Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2017 þar sem beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns var hafnað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni hans um dómkvaðningu matsmanns verði tekin til greina. Þá krefst hann aðallega kærumálskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurbjörg Sigtryggsdóttir, greiði varnaraðila, A Faktoring ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2017.
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu ógreidds reiknings fyrir smíðavinnu sem GJ verk slf. vann fyrir stefndu. Stefnandi hefur keypti kröfuna af GJ verki.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að hún hafi þegar greitt Guðna Jóhanni Brynjólfssyni, forsvarsmanni GJ verks, reikninginn og vísar til sex innborgana hennar inn á reikning Guðna, samtals að fjárhæð 1.280.000 krónur. Reikningurinn sem um er deilt sé því þegar greiddur Um lagarök vísar hún til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. að stefnandi eigi ekki aðild af málinu af ofangreindum sökum. Auk þess vísar hún til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 42/2000 og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936.
Í matsbeiðni stefndu kemur fram að tilgangur matsins sé sá að sýna fram á að verkið sem liggi að baki umdeildum reikningi sé haldið galla og settar eru fram fjórar spurningar til matsmanns sem lúta að kostnaðarmati á verkinu, ágalla á því og kostnaði við að bæta úr þeim sem og afnotamissi á viðgerðartíma.
Þótt fram komi í greinargerð stefndu að hún telji verkið hafa verið illa unnið og ekki fullklárað þá byggir hún sýknukröfu sína ekki á þeirri málsástæðu heldur einvörðungu þeirri sem að framan greinir, að þegar hafi verið greitt fyrir það. Verður því að fallast á það með stefnanda að matsgerð sem lýtur að ætluðum göllum á verkinu sé þýðingarlaus fyrir úrslausn málsins. Verður beiðninni því hafnað með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.