skrifar hjá sér og lítur af og til á skrifborðið. Þá sést að hann blaðar all mörgum sinnum í blöðum á borðinu og skrifar hjá sér um leið. Undir lokin er eins og hann sé að þurrka af blaði á borðinu. Þegar stefnandi yfirgefur skrifstofuna sést að hann er með lítið blað í hendi. Á næsta myndskeiði sést stefnandi koma inn og ganga beint að skrifborðinu á sama stað og fyrr, horfa á borðið, strjúka yfir eitthvað á borðinu, líta aftur á það og yfirgefa síðan skrifstofuna. Þá er stutt myndskeið, er sýnir stefnanda koma inn og horfa á borðið áður en hann fer út aftur. Þessu næst er myndskeið er sýnir stefnanda koma inn, stilla sér upp við skrifborðið og, að því er virðist, lesa þar skjal, taka blað úr vasa sínum og líta á það og aftur á skjalið af borðinu og fara síðan út. Á næsta myndskeiði sést að stefnandi kemur inn með blað og skriffæri í hendi. Hann stillir sér upp við skrifborðið og skrifar á blaðið, sem hann heldur á, um leið og hann lítur af og til á borðið. Hann flettir síðan við skjali á borðinu og horfir á það nokkra stund áður en hann fer út aftur. Þá er stutt myndskeið er sýnir stefnanda koma inn, klæða sig í hanska, taka skjal af borðinu, stinga því, að því er virðist, innan í blað og hraða sér út. Á næstsíðasta myndskeiðinu sést stefnandi koma inn, leggja skjal á borðið og laga það til. Hann virðist síðan líta kringum sig á skrifstofunni áður en hann fer. Á síðasta myndskeiði sést stefnandi koma inn í stutta stund, líta á borðið og fara síðan aftur.
Það er meginmálsástæða stefnda að með framanlýstu athæfi hafi stefnandi rofið trúnað við sig og brotið starfsreglur bankans í svo verulegu atriði að réttlætanlegt hafi verið að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi og fella niður launagreiðslur til hans.
Stefnandi hefur hins vegar neitað því að hafa brotið af sér gagnvart stefnda. Hann bar að hann hafi sett upp leikþátt á skrifstofu bankastjórans þar eð hann hafi vitað að hann væri undir grun um að hafa komið trúnaðarskjölum til viðskiptavinar bankans um sumarið. Með þessu hafi hann ætlað að knýja á um að talað yrði við hann um þessar grunsemdir og þar með gæfist honum kostur á að hreinsa sig af öllum grun um trúnaðarbrot. Þá kom og fram hjá stefnanda að hann taldi það í verkahring sínum sem vaktmanns að gæta þess að trúnaðarskjöl lægju ekki á glámbekk, jafnvel þótt inni í læstri skrifstofu væri, eins og á skrifstofu bankastjórans.
Það dylst engum sem skoðar framangreint myndband að þar er stefnandi að skoða skjal og allt bendir til þess að hann sé að skrifa niður hjá sér upplýsingar úr því. Fullyrðing hans um að hann hafi verið að skrifa niður ljóð á þessu sama augnabliki er eins og hver önnur fjarstæða. Þá er og greinilegt að hann þurrkar af því og enn fremur verður ekki betur séð en að hann dylji það í dagblaði eða tímariti og fari með það á brott og komi svo með það aftur. Það er fallist á það með stefnda að með þessu athæfi hafi stefnandi farið út fyrir verksvið sitt og jafnframt brotið gegn trúnaðarskyldu, enda var það ekki á verksviði hans að skipta sér af skjölum á borðum annarra starfsmanna bankans. Í þessu sambandi skiptir engu máli þótt ósannað sé að stefnandi hafi komið efni skjalsins til annarra eða ætlað sér það. Með athæfi sínu gaf stefnandi vinnuveitanda sínum fullt tilefni til að vantreysta sér svo verulega að hann verðskuldaði fyrirvaralausan brottrekstur í samræmi við framangreint ákvæði kjarasamnings. Þeirri málsástæðu stefnanda er því hafnað að borið hafi að áminna hann eða gefa honum kost á að skýra mál sitt. Það er mat dómsins, að engu breyti um þessa niðurstöðu að lögð var gildra fyrir stefnanda sem hann gekk í. Þá er rétt að geta þess að það var fyrst við aðalmeðferð sem sú skýring kom fram af hálfu stefnanda að hann hafi verið að setja upp leikþátt í þeim tilgangi að knýja á um að rætt yrði við hann, eins og rakið var. Metur dómurinn þessa skýringu hans álíka fjarstæðukennda og framburð hans um ljóðið.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda en með hliðsjón af málavöxtum öllum þykir málskostnaður mega falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., 622.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Kaupþing Búnaðarbanki hf., er sýknaður af kröfu stefnanda, Ægis Geirdal.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., 622.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.