Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2001


Lykilorð

  • Rán
  • Tilraun
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. janúar 2002.

Nr. 409/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Davíð Inga Þorsteinssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Rán. Tilraun. Ítrekun.

D var sakfelldur fyrir tvö rán og tvær ránstilraunir. Þóttu brot hans hættuleg og fólskuleg. Við ákvörðun refsingar var litið til 60. gr., 77. gr. og 71. gr. laga nr. 19/1940 og var D gert að sæta fangelsi í 3 ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. október 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti verjandi ákærða því yfir að ákærði félli frá áfrýjun af sinni hálfu í samræmi við yfirlýsingu hans 2. janúar sl. og bréf verjandans til ríkissaksóknara sama dag. Ákærði krefst þess engu að síður að refsingin verði milduð.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir tvö rán dagana 23. og 26. maí 2001 og tvær tilraunir til ráns fyrrgreindan dag og 27. sama mánaðar. Varða fyrrgreindu tvö brot hans við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þau síðargreindu tvö við sama ákvæði, sbr. 20. gr. laganna. Ákærði var dæmdur 28. nóvember 1996 í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað úr bifreið. Hann var dæmdur á ný 2. febrúar 1998 í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir að hafa brotist inn í verslun 9. júlí 1997 og stolið þaðan ýmsum verðmætum. Var refsing samkvæmt fyrri dóminum tekin upp og dæmd með. Enn var ákærði dæmdur 12. mars 1998 fyrir að hafa brotist inn í íbúðarhús í júlí 1997 og stolið þaðan verðmætum að fjárhæð tæplega 100.000 krónum auk útfyllts tékka. Með því broti rauf ákærði skilorð dómsins frá 28. nóvember 1996. Var refsing samkvæmt þeim dómi dæmd með, þrátt fyrir að það hefði áður verið gert með dóminum 2. febrúar 1998.  Þar sem brotið var framið áður en ákærði hlaut síðastgreindan dóm var jafnframt höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum við ákvörðun refsingar hans, sem ákveðin var fangelsi í 3 mánuði. Loks var ákærði dæmdur 9. desember 1999 í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir skjalafals. Með brotum þeim, sem hér eru til umfjöllunar, hefur ákærði rofið skilorð þess dóms. Ber því nú að dæma hann í einu lagi fyrir framangreind rán og ránstilraunir og það brot, sem hann var sakfelldur fyrir með dóminum 9. desember 1999, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Við ákvörðun refsingar er einnig höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Brot ákærða voru hættuleg og fólskuleg. Hann réðst á fórnarlömb sín, þar á meðal konu og roskinn karlmann, og ógnaði þeim, eins og nánar er lýst er í ákæru, með oddhvössum hlut, sög, brotinni flösku og sprautu. Var síðastgreind atlaga hans sérstaklega ófyrirleitin og hættuleg, þar sem nál sprautunnar var með blóði úr ákærða, sem smitaður er af lifrarbólguveiru C (Hepatiti C). Með brotum sínum hefur ákærði ennfremur ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga og 255. gr. sömu laga, en eins og fyrr segir var hann dæmdur 12. mars 1998 fyrir þjófnað í þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þegar allt framangreint er virt er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivist ákærða gæsluvarðhald hans frá 29. maí 2001.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og upptöku skulu vera óröskuð. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Davíð Ingi Þorsteinsson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald hans frá 29. maí 2001.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2001.

Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 16. júlí 2001, á hendur Davíð Inga Þorsteinssyni, kt. 020576-4569, nú gæsluvarðhaldsfanga.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. þessa mánaðar.

Málið er höfðað:  “...fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík árið 2001:

[1]

Rán, með því að hafa miðvikudaginn 23. maí farið inn í bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18, veist þar að Páli Ragnari Pálssyni, sem var við afgreiðslu, tekið hann hálstaki aftan frá og rekið oddhvassan hlut í hnakka hans og þannig neytt hann til að afhenda sér um kr. 21.000 úr peningakassa verslunarinnar. 

[2]

Tilraun til ráns, með því að hafa síðar sama dag farið vopnaður lítilli sög inn í verslunina Tiffany´s við Óðinsgötu 7, veist þar að Björgu Hauksdóttur, sem var ein við afgreiðslu, hótað henni með söginni og ráðist á hana með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið og þannig reynt að neyða hana til að afhenda sér peninga.  Ákærði hörfaði af vettvangi eftir að Gústaf Adolf Gústafsson, kom inn í verslunina og skarst í leikinn, en þá voru ákærði og Björg í átökum á gólfinu.

[3]

Rán, með því að hafa laugardagskvöldið 26. maí farið vopnaður brotinni flösku inn í gistiheimili við Flókagötu 1, veist þar að Oliver Kristóferssyni, sem var einn við afgreiðslu, hótað honum með flöskubrotinu og þannig neytt hann til að afhenda sér um kr. 5.000 úr peningakassa gistiheimilisins.

[4]

Tilraun til ráns, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. maí farið vopnaður sprautu inn í Hótel Lind við Rauðarárstíg, veist þar að Jóhanni Ólafi Kjartanssyni, sem var einn við afgreiðslu og ráðist að honum með því að stökkva yfir afgreiðsluborð hótelsins, hótað honum með sprautunni og þannig reynt að neyða hann til að afhenda sér peninga.  Lentu þeir í átökum fyrir innan afgreiðsluborðið, en Jóhanni Óla tókst að losa sprautuna úr hendi ákærða og halda honum föstum þar til lögregla kom á vettvang.  Sprautan var með sprautunál í, sem á var blóð úr ákærða, en hann er smitaður af lifrabólguveiru C (Hepatiti C).

[5]

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sömu nótt í vörslum sínum 0,68 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit í buxnavasa ákærða.”

Brot samkvæmt liðum 1 og 3 eru talin varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Brot samkvæmt liðum 2 og 4 eru talin varða við 252. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.  Brot samkvæmt lið 5 er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980 og nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. 

Ákæruvald krefst refsingar og upptöku á framangreindu amfetamíni. 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa.

Ákæruliður 1.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna neitt eftir þessu atviki.  Hann kvaðst á þessum tíma hafa neytt mikils af vímuefnum. 

Um þennan ákærulið gáfu skýrslur fyrir dómi vitnin Páll Ragnar Pálsson, Laufey Ástríður Ástráðsdóttir og Árni Snævarr Guðmundsson. 

Páll Ragnar Pálsson kvaðst hafa verið að vinna við tölvu á bak við afgreiðsluborð í kjallara verslunarinnar.  Hann hefði veitt tveimur mönnum athygli, þeir hefðu verið á ferð í búðinni, en ekki virst vera að skoða neitt eða eiga sérstakt erindi.  Þeir hafi síðan farið upp.  Nokkru síðar hafi hann tekið eftir því að annar þessara tveggja manna kom niður og fór snögglega á bak við afgreiðsluborðið til hans og tók hann hálstaki.  Hann hafi otað einhverju oddhvössu að hálsinum á sér og sagt sér að tæma peningakassann.  Páll kvaðst hafa gert það, tekið plastpoka og tekið alla seðla og mynt nema krónupeninga úr kassanum og látið manninn fá.  Maðurinn hafi talað mikið á meðan, afsakað sig, sagst vera sprautufíkill og fleira. 

Páll lýsti útliti og fatnaði mannsins.  Hann hefði verið með ljóst aflitað hár og rakað í hliðunum, hafi verið úfinn.  Hann hafi verið nokkuð þrekinn og þrútinn eða rauður í andliti.  Hann hafi verið í grænni og dökkri skræpóttri skyrtu og í bol innanundir.  Hann hafi verið með uppbrettar ermar og kvaðst Páll hafa tekið eftir kroti á framhandleggjum hans. 

Páll sagði að þeir hefðu giskað á að maðurinn hefði fengið um 20.000 krónur úr kassanum. 

Loks staðfesti Páll að hann hefði farið í sakbendingu hjá lögreglunni 21. ágúst.  Þar hefði hann séð á einni blaðsíðu myndir af 16 einstaklingum.  Hann benti þar á mynd af ákærða og taldi hann líkastan þeim er rændi.  Tók hann fram í skýrslu sinni fyrir dómi að eftir á hefði hann orðið sannfærðari um að ábending sín hefði verið rétt. 

Varðandi gildi þessarar sakbendingar verður að taka fram að verjanda ákærða var ekki gefinn kostur á að vera viðstaddur og gera þá athugasemdir við framkvæmd sakbendingarinnar, þar á meðal val mynda og uppröðun þeirra. 

Laufey Ástríður Ástráðsdóttir er deildarstjóri í verslun Máls og menningar.  Hún sagði fyrir dómi að rétt áður en ránið var framið hafi hún tekið eftir tveimur mönnum í versluninni.  Hefðu þeir sýnilega ekki átt þar neitt erindi.  Svo hefði hún tekið eftir er annar sagði að hann myndi bíða eftir hinum úti, en hinn hefði farið niður í kjallara verslunarinnar.  Skömmu síðar hefði hún tekið eftir því að hann kom hlaupandi upp og flýtti sér út.  Hún hefði litið til hans til að kanna hvort hann væri með eitthvað, en hún hefði ekki séð neitt.  Síðan hefði Páll Ragnar komið upp og honum hefði sýnilega verið mjög brugðið.

Laufey Ástríður tók þátt í myndsakbendingu á sama hátt og Páll Ragnar, en gat ekki bent á neinn. 

Vitnið Árni Snævarr Guðmundsson staðfesti fyrir dómi að hann hefði komið með ákærða í verslun Máls og menningar.  Þeir hefðu hist á Landsspítalanum og farið þaðan saman niður í miðbæ.  Þeir hafi verið inni í versluninni og þá hafi ákærði sagt sér að hann ætlaði að ræna verslunina.  Hann hafi ætlað að taka tússpenna eða eitthvað til að nota við ránið.  Vitnið sagði að sér hefði ekki litist á að þetta gæti tekist og hefði hann farið út.  Hann hefði hitt ákærða daginn eftir og hefði hann þá sagt sér að ránið hefði tekist, en að hann hefði falið peningana og týnt þeim. 

Auk gagna um sakbendingu eru meðal gagna málsins ljósmyndir er teknar voru af ákærða hjá lögreglunni daginn eftir að ránið var framið.  Sýna þær að lýsing vitnisins Páls Ragnars getur vel átt við ákærða, utan hvað hann virðist ekki hafa verið í grænni skyrtu. 

Með lýsingum vitnanna Páls Ragnars og Laufeyjar Ástríðar og framburði Árna Svævarrs Guðmundssonar er fram komin næg sönnun þess að ákærði hafi framið brot það sem lýst er í fyrsta lið ákæru.  Þarf sönnun ekki að styðjast sérstaklega við myndsakbendingu þá er getið er að framan.  Brotið er réttilega fært til 252. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 2.

Um þennan ákærulið bar ákærði fyrir dómi að hann myndi eftir því að hafa farið inn í verslunina með sögina.  Afgreiðslukonan hefði barið sig með einhverju gleri og síðan hefði maður komið inn og tekið í sig.  Hann hefði síðan sloppið út.  Hann kvaðst muna eftir því að hafa beðið afgreiðslukonuna um peninga.  Hann hafi verið á miklum geðlyfjum, tekið agenton og ekki verið í ástandi til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Björg Hauksdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún rekur verslunina Tiffany´s ásamt eiginmanni sínum.  Hún kvaðst hafa verið að afgreiða eldri konu er ungur piltur kom inn í verslunina.  Er konan var farin hefði pilturinn ráðist að sér og viljað fá “fix”.  Hún hefði ekki skilið fyrst hvað hann átti við.  Hún hefði reiðst mikið og fleygt að honum glermunum.  Þá hefði pilturinn ráðist að sér með sög og snúið sig niður.  Hún kvaðst hafa misst meðvitund einhverja stund, en síðan hefði eiginmaður sinn komið inn og tekið piltinn. 

Björg sagði að föt sín hefðu skemmst nokkuð við atlöguna og hún hefði verið öll blá og marin eftir. 

Gústaf Adolf Gústafsson, eiginmaður Bjargar Hauksdóttur, kvaðst hafa verið að koma úr sendiferð og verið í bíl sínum á Óðinsgötu. Hann hafi þá séð einhverjar skrýtnar hreyfingar inni í versluninni og hafi því flýtt sér inn.  Kona sín hafi legið á gólfinu og piltur yfir henni á hnjánum og hélt einhverju upp við háls hennar.  Gústaf kvaðst hafa náð taki á piltinum og snúið úr hendi hans hlut sem hann sá síðan að var sög.  Pilturinn hefði talað um að hann þyrfti bara að fá skammtinn sinn. 

Með skýrslum þessara tveggja vitna og frásögn ákærða er fram komin næg sönnun um tilraun ákærða til að neyða Björgu Hauksdóttur til að afhenda sér peninga.  Styðst það jafnframt af þeirri staðreynd að þetta brot fremur ákærði í beinu framhaldi af ráninu í verslun Máls og menningar.  Er brot hans réttilega fært til refsiákvæða í ákæru. 

Ákæruliður 3.

Ákærði kvaðst lítið muna af þessu atviki hann kvaðst muna eftir að hafa ætlað að gera eitthvað af sér, hann myndi að hafa verið með brotna flösku.  Hann kvaðst þekkja Oliver.  Hann kvaðst alls ekki rengja framburð hans. 

Oliver Kristófersson, starfsmaður Gistiheimilisins að Flókagötu 1 gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst þekkja ákærða, hann hefði gist á heimilinu.  Vitnið sagði að ákærði hefði komið inn með brotna flösku og otað að sér.  Hefði hann heimtað peninga.  Vitnið kvaðst hafa gefið sig að lokum og látið hann fá það sem var í kassanum.  Það hafi ekki verið mikið. 

Með skýrum framburði þessa vitnis er fram komin næg sönnun fyrir broti ákærða sem lýst er í þessum ákærulið.  Er það réttilega heimfært til 252. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 4.

Um þennan lið sagði ákærði að hann myndi ekki neitt.  Hann staðfesti að hann væri smitaður af lifrarbólgu C og að hann hefði vitað af því á þessum tíma. 

Í frumskýrslu lögreglu segir að vegna annarlegs ástands ákærða hafi ekki verið unnt að kynna honum rétt handtekinna manna.  Þá kemur fram að lagt var hald á sprautu. 

Í skýrslu hjá lögreglu 12. júní bar ákærði að hann myndi eftir því að hafa farið inn á Hótel Lind, að hann hafi stokkið yfir afgreiðsluborð og hótað manni sem þar var með sprautu, til þess að fá hjá honum peninga.  Í skýrslunni lýsir ákærði því að hann hafi lent í átökum við afgreiðslumanninn en að hann muni síðan ekki neitt fyrr en er hann vaknaði í fangageymslu.

Jóhann Ólafur Kjartansson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa verið næturvörður á hótelinu og hafa verið að vinna í bókhaldi hótelsins.  Ákærði hefði tvisvar komið inn illa til reika, en hann hefði vísað honum út.  Stuttu síðar hefði hann komið inn hlaupandi og sveiflað sér yfir afgreiðsluborðið.  Jóhann kvaðst hafa reynt að standa upp og taka á móti honum.  Hafi hann loks náð að yfirbuga ákærða, en þá hafi ákærði sagt að það væri of seint því hann væri búinn að stinga hann með sprautunál, hann skyldi láta ákærða fá peninga.  Jóhann kvaðst ekki hafa tekið eftir neinni stungu og hún hefði ekki fundist við lauslega leit lækna um nóttina.  Nokkru síðar hafi hann sjálfur tekið eftir sársauka og fari eftir sprautuna á hné. 

Eftir árásina kvaðst Jóhann hafa verið mjög hræddur og hafi hann fljótlega sagt upp á hótelinu og hætt.  Hann kvaðst ekki vera búinn að fá aðra vinnu. 

Fleiri vitni voru ekki leidd um atvik sem lýst er í þessum ákærulið. 

Frammi liggur vottorð Ólafs R. Ingimarssonar, sérfræðings á Slysadeild.  Þar kemur fram að stungustaðir fundust ekki við skoðun og að ytri áverkamerki hafi ekki sést.

Þá liggur frammi vottorð aðstoðarlæknis á Landspítala háskólasjúkrahúsi þar sem segir að ekki hafi komið fram hjá Jóhanni Ólafi merki um smit af lifrarbólgu C eða öðrum sjúkdómum.  Segir jafnframt að endurteknar rannsóknir séu nauðsynlegar til að sagt verði til um það með vissu hvort Jóhann hafi smitast.  Sprautunál sú sem um ræðir var rannsökuð og var staðfest að örlítið blóð hefði verið á sprautunni.  Ekki var rannsakað hvort það væri blóð úr ákærða. 

Með skýrum framburði Jóhanns Ólafs og öðrum gögnum málsins er fram komin næg sönnun fyrir broti ákærða sem lýst er í þessum ákærulið.  Er það réttilega heimfært til 252. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 5.

Um þennan ákærulið voru ekki færð fram nein sönnunargögn fyrir dómi.  Ákærði kvaðst ekki muna neitt eftir amfetamíni. 

Fram kemur í lögregluskýrslu að efni þetta hafi fundist í buxnavasa ákærða.  Efnið var tekið til prófunar í tæknideild lögreglunnar og greindist vera amfetamín og reyndist vega 0,64 grömm. 

Þar sem gögn um þennan ákærulið hafa ekki verið gerð skýr fyrir dómi og vitni ekki leidd verður ekki unnt að sakfella ákærða fyrir brot samkvæmt þessum lið. 

Ákvörðun viðurlaga og sakarkostnaðar. 

Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir tvö rán og tvær ránstilraunir.  Öll eru brotin alvarleg, einkum þau sem lýst er í lið 3 og 4 vegna brotnu flöskunnar og sprautunnar sem beitt var. 

Að tilhlutan ákærða var lagt fram vottorð læknis á Heilsugæslustöð Miðbæjar.  Þar kemur fram að ákærði hafi alist upp hjá móður sinni í Vestmannaeyjum.  Hafi verið mikil óregla í kringum hann.  Móðir hans hafi látist 1995.  Ákærði hafi verið í mikilli óreglu í að minnsta kosti ein tíu ár, tekið töflur, sprautað sig og neytt áfengis.  Hann hafi margsinnis verið í meðferð hjá SÁÁ, Byrginu, í Gunnarsholti og gengið til geðlæknis.  Í lok vottorðsins segir orðrétt:  “Davíð Ingi kemur mér fyrir sjónir sem mjög óöruggur og lítt þroskaður persónuleiki – eiginlega barnalegur.  Hefur stundum komið hingað undir einhverjum áhrifum, en ætíð komið prúðmannlega fram.”

Ákærði hefur þrisvar verið sakfelldur fyrir þjófnað, einu sinni fyrir skjalafals.  Síðast var hann dæmdur fyrir skjalafals 9. desember 1999 og var eins mánaðar fangelsisrefsing hans skilorðsbundin til tveggja ára.

Ákærði hefur með brotum sínum rofið skilorð þessa dóms og verður refsing ákveðin í einu lagi fyrir ránsbrotin að viðbættri hinni skilorðsbundnu refsingu.  Að því virtu að hann hefur áður verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot og að um er að ræða tvö ránsbrot og tvær ránstilraunir verður refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.  Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhaldsvist hans sem staðið hefur óslitið frá 29. maí 2001.  Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 110.000 krónur. 

Þó ákærði sé sýknaður af fimmta ákærulið ber að gera amfetamín það sem þar greinir upptækt, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Ákærði, Davíð Ingi Þorsteinsson, sæti fangelsi í tvö ár.  Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 29. maí 2001.

Framangreind 0,64 g af amfetamíni skulu upptæk. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar hrl., 110.000 krónur.