Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit


Mánudaginn 27. ágúst 2012.

Nr. 451/2012:

Yngvi Harðarson

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

Askar Capital hf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

Y kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni hans um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tveimur spurningum er lutu annars vegar að forgangsrétti kröfu við gjaldþrotaskipti og hins vegar að fjárhæð kröfu en í málinu lá fyrir að slitastjórn A hf. hafði einungis samþykkt kröfu Y að hluta. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans um að hafna því að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins hvað fyrri spurninguna varðaði þar sem ekki yrði séð að c. liður 12. gr. tilskipunar nr. 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, hefði þýðingu við úrlausn þess álitaefnis hvort krafa Y nyti forgangsréttar við slit A hf. Í ljósi málsatvika og kröfugerðar Y á hendur A hf. taldi Hæstiréttur nægjanlega fram komið að ákvæði tilskipunar nr. 91/533/EBE, um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, kynni að geta haft þýðingu þegar leyst væri úr kröfum Y á hendur A hf. í málinu og þar með á úrslit þess. Samkvæmt því og með vísan til laga nr. 21/1993 var fallist á kröfu Y um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því álitaefni er laut að síðari spurningunni, með því orðalagi sem nánar greindi í dómsorði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sem þar er rekið milli aðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem krafa sóknaraðila lýtur að. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Í hinum kærða úrskurði er skilmerkilega rakið efni ráðningarsamnings málsaðila, framkvæmd hans og gerð grein fyrir kröfu þeirri að fjárhæð 252.386 evrur sem sóknaraðili lýsti í slitabú varnaraðila vegna launa í uppsagnarfresti, áunnins orlofsréttar við starfslok og orlofs á uppsagnarfresti. Sóknaraðili lýsti kröfunni sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfuna að hluta sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga, að fjárhæð 23.548.832 krónur, en hafnaði því með vísan til 3. mgr. 112. gr. laganna að krafan yrði viðurkennd sem forgangskrafa.

Þar sem ágreiningur málsaðila um stöðu kröfunnar í forgangsröð og fjárhæð hennar varð ekki jafnaður, var þeim ágreiningi vísað til dómstóla og mál þar að lútandi þingfest 16. desember 2011 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Við meðferð málsins þar 4. maí 2012 lagði lögmaður sóknaraðila fram kröfu um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tveimur spurningum, sem hann telur máli skipta við úrlausn á ágreiningi málsaðila. Fyrri spurningin lýtur að forgangsrétti kröfu við gjaldþrotaskipti en sú seinni að fjárhæð kröfu. Ágreiningur er með málsaðilum um bæði þessi atriði, svo sem greinir í hinum kærða úrskurði, og er efni spurninganna orðrétt rakið þar.

II

Hvað fyrri spurninguna varðar byggir sóknaraðili, sem var framkvæmdastjóri tveggja sviða hjá varnaraðila, á því að launakrafa hans falli undir meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þar komi fram að kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag séu forgangskröfur. Telur sóknaraðili undantekningarreglu 3. mgr. lagagreinarinnar ekki geta átt við um kröfu hans, en samkvæmt því ákvæði njóti þeir sem nákomnir séu þrotamanni, eða félagi eða stofnun sem sé til gjaldþrotaskipta, ekki réttar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. greinarinnar.

 Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði rökstyður sóknaraðili þetta með því að vegna breytinga, sem gerðar hafi verið á EES-rétti og felldar hafi verið undir EES-samninginn, sé í landsrétti einstakra samningsríkja ekki lengur heimilt að undanþiggja launþega sem ber starfsheitið framkvæmdastjóri frá almennri launþegavernd. Bendir sóknaraðili í þeim efnum sérstaklega á c-lið 12. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB frá 22. október 2008, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að skýra undantekningarheimild 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af EES-rétti, og með svari EFTA-dómstólsins við fyrri spurningunni fáist úr því skorið hvort það samrýmist EES-rétti að láta orðið „nákomnir“ í 3. mgr. 112. gr. laganna taka til framkvæmdastjóra félags eins og varnaraðili byggi á.

Varnaraðili mótmælir framangreindum sjónarmiðum sóknaraðila og telur að hvað sem líði þeim breytingum á EES-rétti sem sóknaraðili vísi til, sé ljóst að þær breytingar hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt, enda sé ekki byggt á því af hálfu sóknaraðila. Þar sem þær reglur EES-réttar sem sóknaraðili vísi til hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt, verði ekki á þeim byggt. Því standi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 óhögguð eins og henni var breytt með 19. gr. laga nr. 95/2010. Það ákvæði hafi verið skýrt svo í íslenskri dómaframkvæmd að þeir sem hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félags teljist nákomnir í skilningi ákvæðisins, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 21. mars 2011 í máli nr. 114/2011. Varnaraðili bendir á að það sé vissulega svo að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Hins vegar felist það í málatilbúnaði sóknaraðila að reglur EES-réttar eigi að ganga framar reglum íslensks réttar í þeim tilvikum, þegar samræmi er ekki milli landsréttar og EES-réttar og Ísland hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til þess að innleiða viðkomandi EES-reglu í landsrétt. Þetta fái ekki staðist samkvæmt tvíeðliskenningunni sem gildi að íslenskum rétti, en samkvæmt henni séu landsréttur og þjóðaréttur tvö aðskilin réttarkerfi og þjóðaréttur verði ekki sjálfkrafa hluti landsréttar heldur þurfi í öllum tilvikum að innleiða reglu þjóðaréttar sérstaklega. Þá vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, bindi EES-gerðir sem séu eða verði hluti EES-samningsins ekki samningsaðila fyrr en þær hafi verið teknar upp í landsrétt með þeim hætti sem nánar greinir í 7. gr. EES-samningsins.

III

Samkvæmt málflutningi sóknaraðila rís síðari spurningin sem hann vill að borin verði undir EFTA-dómstólinn af því tilefni að slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfu hans einungis að hluta. Afstaða slitastjórnar í þeim efnum byggi á því að fyrir liggi í málinu að launum sóknaraðila hafi verið breytt til frambúðar með munnlegu samkomulagi málsaðila úr 15.000 evrum á mánuði í 1.500.000 krónur.

Þessari staðhæfingu mótmælir sóknaraðili og kveðst einungis hafa samþykkt tímabundna lækkun launa frá mánuði til mánaðar og því hafi ekki verið um varanlega breytingu að ræða á hinum skriflega ráðningarsamningi. Byggi sóknaraðili því kröfu sína á efni ráðningarsamningsins, bæði hvað varðar fjárhæð launa og orlofsrétt. Þar sem varnaraðili hafi ekki sagt ráðningarsamningi aðila upp beri hann sönnunarbyrði fyrir því að um önnur laun og starfskjör hafi verið samið en þau sem í ráðningarsamningi greinir. Eins og nánar segir í hinum kærða úrskurði vísar sóknaraðili í þessu sambandi til tilskipunar ráðsins 91/533/EBE frá 14. október 1991, um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. og áðurgreinda tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB frá 22. október 2008. Telur sóknaraðili að með svari EFTA-dómstólsins við seinni spurningunni fáist úr því skorið hvort það samrýmist EES-rétti að miða útreikning lýstrar kröfu ekki við skriflegan ráðningarsamning þegar aðstæður eru með þeim hætti sem í spurningunni greinir.

Í þinghaldi í héraði 14. maí 2012 óskaði varnaraðili eftir því að eftirfarandi yrði bókað: „Varnaraðili telur það ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að afla álits EFTA-dómstólsins. Það er dómara að taka ákvörðun um hvort hann telji þörf á því. Taki dómari málsins ákvörðun um að afla álits EFTA-dómstólsins vill varnaraðili gera athugasemdir við það að spurning nr. 2 eins og sóknaraðili leggur hana fram felur í sér staðhæfingar um atvik málsins sem deilt er um og ekki hafa verið færðar sönnur á af hálfu sóknaraðila.“

IV

Í 3. lið aðfaraorða tilskipunar 2008/94/EB um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota segir, að nauðsynlegt sé að kveða á um að launþegar njóti verndar við gjaldþrot vinnuveitanda og að tryggja lágmarksvernd, einkum til að tryggja greiðslur á óinnheimtum kröfum þeirra, með hliðsjón af því að þörf er á að jafnvægi ríki í efnahagslegri og félagslegri þróun innan Bandalagsins. Í þessu skyni skuli aðildarríkin koma á fót sjóði sem tryggi greiðslur á óinnheimtum kröfum hlutaðeigandi launþega. Í I. kafla tilskipunarinnar eru ákvæði um gildissvið hennar og skilgreiningar, í II. kafla um tryggingasjóði, í III. kafla um almannatryggingar, í IV. kafla um fjölþjóðleg tilvik og V. kafli hefur að geyma almenn ákvæði og lokaákvæði. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar í úrlausn um fyrri spurninguna er staðfest sú niðurstaða að hafna beri kröfu sóknaraðila um að leita svara EFTA-dómstólsins við þeirri spurningu.

Málatilbúnað sóknaraðila hvað síðari spurninguna varðar verður í hnotskurn að skilja á þann veg, að með henni vilji hann leita álits EFTA-dómstólsins á því, hvort ákvæði tilskipunar 91/533/EBE, sem leidd hafa verið í íslenskan rétt, eigi að skýra á þann hátt, að við gjaldþrotaskipti eða sambærileg skipti á hlutafélagi skuli bætur til launþega metnar á grundvelli skriflegs ráðningarsamnings.  Ekki verði vikið frá þeirri meginreglu nema launþeganum hafi verið afhent skriflegt skjal um breytingar sem kunni að hafa verið gerðar á meginatriðum ráðningarsamningsins eða ráðningarfyrirkomulags innan þeirra tímamarka sem í 5. gr. tilskipunarinnar greinir.

Í 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 91/533/EBE kemur fram, að aðildarríkin skuli samþykkja lög og stjórnsýslufyrirmæli sem nauðsynleg séu til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. júní 1993, eða tryggja eigi síðar en á þeim degi að aðilar vinnumarkaðarins setji nauðsynleg ákvæði með samningum sem leggja aðildarríkjunum þær skyldur á herðar að gera nauðsynlegar ráðstafanir er tryggi á öllum tímum þann ávinning sem af tilskipuninni hlýst. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríkin taka upp ákvæði í innlendu réttarkerfi sem gera öllum launþegum, sem telja á sér brotið vegna þess að ekki sé farið að kröfum tilskipunarinnar, kleift að sækja rétt sinn samkvæmt gildandi réttarreglum.

Tilskipun 91/533/EBE tók gildi hér á landi með auglýsingu félagsmálaráðuneytisins nr. 503 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 30. júní 1997. Í auglýsingunni segir að samkvæmt 25. tölulið í viðauka XVIII við EES-samninginn séu íslensk stjórnvöld skuldbundin af ákvæðum tilskipunarinnar. Að höfðu samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks hafi verið ákveðið að hrinda ákvæðum hennar í framkvæmd hér á landi með kjarasamningum, sbr. 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar.

Í auglýsingu félagsmálaráðuneytisins eru taldir upp þeir aðilar sem undirritað hafi samninga um framkvæmd tilskipunarinnar, en það eru Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands 10. apríl 1996, fjármálaráðherra annars vegar og Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hins vegar 25. júní 1996, Vinnumálasambandið og Alþýðusamband Íslands 28. ágúst 1997,  Reykjavíkurborg annars vegar og Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hins vegar 10. október 1996, og Launanefnd sveitarfélaga annars vegar og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna hins vegar 10. júní 1997. Í lok auglýsingarinnar segir að í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, séu laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um lágmarkskjör. Af framangreindu leiði að ákvæði tilskipunarinnar hafi tekið gildi hér á landi með framantöldum kjarasamningum og teljist lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði.

Í ljósi málsatvika og kröfugerðar sóknaraðila á hendur varnaraðila þykir nægjanlega fram komið, að ákvæði tilskipunar 91/533/EBE kunni að geta haft þýðingu þegar leyst er úr kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila í málinu og þar með á úrslit þess. Samkvæmt framansögðu og með vísan til ákvæða laga nr. 21/1994 er fallist á kröfu sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á seinni spurningunni, en orðalagi hennar verður hagað á þann veg sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvörðun málskostnaðar í héraði hvað þennan þátt málsins varðar bíður endanlegrar úrlausnar málsins þar. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Leita skal ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

Ber að skýra ákvæði tilskipunar 91/533/EBE 14. október 1991, um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, á þann veg, þar með talið við gjaldþrotaskipti eða sambærileg skipti á hlutafélagi, að bætur til launþega skuli metnar á grundvelli skriflegs ráðningarsamnings, hafi launþeganum ekki verið afhent skriflegt skjal um breytingar sem kunna að hafa verið gerðar, tímabundið eða varanlega, á meginatriðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags aðila innan tímamarka samkvæmt 5. gr. tilskipunarinnar?

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2012.

I

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Askar Capital hf. slitastjórn 14. júlí 2010. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 19. júlí sama ár. Sóknaraðili, Yngvi Harðarson, Háaleitisbraut 133, Reykjavík, lýsti kröfu á hendur varnaraðila um laun í uppsagnarfresti, auk orlofs og tryggingagjalds, alls að fjárhæð 252.836 evrur. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfuna að hluta sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 23.548.832 krónur, en hafnaði því að krafan yrði viðurkennd sem forgangskrafa og vísaði í því efni til 3. mgr. 112. gr. sömu laga. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til dómstóla. Var málið þingfest 16. desember 2011.

Í greinargerð sinni til dómsins krefst sóknaraðili þess aðallega að krafa hans, að fjárhæð 39.932.513 krónur, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og beri dráttarvexti frá 1. desember 2010 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að krafa hans, að því marki sem hún hefur ekki verið viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 16.383.681 króna, verði viðurkennd sem almenn krafa. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar, auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Í þinghaldi í máli þessu 4. maí sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tveimur þar tilgreindum spurningum. Í tilefni þessa ákvað dómari að gefa aðilum kost á að tjá sig um álitaefnið 23. maí sl. Í upphafi þinghalds þann dag lagði sóknaraðili fram nýjar tillögur að spurningum til EFTA-dómstólsins. Orðrétt hljóða þær þannig:

Fyrsta spurning: Verða ákvæði EES-réttar, sérstaklega ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2008/94/EB frá 22. október 2008 um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, túlkuð svo, að heimilt sé við gjaldþrotaskipti eða sambærileg skipti á hlutafélagi að svipta framkvæmdastjóra tiltekins sviðs félagsins (eins af sex sviðum), sem hafði talsverð áhrif á starfsemi þess sviðs, en laut í starfi sínu yfirstjórn forstjóra, sem hafði með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins, sat ekki í stjórn félagsins, og var ekki hluthafi í því (átti á tímabili óverulegan hlut, allt að 1,6994% beint og óbeint),

(1) forgangsrétti bótakröfu sinnar vegna missis launa á 12 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt skriflegum ráðningarsamningi eftir að slitastjórn félagsins tilkynnti framkvæmdastjóranum að hún myndi ekki taka við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningnum, og

(2) forgangsrétti kröfu sinnar vegna áunnins orlofs og kröfu til orlofslauna í uppsagnarfresti, sbr. til dæmis ákvæði 11. greinar og c-liðar 12. greinar tilskipunarinnar?

Önnur spurning: Er það samrýmanlegt ákvæðum EES-réttar, sérstaklega ákvæðum tilskipunar Ráðsins frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi (91/533/EBE) (til dæmis ákvæðum inngangsorða, 2. gr. og 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar), sbr. og tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 2008/94/EB frá 22. október 2008 um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota (til dæmis 11. gr. tilskipunarinnar), að við gjaldþrotaskipti eða sambærileg skipti á hlutafélagi,

(1) séu bætur til launþegans í þeirri stöðu, sem greinir í fyrstu spurningu, vegna missi launa á uppsagnarfresti ekki ákveðnar með hliðsjón af mánaðarlaunum hans samkvæmt skriflegum ráðningarsamningi, ef svo stendur á, að hann hafi um 18 mánaða skeið fyrir slitin vegna rekstrarerfiðleika félagsins og samkvæmt sérstökum beiðnum forstjóra félagsins af og til á þessu 18. mánaða skeiði, dregist á að taka við lægri mánaðarlaunum en samningurinn sagði til um án þess að gerð væri breyting á ráðningarsamningnum og ef það hefur verið sameiginlegur skilningur launþegans og forstjóra, að ekki væri um varanlega skipan að ræða,

(2) sé 12 mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt ráðningarsamningi hans styttur í þrjá mánuði, þó að samningi hans hafi ekki verið breytt, og

(3) séu áfallin orlofslaun, sem voru í skuld við upphaf slitameðferðar og orlofslaun hans á uppsagnarfresti ekki ákvörðuð samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings að því er varðar tímalengd og launaupphæð (full samningslaun í 12 mánuði), heldur miðuð við hina lækkuðu launaupphæð (sbr. tölulið 1 að framan) og þriggja mánaða uppsagnarfrest (sbr. tölulið 2 að framan)?

Að loknum munnlegum málflutningi var málið tekið til úrskurðar um beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.

II

Helstu atvik eru þau að með ráðningarsamningi 18. desember 2006 var sóknaraðili ráðinn framkvæmdastjóri ráðgjafar og áhættustýringar hjá Askar Capital hf. frá og með 1. janúar 2007. Var samningurinn ótímabundinn, en uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila með 12 mánaða fyrirvara. Samkvæmt 1. gr. hans var forstjóri félagsins næsti yfirmaður sóknaraðila. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að starfi hans hafi verið breytt í byrjun október 2008, og hafi hann þá, í stað fyrra starfs, verið ráðinn sem framkvæmdastjóri áhætturáðgjafar. Hafi hann gegnt því starfi allt þar til Askar Capital hf. var tekið til slitameðferðar í júlí 2010.

Samkvæmt 3. gr. ráðningarsamningsins voru mánaðarlaun sóknaraðila ákveðin 15.000 evrur. Þá sagði í 5. gr. að orlofsréttur væri 32 vinnudagar á ári. Á grundvelli ráðningarsamningsins lýsti sóknaraðili kröfu í slitabú varnaraðila vegna launa í uppsagnarfresti, auk áunnins orlofsréttar við starfslok, svo og vegna orlofs á uppsagnarfresti.

Eins og áður greinir hafnaði slitastjórn varnaraðila kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu með vísan til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en samþykkti kröfuna að hluta sem almenna kröfu, samtals að fjárhæð 23.548.832 krónur. Í afstöðu slitastjórnar fólst að miðað var við mánaðarlaun að fjárhæð 1.500.000 krónur. Taldi slitastjórn að fyrir lægi að launakjörum sóknaraðila hefði verið breytt með munnlegu samkomulagi úr 15.000 evrum á mánuði í 1.500.000 krónur á mánuði.

III

Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., njóti kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag, stöðu sem forgangskröfur. Samkvæmt 2. tl. sömu greinar njóti kröfur um bætur fyrir slit á vinnusamningi á sama tímabili sömu rétthæðar. Meginreglan sé því sú að launakröfur séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Í ljósi þessa byggir sóknaraðili á því að launakrafa hans falli undir meginreglu 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga og að undantekningarheimild 3. mgr. 112. gr. laganna, sem varnaraðili vísi til, eigi ekki við um kröfu hans, þar sem skýra beri ákvæðið með hliðsjón af EES-rétti samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993, um evrópska efnahagssvæðið. Afstaða varnaraðila og túlkun ákvæðisins verði að byggja á þeim lögum og tilskipunum sem Ísland sé bundið af hverju sinni. Í því sambandi vísar sóknaraðili til þess að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/94/EB frá 22. október 2008, um vernd starfsmanna við gjaldþrot vinnuveitanda, hafi samkvæmt efni sínu tekið gildi 25. apríl 2009, sbr. 3. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 51/2009 frá 24. apríl 2009, en með þeirri ákvörðun hafi átt að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2008/94/EB. Um leið hafi verið felld úr gildi tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE. Tilskipun nr. 2008/94/EB hafi þannig að fullu verið innleidd í EES-rétt þegar bú varnaraðila hafi verið tekið til slita 14. júlí 2010. Að dómi sóknaraðila sé orðalag tilskipunarinnar skýrt, en með því sé verið að þrengja undantekningarheimildir sem verið höfðu í viðauka XVIII við EES-samninginn og veita fleiri launþegum vernd en verið hafði. Byggir sóknaraðili á því að niðurfelling undanþágu Íslands í 24. tölulið H-þætti viðauka XVIII við upphaflega EES-samninginn, hafi með ótvíræðum hætti fellt sóknaraðila undir meginregluna, og njóti launakrafa hans því verndar sem forgangskrafa við slit sóknaraðila.

Til frekari skýringar bendir sóknaraðili á að við eldri tilskipunina, nr. 80/987/EBE, hafi í samningnum um evrópska efnahagssvæðið verið gerður viðauki XVIII, sem m.a. hafi falið í sér undanþágur frá þeirri vernd launþega við gjaldþrot sem tilskipunin annars veitti. Megi þar helst nefna 3. tl. undir H-lið 24. tl., sem hljóðaði þannig: „Framkvæmdastjóri gjaldþrota félags eða aðrir sem vegna starfa sinna fyrir félagið höfðu þá yfirsýn yfir fjárhag þess að þeim mátti vera ljóst að gjaldþrot vofði yfir þegar teknanna var aflað.“ Þessi undanþága hafi hins vegar fallið niður þegar tilskipun nr. 2008/94/EB hafi verið tekin inn í EES-rétt, enda hafði Ísland með ákvörðun nr. 51/2009 samþykkt að fella niður þær undanþágur er birtust í 24. lið viðauka XVIII, m.a. undanþáguna er snéri að framkvæmdastjórum gjaldþrota félaga. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 114/2011, sem varnaraðili vísi til sem rökstuðnings fyrir því að hafna beri forgangsrétti kröfu sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sé því ekki fordæmi lengur í íslenskum rétti, þar sem undanþágan hafi verið felld brott. Ákvæði, sem undanskilji launþega sem beri starfsheitið framkvæmdastjóri frá almennri launaþegavernd, sé því ekki lengur gilt að EES-rétti. Samkvæmt þessu telur sóknaraðili að varnaraðila sé ekki heimilt að hafna kröfu hans sem forgangskröfu með vísan til þess að hann hafi verið titlaður framkvæmdastjóri.

Sóknaraðili telur að athugasemdir með breytingarlögum nr. 95/2010, sem lutu að breytingum á 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, gangi í berhögg við þann rétt sem tilskipun nr. 2008/94/EB, um vernd starfsmanna við gjaldþrot vinnuveitanda, kveði á um. Að sama skapi telur sóknaraðili að rökstuðningur varnaraðila fyrir synjun kröfunnar standist ekki. Þannig sé í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2010 gert ráð fyrir að undanþágur frá launþegavernd við gjaldþrot vinnuveitanda verði útvíkkaðar frá því sem verið hafði. Tilgangurinn með tilskipun nr. 2008/94/EB hafi hins vegar verið að þrengja undanþágur frá launþegavernd. Orðalag 3. mgr. 112. gr. laga 21/1991 sé því ekki sniðið eftir efni tilskipunarinnar, en þó sé spurning hvort ákvæðið verði ekki skýrt í samræmi við ákvæði c-liðar 12. gr. tilskipunar nr. 2008/94/EB og efni þess lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Telur sóknaraðili að ákvæði c-liðar 12. gr. tilskipunarinnar eigi að réttum lögum að gilda um þetta efni, en það hljóði þannig:

„Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja:

c) til að hafna eða draga úr þeirri greiðsluábyrgð, sem um getur í 1. mgr., 3. gr., eða þeirri greiðsluskyldu, sem um getur í 7. gr., þegar um er að ræða launþega sem átti einn, eða á móti nákomnum ættingja, verulegan hlut í fyrirtæki eða rekstri vinnuveitandans og hafði talsverð áhrif á starfsemina.“

Með vísan til ofanritaðs byggir sóknaraðili á því að til þess að undanþiggja megi hann frá þeirri launþegavernd sem 12. gr. tilskipunar nr. 2008/94/EB veiti, þurfi hann bæði að hafa átt verulegan eignarhlut í viðkomandi félagi og hafa haft talsverð áhrif á starfsemina. Þar sem hvorugt skilyrðið eigi við í tilviki sóknaraðila beri að skýra 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga í samræmi við tilskipunina, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, um evrópska efnahagssvæðið, og viðurkenna launakröfu hans sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila. Með fyrri spurningu sinni til EFTA-dómstólsins, eins og hún er orðuð í beiðni sóknaraðila til dómsins 23. maí sl., telur sóknaraðili að úr því fáist skorið hvort heimilt sé þrátt fyrir ofanritað að láta orðið „nákomnir“ taka til framkvæmdastjóra, eins og varnaraðili byggi á.

Um fjárhæð kröfunnar kveðst sóknaraðili miða við ákvæði ráðningarsamnings aðila, bæði um fjárhæð mánaðarlauna og orlofsrétt. Um leið mótmælir hann því að hann hafi fallist á að skerðing launa hans frá 1. janúar 2009 yrði til frambúðar. Þvert á móti beri gögn málsins með sér að hann hafi aðeins samþykkt tímabundna lækkun launanna, frá mánuði til mánaðar, og hafi fyrrverandi forstjóri varnaraðila staðfest að svo hafi verið. Varnaraðili hafi hins vegar aldrei sagt upp ráðningarsamningnum. Beri varnaraðili alfarið sönnunarbyrði fyrir því að um önnur laun og starfskjör hafi verið samið en þar greini. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til tilskipunar nr. 91/533/EBE, sbr. auglýsingu nr. 503/1997 frá 30. júní 1997, um gildistöku tilskipunar sem kveði á um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Skyldunni hafi verið fullnægt með ráðningarsamningnum og beri varnaraðila því skylda til að miða kröfur sóknaraðila við þann samning. Þar sem ágreiningur sé um þetta atriði telur sóknaraðili mikilvægt að fá álit EFTA-dómstólsins á því hvort ákvörðun varnaraðila um að víkja frá skriflegu ákvæði ráðningarsamnings um lengd uppsagnarfrests brjóti í bága við áðurnefnda tilskipun ráðsins nr. 91/533/EBE, svo og tilskipun ráðsins nr. 2008/94/EB.

Til stuðnings beiðni sinni um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vísar sóknaraðili til 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

IV

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að þar sem sóknaraðili hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra ráðgjafar og áhættustýringar hjá Askar Capital hf. falli krafa hans undir 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þar af leiðandi sé því hafnað að krafan njóti forgangs á grundvelli 112. gr. laganna.

Varnaraðili telur, og vísar í því efni til greinargerðar sóknaraðila, að ekki sé ágreiningur um að krafa sóknaraðila njóti ekki forgangs samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Hins vegar byggi sóknaraðili á því að reglur EES-réttar eigi að ganga framar reglum íslensks réttar þar sem Ísland hafi skuldbundið sig að þjóðarétti til að innleiða umræddar reglur, auk þess sem skýra beri íslenskar réttarreglur til samræmis við EES-reglur, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993. Þá vísi sóknaraðili til breytinga á EES-rétti, sem í stuttu máli eigi að leiða til þess að ekki sé lengur heimilt að undanskilja framkvæmdastjóra gjaldþrota félaga frá vernd tilskipunarinnar um vernd starfsmanna við gjaldþrot vinnuveitenda. Varnaraðili mótmælir þessum málsástæðum sóknaraðila, og bendir á að hvað sem líði þeim breytingum sem sóknaraðili vísi til, sé ljóst að þær hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt, enda ekki byggt á því af hálfu sóknaraðila. Þar af leiðandi standi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 óhögguð, ásamt þeim skýringum sem fram komi í greinargerð með ákvæðinu, sem og þeir hæstaréttardómar þar sem fjallað hafi verið um ákvæðið og skýringu þess. Þá leggur varnaraðili áherslu á að í íslenskum rétti sé almennt viðurkennt að í gildi sé meginregla sem kölluð hafi verið tvíeðliskenningin. Í stuttu máli feli hún í sér að landsréttur og þjóðaréttur séu tvö aðskilin réttarkerfi og sé þjóðaréttur ekki sjálfkrafa hluti af landsrétti, nema í þeim tilvikum að reglur þjóðaréttar hafi sérstaklega verið innleiddar. Þar sem þær reglur EES-réttar sem sóknaraðili vísi til hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt, byggir varnaraðili á því að sóknaraðili geti ekki á þeim byggt. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um að krafa hans njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. 

V

Í þinghaldi í máli þessu 14. maí sl. óskaði varnaraðili eftir því að bókað yrði að hann teldi það ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að afla álits EFTA-dómstólsins. Það væri dómara að taka ákvörðun um hvort hann teldi þörf á því. Tæki dómari málsins hins vegar ákvörðun um að afla umbeðins álits kvaðst varnaraðili gera athugasemdir við það að í síðari spurningu sóknaraðila fælust staðhæfingar um atvik málsins, sem deilt væri um, og ekki hefðu verið færðar sönnur á af hálfu sóknaraðila. Í tilefni af skriflegri tillögu sóknaraðila að nýjum spurningum til EFTA-dómstólsins, sem hann lagði fram í þinghaldi 23. maí sl., óskaði sóknaraðili eftir því að bókað yrði að hann teldi enn að í síðari spurningunni fælust ósannaðar staðhæfingar um atvik. Þá taldi hann að óljóst væri hverjar hefðu verið raunverulegar starfsskyldur og áhrif sóknaraðila hjá varnaraðila, og vísaði þar til fyrri spurningar í beiðni sóknaraðila.

Eins og áður greinir lýsti sóknaraðili kröfu í slitabú varnaraðila um laun í uppsagnarfresti og orlof samkvæmt ráðningarsamningi. Kröfum þessum lýsti hann sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ágreiningslaust er að samkvæmt ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eru ákveðnir aðilar útilokaðir frá forgangsrétti fyrir launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu, bótum vegna ráðningarslita og orlofsfé eða orlofslaunum við gjaldþrot félags. Af hálfu sóknaraðila er hins vegar byggt á því að skýra þurfi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 í samræmi við tilskipun nr. 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnu-veitandi gjaldþrota, en þar komi fram í c-lið 12. gr. að tilskipunin hafi ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að hafna greiðsluábyrgð eða greiðsluskyldu við gjaldþrot vinnuveitanda þegar um sé að ræða launþega sem átti einn, eða á móti nákomnum ættingja, verulegan hlut í fyrirtæki eða rekstri vinnuveitandans og hafði talsverð áhrif á starfsemina. Telur sóknaraðili að staða hans, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri eins sviða varnaraðila, rúmist ekki innan þeirra skilyrða sem tilskipunin mæli fyrir um að þurfi að vera fyrir hendi svo hægt sé að undanþiggja aðila forgangsrétti.

Að því er varðar síðari spurningu sóknaraðila telur hann nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort sú afstaða varnaraðila að víkja frá skriflegum ráðningarsamningi og miða mánaðarlaun sóknaraðila við 1.500.000 krónur í stað 15.000 evra, eins og kveðið sé á um í ráðningarsamningi aðila frá 18. desember 2006, brjóti í bága við tilskipun nr. 91/533/EBE, um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, og tilskipun nr. 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota.

Við munnlegan flutning málsins 23. maí sl. kvaðst varnaraðili ekki mótfallinn því að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem áður greinir, en taldi þó að í báðum spurningum kynnu að felast ósannaðar staðhæfingar um atvik málsins.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., eru kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns, sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag, forgangskröfur. Hinu sama gegnir um kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á sama tíma eða eftir frestdag, svo og kröfur um orlofsfé eða orlofslaun sem réttur hefur unnist til, sbr. 2. og 3. tl. sömu greinar. Ákvæði 3. mgr. 112. gr., eins og því var breytt með 19. gr. laga nr. 95/2010, mælir hins vegar svo fyrir að þeir sem nákomnir séu þrotamanni eða félagi eða stofnun sem sé til gjaldþrotaskipta njóti ekki réttar samkvæmt 1-3. tl. 1. mgr. 112. gr. fyrir kröfum sínum.

Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 51/2009 frá 24. apríl 2009, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, var tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, felld inn í EES-samninginn. Öðlaðist ákvörðun þessi gildi 25. apríl 2009. Samkvæmt  c-lið 12. gr. tilskipunarinnar hefur hún ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna „til að hafna eða draga úr þeirri greiðsluábyrgð, sem um getur í 1. mgr., 3. gr., eða þeirri greiðsluskyldu, sem um getur í 7. gr., þegar um er að ræða launþega sem átti einn, eða á móti nákomnum ættingja, verulegan hlut í fyrirtæki eða rekstri vinnuveitandans og hafði talsverð áhrif á starfsemina“, eins og orðrétt segir þar. Í tilvitnaðri 3. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tryggingasjóðir ábyrgist greiðslur á óinnheimtum kröfum launþega, sem byggðar eru á ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi, en í 7. gr. er fjallað um ráðstafanir til þess að tryggja að vangreidd skylduiðgjöld vinnuveitanda til tryggingasjóða takmarki ekki rétt launþegans til bóta. Í ljósi þessa verður ekki séð að ákvæði c-liðar 12. gr. tilskipunar nr. 2008/94/EB hafi nokkra þýðingu við úrlausn þess álitaefnis hvort krafa sóknaraðila njóti forgangsréttar við slit varnaraðila. Önnur ákvæði nefndrar tilskipunar skipta hér heldur ekki máli. Þegar af þeirri ástæðu verður beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins við skýringu á umræddu ákvæði hafnað.

Kemur þá til athugunar hvort óska skuli álits EFTA-dómstólsins á síðari spurningu sóknaraðila, sbr. hér að framan, en eins og áður greinir lýtur hún að túlkun á tilskipun nr. 91/533/EBE, um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, og tilskipun nr. 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota. Augljóst er af málatilbúnaði aðila og framlögðum gögnum að spurning þessi felur í sér nokkrar staðhæfingar um atvik, sem ágreiningur stendur um og hafa ekki verið sannaðar. Er því einnig hafnað beiðni sóknaraðila um að leita álits EFTA-dómstólsins á því álitaefni sem spurning hans lýtur að, enda fer sönnunarfærsla um staðreyndir máls fram fyrir íslenskum dómstólum.

Samkvæmt ofanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri beiðni sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á framangreindum álitaefnum.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði endanlegar efnisúrlausnar.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Beiðni sóknaraðila, Yngva Harðarsonar, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli þessu, er hafnað.

Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegrar efnisúrlausnar.