Hæstiréttur íslands

Mál nr. 429/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Matsbeiðni


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. desember 2003.

Nr. 429/2003.

Dagrún Jónsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(enginn)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Matsbeiðni.

D krafðist þess að dómkvaddir yrðu sömu matsmenn í máli hennar gegn V hf. og áður höfðu verið kvaddir til starfans til að ljúka störfum og leggja mat á varanlegan miska og varanlega örorku hennar miðað við hvernig heilsufari hennar væri nú háttað. Tekið var fram að tjón hennar hefði ekki áður verið metið með þessum hætti. Langt væri um liðið frá því slysið varð og með öllu óvíst hvenær ástand hennar yrði orðið stöðugt. Varð henni því ekki neitað um að afla umrædds mats í samræmi við þessa kröfu. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og héraðsdómara gert að leggja fyrir matsmennina að ljúka störfum með framangreindum hætti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. og j. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „að úrskurðað verði, að dómkvaddir matsmenn í matsmálinu nr. 1270/2001: Halldór Baldursson, bæklunarlæknir, Kristófer Þorleifsson, geðlæknir, Bjarni Hannesson, taugalæknir og Skúli Magnússon, lögfræðingur og dósent skuli ljúka þeim matsstarfa sínum, sem þeir voru kvaddir til 14. maí 2002“ með því að svara tilteknum spurningum. Til vara krefst sóknaraðili þess að matsmennirnir verði dómkvaddir til að meta varanlegan miska og varanlega örorku hennar samkvæmt 4. og 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miðað við ástand hennar eins og það er nú af völdum slyss, er hún varð fyrir 7. júlí 1993.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Sóknaraðili lenti í umferðarslysi 7. júlí 1993 þegar hún var á ferð á vélhjóli í Hvalfirði. Kastaðist hún af hjólinu á töluverðri ferð og slasaðist. Mat örorkunefnd varanlegan miska hennar 10% og varanlega örorku 12%. Greiddi varnaraðili henni bætur árið 1996 á grundvelli matsins og veitti sóknaraðili þeim viðtöku án fyrirvara um frekari bótarétt. Sóknaraðili höfðaði síðan mál gegn varnaraðila 6. febrúar 2001 og krafðist frekari bóta. Var um að ræða kröfu um endurupptöku á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga þar sem miski hennar og örorka vegna slyssins væru meiri en áður var talið. Áður en sóknaraðili höfðaði það mál var aflað matsgerðar auk yfirmatsgerðar dómkvaddra manna. Samkvæmt yfirmati 25. nóvember 2000 var varanlegur miski hennar talinn vera 25% og varanleg örorka jafn há. Þá var undir rekstri málsins að ósk sóknaraðila aflað álits læknaráðs auk sérstakrar matsgerðar fjögurra dómkvaddra manna samkvæmt matsbeiðni 11. apríl 2002. Héraðsdómur gekk í málinu 26. júní 2003 og var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila skaðabætur að nánar tilgreindri fjárhæð. Var þá tekið mið af yfirmati á miska- og örorkustigi sóknaraðila. Undi hún ekki niðurstöðu héraðsdóms og áfrýjaði honum til Hæstaréttar 4. júlí 2003. Bíður það flutnings hér fyrir dómi.

II.

Áðurnefndir fjórir matsmenn voru dómkvaddir 14. maí 2002 og sætti varnaraðili sig við úrskurð héraðsdómara um dómkvaðninguna. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms í máli sóknaraðila gegn varnaraðila og áfrýjun til Hæstaréttar lagði sóknaraðili fram þá beiðni 28. ágúst 2003, sem um ræðir í máli þessu. Hefur varnaraðili ekki tjáð sig um hana á neinu stigi. Er í henni óskað eftir því með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 75. gr. og 1. mgr. 66. gr. sömu laga, að matsmennirnir fjórir verði með úrskurði kvaddir til að ljúka matsstörfum sínum með því að svara nánar tilgreindum spurningum. Um var að ræða þrjár af þeim spurningum, sem fram voru bornar í matsbeiðninni, og lutu að því hver væri varanlegur miski og varanleg örorka sóknaraðila af völdum áðurnefnds slyss. Töldu matsmennirnir í niðurstöðu sinni ekki unnt að svo stöddu að taka afstöðu til þessara spurninga þar sem afleiðingar slyssins voru að þeirra mati ekki að fullu komnar fram og því ekki unnt að líta á heilsufar sóknaraðila sem stöðugt samkvæmt 4. gr. og 5. gr. skaðabótalaga. Skorti því á að unnt væri að endurmeta varanlegan miska og örorku sóknaraðila eins og óskað hafi verið eftir í matsbeiðninni.

Tilgangur sóknaraðila með beiðninni er að afla frekari sönnunar í máli hennar gegn varnaraðila, en hún telur miska- og örorkustig sitt vegna slyssins vera hærra en yfirmatsmenn komust að niðurstöðu um. Bendir hún á að langt sé um liðið frá því að slysið varð og að ókleift sé að segja fyrir um hvenær ætla megi að heilsufar hennar verði orðið stöðugt í merkingu skaðabótalaga. Telur hún að ekki hafi verið metið það, sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu, en til vara eigi hún rétt á að fá ástand sitt metið eins og það er nú. 

Í niðurstöðu matsmannanna 29. janúar 2003 kemur meðal annars fram að sóknaraðili hafi orðið fyrir svokölluðu háorkuslysi og að einkenni hennar af völdum þess hafi versnað síðastliðin tvö ár og fari enn versnandi. Afleiðingar þess séu því ekki enn komnar fram að fullu og skýra þeir með því þá afstöðu sína að svara ekki að svo stöddu þremur spurningum í matsbeiðninni. Af framangreindum svörum þeirra er ljóst að þeir telja yfirmat frá 2000 ekki fela í sér endanlega niðurstöðu um miska- og örorkustig sóknaraðila, enda hafi ástand hennar versnað á þeim tíma, sem síðan sé liðinn. Verður að fallast á með þeim að ekki verði tekin afstaða til þess að svo stöddu hvern miska og örorku sóknaraðili muni endanlega bíða af völdum slyssins. Í beiðni sinni nú gerir sóknaraðili hins vegar þá kröfu til vara að lagt verði mat á umrædd atriði í áðurnefndri matsbeiðni miðað við ástand hennar nú án tillit til þess hvert það verður þegar ekki er að vænta frekari bata samkvæmt 4. gr. 5. gr. skaðabótalaga. Tjón hennar hefur ekki áður verið metið með þeim hætti. Langt er um liðið frá því slysið varð og ráða má að með öllu sé óvíst hvenær ástand hennar verður orðið stöðugt. Að þessu virtu og atvikum málsins að öðru leyti verður að fallast á með sóknaraðila að henni verði ekki neitað um að afla umrædds mats í samræmi við varakröfu sína. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og héraðsdómara gert að leggja fyrir matsmennina að ljúka störfum með því að meta þau atriði, sem um ræðir í varakröfu sóknaraðila, eins og nánar greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Héraðsdómara ber að leggja fyrir matsmennina Halldór Baldursson bæklunarlækni, Kristófer Þorleifsson geðlækni, Bjarna Hannesson taugalækni og Skúla Magnússon dósent að leggja mat á atriði í e. og f. liðum í matsbeiðni sóknaraðila, Dagrúnar Jónsdóttur, 14. apríl 2002 miðað við það hvernig heilsufari hennar er nú háttað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2003.

                Sóknaraðili, Dagrún Jónsdóttir, kt. [...], Grýtubakka 12, Reykjavík, krefst þess að dómkvaddir matsmenn í málinu nr. E-1270/2001:  Dagrún Jónsdóttir gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., sem dæmt var í héraði 26. júní sl., verði með úrskurði kvaddir til að ljúka matsstörfum sínum með því að svara eftirfarandi matsspurningum:

 

Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins 7. júlí 1993 samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, ef miskinn er grundvallaður á þeim miskatöflum, sem gilda samkvæmt dönsku skaðabótalögunum (lov nr. 228/1984 om erstatningsansvar), þ.e. matsspurningu d.

 

Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins 7. júlí 1993 samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, ef miskinn er grundvallaður á miskatöflum Örorkunefndar frá 18. október 1994, þ.e. matsspurning e.

 

Hver er varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 í dag af völdum slyssins 7. júlí 1993, þ.e. matsspurning f.

 

                Til vara er þess krafist að dómkvaddir matsmenn í ofangreindu máli verði úrskurðaðir til að meta miska matsbeiðanda og varanlega örorku af völdum slyssins samkvæmt 4. og 5. grein skaðabótalaga miðað við ástand matsbeiðanda eins og það nú er.

 

Sóknaraðili kveðst byggja málsókn sína á 76. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 75. og 1. mgr. 66. gr. sömu laga.  En fram kemur í  gögnum málsins að sóknaraðili sækir mál gegn varnaraðila fyrir Hæstarétti Íslands þar sem hann krefst þess að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1270/2001 verði hrundið og breytt með ákveðnum hætti.

 

Í matsgerðinni frá 29. janúar 2003, sem lögð var fram í héraði í máli sóknaraðila gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. 10. mars 2003 af hálfu sóknaraðila og til álita kemur varðandi þá málsókn er hér um ræðir, segir um matsspurningu d:

 

Vegna orðalags spurningarinnar telja matsmenn rétt að minna á að samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er mat á varanlegum miska að meginstefnu læknisfræðilegt, þó þannig að taka ber tillit til einstaklingsbundinna erfiðleika sem einkenni valda í lífi tjónþola.  Allt frá því töflur örorkunefndar um varanlegt miskastig komu út árið 1994 hefur það verið viðtekin og óumdeild framkvæmd að líta til þeirra taflna við mat á eðli og afleiðingum tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði, sbr. 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Einnig hefur í framkvæmd verið litið til örorkumatstaflna frá öðrum Norðurlöndum, þar sem íslenskum töflum sleppir, en fyrrgreindu töflurnar eru í mörgum tilvikum ítarlegri.  Þá er matsmönnum kunnugt um dæmi þess að litið sé til heimilda frá enn öðrum löndum (t.d. AMA Guides to the Evaluation of Permanent Impairment), ef áðurnefnd gögn gefa ekki fullnægjandi leiðbeiningar.  Mat á varanlegum miska getur því stuðst við fleiri heimildir þótt venja standi til þess að líta fyrst til íslenskra taflna við mat eins og telja verður að ráðgert sé með skaðabótalögum nr. 50/1993.  Í öllum tilvikum eru niðurstöður samkvæmt miskatöflum þó háðar þeim fyrirvara að taka ber tillit til einstaklingsbundinna erfiðleika sem einkenni valda í lífi tjónþola.  Af þessum ástæðum verður að gera þann fyrirvara við matsspurningu að hvorki mat samkvæmt íslenskum né dönskum örorkumatstöflum getur falið í sér endanlega eða fyrirvaralausa niðurstöðu um varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Eins og áður segir liggur fyrir að einkenni matsbeiðanda hafa versnað sl. tvö ár og fara enn versnandi.  Með hliðsjón af þessu telja matsmenn þá niðurstöðu óhjákvæmilega að afleiðingar slyssins 7. júlí 1993 séu enn ekki komnar að fullu fram þannig að unnt sé að líta á heilsufar matsbeiðanda sem stöðugt samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993.  Af þessum sökum skortir skilyrði til að lagt sé mat á varanlegan miska matsbeiðanda að svo stöddu og gildir þá einu hvort stuðst er við íslenskar eða danskar örorkumatstöflur.

 

                Þá segir um matsspurningu e:

 

Þar sem fyrir liggur að einkenni matsbeiðanda hafa versnað sl. tvö ár og fara enn versnandi telja matsmenn þá niðurstöðu óhjákvæmilega að afleiðingar slyssins 7. júlí 1993 séu enn ekki komnar að fullu fram þannig að unnt sé að líta á heilsufar matsbeiðanda sem stöðugt samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993.  Af þessum sökum skortir skilyrði til að lagt sé mat á varanlegan miska matsbeiðanda að svo stöddu.

 

                Að lokum segir um matspurningu f:

 

Þar sem fyrir liggur að einkenni matsbeiðanda hafa versnað undanfarin tvö ár og fara enn versnandi telja matsmenn þá niðurstöðu óhjákvæmilega að afleiðingar slyssins 7. júlí 1993 séu enn ekki komnar að fullu fram þannig að unnt sé að líta á heilsufar matsbeiðanda sem stöðugt samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.  Af þessum [sökum] skortir skilyrði til að lagt sé mat á varanlega örorku matsbeiðanda að svo stöddu.

 

Í 2. ml. 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að dómari geti úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat.

Sóknaraðili kaus að leggja matsgerðina fram á dómþingi 10. mars sl. eins og hún var unnin, væntanlega til þess að tekið væri mið af henni, ásamt með öðrum framlögðum gögnum, er dómur yrði kveðinn upp.  Ekkert er bókað í þingbók um að matsgerðin sé unnin á ófullnægjandi hátt.  Dómurinn var fjölskipaður.  Ásamt héraðsdómara sátu taugalæknir og bæklunarskurðlæknir dóminn.  Virðist sem matsmenn hafi metið svo sem efni stóðu til það sem meta átti samkvæmt dómkvaðningu jafnframt því að matsgerðin hafi verið rökstudd með fullnægjandi hætti.  Dómur var síðan kveðinn upp 26. júní sl.

Samkvæmt framangreindu brestur lagaskilyrði til að verða við beiðni sóknaraðila.  Verður því ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Máli þessu er vísað frá dómi.