Hæstiréttur íslands

Mál nr. 157/2011


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Tölvuforrit
  • Aðilaskipti


                                     

Fimmtudaginn 8. desember 2011.

Nr. 157/2011.

Rökver ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Skýrr ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

Höfundaréttur. Tölvuforrit. Aðilaskipti.

Á starfsmaður og einn eigandi R ehf. hóf sumarið 1997 að hanna tölvuforrit í tengslum við afgreiðslutæki sem E hf. flutti inn. Hann réðst svo til starfa hjá E hf. í desember 1997. Hugbúnaðardeildir E hf. og H. hf. sameinuðust 1. maí 2002 og varð Á þá starfsmaður síðarnefnda fyrirtækisins en lét af störfum þar 2003 eða 2004. Á og H hf. gerðu samstarfssamning 2004 sem gilti í stuttan tíma og var markmið hans að tryggja aðgengi og aðkomu Á að áframhaldandi þróun forritsins. Í málinu byggði R ehf. á því að það hefði eignast höfundarrétt að forritinu og ætti rétt til hlutdeildar í tekjum L hf., síðar S ehf., af hugbúnaðarkerfi sem byggði á forritinu. Hæstiréttur taldi að Á hefði í raun framselt E hf. höfundarrétt að frumgerð forritsins þegar hann réði sig til starfa hjá fyrirtækinu, a.m.k. að því marki að það gæti nýtt réttinn til að þróa forritið áfram og markaðssetja það í sína þágu. Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykktir R ehf. var talið að leggja yrði til grundvallar að aðrir stjórnendur og eigendur R ehf. hafi álitið að Á hafi í raun haft heimild til að ráðstafa rétti félagsins yfir forritinu á þann hátt sem hann gerði. Þegar við bættist að R ehf. gætti ekki réttar síns um margra ára skeið yrði litið svo á að það væri skuldbundið af framsali Á til E hf. á höfundarrétti að frumgerð tölvuforritsins. Þar sem réttur S ehf. yfir forritinu væri leiddur af því framsali var staðfestur hinn áfrýjaði dómur um sýknu S ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2011. Krefst hann þess að stefnda verði aðallega gert að greiða sér 108.350.844 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2008 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi að stefndi greiði sér skaðabætur að álitum að mati réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því hvernig stefndi var kominn að tölvuforriti því sem um er deilt í málinu.

Samkvæmt gögnum málsins flutti Einar Skúlason hf. (hér eftir EJS) inn nýtt afgreiðslutæki sem nefndist NCR-Dynakey, sumarið 1997. Fékk fyrirtækið Ásgeir Þór Þórðarson, sem á þeim tíma starfaði hjá áfrýjanda og var einn af þremur eigendum hans, til að koma fram með hugmynd um hvernig best væri að nýta þetta nýja tæki til afgreiðslu. Í framhaldinu bjó Ásgeir Þór, að eigin sögn, til tölvuforrit þar sem allir kostir nýja tækisins voru nýttir til fullnustu. Spurður fyrir héraðsdómi um samstarfið milli hans og EJS á þessum tíma svaraði hann: „Ja þetta var eiginlega bara þannig að þeir skaffa tækið og ég skaffa hugbúnaðinn. Það var auðvitað samvinna þarna á milli ... en forritunin og öll vinnslan á bakvið það er alfarið mín.“ Ásgeir Þór kvaðst hafa lokið við forritið og nafngreint fyrirtæki hafi keypt það af sér áður en hann réðst til starfa hjá EJS 1. desember 1997.

Ásgeir Þór kvað uppbyggingu áfrýjanda á þeim tíma, sem hér um ræðir, hafa verið þannig að þeir hafi verið þrír eigendur og starfsmenn félagsins. Hafi hver þeirra verið með sín eigin verkefni og aflað tekna sem runnið hafi í einn pott og laun þeirra síðan verið greidd úr honum. Laun hans hjá áfrýjanda hafi verið lág eða um 80.000 krónur á mánuði. EJS hafi lengi viljað fá sig í vinnu og boðið sér haustið 1997 um það bil 320.000 krónur í mánaðarlaun ef hann vildi ráða sig til fyrirtækisins. Hafi hann þegið það boð.

Nokkru eftir að Ásgeir Þór hóf störf hjá EJS sagðist hann hafa sett grunnupplýsingar um fyrrgreint tölvuforrit inn í gæðakerfi fyrirtækisins. Aðspurður um það hvort EJS hafi sjálfkrafa verið skráður eigandi höfundarréttar að forritinu við skráninguna kvaðst hann ekki hafa haft áhyggjur af því þar sem hann hafi litið á forritið sem sína eign. Af gögnum málsins má ráða að við sameiningu hugbúnaðardeilda EJS og Hugar hf. 1. maí 2002 hafi Ásgeir Þór orðið starfsmaður síðarnefnda fyrirtækisins, en hætt störfum hjá því 2003 eða 2004. Hinn 11. mars 2004 var gerður samstarfssamningur milli Ásgeirs Þórs og Hugar sem gilti í níu mánuði frá 1. apríl þess árs. Markmið samningsins var, eins og þar sagði, að tryggja aðgengi og aðkomu Ásgeirs Þórs að áframhaldandi þróun á fyrrgreindu forriti, ásamt því að fyrirtækið gæti leitað eftir upplýsingum og aðstoð hans innan þeirra marka sem samningurinn byði upp á.

Nokkrir af fyrrum stjórnendum og starfsmönnum EJS og þeirra fyrirtækja, sem stefndi kveðst leiða frá rétt sinn yfir tölvuforritinu, gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Aðspurðir sögðust þeir hafa litið svo á að höfundarréttur af forritinu hafi tilheyrt fyrirtækjunum. Ekki hafi verið bornar brigður á þann rétt, hvorki af áfrýjanda né Ásgeiri Þór.

Fyrir liggur að það var ekki fyrr en með bréfi 18. desember 2006 að áfrýjandi tilkynnti stefnda að hann kannaðist ekki við að hafa afsalað sér höfundarrétti að tölvuforritinu. Þá er ljóst af því, sem fram er komið í málinu, að Ásgeir Þór og meðeigendur hans höfðu látið notkun forritsins af hálfu EJS og Hugar átölulausa, en starfsemi áfrýjanda mun hafa legið að mestu leyti niðri frá því að Ásgeir Þór réðst til starfa hjá EJS og þar til breyting varð á eignarhaldi áfrýjanda nokkrum árum síðar.

II

Í 42. gr. b höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 11. gr. laga nr. 57/1992, er að finna svofellt ákvæði: „Nú er gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum og eignast þá atvinnurekandi höfundaréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg.“ Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu laganna að höfundur verks eignist höfundarrétt að því. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 57/1992, voru þau rök færð fyrir þessari undantekningu, að því er varðaði tölvuforrit, að brýn þörf væri á „að framleiðendur og reyndar einnig viðsemjendur þeirra megi treysta því að þeir hafi fulla heimild til dreifingar og nýtingar þeirra svo ríkir viðskiptahagsmunir sem hér geta verið í húfi.“ Höfundarréttur atvinnurekanda að tölvuforriti, sem hann öðlast á grundvelli vinnusambands, byggist því á öðrum forsendum og er í eðli sínu frábrugðinn hinum persónulega rétti höfundar yfir verki sem hann hefur sjálfur skapað.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. höfundalaga er framsal höfundarréttar heimilt, að nokkru leyti eða öllu. Ekki eru gerðar neinar kröfur um form á slíku framsali, en sá, sem heldur því fram að hann hafi fengið tiltekinn rétt framseldan, verður að færa viðhlítandi sönnur á það.

Að virtu öllu því, sem fram er komið í málinu, verður fallist á það með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að tölvuforritið, sem Ásgeir Þór Þórðarson hannaði og fært var yfir til EJS í kjölfar þess að hann var ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu, hafi lagt grundvöll að áframhaldandi þróun forritsins er síðar hlaut nafnið Auður/Posis. Þessi frumgerð forritsins naut verndar höfundalaga og var unnin af Ásgeiri Þór sem starfsmanni áfrýjanda. Eignaðist áfrýjandi því sem atvinnurekandi Ásgeir Þórs höfundarrétt að frumgerð forritsins samkvæmt 42. gr. b höfundalaga. Við úrlausn þessa máls verður þó ekki framhjá því litið að áfrýjandi öðlaðist þennan rétt sinn á grundvelli vinnusambandsins eins, en mun hvorki hafa komið að þróun forritsins né markaðssetningu þess eins og algengt er að framleiðendur hugbúnaðar geri og virðist hafa verið gengið út frá þegar áðurgreint ákvæði var tekið í höfundalög.

Stefndi rökstyður sýknukröfu sína meðal annars með því að EJS hafi fengið höfundarrétt áfrýjanda að frumgerð forritsins framseldan um leið og Ásgeir Þór réðst til starfa hjá fyrirtækinu 1. desember 1997. Þótt ekki liggi fyrir skriflegur framsalssamningur getur framsal, sem ekki er formbundið, verið sem fyrr segir jafn gilt að höfundalögum ef atvik máls leiða í ljós að rétturinn hafi í raun verið framseldur.

Eins og að framan greinir heldur Ásgeir Þór því fram að hann hafi verið eini höfundur frumgerðar forritsins og aðrir starfsmenn áfrýjanda hafi þar hvergi nærri komið. Hann hefur einnig borið fyrir dómi að hann hafi litið á forritið sem sína eign eftir að hann hóf störf hjá EJS. Af því má draga þá ályktun að Ásgeir Þór hafi talið sig, en ekki áfrýjanda, bæran til þess að ráðstafa höfundarrétti að frumgerðinni á þessum tíma. Jafnframt er komið fram að EJS bauð honum fjórföld laun, miðað við þau laun sem hann hafði fengið greidd hjá áfrýjanda ef hann réði sig til starfa hjá fyrirtækinu, og hann skráði í kjölfarið grunnupplýsingar um forritið inn í gæðakerfi fyrirtækisins þar sem það var sagt eiga höfundarrétt að því. Þegar þetta hvort tveggja er virt, svo og sú staðreynd að Ásgeir Þór gerði samstarfssamning um að veita aðstoð við áframhaldandi þróun forritsins er hann lét af störfum hjá Hug, án þess að gera neinn fyrirvara um höfundarrétt sinn á þeim tímamótum, verður að telja að hann hafi í raun framselt EJS höfundarrétt að frumgerð forritsins þegar hann réði sig til starfa hjá fyrirtækinu, að minnsta kosti að því marki að það gæti nýtt réttinn til að þróa forritið áfram og markaðssetja það í sína þágu.

Samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykktum áfrýjanda hafði Ásgeir Þór ekki formlega heimild til að framselja höfundarrétt áfrýjanda að frumgerð forritsins til EJS. Sé aftur á móti litið til þess hvernig starfsemi áfrýjanda var háttað, að Ásgeir Þór var eini höfundur frumgerðarinnar og um var að ræða náið samstarf milli hans og EJS um tilurð hennar verður að leggja til grundvallar að aðrir stjórnendur og eigendur áfrýjanda hafi álitið að hann hafi í raun haft heimild til að ráðstafa rétti félagsins yfir forritinu á þann hátt sem hann gerði. Þegar við bætist að áfrýjandi gætti ekki réttar síns um margra ára skeið verður litið svo á að hann sé skuldbundinn af framsali Ásgeirs Þórs til EJS á höfundarrétti að frumgerð tölvuforritsins. Þar sem réttur stefnda yfir forritinu er leiddur af því framsali verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Rökver ehf., greiði stefnda, Skýrr ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2010.

Mál þetta, sem höfðað var 21. desember 2007, var dómtekið 12. nóvember sl.

Stefnandi er Rökver ehf., kt. 600985-0789, Bæjargili 27, Garðabæ.

Málið er upphaflega höfðað gegn Bjarna Birgissyni, kt. 091264-3669, Engimýri 11, Garðabæ, sem formanni stjórnar fyrir hönd Landsteina Strengs hf., kt. 460782-0589, Ármúla 7, Reykjavík.

Með samrunaáætlun dags. 21. desember 2009, sem staðfest var á hluthafafundi 15. febrúar 2010, var stefndi, Landsteinar Strengur ehf. sameinaður Skýrr ehf., kt. 590269-7199. Í þinghaldi í málinu 27. apríl sl. var bókað að Skýrr ehf. tæki við aðild málsins varnarmegin í stað Landsteina Strengs hf.

Endanleg dómkrafa stefnanda er aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 108.350.844 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. janúar 2008 til greiðsludags. 

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 108.350.844 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. janúar 2008 til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að álitum, að mati dómsins.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.

Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Stefnandi, sem er einkahlutafélag, stofnað árið 1985, starfar að hugbúnaðargerð, viðhaldi tölvuforrita og skyldri starfsemi.

Stefnandi kveður Ásgeir Þór Þórðarson, starfsmann og einn eiganda stefnanda, hafa á árinu 1997 hafið að hanna og útbúa sölu- og lagerkerfi tengt kassakerfum.  Kveður stefnandi talsverða þörf hafa verið fyrir nýtt kerfi á markaðnum og því hafi Ásgeir Þór búið til forrit sem aðlagað var svo kölluðu Dynakey afgreiðslutæki sem EJS hf. var með til sölu. Kerfið hafi verið kynnt Olíufélaginu Esso hf. og þar sem undirtektir forráðamanna félagsins hafi verið mjög góðar hafi Ásgeir Þór haldið þróunarvinnu sinni áfram.

Seinnipart ársins 1997 hafi fyrsta útgáfa afgreiðslukerfisins verið tilbúin og hafi Apótek Norðurbæjar í Hafnarfirði tekið kerfið í notkun seint á árinu. Í kjölfarið hafi svo komið nokkur önnur apótek og Oasis í Kringlunni. Frá fyrstu sölunni til Apóteks Norðurbæjar hafi kerfið verið þróað í sína endanlegu mynd undir nafninu „Auður“ af starfsmönnum.

Stefnandi kveður Ásgeir Þór hafa, eftir að hafa lokið smíðum hugbúnaðarins í starfi hjá stefnanda, þann 1. desember 1997, ráðist til starfa hjá EJS hf., síðar Hug hf. sem voru söluaðilar hugbúnaðarins. Eignarhald á hugbúnaðinum hafi hins vegar aldrei skipt um hendur og sé hjá stefnanda í samræmi við ákvæði 42. gr. b. í höfundalögum nr. 73/1972.

Stefnandi kveður starf Ásgeirs Þórs hafa falist í að þjónusta kerfið sem og búa til nýjar afurðir í kringum grunnkerfið í samræmi við þarfagreiningar viðskiptamanna EJS hf. Þetta hafi verið afurðir eins og dælustýring fyrir Olíufélagið, en fyrir þessa þjónustu hafi viðskiptamenn greitt aukalega. Jafnframt hafi Ásgeir Þór starfað við önnur tilfallandi verkefni. Þegar síðan hafi verið ákveðið að freista markaðssetningar Auðar í útlöndum hafi nafni hugbúnaðarins verið breytt í Posis. Við sameiningu hugbúnaðardeilda EJS hf. og Hugar hf. þann 1. maí 2002 hafi Ásgeir Þór orðið starfsmaður Hugar hf.

Stefnandi kveður Kögun hf. síðan hafa keypt Hug hf. og í kjölfarið hafi verið ákveðið að sameina Hug hf. við afgreiðslukerfadeild Landsteina Strengs hf. Landsteinar Strengur hf. hafi þannig tekið við kerfinu af Hug hf. fyrripart árs 2004 og hafi því haft með höndum sölu hugbúnaðarins það tímabil sem málsóknin taki til.

Ásgeir Þór hætti störfum hjá Hug hf. um sama leyti. Gerður var samstarfssamningur, þann 11. mars 2004, milli Ásgeirs Þórs og Hugar hf. Í samningnum er kveðið á um að hann sé gerður til að tryggja áframhaldandi samstarf aðila varðandi verkefni er tengjast POS.is vörum Hugar. Markmiðið sé að tryggja aðgengi og aðkomu Ásgeirs að áframhaldandi þróun á POS.is ásamt því að Hugur geti leitað eftir upplýsingum og aðstoð innan þeirra marka sem samningurinn býður upp á. Í samningnum kemur fram að ráð sé fyrir því gert að Ásgeir sinni smávægilegu kvabbi og ráðgjöf sem sé ekki meiri að umfangi en sem nemur 12-16 tímum á mánuði. Í samningnum kemur einnig fram að hann verði framseldur til Landsteina Strengs hf. eða þess félags innan Kögunar sem fer með málefni POS.is. Samningurinn, sem var til eins árs, var ekki endurnýjaður.

Stefnandi kveður Ásgeir Þór, eftir að hann hætti störfum fyrir Hug hf., hafa unnið um hríð hjá Samskipum og síðar hjá KLS ehf., m.a. að gerð nýs hugbúnaðar fyrir afgreiðslukerfi, sem nú sé komið á markaðinn undir nafninu SagaPos.

Stefnandi kveður Landsteina Streng hf., þegar markaðssetning SagaPos kerfisins hafi hafist hér á landi, hafa gert kröfur á hendur Olíufélaginu hf. og EJS hf., um að félögin legðu fram tilteknar upplýsingar um hið nýja afgreiðslukerfi. Hafi kröfurnar verið byggðar á meintu eignarhaldi félagsins að Auði/Posis hugbúnaðarkerfinu, en í máli nr. Ö-4/2006, komi fram að Landsteinar Strengur hf. telji sig vera rétthafa „allra hugverkaréttinda að viðkomandi hugbúnaði. Þessara réttinda hafi gerðarbeiðandi aflað sér með kaupum á eldra hugbúnaði en einnig hafi þessi réttindi orðið til með þróun innan fyrirtækis gerðarbeiðanda á hugbúnaði þeim sem um ræði.“

Stefnandi kveður það hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu að Landsteinar Strengur hf. teldi sig eiganda hugbúnaðarins, enda hafi Auður/Posis hugbúnaðurinn verið hannaður og þróaður af starfsmanni stefnanda, Ásgeiri Þór Þórðarsyni, og stefnandi aldrei selt höfundarrétt að hugbúnaðinum og sé sá réttur því ótvírætt hjá stefnanda.

Stefndi mótmælir því að hugbúnaðurinn hafi verið endanlega þróaður og fullbúinn þegar Ásgeir Þór réðst til starfa hjá EJS hf. Kveður stefndi það hafa verið aðalstarf Ásgeirs Þórs að þróa og breyta hugbúnaðinum ásamt starfsmönnum EJS hf. og sem ráðgjafi Hugar hf. og Landsteina Strengs hf. Upphaflegi hugbúnaðurinn hafi tekið grundvallarbreytingum hvað varðar kjarna hans og alla aðra þætti. Enn fremur hafi fjölmörgum eiginleikum og þáttum verið bætt við í því langa þróunarferli sem um hafi verið að ræða, þ.e. a.m.k. um tíu ára skeið. Kveður stefndi óhætt að segja að hugbúnaðurinn hafi verið endurskrifaður í heild oftar en einu sinni á þessu tímabili. Meðal annars hafi orðið að aðlaga hugbúnaðinn og endursmíða vegna mikilla breytinga á því þróunarumhverfi sem var notað við þróun hugbúnaðarins en það var „Delphi“. Einnig urðu breytingar á afgreiðslukössum sem hugbúnaðurinn keyrði undir, en áður voru þeir takkastýrðir en síðar fóru samskipti afgreiðslumannsins fram í gegnum snertiskjá. Áætlað sé að a.m.k. liggi 30 – 40 mannár í þróunarvinnu þessari en einungis um og líklega innan við eitt mannár í þróunarvinnu hjá stefnanda, en í stefnu komi fram að Ásgeir Þór hafi búið til kerfið á árinu 1997. Einnig megi benda á að a.m.k. sjö nýjar útgáfur hafi verið gefnar út af hugbúnaðinum á árunum 1999 til 2005. 

Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að eignarhald á hugbúnaðinum hafi aldrei skipt um hendur sem rangri og ósannaðri þar sem stefnandi hafi framselt eignarhaldið á hugbúnaðinum, eða öllu heldur frumgerð og fyrirrennara hugbúnaðarins, til EJS hf. á árinu 1997.  Frumgerð þessi hafi einungis verið örlítið brot af þeim hugbúnaði sem síðar var þróaður af EJS hf., Hug hf. og Landsteinum Streng hf. í hartnær tíu ár, án aðkomu stefnanda, og seldur á markaði á því tímabili sem stefna tekur til. 

Stefndi kveður Hug hf. hafa fengið AUÐUR/POSIS hugbúnaðinn framseldan við sameiningu hugbúnaðardeilda EJS hf. og Hugar hf. þann 1. maí 2002.

Með afsali Hugar hf., dags. 1. mars 2004, var AUÐUR/POSIS hugbúnaðurinn framseldur til Landsteina Strengs hf. í öllum útgáfum ásamt öllum frumkóða (source codes), fylgigögnum, handbókum og öðrum vinnslugögnum, hverju nafni sem nefnast, sem nýttust hugbúnaðarkerfinu.

Stefndi kveður Landsteina Streng hf. síðan hafa haft hugbúnaðinn til sölu og dreifingar og jafnframt alfarið séð um þróun og viðhald hans.

Stefnandi, sem kveðst aldrei hafa afsalað sér rétti til hlutdeildar í tekjum af sölu hugbúnaðarins, kveður Landsteina Streng hf. aldrei hafa boðið stefnanda, sem eiganda hugbúnaðarins, greiðslur vegna tekna stefnda af sölu kerfisins.

Stefndi kveður stefnanda ekki hafa sett fram neins konar áskilnað eða kröfur á grundvelli meints eignarhalds á hugbúnaðinum fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 18. desember 2006.

Í bréfinu var athygli Landsteina Strengs hf. vakin á því að stefnandi væri eigandi höfundarréttar að hugbúnaðarkerfinu Auður/Posis. Var skorað á Landsteina Streng hf. að afhenda stefnanda upplýsingar um kaupsamninga, eða aðra samninga, sem félagið teldi sig leiða höfundarrétt að Auði/Posis hugbúnaðinum frá.

Svarbréf barst frá lögmanni Landsteina Strengs hf. þann 29. desember 2006. Þar er vísað til þess að Landsteinar Strengur hf. hafi keypt hugbúnað og fleira af Hug hf. og þar er tíundað að Hugur hf. hafi ábyrgst að afsal til stefnda bryti ekki gegn rétti þriðja manns, þar með talið höfundarrétti.

Stefnandi kveður Landsteina Streng hf. ekki hafa svarað því á hvaða grundvelli félagið gerði tilkall til höfundarréttarins. Þá hafi félagið ekki upplýst um neina samninga sem það gæti ótvírætt byggt meintan höfundarrétt sinn á.

Stefndi kveðst hins vegar hafa komið sínum grundvallarsjónarmiðum og afstöðu til skila með bréfinu frá 29. desember 2006 og ekki hafa talið sig skulda stefnanda frekari upplýsingar eða útskýringar en sem þar koma fram.

Með bréfi lögmanns stefnanda 31. janúar 2007 var athygli lögmanns Landsteina Strengs hf. vakin á því að ekkert hefði verið upplýst um að Landsteinar Strengur hf. ætti tilkall til höfundarréttar að hugbúnaðinum Auður/Posis. Var Landsteinum Streng hf. bent á að ekkert lægi heldur fyrir um að Hugur hf. hefði átt slíkan rétt og að vanheimild Hugar hf. yfir þessum réttindum við sölu til Landsteina Strengs hf. væri stefnanda algerlega óviðkomandi.

Stefnandi kveðst ekki hafa fengið svar við bréfinu frá 31. janúar 2007. Var erindið ítrekað með bréfi lögmanns stefnanda þann 30. mars 2007. Í því bréfi var jafnframt áskilinn réttur til handa stefnanda til hlutdeildar í öllum leyfis- og áskriftartekjum sem Landsteinar Strengur hf. hefur haft af sölu Auðar/Posis og var skorað á Landsteina Streng hf. að upplýsa hversu mörg kassaleyfi félagið hefði selt, sem og upplýsingar um endursölurétt sem það kynni að hafa veitt þriðja aðila.

Stefnandi kveður engin svör heldur hafa borist við þessu bréfi sínu og því sé honum nauðsynlegt að höfða dómsmál þetta til þess að fá sér tildæmdan hlut í tekjum stefnda af Auði/Posis hugbúnaðinum, eða eftir atvikum skaðabætur.

II

Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á því að hann eigi, sem eigandi höfundarréttar að Auði/Posis hugbúnaðinum, sbr. 42. gr. b. í höfundalögum nr. 73/1972, rétt til hlutdeildar í tekjum Landsteina Strengs hf. af útseldum kassaleyfum og áskriftartekjum af kerfinu. Alþekkt sé að eigendur hugbúnaðar eigi rétt til hlutdeildar í leyfisgjöldum af seldum hugbúnaðarleyfum ásamt rétti á áskriftartekjum hugbúnaðarins, sem yfirleitt séu mánaðarlegar.

Stefnandi byggir á því að tekjur stefnda af sölu kerfisins séu í grunninn þrenns konar:

  1. Leyfisgjöld.

Um sé að ræða gjald sem innheimt er af hverjum afgreiðslukassa fyrir sig og  greitt sé fyrir af kaupanda/notanda kerfisins í upphafi. Um sé að ræða leyfi sem gefi leyfishafa (notanda) rétt til þess að nota kerfið við afgreiðslur í viðkomandi verslun/fyrirtæki. Þetta leyfi sé ekki framseljanlegt til þriðja manns.

  1. Áskriftargjöld.

Um sé að ræða gjald sem innheimt er mánaðarlega fyrir hvern afgreiðslukassa. Þetta gjald tryggi leyfishafa uppfærslur og viðhald, ásamt almennum kerfisuppfærslum, en séraðlaganir í þágu notanda séu ekki innifaldar í gjaldinu. Gjaldið sé fast gjald til greiðslu hjá notanda kerfisins óháð því hvort/hvaða breytingar séu gerðar á kerfinu.

c. Búðargjald.

Um sé að ræða gjald sem innheimt er pr. verslun eða starfsstöð. Innifalið í gjaldinu sé aðgangur að ýmsum stjórntækjum sem notandi geti notað ofan á alla afgreiðslukassa í viðkomandi verslun eða starfsstöð – eða miðlæg stýring á búðarkössum í hverri verslun.

Stefnandi krefst tilkalls til hlutdeildar í leyfisgjöldum og áskriftargjöldum  sem stefndi hefur haft af sölu kerfisins.

Skipting tekna milli höfundar/eiganda annars vegar og útsöluaðila hins vegar í sambærilegu réttarsambandi séu sem hér segi:

-          Leyfisgjöld. Vegna sölu á leyfisgjöldum fær útsöluaðili 25% af söluverði kerfisins, eigandi þess 75%.

-          Áskriftargjöld. Tekjuskipting áskriftargjalda er þannig að þau renna óskipt til eiganda kerfisins, til kostnaðar við þróun og viðhalds kerfisins.

-          Búðargjald, en stefnandi gengur út frá því að gjaldið sé innifalið í leyfisgjöldum. 

Nánar tiltekið sundurliðast krafa stefnanda sem hér segir, en kröfu sína miðar stefnandi við að leyfisgjöld pr. afgreiðslukassa séu kr. 120.000.

Aðalkrafa stefnanda:

Seld notkunarleyfi 2004-2007 (sbr. lið a. Leyfisgjöld og lið c. Búðargjald):

Samkvæmt matsgerð voru seld 237 leyfi. 237 leyfi x kr. 120.000, alls kr. 28.440.000. 25% söluþóknun stefnda dregst frá, kr. 7.110.000. Samtals krafa kr. 21.330.000.

Uppfærslusamningar 2004-2007 (sbr. lið b. Áskriftargjöld):

Samkvæmt matsgerð voru tekjur stefnda vegna uppfærslusamninga 24.020.844 kr. Stefnandi telur að þær tekjur tilheyri sér. Samtals er því krafa vegna uppfærslusamninga (áskriftartekjur) að fjárhæð 24.020.844 kr.

Ráðgjöf og þjónusta:

Matsmaður mat tekjur stefnda vegna þessa liðar vera 40.962.402 kr. Ekki er gerð krafa vegna þessa þar sem um er að ræða vinnu starfsmanna stefnda í þágu þriðja manns og þriðji maður hefur greitt sérstaklega fyrir. 

Afhending til dótturfélaga og tengdra aðila:

Stefndi hefur ekki orðið við áskorun stefnanda um að afhenda upplýsingar um verðmat Landsteina Strengs hf. á Auði/Posis kerfinu við yfirfærslu þess til LS Retail ehf. 1. júlí 2007. Stefnandi gerir því kröfu til þess að tekjur vegna þess teljist vera seld leyfisgjöld og til grundvallar verði lagt mat stefnda á verðmæti óefnislegra eigna er runnu til LS Retail ehf. skv. skiptingarefnahagsreikningi að fjárhæð 84.000.000 kr. 25% af söluþóknun dregst frá, 21.000.000 kr. Samtals krafa 63.000.000 kr.

Samkvæmt ofangreindri sundurliðun nemi tilkall stefnanda til tekna Landsteina Strengs hf. af kerfinu alls 108.350.844 kr., sem er stefnufjárhæð máls þessa.

Varakrafa stefnanda:

Til vara byggir stefnandi kröfu sína á því að hann sem eigandi hugbúnaðarins eigi rétt til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda. Er varakrafan byggð á ákvæði VII. kafla höfundarlaga nr. 73/1972, sbr. sérstaklega 56. gr. laganna.

Er varakrafan byggð á sömu forsendum og aðalkrafan hvað fjárhæðina varðar og vísast til sundurliðunar varakröfu til umfjöllunar um tölulegan rökstuðning aðalkröfunnar í stefnunni.

Til þrautavara krefst stefnandi annarrar, lægri fjárhæðar, en um getur í aðalkröfu og varakröfu. Er krafist greiðslu að álitum að mati dómsins sbr. dómafordæmi.

Lagarök:

Stefnandi byggir á að hugbúnaður, eins og sá sem um ræðir í máli þessu, njóti verndar höfundarlaga nr. 73/1972, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna.

Stefnandi byggir á því grundvallaratriði að hann sem höfundur kerfisins, sbr. 42. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972, eigi höfundarrétt að kerfinu og eignarrétt að því. Beri honum sem eiganda kerfisins réttmæt hlutdeild til tekna stefnda af sölu og áskriftartekjum kerfisins.

Stefnandi vísar til stuðnings varakröfu sinni til ákvæða VII. kafla höfundarlaga nr. 73/1972, sbr. sérstaklega 56. gr. laganna.

Stefnandi styður kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reisir stefnandi á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir og því beri þeim nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

1.       Sýknukröfur

Sýknukröfu sína reisir stefndi í fyrsta lagi á því, að stefndi sé ekki greiðsluskyldur gagnvart stefnanda, vegna meints eignarhlutar stefnanda í hugbúnaðinum, þar sem ekki sé um slíkan eignarhlut stefnanda að ræða og í öðru lagi að stefndi sé ekki bótaskyldur gagnvart stefnanda.

A.      Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á þeirri staðreynd að Landsteinar Strengur hf. hefur fullkomið og skilyrðislaust afsal frá Hug hf. vegna þess hugbúnaðar er hér um ræðir. Með afsalinu afsalar Hugur hf. til Landsteina Strengs hf. öllum réttindum að hugbúnaði í sinni eigu, þ.m.t. þeim hugbúnaði er mál þetta snýst um. Engir fyrirvarar eru gerðir í afsali þessu um réttindi þriðja manns og reyndar er sérstaklega lýst yfir og ábyrgst af hálfu Hugar hf., að um engin slík réttindi sé að ræða, sem tengjast viðkomandi hugbúnaði, sbr. 3. gr. tilvitnaðs afsals. Einnig er tekið fram í sömu grein að engar skuldbindingar eða greiðslur til þriðja aðila fylgi notkun sölu eða dreifingu á hugbúnaðinum.

Enn fremur er á því byggt að stefnandi hefur ekki sýnt fram á vanheimild vegna þessara viðskipta eða yfirleitt eignarhald sitt á viðkomandi hugbúnaði. Jafnframt er líklegt að ekki standi eftir nokkur hugbúnaðarkóði af þeim kóðum sem frá stefnanda komu í upphafi í upprunalegri mynd.

B.      Sýknukrafan er einnig reist á því að af hálfu EJS hf. og Hugar hf. hefur verið staðfest að þessi fyrirtæki hafi farið með allan höfundarrétt að hugbúnaðinum og hafi því réttilega framselt hann áfram. Hins vegar hefur reynst þrautin þyngri að finna afgerandi skrifleg gögn í þessu sambandi, vegna þess langa tíma, sem umliðinn er.

Það styður einnig sýknukröfu að starfsmaður og einn eigenda og stjórnarmaður stefnanda, Ásgeir Þór Þórðarson, hefur sjálfur, merkt hugbúnaðinn sem eign EJS hf. allan þann tíma sem hann starfaði þar, sbr. mynd úr kóðaskrá hugbúnaðarins í kóðabanka (e. Source Safe) stefnda. Þannig hefur Ásgeir Þór sjálfur staðfest, með sannanlegum hætti, að höfundaréttarhafi hugbúnaðarins hafi verið EJS hf. allt frá febrúar 1998.

Þá er til stuðnings sýknukröfu bent á að allan þann tíma sem Ásgeir Þór starfar fyrir EJS hf., Hug hf. eða Landsteina Streng hf. hreyfir hann eða stefnandi engum mótmælum við notkun, þróun eða sölu og dreifingu þessara aðila á hugbúnaðinum eða gerir nokkurs konar kröfur til greiðslna, tekjuhlutdeildar eða staðfestingar á eignarhaldi stefnanda á hugbúnaðinum. Engum manni hefði átt að standa þetta nær en Ásgeiri Þór, sem var þróunarstjóri hugbúnaðarins á öllu því tímabili sem hann starfaði hjá EJS hf., sem ráðgjafi hjá Hug hf. og síðar Landsteinum Streng hf., sérstaklega þegar litið er til þess að hann er fyrrverandi starfsmaður stefnanda og einn af aðaleigendum og stjórnarmaður í stefnanda allan umræddan tíma.

Í þessu atferli eða aðgerðaleysi felst þegjandi samþykki og staðfesting Ásgeirs Þórs og þar með stefnanda, fyrir því að þessir aðilar, þ.e. EJS hf., Hugur hf. og Landsteinar Strengur hf., hafi verið réttir og skilyrðislausir eigendur hugbúnaðarins.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að Ásgeir Þór gerði heldur engar athugasemdir við þessa skipan mála þegar hann sem starfsmaður gerir ráðningarsamninga sína við EJS hf. og samstarfssamning við Hug hf. Við þessi tækifæri hefði Ásgeir Þór átt að gera sínar athugasemdir eða kröfur f.h. stefnanda, sérstaklega í því ljósi að verið er að semja m.a. um höfundarrétt að þeirri hugbúnaðarvinnu sem hann á að vinna að samkvæmt ráðningarsamningum, og sneri eingöngu að Auði/Posis en allur slíkur höfundarréttur varð eign viðsemjanda Ásgeirs Þórs samkvæmt samningum þessum og reyndar einnig skv. 42. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972.

Loks skal vakin athygli á að í 2. gr. samstarfssamnings milli Ásgeirs Þórs og Hugar hf., dags. 11. mars 2004, er m.a. tekið fram að verið sé að tryggja áframhaldandi samstarf aðila varðandi verkefni, sem tengjast POS.is vörum Hugar og áframhaldandi þróun POS.is. Í þessu orðalagi felst auðvitað samþykki og staðfesting Ágeirs Þórs á því að POS.is hugbúnaðurinn (þ.e. Auður/Posis) sé eign Hugar hf. Þennan samning gerir Ásgeir Þór hins vegar athugasemdalaust. Enn fremur er tekið fram í 7. gr. samningsins, að samningurinn verði framseldur til Landsteina  Strengs eða annars félags innan Kögunar samsteypunnar. Þetta var síðan gert og þáði Ásgeir Þór greiðslur samkvæmt þessum samningi frá stefnda fyrir ráðgjafarþjónustu sína við Auði/Posis hugbúnaðinn. Með þessum hætti staðfestir Ásgeir Þór ótvírætt, og þá einnig f.h. stefnanda, sem stjórnarmaður stefnanda, að Landsteinar Strengur hf. er rétt kominn að hugbúnaðinum, enda gerði stefnandi engar athugasemdir á þessu tímamarki eða síðar þegar Ásgeir Þór þjónustaði Landsteina Streng hf., sem ráðgjafi.

C.  Enn fremur byggir sýknukrafa stefnda á því, að fari svo ólíklega að dómurinn líti svo á að stefnanda hafi tekist að sanna einhvers konar eignarhald á hugbúnaðinum, að hluta hugbúnaðarins eða réttmæti fjárkrafna á grundvelli meints eignarhalds stefnanda á hugbúnaðinum, séu öll slík réttindi fallin niður fyrir tómlæti stefnanda. Tómlæti stefnanda felst í því að hreyfa ekki við kröfugerð á ofangreindum grundvelli gagnvart EJS hf., Hug hf. eða Landsteinum Streng hf. fyrr en a.m.k. níu árum eftir að Ásgeir Þór hefur störf hjá EJS hf. og hugbúnaðurinn flyst til EJS hf. Samkvæmt ráðningarsamningi Ásgeirs Þórs við EJS hf., dags. 10. mars 1998, kemur fram að hann hefur störf hjá félaginu 1. desember 1997 en bréf lögmanns stefnanda, þar sem fyrst er hreyft við þessu máli og haldið fram einhvers konar höfundarréttartilkalli stefnanda til hugbúnaðarins, er dagsett 18. desember 2006. Eins og áður er fram komið, var Ásgeiri Þór í lófa lagið að setja fram kröfur eða koma á framfæri mótmælum við vinnuveitendur sína eða fá einhvern annan á vegum stefnanda til þess að gera það, hvenær sem er allan þennan tíma. Hér ber sérstaklega að benda á að þessi langi tími sem liðinn er hefur auðvitað haft það í för með sér að stefnda er orðið mjög óhægt um vik að leita gagna og upplýsinga vegna sönnunarfærslu í þessu sambandi. Enn fremur skal vísað til Hæstaréttardóms nr. 122/2005, en þar er m.a. talið að rúm sjö ár sé nægilega langur tími til þess að tómlætisáhrif leiði til sýknu.

2. Varakrafa um að stefnukrafa verði stórlega lækkuð

A.      Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að hugbúnaðurinn hafi tekið algerum stakkaskiptum og grundvallarbreytingum frá því að hann kom til þróunar hjá EJS hf. Þessu til stuðnings er vísað til yfirlits Péturs Þórs Sigurðssonar yfir þróunarsögu hugbúnaðarins. Þar kemur m.a. fram, að upphaflegar kóðaeiningar virðast hafa verið 120 talsins en í síðustu markaðsútgáfu hugbúnaðarins, þ.e. þeirrar útgáfu, sem kröfur stefnanda varða, eru kóðaeiningarnar orðnar 2.400 talsins. Þannig mælt standa eftir sem svara 5% af upphaflegum kóða og er enn fremur líklegt að upphaflegu kóðarnir séu mjög breyttir ef þeir eru þá enn til staðar.

Öll þróun hugbúnaðarins eftir að hann kemur til EJS hf., síðan til Hugar hf. og loks Landsteina Strengs hf., er eign viðkomandi fyrirtækja. Í fyrsta lagi vegna þess að Ásgeir Þór hefur framselt allan sinn rétt að þeirri þróun sem hann kom að, með ráðningarsamningum við fyrirtækin og samstarfssamningi við Hug hf. Auk þess leiðir eignarhald fyrirtækjanna af 42. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972, enda var gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum Ásgeirs Þórs á þessum tíma og enginn áskilnaður gerður á annan veg af hálfu Ásgeirs Þórs. Sama á við um aðra starfsmenn fyrirtækjanna, sem að þessari þróun komu.

Af ofangreindu leiðir að ósannað er að nokkur hluti upphaflega hugbúnaðarins standi eftir í síðustu gerð hans og þó svo væri að einhverju marki þá er líklegast að þeir kóðar séu svo breyttir og þróaðir að þeir séu þar með algerlega eign stefnda. Þessu til frekari stuðnings skal bent á að stefnandi hefur aldrei komið með neinum hætti að þróun hugbúnaðarins eftir að hann fluttist yfir til EJS hf. 1997, enda hefur starfsemi stefnanda verið lítil sem engin allan þennan tíma samkvæmt ársreikningum.

Enn fremur er bent á að umræddur hugbúnaður hefur ekki neina sérstöðu hvað varðar grundvallarþætti sína gagnvart öðrum hugbúnaði af hliðstæðum gerðum á markaði. Þannig eru á Íslandi a.m.k. fimm önnur hugbúnaðarkerfi frá öðrum aðilum sem gegna sama hlutverki. Erlendis skipta slík hugbúnaðarkerfi þúsundum. Þessi staðreynd leiðir af sér að ekkert það sem tilheyrði upphaflega hugbúnaðinum, þ.e. þessum 120 kóðaeiningum, er einstakt eða hefur sérstakt mikilvægi umfram aðra þætti kóðans. Þessu til frekari stuðnings má benda á að gríðarleg vinna hefur farið í að þróa hugbúnaðinn, þannig hefur a.m.k. 30-40 mannárum verið varið í þessa þróun hjá EJS hf., Hug hf. og Landsteinum Streng hf. Að auki hafa ómældar fjárhæðir farið í að auglýsa og kynna hugbúnaðinn hérlendis sem erlendis.

B.    Í öðru lagi byggir stefndi á því að töluleg kröfugerð stefnanda, allur útreikningur og forsendur þeirra séu algerlega fráleitar fullyrðingar, sem eru í engu sambandi við veruleikann eða viðskiptavenjur á þessu sviði. Þeim er því mótmælt sem staðlausum og ósönnuðum.

3. Nánar um tölulega kröfugerð stefnanda og forsendur hennar

A. Áskriftargjöld. Hér að framan hefur verið sýnt fram á að hugbúnaðurinn eða kerfið sem um ræðir er, að langstærstum hluta til, árangur áralangrar þróunar á vegum EJS hf., Hugar hf. og stefnda. Í mesta lagi er um að ræða örlítið brot af hugbúnaðinum sem upphaflega var til hjá stefnanda, jafnvel ekkert. Stefnandi hefur ekki gert nokkra tilraun til þess að sýna fram á hvað tilheyrir stefnanda af kerfinu eins og það er í dag eða var á því tímabili sem stefnan nær til. Þetta ætti þó að standa Ásgeiri Þór næst, sem stjórnarmanni í stefnanda og starfsmanni hjá viðkomandi fyrirtækjum, lengst af í hlutverki þróunarstjóra hugbúnaðarins. Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi beri alla sönnunarbyrði gagnvart þessu atriði.

Í stefnu virðist byggt á því að áskriftargjöld ættu að renna óskipt til eiganda kerfisins, þar sem slík gjöld eigi að kosta þróun og viðhald kerfisins. Ef gengið er út frá þessari forsendu, ætti stefndi í fyrsta lagi, ekki að fá nema það brot af áskriftargjöldum sem svarar til hlutdeildar hans í eignarhaldi á kerfinu, ef eitthvað. Og í öðru lagi hefur stefnandi ekki sinnt með neinum hætti viðhaldi eða þróun á kerfinu á því tímabili sem um ræðir og ætti því, samkvæmt eigin rökum, ekki að fá neitt af áskriftargjöldunum heldur stefndi, sem hefur sannanlega sinnt þróun og viðhaldi kerfisins. Á þessum grundvelli krefst stefndi því sýknu af kröfu vegna áskriftargjalda.

B. Leyfisgjöld. Í stefnu er byggt á því að hæfileg söluþóknun vegna leyfisgjalda til stefnda sé 25% af viðkomandi leyfisgjöldum miðað við „það sem gengur og gerist á hugbúnaðarmarkaðnum“. Þessu er mótmælt, sem algerlega ósannaðri fullyrðingu, enda ekkert gert til þess að styðja hana rökum eða gögnum. Í þessu sambandi má nefna í dæmaskyni, að söluþóknun á þessum markaði er oftlega um 50% af söluverði. Hvað varðar leyfisgjöldin er vísað til þeirra röksemda og staðreynda sem áður er lýst varðandi þróun og stöðu hugbúnaðarins eins og hann var á því tímabili sem stefnan tekur til, en eins og fram er komið stendur örlítið eða ekkert eftir af upphaflega hugbúnaðinum. Með þeim rökum er því krafist sýknu eða a.m.k. stórkostlegrar lækkunar kröfufjárhæða, þannig að sáralítið standi eftir.

Sigurður Ari Sigurjónsson, sem er gæðastjóri Landsteina Strengs hf., hefur tekið saman fyrir stefnda upplýsingar um tekjur af leyfisgjöldum og áskriftargjöldum Landsteina Strengs hf. á því tímabili sem um ræðir. Samkvæmt þeim eru heildartekjur stefnda af leyfisgjöldum og áskriftargjöldum 30.105.669 kr., á tímabilinu 2004 til og með 2007.

Lagarök:

Kröfur stefnda um sýknu byggja á almennu skaðabótareglunni, höfundalögum nr. 73/1972, meginreglu samningalaga um skuldbindingargildi samninga og tómlætisáhrif og meginreglum eignarréttar.

Málskostnaðarkröfur byggja á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988.

IV

Með matsbeiðni framlagðri 3. desember 2008 fór stefnandi þess á leit að dómkvaddur yrði óvilhallur maður til þess að meta hönnunarstarf og höfundarrétt að hugbúnaðinum Auði/Posis. Var þess óskað að hinn dómkvaddi matsmaður gæfi skriflegt og rökstutt álit með samanburði kerfis sem hannað var af matsbeiðanda og síðustu útgáfu kerfis hjá matsþola, Landsteinum Streng hf. Matsspurningar eru í fjórum liðum: Gagnagrunnur, afgreiðslukerfi, uppgjörskerfi og almennt. Í hverjum lið er matsmaður beðinn um að bera saman kerfi matsbeiðanda og matsþola með því að svara spurningum um útlit, virkni kerfis og gagnagrunnsuppbyggingu.

Ebba Þóra Hvannberg var dómkvödd til að framkvæma hið umbeðna mat og er matsgerð hennar dagsett 13. maí 2009.

Með matsbeiðni framlagðri 9. október 2009 fór stefnandi þess svo á leit að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til þess að skoða, rannsaka, meta og gefa rökstutt álit á því hverjar hann telji hafa verið heildartekjur matsþola, Landsteina Strengs hf., vegna sölu og annarrar þjónustu við hugbúnaðinn Auði eða Posis á árunum 2004 – 2007. Í matsbeiðninni kemur fram að með henni freisti matsbeiðandi þess að afla sér sönnunar fyrir fjárhæð kröfu sinnar í málinu, jafnt vegna aðalkröfu og varakröfu og til þess að unnt verði að dæma skaðabætur að álitum svo sem þrautavarakrafan lúti að.

Halldór Arason löggiltur endurskoðandi var dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat og er matsgerð hans dagsett 12. apríl 2010.

Niðurstaða matsmannsins er að tekjur Landsteina Strengs ehf. vegna hugbúnaðarins Posis og tengdra atriða fyrir árin 2004 – 2007 hafi verið 74.302.722 kr. án virðisaukaskatts.

V

Fyrir liggur að Ásgeir Þór Þórðarson hóf á árinu 1997, sem starfsmaður stefnanda, að hanna og útbúa sölu- og lagerkerfi tengt kassakerfum.

Stefnandi reisir kröfur sínar í málinu aðallega á því að hann eigi, sem eigandi höfundarréttar að hugbúnaðinum, þ.e. Auði/Posis, sbr. 42. gr. b. höfundarlaga nr. 73/1972, rétt til hlutdeildar í tekjum Landsteina Strengs hf. af útseldum kassaleyfum og áskriftartekjum af kerfinu.

Stefnandi byggir á því að Ásgeir Þór hafi lokið smíðum hugbúnaðarins í starfi hjá stefnanda og að stefnandi hafi aldrei afsalað sér eignarrétti að honum. Stefndi mótmælir því hins vegar að Ásgeir Þór hafi lokið hönnun hugbúnaðarins í starfi hjá stefnanda og heldur því fram að stefnandi hafi framselt eignarhald að hugbúnaðinum, eða öllu heldur frumgerð og fyrirrennara hugbúnaðarins til EJS hf. á árinu 1997.

Fyrir liggur að Ásgeir Þór réðst til starfa hjá EJS hf. 1. desember 1997 og að hann var ráðinn til fyrirtækisins fyrst og fremst til þess að veita forstöðu breytingum og viðhaldi á hugbúnaðinum. Þá liggur fyrir að 16. febrúar 1998 færir Ásgeir Þór hugbúnaðinn inn í Visual Source Safe kerfi hjá EJS hf.

Olgeir Kristjánsson, sem var forstjóri fyrirtækisins á þeim tíma, kvaðst aðspurður fyrir dóminum ekki muna eftir því að hafa gert samning við stefnanda um kaup á hugbúnaðinum. Hins vegar kvaðst hann hljóta að hafa gert það því þeir hefðu aldrei farið að selja hugbúnað sem ekki var þeirra.

Fyrir liggur að Ásgeir Þór, sem aldrei kveðst hafa velt höfundarrétti að hugbúnaðinum fyrir sér, merkti hugbúnaðinn sem eign EJS hf. frá febrúar 1998 og allan þann tíma sem hann starfaði þar.

Þá liggur fyrir að af hálfu fyrirsvarsmanna EJS hf., og allra starfsmanna annarra en Ásgeirs Þórs, sem skýrslu gáfu fyrir dóminum, var litið svo á að eignarhaldið á hugbúnaðinum væri hjá EJS hf. 

Hugbúnaðardeild EJS hf. var sameinuð hugbúnaðardeild Hugar hf. og 1. maí 2002, varð Ásgeir Þór starfsmaður Hugar hf.

Með afsali hugverkaréttinda, dags. 1. mars 2004, framseldi Hugur hf. Auði/Posis hugbúnaðinn í öllum útgáfum ásamt öllum frumkóðum, fylgigögnum, handbókum og öðrum vinnslugögnum, hverju nafni sem nefnast til Landsteina Strengs hf. Hinn 15. febrúar 2010, var Landsteinar Strengur hf. sameinaður Skýrr ehf.

Fyrir liggur að allan þann tíma sem Ásgeir Þór starfaði hjá EJS hf., Hug hf. og fyrir Landsteina Streng hf. hreyfði hann eða stefnandi engum mótmælum við notkun, þróun, sölu og dreifingu þessara aðila á hugbúnaðinum. Þá liggur fyrir að í samstarfssamningi Ásgeirs Þórs og Hugar hf., dags. 11. mars 2004, er m.a. tekið fram að verið sé að tryggja áframhaldandi samstarf aðila varðandi verkefni, sem tengjast POS.is vörum Hugar.

Þá liggur fyrir að stefnandi gerði engar kröfur um greiðslur, tekjuhlutdeild eða staðfestingu á eignarhaldi sínu á hugbúnaðinum fyrr en með bréfi 18. desember 2006 en í bréfinu er athygli Landsteina Strengs hf. vakin á því að stefnandi sé eigandi höfundarréttar að hugbúnaðarkerfinu Auður/Posis.

Þrátt fyrir aðgerðarleysi stefnanda og Ásgeirs Þórs þykir ekki unnt að fallast á það með stefnda að í því felist þegjandi samþykki stefnanda fyrir því að EJS hf., síðan Hugur hf. og loks Landsteinar Strengur hf. hafi verið réttir og skilyrðislausir eigendur hugbúnaðarins.

Samkvæmt því og þar sem engum skjallegum gögnum er til að dreifa í málinu um að stefnandi hafi afsalað sér eignarrétti að umræddum hugbúnaði til EJS hf. verður að telja ósannað að eignarhaldi á Auði/Posis hugbúnaðinum, sem Ásgeir Þór hannaði, sem starfsmaður stefnanda og sem stefnandi var eigandi höfundarréttar að, sbr. 42. gr. b. höfundarlaga nr. 73/1972, hafi verið afsalað til EJS hf.

Samkvæmt framangreindu verður því að telja að um vanheimild hafi verið að ræða þegar þessum hluta af hugbúnaðinum var ráðstafað til Hugar hf. við sameiningu EJS hf. og Hugar hf. Hugur hf., og þeir sem leiða rétt sinn frá félaginu, hafi því ekki öðlast betri rétt en framseljandinn.

Eins og áður greinir hélt Ásgeir Þór áfram störfum við hugbúnaðinn eftir að hann réðst til starfa hjá EJS hf. Starfaði hann sem þróunarstjóri hugbúnaðarins í starfi sínu hjá EJS hf., sem ráðgjafi hjá Hug hf. og síðar Landsteinum Streng hf.

Undir rekstri málsins var Ebba Þóra Hvannberg prófessor dómkvödd, samkvæmt beiðni stefnanda, til að framkvæma mat á fjórum tilgreindum liðum, þ.e. gagnagrunni, afgreiðslukerfi, uppgjörskerfi og almennt, með samanburði á kerfi því sem Ásgeir Þór, hannaði í starfi hjá stefnanda, sem í matinu er nefnt Dynakey, og síðustu útgáfu á Posis kerfinu sem var í sölu hjá Landsteinum Streng hf.

Í niðurstöðu matsmannsins kemur fram að kerfin sem séu til samanburðar séu eitt og sama kerfið. Sú niðurstaða byggist á því að bæði kerfin hafi sama grunnarkitektúr/högun, allar stærri gagnatöflur séu eins uppbyggðar, bæði kerfin bjóði sömu meginvirknina og útlit sé mjög áþekkt. Þegar forritskóði sé skoðaður komi í ljós að sömu forritslínur finnist í mörgum helstu einingum kerfanna.

Matsmaður telur að þær breytingar og viðbætur sem séu gerðar í Posis umfram Dynakey flokkist undir viðhald hugbúnaðar. Hver sá höfundur sem vilji að hugbúnaður haldi sér eða aukist muni leggja sig fram við að viðhalda honum. Þannig sé hugbúnaður aðlagaður að nýjum rekstraraðstæðum, nýjum kröfum kaupenda/notenda, villur séu leiðréttar og fyrirbyggjandi viðhaldi sinnt. Þróunaraðilar Posis hafi sinnt þessu viðhaldi og þannig mætt kröfum einstakra kaupenda og hópum kaupenda á nýjum markaði.

Við skýrslutöku fyrir dóminum kom fram hjá matsmanninum að hún flokkaði þær breytingar sem gerðar hafa verið á kerfinu undir nokkuð eðlilegt viðhald aðallega vegna þess að hún hafi ekki getað séð einhverjar stórar sjálfstæðar einingar sem séu til viðbótar við upphaflega forritið.

Stefndi heldur því fram að um 40 mannárum hafi verið varið í þróun og viðhald hugbúnaðarins hjá EJS. hf., Hug hf. og Landsteinum Streng hf. Þá liggi fyrir að þróunartími grunnforritsins hafi verið 6 til 9 mánuðir. Þessar forsendur gefi hlutfallið u.þ.b. 2,5% grunnforrit og 97,5% þróunar og viðhaldskostnaður.

Þó að fallast megi á það að kerfin sem að samanburðurinn lýtur að séu eitt og sama kerfið þá er það mat dómsins byggt á því sem upplýst hefur verið fyrir dóminum um þróun og viðhald hugbúnaðarins að einungis óverulegur hluti hans stafi frá grunngerðinni, þ.e. þeirri er stefnandi telur til höfundarréttar yfir.

Samkvæmt ráðningarsamningum þeim sem frammi liggja í málinu urðu vinnuveitendur Ásgeirs Þórs eigendur að þeirri hugbúnaðarvinnu sem hann vann að samkvæmt samningunum og einnig skv. 42. gr. b. í höfundalögum nr. 73/1972. En í tilvitnaðri lagagrein er kveðið á um það að gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum þá eignist atvinnurekandi höfundarréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg.

Liggur þannig ekki annað fyrir en að öll þróun og viðhald hugbúnaðarins hjá EJS hf., Hug hf. og Landsteinum Streng hf., hvort sem hún var unnin af Ásgeiri Þór eða öðrum starfsmönnum, hafi orðið eign viðkomandi fyrirtækja.

Samkvæmt því sem að framan er rakið starfaði Ásgeir Þór, höfundur upphaflega hugbúnaðarins og einn eigenda stefnanda, að þróun og viðhaldi hugbúnaðarins frá 1997 til 2004. Allan þann tíma gerðu hvorki hann né stefnandi nokkurs konar kröfur til greiðslna, tekjuhlutdeildar eða staðfestingar á eignarhaldi stefnanda á hugbúnaðinum.

Það er ekki fyrr en með bréfi stefnanda til Landsteina Strengs hf., dags. 18. desember 2006, sem stefnandi áskilur sér rétt til hlutdeildar í öllum leyfistekjum sem Landsteinar Strengur hf. hefur haft af sölu hugbúnaðarkerfisins sem og öllum uppfærslutekjum.

Þannig líða um átta ár frá því að Ásgeir Þór hefur störf við hugbúnaðinn hjá EJS hf. og þar til stefnandi krefur stefnda um greiðslur á grundvelli höfundarréttar síns.

Er það mat dómsins að með þessu aðgerðarleysi hafi stefnandi glatað rétti sínum til að hafa uppi greiðslukröfur á hendur Landsteinum Streng hf. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

Stefnandi byggir varakröfu um skaðabætur á því að Landsteinar Strengur hf. hafi brotið á höfundarrétti stefnanda og að það varði stefnda fébótaábyrgð samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Það er mat dómsins að ekki verði talið, samkvæmt því sem að framan greinir, að Landsteinum Streng hf. hafi mátt vera ljóst að háttsemi þeirra væri ólögmæt og til þess fallin að valda stefnanda tjóni. Er því ekki fallist á að skilyrðum skaðabótaskyldu sé uppfyllt.

Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveða upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari, Jóhann P. Malmquist prófessor og Reynir Ragnarsson löggiltur endurskoðandi.

Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna dómenda en endurflutningur málsins var talinn óþarfur.

Dómsorð:

Stefndi, Skýrr ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.