Hæstiréttur íslands

Mál nr. 550/2002


Lykilorð

  • Nauðungarsala
  • Fasteign
  • Hlutafélag
  • Umboð


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. apríl 2003.

Nr. 550/2002.

Guðfinnur Pálsson og

Fasteignafélagið Rán ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Höfunum sjö hf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Nauðungarsala. Fasteign. Hlutafélag. Umboð.

Deilt var um gildi framsals framkvæmdastjóra og stjórnarformanns H hf. á boði þess í fasteign við nauðungarsölu til G. Krafðist félagið að viðurkennt yrði með dómi ógildi framsalsins og að F ehf. yrði dæmt til að gefa út afsal til þess. Hafði framkvæmdastjórinn gripið á það ráð að framselja boðið til G, þar sem frestur sá sem H hf. hafði verið veittur til að greiða hluta söluverðsins til þess að boðið teldist samþykkt, nægði því ekki. Með vísan til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991 var talið að H hf. hefði ekki haft kaupsamning um fasteignina fyrr en eftir samþykki boðsins og yrði framsal framkvæmdastjórans því ekki talið ráðstöfun á fasteign í skilningi undanþáguákvæðis 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Miða yrði við að boð félagsins hefði án framsalsins fallið niður og sýslumaður skoðað næsta boð samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991. Þótt telja mætti framsal framkvæmdastjórans mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög var frestur H hf. til að standa við boðið nær liðinn og gat það hugsanlega orðið fyrir fjárútlátum vegna vanefnda. Yrði því samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 að telja framkvæmdastjórann hafa haft umboð til þess að skuldbinda félagið og hefði G mátt líta svo á. Var H hf. því bundið við gerðir framkvæmdastjórans og G og F ehf. sýknaðir af öllum kröfum H hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason og Garðar Gíslason og Hjörtur Torfason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 16. desember 2002. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjendur greiði málskostnað in solidum fyrir Hæstarétti.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Stefndi var hæstbjóðandi við nauðungarsölu fiskverkunarhúss við Patrekshöfn, nyrðri lóð eignarhluta II, með boði að fjárhæð 11.000.000 krónur. Bar honum samkvæmt uppboðsskilmálum að greiða fjórðung söluverðsins í síðasta lagi 18. desember 2001, til þess að boðið teldist samþykkt. Samkvæmt málatilbúnaði hans gat hann ekki greitt fyrr en 20. desember og leitaði því til sýslumannsins á Patreksfirði um frest til þess dags. Var honum veittur frestur en einungis til 19. desember. Fyrir liggur að sá frestur nægði honum ekki. Greip framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins því á það ráð að framselja boðið til áfrýjanda Guðfinns þann 19. desember, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Síðla það sama kvöld hafði Guðfinnur samband við sýslumann og greindi honum frá því að hann hefði fengið boðið framselt og bauð greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálunum þegar í stað. Afþakkaði sýslumaður það en bauð honum að greiða daginn eftir, sem hann og gerði að morgni þess dags. Þann sama dag kom stjórn stefnda saman og kynnti framkvæmdastjóri stefnda þar framangreindar ráðstafanir. Samkvæmt fundargerð var honum þá bent á að atbeina tveggja stjórnarmanna þyrfti til að skuldbinda félagið, en þess hafði hann ekki gætt. Samþykkti stjórnin síðan að hafna framsali hans á boði stefnda við nauðungarsöluna. Var áfrýjanda Guðfinni, svo og sýslumanni, kynnt þetta 21. desember 2001, en jafnframt hafði stefndi hinn 20. desember greitt fjórðung söluverðsins til sýslumanns, sem endurgreiddi jafnharðan.

II.

Í 3. mgr. 39. gr. laga um nauðungarsölu segir að þegar ákveðið hafi verið hverju boði verði tekið tilkynni sýslumaður þeim sem gerði boðið með tryggum hætti um að það verði samþykkt ef greiðsla berst í samræmi við uppboðsskilmála á tilteknum tíma. Þegar sú greiðsla berist teljist boðið sjálfkrafa samþykkt. Stefndi hafði samkvæmt þessu ekki kaupsamning um fasteignina fyrr en eftir samþykki boðsins. Þegar framkvæmdastjóri stefnda framseldi boðið til áfrýjanda Guðfinns var staðan þannig að sýslumaður hafði hafnað fresti til 20. desember 2001 og var því fjármögnun stefnda úr sögunni. Verður framsalið ekki talið ráðstöfun á fasteign í skilningi undanþáguákvæðis 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Verður við það að miða, eins og atvikum var háttað, að boð stefnda hefði án framsalsins fallið niður og sýslumaður skoðað næsta boð samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga um nauðungarsölu. Mátti þá krefja stefnda um mismun boðanna samkvæmt því ákvæði. Þótt telja mætti framsal framkvæmdastjórans mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög var frestur stefnda til að standa við boðið nær liðinn og gat stefndi hugsanlega orðið fyrir fjárútlátum vegna vanefnda. Verður því samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga að telja hann hafa haft umboð til þess að skuldbinda félagið, og hafi áfrýjandi Guðfinnur mátt líta svo á. Stefndi var því bundinn við gerðir framkvæmdastjórans. Af því leiðir að sýkna ber áfrýjendur af öllum kröfum stefnda.

Stefndi greiði  málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Guðfinnur Pálsson og Fasteignafélagið Rán ehf., skulu sýknir af öllum kröfum stefnda, Hafanna sjö hf.

Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað í héraði og  fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 18. nóvember 2002.

Mál þetta, sem var dómtekið 3. október sl., höfðaði Höfin sjö hf., Laugavegi 97, Reykjavík, hinn 31. janúar sl. með stefnu á hendur Guðfinni Pálssyni, Aðalstræti 118a, Patreksfirði, og hinn 10. apríl sl. með framhalds- og sak­aukastefnu á hendur stefnda Guðfinni og Fasteignafélaginu Rán ehf., Aðalstræti 52, Patreksfirði.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi ógildi framsals Jóns A. Pálmasonar hinn 19. desember 2001 til stefnda Guðfinns Pálssonar á boði stefnanda í fasteignina Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð ehl. II, 450 Patreksfirði, Vesturbyggð.  Þá krefst stefnandi þess að stefnda Fasteignafélagið Rán ehf. verði dæmt til að gefa út afsal til stefnanda fyrir fasteigninni gegn greiðslu 11.000.000 króna auk innlánsvaxta.  Þá er gerð krafa um málskostnað.

Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Fallist var á kröfur stefndu um frávísun málsins með úrskurði upp kveðnum 24. júlí 2002, en þeim úrskurði var hrundið með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 3. september sl. og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnis­meðferðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var ákveðið á fundi stjórnar stefnanda þann 25. nóvember 2001 að heimila framkvæmdastjóra stefnanda, Jóni A. Pálmasyni, sem jafnframt er formaður stjórnar hans og annar prókúruhafa, að bjóða í fasteignina Fisk­verkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð, ehl. II, Patreksfirði, Vesturbyggð, við nauðungarsölu. Neytti framkvæmdastjórinn þessarar heimildar við uppboð þann 27. sama mánaðar. Varð stefnandi hæstbjóðandi, með boð að fjárhæð 11.000.000 krónur. Mun honum hafa borið, samkvæmt upp­boðs­skilmálum, að greiða fjórðung söluverðsins í síðasta lagi 18. desember 2001, til að boðið yrði samþykkt. Er greint frá því í stefnu að stefnandi hafi ekki getað innt greiðsluna af hendi fyrr en 20. desember og leitað til sýslumannsins á Patreksfirði um frest til þess dags.  Hafi frestur verið veittur til 19. desember.

Jón A. Pálmason kveðst hafa vitað að stefndi Guðfinnur hafði áhuga á eigninni.  Hafi hann ekki séð að stefnandi gæti greitt á tilskildum tíma, en viljað gæta hagsmuna stefnanda og því haft samband við stefnda Guðfinn.  Hittust þeir síðdegis hinn 19. desember á skrifstofu Sigurðar A. Þóroddssonar hdl., þar sem þeir gerðu skriflegt samkomulag, þar sem kveðið var á um að stefnandi framseldi fyrrgreint boð sitt til stefnda Guðfinns gegn nánar tilgreindri greiðslu, auk þess sem stefnanda var áskilin heimild til að taka tiltekna lausafjármuni, sem geymdir væru í hinu selda fiskverkunarhúsi. Samhliða þessu undirrituðu þeir sérstaka yfirlýsingu um framsal stefnanda á boðinu til stefnda Guðfinns.  Nefndur lögmaður kveðst hafa innt Jón Pálmason eftir því hvort hann hefði umboð til þessarar ráðstöfunar og Jón játað því.  Hafi hann látið þar við sitja, enda talið að Jón þyrfti í raun ekki sérstakt umboð til hennar.

Samkvæmt framburði Þórólfs Halldórssonar, sýslumanns, hér fyrir dómi, hafði stefndi Guðfinnur samband við hann síðla kvölds hinn 19. desember 2001 og greindi frá því að hann hefði fengið réttindi stefnanda samkvæmt boði hans framseld og bauðst til að koma heim til sýslumanns og afhenda greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum.  Afþakkaði sýslumaður það en bauð honum að greiða daginn eftir, sem hann gerði.  Var boðið þá samþykkt.

Stjórn stefnanda kom saman til fundar 20. desember 2001, þar sem framkvæmdastjóri stefnanda kynnti framangreindar ráðstafanir. Samkvæmt fundargerð var honum þá bent á að mælt væri fyrir um það í samþykktum stefnanda að atbeina tveggja stjórnarmanna þyrfti til að skuldbinda hann. Kvaðst framkvæmdastjórinn ekki hafa leitað samþykkis neins annars stjórnarmanns fyrir ráðstöfunum sínum. Að þessu fram komnu samþykkti stjórnin að hafna framsali hans á boði stefnanda við áðurgreinda nauðungarsölu. Tilkynnti lögmaður stefnanda stefnda Guðfinni og sýslumanninum á Patreksfirði um þessa samþykkt stjórnarinnar með bréfi 21. desember 2001.  Jafnframt var hafnað greiðslu sem stefndi Guðfinnur átti að inna af hendi samkvæmt ofangreindu samkomulagi.  Samkvæmt bréfi sýslumannsins á Patreksfirði 28. febrúar 2002 greiddi stefnandi fjórðung sölu­verðs­ins til sýslumanns hinn 20. desember 2001, annan fjórðung þess hinn 18. janúar 2002 og afganginn 11. febrúar sama ár.  Sýslumaður endurgreiddi stefnanda féð jafn­harðan.

Með kæru 23. janúar 2002 leitaði stefnandi úrlausnar héraðsdóms og krafðist þess að ógilt yrði ákvörðun sýslumannsins á Patreksfirði 20. desember 2001 um að taka gilt framsal á boði stefnanda til stefnda Guðfinns, svo og að lagt yrði fyrir sýslumann að samþykkja boð stefnanda. Kærunni var vísað frá héraðsdómi með skírskotun til þess að hún hefði ekki komið fram innan frests, sem mælt er fyrir um í ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Stefndi Guðfinnur Pálsson framseldi réttindi sín samkvæmt greindu boði í eignina til stefnda Fasteignafélagsins Ránar ehf. hinn 28. febrúar 2002. Mun síðarnefndi aðilinn hafa sama dag greitt sýslumanni eftirstöðvar söluverðs fasteignarinnar. Afsal var gefið út til hans þann dag og því þinglýst samdægurs.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að framkvæmdastjóra sínum hafi verið óheimilt að framselja boð stefnanda í fasteignina.  Hafi hann fengið umboð á stjórnarfundi til að bjóða í hana, en ekki til annarra athafna. Framsalið falli undir löggerninga sem stjórn félagsins sé ein bær um að gera, þar sem þessi gjörningur sé í engu frábrugðinn framsali á réttindum samkvæmt kaupsamningi um fasteign, en réttindi yfir fasteign séu eitt skýrasta dæmi um réttindi, sem aðeins verði ráðstafað af stjórn félags.  Sé framsalið því ógilt.  Þá hafi komið á daginn að frestur til að greiða samkvæmt boðinu hafi ekki verið útrunninn hinn 20. desember.  Telur stefnandi stefnda Fasteignafélaginu Rán ehf. skylt að afsala sér eigninni, þar sem réttindaframsal stefnanda til stefnda Guðfinns sé ógilt.

Stefnandi vísar til 16. gr. samþykkta sinna, þar sem fram kemur að undirskriftir þriggja stjórnarmanna skuldbindi hann, III. kafla samningalaga nr. 7/1936 og IX. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995. Um framsal tilboða í eignir við nauðungarsölu vísar hann til 39. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.

III.

Af hálfu stefndu er á því byggt að Jón A. Pálmason hafi haft umboð til að framselja boð stefnanda og stefndi Guðfinnur verið í góðri trú um það.  Hafi Jón lýst því yfir við framsalið og að eigin sögn verið í stöðugu símasambandi við aðra forsvarsmenn stefnanda.  Þá hafi stefnda Guðfinni verið kunnugt um að Jón hefði haft umboð til að bjóða í eignina við nauð­ungarsöluna og því mátt ætla að hann hefði einnig umboð til að ráðstafa réttindum stefnanda samkvæmt boðinu.  Þá telja stefndu að Jón hafi sem framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og prókúruhafi stefnanda haft stöðuumboð til ráðstöfunarinnar, sbr. 18. gr. samþykkta stefnanda, 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 25. gr. laga nr. 43/1905 um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð.  Kveðast stefndu mótmæla því að hin framseldu réttindi hafi verið mikilsverð, eða réttindi yfir fasteign.  Hafi verið um að ræða óvissa kröfu, sem verði að skoða sem lausafjárréttindi.  Benda stefndu á það að stefnandi hafi ekki getað efnt boð sitt á þeim tíma sem hann framseldi réttindi sín samkvæmt því og frestur til að efna það verið að renna út.  Hafi stefnandi með framsalinu verið að firra sig hugsanlegu tjóni af því að þurfa að greiða mismun hæsta og næst hæsta boðs, sem hafi numið einni milljón króna.  Söluverð réttindanna til stefnda Guðfinns geri stefnanda algerlega skaðlausan af framsalinu, en stefnandi hafi átt að fá peninga og eignir samtals að verðmæti um tvær milljónir króna samkvæmt framsalssamningnum.  Stefndu benda sérstaklega á það að sýslumanni hafi verið boðin greiðsla hinn 19. desember, en hann mælst til þess að hún yrði afhent daginn eftir.  Ef stefndi Guðfinnur hefði ekki boðið þessa greiðslu og síðan afhent hana daginn eftir hefðu réttindi samkvæmt boðinu fallið niður, boði næstbjóðanda verið tekið, eða efnt til vanefndauppboðs.  Sýni þetta að réttindi stefnanda hafi verið óviss í meira lagi.

Þá kveðst stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. byggja á því að þar sem hann hafi fengið afsal fyrir eigninni skipti ógilding á framsalinu, eða ógildanleiki þess engu máli að lögum.  Byggist eignarheimild þessa stefnda á samþykki sýslumanns á boðinu og greiðslu söluverðsins samkvæmt skilmálum.  Verði samþykki sýslumanns ekki haggað í almennu einkamáli, þar sem reka hafi átt mál um það sem ágreiningsmál vegna nauðungarsölunnar.  Ógildi upphaflega framsalsins haggi því ekki samþykki boðsins, eða leiði til skyldu þessa stefnda til að gefa út afsal til stefnanda.  Þá verði skylda hans til útgáfu afsals ekki leidd af lögum eða samningum að öðru leyti.

Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til meginreglna kröfu- og félagaréttar, til reglna hlutafélagalaga nr. 2/1995 einkum er varða heimildir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Sérstaklega vísar stefndi til 2. mgr. 68. gr. laganna um heimildir framkvæmdastjóra. Þá vísar stefndi til ákvæða laga 42/1903 um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð, einkum til 25. gr. laganna um heimildir prókúruhafa. Um réttarfar í nauðungarsölumálum vísar stefndi til laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

IV.

             Deilt er um það í málinu hvort Jón A. Pálmason hafi verið bær um að framselja réttindi stefnanda samkvæmt ofangreindu boði í fasteign. Óumdeilt er að Jón var framkvæmdastjóri stefnanda og stjórnarformaður og annar prókúruhafa.  Í 16. gr. samþykkta stefnanda, frá 13. apríl 2000, segir að stjórn stefnanda stýri öllum málefnum hans milli hluthafafunda og gæti hagsmuna hans gagnvart þriðja manni. Undirskrift þriggja stjórnarmanna skuldbindi stefnanda.  Þá er fjallað um framkvæmdastjóra í 18. gr. samþykkta stefnanda og kveðið á um það að hann stjórni daglegum rekstri stefnanda og komi fram fyrir hans hönd í málum sem varði venjulegan rekstur.

Firma er samkvæmt 8. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, það nafn, sem notað er fyrir tiltekna atvinnu, þ.e. rekstur verslunar, handiðnaðar eða verksmiðjuiðnaðar og undirskrift fyrir hana. Svo sem kom fram að framan rita þrír stjórnarmenn saman firma stefnanda. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 getur firmahafi veitt öðrum aðila umboð til þess að annast fyrir sína hönd allt það, er snertir rekstur atvinnu hans og rita firmað.  Þó er prókúruhafa óheimilt að selja eða veðsetja fasteignir umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð umbjóðanda.  Samkvæmt 28. gr. laganna ber prókúruhafa að einkenna undirskrift sína svo að sjá megi að ritað sé samkvæmt prókúruumboði. Enn fremur má binda prókúru því skilyrði að fleiri en einn riti hana, sbr. 26. gr. laganna. Aðrar takmarkanir en hér greinir verða ekki gerðar á prókúruumboði gagnvart grandlausum viðsemjanda samkvæmt lögunum.

Ekki er vísað til laga nr. 42/1903 í stefnu heldur til 16. gr. samþykkta stefnanda. Þar sem stjórnin hafði framselt rétt til að rita firmað til prókúruhafa kemur til athugunar hvort ofangreind takmörkun 25. gr. laga nr. 42/1903 á heimild prókúruhafa taki til hinnar umdeildu ráðstöfunar, en samkvæmt henni má prókúruhafi hvorki selja fasteign né veðsetja, nema í skjóli sérstaks umboðs.

Þau réttindi sem Jón A. Pálmason framseldi stefnda Guðfinni fyrir hönd stefnanda vörðuðu fasteign.  Var framseldur réttur til að fá tilboð í eignina sjálfkrafa samþykkt, gegn tiltekinni greiðslu, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Verður fallist á það með stefnanda að þessum réttindum verði jafnað til kaupsamnings um eignina.  Verður að telja að framsal á bindandi kauptilboði um fasteign sé háð takmörkun 25. gr. laga nr. 42/1903 á umboði prókúruhafa, þótt greiðslur samkvæmt slíku tilboði hafi ekki verið inntar af hendi.  Samkvæmt því var atbeini þriggja stjórnarmanna nauðsynlegur til að framselja réttindi stefnanda samkvæmt boðinu, sbr. 16. gr. samþykkta stefnanda.

Stefndu hafa vísað í vörn sinni til þess að framkvæmdastjóra stefnanda hafi verið þessi ráðstöfun heimil í krafti stöðuumboðs hans sem fram­kvæmda­stjóra, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Það umboð er bundið við þær athafnir sem teljast vera eðlilegar í daglegum rekstri fyrirtækis. Það umboð er, samkvæmt efni sínu, þrengra en prókúruumboð og því getur ekki falist í stöðuumboði samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laganna heimild til að selja fasteignir umbjóðanda eða ráðstafa réttindum yfir þeim.

Samkvæmt þessu verður fallist á að framsal Jóns A. Pálmasonar f.h. stefnanda á réttindum stefnanda samkvæmt ofangreindu til stefnda Guðfinns sé ógilt.  Ekki er á því byggt að stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. hafi verið grandlaus um hugsanlegan heimildarskort stefnda Guðfinns, er hann framseldi réttindin á ný. Verður því ekki á því byggt að stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. hafi öðlast betri rétt til eignarinnar við framsalið frá stefnda Guðfinni.

Þótt stefndi Guðfinnur hafi boðist til að afhenda sýslumanni greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum síðla kvölds hinn 19. desember 2001, verður ekki við annað miðað en að boð það sem aðilar deila um hvor hafi þá átt með réttu, hafi verið samþykkt hinn 20., sbr. endurrit úr gerðabók sýslumanns, sem frammi liggur í málinu.  Greiddu báðir aðilar, þ.e. stefnandi og stefndi Guðfinnur, tilskilda greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum þann dag. Er hér ekki til endurskoðunar sú ákvörðun sýslumanns að samþykkja boðið eftir að upprunalegur sam­þykkis­frestur var útrunninn.  Þar sem stefnandi greiddi sama dag og boðið var samþykkt og afhenti síðar fulla greiðslu í samræmi við skilmála, verður ekki litið svo á að réttindi hans samkvæmt því hafi fallið niður vegna vanefnda af hans hálfu.

Í þessu máli er deilt um það hvor aðila hafi með réttu verið handhafi þeirra réttinda sem fólust í boði stefnanda í eignina, þ.m.t. réttinda til að fá afsal fyrir henni úr hendi sýslumanns gegn greiðslu söluverðsins.  Í því ljósi og með skírskotun til forsendna dóms Hæstaréttar Íslands hinn 3. september sl. í máli nr. 379/2002, verður fallist á að stefnanda sé rétt að sækja þau í þessu máli, óháð reglum laga nr. 90/1991 um úrlausn ágreinings um nauðungarsölu.

Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. fékk útgefið afsal fyrir eigninni í skjóli réttindaframsals, sem hér hefur verið fallist á að stefnandi sé ekki bundinn af.  Með því að framsalið er ógilt, eins og að framan greinir, verður að fallast á það með stefnanda að hann eigi lögvarinn rétt til að fá eignina afhenta frá stefnda Fasteignafélaginu Rán ehf., gegn þeim greiðslum sem bar að inna af hendi samkvæmt boði stefnanda í hana og stefndu stóðu sýslumanni skil á.  Vaxta­ákvæði í stefnu er óákveðið, en var skýrt svo við munnlegan málflutning að átt væri við almenna vexti, sem reiknuðust frá þeim tíma sem bar að inna greiðslur af hendi hverju sinni samkvæmt uppboðsskilmálum.  Verður að miða hér við vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.  Ekki liggur að aðrir skilmálar hafi gilt við söluna en koma fram í auglýsingu nr. 41/1992, um að einum mánuði eftir samþykki boðs hafi átt að greiða annan fjórðung söluverðs og afganginn tveimur mánuðum þaðan í frá. Verður stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. samkvæmt þessu dæmdur til að gefa út afsal fyrir eigninni til stefnanda, gegn greiðslu 11.000.000 króna, ásamt vöxtum samkvæmt  4. gr. laga nr. 38/2001 af 2.750.000 krónum frá 20. desember 2001 til 20. janúar 2002, af 5.500.000 krónum frá þeim degi til 20. mars sama ár, en af 11.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefndu í sameiningu til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 300.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Gætt var þeirra atriða sem áskilið er í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en dómur var kveðinn upp.  Hafa lögmenn aðila lýst því yfir að þeir telji óþarft að endurflytja málið.

Dómsorð:

Viðurkennt er ógildi framsals Jóns A. Pálmasonar hinn 19. desember 2001 til stefnda Guðfinns Pálssonar á boði stefnanda, Hafanna sjö hf., í fasteignina Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð, ehl. II, 450 Patreksfirði, Vestur­byggð.  Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. skal gefa út afsal fyrir sömu fasteign til stefnanda gegn greiðslu 11.000.000 króna, ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af 2.750.000 krónum frá 20. desember 2001 til 20. janúar 2002, af 5.500.000 krónum frá þeim degi til 20. mars sama ár, en af 11.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði í sameiningu stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.